Hæstiréttur íslands
Mál nr. 223/2011
Lykilorð
- Kyrrsetning
- Skipting sakarefnis
|
|
Fimmtudaginn 19. janúar 2012. |
|
Nr. 223/2011.
|
Lárus Welding og (Hörður Felix Harðarson hrl.) Jón Ásgeir Jóhannesson (Gestur Jónsson hrl.) gegn Glitni banka hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Kyrrsetning. Skipting sakarefnis.
G hf. höfðaði mál til staðfestingar kyrrsetningargerðum sem sýslumaður gerði að beiðni hans hjá L 4. júní 2010 og J 20. maí 2010 til tryggingar kröfu að fjárhæð 6.000.000.000 krónur sem bankinn gerði á hendur þeim í skaðabótamáli. Í beiðnum G hf. til sýslumanns voru atvik að baki kröfunni rakin nokkuð en að öðru leyti var þar um málavexti og rökstuðning vísað til stefnu á hendur L og J í máli til heimtu skaðabótanna. Þeir héldu því báðir fram að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. til að gerðirnar færu fram m.a. vegna þess að ódæmd skaðabótakrafa G hf. væri ekki lögvarin krafa um greiðslu peninga í skilningi ákvæðisins. Taldi Hæstiréttur að líta yrði svo á að G hf. hafi með þeim gögnum sem lögð voru fram við gerðina hjá L leitt nægilegar líkur að kröfu sinni til að kyrrsetning mætti fara fram. Í tilviki J taldi Hæstiréttur að líkur hafi staðið til þess að stefnan hafi fylgt beiðni um kyrrsetningu hjá J þótt hún hafi ekki verið nefnd meðal framlagðra gagna í bókun sýslumanns um gerðina. Í báðum tilvikum hafi því verið fullnægt skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990. Þá lægi fyrir í málinu að L hafi flutt af landi brott áður en G hf. höfðaði málið á hendur honum og að hann hafi ekki átt lögheimili hér á landi eftir það. Væri því fullnægt því skilyrði 1. mgr. 5. gr. laganna að sennilegt mætti telja að fullnusta ætlaðrar kröfu G hf. á hendur honum yrði verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram. Hvað varðaði J lægi fyrir að hann hafi ekki átt lögheimili hér á landi þegar G setti fram beiðni um kyrrsetningu hjá honum og yrði ekki séð að annað hafi þá verið að finna í opinberum gögnum hér en að heimili hans væri á ótilgreindum stað í Bretlandi. J hefði ekkert fært fram til stuðnings því að G hf. hafi átt að vera fært að ganga á einhvern hátt að upplýsingum um erlent heimilisfang hans. G hf. hafi því beint beiðni sinni réttilega til sýslumannsins í R sem hafi verið heimilt að hefja kyrrsetningargerðina án undangenginnar boðunar til J. Var því ekki fallist á að annmarkar hafi verið á framkvæmd gerðarinnar gagnvart J sem valdið gæti ógildingu hennar. Hafnaði Hæstiréttur kröfum L og J um að felldar yrðu úr gildi fyrrgreindar kyrrsetningar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæmir hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2011. Áfrýjandinn Lárus Welding krefst þess að felld verði úr gildi kyrrsetning, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 4. júní 2010 að kröfu stefnda. Þá krefst áfrýjandinn Jón Ásgeir Jóhannesson þess að felld verði úr gildi kyrrsetning, sem sami sýslumaður gerði hjá honum 20. maí 2010 samkvæmt kröfu stefnda. Báðir áfrýjendur krefjast aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara þess að hann falli niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt málatilbúnaði stefnda urðu breytingar á eignarhaldi að Glitni banka hf. á árunum 2007 og 2008 með því að félög, sem lutu að hans sögn yfirráðum áfrýjandans Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Pálma Haraldssonar, hafi ýmist gerst hluthafar eða aukið hlut sinn í félaginu með þeim afleiðingum að snemma árs 2008 hafi þeir farið „með raunveruleg yfirráð yfir a.m.k. 40% af útgefnu hlutafé bankans á þessum tíma“ og stjórn, sem kosin hafi verið í félaginu í febrúar á því ári, verið að meiri hluta í „nánum tengslum“ við þá. Eftir aðalfund stefnda 30. apríl 2007 hafi áfrýjandinn Lárus Welding verið ráðinn til starfa sem forstjóri félagsins, en hann hafi í framhaldi af því ráðið þangað Magnús Arnar Arngrímsson, sem hafi orðið framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans hér á landi. Þeir tveir hafi ásamt fjármálastjóra félagsins, Rósant Má Torfasyni, átt sæti í áhættunefnd þess, en Guðný Sigurðardóttir hafi gegnt starfi lánastjóra hjá stefnda.
Stefndi kveður áfrýjendur hafa átt fund 5. maí 2008 með forstjóra Baugs Group hf., sem hafi í framhaldi af því gert tillögu í tölvupósti til áfrýjandans Lárusar um að stefndi keypti hlutabréf í ensku félagi með heitinu Aurum Holding Ltd. af Pálma Haraldssyni fyrir 6.000.000.000 krónur, en þeirri fjárhæð yrði síðan varið á nánar tiltekinn hátt, meðal annars til að greiða áfrýjandanum Jóni Ásgeiri 1.000.000.000 krónur. Stefndi kveður síðar hafa komið í ljós að hlutabréfin, sem hér um ræðir, hafi í ársbyrjun 2008 verið talin að andvirði 1.500.000.000 krónur í bókum Fons hf., sem Pálmi hafi á þeim tíma ráðið yfir. Áfrýjandinn Jón Ásgeir hafi í tölvupósti 11. maí 2008 gefið að mati stefnda fyrirmæli til áfrýjandans Lárusar um að ljúka þessum viðskiptum og getið þess hvernig ráðstafa ætti þeim hluta kaupverðs hlutabréfanna, sem renna ætti til sín. Pálmi hafi síðan í tölvupósti til Guðnýjar Sigurðardóttur 3. júní 2008 sagst ítreka að hann legði „mikla áherslu á að við gerum þetta með þeim hætti sem rætt var um“, þar á meðal með því að stefndi myndi greiða fyrir áðurnefnd hlutabréf 6.000.000.000 krónur, sem yrði ráðstafað eins og þar hafi nánar verið greint. Að undangengnum frekari tölvupóstsendingum, sem hafi meðal annars farið milli áfrýjendanna og Pálma, hafi Guðný lagt fyrir áhættunefnd stefnda beiðni 9. júlí 2008 fyrir hönd Fons hf. og dótturfélags þess, FS38 ehf., um að stefndi veitti síðastnefndu félagi lán að fjárhæð 6.000.000.000 krónur til að kaupa af móðurfélaginu hlutabréf í Aurum Holding Ltd. Í beiðninni hafi meðal annars komið fram að verja ætti ⅔ hlutum þeirrar fjárhæðar til að greiða niður skuldir Fons hf. við stefnda og bæta þar stöðu veðtrygginga félagsins vegna markaðsviðskipta, en stefndi segir að þess hafi verið getið í beiðninni að „eiginleg útgreiðsla á fé úr bankanum yrði 2 milljarðar króna.“ Þessari fjárhæð, sem yrði látin af hendi í reiðufé, hafi áfrýjandinn Jón Ásgeir og Pálmi ætlað að skipta jafnt milli sín. Fundur hafi verið haldinn 9. júlí 2008 í áhættunefnd stefnda, sem skipuð hafi verið sjö nafngreindum mönnum, og þess getið í fundargerð að þrír þeirra, áfrýjandinn Lárus ásamt Magnúsi Arnari Arngrímssyni og Rósant Má Torfasyni, hafi samþykkt þessa lánsbeiðni utan funda. Á þessum grundvelli hafi svo verið gerður lánssamningur milli stefnda og FS38 ehf. 16. júlí 2008, en með honum hafi síðarnefnda félagið fengið að láni 6.000.000.000 krónur til að kaupa fyrrgreind hlutabréf og hafi þar verið kveðið á um að sú fjárhæð yrði endurgreidd í einu lagi sama dag á árinu 2009. Til tryggingar skuldinni hafi hlutabréfin verið sett stefnda að veði og jafnframt hafi Fons hf. gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir 1.750.000.000 krónum af henni, en sú ábyrgð hafi þó á nánar tiltekinn hátt verið tímabundin. Í samningnum hafi verið tekið fram að 4.000.000.000 krónum af lánsfénu skyldi varið til að greiða gjaldfallnar skuldir Fons hf. við stefnda og bæta stöðu trygginga vegna viðskipta þeirra, en afgangur fjárins rynni inn á reikning félagsins hjá stefnda. Hann kveður 1.000.000.000 krónum af þessu fé hafa síðan verið ráðstafað af þeim reikningi inn á reikning áfrýjandans Jóns Ásgeirs hjá stefnda. Samhliða þessu hafi stefndi gert samning við Fons hf., þar sem mælt hafi verið fyrir um rétt þess félags til að selja stefnda alla hluti í FS38 ehf. fyrir 1 krónu. Þessa söluréttar hafi Fons hf. neytt 30. desember 2008. Bú Fons hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 30. apríl 2009 og hafi FS38 ehf. ekkert átt til greiðslu upp í skuldina við stefnda á gjalddaga hennar 16. júlí 2009, enda hafi hlutabréf í Aurum Holding Ltd. þá verið orðin verðlaus. Stefndi kveður kröfu sína samkvæmt lánssamningnum 16. júlí 2008 hafa tapast af þessum sökum.
Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í stefnda, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Áfrýjandinn Lárus mun í framhaldi af því hafa látið af störfum hjá stefnda. Samkvæmt gögnum málsins hefur hvorugur áfrýjenda átt lögheimili hér á landi að minnsta kosti frá því á árinu 2010 og eru þeir báðir í þjóðskrá sagðir búsettir á ótilgreindum stað í Bretlandi.
Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjendum ásamt Guðnýju Sigurðardóttur, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, Pálma Haraldssyni og Rósant Má Torfasyni, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. apríl 2010. Þar krafðist stefndi þess að þeim öllum yrði gert að greiða sér óskipt 6.000.000.000 krónur með nánar tilteknum vöxtum frá 21. júlí 2008. Samkvæmt stefnu í því máli krafðist stefndi þessarar fjárhæðar í skaðabætur, en gagnvart áfrýjandanum Lárusi, svo og Guðnýju, Magnúsi Arnari og Rósant Má væri krafan í meginatriðum reist á því „að þau hafi í störfum sínum sem yfirmenn og sérfræðingar í bankanum brotið gróflega gegn starfskyldum sínum sem forstjóri, fjármálastjóri, lánastjóri og sem nefndarmenn í áhættunefnd bankans með því að hafa sammælst um að knýja fram lán til handa Fons hf. og stefndu Jóni Ásgeiri og Pálma persónulega, í gegnum FS38 ehf., að frumkvæði stefnda Lárusar og stefndu Jóns Ásgeirs og Pálma, að fjárhæð 6 milljarðar króna, án þess að lánareglum bankans væri fylgt, með fullri vitneskju um að lántakinn væri ógjaldfær og tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins væru ónógar og því veruleg fjártjónshætta til staðar fyrir bankann. ... Hafi stefndu því gerst sek um saknæma og ólögmæta háttsemi og eftir atvikum refsinæma háttsemi og valdið bankanum bótaskyldu fjártjóni þar sem lánið til FS38 ehf. hafi tapast að öllu leyti.“ Þá sé krafan á hendur áfrýjandanum Jóni Ásgeiri og Pálma í meginatriðum byggð á því að þeir hafi valdið stefnda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti með því að hafa „átt frumkvæði að, hvatt til og í raun stýrt þeirri ákvörðun stefndu Lárusar, Rósants Más og Magnúsar Arnars að bankinn skyldi lána 6 milljarða króna til FS38 ehf., í þágu stefndu Jóns Ásgeirs og Pálma og Fons hf. og bersýnilega án tillits til hagsmuna bankans. Hafi stefndu Jón Ásgeir og Pálmi í krafti stöðu sinnar sem fulltrúar ... stærstu hluthafa í bankanum með samtals rétt tæplega 40% eignarhlut í honum og með fjóra af sex stjórnarmönnum sér handgengnum, hagnýtt sér ráðandi stöðu sína og gefið stefnda Lárusi og fleiri starfsmönnum bankans bein og ótvíræð fyrirmæli um að bankinn skyldi leggja til grundvallar sýndarviðskipti milli Fons hf. og eignarlausa dótturfélagsins FS38 ehf. um bréf í Aurum Holding Limited og lána kaupverðið til FS38 ehf. Hafi tilgangur stefndu Jóns Ásgeirs og Pálma m.a. verið að ná 2 milljörðum króna af láninu undir sig persónulega og að öðru leyti í þágu Fons hf. sem var þá þegar ófært um að greiða gjaldfallnar skuldbindingar sínar við bankann. Með háttsemi sinni hafi stefndu Jón Ásgeir og Pálmi því orðið samábyrgir stefndu starfsmönnum bankans fyrir því fjártjóni sem orsakaðist af hinni ólögmætu lánveitingu til FS38 ehf.“ Þessar málsástæður stefnda voru í einstökum atriðum skýrðar nánar í stefnunni, en gagnaðilar hans tóku allir til varna í málinu, sem er ólokið fyrir héraðsdómi.
II
Stefndi beindi 11. maí 2010 beiðnum til sýslumannsins í Reykjavík um kyrrsetningu hjá hvorum áfrýjanda fyrir sig til tryggingar kröfu að fjárhæð 6.000.000.000 krónur, sem hann gerði á hendur þeim í framangreindu dómsmáli. Í beiðnunum voru atvik að baki kröfunni rakin nokkuð, en að öðru leyti var þar um málavexti og rökstuðning fyrir henni vísað „til meðfylgjandi stefnu á hendur gerðarþola og fleirum, sbr. fylgiskjal nr. 2, þar sem gerðarþola er stefnt til greiðslu skaðabóta vegna hinnar skaðabótaskyldu háttsemi.“ Í hvorugri beiðni var greint nánar frá heimilisföngum áfrýjenda en svo að þeir væru búsettir í Bretlandi, en á hinn bóginn var getið um lögmenn, sem sagðir voru gæta hagsmuna þeirra.
Í málinu liggur fyrir að sýslumaður beindi í tölvubréfi 17. maí 2010 fyrirspurn til lögmannsins, sem getið var um í beiðni stefnda um kyrrsetningu hjá áfrýjandanum Jóni Ásgeiri, um hvort hann væri umboðsmaður áfrýjandans „í máli þessu.“ Því svaraði lögmaðurinn neitandi sama dag. Í framhaldi af þessu tók sýslumaður fyrir beiðnina á hendur áfrýjandanum Jóni Ásgeiri 20. maí 2010 að viðstöddum umboðsmanni stefnda og voru þá samkvæmt gerðabók lögð fram ellefu skjöl auk beiðninnar, en stefnu í áðurgreindu dómsmáli var þar ekki getið. Fært var til bókar að sýslumaður teldi fullnægt skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. til að gerðin mætti fara fram, svo og að áfrýjandinn Jón Ásgeir hefði ekki skráð lögheimili hér á landi, en með vísan til 6. töluliðar 3. mgr. 21. gr., 2. mgr. 22. gr. og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 um aðför væri gerðin tekin fyrir á skrifstofu sýslumanns. Samkvæmt ábendingu stefnda var síðan gerð kyrrsetning til tryggingar kröfu hans í fimm nánar tilgreindum fasteignum áfrýjandans, níu bifreiðum hans, tveimur bankareikningum og eignarhlut í einu einkahlutafélagi, en samtals virti sýslumaður þessar eignir á 196.584.569 krónur. Í framhaldi af því var fært til bókar að samkvæmt beiðni stefnda væri „gerðinni frestað að öðru leyti til þess að freista þess að hitta gerðarþola fyrir.“ Óumdeilt er að gerðinni hafi ekki verið fram haldið samkvæmt þessu, en við framkvæmd hennar var einskis getið um að stefndi hafi verið krafinn um eða sett tryggingu samkvæmt því, sem mælt er fyrir um í ákvæðum II. kafla laga nr. 31/1990.
Sýslumaður tók beiðni stefnda um kyrrsetningu hjá áfrýjandanum Lárusi fyrir 28. maí 2010 og var þá mætt af hendi beggja aðila. Í gerðabók var fært að stefndi legði fram gögn, sem talin voru í níu liðum, en auk beiðni um gerðina var þar meðal annars getið um stefnu hans á fyrrnefndu dómsmáli og „fylgigögn um 500 bls.“ Greint var frá að stefndi hefði innt af hendi tryggingu að fjárhæð 50.000.000 krónur. Í framhaldi af þessu voru færðar til bókar röksemdir stefnda fyrir því að hann ætti kröfu á hendur áfrýjandanum Lárusi og röksemdir þess síðarnefnda fyrir því að gerðin ætti ekki að ná fram að ganga, en við hana var jafnframt lögð fram greinargerð um mótmæli hans. Við svo búið sagði að aðilarnir væru sammála um að fresta gerðinni til 4. júní 2010, en þann dag var hún tekin fyrir á ný. Sýslumaður greindi þá frá ákvörðun sinni um að gerðin næði fram að ganga. Fært var til bókar að stefndi hafi boðið áfrýjandanum að kyrrsetning yrði eingöngu gerð í nánar tiltekinni fasteign og bifreið hér á landi í eigu hans. Þetta hafi áfrýjandinn þegið og um leið samþykkt að áður sett trygging úr hendi stefnda yrði lækkuð í 10.000.000 krónur. Gerðinni var því næst lokið með því að kyrrsetning var gerð í þessum eignum. Fyrir liggur að samkvæmt beiðni stefnda var gerðin endurupptekin 1. desember 2010 til að virða eignirnar, sem kyrrsettar voru, en þar komst sýslumaður að þeirri niðurstöðu að andvirði þeirra væri samtals 70.000.000 krónur.
Stefndi fékk útgefnar í Héraðsdómi Reykjavíkur stefnur á hendur áfrýjandanum Jóni Ásgeiri 27. maí 2010 og áfrýjandanum Lárusi 10. júní sama ár, en með þeim höfðaði hann mál með kröfu um staðfestingu fyrrgreindra kyrrsetningargerða. Bæði málin voru þingfest 2. september 2010, en eftir að áfrýjendurnir höfðu tekið til varna með greinargerðum, sem lagðar voru fram 30. september og 14. október sama ár, voru þau í þinghaldi 6. janúar 2011 sameinuð fyrrnefndu máli stefnda á hendur áfrýjendunum, Guðnýju Sigurðardóttur, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, Pálma Haraldssyni og Rósant Má Torfasyni. Sakarefni í þessu sameinaða máli var skipt með samkomulagi aðilanna á þann hátt að það yrði fyrst sótt og varið um atriði, sem vörðuðu skilyrði og framkvæmd kyrrsetningargerðanna hjá áfrýjendunum, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 31/1990. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 17. janúar 2011, var hafnað kröfum áfrýjendanna um að gerðirnar yrðu felldar úr gildi.
III
Samkvæmt málflutningi áfrýjandans Lárusar fyrir Hæstarétti heldur hann því ekki fram að framkvæmd kyrrsetningargerðarinnar á hendur sér hafi í nokkru verið áfátt. Hann ber á hinn bóginn fyrir sig að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 til að gerðin færi fram.
Samkvæmt því, sem áður greinir, voru í beiðni stefnda um kyrrsetningu hjá áfrýjandanum Lárusi að nokkru rakin þau atvik, sem stefndi taldi búa því að baki að hann ætti kröfu á hendur áfrýjandanum um skaðabætur að fjárhæð 6.000.000.000 krónur, en þar var að öðru leyti vísað um það til stefnu í málinu, sem þingfest var 27. apríl 2010. Óumdeilt er að stefnan fylgdi beiðni stefnda til sýslumanns um kyrrsetningu hjá áfrýjandanum. Í stefnunni voru ítarlega raktar málsástæður, sem stefndi taldi standa til þess að skaðabótakrafa sín á hendur áfrýjandanum yrði tekin til greina. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að áfrýjandinn hafi við kyrrsetningargerðina borið því við að í stefnunni hafi í einhverjum atriðum verið greint ranglega frá því, sem stefndi kvað beinlínis koma fram í gögnum, sem hann hafði lagt fram í máli sínu til heimtu skaðabóta. Að því virtu getur ekki skipt hér máli í hvaða mæli þau gögn hafi jafnframt legið fyrir við framkvæmd gerðarinnar. Í 5. gr. laga nr. 31/1990 eru engar sérstakar skorður settar við því að kyrrsetning nái fram að ganga til tryggingar kröfu, sem sætir andmælum og ekki er studd við löggerning. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar er það ekki skilyrði fyrir kyrrsetningu að sá, sem hennar leitar, leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja ber um kyrrsetningu ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi, sem hann hyggst tryggja. Að gættu þessu og öðru því, sem áður er rakið, verður að líta svo á stefndi hafi með þeim gögnum, sem lögð voru fram við gerðina, leitt nægilegar líkur að kröfu sinni til að kyrrsetning mætti fara fram hjá áfrýjandanum á grundvelli þessa lagaákvæðis.
Í málinu liggur fyrir að áfrýjandinn hafi flutt héðan af landi áður en stefndi höfðaði málið á hendur honum, sem þingfest var 27. apríl 2010, svo og að áfrýjandinn hafi ekki átt hér lögheimili eftir það. Af þeirri ástæðu var fullnægt því skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 að sennilegt mætti telja að fullnusta ætlaðrar kröfu stefnda á hendur honum yrði verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram. Að virtu þessu og öðru því, sem að framan greinir, eru ekki efni til að verða við kröfu áfrýjandans um að felld verði úr gildi kyrrsetningin, sem stefndi fékk gerða hjá honum 4. júní 2010.
IV
Beiðni stefnda um kyrrsetningu hjá áfrýjandanum Jóni Ásgeiri var í meginatriðum sama efnis og fyrrgreind beiðni gagnvart áfrýjandanum Lárusi, þar á meðal um það að vísað væri um nánari lýsingu á atvikum að baki kröfu stefnda og röksemdum fyrir henni til stefnu í máli hans til heimtu skaðabóta, sem þingfest var sem áður segir 27. apríl 2010. Í beiðninni, sem sneri að áfrýjandanum Jóni Ásgeiri, var jafnframt getið um stefnuna í upptalningu fylgiskjala. Í þessu ljósi og að virtum ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990 hljóta líkur að standa til að stefnan hafi í raun fylgt beiðninni þótt hún hafi ekki verið nefnd meðal framlagðra gagna í bókun sýslumanns um kyrrsetningargerðina, en hjá því verður heldur ekki litið að beiðnirnar tvær, sem hér um ræðir, og fylgigögn með þeim bárust sýslumanni samtímis. Að þessu gættu leiða sömu atriði og áður var getið varðandi áfrýjandann Lárus til þess að jafnframt hafi verið fullnægt skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 til kyrrsetningar hjá áfrýjandanum Jóni Ásgeiri.
Eins og áður greinir liggur fyrir í málinu að áfrýjandinn Jón Ásgeir átti ekki lögheimili hér á landi þegar stefndi setti fram beiðni 11. maí 2010 um kyrrsetningu hjá honum og verður ekki séð að annað hafi þá verið að finna í opinberum gögnum hér en að heimili hans væri á ótilgreindum stað í Bretlandi. Áfrýjandinn hefur ekkert fært fram til stuðnings því að stefnda hefði átt að vera fært að ganga á einhvern hátt að upplýsingum um erlent heimilisfang hans. Samkvæmt 6. tölulið 3. mgr. 21. gr. og 4. málslið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 7. gr. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, beindi stefndi beiðni sinni að þessu virtu réttilega til sýslumannsins í Reykjavík, sem var heimilt að hefja kyrrsetningargerðina án undangenginnar boðunar til áfrýjandans og ljúka henni á starfstofu sinni án þess að náðst hafi til nokkurs, sem tekið gæti málstað hans. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi lagt fram gögn um að hann hafi 20. maí 2010 afhent sýslumanni tryggingu að fjárhæð 50.000.000 krónur vegna kyrrsetningar hjá áfrýjandanum Jóni Ásgeiri og getur þá engu skipt fyrir gildi gerðarinnar að sýslumanni hafi láðst að geta um trygginguna í gerðabók. Verður því ekki fallist á með áfrýjandanum að annmarkar hafi verið á framkvæmd gerðarinnar, sem valdið geta ógildingu hennar.
Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir. Áfrýjendum verður í sameiningu gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfum áfrýjenda, Lárusar Welding og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, um að felldar verði niður kyrrsetningar, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði að kröfu stefnda, Glitnis banka hf., hjá þeim fyrrnefnda 20. maí 2010 og þeim síðarnefnda 4. júní sama ár.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjendur greiði í sameiningu stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 6. janúar sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Glitni banka hf., Sóltúni 26, Reykjavík, á hendur Lárusi Welding, kt . til staðfestingar á kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. K-36/2010, sem fram fór hinn 4. júní 2010 til tryggingar skaðabótakröfu stefnanda að fjárhæð 6.000.000.000 kr., auk vaxta og alls kostnaðar og á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kt. ., til staðfestingar á kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. K-34/2010, sem fram fór hinn 20. maí 2010 til tryggingar skaðabótakröfu stefnanda að fjárhæð 6.000.000.000 kr. auk vaxta og alls kostnaðar. Réttarstefnur í framhaldssök voru birtar 30. júní 2010.
Með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga 31/1990 hafa mál þessi verið sameinuð málinu nr. E-2977/2010.
Að kröfu stefndu og með samþykki stefnanda verður mál þetta nú aðeins sótt og varið um atriði sem varða skilyrði eða framkvæmd kyrrsetningarinnar í kyrrsetningarmálunum nr. K-36/2010 og K-34/2010 hjá sýslumanninum í Reykjavík.
Í þessum þætti málsins eru eftirtaldar kröfur gerðar.
Stefnandi krefst þess, að synjað verði um kröfur stefndu að kyrrsetningargerðir í málunum nr. K-34/2010 og K-36/2010 verði felldar úr gildi og þess krafist að þær standi óhaggaðar. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi, Lárus Welding, krefst þess að kyrrsetning sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum hinn 4. júní 2010 að kröfu stefnanda (mál nr. K-36/2010) verði felld úr gildi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Stefndi, Jón Ásgeir Jóhannesson, krefst þess að kyrrsetning sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum hinn 20. maí 2010 að kröfu stefnanda (mál nr. K-34/2010) verði felld úr gildi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Málsatvik
Í málinu heldur stefnandi því fram, að stefndu, ásamt fjórum öðrum einstaklingum, hafi komið því til leiðar með saknæmum og ólögmætum hætti að samþykkt var lánveiting frá stefnanda til félagsins FS38 ehf. Stefnandi telur að stefndu beri in solidum ábyrgð á fjártjóni hans.
Í tilviki stefnda, Lárusar Welding, var hinn 11. maí 2010 lögð fram kyrrsetningarbeiðni hjá sýslumanninum í Reykjavík þar sem þess var krafist að eignir stefnda, Lárusar, yrðu kyrrsettar til tryggingar fyrir kröfu stefnanda á grundvelli laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. (KSL).
Málið var tekið fyrir 28. maí 2010 og síðan lokið 4. júní 2010. Féllst sýslumaður á kröfu stefnanda og kyrrsetti nánar tilteknar eignir stefnda, Lárusar. Er þetta málið nr. K-34/2010. Hinn 1. desember sl. var málið endurupptekið af sýslumanni. Nefndar eignir voru metnar til verðs og lauk gerðinni þann dag.
Í tilviki stefnda, Jóns Ásgeirs, var kyrrsetningarbeiðni lögð fram hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 11. maí 2010. Hinn 20. maí 2010 féllst sýslumaður á kröfu stefnanda og kyrrsetti hann nánar tilgreinar eignir stefnda með kyrrsetningargerð nr. K-34/2010. Ekki var mætt af hálfu stefnda við fyrirtöku kyrrsetningargerðarinnar.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn Lárusi
Stefnandi byggir kröfu sína um staðfestingu á kyrrsetningu nr. K-36/2010 hjá sýslumanninum í Reykjavík á því að kyrrsetningin hafi verið heimiluð þar sem fullnægt hafi verið þeim skilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 5. gr. KSL.
Stefnandi tekur fram að stefndi hafi efnast verulega á þeim tíma sem hann starfaði fyrir íslensku bankana og þá sérstaklega á þeim tíma sem hann starfaði fyrir stefnanda. Stefnandi óttist að framangreind málssókn sín á hendur stefnda, auk annarra hugsanlegra málssókna, sem stefndi kann að eiga yfir höfði sér vegna hlutdeildar hans í hruni íslensku bankanna sem nú sætir opinberri rannsókn, skapi hættu á því að hann reyni að skjóta undan þeim eignum sem til staðar kunna að vera og komast þannig undan því að bera ábyrgð á þeim kröfum sem að honum beinast.
Það styðji þann grun stefnanda að stefndi hefur nú þegar skráð lögheimili sitt í Bretlandi án þess að þar sé nánar tiltekið um það hvar hann búi, en hann hafi stöðuna óstaðsettur í hús þar í landi. Stefnandi telur að tilgangur slíkrar skráningar geti vart verið annar en að torvelda það að unnt sé að ná til stefnda m.a. vegna málssókna og fullnustugerða.
Jafnframt sé það staðfest í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að stefndi, Lárus, hafi hreinsað út af bankareikningum sínum skömmu fyrir bankahrun og fært þá fjármuni á erlenda reikninga. Þetta gerði stefndi í beinu framhaldi af því að hafa haldið því fram í fréttaskýringaþættinum Silfur Egils að stefnandi stæði traustum fótum. Stefnandi telur að af þessu megi sjá að stefndi hafi sannanlega gert ráðstafanir til þess að koma fjármunum úr landi og má ætla að hugsanlegt sé að hann geri frekari ráðstafanir í þessa veru sem komi til með að gera fullnustu á kröfu stefnanda mun örðugri.
Stefnandi mótmælir því að ekki sé til staðar lögvarin krafa um greiðslu peninga. Um er að ræða skaðabótakröfur sem stofnast við hið bótaskylda atvik og bera vexti frá þeim tíma. Það hvort bótakrafa er krafa vinnuveitanda gegn starfsmanni eða önnur bótakrafa breytir engu varðandi það að um sé að ræða lögvarða kröfu um greiðslu peninga.
Tilvísun stefnda til þess að lagabreyting sú sem fram kemur í lögum nr. 23/2010, varðandi kyrrsetningarheimild vegna skattkrafna, feli í sér að ekki sé heimilt að framkvæma kyrrsetningu vegna skaðabótakrafna, er mótmælt. Framangreind lög fela á engan hátt í sér vísbendingu um slíkt og fær slík túlkun laganna enga stoð í ákvæðum laganna né greinargerð. Ekki verður á nokkurn hátt séð að einstakar tegundir krafna séu undanskildar undan ákvæði 5. gr. KSL, enda hafa kyrrsetningar vegna skaðabótakrafna verið staðfestar fyrir dómstólum, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 12/2010.
Því er mótmælt að það hafi þýðingu við ákvörðun um kyrrsetningu hvort stefndi hafi haft ávinning af hinni ólögmætu lánveitingu. Hin ólögmæta lánveiting olli stefnanda tjóni og er stefndi bótaskyldur vegna þess tjóns. Það að tjónþoli hagnist ekki á hinu bótaskylda atviki hefur engin áhrif á bótaskylduna heldur ræðst hún eingöngu af því tjóni sem valdið er, enda sé öðrum skilyrðum almennu skaðabótareglunnar varðandi bótaskyldu fullnægt.
Með vísan til framangreindra málsástæðna og mótmæla gegn málatilbúnaði stefnda við fyrirtöku kyrrsetningarinnar hefur verið sýnt fram á það að sennilegt megi telja að ef kyrrsetning fer ekki fram þá muni það draga mjög úr líkindum á því að fullnusta framangreindrar skaðabótakröfu takist eða að fullnusta verði verulega örðugri fari kyrrsetning ekki fram, en sérstaklega er áréttað að skv. lögum nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. (KSL) þarf einungis að fullnægja öðru skilyrðinu til þess að heimilt sé að beita kyrrsetningu, þ.e. annað hvort að það dragi mjög úr líkindum á fullnustu eða að fullnusta verði örðugri.
Sýnt hefur verið nægjanlega fram á það skv. framansögðu að stefnandi eigi lögvarða kröfu um greiðslu peninga sem kyrrsetningin á að tryggja. Við mat á þessu er vísað til 2. mgr. 5. gr. KSL, þar sem kveðið er á um það að ekki skuli synja um kyrrsetningu nema ætla megi af fyrir liggjandi gögnum að gerðarbeiðandi (stefnandi) eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.
Jafnframt liggur fyrir, að sögn stefnanda, að krafa hans er ekki aðfararhæf.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn stefnda, Jóni Ásgeiri
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um staðfestingu á kyrrsetningu nr. K-34/2010 á því að kyrrsetningin hafi verið heimil þar sem fullnægt hafi verið þeim skilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 5. gr. KSL.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi um árabil átt í umsvifamiklum viðskiptum hér á landi og erlendis. Fyrir liggur að umfangsmesta félag stefnda, Baugur Group hf., var úrskurðað gjaldþrota 11. mars 2009 og hefur kröfum samtals að fjárhæð rúmlega 316 milljarðar króna verði lýst í búið. Hefur mikið verið fjallað um slæma fjárhagsstöðu stefnda í fjölmiðlum þar sem fram kemur að hann og hans félög standi höllum fæti. Stefnandi óttast að þessi staða stefnda skapi hættu á því að hann reyni að skjóta undan þeim eignum sem til staðar eru og að stefndi reyni þannig að komast undan því að bera ábyrgð á þeim kröfum sem að honum beinast.
Það styður við þennan grun stefnanda að stefndi hefur nú þegar skráð lögheimili sitt í Bretlandi án þess að þar sé nánar tiltekið um það hvar hann býr. Hefur stefndi stöðuna óstaðsettur í hús þar í landi. Stefnandi telur að ætla verði að tilgangur slíkrar skráningar geti vart verið annar en sá að torvelda það að unnt sé að ná til stefnda m.a. vegna málssókna og fullnustugerða.
Jafnframt byggir stefnandi á því að skv. upplýsingum frá Erlendi Gíslasyni hrl., skiptastjóra í þrotabúi Baugs Group hf., liggja nú þegar fyrir hjá skiptastjóra mál sem varða grun um undanskot eigna sem stefndi eða félög á hans vegum tengjast. Stefnandi telur að nú þegar liggi fyrir rökstuddur grunur af hálfu skiptastjórans um ýmisskonar undanskot eigna, ýmis beint eða í formi ólögmætra greiðslna frá þrotamanni til félaga í eigu stefnda. Þá vísar stefnandi enn fremur til frétta af því er birst hafa í fjölmiðlum og tengjast ýmsum vafasömum fjármálagerningum sem hafi á sér yfirbragð undanskota.
Stefnandi telur að hann hafi sýnt fram á að sennilegt megi telja að ef kyrrsetning fari ekki fram þá muni það draga mjög úr líkindum á því að fullnusta framangreindrar skaðabótakröfu takist eða að fullnusta verði verulega örðugri fari kyrrsetning ekki fram, en sérstaklega er áréttað að skv. lögum nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. (KSL) þarf einungis að fullnægja öðru skilyrðinu til þess að heimilt sé að beita kyrrsetningu, þ.e. annað hvort að það dragi mjög úr líkindum á fullnustu eða að fullnusta verði örðugri. Sýnt hafi verið nægjanlega fram á að stefnandi eigi lögvarða kröfu um greiðslu peninga sem kyrrsetningin á að tryggja. Við mat á þessu er vísað til 2. mgr. 5. gr. KSL, þar sem kveðið er á um það að ekki skuli synja um kyrrsetningu nema ætla megi af fyrir liggjandi gögnum að gerðarbeiðandi (stefnandi) eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja. Jafnframt liggur fyrir að sögn stefnanda að krafa hans er ekki aðfararhæf.
Málsástæður og lagarök stefnda, Lárusar
Stefndi tekur fram að í réttarstefnu komi fram að lögmaður stefnanda sjái ekki ástæðu til að leggja fram öll gögn kyrrsetningarmálsins. Þetta sé „rökstutt“ með þeim orðum að hluti gagnanna, þ.e. skjal nr. 9 í kyrrsetningarmálinu, séu skjöl „sem þegar liggja frammi í málinu nr. E-2977/2010“, en ekki er nánar tilgreint hvaða skjöl það eru í síðastnefnda málinu sem teljast til skjals nr. 9. Þótt vissulega sé gert ráð fyrir því að mál til staðfestingar kyrrsetningunni verði sameinað málinu nr. E-2977/2010, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990, þá fer sú sameining ekki fram fyrr en eftir þingfestingu staðfestingarmálsins.
Stefndi mótmælir því að óþarft sé við þingfestingu staðfestingarmáls vegna kyrrsetningar að leggja fram hluta af þeim skjölum sem lágu til grundvallar ákvörðun sýslumanns um að kyrrsetning skyldi fara fram. Skjölin sem bókuð voru sem skjal nr. 9 eru fjölmörg, og þau voru lögð fram af stefnanda (gerðarbeiðanda) í framhaldi af andmælum stefnda (gerðarþola) gegn því að gerðin skyldi fara fram. Það var ekki fyrr en eftir að sýslumaður hafði kynnt sér - eða sagðist hafa kynnt sér - þessi gögn að hann tók af skarið um að gerðin skyldi fara fram. Með því að gögn kyrrsetningarmálsins hafa ekki öll verið lögð fram í þessu staðfestingarmáli getur að mati stefnda ekki komið til álita að staðfesta gerðina þar sem henni er ekki réttilega haldið til laga.
Synjunarkrafa stefnda er einnig á því reist að sú kröfugerð stefnanda í umræddu einkamáli, sem lá til grundvallar kyrrsetningarkröfunni, sé tilhæfulaus með öllu. Verði stefndi sýknaður af kröfu stefnanda í einkamálinu falli kyrrsetningin niður, sbr. 42. gr. laga nr. 31/1990, eða færist niður ef krafan verður aðeins tekin til greina að hluta.
Synjunarkrafa stefnda er jafnframt á því reist að hver svo sem afdrif kröfugerðar stefnanda í málinu nr. E-2977/2010 verða hafi ekki verið uppfyllt lagaskilyrði samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fyrir framkvæmd kyrrsetningarinnar þegar hún fór fram 4. júní 2010. Í lagaákvæði þessu segir að kyrrsetja megi eignir „skuldara“ til tryggingar fullnustu „lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga“, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Stefndi skuldaði stefnanda enga peninga þegar gerðin fór fram. Stefnandi hafði að vísu höfðað mál á hendur stefnda til öflunar dóms um ætlaða skaðabótaábyrgð hans á tjóni stefnanda út af viðskiptum stefnanda við tiltekna aðila. Á þeim tíma sem málið var höfðað átti stefnandi enga „lögvarða peningakröfu“ á hendur stefnda, og hann var því ekki „skuldari“ í skilningi þessa lagaákvæðis. Í skjali nr. 7 í kyrrsetningarmálinu er rökstuðningur stefnda fyrir því að ekki væru skilyrði til að umrædd kyrrsetning næði fram að ganga og vísar stefndi til þeirra röksemda sem þar eru færðar fram. Sýslumaður féllst ekki á þessi andmæli, en stefndi telur að afstaða hans til þeirra hafi byggst á rangri lagatúlkun. Heldur stefndi fast við túlkun sína um þessi atriði öll og telur að hann hafi lögvarða hagsmuni af því, sbr. 41. gr., sbr. 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990.
Auk þess að fá úr því skorið hvort réttur hafi verið á honum brotinn við framkvæmd gerðarinnar samkvæmt 2. mgr. röksemda sem fram eru færðar í skjali nr. 7 byggir stefndi synjunarkröfu sína á því að hann hafi gert samkomulag við stefnanda um fullnaðaruppgjör á kröfum sem bankinn taldi sig eiga á hendur honum. Samkomulag þetta var gert 17. apríl 2009. Í stuttu máli gekk stefndi, umfram skyldu, til uppgjörs á þeim forsendum að um endanlegt uppgjör væri að ræða vegna starfa hans fyrir stefnanda. Í lok þess samkomulags er tekið fram með skýrum hætti að hvorugur aðili eigi kröfur á hendur hinum vegna þeirra samninga sem til var vísað, þar á meðal ráðningarsamnings stefnda, og að fullnaðaruppgjör hafi þegar farið fram.
Málsástæður og lagarök stefnda, Jóns Ásgeirs
Stefndi byggir á því að synja beri um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar þar sem stefndi hafi ekki verið boðaður til hennar eins og lög kveða á um. Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. skal farið eftir fyrirmælum 20.-24. og 35. gr. laga um aðför varðandi viðurvist málsaðila við kyrrsetningargerð. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík taldi sýslumaður með vísan til 6. tl. 3. mgr. 21. gr., 2. mgr. 22. gr. og 3. mgr. 24. gr. i.f. laga nr. 90/1989 lagaskilyrði vera til að ljúka gerðinni á starfsstofu sýslumanns án nærveru stefnda. Stefndi mótmælir því. Stefndi segir að ekkert hafi verið gert til að hafa uppi á honum áður en gerðin fór fram. Stefndi byggir á því að sýslumaður verði að gera einhverjar lágmarksráðstafanir til að láta birta gerðarþola tilkynningu um að beiðni um kyrrsetningu sé komin fram, sbr. 21. gr. laga nr. 90/1989. Stefndi telur að fyrirspurn fulltrúa sýslumanns til lögmanns hans með tölvupósti um hvort hann sé umboðsmaður stefnda í málinu hafi ekki verið nægjanleg tilraun til birtingar. Meira hefði þurft að koma til. Fulltrúi sýslumanns og stefnandi höfðu vitneskju um að stefndi er búsettur í Bretlandi. Sýslumanni hefði því verið í lófa lagið að útvega upplýsingar um skrásett heimilisfang stefnda þar í landi og birta honum tilkynningu um fram komna kröfu. Fullyrðing þess efnis að stefndi sé óstaðsettur í hús í Bretlandi er einfaldlega röng. Stefndu hefur þar skráð lögheimili. Stefndi byggir á því að fjarvera hans við gerðina, sem var vegna þess að hann hafði ekki vitneskju um að krafan var komin fram eigi að leiða til þess að dómkrafa stefnda verði tekin til greina.
Í stefnu er byggt á því að mikið hafi verið fjallað um slæma fjárhagsstöðu stefnda í fjölmiðlum. Vegna þessarar stöðu óttist stefnandi að stefndi reyni að skjóta undan eignum sem til staðar kunna að vera. Grunur liggi fyrir um undanskot eigna og hafi Erlendur Gíslason hrl., skiptastjóri Baugs Group hf., m.a. staðfest þann grun. Hann staðfestir að höfðuð hafi verið tvö riftunarmál, þar sem félögum tengdum stefnda er stefnt. Ekkert er fjallað um meint undanskot eigna. Stefndi telur framsetningu stefnanda ranga.
Þá sé einnig í stefnu vísað til fimm handvalinna neikvæðra frétta af stefnda sem hafa birst í fjölmiðlum. Fréttirnar eru ýmist rangar eða í besta falli mjög ónákvæmar. Í stefnu er sagt að þessar fréttir hafi allar þær yfirbragð að stefndi „tengist ýmsum vafasömum fjármálagerningum sem hafi á sér yfirbragð undanskota“, án þess að það sé rökstutt nánar.
Stefndi telur þessa framsetningu með öllu dæmalausa. Fyrir það fyrsta hefur nákvæmni almennt ekki verið fyrir að fara í pistlum Sigrúnar Davíðsdóttur í Speglinum, sem er á dagskrá RÚV. Þá hefur sú aðgerð að selja fasteignir almennt ekki falið í sér undanskot eigna. Þær eignir sem tilgreindar eru í stefnu eru ekki í eigu stefnda og voru það ekki. Hins vegar er rétt að benda á að stefnandi sjálfur fékk greidda u.þ.b. tvo milljarða, þegar skíðasetur í frönsku Ölpunum var selt, sem var fullnaðargreiðsla vegna lánveitingar stefnanda til byggingu hússins sumarið 2008. Stefnandi vissi að sú greiðsla var á leiðinni til sín, þegar beiðnin var sett fram. Varðandi sölu á íbúð í New York liggur fyrir að stefnandi var upplýstur um væntanlega sölu hennar. Húseign í Danmörku var ekki í eigu stefnda. Þannig mætti lengi telja. Öll framsetning stefnanda er því mjög ósanngjörn, ómálefnaleg og beinlínis röng. Það var því stefnda mjög mikilvægt að gæta hagsmuna sinna hjá sýslumanni, en heyra ekki af kyrrsetningu eigna sinna rúmum mánuði eftir að gerðin fór fram, þegar lögmaður stefnanda hafði samband við lögmann stefnda og óskaði eftir uppáskrift á réttarstefnuna. Stefndi telur að leikar hefðu farið öðru vísi hjá sýslumanni hefði stefndi haft tækifæri til að gæta hagsmuna sinna þar. Þeim rétti var hann sviptur, sem á að leiða til þess að krafa stefnda nái fram að ganga.
Af endurritinu að dæma, telur stefndi að ekkert bendi til þess að fulltrúi sýslumanns hafi gætt af sjálfsdáðum að því að gerðin bryti ekki gegn þeim réttindum, sem gerðarþola (stefnda) eru tryggð með lögunum um aðför, sbr. seinni máls1. 1. mgr. 24. gr. laganna um aðför. Með því var einnig brotinn réttur á stefnda.
Synjunarkrafa stefnda er einnig reist á því að kröfugerð stefnanda í umræddu einkamáli, sem lá til grundvallar kyrrsetningarkröfunni, sé tilhæfulaus með öllu. Verði stefndi sýknaður af kröfu stefnanda í einkamálinu falli kyrrsetningin niður, sbr. 42. gr. laga nr. 31/1990, eða færist niður ef krafan verður aðeins tekin til greina að hluta. Þá er á því byggt af hálfu stefnda að hver svo sem afdrif kröfugerðar stefnanda í málinu nr. E-2977/2010 verða hafi ekki verið uppfyllt lagaskilyrði samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fyrir framkvæmd kyrrsetningarinnar.
Í 5. gr. laganna um kyrrsetningu o.fl. segir að kyrrsetja megi eignir „skuldara“ til tryggingar fullnustu „lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga“, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Stefndi skuldaði stefnanda enga peninga þegar gerðin fór fram og gerir ekki í dag. Stefnandi hafði að vísu höfðað mál á hendur stefnda til öflunar dóms um ætlaða skaðabótaábyrgð hans á tjóni stefnanda út af lánaviðskiptum stefnanda við þriðja aðila. Á þeim tíma sem málið var höfðað átti stefnandi enga „lögvarða peningakröfu“ á hendur stefnda, og hann var því ekki „skuldari“ í skilningi lagaákvæðisins. Vegna þess brast skilyrði fyrir því að gerðin færi fram. Stefndi hafnar öllum þeim ásökunum sem koma fram í málatilbúnaði stefnanda á hendur honum í málinu nr. E-2977/2010. Hann telur þær rangar, stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni, auk fleiri atriða. Stefndi hefur tekið til varna í málinu og hefur skilað inn greinargerð með vörnum sínum. Vísað er til greinargerðarinnar varðandi frekari efnisatriði varna stefnda í því máli. Það er enn fremur skilyrði kyrrsetningar að sennilegt megi telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sönnunarbyrði um þetta atriði. Ekkert hefur verið lagt fram í málinu sem byggir undir þetta atriði. Fréttaflutningur af málefnum stefnda og röng framsetning á staðreyndum er ekki nægjanleg sönnun í málinu.
Niðurstaða
Í málinu er fjallað um gildi tveggja kyrrsetningagerða. Í tilviki stefnda, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fór kyrrsetningin fram 20. maí 2010 og er málið nr. K-36/2010. Í tilviki stefnda, Lárusar Weldings, er málið nr. K-34/2010 og hófst kyrrsetningin 28. maí 2010, henni var framhaldið og lokið 4. júní 2010. Síðar var málið endurupptekið og því lokið 1. desember 2010.
Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 skal í greinargerð lýsa á gagnorðan og skýran hátt þeim málsástæðum sem stefndi byggir málatilbúnað sinn á. Í ljósi þess verður ekki litið til ódagsettra athugasemda er stefndi, Lárus, lagði fram hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 28. maí 2010 (skjal 7) umfram það sem fram kemur í greinargerð stefnda, Lárusar. Varðandi þá málsástæðu stefnda, Lárusar, um þýðingu samkomulags hans frá 17. apríl 2009 við stefnanda, þá er hér um efnisatriði að ræða sem hefur ekki áhrif á það hvort skilyrði hafi verið fyrir kyrrsetningargerðinni og hvort framkvæmdin hafi verið lögum samkvæmt.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort skilyrðum 5. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann og fleira hafi verið fullnægt í tilvikum stefndu. Í tilviki stefnda, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, er einnig á því byggt að framkvæmd hennar hafi verið ábótavant, sem hafi valdið honum réttarspjöllum, og er þá vísað til þess að hann hafi ekki verið boðaður til gerðarinnar og þar af leiðandi enginn mætt fyrir hans hönd. Þá er einnig byggt á því að trygging hafi ekki verið sett né nokkuð um það bókað í gerðabók sýslumanns.
Samkvæmt 5. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. sömu greinar að það sé ekki skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu, ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.
Eins og að framan greinir hefur stefnandi höfðað mál á hendur stefndu og fjórum öðrum einstaklingum og krafið þá um greiðslu bóta in solidum að fjárhæð 6.000.000.000 kr. Kyrrsetningarmálið hefur verið sameinað skaðabótamálinu og liggja því öll skjöl málsins frammi. Ágreiningur um ætlaða skaðabótaábyrgð stefndu er óútkljáður. Verði krafa stefnanda tekin til greina í dómsmálinu, þannig að stefndu verði taldir bótaskyldir gagnvart stefnanda, þá er til staðar lögvarin krafa, peningakrafa, og stefndu þar með orðnir skuldarar. Þær röksemdir stefndu að þeir hafi ekki verið aðilar að samningum þeim er málatilbúnaðar stefnanda byggist á og þeir hafi ekki hagnast af þeim ráðstöfunum hefur ekki þýðingu hér. Þá hefur tilvitnun til nýsettara laga nr. 23/2010 um breytingu á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum, sem lögmaður stefnda tilgreindi við aðalmeðferð málsins ekki þýðingu varðandi ágreiningsefnið. Lögin gilda einungis um skattakröfur. Kyrrsetning hefur verið talin lögmæt, samanber dóma Hæstaréttar, þegar um skaðabótakröfur er að ræða.
Báðir stefndu eru fluttir til Bretlands og ekki liggja fyrir heimilisföng þeirra þar, þrátt fyrir áskorun lögmanns stefnanda, við munnlega meðferð málsins, að upplýst yrði um þau. Stefndu eru báðir skráðir fyrir eignum hér á landi og í ljósi heimilisfesti þeirra erlendis er hætta á að þeir flytji þær eignir sem eftir eru hér á landi til útlanda. Fyrir liggur að báðir stefndu hafa nú þegar flutt eigur sínar úr landi.
Fallist er á að stefnandi hafi sýnt nægilega fram á réttmæti kröfu sinnar á hendur stefndu til að kyrrsetning geti náð fram að ganga, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990, og einnig að sennilegt megi telja að mjög dragi úr líkindum fyrir fullnustu hennar verði kyrrsetning ekki heimiluð, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar.
Þá verður vikið að framkvæmd kyrrsetningargerðanna. Í málflutningi kom skýrt fram af hálfu lögmanns stefndu að í tilviki Jóns Ásgeirs, þ.e. í máli nr. K-36/2010, sé byggt á tveimur málsástæðum, það er að hann hafi sjálfur ekki verið viðstaddur framkvæmd kyrrsetningargerðarinnar og að engin trygging hafi verið sett. Í málinu K-34/2010, þ.e. í tilviki Lárusar, voru ekki gerðar athugasemdir við munnlega meðferð málsins varðandi framkvæmdina.
Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. skal fara að fyrirmælum 20.-24. gr. og 35. gr. laga um aðför varðandi viðurvist málsaðila við kyrrsetningargerð. Samkvæmt 21. gr. laga um aðför skal sýslumaður tilkynna gerðarþola hvar og hvenær taka eigi beiðnina fyrir. Samkvæmt 6. tl. 3. mgr. 21. gr. sömu laga má víkja frá því ef ekki er vitað hvar gerðarþoli hefst við. Eins og að framan greinir býr stefndi, Jón Ásgeir, í Bretlandi, en ekki hefur verið upplýst um heimilisfang hans þar. Sýslumaður reyndi með því að hafa tölvupóstssamband við lögmann stefnda, Gest Jónsson hrl., að fá upplýst hvort hann væri lögmaður Jóns Ásgeirs. Hann kvaðst vera lögmaður í einkamálinu, en hefði ekki umboð stefnda í kyrrsetningarmálinu. Því var sýslumanni heimilt að halda gerðina án viðveru stefnda, en ber þá sýslumanni að gæta þess af sjálfsdáðum að gerðin brjóti ekki gegn þeim réttindum sem stefnda eru tryggð með lögum. Stefndi, Jón Ásgeir, hefur ekki sýnt fram á að réttarspjöll hafi orðið þótt hann hafi ekki verið boðaður við gerðina.
Í öðru lagi byggir stefndi, Jón Ásgeir, á því að það að trygging hafi ekki verið sett við kyrrsetningargerðina hafi leitt til réttarspjalla. Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála skal stefndi geta um málsástæður þær er hann byggir málatilbúnað sinn á í greinargerð sinni. Skal það vera gert á skýran og glöggan hátt. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. sömu laga skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki. Stefnendur hafa mótmælt nýrri málsástæðu stefnda, Jóns Ásgeirs og er málsástæða þessi því of seint fram komin.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða málsins að kyrrsetningargerðir nr. K-34/2010 og 36/2010 standa óhaggaðar. Eftir þessari niðurstöðu bera stefndu, hvorum um sig, að greiða stefnanda 500.000 kr. í málskostnað.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Hafnað er kröfu stefndu, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Lárusar Weldings, um að kyrrsetningargerðir í málunum nr. K-34/2010 og K-36/2010 verði felldar úr gildi.
Stefndu, hvor um sig, greiði stefnanda 500.000 kr. í málskostnað.