Hæstiréttur íslands

Mál nr. 447/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Þriðjudaginn 26. ágúst 2014.

Nr. 447/2014.

 

Helgi Ólafsson

(Grímur Sigurðarson hrl.)

gegn

Íllgili ehf. og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni V hf. um að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að svara ellefu spurningum í máli sem H höfðaði á hendur V hf. og Í ehf. Í dómi Hæstaréttar var hinn kærði úrskurður staðfestur að öðru leyti en því að hinum dómkvöddu matsmönnum var ekki gert að svara elleftu spurningu í matsbeiðni V hf. þar sem hún var talin sama efnis og dómkvöddum matsmönnum hafði verið fengið að svara á grundvelli matsbeiðni H sem héraðsdómur hafði áður fallist á.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2014 þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðilans Vátryggingafélags Íslands hf. um dómkvaðningu matsmanna í máli sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreindri beiðni verði hafnað en til vara að synjað verði um dómkvaðningu matsmanna til að svara 10. og 11. spurningu í beiðninni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er ágreiningur með aðilum um hvort sóknaraðili hafi orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni 7. september 2011 er bifreið í eigu varnaraðilans Íllgils ehf. var ekið aftan á bifreið sem sóknaraðili ók. Halda varnaraðilar því meðal annars fram að áreksturinn hafi ekki verið svo harður að sóknaraðili hefði getað orðið fyrir slíku tjóni.

Málið var höfðað 4. nóvember 2013 og í þinghaldi 21. mars 2014 var tekin fyrir beiðni varnaraðilans Vátryggingafélags Íslands hf. um að dómkvaddir yrðu tveir menn, annars vegar verkfræðingur eða eðlisfræðingur og hins vegar læknir, til að meta „á hvaða hraða bifreiðin SB-178 var þegar hún ók aftan á OZ-D61 ... Einnig hvaða kraftar hafi verkað á matsþola sem var ökumaður bifreiðarinnar OZ-D61 við ákomuna og hvort varanlegt líkamstjón á hálsi og baki geti verið afleiðing af slíkri ákomu.“ Var bókað eftir varnaraðilum að óskað væri eftir að „verkfræðingurinn sé fenginn til að meta hraðann og læknirinn að meta líkamstjónið.“ Sóknaraðili andmælti matsbeiðninni en lagði jafnframt sjálfur fram slíka beiðni. Í henni sagði að með matinu hygðist sóknaraðili sanna „að hann hafi orðið fyrir tímabundnu og varanlegu líkamstjóni í umferðarslysinu þann 7. september 2011.“ Var málinu frestað til 27. maí 2014. Í þinghaldi 25. apríl 2014 voru dómkvaddir tveir matsmenn, læknir og lögfræðingur, í samræmi við matsbeiðni sóknaraðila. Áður en kom að fyrirtöku málsins 27. maí sama ár hafði annar dómari fengið það til meðferðar og var ágreiningur um matsbeiðni varnaraðilans Vátryggingafélags Íslands hf. tekinn til úrskurðar í því þinghaldi. Með hinum kærða úrskurði var fallist á að umbeðin dómkvaðning skyldi fara fram.

II

Með matsbeiðni sinni kveðst varnaraðilinn Vátryggingafélag Íslands hf. vilja fá svör við því hvort orsakasamband sé milli atviksins 7. september 2011 og þeirra einkenna sem sóknaraðili búi nú við. Matsspurningar eru ellefu talsins og lúta fyrstu níu þeirra að mati á hraða bifreiðanna er árekstur varð og hvernig þyngdarkraftur hafi verkað á sóknaraðila við áreksturinn. Með 10. spurningu er óskað eftir áliti á því hvort unnt sé á grundvelli læknisfræðilegra gagna og svara við fyrri matsspurningum að fullyrða „að líkamseinkenni frá hálsi og baki sem matsþoli kveðst haldinn í dag séu afleiðing umferðaróhappsins þann 7. september 2011.“ Þá er með 11. spurningu  óskað mats á atriðum, sem varða miska og örorku sóknaraðila, telji matsmenn „unnt að fullyrða að líkamseinkenni sem hrjá matsþola í dag séu afleiðing umferðaróhappsins“. 

Í lögum nr. 91/1991 eru ekki sérstaklega lagðar hömlur við því að dómkvaddir verði menn til að leggja mat á atriði, sem matsgerðar hefur áður verið aflað um. Enn síður er girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem taki að nokkru eða öllu til annarra atriða en sú fyrri, enda sé ekki svo ástatt, sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 30. ágúst 2000 í máli nr. 291/2000. Eins og að framan segir lúta fyrstu tíu spurningar í matsbeiðni varnaraðilans Vátryggingafélags Íslands hf. að öðrum atriðum en greinir í matsbeiðni sóknaraðila. Samkvæmt því og með vísan til þeirra sjónarmiða, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, er fallist á að lög standi því ekki í vegi að varnaraðilinn fái aflað mats til svara við þeim spurningum. Á hinn bóginn er til þess að líta að síðasta spurningin í matsbeiðninni er sama efnis og dómkvaddir menn hafa þegar verið fengnir til að fjalla um á grundvelli matsbeiðni sóknaraðila. Það mat hefur ekki enn farið fram en varnaraðilar eiga þess kost að koma að athugasemdum sínum við framkvæmd þess, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991, og geta eftir atvikum krafist yfirmats samkvæmt 64. gr. laganna. Að þessu virtu og með hliðsjón af 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki talið að varnaraðilanum Vátryggingafélagi Íslands hf. sé heimilt á þessu stigi máls að fá dómkvadda menn til að meta sömu atriði og þegar eru til mats samkvæmt matsbeiðni sóknaraðila.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur að öðru leyti en því að hinum dómkvöddu matsmönnum verður ekki gert að svara 11. spurningu í matsbeiðni varnaraðilans Vátryggingafélags Íslands hf. 

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að hinum dómkvöddu matsmönnum skal ekki gert að svara 11. spurningu í matsbeiðni varnaraðilans Vátryggingafélags Íslands hf. 

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2014.

Mál þetta var höfðað 4. nóvember 2013. Þann 27. maí sl. var það tekið til úrskurðar vegna ágreinings um dómkvaðningu matsmanns eftir að munnlegur málflutningur hafði farið fram.

Í þinghaldi þann 21. mars sl. lagði lögmaður stefnda Vátryggingafélag Íslands hf., fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Lögmaður stefnanda mótmælti og var málið tekið til úrskurðar skv. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

Við munnlegan málflutning þann 27. maí sl. var þess krafist af hálfu stefnanda að hafnað yrði beiðni stefnda um dómkvaðningu matsmanns. Til vara krafðist stefnandi þess að dómari hafnaði að dómkveðja matsmenn til að svara spurningum nr. 10 og 11 í matsbeiðni stefnda. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar.

Stefnandi bendir á að nú þegar hafi hann fengið dómkvadda matsmenn til að meta hluta af þeim spurningum sem stefndi fer fram á að verði svarað í sinni matsbeiðni. Stefnandi telur að ekki sé á færi tilgreindra matsmanna, þ.e. læknis og verk- eða eðlisfræðings, að leggja mat á þau atriði sem óskað er eftir í matsbeiðninni. Verkfræðingur eða eðlisfræðingur geti ekki metið líkamstjón og læknir geti ekki metið hraða og þyngdarkraft. Með þessu sé stefndi farinn út fyrir það sem lög heimila þar sem segir að einungis megi dómkveðja þann sem er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hafi kunnáttu og vísist í þessu sambandi til 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Telur stefnandi að stefnda hafi borið að tilgreina sérstaklega hvaða spurningum, annars vegar læknir eigi að svara og hins vegar verkfræðingur eða eðlisfræðingur eigi að svara. Þar sem það sé ekki gert megi ætla að matsmönnum sé gert að framkvæma mat án tilskilinnar kunnáttu.

Af hálfu stefnda er þess krafist að beiðni um mat nái fram að ganga og að kröfu stefnanda verði hafnað. Telur stefndi að það að læknir og eðlis- eða verkfræðingur framkvæmi matið sé ekki frábrugðið því að óskað sé eftir að læknir og lögfræðingur meti líkamstjón skv. skaðabótalögum. Þá telur stefndi enga vera betur til þess fallna til að svara matsspurningunum en lækni og eðlis- eða verkfræðing. Meta eigi atburðarás og sýna fram á hversu mikill kraftur leysist úr læðingi við umferðarslys, hvort líklegt sé að slíkur kraftur hafi varanleg áhrif á líkama sem verður fyrir kraftinum og þá hvaða áhrif. Það þurfi tvo matsmenn til að svara þessum spurningum sem séu í augljósu samhengi við sakarefnið. Einnig bendir stefndi á að það sé ekki svo að verkfræðingurinn svari spurningum einn og sér heldur eigi matsmenn að standa saman að því að svara matsspurningum og sérfræðiþekking hvors um sig muni nýtast við að svara öllum spurningunum. Stefndi bendir á að skilyrði matsgerðar séu fyrir hendi og ekki sé hægt að fullyrða að matsgerðin sé tilgangslaus til sönnunar. Forræði fyrir sönnunarfærslunni sé aðilanna hvors um sig og annar aðilinn fái ekki að íhlutast um sönnunarfærslu hins. Kostnaður matsgerðar sé hjá matsbeiðanda sem og áhættan af því hvort litið verði til matsgerðarinnar eða ekki. Sönnunarmat dómara sé frjálst og leggi hann því mat á sönnunargildi matsgerðarinnar.

Málavextir eru í stuttu máli þeir að stefnandi lenti í umferðarslysi þann 7. september 2011 þegar bifreið í eigu stefnda Íllgils ehf., var ekið aftan á bifreið sem stefnandi ók. Stefnandi leitaði stuttu síðar á slysa- og bráðadeild Landspítalans þar sem hann var greindur með með tognun á háls- og lendarhrygg. Stefnandi hefur í kjölfar slyssins leitað endurtekið læknisaðstoðar og samkvæmt vottorði dags 18. desember 2012 var ástand hans metið af lækninum Sigurjóni Sigurðssyni kom þar fram að þrátt fyrir ýmis konar meðferðir hafi hann enn rúmu ári eftir slysið einkenni sem hái honum í daglegu lífi. Stefnandi tilkynnti um slysið til stefnda, Vátryggingarfélags Íslands hf. Með bréfi dags 6. október 2011 hafnaði stefndi bótaskyldu á þeim grunni að orsakatengsl milli slyssins og áverka stefnanda væru ósönnuð. Stefnandi höfðaði þá mál þetta með birtingu stefnu þann 4. nóvember 2013. 

Stefndi byggir málatilbúnað sinn í meginatriðum á því að við slysið þann 7. september 2011 hafi hann orðið fyrir líkamstjóni sem stefndi, Íllgil ehf., beri skaðabótaskyldu á sem eigandi bifreiðarinnar sem var tryggð hjá sóknaraðila Vátryggingafélag Íslands hf.

Í matsbeiðni stefnda er málavöxtum lýst stuttlega og óskað skriflegs og rökstudds álits á eftirfarandi spurningum:

1.       Hver var líklegasti hraði bifreiðarinnar SB-178 er hún rakst aftan á bifreiðina OZ-D61 á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

2.       Hver var minnsti líklegi hraði bifreiðarinnar SB-178  er hún rakst aftan á bifreiðina OZ-D61 á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

3.       Hver var mesti líklegi hraði bifreiðarinnar SB-178 er hún rakst aftan á bifreiðina OZ-D61 á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

4.       Hver var líklegasti hraði bifreiðarinnar OZ-D61 er bifreiðin SB-178 rakst aftan á hana á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

5.       Hver var minnsti líklegi hraði bifreiðarinnar OZ-D61 er bifreiðin SB-178 rakst aftan á hana á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

6.       ver var mesti líklegi hraði bifreiðarinnar OZ-D61 er bifreiðin SB-178 rakst aftan á hana á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

7.       Hvaða þyngdarkraftur er líklegastur til að hafa verkað á matsþola sem ökumann bifreiðarinnar OZ-D61 er bifreiðin SB-178 rakst aftan á hana á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

8.       Hver er minnsti þyngdarkraftur sem líklegt er að hafi verkað á matsþola sem ökumann bifreiðarinnar OZD-61 er bifreiðin SB-178 rakst aftan á hana á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

9.      Hver er mesti þyngdarkraftur sem líklegt er að hafi verkað á matsþola sem ökumann bifreiðarinnar OZ-D61 er bifreiðin SB-178 rakst aftan á hana á Smiðjuvegi í Kópavogi þann 7. september 2011.

10.    Hvort unnt sé að fullyrða á grundvelli læknisfræðilegra gagna og niðurstöðu matsspurninga 1-9 að líkamseinkenni frá hálsi og baki sem matsþoli kveðst haldin  í dag séu afleiðing umferðaróhappsins þann 7. september 2011.

11.    Ef matsmenn telja unnt að fullyrða að líkamseinkenni sem hrjá matsþola í dag séu afleiðing umferðaróhappsins þann 7. september 2011 er þess farið á leit að matsmenn meti eftirfarandi:

                            a)     Hvaða læknisfræðilega áverka, andlega og líkamlega, hlaut matsþoli í umferðaróhappinu þann 7. september 2011?

                            b)     Hvenær var stöðuleikapunkti eftir óhappið náð?

                            c)     Hvenær var fyrst tímabært að meta afleiðingar óhappsins?

                            d)     Hvert er tímabundið atvinnutjón stefnanda, skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

                            e)     Hvert er tímabil þjáningabóta stefnanda, skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

                             f)     Hver er varanlegur miski stefnanda, skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

                            g)     Hver er varanleg örorka stefnanda, skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

Þá segir í matsgerðinni að matsbeiðandi telji nauðsynlegt að fá upplýsingar um það á hvaða hraða bifreiðarnar voru og hvaða þyngdarkraftar hafi verkað á matsþola. Einnig hvort slíkir kraftar séu líklegir til að valda því varanlega líkamstjóni sem matsþoli hefur lýst. Matsbeiðandi telur nauðsynlegt að fá upplýsingar um það hvort orsakatengsl séu á milli óhappsins og þeirra einkenna sem matsþoli hefur lýst.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á aðili máls rétt á því að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann telur málstað sínum til framdráttar og er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæðum laga nr. 91/1991. Ber dómara þannig almennt að verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða beiðnin beinist að atriði, sem ekki heyrir undir matsmann að fjalla um, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Einnig ber dómara að dómkveðja einungis þann sem er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hafi til þess viðhlítandi kunnáttu sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Um þessi atriði vísast m.a. til dóma Hæstaréttar 3. maí 2007 í máli nr. 209/2007, 15. nóvember 2007 í máli nr. 566/2007 og 8. desember 2011 í máli nr. 619/2011.

Ágreiningurinn lýtur að því hvort matsbeiðni stefnda, að virtum þeim matsspurningum sem þar eru tilgreindar, skuli hafnað þar sem tilgreindir matsmenn séu ekki hæfir til að svara spurningum í matsbeiðninni. Telur stefnandi að verkfræðingur eða eðlisfræðingur geti ekki metið líkamstjón og læknir geti ekki metið hraða og þyngdarkraft. Einnig hefur stefnandi bent á að nú þegar hafi hann fengið dómkvadda matsmenn til að meta hluta af þeim spurningum sem stefndi fer fram á að verði svarað í sinni matsbeiðni.

Þótt fallast megi á það með stefnanda að spurningar, sem stefndi vill leggja fyrir matsmenn samkvæmt matsbeiðni, sem lögð var fram 21. mars sl., snúi í ýmsu að sömu atriðum og matsbeiðni stefnanda sem lögð var fram í sama þinghaldi þann 21. mars sl. og dómkvaddir matsmenn hafa nú þegar verið fengnir til að fjalla um, verður að gæta að því að í lögum nr. 91/1991 eru ekki lagðar sérstakar hömlur við því að dómkvaddur verði maður til að meta atriði, sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um.

Varðandi sérþekkingu matsmanna ber að geta að matsspurningar eru í sjálfu sér ekki óljósar og fer ekki milli mála hvers óskað er. Að mati dómsins er þó ljóst að það er fyrst og fremst á færi þeirra sem hafa sérþekkingu að leggja mat á eða gera tilraun til að leggja mat á þessi atriði. Í lögunum kemur jafnframt fram sbr. 66. gr. að dómari leggur mat á sönnunargildi matsgerðar þegar leyst er úr máli ásamt því að meta hvort einhverjir þeir brestir kunni að vera á þekkingu matsmanna á matsefninu, sem áhrif hafi á gildi hennar. Verður stefnda ekki meinað að láta reyna á dómkvaðningu matsmanns í þessu skyni enda ljóst að hann ber hallann af því ef sönnunargildi matsins reynist takmarkað eða ef því er af öðrum ástæðum ábótavant. Ekki verður fullyrt á þessu stigi að bersýnilegt sé að matsgerð, samkvæmt beiðni stefnda, skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, né heldur að spurningar 10 og 11 í matsbeiðni séu þess eðlis að dómara beri að hafna þeim. Af notagildi matsgerðar til sönnunar verður stefndi að bera áhættu, samhliða kostnaði af öflun hennar. Að þessu athuguðu eru ekki skilyrði til að meina stefnda að afla matsgerðar um þau atriði, sem greinir í umræddri beiðni hans. Ber því að fallast á kröfu stefnda um dómkvaðningu matsmanns á grundvelli matsbeiðni þeirrar sem lögð var fram í þinghaldi 21. mars sl.

Rétt er að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í málinu.

Guðfinnur Stefánsson settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Umbeðin dómkvaðning matsmanna skal fara fram.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.