Hæstiréttur íslands

Mál nr. 694/2016

A, B, C og D (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)
gegn
E (Þorsteinn Einarsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Erfðaskrá

Reifun

Sóknaraðilar, systkini og lögerfingjar F, kröfðust þess að ógiltar yrðu tvær erfðaskrár F þar sem hann arfleiddi stjúpdóttur sína, E, að eigum sínum. Var krafan reist á því að F hefði skort arfleiðsluhæfi til gerðar erfðarskránna vegna andlegra veikinda og því væru þær ógildar á grundvelli 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var m.a. vísað til framburðar tveggja arfleiðsluvotta, sem báru að F hefði verið skýr um þann vilja sinn að arfleiða E að eignum sínum, og þess að fyrirliggjandi yfirmatsgerð skæri ekki úr um þann vafa sem uppi væri um arfleiðsluhæfi F. Var því talið ósannað að vitræn skerðing F hefði verið orðin það mikil við gerð erfðaskránna að hann hafi verið óhæfur til að gera erfðaskrár með skynsamlegum hætti. Var kröfu sóknaraðila því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að erfðaskrár F frá 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011 yrðu metnar ógildar og að við opinber skipti á dánarbúi hans skyldi erfðaskrá hans frá 17. ágúst 1988 lögð til grundvallar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 10. október 2016. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eftir framangreindum úrslitum verður sóknaraðilum sameiginlega gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A, B, C og dánarbú D greiði sameiginlega varnaraðila, dánarbúi E, 400.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2016.

I

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 1. september sl. 

Sóknaraðilar eru B, dánarbú D, A og C. D lést undir rekstri málsins og hefur dánarbú hans tekið við aðild þess, sbr. 2. gr. 22. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Varnaraðili er dánarbú E en E lést undir rekstri málsins og hefur dánarbú hennar tekið við aðild þess á grundvelli framangreinds lagaákvæðis.

Sóknaraðili krefst þess að erfðaskrár F, sem lést þann 10. júní 2013, undirritaðar þann 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011 verði metnar ógildar og að við skiptin á dánarbúi hans skuli erfðaskrá hans frá 17. ágúst 1988 lögð til grundvallar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði dæmdur málskostnaður.

II

Málavextir

Hinn 20. september 2013 var dánarbú F, sem lést 10. júní 2013, tekið til opinberra skipta að kröfu sýslumannsins í Reykjavík (nú á höfuðborgarsvæðinu) á þeim grundvelli að vafi léki á um hver gæti talið til arfs í dánarbúinu, sbr. 3. tl. 37. gr. laga nr. 20/1991, um opinber skipti á dánarbúum o.fl.

Með bréfi skiptastjóra frá 8. október 2013 var ágreiningi um gildi tveggja erfðaskráa F vísað til dómsins. Annars vegar er um að ræða erfðaskrá frá 4. febrúar 2008 en hins vegar erfðaskrá frá 12. maí 2011. Í hinni fyrri arfleiddi F E að sumarhúsi við [...] í [...] auk helmings eigna sinna. Þá var kveðið á um að systkini hans skyldu erfa helming eignanna á móts við E. Í síðari erfðaskránni arfleiddi F E að öllum eigum sínum. Jafnframt var kveðið á um að með erfðaskránni féllu eldri erfðarskrár úr gildi. Snýst deila málsins um gildi þessara erfðaskráa en sóknaraðilar telja að F hafi verið svo andlega skertur, er hann undirritaði þær, að hann hafi ekki getað gert sér grein fyrir efni þeirra, þ.e. hann hafi skort arfleiðsluhæfi í skilningi 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Hins vegar hafa sóknaraðilar ekki borið brigður á gildi erfðaskrár frá 17. ágúst 1988 þar sem F arfleiddi E að þriðjungi eigna sinna.

Helstu eignir dánarbúsins eru samkvæmt fundargerð skiptastjóra tæp hálf milljón kr. á bankareikningum, verðbréf að markaðsvirði 2.754.954 kr. og íbúð í fjölbýlishúsi við [...]. Ekki liggur fyrir að á hinum látna hafi hvílt skuldbindingar.

E var stjúpdóttir F en hann var giftur móður hennar, G, frá því að E var tveggja ára þar til G lést 1971 en þá var E níu ára. Flutti hún þá til móðurforeldra sinna. Hún mun síðan hafa búið hjá F um tveggja ára skeið þegar hún var um tvítugt. 

F giftist ekki aftur og voru sex systkini hans lögerfingjar hans er hann andaðist. Standa fjögur þeirra að málsókn þessari en eins og áður var getið lést D undir rekstri málsins.

F bjó um áratuga skeið í íbúð sinni að [...], Reykjavík. Þar sem heilsufari hans fór hrakandi fékk hann í árslok 2007 leigða þjónustuíbúð fyrir aldraða á vegum Reykjavíkurborgar að [...] í Reykjavík. Hann hafði búið um hálfs árs skeið á hjúkrunarheimilinu [...] í Reykjavík er hann lést.

E og F héldu sambandi alla tíð og var hann viðstaddur merkisatburði í lífi hennar. Enn fremur var hún honum innan handar er hann eltist og þurfti á aðstoð að halda. Var hún í sjúkraskrá skráð sem nánasti aðstandandi hans. Er E skildi við seinni eiginmann sinn árið 2010 flutti hún í íbúð F að [...] og bjó þar leigulaust. Hinn 26. mars 2011 veitti F henni prókúru á bankareikninga sína en áður hafði hann veitt bróðursyni sínum prókúru. Samkvæmt gögnum málsins tók E samtals yfir tíu milljónir króna út af bankareikningum F á tímabilinu 13. maí 2011 til 13. nóvember 2012. Gaf E þá skýringu í skýrslutöku hjá skiptastjóra dánarbúsins í október 2013 að hinn látni hefði í kjölfar skilnaðar hennar viljað veita henni og börnum hennar stuðning þar sem hún hefði staðið höllum fæti fjárhagslega. Þá hafi hluti greiðslunnar farið í viðhald á fasteign hins látna sem mun hafa verið í slæmu ásigkomulagi. Enn fremur fékk E umboð frá F til að selja sumarbústað hans skömmu fyrir andlát hans og ráðstafaði hún söluandvirðinu, rúmum sex milljónum króna, inn á bankareikning sinn. Í sömu skýrslutöku hjá skiptastjóra kvað hún andvirðið hafa farið til að greiða viðamiklar endurbætur á fasteign hins látna, sem hún hafði ráðist í í febrúar sama ár.

Óumdeilt er að heilsufari F fór hrakandi síðustu árin sem hann lifði, m.a. vegna heilablóðfalla, en aðila greinir á um hvort veikindin hafi haft áhrif á arfleiðsluhæfi hans. 

III

Matsgerðir

Undir meðferð málsins öfluðu sóknaraðilar matsgerða um arfleiðsluhæfi F. Spurningar sem beint var til matsmanna voru eftirfarandi: 1. Hvernig var heilsufar hins látna á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til andlátsdags 10. janúar 2013? 2. Má gera ráð fyrir að hinn látni hafi verið fær um að taka ákvarðanir vegna fjármála sinna á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til andlátsdags 10. júní 2013? 3. Má gera ráð fyrir að hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrár sem hann gerði þann 4. febrúar 2008, á þeim tíma þegar erfðaskráin var gerð? 4. Má gera ráð fyrir að hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrár sem hann gerði þann 12. maí 2011 á þeim tíma sem erfðaskrá var gerð?

Í matsgerð H heimilislæknis og I, lyf- og öldrunarlæknis, frá 16. maí 2014, er komist að þeirri niðurstöðu að hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskránna frá 2008 og 2011. Matsspurningum var ekki svarað beint lið fyrir lið en í samantekt í lok matsgerðarinnar kemur eftirfarandi fram:

Mestu skiptir að skoða tímann í kringum erfðaskrá 2 (4. febrúar,1988 (svo)) og erfðaskrá 3 (12. maí 2011). Heilsufari hefur verið lýst í yfirliti í tímaröð hér að ofan en segja má að upplýsingar séu fremur yfirborðskenndar og ósamfelldar með tiltölulega löngum tímabilum þar sem lítil eða engin skráning er til, sérstaklega á árinu 2010.

Tíminn í kringum erfðaskrá 2; F hafði hlotið heilaáfall í apríl 2007 sem einkenndist af jafnvægisleysi, máttminnkun vinstra megin og gaumstoli. En þrátt fyrir það er staðfest að hann hafi fengið 30 af 30 mögulegum stigum á MMSE prófi. Ekkert er heldur í sögunni á þessum tíma sem bendir til vitrænnar skerðingar. Í júní sama ár, 2007, fær F annað heilaáfall sem einkenndist af málstoli. Hann var með þvoglumæli um hríð en ekki er lýst vitrænni skerðingu og mál fór batnandi. Þrátt fyrir tvö heilaáföll á árinu 2007 eru engin skrásett gögn sem lýsa vitrænni skerðingu eða merkjum heilabilunar fram að fyrri erfðaskrá sem dagsett var 4. febrúar, 2008.

Síðar á árinu 2008 fer hinn látni að merkja að minni versni og líkamlega heilsa hans versnar mjög á þessum tíma sem getur haft áhrif á vitræna getu tímabundið og að hluta varanlega. Eins og fram kemur fékk hann 16/30 á MMSE prófi í mars 2009 tengt legu tengt hjartabilun. Þessi niðurstaða skýrist helst af óráði (deilerium). Þegar bráðveikindum léttir batnar vitræn geta nokkuð og MMSE mælist best 24/30 í september 2009. Í febrúar 2010 er F talinn hafa æðabilun. Enginn heimsókn er á hvorki heilsugæslu né á LSH þar til ári seinna eða 6. maí 2011. F kemur með stjúpdóttur og segir líðan sína góða og engin umkvörtunarefni. Segja þau bæði að allt gangi vel. F er lýst sem fölleitum en tali skýrt. Gengur hægt og þarf stuðning.

Þriðja erfðaskráin er gerð 12. maí 2011.

Ljóst er að F hefur orðið fyrir nokkurri vitrænni skerðingu sem hefur blæ vægrar vitrænnar skerðingar á síðari hluta árs 2008. Skörp versnun í tengslum við bráðaveikindi og hjartabilun á fyrri part árs 2009 er það sem kallast óráð og er tímabundið. F fer fram og MMSE próf í september 2009 bendir til vitrænnar skerðingar sem er á mörkum vægrar vitrænnar skerðingar og heilabilunar. F fær greininguna æðaheilabilun í febrúar 2010. Í tengslum við innlögn á þessum tíma er greiningin gerð á grundvelli sögu, blóðrannsókna og myndgreiningar. Engin taugasálfræðileg próf eru gerð en slíkt hefði verið mjög hjálplegt til að skilja nákvæmlega í hverju vitræn skerðing væri fólgin.

Í kjölfarið kemur þögult tímabil. Ein koma á göngudeild skömmu fyrir gerð þriðju erfðaskrárinnar gefur vísbendingu um að ekki hafi orðið versnun á vitrænni getu og gæti F jafnvel skýrst frekar. Vitræn skerðing vegna truflunar á blóðflæði er margbreytileg og einstaklingsbundin og fer nákvæmlega eftir því hvar blóðþurrð verður. Lýst er á árinu 2010 ákveðnu framtaksleysi og ranghugmyndum. Aldrei koma fram upplýsingar um óábyrga hegðun eða framkomu, svo sem í fjármálum eða á annan hátt. Þrátt fyrir máltruflun á tímabili tekst F ágætlega að tjá  sig ekkert kemur fram um að F hafi ekki skilið talað mál eða ritað.

Í tilfelli F var ekki gerð nákvæm kortlagning hvað blóðþurrð varðar fremur en að taugasálfræðileg próf hefðu verið gerð. Að teknu tilliti til þess og þeirrar sögu sem að ofan hefur verið rakin og rædd er því erfitt að fullyrða nokkuð um dómgreindarleysi og eða skilningsleysi til þess að ráðstafa eignum sínum á skynsamlegan hátt með erfðaskrá.

Matsmenn telja hafið yfir skynsamlegan vafa að F hafi haft vitræna getu til að gerða erfðaskrá 3. Með öðrum orðum telja matsmenn að fyrirliggjandi gögn leyfi ekki að fullyrt sé að F hafi haft vitræna skerðingu eða heilabilun á einhverju því stigi að hann hafi ekki skilið í hverju gerð erfðaskrár væri fólgið. Matsmenn gera því ráð fyrir að hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrár (svo) sem hann gerði 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011.

Sóknaraðilar rituðu matsmönnun bréf 10. júní 2014 þar sem m.a. var gerð athugasemd við að matsmenn hefðu ekki aflað þar tilgreindra gagna um heilsufar F sem gætu skipt máli um mat á hæfi hans. Í bréfi matsmanna 7. júlí 2014 til sóknaraðila kemur fram að þeir hefðu aflað viðbótargagna af þessu tilefni en þau breyttu engu um niðurstöðu þeirra. Þá vísuðu matsmenn til þess að önnur upplýsingaöflun hefði verið í samræmi við það sem fram hafi komið að þeirra hálfu á matsfundi.

Með bréfi til dómsins 19. september 2014 óskuðu sóknaraðilar eftir því að þeim yrði veitt heimild til öflunar gagna hjá Landspítala ‒ háskólasjúkrahúsi, Sjúkraskrá heimahjúkrunar og heimaþjónustu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Heilsugæslu höfuðborgasvæðisins vegna F. Með úrskurði dómsins 1. apríl 2015 var kröfum þeirra hafnað. Sóknaraðilar kærðu úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu hann. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 12. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, og 15. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, væri það meginregla að þagnarskylda ríkti um upplýsingar um heilsufar látins manns sem væri að finna í sjúkraskrám hans og öðrum heilsufarsgögnum. Frá þeirri meginreglu væri gerð sú undantekning að mæltu ríkar ástæður með því væri heimilt að veita nánar tilgreindum aðilum aðgang að þeim og skyldi þá hafa hliðsjón af hagsmunum þeirra er aðgangs óska og vilja hins látna ef fyrir lægju upplýsingar um hann, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Var ekki talið að sóknaraðilar hefðu sýnt fram á að ríkar ástæður mæltu með því að vikið yrði frá framangreindri meginreglu umfram það sem þegar hefði orðið. Við hagsmunamat var m.a. vísað til þess að sóknaraðilar hefðu undir höndum matsgerð þar sem byggt var á upplýsingum um heilsufar hins látna sem fengnar voru úr sjúkraskrám. Í kjölfar dóms Hæstaréttar lögðu sóknaraðilar framangreinda matsgerð frá 16. maí 2014 fram.

Hinn 8. júní 2015 var lögð fram krafa sóknaraðila um dómkvaðningu þriggja sérfróðra manna til að framkvæma yfirmat. Var fallist á þá beiðni 24. sama mánaðar.

Í yfirmatsgerð J öldrunarlæknis, K, sérfræðings í öldrunarhjúkrun, og L, sérfræðings í heimilislækningum, frá 7. desember 2015, var sjúkrasaga hins látna (vísað til sem F) rakin í stórum dráttum. Komust yfirmatsmenn að þeirri niðurstöðu að erfitt væri að fullyrða um arfleiðsluhæfi hans 2008 en að hann hefði verið alls ófær um að taka ákvarðanir um fjármál 2011 sökum heilabilunar. Nánar tiltekið var matsspurningum svarað með eftirfarandi hætti í yfirmatsgerðinni:

1. Hvernig var heilsufar hins látna á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til andlátsdags 10. janúar 2013?  

Hér að framan er yfirlit yfir heilsufarssögu F í tímaröð. Um er að ræða tilvitnanir í sjúkraskrárgögn. Ekki er farið nákvæmlega yfir heilsufarssögu F hér. Þess skal þó getið að hann var með sykursýki, háar blóðfitur, háþrýsting, kransæðasjúkdóm auk skertrar nýrnastarfsemi.  

Í þessu svari verður leitast við að skýra nánar þá þætti í heilsufari hans er gætu hafa haft áhrif á andlega hæfni. Árið 2007 fékk F í tvígang heilaáfall og sýndu myndgreiningarannsóknir af heila heiladrep í samræmi við það og auk þess dreifðar hvítavefsbreytingar. Þesskonar breytingar eru langvinnar og benda til sjúkdóms í heilaæðum sem verið hefur til staðar um nokkurn tíma. Löngu áður en F fær greininguna heilabilun, árið 2010, koma fram atriði í sjúkraskrárgögnum sem benda til þverrandi vitrænnar getu og hæfileika til eigin umsjár. Hann er því ekki heill heilsu í upphafi þess tímabils er um ræðir og virðist heilsufari hans hafa hrakað hægt og bítandi fram í andlátið. Ef horft er til vitrænnar getu er vert að hafa í huga að sá heilabilunarsjúkdómur sem greindur var hjá F í mars 2010, hefur ugglaust búið um sig um alllangt skeið. 

Hugtakið heilabilun (e. dementia) er heilkenni sem notað er yfir samsafn einkenna sem margir hrörnunarsjúkdómar í miðtaugakerfi geta valdið. Þessir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að vera áunnir og að einkenni þeirra ágerast er á líður. Algengustu orsakir heilabilunar eru Alzheimerssjúkdómur og heilaæðasjúkdómur. Meðal áhættuþátta heilaæðasjúkdóms eru háþrýstingur, há blóðfita og sykursýki, en þessir sjúkdómar hrjáðu F eins og áður er vikið að. Þegar einstaklingur er greindur með heilabilun hefur orðið skerðing á vitrænni getu og er þá átt við röskun á minni auk annarra þátta æðri heilastarfsemi, eins og máli, einbeitingu og færni við að skipuleggja og framkvæma athafnir, frumkvæði og dómgreind.  

MMSE  próf (Mini Mental State Examination) var lagt var fyrir F nokkrum sinnum í þeim tilgangi að meta vitræna getu hans. MMSE próf gefur vísbendingar um orsakir vitrænnar skerðingar en meðal ókosta þess er að prófið leggur meiri áherslu á yrta þætti á kostnað annarra þátta vitrænnar starfsemi, eins og óhlutbundinnar hugsunar og athygli. Vitræn geta getur verið skert þrátt fyrir að minnið sé hlutfallslega vel varðveitt, t.d. þegar um truflun á tali eða annarri æðri heilastarfsemi er að ræða s.s. skipulagsfærni og rökhugsun. Þegar þannig háttar til er MMSE ekki eins gagnlegt. Þar að auki eru niðurstöður MMSE háðar menntun, það er fylgni milli lengdar menntunar og betri útkomu á prófinu. Það er einnig vert að benda á að það er fleira en vitræn geta sem skerðist þegar einstaklingur veikist af heilabilunarsjúkdómi og hægt að greina framgang sjúkdómsins einnig með því að skoða þau atriði. Það verður afturför hvað félagslega færni varðar, t.d. getu til að rækta félagsleg tengsl og samskiptafærni. Þá hrakar færni við eigin umsjá, og er þar átt við færni til að sinna sjálfum sér og sínu nánasta umhverfi. Í byrjun getur verið um erfiðleika að ræða við að annast þrif og matseld, en þegar sjúkdómurinn ágerist minnkar geta til sinna grunnathöfnum daglegs lífs eins og að klæðast, sinna persónulegum þrifum og matast. Þegar um heilaæðasjúkdóm er að ræða hefur stærð, staðsetning og útbreiðsla skemmda áhrif á sjúkdómsmyndina, en það er þó ekki beint samband á milli breytinga sem sjást við myndgreiningarrannsókn og einkenna heilabilunar. Þegar vitræn geta og önnur færni er skert að því marki að einstaklingur fær sjúkdómsgreininguna heilabilun, hefur undirliggjandi sjúkdómur þróast lengi og umtalsverðar heilaskemmdir þegar orðið.  

Þegar líður á umrætt tímabil er heilsa F orðin afar slök. Hann fær enn eitt heilaáfallið sumarið 2012 og í læknabréfi dags. 23. júlí 2012 kemur fram að ekki er talið mögulegt að útskrifa hann heim í bið eftir hjúkrunarrými, þar sem hann þurfi svo mikinn stuðning við athafnir daglegs lífs. Við innlögn 9. júlí 2012 gat F ekki tjáð sig, hann var með algert málstol en það gekk að einhverju leyti til baka og mun hann þá hafa getað fylgt einföldum fyrirmælum. F lá á biðdeild eftir hjúkrunarrými innan Öldrunarsviðs LSH til 10. nóvember 2012. Í læknabréfi 10. nóvember 2012 er talað um aukna umönnunarþörf og þörf við aðstoð við athafnir daglegs lífs. Andlegri getu er ekki lýst nánar, en á lyfjalista er lyfið Haldol, sem gefa má F við miklum óróleika. Haldol er geðrofslyf og ein af ábendingum þess er ruglkennt ástand hjá öldruðum. Þarna er heilsufar F orðið æði bágborið og ekki von til þess að úr rætist. Svar okkar við þessari spurningu er því að hann var ekki frískur við upphaf tímabilsins og var orðinn mjög lasburða og hrumur undir lok þess.  

2. Má gera ráð fyrir að hinn látni hafi verið fær um að taka ákvarðanir vegna fjármála sinna á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til andlátsdags 10. júní 2013? 

Matsmenn telja að vafi leiki á hæfni F í upphafi tímabilsins til að taka ákvarðanir vegna fjármála sinna, en að nánast útilokað megi telja að hann hafi verið fær um að taka ákvarðanir síðari hluta þess vegna vaxandi heilabilunar, sbr. svar við spurningu 1. hér að framan. Geta hans hefur að líkindum einnig verið sveiflukennd, því í gögnum kemur fram að F hættir til óráðs (e. delerium) við álag, eins og þegar hann veiktist af hjartabilun á árinu 2009. Helstu áhættuþættir óráðs eru hár aldur og heilaskemmd. Við slíkar aðstæður hefur hann verið alls ófær um að taka ákvarðanir vegna fjármála.   

3. Má gera ráð fyrir að hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrár sem hann gerði þann 4. febrúar 2008, á þeim tíma þegar erfðaskráin var gerð? 

Þó F hafi vorið 2007, eftir fyrra heilaáfallið það ár, fengið fullt hús stiga á MMSE prófi, þá má vera að skerðing á vitrænni getu hafi verið til staðar sem prófið leiddi ekki í ljós, sbr. svar við spurningu 1. Aðrir þættir sem benda til að skerðing á vitrænni getu hafi verið til staðar eru vaxandi erfiðleikar við eigin umsjá og þörf fyrir mikinn stuðning utanaðkomandi þjónustuaðila, heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Um það hvort hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrár sem hann gerði þann 4. febrúar 2008, ríkir því vafi. Haustið 2007, eftir að hann hefur fengið tvö heilaáföll ber á meiri færnisskerðingu og að hann þarf orðið mun meiri aðstoð í daglegu lífi. Hann þarf að fá mat heimsendan og í dagál heimahjúkrunar frá 17. janúar 2008 er þess getið að hann sé mjög illa áttaður. Hann fær heimahjúkrun daglega á þessum tíma og er ákveðið að hann fái einnig heimaþjónustu á kvöldin sem hafi eftirlit með lyfjum. Þann 24. janúar 2008, kemur fram í dagál heimilislæknis að F hafi ekki tekið lyfin sín rétt. Viku síðar, 4. febrúar, er erfðaskrá nr. 2. gerð. Þremur vikum síðar eða 28. febrúar eru vangaveltur í nótum heimahjúkrunar um minnismóttökuna á Landakotsspítala. Erfitt er að fullyrða um hvort hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrárinnar sem hann gerði þann 4. febrúar 2008, en í ljósi lýsinga á ástandi hans um svipað leyti og að teknu tilliti til undirliggjandi sjúkdóms leikur vafi á því. 

4. Má gera ráð fyrir að hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrár sem hann gerði þann 12. maí 2011 á þeim tíma sem erfðaskrá var gerð? 

Matsmenn álíta að hinn látni hafi ekki gert sér grein fyrir efni erfðaskrár sem hann gerði hinn 12. maí 2011. Í kjölfar innlagnar á Landakot 15 mánuðum áður en hún er gerð, fær hann sjúkdómsgreininguna fjöldrepavitglöp og í læknabréfi dagsettu 15. mars 2010 kemur fram að hann glímir auk minnisskerðingar við málstol, framtaksleysi, ranghugmyndir og jafnvægisskerðingu, auk þess sem hann þurfti eftirlit við allar athafnir daglegs lífs. Á þeim 15 mánuðum sem liðu milli þess að læknabréfið er ritað og 12. maí 2011, þegar erfðaskráin er gerð, má gera ráð fyrir að heilabilunarsjúkdómur F hafi ágerst enda um hrörnunarsjúkdóm að ræða. Hann hefur því verið alls ófær um að taka ákvarðanir vegna fjármála sinna og ekki getað haft frumkvæði að gerð erfðaskrár né gert sér grein fyrir efni hennar. 

IV

Málsástæður sóknaraðila

         Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að sóknaraðilar, systkini hins látna, hafi þekkt hann vel og fylgst sum hver náið með honum alla tíð. Þau hafi verið meðvituð um hvernig heilsufar hans breyttist með árunum og ekki síst eftir annað heilablóðfall hans. Framtaksleysi og frumkvæði hins látna hafi verið algert og hefði hann aldrei tekið það upp hjá sjálfum sér að gera erfðaskrá. Það hafi komið nokkrum af sóknaraðilum verulega á óvart þegar þeir fréttu misjafnlega löngu eftir á að varnaraðili, E, hefði hinn 4. febrúar 2008 farið með hinn látna á lögmannsstofu til að undirrita nýja erfðaskrá, eins lélegt og andlegt og líkamlegt ástand hans var orðið á þeim tíma. Sóknaraðilum hafi mislíkað að svona hafi verið farið að málum, þ.e. að þeirri erfðaskrá sem hann gerði fullfrískur hinn 17. ágúst 1988 hefði verið breytt þegar hann var orðinn veikur. Þá hafi það komið þeim í opna skjöldu þegar þeir komust að því á útfarardag hins látna að til staðar væri þriðja erfðaskráin, undirrituð 12. maí 2011 þess efnis að hinn látni arfleiddi E að öllum eigum sínum.

Sóknaraðilar telja að F hafi ekki haft neinar forsendur til að taka eina eða aðra ákvörðun viðvíkjandi peningamálum Hann hafi verið svo skertur andlega að hann hafi hvorki getað gert sér grein fyrir undirritun umboðs né erfðaskrár. Þannig hafi hann ekki getað veitt E prókúru á bankareikninga sína eða veitt henni umboð til sölu á sumarhúsinu en í krafti prókúrunnar og umboðsins hafi hún ráðstafað í eigin þágu öllum þeim fjármunum er hann átti eða eignaðist sem hún hafði tök á að nálgast.

Sóknaraðilar vísa til niðurstöðu yfirmatsgerðar máli sínu til stuðnings. Þeir telja að ekki sé unnt að líta til undirmatsgerðar m.a. vegna þess að skort hafi á gagnaöflun matsmanna.

Um lagarök vísa sóknaraðilar til 2. mgr. 34. gr. sbr. 1. mgr. 45. gr.erfðalaga nr. 8/1962.

Málsástæður varnaraðila

           Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að E hafi ávallt verið í samskiptum við hinn látna og hann hafi alla tíð verið hennar eina föðurímynd. Hann hafi gengið E í föðurstað og hafi samband þeirra alla tíð verið líkt og samband föður og dóttur. Hann hafi komið reglulega til hennar í mat, verið hjá henni á hátíðisdögum og komið í öll afmæli og aðra fjölskylduviðburði. Þá hafi hann leitt E til altaris í bæði skiptin sem hún gifti sig. F hafi verið sem afi barna E sem kölluðu hann alla tíð F afa. Eftir að F eltist hafi E sinnt honum eins og föður. Hún hafi verið skráður nánasti aðstandandi hans þegar hann dvaldi í [...] og á [...], sem og þegar hann hafi legið á spítala.

           Varnaraðili vísar til þess að snemma árs 2008 hafi F haft á orði við E að hann langaði að breyta erfðaskrá sem hann hefði gert áður. Hann hafi beðið E að aka sér til M lögmanns. Hún hafi beðið fyrir utan skrifstofu M meðan þeir F ræddu málin og þegar F hafi komið af fundinum hafi hann upplýst E um að hann hefði sett inn í erfðaskrá sína að hún skyldi erfa sumarbústaðinn hans en E hafði oft varið tíma með F í umræddum sumarbústað gegnum árin. E sagði systkinum F, sóknaraðilum þessa máls, strax frá þessari ráðstöfun og hreyfðu þau engum mótmælum við. Þegar E hafi skilið við seinni eiginmann sinn árið 2010 hafi hún verið í hálfu starfi og með lág laun. F hafi haft áhyggjur af fjárhag hennar á þessum tíma og boðið henni að búa í íbúðinni sinni þar sem hann var kominn á dvalarheimili á þessum tíma. Hann hafi ekki viljað að E greiddi leigu. Af þessu hafi sóknaraðilar vitað en ekki hreyft athugasemdum við á meðan F var á lífi. E hafi oft rætt um sín mál við hann eftir skilnaðinn, m.a. að hún hefði áhyggjur af framtíðinni vegna lítillar vinnu og lágra launa. F hafi alltaf sagt það sama: E mín, ég vil allt fyrir þig og börnin gera. Snemma sumars árið 2011 hafi hann gefið sig á tal við E og greint henni frá því að hann væri búinn að gera erfðaskrá þar sem eigur hans ættu að renna óskiptar til hennar og að framangreindur lögmaður hafi einnig gert þá erfðaskrá. E hafi ekki verið viðstödd þegar sú erfðaskrá hafi verið gerð og hafi ekki haft aðkomu né raunar neins konar vitneskju um þá erfðaskrá fyrr en F hafi upplýst hana um þetta.

Varnaraðili vísar til þess að F hafi undir það síðasta verið misjafn frá degi til dags. Þrátt fyrir að hann hafi átt slæma daga undir það síðasta hafi hann oft á tíðum verið skýr. Hann hafi alla tíð verið hljóðlátur og samband hans við systkini sín verið misjafnt eins og gengur og gerist milli systkina.

Varnaraðili vísar til þess að þegar F hafi gert umræddar erfðaskrár hafi fyrrgreindur lögmaður verið viðstaddur undirritun hans og vottað gerhæfi hans. Hann hafi þekkt F um árabil og hefði því séð ef hann hefði ekki haft andlega heilsu til að gera umrædda erfðaskrá. 

Varnaraðili bendir á að þegar F hafi gert hinar umdeildu erfðaskrár hafi aðstæður verið breyttar frá því árið 1988 þegar fyrsta erfðaskráin var gerð. Systkini hans hafi öll verið á svipuðum aldri og hann, fullorðið fólk á áttræðis- og níræðisaldri sem búið sé að koma upp börnum og buru. Í ellinni hafi E en ekki systkini hans, sem sjálf voru komin á aldur, langmestan part sinnt honum, hann hafi verið hluti af fjölskyldu hennar. Samband E og stjúpföður hennar var alla tíð eins og hefðbundið feðginasamband og er ekkert óeðlilegt við það að F hafi viljað arfleiða dóttur sína, sem hafði nýverið gengið í gegnum fjárhagsvandræði af ævistarfi sínu, en ekki öldruð systkini sín. Mikilvægt sé að hafa hugfast í þessu sambandi að menn hafi óskoraðan rétt til að ráðstafa eignum sínum í lifanda lífi og mikið þurfi að koma til svo að raskað sé gerningum sem byggja á vilja, eftir andlát viðkomandi. F ráðstafaði eigum sínum á skynsamlegan hátt í skilningi 34. gr. erfðalaga og í samræmi við hinsta vilja hans. Þann vilja ber að virða. 

Varnaraðili telur að ekki sé unnt að byggja á yfirmatsgerð í málinu þar sem í hana vanti fullnægjandi umfjöllun um heilsu hins látna. Þá séu gögn þau sem byggt sé á í matsgerðinni ekki lögð fram í málinu. Enn fremur bendir varnaraðili á að í undirmati sé vísað til þess að F hafi komið til læknis hinn 6. maí 2011, þ.e. tæpri viku fyrir gerð síðustu erfðarskrár hans. Þar komi m.a. fram að líðan hans sé góð og hann hafi engin umkvörtunarefni. Honum sé lýst sem fölleitum en tali skýrt. Gefi þetta til kynna að hann hafi ekki skort arfleiðsluhæfi á þessum tímapunkti.

V

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um gildi tveggja erfðaskráa sem F gerði, annars vegar 4. febrúar 2008 og hins vegar 12. maí 2011. F lést 10. júní 2013, 86 ára að aldri. Telja sóknaraðilar, sem eru systkini og lögerfingjar hins látna, að hann hafi skort arfleiðsluhæfi sökum andlegra veikinda og séu erfðarskrárnar því ógildar á grundvelli 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Umrætt ákvæði er svohljóðandi „Erfðaskrá er því aðeins gild, að sá, sem gerir hana, sé svo heill heilsu andlega, að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt.“ Með fyrrgreindri erfðaskránni arfleiddi F stjúpdóttur sína, E, að helmingi eigna sinna, ásamt sumarhúsi, en með hinni síðargreindri að öllum eigum sínum. Krefjast sóknaraðilar þess að erfðaskrá hans frá 17. ágúst 1988 verði lögð til grundvallar skiptum en með henni arfleiddi F E að þriðjungi eigna sinna. Eins og fram hefur komið lést E undir rekstri málsins og hefur dánarbú hennar tekið við aðild þess.

                Óumdeilt er að hinu umdeildu erfðaskrár uppfylla formskilyrði 42. gr. erfðalaga, um vottun. Arfleiðsluvottorð lögmannsins M og ritara á skrifstofu hans, N, er að finna fyrir neðan texta sjálfra erfðaskránna. Í vottorðunum kemur fram að þau hafi verið kvödd til að vera vottar að arfleiðslugerð og votta það að F hafi ritað að þeim viðstöddum nafn sitt undir erfðaskrána sem hann kvað hafa að geyma hinsta vilja sinn. Þá er þess getið að hann hafi gert þetta heill heilsu, andlega og líkamlega, allsgáður og af fúsum og frjálsum vilja. Þar sem yfirlýsing vottanna er fullnægjandi um þau atriði er greinir í 42. gr. erfðalaga, skal hún þá talin rétt, nema sá, sem rengir, færi sönnur á hið gagnstæða. Í samræmi við þetta hvílir sönnun um að F hafi skort arfleiðsluhæfi á sóknaraðilum.

                Í framburði arfleiðsluvottsins M hrl., sem jafnframt sá um gerð hinna umdeildu erfðaskráa, kom fram að hann hefði unnið fyrir F í gallamáli árið 2006. Hann hafi komið reglubundið á skrifstofu hans vegna málsins og hafi E stjúpdóttir hans jafnan verið með í för. Árið 2008 hefði F beðið hann um að gera erfðaskrá. Hefði hann komið á skrifstofu hans í fylgd með E. Hefði honum verið vísað inn á skrifstofu lögmannsins en E hefði beðið fyrir utan. Hann kvað F hafa verið skýran og virst skilja hvað hann væri að gera. M taldi að þetta hafi verið hans eindregni vilji. F hafi verið rólegur maður og talað lágt. M kvaðst ekki hafa séð breytingu á honum frá árinu 2006. Hvað varðar erfðaskrána frá 2011 vísaði M til þess að F hefði haft símsamband við hann og óskað eftir að gera nýja erfðaskrá. Sveinn kveðst hafa náð í erfðaskrána frá 2008, lesið hana upp fyrir F, og spurt hverju hann vildi breyta. Hann hefði svarað því til að hann vildi að dóttir hans erfði hann að öllu. M sagðist þá hafa spurt F að því hvort hann ætti við stjúpdóttur sína E og hafi F jánkað því. Þá hafi M spurt hvort hann vildi að hann yrði skiptastjóri líkt og í erfðaskránni frá 2008. Hafi M í því samhengi tekið fram að það væri síður þörf á því þar sem þessi erfðaskrá væri einföld, þ.e. einungs einn erfingi en ekki margir erfingjar líkt og í fyrri erfðaskrá. Hafi F svarað efnislega á þá leið að það væri betra að M yrði áfram skiptastjóri því það yrði örugglega eitthvert vesen. M kveðst síðan hafa farið, ásamt N, með nýja erfðaskrá til F í [...]. Hann hafi lesið upp erfðaskrána fyrir F. Hann hafi ekki séð neina breytingu á F frá 2008. Hann hafi verið ákveðinn í að gera erfðaskrá með þessum hætti. Þeir hafi rætt um dómsmálið frá 2006 og hafi F virst muna vel eftir því.

                Í framburði arfleiðsluvottsins N kom fram að F hafi komið á skrifstofu M 2008, þar sem hún vann sem ritari. Hafi hann komið vel fyrir og virst vita hvað hann væri að gera. Hvað varðar síðari erfðaskrána þá hefði hún farið með M í [...] þar sem F undirritaði erfðaskrána. F hefði verið líkur sjálfum sér, þ.e. hún hafi ekki séð breytingu á honum frá 2008. Hann hafi lýst yfir vilja sínum til að gera erfðaskrána og hefði ekki verið unnt að sjá að hann skildi ekki eðli gjörningsins.

                Af gögnum málsins og skýrslutökum hér fyrir dóminum má ráða að F og E hafi alla tíð haldið sambandi þrátt fyrir að E hafi flust af heimili hans, níu ára gömul, er móðir hennar lést. Þá liggur fyrir að börn E kölluðu hann „[...] afa“. Aðila greinir hins vegar á um hversu náið samband þeirra hafi verið. Ljóst er þó að E sinnti honum að einhverju leyti eftir að hann flutti úr [...]. Þannig bera gögnin með sér að hún hafi farið með hann til lækna og var hún skráð sem nánasti aðstandandi hans í sjúkragögnum.

Í skýrslutökum fyrir dómi af þeim sem virðast hafa staðið F næst, þ.e. tveimur systrum hins látna, tveimur systursonum hans og þremur uppkomnum börnum E, kom fram að hann hefði ekki rætt arfleiðsluvilja sinn við þau hin síðari ár. Systrunum var kunnugt um að hann hefði árið 1988 gert erfðaskrá þar sem hann arfleiddi E að þriðjungi eigna sinna. Þó kom fram í framburði B systur hans að henni hefði verið kunnugt um að hann vildi að E fengi sumarhús sitt.

                Í skýrslutöku hjá skiptastjóra dánarbúsins í október 2013 bar E að hinn látni hefði árið 2008 skýrt henni frá því að hann vildi breyta erfðaskrá sinni frá 1988. Hefði hún að hans beiðni haft samband við M lögmann og ekið honum á skrifstofu lögmannsins. Eftir fund lögmannsins og F hefði henni verið kunnugt um að F hefði arfleitt hana að helmingi eigna sinna. Hún kvaðst hins vegar ekki hafa haft neina aðkomu að gerð erfðaskrárinnar frá maí 2011. F hefði sagt henni frá þeirri erfðaskrá eftir gerð hennar, sumarið 2011. Í þessu samhengi greindi E skiptastjóra frá því að hún hefði rætt við F um skilnað sinn 2010 og fjárhagsvandræði sín tengd honum. Hefði F sagt við hana að hann vildi allt fyrir hana og börn hennar gera. Hefði hann því leyft henni að búa leigulaust í íbúð sinni og heimilað henni úttektir á háum fjárhæðum af bankareikningum sínum en eins og rakið var í málavaxtakafla námu þær úttektir yfir tíu milljónum kr. á tímabilinu 13. mars 2011 til 13. nóvember 2012. Þá ráðstafaði E svo til öllu söluandvirði sumarbústaðar hins látna, sem seldur var skömmu fyrir andlát hans á rúmar sex milljónir kr., inn á sinn reikning.

Fyrir liggja í málinu tvær matsgerðir um arfleiðsluhæfi F sem gerð hefur verið grein fyrir í III. kafla úrskurðar þessa.

Í matsgerð frá 16. maí 2014 komast tveir matsmenn að þeirri niðurstöðu að gera megi ráð fyrir því að hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni hinna umdeildu erfðaskráa. Vísa þeir til þess að ekki sé unnt á grundvelli fyrirliggjandi gagna að fullyrða að vitræn skerðing hafi truflað hann að því marki að hann hefði dómgreindarskort og/eða skilningsleysi til þess að ráðstafa eignum sínum á skynsamlegan hátt.

Matsmennirnir komu fyrir dóminn og staðfestu matsgerðina. Í framburði I kom fram að matsmenn hefðu einungis haft gögn frá heilsugæslu og LSH, fleiri gögn hafi ekki verið til staðar. Það sem hafi ráðið niðurstöðunni hafi verið faglegt mat á gögnum, að mestu frá LSH, en ekki hafi verið unnt að draga of víðtækar ályktanir af gögnum. Þannig hafi ekki legið fyrir taugasálfræðilegt mat eða ítarleg sjúkrasaga. Meginniðurstaðan sé sú að sjúkdómur F hafi byggt á blóðrásartruflunum. Ekki sé unnt að líkja honum við alzheimer-sjúkdóm sem geti verið 20 ár að búa um sig. Eitt sé að hafa vitræna skerðingu en annað sé hvort hún hafi áhrif á dómgreind, innsæi o.fl. Mögulegt sé að F hafi búið við ákveðinn stöðugleika um tíma. Þannig hafi hann búið í [...] þar sem takmörkuð fagleg þjónusta sé í boði. Lélega útkomu á MMSE-prófi 9. mars 2009 megi m.a. skýra af tímabundnum veikindum hans. Í framburði H kom fram að af heilsufarsgögnum megi ráða að F hafi verið með ákveðna vitræna skerðingu, æða- og heilabilun, en hún sé mjög breytileg vegna annarra sjúkdóma sem hann hafi verið með. Þá hafi líðan hans verið sveiflukennd. Oft hafi liðið langur tími á milli þess sem hann hafi þurft á sérfræðiaðstoð að halda. Ef ástand hans hefði verið mjög slæmt hefði hann ekki getað dvalist lengi í Lönguhlíðinni þar sem einungs almenna aðstoð væri að fá.

Í yfirmatsgerð frá 7. desember 2014 komast þrír matsmenn að þeirri niðurstöðu að vafi leiki á um hvort hinn látni hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskrárinnar frá 2008 en hann hafi verið alls ófær um að taka ákvarðanir vegna fjármála sinna og ekki getað haft frumkvæði að gerð erfðaskrárinnar frá 2011 né getað gert sér grein fyrir efni hennar. Matsmennirnir komu fyrir dóminn og staðfestu matsgerðina. Í framburði J kom fram að matsmenn hefðu haft rafræn og skrifleg gögn til hliðsjónar matinu. Tekin hefðu verið upp í matsgerðina þau gögn sem matsmenn töldu skipta máli. Byggi matið á gögnum yfir margra ára tímabil. Hún tók fram að F hafi á árinu 2010 fengið greininguna fjöldrepa vitglöp, þ.e. heilabilun vegna heilaáfalla. Eftir það megi draga þá ályktun að heilsu hans hraki enn frekar. Gögn málsins bendi til þess að um mjög veikan mann hafi verið að ræða. Sé því nánast útilokað að hann hafi haft heilsu til að gera erfðaskrána frá 2011. Í framburði L kom fram að ef fólk greindist með heilabilun væri leiðin aðeins niður á við. Ekki væri unnt að segja með vissu að heilsufar F hefði verið orðið það slæmt að hann hefði getað gert erfðaskrána frá 2008 með réttu ráði. En vafi væri á því. Í framburði K kom fram að mismunandi skor í MMSE-prófum megi útskýra með því að heilsufar F hafi verið misjafnt er prófin hafi verið tekin. Þá gerði hún grein fyrir hjúkrunargreiningum sem lágu til grundvallar matsgerðinni. Þar sé farið yfir fleiri þætti en í minnisprófi. Fyrst hefði F verið greindur með skert minni en síðar skert hugsunarferli frá janúar 2008. Frá því sé þróunin alltaf niður á við. Hún vísaði til þess að af gögnum málsins mætti ráða að hann hefði haft góðan „front“. Því væri mögulegt að jafnvel fagmenn gætu ekki áttað sig á heilabilun hans við fyrstu kynni.

Fyrir dómi gáfu skýrslur, auk framangreindra arfleiðsluvotta og matsmanna, sóknaraðilarnir A og B, systur hins látna. Enn fremur sonur A og sonur O systur þeirra en O er einn lögerfingja. Þá gaf skýrslu sambýliskona sama sonar A Þrjú börn E gáfu skýrslu, vinkona E, tveir fyrrverandi eiginmenn hennar og fyrrverandi tengdamóðir. Framburði þessara aðila og vitna má skipta í tvennt, þ.e. eftir því hvort skýrslugjafi var aðili eða tengdur aðila. Þannig bera sóknaraðilar og skýrslugjafar þeim tengdir að andlegt ástand F hafi verið mjög bágborið síðustu árin og hann í engu standi til að hafa frumkvæði að gerð erfðaskrár. Aðilar tengdir E bera hins vegar að F hafi, þrátt fyrir heilsubrest, verið vel áttaður. Það er sammerkt með þessum aðilum og vitnum að þeir virtust ekki hafa verið í daglegu sambandi við F og sum vitnanna hittu hann einungis í fjölskylduboðum eða á förnum vegi. Að mati dómsins verður af framburði þessara aðila og vitna ekki fullyrt um andlegt ástand F er hann undirritaði hinar umdeildu erfðaskrár. Í því samhengi er óhjákvæmilegt að líta til þess að um skýrslur aðila málsins er að ræða og fólks því nátengdu. Þannig liggur ekki fyrir í málinu framburður óvilhalls vitnis, t.d. hjúkrunarfólks eða annarra sem umgengust hins látna reglulega, um andlegt ástand hans hin síðar ár.

  Við úrlausn um andlegt hæfi F til að gera hinar umdeildu erfðaskrár verður litið heildstætt til þess, sem fram er komið og rakið er hér að framan. Af því skiptir framburður arfleiðsluvottanna M og N miklu máli en þau bera bæði að F hafi verið skýr um þann vilja sinn að arfleiða E stjúpdóttur sína að eignum sínum. Þá verður að telja að sú ráðstöfun F, að arfleiða E, sé, með hliðsjón af nánum tengslum þeirra, skynsamleg í skilningi 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Enn fremur er til þess að líta að þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að E hafi eftir gerð síðari erfðaskrárinnar farið með eignir hins látna eins og þær væru hennar eigin þá hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að hún hafi haft aðkomu að gerð erfðaskrárinnar. Þannig bar arfleiðsluvotturinn M að F hefði haft símsamband við hann í því skyni að gera nýja erfðaskrá og báru báðir arfleiðsluvottar að F hafi verið einn er hann undirritaði erfðaskrána.

Matsgerðir komast báðar að þeirri niðurstöðu að F hafi verið haldinn vitrænni skerðingu vegna blóðrásarskerðingar í heila en greinir á um afleiðingar þess, þ.e. að hvaða marki vitræn skerðing hafi haft áhrif á arfleiðsluhæfi. Mælingar á vitrænni getu benda til þess að hann hafi að jafnaði verið haldinn vægri heilabilun (MMSE-verkefnið gefur meira en 20 stig) nema í alvarlegri veikindum og kemur þetta fram í báðum matsgerðum. Hann hefur því verið með breytilega vitræna getu eftir því hvernig heilsu hans hefur verið háttað að öðru leyti. Í liðlega ár áður en seinni erfðaskrá er gerð eru nánast engar upplýsingar skráðar um heilsufar hans en á þeim tíma bjó hann í íbúð þar sem hann þurfti að geta séð um sig sjálfur að einhverju leyti. Ekki er þess heldur getið að frá gerð fyrri erfðaskrár til hinnar síðari hafi einhver frekari blóðrásartruflun orðið og má því leiða líkur að því að ástandið hafi á þessum tíma lítið breyst og er það í samræmi við eðli þessa ástands. Að mati dómsins sker fyrirliggjandi yfirmatsgerð ekki úr þeim vafa sem uppi er í málinu um arfleiðsluhæfi F.

                Með vísan til þessa er það niðurstaða dómsins að sóknaraðilar hafi ekki sannað að vitræn skerðing F hafi verið orðin það mikil 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011 að hann hafi verið óhæfur til að gera erfðaskrá með skynsamlegum hætti. Er því kröfu sóknaraðila um ógildingu erfðaskránna hafnað.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð sem dómsformaður, ásamt Hólmfríði Grímsdóttur héraðsdómara og Jóni Snædal öldrunarlækni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, B, dánarbús D, A og C, um að erfðaskrár F frá 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011 verði metnar ógildar og að við skiptin á dánarbúi hans skuli erfðaskrá hans frá 17. ágúst 1988 lögð til grundvallar.

Málskostnaður fellur niður.