Hæstiréttur íslands

Mál nr. 194/2000


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Aflaheimild
  • Samningur


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. október 2000.

Nr. 194/2000.

Tálkni ehf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf.

(Jónatan Sveinsson hrl.)

                                                   

Skaðabætur. Aflaheimildir. Samningur.

T og H gerðu samning í september 1995 um að H fengi að geyma nánar tilgreinda aflahlutdeild á fiskiskipi T og lýsti T því yfir að kvótinn væri eign H og til frjálsrar ráðstöfunar fyrir H. Einnig gerðu aðilar með sér munnlegt samkomulag um löndun afla af skipi T hjá H og greinir aðila á um efni þess. Talið var að við úrlausn málsins yrði að leggja til grundvallar framburð fyrirsvarsmanns T fyrir héraðsdómi þar sem fram kom viðurkenning á því að T hafi borið að leggja til aflamark á móti aflamarki H til að veiða þann fisk, sem samið hafi verið um að landa hjá H gegn fyrir fram ákveðnu verði. Þó var ekki talið að skilja bæri ummælin sem viðurkenningu á að aðilarnir hefðu samið um að leggja til aflamark að jöfnu vegna fisks, sem H veiddi á skipi sínu og lagði upp hjá T. Var því talið að T hefði samkvæmt samningi aðilanna verið heimilt að veiða án sérstaks endurgjalds í skjóli aflamarks H þegar eigin aflamarki sleppti, gegn því að landa aflanum hjá H. Fyrir lá í málinu að T hafði veitt og  lagt upp hjá H hluta aflamarks H og að H hafði með atbeina T  flutt hluta aflamarksins af skipi T yfir á annað skip.  Þegar H hugðist selja eftirstöðvar aflamarks, sem hann taldi sig eiga geymdar á skipi T, fyrir gangverð á þeim tíma kom í ljós að T hafði þegar nýtt sér allar eftirstöðvar aflamarksins. Var talið að T hefði með þessu vanefnt skyldu sína til að geyma það, sem eftir stóð af aflamarki H, til frjálsrar ráðstöfunar fyrir hann og var T dæmdur til að greiða H skaðabætur sem námu söluverði umrædds aflamarks á þeim tíma sem H hugðist selja það.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2000 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi gerðu aðilar samning 2. september 1995 um að stefndi fengi að geyma nánar tilgreinda aflahlutdeild í þorski, ýsu og kola á fiskiskipi áfrýjanda, Bjarma ÍS 326. Kom þar fram að á fiskveiðiárinu 1995 til 1996 væri aflamark í skjóli þessarar aflahlutdeildar 223 tonn af þorski, 49.100 kg af ýsu og 9.800 kg af kola. Í niðurlagi samningsins lýsti áfrýjandi því jafnframt sérstaklega yfir að umræddur „fiskkvóti“ væri „eign Hraðfrystihúss Tálknafjarðar hf. og er til frjálsrar ráðstöfunar fyrir Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf. hvenær sem er.“

Í málinu deila aðilarnir ekki um efni þessa samnings. Þá greinir hins vegar á um efni munnlegs samnings, sem þeir gerðu í tengslum við þetta, um löndun afla af skipi áfrýjanda hjá stefnda. Áfrýjandi heldur því fram að þeir hafi samið um að hann fengi að veiða allt áðurnefnt aflamark stefnda á fiskveiðiárinu. Hafi áfrýjanda borið að leggja upp hjá stefnda allan þorskafla gegn greiðslu jafnaðarverðs, 70 krónur fyrir hvert kg. Hann hafi hins vegar mátt veiða ýsu og kola í skjóli alls aflamarks stefnda og landa hvar sem væri, en andvirðið hafi áfrýjandi átt að fá sem þóknun fyrir að geyma aflahlutdeildina. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að samið hafi verið um að áfrýjandi fengi að veiða af aflamarki stefnda gegn því að leggja til jafn mikið aflamark sjálfur, eða „tonn á móti tonni“, en allan aflann hafi átt að landa hjá stefnda. Hafi jafnframt verið samið um að áfrýjandi fengi greiddar 60 krónur fyrir hvert kg af þorski, sem landað yrði samkvæmt þessu hjá stefnda.

II.

Í skýrslu, sem fyrirsvarsmaður áfrýjanda gaf fyrir héraðsdómi, greindi hann meðal annars frá því að um vorið 1995 hafi af hálfu stefnda verið fært í tal hvort unnt væri að vista fiskveiðikvóta í eigu hans á skipi áfrýjanda. Sagði hann að síðan hafi verið rætt um að „það yrðu viðskipti á milli fyrirtækjanna þar sem þessum aflaheimildum, þá sem sagt beggja aðila, þær aflaheimildir sem voru fyrir á Bjarma og þessar nýfengnu aflaheimildir í eigu HT, yrðu notaðar til veiðanna ...“. Síðar í skýrslunni sagði fyrirsvarsmaðurinn aðspurður að samið hafi verið „um það að það yrði veitt aflamark beggja aðila á þessu ótiltekna tímabili, þetta var samkomulag um það að veiða þetta á næstu árum. Það yrði sem sagt notað það aflamark sem fyrir var á Bjarma plús, eins og ég sagði áðan, þetta aflamark Hraðfrystihúss Tálknafjarðar.“ Þessi orð verða ekki skýrð öðru vísi en svo að áfrýjandi hafi viðurkennt fyrir dómi að sér hafi borið að leggja til aflamark á móti aflamarki stefnda til að veiða þann fisk, sem samið hafi verið um að landa hjá stefnda gegn fyrir fram ákveðnu verði. Þessa viðurkenningu verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, sbr. 4. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Framangreind ummæli fyrirsvarsmanns áfrýjanda fyrir héraðsdómi verða ekki skilin svo að með þeim hafi verið viðurkennt að aðilarnir hafi samið um að leggja til aflamark að jöfnu vegna fisks, sem stefndi veiddi á skipi sínu og lagði upp hjá áfrýjanda. Stefndi hefur engar líkur leitt að því að venja hafi verið á umræddum tíma í viðskiptum sem þessum að beita skilmála um „tonn á móti tonni“. Hann hefur heldur ekki fært sönnur fyrir því að í reynd hafi verið samið um þann skilmála í viðskiptum aðilanna. Vegna þessa og í ljósi áðurgreinds framburðar fyrirsvarsmanns áfrýjanda fyrir héraðsdómi verður við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að áfrýjanda hafi samkvæmt samningi aðilanna verið heimilt að veiða án sérstaks endurgjalds í skjóli aflamarks stefnda þegar eigin aflamarki áfrýjanda sleppti, gegn því að landa aflanum hjá stefnda eins og áður greinir.

III.

Af framlögðum gögnum verður ráðið að fiskiskip áfrýjanda fékk úthlutað við upphaf fiskveiðiársins 1995 til 1996 aflamarki í þorski 281.600 kg, í ýsu 49.866 kg og í skarkola 9.865 kg. Eftir útreikningi stefnda var aflamark á grundvelli aflahlutdeildar, sem hann fékk geymt á skipi áfrýjanda, á sama fiskveiðiári 221.416 kg af þorski, 49.130 kg af ýsu og 10.723 kg af skarkola. Þessum útreikningi hefur áfrýjandi ekki mótmælt sérstaklega. Því til samræmis verður að líta svo á að áfrýjandi hafi sjálfur átt á umræddum tíma aflamark sem svaraði 60.184 kg af þorski og 736 kg af ýsu, en ekkert aflamark í skarkola.

Samkvæmt gögnum málsins lagði skip áfrýjanda upp hjá stefnda samtals 140.331 kg af slægðum þorski og 3.231 kg af slægðri ýsu á tímabilinu frá 3. september til 13. desember 1995. Til samræmis við það, sem áður greinir, verður að leggja til grundvallar að með þessu hafi áfrýjandi nýtt allt aflamark sitt í þorski og ýsu, en gengið að því frágengnu á aflamark stefnda í sömu fisktegundum eins og heimild stóð til. Í skjóli samnings aðilanna notaði áfrýjandi þannig 80.147 kg af aflamarki stefnda í þorski, en 2.495 af aflamarki hans í ýsu. Að þessu gerðu stóðu eftir af aflamarki stefnda 141.269 kg af þorski, 46.635 kg af ýsu og 10.723 kg af skarkola.

Óumdeilt er í málinu að áfrýjandi hafi 17. janúar og 19. febrúar 1996 veitt atbeina sinn til að stefndi flytti samtals 72.000 kg af aflamarki sínu í þorski af skipi áfrýjanda yfir á annað fiskiskip. Þá liggur enn fremur fyrir að 7. nóvember 1995 hafi verið flutt 7.000 kg af aflamarki í þorski af skipi áfrýjanda. Hann staðhæfir að þetta hafi verið gert að tilhlutan stefnda, sem andmælir því. Um þetta hafa frekari gögn ekki verið lögð fram í málinu. Verður að láta stefnda bera hallann af því og miða þannig við að alls hafi hann fært 79.000 kg af aflamarki sínu í þorski á fiskveiðiárinu 1995 til 1996 af skipi áfrýjanda. Að þessu frádregnu stóð eftir á skipi áfrýjanda aflamark í eigu stefnda fyrir 62.269 kg af þorski, 46.635 kg af ýsu og 10.723 kg af skarkola.

Í málinu hefur stefndi leitt nægilega í ljós að hinn 6. mars 1996 hafi hann ætlað að selja nafngreindu félagi eftirstöðvar aflamarks, sem hann taldi sig eiga geymdar á fiskiskipi áfrýjanda, fyrir gangverð á þeim tíma. Kom þá í ljós að áfrýjandi hafði þegar nýtt sér allar eftirstöðvar aflamarksins og varð af þeim sökum ekkert af sölu þess. Með vísan til áðurgreindra ummæla í samningi aðilanna frá 2. september 1995 vanefndi áfrýjandi með þessu skyldu sína til að geyma það, sem stóð orðið eftir af aflamarki stefnda, til frjálsrar ráðstöfunar fyrir hann. Stefndi kveður gangverð aflamarks 6. mars 1996 hafa nánar tiltekið verið 95 krónur fyrir hvert kg í þorski, 12 krónur á hvert kg í ýsu og 18 krónur á hvert kg í skarkola. Þessum fjárhæðum, sem stefndi hefur miðað dómkröfu sína við, hefur ekki verið mótmælt af áfrýjanda. Verða þær því lagðar til grundvallar við ákvörðun skaðabóta úr hendi áfrýjanda, þannig að fyrir eftirstöðvar aflamarks í þorski, 62.269 kg, komi 5.915.555 krónur, fyrir eftirstöðvar aflamarks í ýsu, 46.635 kg, komi 559.620 krónur, en fyrir aflamark í skarkola, 10.723 kg, komi 193.014 krónur. Eru þetta samanlagt 6.668.189 krónur. Til frádráttar þeirri fjárhæð kemur andvirði afla, sem áfrýjandi landaði hjá stefnda 20. nóvember 1996 eins og nánar greinir í héraðsdómi, eða 632.702 krónur. Standa þá eftir 6.035.487 krónur, sem áfrýjanda verður gert að greiða stefnda.

Í hinum áfrýjaða dómi voru stefnda dæmdir dráttarvextir af skaðabótum úr hendi áfrýjanda frá 3. ágúst 1999 til greiðsludags. Með því að stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti verður sú niðurstaða látin standa óröskuð.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Tálkni hf., greiði stefnda, Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf., 6.035.487 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. ágúst 1999 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 27. apríl 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 3. þ.m. að undangengnum munnlegum málflutningi hefur Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf., kt. 630169-2089, Miðtúni 3, Tálknafirði, höfðað hér fyrir dómi á hendur Tálkna ehf., kt. 570774-0349, Skógum, Tálknafirði, með stefnu birtri 3. ágúst 1999.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 7.678.717 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af kr. 8.311.419 frá 6. apríl 1996 til 20. nóvem­ber s.á., en af kr. 7.678.717 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar sam­kvæmt framlögðum reikningi.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Þann 2. september 1995 undirrituðu fyrirsvarsmenn stefnanda og stefnda, sem á þeim tíma átti og gerði út ms. Bjarma ÍS-326, skipaskrárnr. 1318, yfir­lýsingu þess efnis að þann 8. ágúst 1995 hefði 0,254809% þorskaflahlutdeild, eða 230 tonn, 0,1170548% ýsuaflahlutdeild, eða 53.848 kg. og 0,0858586% kolaaflahlutdeild, eða 9.840 kg. í eigu stefnanda verið flutt af tilgreindu skipi til geymslu á ms. Bjarma ÍS-326.  Segir síðan í yfirlýsingunni að á fiskveiðiárinu 1995-1996 hafi úthlutaður heildarþorskkvóti minnkað um 3,7% og heildar­ýsukvóti um 8,8%, en kolakvóti sé óbreyttur.  Sá kvóti sem yfirlýsingin varði sé því það fiskveiðiár að magni til 223 tonn þorsks, 49.100 kg. af ýsu og 9.800 kg. af kola.  Lýsa fyrirsvarsmenn stefnda því síðan yfir að „ofangreindur fiskkvóti gildandi árið 1995-1996 sem nú er geymdur á ms. Bjarma ÍS-326 samkvæmt samkomulagi milli okkar og Hraðfrystihúss Tálknafjarðar hf. er eign Hraðfrysti­húss Tálknafjarðar hf. og er til frjálsrar ráðstöfunar fyrir Hraðfrystihús Tálkna­fjarðar hf. hvenær sem er.“

Stefnandi segir að jafnframt hafi verið svo um samið að vs. Bjarmi BA-326 veiddi að jöfnu af því aflamarki sem geymt var á honum samkvæmt þessari yfirlýsingu og sínu eigin aflamarki og legði aflann upp hjá stefnanda fyrir fyrirfram ákveðið verð í svokölluðum „tonn á móti tonni“ viðskiptum.  Sam­kvæmt því samkomulagi hefði skipið lagt upp samtals 140 tonn af þorski hjá stefnanda á tímabilinu 1. september til 31. desember 1995 og helmingur af hinu geymda aflamarki, 70 tonn, komið á móti.  Fyrirsvarsmaður stefnda hefði þá til­kynnt að ekki yrði um frekara aflaupplegg hjá stefnanda að ræða vegna óánægju áhafnar skipsins með umsamið verð fyrir aflann.  Kveðst stefnandi þá hafa samið við útgerð Guðrúnar Hlínar BA-122 um að leggja upp afla hjá sér og í því sam­bandi flutt samtals 72 þorskaflamarkstonn af skipi stefnda yfir á það skip í janúar og febrúar 1995.  Eftir hafi þá verið óveidd í geymslu á skipi stefnda 81 þorsk­tonn, 49,1 ýsutonn og 9,8 tonn af kola. 

Þann 6. mars 1996 hafi stefnandi selt firmanu Hala ehf. á Tálknafirði þetta aflamark, en þegar hafi átt að flytja það á skip á vegum kaup­andans hafi fyrirsvarsmaður stefnda, sem jafnframt hafi verið skipstjóri á Bjarma BA-326, lýst því yfir að ekki væri unnt að verða við tilmælum stefnanda um flutning afla­marksins, því að búið væri að veiða þessar eftirstöðvar þess. 

Með bréfi dagsettu þann 6. mars 1996 tilkynnti fyrirsvarsmaður stefnanda stefnda að þann dag hefðu stefnda verið færðar 8.460.600 krónur til skuldar á reikningi hans hjá stefnanda samkvæmt meðfylgjandi útreikningi stefnanda á magni og andvirði eftirstöðva aflamarksins.  Er í bréfinu tekið fram að dag­setn­ingin 6. mars sé sett vegna þess að þann dag hafi Hali ehf. ætlað að kaupa aflamarkið.  Er í bréfinu skorað á stefnda að greiða stefnanda hina tilgreindu upp­hæð eða semja um greiðslu.  Segir stefnandi að stefndi hafi ekki orðið við þessari áskorun, en ekki heldur haft uppi mótmæli við skuldinni.  Ítrekað hafi verið skor­að á fyrir­svars­menn hans að ganga til uppgjörs á henni, síðast með atbeina lög­manns, en árangurslaust.

Stefndi kveðst hafa heimilað stefnanda að geyma ofangreinda afla­hlutdeild á skipi sínu, en á móti hafi stefnandi lofað því að stefndi fengi að veiða allt aflamark, þ.e. úthlutun innan kvótaársins.  Jafnframt hafi verið samið um það munnlega að stefndi myndi leggja allan þorskafla upp hjá stefnanda fyrir 70 kr. kílóið, auk þess sem stefnandi legði stefnda til veitt aflamark.  Hafi stefnda jafn­framt átt að vera heimilt að veiða allt aflamark ýsu og skarkola og landa þeim afla hvar sem væri og hirða andvirði hans sem þóknun fyrir geymslu afla­hlut­deildarinnar fyrir stefnanda, sem ekki hafi átt neitt skip um þessar mundir.  Hafi sam­­komulagið átt að gilda um ókomin ár milli aðila.  Það hafi verið eðlilegt og sann­gjarnt með tilliti til aðstæðna og þjónað hagsmunum beggja.  Hafi stefnandi átt verulegra hagsmuna að gæta og nauðsynlega þurft að fá framangreinda afla­hlutdeild geymda og aflamark veitt fyrir sig vegna skipsleysis.  Með samkomu­laginu hafi hann sloppið við að halda úti skipi, haldið kvótaeign sinni og fengið afla­markið veitt.  Stefnandi hafi hins vegar rofið það, hið fyrsta sinn þann 7. nóvem­ber 1995, með því að færa 7 þorsk­afla­marks­tonn til skipsins Heimaeyjar.  Jafnframt hefði hann tilkynnt í nóvember 1995 að hann hyggðist láta Guðrúnu Hlín BA veiða af aflamarkinu.  Hefði fyrirsvarsmaður stefnda þá strax gert stefn­anda ljóst að um brot á samkomulaginu væri að ræða.

Stefndi kveðst fram til 31. desember 1995 hafa veitt samtals 145,3211 tonn af þorski fyrir stefnanda á framangreindum forsendum, en stefnandi hafi ekki staðið við upp­haflegt samkomulag um verð og aðeins greitt 60 krónur á kíló af lönduðum þorski.  Einnig hafi stefndi einu sinni lagt upp hjá stefnanda í janúar 1996.  Þegar stefn­andi hafi ákveðið að flytja aflamark til Guðrúnar Hlínar BA, 50 tonn þann 17. janúar 1996 og 22 tonn 19. febrúar s.á., hafi verið ljóst að stefnandi hafi sagt upp samkomulagi aðila.  Á því tímamarki hafi allt þorskaflamark stefn­anda á því fiskveiðiári annað hvort verið veitt af stefnda og lagt upp hjá stefnanda í samræmi við samkomulag aðila eða verið flutt til annarra báta.  Atbeina stefnda hafi þurft til að flytja aflamarkið og þrátt fyrir að flutn­­ingarnir fælu í sér brot á sam­komulagi aðila hafi stefndi samþykkt þá fyrir þrá­­beiðni stefnanda, enda hafi fyrir­svarsmaður stefnanda skýrt svo frá að fjár­hagsstaða stefnanda væri með þeim hætti að nauðsynlegt væri að selja yfirfærða aflahlut­deild og aflamark. 

Stefndi kveðst mótmæla því að viðskipti aðila hafi byggst á reglunni um tonn á móti tonni.  Hafi slík viðskipti verið bönnuð með kjarasamningum sjó­manna á þessum tíma en einnig hefði það merkt að stefndi hefði þurft að kaupa hálft kíló aflamarks fyrir 47,50 krónur, miðað við upplýsingar frá stefnanda um markaðsverð aflamarks í þorski til að mæta hverju hálfu kílói aflamarks frá stefnanda.  Stefnandi hafi greitt 60 krónur fyrir hvert kíló af þorski þannig að mis­munurinn, 12,50 krónur, hafi þurft að duga fyrir rekstri skipsins og uppgjöri á launum áhafnar sem miðast hafi við 60 krónur, en helmingi þeirrar fjárhæðar hafi verið varið til greiðslu á launum og launatengdum gjöldum sem hefðu þýtt 17,50 króna tap á hverju lönduðu þorskkílói eftir uppgjör við áhöfn, en áður en annar rekstrar og stofnfjárkostnaður hefði verið greiddur og hefði slík útgerð verið fyrirfram dauðadæmd.  Markaðsverð aflamarks í þorski og greitt fiskverð stefn­anda til stefnda fyrir þorsk, samtals um það bil kr. 155, hafi verið nálægt því sem hæst hafi verið greitt fyrir þorsk veiddan í dragnót á fiskmörkuðum.

Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi án heimildar hagnýtt sér afla­mark stefnanda og beri stefnda af þeim sökum að greiða gangverð afla­heimild­anna á þeim tíma sem hann hafi hag­nýtt þær.  Stefnandi hafi þann 6. mars 1996 selt eftirstöðvar aflamarksins til fyrirtækisins Hala ehf. á Tálknafirði og hafi söluverð hverrar tegundar fyrir sig miðast við gangverð þess tíma sem hafi sundurliðast þannig:  Þorskur 81.000 kg á 95 kr./kg, eða 7.695.000 krónur.  Ýsa 49.100 kg á 12 kr./kg., 589.200 krónur.  Koli 9.800 kg á 18 kr. kg, 176.400 krónur, eða samtals 8.460.600 krónur.  Hafi hann fært stefnda þessa fjárhæð til skuldar á viðskiptareikningi hans sama dag og það hafi orðið ljóst að stefndi hefði hagnýtt sér aflamarkið án vitundar stefnanda, sbr. bréf til stefnda 6. mars 1996, ásamt reikningi vegna skuld­færslunnar.  Hafi forsvarsmenn stefnda ekki mót­mælt réttmæti hennar.

Stefnandi kveðst vísa til meginreglna kröfuréttar um skuldbindingagildi loforða, vanefndir og vanefndaúrræði, sem eigi sér einkum stoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922, og ákvæða samningalaga nr. 7/1936.   Um dráttarvaxtakröfuna vísar hann til 9., 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að hann hafi staðið við sam­komulag aðila að fullu og eigi stefnandi enga kröfu á stefnda vegna þess afla­marks sem hann byggi kröfu sína á.  Hafi verið gert samkomulag um að stefndi geymdi fyrir stefndanda tilgreinda aflahlutdeild í þorski, ýsu og kola gegn því ófrá­víkjanlega skilyrði að hann fengi að veiða allt það aflamark sem afla­hlut­deildin segði til um.  Hafi stefnandi ekki staðið við samkomulagið og að lokum sagt því sjálfur upp.  Þá hafi stefndi þegar verið búinn að veiða allt það aflamark stefn­­anda í þorski fyrir fiskveiðiárið 1995 til 1996 sem ekki hafi verið flutt til annarra báta fyrir tilstuðlan stefnanda en aflamark stefnanda í ýsu og skarkola hafi verið eign stefnda samkvæmt samkomulagi aðila.  Hafi stefndi haft ómældan kostnað og ama af því að stefnandi flutti ekki aflahlutdeild sína frá skipi stefnda strax eftir að samkomulagið hafi farið út um þúfur.  Hafi samkomulag aðila verið munnlegt og hvíli sú skylda á stefnanda að sanna hvers eðlis það hafi verið gegn ein­dregnum mótmælum stefnda ef stefnandi vilji byggja rétt á því.  Þá hafi stefn­andi sýnt ótrúlegt tómlæti af sinni hálfu ef hann telji sig eiga kröfu á hendur stefnda vegna viðskiptanna og sé vísað til almennra reglna samninga- og kröfu­réttar um það efni.

Til vara krefst stefndi sýknu af kröfugerð stefnanda á þeim forsendum að reikningsyfirlit hans, sem fyrirsvarsmaður stefnda hafi ekki séð fyrr en við þing­festingu málsins, sýni berlega að dómkrafa stefnanda sé að fullu greidd miðað við tilfærðar kreditfærslur.  Eftir að meint krafa hafi verið færð stefnda til gjalda þann 6. mars 1996 hafi staðan á viðskiptareikningnum verið kr. 8.543.358.  Þann 28. júní, 8. júlí og 25. júlí sama ár hafi stefndi greitt 20 milljónir inn á meinta skuld sína við stefnanda og sé þá framangreind meint skuld gerð upp að fullu ef mark sé takandi á viðskiptayfirliti stefnanda sjálfs.  Þá kveðst stefndi mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega, enda liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi krafið stefnda um þá fjárhæð, sem dómkröfur hans taki til, fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 25. júní 1999. 

Við aðalmeðferð málsins gáfu Pétur Þorsteinsson, stjórnarformaður stefn­anda, Níels Adolf Ársælsson, framkvæmdastjóri stefnda og vitnin Ása Jónsdóttir, Auður Einarsdóttir og Árni Beinteinn Erlingsson skýrslur fyrir dómi.

Vitnin Auður Einarsdóttir og Árni Beinteinn Erlingsson staðfestu að þau hefðu samið um það við stefnanda f.h. Hala ehf. að kaupa af honum aflamark eins og að ofan greinir, en kaupin hefðu ekki náð fram að ganga vegna þess að afla­markið hefði ekki verið til reiðu er til átti að taka.  Vitnið Ása Jónsdóttir, sem  á þessum tíma annaðist bókhald fyrir stefnda, staðfesti að hafa á sínum tíma fengið í hendur kröfu stefnanda um greiðslu andvirðis aflamarksins og kynnt hana fyrirsvarsmanni stefnda, sem hefði mælt svo fyrir að krafan yrði ekki færð í bók­hald stefnda.

Samkvæmt yfirlýsingu aðila málsins frá 2. september 1995, sem rakin er hér að ofan, lýstu fyrirsvarsmenn stefnda því yfir að tilgreindur fiskkvóti gildandi árið 1995 til 1996 væri eign stefnanda og honum til frjálsrar ráðstöfunar hvenær sem væri.  Þykir þetta orðalag ekki verða túlkað svo að undan hafi verið skilið aflamark fiskveiðiársins 1995-1996.  Verður stefndi því að bera hallann af því að ósannað er að hann hafi veitt aflamarkið og ráðstafað því með heimild stefnanda umfram það sem stefnandi viðurkennir, en stefndi hefur engar haldbærar líkur leitt að því að aðilar hafi samið um að aflamarkinu yrði ráðstafað á þann hátt sem hann heldur fram.

Samkvæmt þessu vanefndi stefndi loforð sitt við stefnanda um að afla­markið yrði honum til frjálsrar ráðstöfunar þegar hann vildi.  Verður að fallast á það með stefnanda að stefndi hafi með þeirri vanefnd bakað sér bóta­skyldu gagn­vart stefnanda.

Stefnandi hefur lagt fram samning aðila, dagsettan 26. júlí 1996 um kaup stefnda á varanlegri afla­hlutdeild af stefnanda fyrir 24 milljónir króna.  Segir í samningnum að stefndi hafi þegar greitt þar af kr. 20.000.000.  Er söluverðið sam­kvæmt þessu fært stefnda til skuldar og innborganir, samtals 24 milljónir, til tekna á framlögðum viðskiptareikningi.  Þykir að þessu athuguðu ekki verða fallist á að viðskiptareikningurinn beri með sér að stefndi hafi greitt kröfu stefnanda vegna aflamarksins.

Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda andvirði þess aflamarks sem hann stóð stefnanda ekki skil á samkvæmt ofansögðu.  Stefnandi kveðst miða við gangverð aflamarks á þeim tíma sem hann hugðist selja það Hala ehf., þ.e. 6. mars 1996.  Hefur því verði á hverju kg. einstakra tegunda sem hann leggur til grundvallar ekki verið mótmælt tölulega og einnig er verð á þorski stutt símbréfi frá starfsmanni Kvótamiðlunar LÍÚ, þar sem fram kemur að gangverð á þorski í mars 1996 hafi verið 95 kr./kg.

Við aðalmeðferð málsins lagði stefnandi fram útreikninga á magni hins geymda aflamarks, sem leiða til þess að dómkröfur hans lækka nokkuð.  Er dómkrafan sundurliðuð samkvæmt þessu sem hér segir:

 

Útreikningar aflamarks af geymdri aflahlutdeild, sbr. dskj. nr. 11 og 21, sbr. rgj. nr. 406/1995:

Þorskur

108.620x0,2548059x0,80=221.416 kg. miðað við slægðan fisk

Ýsa

52.460x0,1170548x0,80=49.130 kg. miðað við slægðan fisk

Skarkoli

12.489x0,0858586x0,92=10.723 kg. miðað við slægðan fisk

 

Ráðstöfun og hagnýting þorskaflamarks, sbr. dskj. nr. 19 og 24.

Reiknað aflamark í þorski:221.416 kg.

Ráðstöfun:

Veitt af stefnda 3/9 – 13/12 1995: 140.331 : 2

70.165 kg

Fært 17/01/96 á skipið 72 (Hrafnseyri)

50.000 kg.

Fært 19/02/96 á sama skip

22.000 kg

Samtals

142.165 kg.

Hagnýtt í heimildarleysi af stefnda

79.251 kg

 

 

Sundurliðun dómkröfu, sbr. dskj. nr. 5, 6, 9, 19, og 24:

Aflamark í þorski

79.251 kg. x 95/-7.528.845,00

Aflamark í ýsu

49.130 kg. x 12/-589.560,00

Aflamark í skarkola

10.723 kg. x 18/-193.014,00

 

Kr. 8.311.419,00

Greitt með aflainnleggi þann 20/11/1996

632.702,00

Samtals

Kr. 7.678.717,00

 

Þessir útreikningar fela í sér lækkun á upphaflegri kröfugerð stefnanda, sem ekki sætti tölulegum mótmælum.  Verða kröfur stefnanda teknar til greina á grund­velli þeirra.  Verður stefndi samkvæmt þessu dæmdur til að greiða stefn­anda kr. 7.678.717 fyrir það afla­mark sem hann stóð ekki skil á.

Leggja ber til grundvallar samkvæmt framburði vitnisins Ásu Jónsdóttur að stefnda hafi borist krafa stefnanda um greiðslu í mars 1996.  Ósannað er að hann hafi gengið frekar eftir greiðslunni, fyrr en lögmaður hans ritaði stefnda inn­heimtubréf dagsett þann 25. júní 1999.  Þykir mega fallast á það með stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu skuldarinnar og verða dráttar­vextir aðeins dæmdir frá þeim tíma er mál var höfðað, eða frá 3. ágúst 1999 til greiðsludags.

Eftir ofangreindum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 500.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Stefndi, Tálkni ehf., greiði stefnanda, Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf., kr. 7.678.717 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 3. ágúst 1999 til greiðsludags og kr. 500.000 í málskostnað.