Hæstiréttur íslands

Mál nr. 344/2015

Viking Fish ehf. (Sigurður Gizurarson hrl.)
gegn
Byggðastofnun (Garðar Garðarsson hrl.)

Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Skaðabætur
  • Matsgerð

Reifun

V ehf. keypti bát og gaf B út afsal honum til handa fyrir bátnum en kaupverðið var 300.000 krónur. Afsalaði B síðar bátnum á nýjan leik til S ehf. sem tók hann úr vörslum V ehf. að honum forspurðum. Krafðist V ehf. skaðabóta úr hendi B vegna sölunnar til S ehf. Hafði V ehf. byggt kröfu sína í héraði á matsgerð þar sem lagt var mat á verðmæti bátsins en talið var að hún væri haldin slíkum göllum að hún yrði ekki lögð til grundvallar sönnunarfærslu í málinu. Fyrir Hæstarétti lagði V ehf. fram nýja matsgerð þar sem lagt var mat á „endurkaupsverð“ bátsins. Við munnlegan málflutning kom fram að í fyrri matsgerðinni hefði verið miðað við markaðsvirði bátsins en þeirri síðari enduröflunarverð hans. Var talið að með síðari matsgerðinni hefði V ehf. freistað þess að leggja nýjan grundvöll að kröfu sinni sem fæli jafnframt í sér nýja málsástæðu. Fengist hún ekki komist að í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki var talið sýnt fram á að það verð sem V ehf. hafði greitt fyrir bátinn hefði verið undir markaðsvirði á þeim tíma. Þá lægi fyrir að fyrirsvarsmaður V ehf. hefði lýst því yfir við skýrslugjöf í héraði að engu frekar en kaupverði hefði verið kostað til bátsins af hans hálfu. Loks var ekki talið að V ehf. hefði sýnt fram á að markaðsvirði bátsins hefði hækkað frá því að V ehf. festi kaup á honum þar til að hann var seldur til S ehf. en V ehf. miðaði bótakröfu sína við síðargreint tímamark. Var B því gert að greiða V ehf. 300.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. maí 2015. Endanlegar dómkröfur hans eru þær að stefnda verði gert að greiða sér 4.000.000 krónur ,,ásamt lögmæltum dráttarvöxtum“  af 3.000.000 krónum frá 23. janúar 2011 og af 1.000.000 krónum frá 1. janúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Á árinu 2008 keypti Árni Kópsson bátinn Áka SU, skipaskrárnúmer 6753 af stefnda. Umræddur Árni seldi síðan áfrýjanda bátinn á árinu 2009 og gaf stefndi út afsal honum til handa 15. október það ár en um ástæður þeirrar tilhögunar er nánar fjallað í hinum áfrýjaða dómi. Er ágreiningslaust með aðilum að kaupverðið hafi numið 300.000 krónum. Í stefnu er því haldið fram að eftir að áfrýjandi eignaðist bátinn hafi hann lagt í verulegan kostnað við endurbætur hans, kaup á tækjabúnaði o.fl. Aðspurður fyrir dómi svaraði fyrirsvarsmaður áfrýjanda, Sighvatur Sigurðsson, spurningu um þann kostnað sem áfrýjandi hefði lagt út í af þessu tilefni „Ekki frá minni hendi, eitt eða neitt, ég hef ekki skipt mér af þessum hlutum.“ Stefndi afsalaði bátnum á nýjan leik 16. desember 2010 til  Stampa ehf. fyrir 20.600 krónur og tók sá aðili bátinn úr vörslum áfrýjanda að honum forspurðum í ársbyrjun 2011. Stampar ehf. seldu síðan VPH fasteignum ehf. bátinn 12. maí 2012 fyrir 1.500.000 krónur. Lýsti fyrirsvarsmaður VPH fasteigna ehf., Viðar P. Hafsteinsson, ástandi bátsins á því tímamarki svo „það eru engin tæki, enginn vélbúnaður, hann er í svona má segja mjög döpru ástandi sko.“ Þá kom enn fremur fram hjá Viðari að báturinn „sé búinn að standa og standa óhreyfður í einhver ár, að mínu mati sko.“

Áfrýjandi leitaði réttar síns gegn stefnda og með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2013 var stefndi dæmdur skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem áfrýjandi hefði orðið fyrir vegna sölu á bátnum til Stampa ehf. 16. desember 2010. Var þeim dómi ekki áfrýjað af hálfu stefnda og að beiðni áfrýjanda var dómkvaddur maður, Knútur Þórhallsson endurskoðandi, til þess að meta hvert verið hafi verðmæti bátsins og vagns sem hann stóð á  16. desember 2010. Jafnframt var  honum falið að meta missi hagnaðar áfrýjanda af því að reka bátinn sem fiskiskip svo sem það var nánar útlistað í matsbeiðni. Matsgerðin er dagsett 7. júlí 2014 og eru niðurstöður hennar á þá leið að verðmæti bátsins og vagnsins hafi verið 3.000.000 krónur og misstur hagnaður 1.000.000 krónur. Að fenginni matsgerðinni höfðaði áfrýjandi mál þetta og var í stefnu eingöngu vísað til hennar um grundvöll skaðabótakröfunnar. Með hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að matsgerðin væri haldin slíkum göllum að hún yrði ekki lögð til grundvallar sönnunarfærslu í málinu

Undir áfrýjun málsins fékk áfrýjandi á ný dómkvaddan mann, Einar S. Valdimarsson löggiltan skipa- og fasteignasala, og var honum falið að meta hvert væri „endurkaupsverð báts hinn 16. desember 2010, sambærilegum bátinum Áka SU, skipaskrárnúmer 6753 og flutningsvagns sambærilegum þeim sem hann stóð á.“ Í matsgerð hans 25. ágúst 2015, kom fram að  verðmæti sambærilegs báts og Áki SU var  16. desember 2010 hefði verið 2.400.000 krónur en verðmæti umrædds vagns 550.000 krónur. Hefur matsgerð þessi verið lögð fram fyrir Hæstarétti sem nýtt gagn og byggir áfrýjandi kröfur sínar nú meðal annars á henni. Um málavexti vísast að öðru leyti til hins áfrýjaða dóms.

II

Svo sem rakið er hér að framan byggði áfrýjandi dómkröfu sína í héraði á matsgerð Knúts Þórhallssonar, 7. júlí 2015 þar sem metið var hvert verið hefði verðmæti bátsins Áka SU 16. desember 2010. Í matsgerð Einars S. Valdimarssonar, 25. ágúst 2015, sem aflað var sem fyrr segir undir áfrýjun málsins, var hins vegar við það miðað að metið væri „endurkaupsverð“ bátsins. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti skýrðist þessi grundvöllur frekar og þá á þá leið að í fyrri matsgerðinni væri horft til markaðsvirðis umrædds báts á nefndum degi en í þeirri síðari væri miðað við  svokallað enduröflunarverð bátsins. Með hliðsjón af því verður við það miðað að með síðari matsgerðinni freisti áfrýjandi þess að leggja nýjan grundvöll að skaðabótakröfu sinni sem feli þá jafnframt í sér nýja málsástæðu af hans hendi, en stefndi mótmælir þýðingu síðari matsgerðarinnar á þeim grundvelli. Sú málsástæða að meint tjón áfrýjanda beri að meta á grundvelli enduröflunarverðs bátsins fær af þeim ástæðum ekki komist að í málinu, vegna skilyrða 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  

Ekki hefur verið sýnt fram á að verð það sem greitt var fyrir bátinn Áka SU í viðskiptum stefnda og Árna Kópssonar 2008 og síðar Árna og áfrýjanda hafi verið undir markaðsverði á þeim tíma. Þá liggur fyrir, svo sem fyrr greinir, að við skýrslugjöf við aðalmeðferð málsins í héraði lýsti fyrirsvarsmaður áfrýjanda því yfir að engu frekar en kaupverði hefði verið kostað til bátsins af hans hálfu. Loks hefur áfrýjandi ekki fært fyrir því fullnægjandi sönnun að markaðsverð bátsins hafi hækkað frá síðarnefnda tímamarkinu fram til 16. desember 2010 en við þann dag miðar áfrýjandi kröfu sína um greiðslu bóta. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Viking Fish ehf., greiði stefnda, Byggðastofnun, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. febrúar 2015.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. janúar sl., er höfðað með birtingu stefnu 22. ágúst 2014.

Stefnandi er Viking Fish ehf., kt. 700305-1630, Súðarvogi 7, Reykjavík.

Stefndi er Byggðastofnun, kt. 450679-0389, Ártorgi 1, Sauðárkróki.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.000.000 króna ásamt lögmæltum dráttarvöxtum af 3.000.000 króna frá 16. desember 2010 til greiðsludags og af 1.000.000 króna frá 1. janúar 2013 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðaryfirliti stefnanda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu 300.000 króna, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnukröfum. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.

II.

Málsatvik eru þau að á árinu 2008 tókust samningar um kaup Árna nokkurs Kópssonar á bátnum Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, af stefnda. Að sögn stefnanda sótti Árni bátinn ásamt Guttormi Sigurðssyni, sem síðar kemur við sögu, um áramótin 2008-2009 þar sem hann lá í höfninni í Hvammstanga, og kom honum fyrir á athafnasvæði Kópavogshafnar. Greiddi Árni stefnda umsamið kaupverð bátsins, 200.000 krónur, 5. júní 2009. Af hálfu stefnda var gefið út afsal til Árna 2. júlí 2009.

Bátinn seldi Árni síðan stefnanda á 300.000 krónur og til að einfalda eigendaskiptin fór hann fram á það við stefnda að stofnunin gæfi út nýtt afsal til stefnanda, sem þá kæmi í stað eldra afsals til hans. Nýja afsalsbréfið er útgefið 15. október 2009. Ekki var afsalsbréfinu þinglýst því að afsalshafi, stefnandi þessa máls, lét það farast fyrir.

Stefnandi kveður að sumarið 2009 hafi hann hafist handa við að gera bátinn Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, upp og endurbæta þar sem hann hafi staðið á athafnasvæði Kópavogshafnar. Keypt hafi verið vél og gír og siglingatæki, svo sem sjálfstýring, radar o.fl., í bátinn. Báturinn sé úr plasti og hafi farið fram umtalsverð plastvinna til endurbóta á honum. Í desember 2010 hafi báturinn verið fluttur af athafnasvæði Kópavogshafnar á athafnasvæði Hafnarfjarðarhafnar. Þaðan hafi hann horfið aðfaranótt 5. janúar 2011. Þá hafi verið hafin leit að honum og hafi hann fundist á geymslusvæði Lýsingar hf. í Hafnarfirði. Forráðamenn stefnanda hafi nokkru síðar fengið spurnir af því að stefndi hefði hinn 16. desember 2010 gefið út nýtt afsal fyrir bátnum til einkahlutafélagsins Stampa ehf. Því afsali var þinglýst 23. desember 2010.

Í ljós hafi komið að menn á vegum Stampa ehf. höfðu tekið bátinn Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, þar sem hann var í vörslu stefnanda á athafnasvæði Hafnarfjarðarhafnar.

Með bréfi lögmanns stefnanda 6. janúar 2011 til stefnda hafi verið vakin athygli á ofangreindu og þess krafist að stefnda gerði gangskör að því að ólöglegt afsal fyrir bátnum til Stampa ehf. yrði afturkallað og bátnum komið aftur í vörslur stefnanda. Sú málaleitan hafi reynst árangurslaus og hafi stefnandi því höfðað mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjaness til að fá staðfest með dómi að stefndi hefði valdið honum skaðabótaskyldu tjóni. Málið hafi fengið númerið E-252/2013 og í því hafi verið kveðinn upp dómur 9. október 2013 þar sem m.a. hafi verið viðurkennt að stefndi væri skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem stefnandi hefði orðið fyrir vegna sölu stefnda á áðurgreindum bát til Stampa ehf. 16. desember 2010.

Stefndi hafi ekki áfrýjað dóminum til Hæstaréttar og greitt tildæmdan málskostnað. Stefnandi kveðst hafa leitað eftir samkomulagi við stefnda um fjárhæð skaðabóta, en sú viðleitni hafi reynst árangurslaus. Hafi stefnandi því beiðst þess hinn 6. janúar 2014 að dómkvaddur yrði matsmaður til að framkvæma mat á því hvert hefði verið verðmæti bátsins Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, hinn 16. desember 2010, og vagnsins sem hann stóð á. Einnig skyldi matsmaður meta hver væri misstur hagnaður matsbeiðanda af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar, eins og þær sem báturinn hefði verið notaður til, eftir að hann komst í hendur núverandi eiganda.

Mótmæli stefnda gegn matsbeiðninni hafi ekki verið tekin til greina og hafi Knútur Þórhallsson, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, verið dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat hinn 24. febrúar 2014.

Hinn dómkvaddi matsmaður hafi lokið matsgerð sinni 7. júlí 2014. Er niðurstaða matsmanns sú að verðmæti bátsins Áka SU, skipaskrárnúmer 6735, hinn 16. desember 2010, og vagnsins sem hann stóð á, hafi verið 3.000.000 króna og að misstur hagnaður stefnanda af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar árin 2011 og 2013 sé hæfilega áætlaður 1.000.000 króna.

Stefndi kveður að áður en áðurgreindur dómur Héraðsdóms Reykjaness gekk í fyrra dómsmáli aðila og ítrekað eftir það hafi stefndi reynt að komast að samkomulagi við stefnanda um uppgjör. Fyrir hafi legið að stefnandi hafði keypt umræddan bát á 300.000 krónur og hafi honum verið boðin endurgreiðsla á því fé, auk vaxta og áfallins kostnaðar. Stefnandi hafi talið þetta víðsfjarri raunverulegu tjóni sínu þar sem hann hefði lagt mikla fjármuni í bátinn eftir kaupin, svo sem kaup á tækjum og kostnað við plastviðgerðir á bátnum, en skrokkur hans sé úr plasti. Kallað hafi verið eftir upplýsingum og gögnum um þennan kostnað en fátt hafi orðið um svör og í ljós hafi komið við rekstur málsins að þessar fullyrðingar stefnanda voru beinlínis rangar og væntanlega settar fram í blekkingarskyni. Það eina sem eftir hafi staðið hafi verið fullyrðing um að einhverjar plastviðgerðir hefðu átt sér stað á bátnum en engin gögn hafi verið lögð fram um það, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Sé stefnandi þó bókhaldsskyldur aðili.

Þegar stefnandi hafi ekki getað lagt fram nein gögn um það hvað hann hefði lagt í bátinn eftir kaupin hafi hann séð að ekki mundi málið ganga fram sem hann vildi. Hafi þó ekki staðið á stefnda að reyna að leysa málið ef réttar upplýsingar fengjust. Hafi stefnandi þá óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til að leggja mat á „annars vegar endurheimtuvirði bátsins og vagnsins sem hann stóð á, þ.e. hvað það mundi kosta hann að kaupa annan bát í líku ásigkomulagi í stað þess sem hann missti ásamt flutningsvagni, og hins vegar misstan hagnað af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar, eins og þær sem hann hefði verið notaður til eftir að hann komst í hendur núverandi eiganda.

Stefndi kveðst hafa gert athugasemdir við beiðnina um dómkvaðningu og talið að matsgerð, miðað við lýsingu málavaxta eins og þeir hafi verið settir fram í beiðninni, væri tilgangslaus sem sönnunargagn í málinu. Einnig hafi stefndi gert athugasemd við að óljóst væri hvað það væri sem ætti að meta. Dómari hafi síðan kvatt til matsmann til að svara því „hvert var verðmæti bátsins Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, þann 16. desember 2010, og vagnsins sem hann stóð á. Matsmaður skal einnig veita svör við því hver sé misstur hagnaður matsbeiðanda af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar, eins og þær sem báturinn hefur verið notaður til, eftir að hann komst í hendur núverandi eiganda.“

Stefndi kveðst hafa sent matsmanni athugasemdir þar sem ítrekað hafi verið að verðmæti bátsins ætti að meta miðað við 16. desember 2010, í því ástandi sem hann hefði þá verið. Þá hafi verið bent á að vagn, sem væri sagður hafa verið undir bátnum, hefði stefndi ekki selt, hvorki í fyrra né síðara skiptið, og væri hann máli þessu alveg óviðkomandi. Þá hafi verið vakin athygli matsmannsins á að ekkert lægi fyrir í málinu um að stefnandi uppfyllti skilyrði til að fá leyfi til strandveiða fyrir bátinn, jafnvel þótt hann fengi útgefið haffærisskírteini fyrir hann.

Í framlagðri matsgerð taki matsmaður fram að hann hafi ekki skoðað bátinn og að hann teldi að skoðun á bátnum, þremur og hálfu ári eftir þann dag sem matsgerðin ætti að miða við og eftir að núverandi eigandi bátsins hefði endurbyggt hann, kæmi að engu gagni til að finna út verðmæti bátsins í árslok 2010. Þá komi fram hjá matsmanni að hann hefði margsinnis kallað eftir gögnum/kostnaðarskjölum yfir það sem bátnum hafi átt að hafa verið gert til góða eftir að stefnandi keypti hann en engu slíku hefði verið framvísað og því væri hæpið „að taka tillit til þess að matsbeiðandi hafi verið búinn að leggja í verulegan kostnað við bátinn“.

„Verðmæti þess vagns sem báturinn stóð á er nokkur ráðgáta ...“ segi matsmaður í matsgerðinni en segi svo að hann leggi ekki mat á verðmæti hans sundurliðað heldur meti hann verðmæti bátsins og „vagnsins sem hann stóð á“ á 3.000.000 króna.

Stefndi kveðst hafa beint þeirri spurningu til matsmanns í tölvuskeyti, þegar hinn 7. júlí, hvert hann teldi verðmæti vagnsins vera í heildartölunni, 3.000.000 króna, og hafi matsmaður svarað því um hæl að í hans útreikningum „þá gerði ég ráð fyrir að vagninn væri um kr. 300.000“.

Um svipað leyti og mál þetta hafi verið höfðað hafi stefnda borist afrit af afsali sem Stampar ehf. gáfu út fyrir bátnum til VPH-fasteigna ehf. hinn 12. maí 2012. Í afsalinu komi fram að kaupverð hans sé 1.500.000 krónur. Tekið sé fram að enginn búnaður fylgi bátnum.

Stefndi kveður rétt að skýrlega komi fram að margnefndur bátur hafi ekki verið fiskibátur heldur skel af skemmtibát þá er stefndi seldi hann, en báturinn hafi áður verið notaður til hvalaskoðunar.

Eftir höfðun málsins hafi stefndi enn reynt að ná samkomulagi um lausn þess við lögmann stefnanda, en án árangurs.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Sighvatur Sigurðsson, kom fyrir fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni, Knútur Þórhallsson, endurskoðandi og dómkvaddur matsmaður, og Viðar Páll Hafsteinsson.

III.

Stefnandi kveðst byggja á því að dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2013 í máli nr. E-252/2013 teljist vera bindandi úrslit sakarefnis málsaðila hvað bótaskyldu stefnda varðar, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi hafi greitt dæmdan málskostnað og tekið upp samningsumleitanir við stefnanda um fjárhæð skaðabóta.

Stefndi hafi gerst aðili matsmáls, sem rekið hafi verið fyrir Héraðsdómi Reykjaness, nr. M-1/2014, og haldið uppi málflutningi fyrst fyrir héraðsdóminum og síðan fyrir hinum dómkvadda matsmanni. Stefndi hafi ekki vefengt niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns.

Að þessu öllu athuguðu kveðst stefnandi telja að stefndi hafi skuldbundið sig til að hlíta niðurstöðu matsgerðarinnar og sé lagalega skylt að inna af hendi matsfjárhæðina ásamt matskostnaðinum með dráttarvöxtum til greiðsludags.

IV.

Stefndi kveður bótaskyldu sína óumdeilda. Hins vegar sé deilt um hvert raunverulegt tjón stefnanda sé, en stefndi telji matsgerðina í málinu ónothæfa til sönnunar á því og séu til þess margar ástæður.

Það sé meginregla skaðabótaréttar að sá sem telji sig hafa orðið fyrir fjárhagstjóni, sem annar aðili beri skaðabótaábyrgð á, verði að færa sönnur á fjárhæð tjónsins. Þetta sé misauðvelt að gera og fari eftir aðstæðum í hverju og einu máli. Ein leið til sönnunarfærslu sé að afla matsgerðar á grundvelli heimilda í IX. kafla l. nr. 91/1991. Gerðar séu ríkar kröfur til vinnubragða og gagnaöflunar matsmanna, þegar svo beri undir. Matsgerð sé eins og hvert annað sönnunargagn í máli, þ.e. dómari leggi sjálfstætt mat á sönnunargildi hennar þegar hann leggur dóm á málið.

Fram komi í framlagðri matsgerð að hinn dómkvaddi matsmaður hafi ekki skoðað bátinn og engin gögn haft til að styðjast við um ástand hans í árslok 2010. Hafi matsmaðurinn engin gögn haft um kostnað við þær endurbætur sem á honum hafi verið gerðar til að gera hann að fiskibáti. Þá hafi matsmaður enga tilraun gert til að meta bátinn til verðs í núverandi ástandi og síðan reynt í framhaldinu að leggja mat á endurbæturnar og draga þær frá til að fá út mismuninn. Hafi honum þó borið að afla gagna um þessi atriði af sjálfsdáðum. Matgerðin sé því handónýt sem „mat“ á virði bátsins í árslok 2010. Framlögð matsgerð sé ekki byggð á neinum tölulegum forsendum og/eða skoðun á andlaginu heldur sé um tómar tilgátur að ræða, enda komi það fram í matsgerðinni sjálfri.

Það hafi þó verið brýnt að matsmaðurinn beitti þeirri aðferðarfræði sem getið sé hér að framan því að sérkunnátta hans liggi á svið reikningsskila. Ekki liggi fyrir upplýsingar um að matsmaðurinn hafi sérþekkingu á verðmyndun báta/skipa á markaði, en stefndi hafi vakið athygli á því við dómkvaðningu matsmannsins.

Af framangreindu sé ljóst að matsmaðurinn hafi hvorki nýtt sérþekkingu sína né aflað gagna með öðrum hætti um verðmæti bátsins né hafi hann framkvæmt á honum skoðun. Hafi þannig ekki verið staðið að matsgerðinni með þeim hætti sem fyrirskrifað sé í lögum nr. 91/1991 og dómvenja standi til. Sé matsgerðin að þessu leyti haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn í málinu. Eftir standi þá að eina vitneskjan um verðmæti bátsins sé upphaflega kaupverðið, 300.000 krónur, sem stefndi hafi margsinnis boðist til að endurgreiða stefnanda. Þrátt fyrir ótal áskoranir hafi engin gögn verið lögð fram um það að einhverjar endurbætur hafi verið gerðar á bátnum eða einhverju hafi verið skeytt við hann. Hafi stefnanda þannig ekki tekist að sýna fram á að tjón hans nemi hærri fjárhæð en umræddum 300.000 krónum, en sönnunarbyrðin um tjónið hvíli á stefnanda.

Í matsbeiðni hafi matsbeiðandi/stefnandi upphaflega óskað eftir mati á „endurheimtuvirði bátsins og vagnsins sem hann stóð á ...“ eins og þar standi. Matsbeiðandi/stefnandi hafi fallið frá þessari ósk við fyrirtöku málsins 10. febrúar 2014 og breytt orðalaginu í þá veru sem fram komi í úrskurði héraðsdóms frá 24. febrúar 2014, þ.e. að meta skyldi „hvert var verðmæti bátsins Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, þann 16. desember 2010, og vagnsins sem hann stóð á.“ Af þessu tilefni kveðst stefndi vekja athygli á því að með þessari yfirlýsingu hafi stefnandi ráðstafað sakarefninu, hvað sem öðru líði. Þá kveðst stefndi telja að samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og dómvenju eigi stefnandi ekki rétt til enduröflunarverðs bátsins, enda liggi ekkert fyrir um það hvert það sé, ef það er annað en ætlað markaðsverð, samanber það sem rakið sé að framan.

Niðurstaða matsmanns varðandi „misstan hagnað matsbeiðanda af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar ...“ eins og þar standi, sæti líka furðu og því sé algerlega mótmælt að niðurstaða matsmanns um það efni verði látin standa og séu til þess margar ástæður. Fyrst sé þó rétt að vekja athygli á því að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi uppfyllt lagaskilyrði til að öðlast rétt til strandveiða. Stefnandi sé lögaðili og þegar þannig standi á skuli einn af eigendum lögaðilans vera lögskráður á skipið. Samkvæmt ársskýrslu stefnanda sé eini hluthafi félagsins Sighvatur Sigurðsson og liggi ekkert fyrir um það að hann uppfylli skilyrði til að fá lögskráningu á bátinn. Sé því ósannað að stefnandi hefði getað haldið bátnum til fiskveiða.

Í annan stað kveðst stefndi benda á að matsmaður, sem hafi óumdeilanlega sérþekkingu á sviði reikningsskila, hafi komist að þeirri niðurstöðu í matsgerðinni að enginn hagnaður hafi orðið af rekstri bátsins árin 2012 og 2013, heldur hafi verið tap á rekstri hans. Sama niðurstaða fáist með því að taka meðaltalstölur frá öllum strandveiðibátum vegna áranna 2011 og 2012, þ.e. tap hafi orðið á rekstri þeirra. Þrátt fyrir að hafa reiknað sig fram í þessa niðurstöðu telji matsmaðurinn að misstur hagnaður matsbeiðanda/stefnanda fyrir árin 2011, 2012 og 2013 sé hæfilega áætlaður að fjárhæð 1.000.000 króna. Þessi niðurstaða standist enga skoðun og eigi sér ekki forsendur í útreikningum matsmannsins sjálfs. Sé matsgerðin að þessu leyti ónothæf sem sönnunargagn í þessum lið einnig.

Eftir standi varðandi þennan kröfulið að stefnandi hafi ekki getað sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir neinu tjóni vegna ætlaðs missis hagnaðar og beri að sýkna stefnda alfarið af stefnukröfum varðandi þennan lið.

Hvað varði varakröfu stefnda um lækkun stefnukröfunnar megi benda á það, að í matsgerðinni sé einhver „vagn“ metinn með bátnum. Enginn vagn hafi fylgt bátnum í kaupunum, hvorki í fyrra né seinna skiptið sem báturinn hafi verið seldur, og sé þessi vagn stefnda algerlega óviðkomandi. Matsmaður hafi metið vagninn á 300.000 krónur, samanber skýrslu hans fyrir dóminum. Í annan stað megi geta þess að í viðskiptum með bátinn á árinu 2012, hugsanlega eftir einhverjar viðgerðir, hafi báturinn verið seldur á 1.500.000 krónur. Þetta hafi verið viðskipti milli aðila sem ekki tengist máli þessu og verði að telja þau endurspegla markaðsvirði bátsins í því ástandi sem hann hafi verið þá, þ.e. á árinu 2012. Tjón stefnanda geti aldrei orði hærra en það.

Stefndi kveðst mótmæla vaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Fyrir það fyrsta sé vaxtakrafa stefnanda ekki sett fram með lögmæltum hætti, heldur krafist stefnufjárhæðar „ásamt lögmæltum dráttarvöxtum“. Kröfugerð með þessum hætti sé andstæð lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og beri því að sýkna af vaxtakröfunni. Til vara sé bent á það að mál þetta sé rekið sem skaðabótamál og fari þá um vexti svo sem fyrir sé mælt í 8. og 9. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi kveðst á umliðum árum margítrekað hafa reynt að fá stefnanda til viðræðna um skynsamlega lausn á þessu máli. Slíkum málaleitunum hafi stefnandi ætíð hafnað, en aldrei lagt fram gögn til stuðnings kröfum sínum, þrátt fyrir eftirgangsmuni, svo taka mætti afstöðu til þeirra. Þess í stað hafi hann gert kröfur sem séu víðsfjarri raunveruleikanum. Sem dæmi megi nefna skeyti, sem stefnandi hafi sent starfsmanni stefnda 4. desember 2013, eftir að dómur hafði gengið í héraði í fyrra málinu. Þar sé stefnandi enn með vísvitandi ranga kröfugerð varðandi tjón sitt og megi lesa það út úr kröfugerðinni að hann sé að krefjast 40 milljóna króna í skaðabætur. Þegar matsgerðin hafi legið fyrir hafi síðan verið stefnt fyrir 4 milljónum króna. Stefndi geti með engu móti borið ábyrgð á þessum óstöðugleika í kröfugerð stefnanda og geri því kröfu til þess að allur kostnaður af málinu verði lagður á stefnanda, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi kveðst byggja málskostnaðarkröfu sína á 131. gr. laga nr. 91/1991, en til vara á 3. mgr. 130 gr. sömu laga.

V.

Eins og fram hefur komið er skaðabótaskylda stefnda óumdeild, en með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2013 í máli nr. E-252/2013 var stefndi dæmdur skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem stefnandi hefði orðið fyrir við sölu stefnda á bátnum Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, til Stampa ehf. hinn 16. desember 2010.

Mál þetta snýst því eingöngu um fjárhæð þess tjóns, sem stefnandi varð fyrir við sölu stefnda á bátnum.

Eins og fram hefur komið var Knútur Þórhallsson, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, dómkvaddur að ósk stefnanda til að leggja mat á verðmæti bátsins Áka SU, skipaskrárnúmer 6753, hinn 16. desember 2010. og vagnsins sem hann stóð á. Einnig skyldi hann leggja mat á hver væri misstur hagnaður stefnanda af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar, eins og þær sem báturinn hefði verið notaður til eftir að hann komst í eigu núverandi eiganda.

Matsgerð hins dómkvadda matsmanns er dagsett 7. júlí 2014. Niðurstaða matsmannsins er annars vegar sú að verðmæti umrædds báts hinn 16. desember 2010 og vagnsins sem hann stóð á hafi verið 3.000.000 króna, og hins vegar að misstur hagnaður af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar árin 2011 og 2013 sé hæfilega áætlaður 1.000.000 króna.

Fram kemur í matsgerðinni að matsmaður skoðaði ekki bátinn, enda hafi hann talið að skoðun á bátnum þjónaði ekki tilgangi við matið þar sem langt væri um liðið frá viðmiðunardagsetningunni 16. desember 2010 og þá hefðu nýir eigendur endurbyggt bátinn eftir að hann komst í þeirra eigu.

Þá kemur fram í matsgerðinni að hann hafi engin gögn fengið úr bókhaldi stefnanda um útlagðan kostnað vegna kaupa á tækjum í bátinn og viðgerða á honum þrátt fyrir að hafa margsinnis óskað eftir þeim. Kemur fram að matsmaður byggði mat sitt á verðmæti bátsins hinn 16. desember 2010 á umsögnum ýmissa aðila um að verðmæti hans hafi á þessum tíma verið hærra en 300.000 krónur og nefnir matsmaður sérstaklega skýrslu Guttorms Sigurðssonar um þátttöku hans í kaupum og endurbótum á bátnum. Þá segir í matsgerðinni að þar sem ekki liggi fyrir nein kostnaðarskjöl af hálfu matsbeiðanda þyki hæpið að taka tillit til þess að matsbeiðandi hafi lagt í verulegan kostnað við bátinn. Samt sem áður hafi verið færð ágætis rök fyrir því að unnið hafi verið að því að útbúa bátinn til veiða og segir í matsgerðinni að „eðli máls samkvæmt verður að taka tillit til þess.“ Þá segir að verðmæti þess vagns sem báturinn stóð á sé nokkur ráðgáta, en ætla megi að virði hans hafi verið einhver hundruð þúsund. Að svo búnu kemst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að samanlagt verðmæti bátsins hinn 16. desember 2010 og vagnsins sem hann stóð á hafi verið 3.000.000 króna.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Sighvatur Sigurðsson, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hann kvaðst hafa látið fyrirtæki sitt, stefnanda máls þessa, kaupa umræddan bát fyrir vin sinn og félaga, Guttorm Sigurðsson, sem ekki hafi haft efni á að kaupa bátinn. Kvað hann Guttorm hafa legið á sjúkrabeði eftir slys á þessum tíma og verið lengi að ná sér. Hann sagði að báturinn hefði ekki verið bókaður í ársreikningum stefnanda og kvað hann stefnanda engan kostnað hafa haft af því að gera bátinn upp. Kvaðst hann ekkert hafa skipt sér af viðgerðum eða endurbótum á bátnum og eingöngu hafa aðstoðað vin sinn við kaup á honum.

Þá gaf skýrslu í gegnum síma vitnið Viðar Páll Hafsteinsson fyrirsvarsmaður VBH fasteigna ehf., sem keypti bátinn af Stömpum ehf. í maí 2012. Hann sagði að báturinn hefði verið í lélegu ástandi þegar fyrirtæki hans keypti bátinn og í raun hefði aðeins verið um bátsskelina að ræða. Engin tæki eða vélbúnaður hefði fylgt bátnum. Hann sagði að svo hefði virst sem báturinn hefði staðið óhreyfður í einhver ár. Kvaðst vitnið vera bátasmiður og því hafa góða innsýn í slíkt.

Með vísan til þess sem að framan greinir þykir ljóst að hinn dómkvaddi matsmaður skoðaði ekki bátinn og hafði ekki önnur gögn að styðjast við um ástand hans í árslok 2010 en „umsagnir ýmissa aðila“ eins og það er orðað í matsgerðinni og skýrslu manns sem komið hefur fram að er raunverulegur eigandi bátsins. Þá hefur komið fram að stefnandi hefur engan kostnað borið af viðgerðum eða endurbótum á bátnum. Einnig bar matsmaðurinn um það fyrir dóminum að hann hefði enga reynslu af því að meta báta eða skip til verðs á markaði. Verður ekki séð af matsgerðinni að niðurstaða matsmannsins um verðmæti bátsins í desember 2010, og vagnsins sem hann stóð á, sé byggð á tölulegum forsendum, heldur virðist mat hans eingöngu byggt á tilgátum.

Að því er varðar mat á misstum hagnaði stefnanda af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar liggur í fyrsta lagi ekkert fyrir um það að stefnandi hafi uppfyllt lagaskilyrði til að öðlast rétt til strandveiða og er því ósannað að stefnandi hefði getað haldið bátnum til fiskveiða. Þá kemur fram í matsgerðinni að matsmaður hafi annars vegar reiknað misstan hagnað út frá þeim veiðum sem stundaðar hefðu verið á bátnum hjá núverandi eiganda og hins vegar út frá opinberum upplýsingum frá Hagstofu Íslands um afkomu strandveiðibáta árin 2011 og 2012. Þrátt fyrir að matsmaðurinn hafi komist að því í matsgerðinni að tap hafi verið á veiðunum út frá báðum framangreindum forsendum kemst hann að þeirri niðurstöðu að misstur hagnaður stefnanda af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar á árunum 2011 til 2013 sé hæfilega áætlaður 1.000.000 króna. Þykir þessi niðurstaða matsmannsins með öllu órökstudd og í andstöðu við þær forsendur sem hann lagði til grundvallar matinu.

Samkvæmt framangreindu er matsgerðin haldin slíkum göllum að hún verður ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn í málinu, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem renna stoðum undir það að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna missts hagnaðar af rekstri bátsins sem fiskiskips við strandveiðar á árunum 2011 til 2013 og þykir slíkt tjón ósannað.

Þá er með öllu ósannað að endurbætur af nokkru tagi hafi verið gerðar á bátnum eftir að hann var keyptur af stefnanda og þar til honum var afsalað til Stampa í desember 2010. Þá þykir ljóst af gögnum málsins að við sölu stefnda á bátnum fylgdi enginn vagn. Er því ósannað að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni vegna sölu á honum.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi keypt umræddan bát af Árna Kópssyni á 300.000 krónur þrátt fyrir að í afsali til stefnanda sé kaupverðið tilgreint 200.000 krónur. Hefur þessu ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Í málinu liggur ekkert annað fyrir um verðmæti bátsins í desember 2010 en upphaflegt kaupverð hans, sem stefnandi kveðst hafa innt af hendi til fyrrgreinds Árna rúmu ári fyrr. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnda þá fjárhæð í skaðabætur vegna sölu á bátnum.

Kröfugerð stefnanda um dráttarvexti er hagað með þeim hætti að stefnandi hefur látið hjá líða að vísa til lagaákvæða þar um, sbr. 11. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur, þar á meðal um vexti. Þar sem dráttarvaxtakrafa stefnanda er hvorki mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi án kröfu.

Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Byggðastofnun, greiði stefnanda, Viking Fish ehf., 300.000 krónur.

Málskostnaður fellur niður.