Hæstiréttur íslands
Mál nr. 319/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Þriðjudaginn 24. maí 2011. |
|
Nr. 319/2011. |
Ákæruvaldið (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (sjálfur) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Ekki var fallist á kröfu X um að dómari í sakamáli viki sæti á grundvelli g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Arngrímur Ísberg héraðsdómari viki sæti í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að dómarinn víki sæti í málinu.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Málið var þingfest í héraði 8. febrúar 2011 og þá meðal annars lögð fram ákæra og skjalaskrá af hálfu ákæruvaldsins. Málið var næst tekið fyrir 10. mars sama ár. Þá lagði ákærði fram greinargerð og síðan var bókað að dómari leggi fram ljósmynd og að ákærði kveði hana vera af sér fyrir framan bandaríska sendiráðið. Eru tildrög að framlagningu þessarar ljósmyndar og umfjöllun um hana í þinghaldinu 10. mars rakin í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 aflar ákærandi sönnunargagna en ákærði getur einnig aflað sönnunargagna telji hann ástæðu til þess. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er dómara rétt, eftir því sem hann telur nauðsynlegt til að upplýsa mál eða skýra það, að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði þess. Það er hins vegar hvorki hlutverk dómara að afla sjálfur gagna í sakamálum né leggja þau fram. Í greinargerð ákærða til Hæstaréttar kemur fram að enginn ágreiningur sé uppi í málinu um hvar hann stóð og séu aðilar málsins sammála um hvar ætlað brot hafi átt sér stað. Því verður ekki séð að framlagning umræddrar ljósmyndar skipti neinu varðandi sönnun um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök. Veldur framlagning héraðsdómara á ljósmyndinni því ekki vanhæfi hans, enda þótt hún hafi ekki verið í samræmi við það hlutverk sem honum er ætlað samkvæmt framansögðu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2011.
Með ákæru 18. janúar 2011 var höfðað sakamál á hendur ákærða og honum gefið að sök að hafa neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna 4. nóvember 2010. Við þingfestingu neitaði ákærði að tjá sig um málið en kvaðst ætla að verja sig sjálfur. Í þinghaldi 10. mars skilaði ákærði greinargerð og gerði þá þessar kröfur:
1. „ að málinu verði vísað frá,
2. sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins,
3. að dómurinn verði fjölskipaður
4. að kallaður verði til hlutlaus matsaðili sem leggur mat á öryggi vettvangsins og aðgerðir lögreglunnar með tilliti til öryggissjónarmiða,
5. afrits úr eftirlitsmyndavélum við Laufásveg umræddan dag,
6. að ákærði sæti geðrannsókn,
7. afdráttarlausrar afsökunarbeiðni af hendi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.“
Flutningur um frávísunarkröfuna hafði verið ákveðinn 6. maí en var frestað vegna forfalla dómarans til 16. maí. Í þinghaldi þann dag krafðist ákærði þess að dómarinn viki sæti. Til stuðnings kröfu sinni vísar ákærði til g-liðar 6. gr. laga nr. 88/2008. Sækjandi málsins krefst þess að kröfu ákærða verði hafnað.
Í fyrsta lagi byggir ákærði kröfuna á því að dómarinn hafi ítrekað sagt honum að hann mætti ekki tala um neitt annað en það sem fram komi í ákærunni. Þetta er rétt þótt það sé ekki bókað í þingbók. Við þingfestingu var ákærði mjög málglaður og fór víða í tali sínu. Fannst dómaranum hann lítt vilja fjalla um ákæruna og benti honum á að fjalla um það sem hann væri ákærður fyrir, enda ætti dómarinn ekki að dæma um annað. Skipaðist ákærði ekki mikið við það í þessu þinghaldi, en í síðari þinghöldum hefur hann verið málefnalegri. Þetta sem nú var rakið er liður í stjórn dómarans á þinghaldinu, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 88/2008 og veldur ekki vanhæfi hans.
Í öðru lagi byggir ákærði á því að dómarinn hafi hafnað kröfu hans um matsgerð á vettvangi hins meinta glæps eins og hann orðar það. Það er rétt hjá ákærða að dómarinn lét þau orð falla við þingfestingu málsins að hann teldi enga þörf á matsgerð í málinu. Það veldur ekki vanhæfi dómarans þótt hann hafi þessa skoðun og hafi látið hana í ljós, enda er það liður í því að leiðbeina ákærða, sbr. 29. gr. nefndra laga.
Í þriðja lagi byggir ákærði á því að dómarinn hafi hafnað kröfu hans um aðgang að upptökum úr öryggismyndavélum á vettvangi. Dómarinn verður að viðurkenna að hann man ekki vel hvað hann sagði um þetta atriði. Líklegast er að hann hafi talið upptökurnar jafnóþarfar og matsgerðina og bent ákærða á það. Jafnframt mun dómarinn hafa minnt ákærða á fyrir hvað hann væri ákærður og bent honum á að málið snerist um það og verkefni dómarans væri að leysa úr því hvort hann væri sekur eða saklaus og annað ekki.
Í fjórða lagi byggir ákærði á því að dómarinn hafi aflað sönnunargagns og lagt það fram. Þetta er rétt. Dómarinn fann á netinu mynd af ákærða á tali við lögreglumenn fyrir framan bandaríska sendiráðið. Hann prentaði hana út og lagði fram í þinghaldi 10. mars. Jafnframt var ákærði spurður hvort þetta væri hann og hvort myndin væri tekin 4. nóvember. Ákærði kannaðist við að myndin væri af sér en mundi ekki eftir því hvort hún væri tekin þennan dag. Hann hefði hins vegar staðið á sama stað og myndin sýnir þegar hann var handtekinn 4. nóvember 2010. Ef til vill hefði verið réttara af dómaranum að beina því til ákæruvaldsins að prenta út myndina og leggja hana fram en það getur á engan hátt valdið vanhæfi dómarans þótt hann hafi gert það sjálfur.
Samkvæmt öllu framansögðu eru engin rök til þess að dómarinn víki sæti og er kröfu ákærða um það hafnað.
Arngrímur Ísberg kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari víkur ekki sæti.