Hæstiréttur íslands

Mál nr. 419/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                                                              

Mánudaginn 25. ágúst 2014.

Nr. 419/2014.

Fjordblink Swimming Pools AS

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Ólafi Jóhannssyni og

Vilberg heildverslun ehf.

(Reimar Pétursson hrl.)

Kærumál. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.

F kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli félagsins gegn Ó og V var vísað frá dómi á þeirri forsendu að málið hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ákvæði 1. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hefðu að geyma heimild til að víkja frá grunnreglum 32. og 33. gr. sömu laga um að mál verði höfðað á heimilisvarnarþingi stefnda, yrði að skýra samkvæmt orðanna hljóðan. Var fallist á það með héraðsdómi að F hefði ekki sýnt fram á að skilyrðum ákvæðanna væri fullnægt í málinu og hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2014 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 3. apríl 2003 í máli nr. 371/2002 veita ákvæði 1. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 heimild til að víkja frá grunnreglum 32. gr. og 33. gr. sömu laga um að mál verði höfðað á heimilisvarnarþingi stefnda, og verður að skýra ákvæðin eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt því og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2014.

Mál þetta er höfðað af Fjordblink Swimming Pools A/S, á hendur Ólafi Jóhannssyni, Þrastarlundi 10, Garðabæ, aðallega, en til vara á hendur Vilberg heildverslun ehf., einnig til heimilis að Þrastarlundi 10, með stefnu birtri 21. nóvember 2012.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi, Ólafur Jóhannsson, verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 620.783,40 danskar krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. janúar 2011 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Vilberg heildverslun ehf., verði dæmdur til greiðslu 620.783,40 danskra króna, ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. janúar 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Bæði aðalstefndi og varastefndi krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast þeir þess að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur hans verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað og að aðalstefnda og varastefnda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins vegna þessa þáttar málsins.

Málavextir

Stefnandi kveðst framleiða sundlaugar og setlaugar og allt sem þeim tilheyri. Byggir hann kröfu sína á samningi um vörukaup, dags. 6. maí 2009, en af honum verður helst ráðið að um sé að ræða vörur samkvæmt sérstökum lista sem sendur hafi verið 30. apríl 2009. Þá kemur og fram að kaupverð sé samtals 2.095.495,60 danskar krónur. Undir samninginn ritar Henning Børgesen af hálfu stefnanda. Undir samninginn er og vélritað nafnið Vifilberg og undir það hefur ritað aðalstefndi, Ólafur Jóhannsson. Fyrir aftan nafnið Vifilberg eru og handskrifuð orðin: „subjected to our agreement“. Loks er stimplað neðst undir framangreint „Vífilberg hf. Hlíðarsmára 9 – 201 Kópavogur“. Auk þess koma þar fram síma- og faxnúmer og netslóðin www.vifilberg.is.

Hvorugur stefndu mætti við þingfestingu málsins 27. nóvember 2012 og var það því tekið til dóms í því þinghaldi, með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og það dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda, að því leyti sem það væri samrýmanlegt fram komnum gögnum. Var kveðinn upp dómur í málinu hinn 8. október 2013 og var aðalstefnda með honum gert að greiða stefnanda stefnukröfur málsins, 620.783,40 danskar krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 3. janúar 2011 til greiðsludags, auk 112.820 króna í málskostnað. Í kjölfar þess að aðalstefnda urðu kunn úrslit málsins óskaði hann eftir endurupptöku þess, með bréfi til dómsins, dags. 17. október 2013. Við fyrirtöku vegna endurupptökubeiðninnar hinn 22. nóvember sama ár var málið endurupptekið, með vísan til samþykkis stefnanda fyrir endurupptökunni.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi vísar til þess að með samningnum hafi orðið til gagnkvæmt kröfuréttarsamband milli aðila málsins þess efnis að stefnandi skyldi selja aðalstefnda, eða eftir atvikum varastefnda, tilgreindar vörur en fyrir það hafi aðalstefndi, eða eftir atvikum varastefndi, átt að greiða 2.095.495 danskar krónur. Stefnandi hafi afhent vöruna og efnt þar með sinn hluta samningsins en aðalstefndi, eða eftir atvikum varastefndi, hafi aðeins greitt hluta af umsömdu endurgjaldi og því vanefnt sinn hluta samningsins. Byggist krafan því á framangreindum samningi aðila, en einnig fyrirliggjandi reikningsyfirliti og reikningum. Sé í því sambandi vísað til reglna samninga- og kröfuréttar um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum, en regla um efndaskyldu fái meðal annars lagastoð í 45. og 51. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Málsástæður og lagarök aðalstefnda og varastefnda vegna frávísunarkröfu

Á því sé byggt að málið hafi verið höfðað á röngu varnarþingi. Í stefnu sé vísað til ákvæða 32. gr. og 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 varðandi varnarþing, en í þessum ákvæðum sé kveðið á um svokallað heimilisvarnarþing. Óumdeilt sé að aðalstefndi sé með lögheimili að Þrastarlundi 10, Garðabæ, enda sé það heimilisfang tilgreint í stefnu og stefna málsins hafi verið birt þar. Þá sé varastefndi með skráð lögheimili og starfstöð að Hlíðarsmára 9, Kópavogi, og hafi það heimilisfang verið tilgreint í stefnu. Loks sé mótmælt þeirri staðhæfingu stefnanda að umræddar vörur hafi verið afhentar erlendis með þeim hætti sem segi í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því, og þar sem stefnandi vísi í stefnu einungis til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 91/1991 um heimilisvarnarþing, falli mál þetta undir umdæmi Héraðsdóms Reykjaness, sbr. 8. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Beri því að vísa málinu frá dómi skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnanda vegna frávísunarkröfu

Stefnandi vísar til þess að mál þetta sé höfðað við þennan dómstól með heimild í 3. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991, þar sem lögmaður stefnanda, sem innheimtuaðili kröfu stefnanda, hafi starfsstöð í Reykjavík. Þar sem mál þetta snúist um skuld vegna kaupa á vörum sem afhentar hafi verið í Danmörku sé heimilt að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Engu breyti í þessu tilliti þótt ekki sé vísað til framangreindrar lagaheimildar í stefnu, enda sé ekki áskilnaður um það í lögum nr. 91/1991 að tilgreint sé í stefnu á hvaða varnarþingsreglu laganna málshöfðun sé byggð.

Niðurstaða

Eins og fyrr segir vísar stefnandi í stefnu til ákvæða 1. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings því að sækja mál þetta hér fyrir dómi, en byggir nú eingöngu á því að honum sé heimilt að höfða mál þetta með stoð í 3. mgr. 36. gr. sömu laga, enda er óumdeilt að bæði aðalstefndi og varastefndi áttu lögheimili utan Reykjavíkur við birtingu stefnunnar.  

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 segir að sækja megi mál til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu, sem hefur verið fengin eða þegin í verslun eða annarri fastri starfsstöð, í þeirri þinghá þar sem verslunin eða starfstöðin er ef það er atvinna upphaflega skuldareigandans að láta slíka vöru eða þjónustu í té. Ef vara eða þjónusta hefur verið látin á þennan hátt í té erlendis er heimilað í 3. mgr. sömu lagagreinar að mál til greiðslu andvirðis hennar verði höfðað í þinghá þar sem sá sem hefur kröfuna til innheimtu hér á landi hefur starfstöð, enda hafi hann skuldheimtu að atvinnu. Ekki er um það deilt að stefnandi hafi við birtingu stefnu haft starfsstöð í Danmörku og að sala þeirrar vöru sem hann kveðst hafa selt aðalstefnda, eða eftir atvikum varastefnda, hafi verið hluti af hans atvinnustarfsemi. Hins vegar kemur ekkert fram um það í stefnu, eða verður það ráðið af öðrum gögnum málsins, hvar varan hafi verið afhent. Gegn mótmælum stefndu verður stefnandi ekki talinn hafa sýnt fram á að hin selda vara hafi verið afhent í Danmörku. Samkvæmt því var ekki heimild fyrir því í 3. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 að höfða mál þetta í þeirri þinghá þar sem lögmaður stefnanda hefur starfstöð. Verður því fallist á kröfu aðalstefnda og varastefnda um að málinu verði vísað frá dómi.

Stefnandi greiði aðalstefnda og varastefnda hvorum um sig 250.000 krónur í málskostnað.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Fjordblink Swimming Pools A/S, greiði aðalstefnda, Ólafi Jóhannssyni,

og varastefnda, Vilberg heildverslun ehf., hvorum um sig 250.000 krónur í málskostnað.