Hæstiréttur íslands
Mál nr. 372/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Eignardómsmál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 6. október 2000. |
|
Nr. 372/2000. |
Kristján Jónsson og Sverrir Jónsson (Sigurður Jónsson hrl.) gegn Guðmundi Birgissyni Steinunni Tómasdóttur (Lárus L. Blöndal hrl.) Orkuveitu Reykjavíkur og (Hjörleifur Kvaran hrl.) íslenska ríkinu (Sigrún Guðmundsdóttir hrl.) |
Kærumál. Eignardómsmál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
S og K höfðuðu eignardómsmál til viðurkenningar á rétti þeirra að landsspildu á Hellisheiði. Krafist var frávísunar meðal annars á grundvelli þess að óheimilt hefði verið að höfða málið sem eignardómsmál samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnukröfum í málinu var beint gegn þremur aðilum, en auk þess var stefna birt í Lögbirtingablaði. Því var talið ljóst að S og K hefði verið fullkunnugt um að hverjum þeir gátu beint kröfum sínum og að ekki væru skilyrði til þess að reka málið sem eignardómsmál eftir sérreglum XVIII. kafla laga nr. 91/1991. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. október sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. september 2000, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Guðmundur Birgisson og Steinunn Tómasdóttir krefjast að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðilinn Orkuveita Reykjavíkur krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að sóknaraðilum hafi verið óheimilt að höfða málið sem eignardómsmál eftir ákvæðum XVIII. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt því verður úrskurður héraðsdómara staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Kristján Jónsson og Sverrir Jónsson, greiði í sameiningu varnaraðilunum Guðmundi Birgissyni og Steinunni Tómasdóttur hvoru um sig 30.000 krónur, Orkuveitu Reykjavíkur 60.000 krónur og íslenska ríkinu 60.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. september 2000.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu 22. ágúst sl., er höfðað með birtingu stefnu 15. september 1999 og birtingu stefnu í Lögbirtingablaði 29. september 1999.
Stefnendur eru Sverrir Jónsson, kt. 010634-3049, og Kristján Jónsson, kt. 181122-3159.
Stefndu eru Guðmundur Birgisson, kt. 010761-2049, Steinunn Tómasdóttir, kt. 290546-3979, Orkuveita Reykjavíkur, kt. 551298-3029 og íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnenda eru þær ,,að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra að landsspildu úr jörðinni Litla Saurbæ I á Hellisheiði. Landsspildan er efsti partur af þeim hluta jarðarinnar sem haldið var eftir þegar þeim hluta jarðarinnar sem er neðan vegarins niður í Bæjarþorpið var afsalað til Kristins Sigurðssonar þann 27. september 1986. Spildan er sem næst ferhyrnd og afmarkast af hnitapunktunum X 660730.470 Y398800.980, X660360.076 Y399005.935, X657637.637 Y393077.815 og X 657958.478 Y392837.384. Hnitapunktarnir eru merktir nr. 101, 102, 103 og 104 á uppdrætti sem fylgir stefnu þessari.
Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði eignarréttur stefnenda að öllu landi sem tilheyrir jörðinni Litla-Saurbæ I á Hellisheiði ofan við Kambabrún þ.e. ofan línu milli hnitapunktanna 103 sem er X 657637.637 Y393077.8 og 104 sem er X657958.478 Y392837.384, hvort sem það er í skiptu eða óskiptu landi.
Loks er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Áskilnaður er hafður uppi um málskostnaðarkröfu á hendur hverjum þeim sem að réttarfarslögum kynnu að gerast aðili að málinu.”
Stefnda Orkuveita ríkisins krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum er krafist málkostnaðar úr hendi stefnenda að mati dómsins.
Stefndu, Guðmundur Birgisson og Steinunn Tómasdóttir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast þau sýknu af kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefjast þau þess að stefnendur verði dæmdir óskipt til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.
Stefndi, íslenska ríkið krefst þess aðallega að ,,málinu verði vísað frá héraðsómi. Til vara er þess krafist að svo stöddu, eða þar til úrskurður óbyggðanefndar hefur gengið um mörk þjóðlendunnar á hinni umdeildu landsspildu, að hafnað verði öllum kröfum málsaðila um viðurkenningu beins eða óbeins eignarréttar. Til þrautavara er þess krafist að öllum kröfum málsaðila til beins eða óbeins eignarréttar að landspildunni verið hafnað. Þá er krafist málskostnaðar í aðal-, vara- og þrautavarakröfu að mati dómsins. “
Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.
Málsatvik
Með afsali dags. 29. maí 1936 eignaðist Jón Helgason jarðeignina Litla-Saurbæ með öllu sem eigninni fylgdi. Jón bjó á Litla-Saurbæ þar til hann hætti búskap upp úr 1960. Hann afsalaði til sonar síns, Sverris, annars stefnanda þessa máls 17,4 ha spildu úr jörðinni 26. ágúst 1953. Tveimur spildum úr landinu afsalaði hann til Sverris 14. september 1953, samtals 20 ha. Eftir að Sverrir Jónsson stofnaði nýbýlið Litla Saurbær II , eða 24. október 1957, afsalaði Jón til Litla-Saurbæjar II ræktanlegu landi ,,frá vegi í Selvog í norðausturhorn girðingarinnar umhverfis fjárhústún í Heiðinni, með fjárhússtúnsgirðingunni í stefnu að vegi að Litla-Saurbæ, með veginum að gripahúsum, þó á Litli-Saurbær I 50 spildu út frá gripahúsunum, frá húsunum liggur markalínan suður með engjavegi að þvergirðingu, síðan með girðingunni til norðurs í Varmá, með Varmá að mörkum Þúfu og Litla-Saurbæjar, síðan með þeim í Selvogsveg og með honum í hornmark að norðan við sama veg. Allt land innan þessara marka fær Sverrir. Auk þessa úrskipta lands öðlast hann beitarréttindi að einum þriðja í óskiptu beitilandi eignarjarðar minnar. Auðsréttindi fylgja og að einum þriðja.” Með afsali dags. 27. september 1986 afsöluðu stefnendur og systur þeirra, þær Ingilaug Jónsdóttir, Hólmfríður Jónsdóttir, Helga Jónsdóttir, Unnur Jónsdóttir, Anna Jónsdóttir, Lilja Jónsdóttir og Fanney Jónsdóttir til Kristins Sigurðssonar, jörðinni Litla-Saurbæ I, þ.e. ,,þeim hluta jarðarinnar sem er neðan við veginn sem liggur niður í bæjarþorpið ásamt öllum byggingum á því landi, ræktun, girðingum svo og öllum gögnum og gæðum er lögbýlinu Litla Saurbæ I fylgja og fylgja ber (landið ofan við áðurnefndan veg, ásamt fjárhúsi og hlöðu í því landi fylgja ekki með í kaupunum)”.
Kristinn Sigurðsson seldi stefnda, Guðmundi Birgissyni, og Aðalsteini Karlssyni með afsali 20. nóvember 1987, jörðina Litla-Saurbæ I, en Aðalsteinn afsalaði síðar sínum eignarhluta til eiginkonu sinnar, Steinunnar Tómasdóttur. Stefndu, Guðmundur og Steinunn, ásamt eigendum Stóra-Saurbæjar gerðu með sér landskiptagerð 8. janúar 1999, sem var árituð af Sveitarstjórn Ölfushrepps og Jarðanefnd Árnessýslu. Með landskiptagerðinni var þeim eignarhluta jarðanna Litla-Saurbæjar I og Stóra-Saurbæjar sem voru ofan fjalls skipt út úr landi jarðanna. Stefnda, Orkuveita Reykjavíkur, er nú eigandi þess hluta lands sem dómkröfur stefnenda taka til, samkvæmt tveimur afsölum. Annars vegar með afsali frá Guðmundi Birgissyni og Steinunni Tómasdóttur til Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 21. apríl 1999, hins vegar með afsali frá Friðriki Kristjánssyni o.fl. vegna hluta jarðarinnar Stóra Saurbæjar, dags. sama dag.
Með yfirlýsingu dags. 3. nóvember 1998, merkt sem dómskjal nr. 19, lýstu systur stefnenda, ásamt stefnanda, Kristjáni, því yfir að við sölu á jörðinni Litla-Saurbæ I til Kristins Sigurðssonar hafi heiðarland jarðarinnar ekki fylgt með, en þar sem Sverrir, annar stefnenda, hefði fyrir,,löngu fengið þetta land til eignar en farist hefur fyrir að afsala því til hans með formlegum hætti” lýstu þau því yfir að land þetta væri með öllum gögnum og gæðum eign eiganda Litla-Saurbæjar II, Sverris Jónssonar, sem borið hefði af því skatta og skyldur frá því að hann hafi tekið við því árið 1965.
Með afsali dags. 15. desember 1988 varð stefnandinn Kristján sameigandi Sverris að Litla-Saurbæ II.
Ágreiningur í málinu lýtur að eignarrétti stefnenda á landsspildu úr jörðinni Litla-Saurbæ I á Hellisheiði og hvort sú landsspilda hafi verið seld með er stefnendur og systkini hans afsöluðu jörðinni Litla-Saurbæ til Kristins Sigurðssonar með afsali árið 1986.
Mál þetta er höfðað sem eignardómsmál og vísa stefnendur til 122. gr. einkamálalaga um það.
Í þessum þætti málsins eru til úrlausnar frávísunarkröfur stefndu.
Málsástæður og lagarök stefndu, Guðmundar Birgissonar og Steinunnar Tómasdóttur, fyrir frávísunarkröfu
Til stuðnings frávísunarkröfu sinni benda stefndu á að sé sú staðhæfing stefnenda rétt, að hið umþrætta heiðarland hafi ekki fylgt með í kaupunum til Kristins Sigurðssonar samkvæmt afsali 1986, sé ljóst að heiðarlandið sé í óskiptri sameign stefnenda og systra þeirra. Því beri þeim að sækja mál þetta í sameiningu. Yfirlýsing systkina stefnenda á dómskjali 19 hafi ekkert gildi sem eignarheimild. Yfirlýsingunni sé beint að stefnandanum Sverri Jónssyni, en hinn stefnandinn, Kristján Jónsson, riti undir hana. Mótsagnir séu í henni. Hún sé gerð árið 1998 og segi þar að stefnandi, Sverrir, hafi fyrir löngu fengið þetta land til eignar, en í engu sé útskýrt við hvað sé átt. Ekki sé heldur sagt hver hefði átt að afsala heiðarlandinu til Sverris með formlegum hætti, en ljóst sé að það hafi ekki getað verið faðir þeirra, Jón Helgason, því að slíkt afsal hefði verið í hróplegri andstöðu við afsal hans til barna sinna á árinu 1975, en þar sé jörðinni Litla-Saurbæ I afsalað til stefnenda og systkina þeirra með öllum gögnum og gæðum.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að heiðarlandið hafi ekki fylgt með sölunni til Kristins árið 1986 sé ljóst að stefnendur, ásamt systrum sínum muni eiga réttindin óskipt. Skilyrði réttarfarslaga sé að þeir sem eigi óskipt réttindi standi saman að málssókn. Það hafi ekki verið gert með málssókn þessari og beri því með vísan til 2. tl. 19. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála að vísa málinu frá.
Þá byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því að stefnendum hafi borið að stefna eigendum Stóra-Saurbæjar, þ.e. þeim er seldu meðstefnda, Orkuveitu Reykjavíkur til að gæta hagsmuna sinna. Ljóst sé af gögnum málsins að verði aðalkrafa stefnenda tekin til greina hafi þessir eigendur Stóra-Saurbæjar selt meira land en þeir áttu og þurfi því að svara til vanheimildar gagnvart meðstefnda Orkuveitu Reykjavíkur, með nákvæmlega sama hætti og stefndu Guðmundur og Steinunn. Þá benda stefndu á að dómur sem tæki aðalkröfu stefnenda til greina, hefði þær afleiðingar að landskiptagerðin yrði í andstöðu við niðurstöðu dómsins og hafi því stefnendur einnig þurft að stefna Jarðanefnd Árnessýslu og Sveitarstjórn Ölfuhrepps, a.m.k. til réttargæslu, en þessir aðilar hafi samþykkt landskiptagerðina.
Málástæður og lagarök stefndu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir frávísunarkröfu.
Stefndi kveður að aðild stefnenda fullnægi ekki réttarfarskröfum. Samkvæmt 2. tl. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varði frávísun frá dómi, ef þeir sem eigi óskipt réttindi sæki ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa sé höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem ekki eigi aðild að því.
Lögbýlið Litli-Saurbær I hafi verið í óskiptri eign stefnenda og systra þeirra. Sé sú fullyrðing stefnenda rétt að við sölu þess 1986 hafi sá hluti lands jarðarinnar sem um er deilt í máli þessu, ekki fylgt með, sé ljóst að hinn umdeildi jarðarhluti sé enn í sameign þeirra systkina allra og réttindin sem jarðarhlutanum fylgja jafnframt sameiginleg og óskipt eign þeirra allra, enda hafi systur stefnenda ekki afsalað því til stefnenda máls þessa.
Dómkröfur stefnenda taki til alls beitarlands sem tilheyrt hafi Litla-Saurbæ I, en af stefnenda hálfu séu ekki lögð fram heimildarskjöl um hvenær og hvernig stefnendur hafi eignast allt heiðarland Litla-Saurbæjar I.
Yfirlýsing sjö systkina stefnanda, Sverris og mágs á dómskjali nr. 19 sem gefin sé út einum og hálfum áratug eftir að þau systkini afsöluðu lögbýlinu og mörgum mánuðum eftir að heiðarlandinu var afsalað frá meðstefndu til stefnda, styðji ekki eignartilkall stefnenda til heiðarlands þess sem áður hafi tilheyrt Litla-Saurbæ I.
Stefnendur máls þessa hafi ekki sýnt fram á réttmæti þess að þeir, án aðildar systra sinna, geti staðið einir að málssókn þessari.
Málssóknin lúti að réttindum, ef einhver eru, sem stefnendur og systur þeirra eigi sameiginlega og óskipt og varði málssóknin því einnig hagsmuni systra stefnenda. Nauðsynlegt sé því að allir þeir aðilar sem verið hafi eigendur lögbýlisins Litla-Saurbæjar I og staðið hafi saman að sölu þess árið 1986 standi saman að málssókn þessari. Því skilyrði 2. tl. 18. gr. einkamálalaga, að þeir sem eigi óskipt réttindi saman standi saman að málssókn sé hér engan veginn fullnægt, þar sem einungis tveir af níu aðilum sem eigi sameiginlega og óskipt þau réttindi, ef einhver eru, sem um er deilt í málinu, eigi aðild sóknarmegin. Beri því að vísa málinu frá dómi.
Málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins, fyrir frávísunarkröfu
Stefndi, íslenska ríkið, gekk inn í málið á grundvelli eignardómsstefnu í máli þessu.
Stefndi kveður að afsal um umdeilt landsvæði hafi verið gefið út 21. apríl 1999, en mál þetta þingfest 3. nóvember 1999.
Lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta hafi tekið gildi 1. júlí 1998. Í 1. mgr. 2. gr. þeirra segi að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki séu háð einkaeignarrétti. Óbyggðanefnd sé samkvæmt 7. gr. laganna falið að kanna og skera úr hvaða land teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendna sem nýttur sé sem afréttur, og að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Í 14. gr. laganna sé kveðið á um að úrlausnum Óbyggðanefndar verði ekki skotið til ráðherra sem æðra stjórnvalds og að mál sem heyri undir Óbyggðanefnd samkvæmt 7. gr. verði ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni um það.
Stefndi heldur því fram að með gildistöku laganna um þjóðlendur hafi íslenska ríkið orðið eigandi að hinu umdeilda landsvæði austur í Kamba eftir nánari ákvörðun Óbyggðanefndar. Séu stefnendur og samningsaðilar því ekki bærir að versla með það og verði það ekki fyrr en úrskurður Óbyggðanefndar hafi gengið, enda verði hann þeim í hag. Þar sem málið eigi með framangreindum hætti undir Óbyggðanefnd beri að vísa því fram samkvæmt 24. gr. laga nr. 91/1991.
Þá kveður stefndi málið vanreifað að því leyti að ekki sé sýnt fram á með hvaða hætti ágreiningslandið á Hellisheiðinni hafi getað orðið eignarland Litla-Saurbæjar, þótt það kunni að hafa verið nýtt sem sumarhagi fyrir búfé. Ljóst megi telja að Hellisheiðin austanverð að Kömbum hafi alla tíð verið nýtt sameiginlega af bændum sem afréttur þannig að búfénaður hafi gengið þar um hindrunarlaust eins og verða vildi. Framkvæmd fjallskila á svæðinu styðji og þetta.
Í raun virðist ágreiningur milli aðila vera sá hvort þrætulandið hafi fylgt með í afsali til Kristins Sigurðssonar. Því sé verulegum vafa undirorpið hvort nauðsyn hafi borið til að höfða mál þetta sem eignardómsmál samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. Hrd. 17. febrúar 2000 og beri því að vísa því frá af þeim sökum.
Málsástæður og lagarök stefnenda fyrir höfnun frávísunarkrafna.
Stefnendur styðja kröfu sína um höfnun frávísunarkröfu stefnda, ríkisins, þeim rökum að í andstöðu sé við stjórnskrá og einnig 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að stjórnsýslunefnd skeri úr ágreiningi um eignarrétt. Ákvörðun um eignarrétt falli utan starfssviðs nefndarinnar.
Nefndin hafi engar ráðstafanir gert vegna Hellisheiðarinnar og óvíst sé hvenær það landsvæði komi til skoðunar hjá nefndinni. Það sé í andstöðu við reglur um réttláta málsmeðferð að bíða þurfi niðurstöðu nefndarinnar í ef til vill mörg ár.
Varðandi þá málsástæðu stefnda, ríkisins að ekki hafi þurft að höfða eignardómsmál, benda stefnendur á að þeir hafi talið að það væri traust og rétt málsmeðferð að höfða eignardómsmál, enda með því best tryggt að rétt niðurstaða fengist.
Um frávísunarkröfu stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur og Guðmundar Birgissonar og Steinunnar Tómasdóttur, kveða stefnendur að þeir einir sem hagsmuni hafi af úrslitum máls þessa séu stefnendur sjálfir og kveða stefnendur að í dómskjali nr. 19 felist afsal á landinu til annars stefnenda, Sverris.
Um þá frávísunarkröfu stefndu, Guðmundar og Steinunnar að stefna hefði átt eigendum Stóra-Saurbæjar benda stefnendur á að þinglýstur eigandi þess hluta lands sem dómkröfur taka til er Orkuveita Reykjavíkur sem keypt hafi hluta þess af eigendum Stóra-Saurbæjar.
Niðurstaða
Í máli þessu hafa stefndu, Guðmundur Birgisson og Steinunn Tómasdóttir, sem og Orkuveita Reykjavíkur krafist frávísunar á grundvelli ákvæða 2. tl. 18. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
Í 2. tl. 18. gr. einkamálalaga segir að ef þeim sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar skuli vísa máli frá dómi. Það sama eigi við ef þeir sem eigi óskipt réttindi sæki ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa er höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem ekki eigi aðild að því.
Ágreiningur í máli þessu er um eignarrétt að landsspildu úr jörðinni Litla-Saurbæ I á Hellisheiði og hvort hún hafi fylgt með í kaupum, er stefnendur seldu jörðina ásamt systrum sínum til Kristins Sigurðssonar með afsali árið 1986. Samkvæmt yfirlýsingu sem lögð hefur verið fram í málinu, dags. 3. nóvember 1998, merkt sem dómskjal nr. 19, lýstu systur stefnenda því yfir, að bróðir þeirra Sverrir, annar stefnenda þessa máls, ætti heiðarland jarðarinnar Litla-Saurbæjar I og hefði hann fyrir löngu fengið land þetta til eignar.
Telja verður að þótt skjal þetta beri ekki yfirskriftina afsal og að í efni þess gæti nokkurra mótsagna, verði ekki annað af því ráðið en að systkini stefnanda Sverris, hafi með því talið sig afsala tilteknum réttindum til hans, þar á meðal þeim réttindum sem dómkröfur stefnenda lúta að. Verður því ekki talið að í máli þessu séu hafðar uppi þær kröfur um hagsmuni systra stefnenda sem undirrituðu framangreinda yfirlýsingu, að vísa beri málinu frá á grundvelli 2. tl. 18. gr. einkamálalaga.
Stefndu, Guðmundur og Steinunn, hafa einnig byggt kröfu sína um frávísun á því að stefna hefði átt fleirum, þar sem fleiri en þeir sem stefnt var, gætu haft hagsmuni af úrlausn málsins. Af gögnum málsins má ráða að Orkuveita Reykjavíkur á samkvæmt tveimur afsölum dags. 21. apríl 1999 að hafa keypt land það sem um er deilt í máli þessu, annars vegar af eigendum Stóra-Saurbæjar og hins vegar af eigendum Litla-Saurbæjar I. Orkuveitu Reykjavíkur er stefnt í máli þessu og verður því ekki á það fallist að vísa beri málinu frá af framangreindum sökum.
Stefnda, íslenska ríkið byggir frávísunarkröfu sínar á því að mál þetta eigi undir Óbyggðanefnd og beri að vísa því frá samkvæmt 24. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 58/1998 segir að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Þá segir í 2. mgr. 14. gr. laganna að mál sem heyri undir Óbyggðanefnd samvkæmt 7. gr. laganna verði ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni um það.
Í málinu liggur ekkert fyrir um að Óbyggðanefnd hafi tekið umdeilda landsspildu til umfjöllunar og með öllu er óljóst hvort mál vegna hennar muni heyra undir hana. Því verður ekki á það fallist að skilyrði séu til þess að vísa málinu frá á grundvelli 24. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
Stefndi, íslenska ríkið hefur og byggt frávísunarkröfu sína á því að vafa sé undirorpið hvort nauðsyn hafi borið til að höfða mál þetta sem eignardómsmál samkvæmt XVIII. kafla einkamálalaga, sbr. Hrd. 17. febrúar 2000.
Stefnukröfum í máli þessu var beint að Orkuveitu Reykjavíkur, Guðmundi Birgissyni og Steinunni Tómasdótur, en auk þess var hún birt í Lögbirtingablaði. Því liggur ljóst fyrir að stefnendum var fullkunnugt um að hverjum þeir gátu beint kröfum sínum og brast því skilyrði til þess að reka mál þetta sem eignardómsmál eftir sérreglum XVIII. kafla laga nr. 91/1991. Verður því að vísa kröfum stefnenda frá dómi.
Með hliðsjón af þessum úrslitum þykir rétt að stefnendur greiði óskipt í málskostnað til stefndu Guðmundar Birgissonar og Steinunnar Tómasdóttur, 60.000 krónur, til stefndu Orkuveitu Reykjavíkur 60.000 krónur og til stefnda, íslenska ríkisins 60.000 krónur.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur greiði óskipt málskostnað til stefndu Guðmundar Birgissonar og Steinunnar Tómasdóttur 60.000 krónur að jöfnu, til stefndu Orkuveitu Reykjavíkur, 60.000 krónur, og til íslenska ríkisins 60.000 krónur.