Hæstiréttur íslands
Mál nr. 229/2003
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Laun
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 229/2003. |
Steinar Berg Ísleifsson (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Skífunni hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Ráðningarsamningur. Laun.
Í málinu krafðist SBÍ skaðabóta úr hendi S þar sem félagið hefði vanefnt ráðningarsamning við SBÍ með saknæmum og ólögmætum hætti. Samkvæmt samningnum átti SBÍ, auk mánaðarlauna, að fá greitt hlutfall af hagnaði af útflutningi tónlistar. Taldi SBÍ að vanefndin fælist í því að S hafi ekki staðið skil á fyrrnefndri hagnaðarhlutdeild og að S hafi lagt niður tónlistarútflutning, sem hafi verið grundvöllur að launakjörum SBÍ. Féllst héraðsdómur á að S skuldaði SBÍ tiltekna fjárhæð vegna hagnaðarhlutdeildar og sætti S sig við þá niðurstöðu. Talið var að starfslok SBÍ hafi verið af ástæðum er hann sjálfan vörðuðu og að samkomulag hafi tekist milli hans og S um þau. Varðandi ákvörðun félagsins um að draga úr fjárframlögum til tónlistarútflutnings var talið að sú ákvörðun S hafi byggst á mati á afkomuhorfum fyrirtækisins í ljósi markaðsaðstæðna og við það mat yrði SBÍ að una. Ósannað þótti að vakað hafi fyrir S að leggja niður slíkan útflutning. Var því krafa S um staðfestingu héraðsdóms tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. júní 2003. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 19.580.401 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 570.691 krónu frá 1. janúar 2000 til 1. janúar 2001, af 1.141.384 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 3.412.384 krónum frá þeim degi til 25. júní sama ár, en af 19.580.401 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 799.083 krónum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvik og málsástæður eru raktar í héraðsdómi. Fallist er á það með héraðsdómi að samningur aðila 13. janúar 1999 gildi um lögskipti þeirra. Stefndi unir héraðsdómi. Því er ekki lengur deilt um það hvort kostnaður hans vegna tónlistarútflutnings, áður en áfrýjandi hóf störf hjá honum, skuli teljast með við uppgjör aðila um hlut áfrýjanda í arði vegna útflutningsverkefna. Af málflutningi beggja aðila fyrir Hæstarétti er ljóst að þeir eru um það sammála að stefndi skuldi áfrýjanda greiðslur af arði útflutningsverkefna 1999 og 2001. Ágreiningur er ekki um fjárhæðir.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að samkomulag hafi orðið með aðilum í desember 2001 um að áfrýjandi léti af störfum hjá stefnda. Hann hafi þó haldið áfram störfum til mánaðamóta mars og apríl 2002. Á þeim tíma hafi farið fram samningaviðræður um starfslok hans og jafnframt að hann tæki að sér ráðgjafarstörf fyrir stefnda. Samningar hafi tekist um starfslokin en slitnað hafi upp úr samningaviðræðum um ráðgjafarstörfin. Með þessum athugasemdum en annars með vísun til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Skífan hf., greiði áfrýjanda, Steinari Berg Ísleifssyni, 1.837.046 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.636.129 krónum frá 4. maí 2002 til 1. júlí sama ár, en af 1.837.046 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað í héraði.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 20. júní s.l.
Stefnandi er Steinar Berg Ísleifsson, kt. 210752-2779, Fossatúni, Borgarnesi.
Stefndi er Skífan ehf., kt. 510177-0969, Lynghálsi 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 19.580.402 með dráttarvöxtum af kr. 570.692 frá 1. janúar 2000 til 1. janúar 2001, en af kr. 1.141.384 frá þeim degi til 1. janúar 2002, en af kr. 3.412.384 frá þeim degi til þingfestingardags, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 799.083. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að stefndi keypti 23. júlí 1998 hlut eiginkonu stefnanda í Spori ehf. Var fyrirhugað að sameina félögin og tengja þau fyrirtækjasamstæðu sem skyldi bera heitið Norðurljós. Grundvallarforsenda stefnda fyrir kaupunum mun hafa verið að stefnandi, sem þá var framkvæmdastjóri Spors ehf., kæmi til starfa hjá hinu sameinaða félagi og jafnframt að hann tryggði að félagið héldi a.m.k. að verulegu leyti viðskiptasamböndum og réttindum. Stefnandi mun um árabil hafa unnið að því að koma íslenskum tónlistarmönnum á framfæri erlendis og er óumdeilt að hann er brautryðjandi á því sviði hérlendis. Í tengslum við þessa sölu gerðu aðilar máls þessa samdægurs með sér ráðningarsamning til fimm ára. Samkvæmt þessum samningi var stefnandi ráðinn til þess að veita tónlistarsviði stefnda forstöðu og skyldu laun og starfskjör hans vera óbreytt frá þeim kjörum sem hann naut hjá Spori ehf. Að auki var svo umsamið að stefnandi fengi sem uppbótargreiðslur 10% af hagnaði vegna tónlistarútflutnings á vegum stefnda á fyrsta ári samningsins, 7,5% vegna annars árs hans og 5% það sem eftir lifði samningstímans. Sú fjárhæð sem stefnandi skyldi þannig fá átti þó að vera að lágmarki jöfn að krónutölu því sem hann fengi vegna fyrsta ársins, en því taldist ljúka 31. desember 1999. Uppgjör skyldi miðað við tekjur sem til yrðu innan ársins. Eftir starfslok skyldi stefnandi fá 2% af „PPD”, en þó aldrei meira en 20% af hlut félagsins af tekjum vegna erlendra samninga um efni sem við ráðningarlok hefði verið gefið út með nánar tilteknum tónlistarmönnum.
Aðilar málsins gerðu með sér nýjan ráðningarsamning 13. janúar 1999 og samkvæmt honum var svo umsamið að mánaðarlaun stefnanda skyldu vera kr. 520.000 auk þrettánda mánaðar og fullra hlunninda vegna einkanota af bifreið. Þá urðu þær breytingar á uppbótargreiðslum til stefnanda að samið var um 5% af hagnaði vegna tónlistarútflutnings vegna annarra listamanna en Móu. Eftir starfslok skyldi stefnandi fá 2% „override” vegna erlendra samninga um efni sem við ráðningarlok hefði verið gefið út með Mezzoforte og einum öðrum listamanni samningsbundnum Spori, sem stefnandi skyldi tilnefna ekki síðar en 31. janúar 1999. Vegna erlendrar útgáfu á tónlist Móu skyldi stefnandi fá 2% „override” frá útgáfu. Slíkar greiðslur vegna Móu, Mezzoforte og eins annars listamanns skyldu þó aðeins eiga við að „break-even” hafi verið náð. Í þessum samningi var ekki sambærilegt ákvæði og í fyrri samningi um að uppbótargreiðsla til stefnanda skyldi vera að lágmarki jöfn að krónutölu því sem hann fengi vegna fyrsta ársins. Í samningum aðila er ekki að finna ákvæði um það hversu miklum fjármunum skyldi varið í tónlistarútflutning eða hvernig þeirri starfsemi skyldi háttað. Stefndi hefur lagt fram gögn sem sýna að hann hafi á árunum 1999-2001 lagt um 105 milljónir króna til umræddrar starfsemi.
Stefnandi heldur því fram að fljótlega hafi farið að bera á því að áform stefnda um útflutning á íslenskri tónlist hafi ekki verið í samræmi við forsendur samningsins. Segist stefnandi hafa gert þá kröfu að launakjör hans yrðu lagfærð í ljósi áherslubreytinga stefnda er laut að tónlistarútflutningi, enda fyrirsjáanlegt að uppbótargreiðslur yrðu talsvert lægri en ella af þeim sökum. Stefnandi segir að eftir fjölmarga fundi með yfirmönnum stefnda og Norðurljósa hafi honum verið tjáð að Jón Ólafsson, stjórnarformaður Norðurljósa, myndi sjá um frágang og leiðréttingu ráðningarkjara stefnanda. Heldur stefnandi því fram að þrátt fyrir ítrekuð tilmæli af hálfu hans hafi ekki verið staðið við þetta af hálfu stefnda. Stefndi kannast ekki við þessa lýsingu stefnanda og segir að það eina sem verið hafi til umræðu að því er launakjör hans varðaði hafi verið krafa hans um vísitöluhækkun á föst mánaðarlaun. Segir stefndi að á árinu 2001 hafi verið fallist á að greiða stefnanda kr. 2.000.000 til leiðréttingar af þessum sökum og þá hafi föst laun hans hækkað til samræmis.
Stefnandi heldur því fram að í desember 2001 hafi framkvæmdastjóri stefnda tilkynnt honum að frekara fjármagni yrði ekki veitt til útflutningsverkefna á vegum fyrirtækisins. Segir stefnandi þá hafa orðið ljóst að forsendur ráðningarsamningsins væru brostnar og heldur hann því fram að á þessum tíma hafi vanskil á greiðslu uppbótargreiðslna vegna áranna 1999 og 2000 staðið um langt skeið. Stefndi heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi engar kröfur haft uppi vegna vangreiddra uppbótargreiðslna. Segir stefndi að verulegt tap hafi verið á rekstri stefnda rekstrarárið 2001 og hafi stefnanda verið tilkynnt að ekki væri sérgreind fjárhæð fyrir árið 2002 til verkefna á sviði útflutnings á íslenskri tónlist. Stefndi mótmælir því að með þessum aðgerðum hafi verið ráðgert að leggja niður slíkan útflutning.
Stefnandi heldur því fram að hann hafi tilkynnt þáverandi forstjóra Norðurljósa, Hreggviði Jónssyni, að hann hygðist rifta vinnusamningi vegna vanefnda stefnda. Segir stefnandi að Hreggviður og Jón Ólafsson hafi leitað eftir því við hann að hann tæki að sér tiltekin verkefni án viðveruskyldu á útflutningssviði sem forsvarsmaður stefnda á sameiginlegum vettvangi Sambands hljómplötuframleiðenda og annarra tengdra félaga. Segist stefnandi hafa samþykkt að ganga til slíkra viðræðna enda yrði gengið frá launaskuldum og viðunandi samningur launakjör næðist. Segir stefnandi að 1. janúar 2002 hafi gjaldfallið uppbótargreiðsla til hans að fjárhæð kr. 2.270.719. Heldur hann því fram að í stað þess að láta þegar af störfum hafi hann unnið áfram hjá stefnda enda hafi honum verið tjáð að yfirmenn stefnda myndu leggja fram tillögur um það hvernig þeir vildu nýta starfskrafta hans. Þegar hvorki hafi bólað á uppbótargreiðslum né tillögum stjórnenda stefnda um nýjan og breyttan starfssamning í lok mars 2002 segist stefnandi hafa ákveðið að slíta vinnusamningnum og mun hann hafa látið af störfum í byrjun apríl 2002. Stefndi heldur því hins vegar fram að alrangt sé að stefnandi hafi lýst því yfir við forstjóra félagsins að hann hygðist rifta samningi vegna vanefnda. Hið rétta sé að stefnandi hafi í desember 2001 tilkynnt Hreggviði Jónssyni að hann óskaði eftir því að láta af störfum vegna vegna veikinda sinna. Segist stefndi hafa fallist á þetta og hafi fyrstu mánuði ársins 2002 verið leitað samkomulags um tilhögun starfsloka. Stefndi hefur lagt fram afrit tölvupóstbréfs sem stefnandi mun hafa ritað Jóni Ólafssyni, stjórnarformanni Norðurljósa, 7. apríl 2002 og kemur þar fram að ástæða þess að hann óskaði eftir því að láta af störfum sé sú að hann hafi verið svo illa á sig kominn af svokölluðum tinnitus að hann treysti sér ekki til áframhaldandi starfa. Segist stefnandi hafa verið svo gersamlega þrotinn orku að hann fann að hann hefði ekki þann kraft og einbeitingu sem þyrfti til þess að kljúfa annað ár. Segir í bréfinu að þetta sé meginástæða þess að hann vilji hætta og hefði þetta ekki verið til staðar myndi hann að sjálfsögðu hafa verið út samningstímann.
Stefndi segir að við starfslok stefnanda hafi verið gerð upp við hann síðustu mánaðarlaun hans, hlutdeild í þrettánda mánuði og orlof. Hins vegar hafi vinnu við útreikninga uppbótargreiðslna stefnanda ekki verið lokið og þá hafi staðið til að stefnandi keypti bifreið og tölvubúnað af stefndu. Stefndi bauð stefnanda að uppbótargreiðsla að fjárhæð kr. 799.083 yrði gerð upp í tengslum við þessi kaup en stefnandi mun hafa hafnað þessu tilboði. Í framhaldi af þessu krafði stefnandi stefnda um greiðslu launa út upphaflegan ráðningartíma auk uppbótargreiðslna í samræmi við túlkun sína á ráðningarsamningi aðila. Ekki náðist samkomulag milli aðila en stefndi greiddi stefnanda kr. 799.083 í byrjun júlí 2002 og telur sig með þeirri greiðslu hafa gert full skil við stefnanda.
Stefndi hefur lagt fram skjal sem sýnir stöðu útflutningsverkefna miðað við 4. apríl 2002. Þar er ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna verkefna á árinu 1998 en hagnaður ársins 1999 sé kr. 15.855.732 og hlutdeild stefnanda í þeim hagnaði því kr. 792.787. Samkvæmt þessu skjali sé tap vegna ársins 2000 en hagnaður ársins 2001 sé kr. 36.866.839 og hagnaðarhlutdeild stefnanda því kr. 1.843.342. Stefndi heldur því fram að taka verði tillit til taps að fjárhæð kr. 35.405.885 sem orðið hafi á verkefni er varði útflutning á tónlist Svölu Björgvinsdóttur áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir á því að í gildi hafi verið tímabundinn ráðningarsamningur milli aðila málsins sem gilt hafi til fimm ára frá og með 13. janúar 1999. Hafi stefndi vanefnt samninginn með saknæmum og ólögmætum hætti með því í fyrsta lagi að hafa ekki greitt umsamdar uppbótargreiðslur vegna útflutningsverkefna og í öðru lagi með því að leggja niður tónlistarútflutning á vegum stefnda, sem verið hafi grundvöllur kjara stefnanda hjá stefnda.
Stefnandi vísar til almennra reglna vinnuréttar og almennra reglna skaðabótaréttar um skaðabætur vegna ólögmætra slita á tímabundnum vinnusamningi. Um vexti er vísað til vaxtalaga og um málskostnað til laga nr. 91/1991.
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig að gjaldfallnar uppbótargreiðslur vegna tónlistarútflutnings séu samtals að fjárhæð kr. 3.428.916, þ.e. kr. 792.787 vegna ársins 1999, sama fjárhæð vegna ársins 2000 og kr. 1.843.342 vegna ársins 2001. Þá sé skaðabótakrafa vegna ólögmætrar uppsagnar á ráðningarsamningi kr. 5.148.901 vegna fastra launa frá og með 1. maí 2002 til og með 31. desember sama ár, kr. 7.772.352 vegna fastra launa frá 1. janúar 2003 til og með 31. desember sama ár og kr. 594.104 vegna fastra launa í janúar 2004. Hefur stefnandi í kröfugerð sinni að þessu leyti tekið tillit til þrettánda mánaðar. Þá gerir stefnandi kröfu um uppbótargreiðslur vegna áranna 2002 og 2003, samtals kr. 2.636.129 og reiknar þá kröfu sem meðtal af greiðslum áranna 1999 og 2001. Til vara gerir stefnandi kröfu um greiðslu á kr. 1.585.129 vegna þessa kröfuliðar.
Stefndi byggir á því að samkomulag hafi verið með aðilum um að stefnandi léti af störfum áður en samningsbundinn óuppsegjanlegur ráðningartími væri liðinn. Hafi ráðningarslitin verið að frumkvæði stefnanda og vegna atvika sem hann hafi lýst fyrir forstjóra Norðurljósa í desember 2001. Hafi því fallið niður réttindi og skyldur aðila samkvæmt samningnum. Þá hafi stefnandi tekið athugasemdalaust við launauppgjöri við starfslok sem miðast hafi við það að hann væri að hætta störfum.
Verði ekki á það fallist að samkomulag hafi verið um að slíta ráðningarsamningi komi til skoðunar hvort stefnandi hefði átt rétt á að rifta honum. Byggi stefnandi annars vegar á því að forsendur um starfsemi stefnda sem lotið hafi að útflutningi á íslenskri tónlist hafi brostið og hins vegar að stefndi hafi vanefnt að greiða hluta launa hans þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þar að lútandi. Stefndi hafnar því að sjónarmið um forsendubrest fái staðist og byggir á því að alrangt sé að stefnandi hafi lýst því yfir við forstjóra félagsins að hann hygðist rifta samningi vegna vanefnda. Hafi stefnandi lýst því í bréfi til forstjórans að hann óskaði eftir því að láta af störfum vegna veikinda sinna og hvergi komi fram í bréfinu eða í öðrum gögnum að hann hafi haft í hyggju að rifta ráðningarsamningi við stefnda.
Stefndi byggir á því að fráleitt sé að sú staðreynd að ekki hafi verið búið að gera upp við stefnanda uppbótargreiðslur vegna útflutnings geti réttlætt riftun samningsins. Stefnandi hafi sjálfur verið yfirmaður tónlistardeildar og haft aðgang að öllum gögnum er lotið hafi að rekstri hennar, þar á meðal gögnum um tekjur og gjöld vegna útflutnings á íslenskri tónlist. Það að ekki hafi verið farið í slíka útreikninga eftir að uppgjör vegna rekstraráranna 1999 og 2000 hafi legið fyrir hljóti að hafa byggst á því að stjórnendur, þar á meðal stefnandi, hafi ekki gert ráð fyrir að um hagnað væri að ræða. Þá liggi fyrir að uppbótargreiðsla vegna ársins 2001 hafi ekki getað legið fyrir fyrr en í tengslum við rekstraruppgjör þess árs og fái því ekki staðist að uppbótargreiðsla þess árs hafi gjaldfallið 1. janúar 2002. Stefndi byggir á því að í raun hafi ekki orðið hagnaður af útflutningsstarfsemi fyrr en á árinu 2001 þegar tekjur vegna Lands og sona og stærstur hluti tekna vegna Svölu Björgvinsdóttur hafi skilað sér.
Stefndi mótmælir umkrafinni bótafjárhæð enda með öllu órökstutt á hvaða grundvelli stefnandi geti átt rétt til að fá greiðslu fjárhæðar sem nemi launum hans út ráðningartíma án þess að hann láti af hendi vinnuframlag sem gagngjald.
Stefndi segir ágreining aðila um uppbótargreiðslur annars vegar lúta að því hvort túlka beri 5. tl. ráðningarsamningsins þannig að kostnaður stefnda vegna Svölu sem til var fallinn í árslok 1998 skuli reiknast inn í uppgjör aðila og hins vegar hvort stefnandi eigi rétt til uppbótargreiðslu vegna rekstrarársins 2000 þrátt fyrir að tap hafi orðið af því ári af útflutningi. Stefndi segist hafa ráðstafað verulegum fjármunum til erlendrar markaðssetningar og fyrirhugaðrar útgáfu á tónlist Svölu Björgvinsdóttur þegar stefnandi kom til starfa hjá stefnda. Hafi þetta verið eina útflutningsverkefnið sem mál þetta snýst um sem verið hafi í vinnslu hjá stefnda og hafi verið ráðstafað til þessa verkefnis kr. 35.405.885. Hafi samningur sá, sem skapað hafi þær tekjur sem komu til félagsins vegna Svölu á árunum 1999, 2000 og 2001, verið gerður að mestu af Jóni Ólafssyni í mars 1999 og hafi byggst að mestu á starfi sem fram hafi farið fyrir árslok 1998. Stefndi túlkar umrætt samningsákvæði þannig að uppbótargreiðsluna skuli reikna af hreinum hagnaði fyrirtækisins af tónlistarútflutningi. Reiknist því ekki hagnaður hjá stefnda fyrr en tekjur hafi komið inn fyrir fjárhæð sem nemi útlögðum og eignfærðum útgáfu- og markaðskostnaði fyrirtækisins. Samkvæmt þessu reiknist því ekki hagnaður vegna Svölu fyrr en kostnaður sem fyrirtækið hafi lagt í og leiddi til þess að samningar tókust, hafi fengist til baka.
Stefndi segir að ekki verði séð miðað við þessa túlkun að tölulegur ágreiningur sé með aðilum að öðru leyti en því að stefnandi telji aðrar tekjur á árinu 1999 nema kr. 1.000.000, en stefndi miði við kr. 971.194. Þá hafnar stefndi þeirri túlkun stefnanda að uppbótargreiðslur fyrir fyrsta árið skyldu vera árleg lágmarksgreiðsla til stefnanda út samningstímann og bendir á að gerð sé krafa um uppbótargreiðslu vegna ársins 2000 þrátt fyrir að tap hafi verið á því ári. Byggir stefndi á því að í ráðningarsamningi sé ekkert ákvæði um slíka lágmarksgreiðslu og hafi kröfugerð stefnanda því ekki stoð að þessu leyti. Þá bendir stefndi á að ráða megi af tölvupóstsendingu stefnanda 15. apríl 2002 að hann telji sig ekki eiga rétt á greiðslu vegna ársins 2000.
Stefndi byggir á því að hann hafi með greiðslu á kr. 799.083 í byrjun júlí 2002 að fullu gert upp uppbótargreiðslur til stefnanda. Þá mótmælir stefndi sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta.
Stefndi vísar til almennra reglna samningarréttar um gildi og túlkun samninga og almennra reglna vinnuréttar um réttindi og skyldur vinnuveitenda og launþega og slit á ráðningarsamningum. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila máls þessa snýst um það hvort stefnandi eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda frá 1. maí 2002 til 13. janúar 2004 á þeim grundvelli að stefndi hafi vanefnt ráðningarsamning aðila með saknæmum og ólögmætum hætti með því að hafa í fyrsta lagi ekki greitt umsamdar uppbótargreiðslur vegna útflutningsverkefna og í öðru lagi með því að leggja niður tónlistarútflutning á vegum stefnda, en það hafi verið grundvöllur kjara stefnanda. Er annars vegar um það deilt af hvaða ástæðum stefnandi lét af störfum áður en ráðningartíma hans lauk og hins vegar er deilt um túlkun á 5. tl. ráðningarsamningsins. Er í því tilviki deilt um það hvort kostnaður stefnda sem til féll vegna tónlistarútflutnings áður en stefnandi hóf störf hjá fyrirtækinu skuli teljast með við uppgjör aðila. Þá er um það deilt hvort stefnandi eigi rétt til uppbótargreiðslu vegna rekstrarársins 2000, þrátt fyrir að tap hafi orðið á útflutningi á því ári.
Samkvæmt ráðningarsamningi aðila réð stefnandi sig til þess að veita tónlistarsviði stefnda forstöðu. Var upphaflegur ráðningarsamningur gerður 23. júlí 1998, en hann var endurskoðaður 13. janúar 1999 og gildir síðari samningurinn því um lögskipti aðila. Samkvæmt samningnum samdi stefnandi um föst laun og ákveðin hlunnindi auk uppbótargreiðslna sem reiknaðar skyldu með nánar tilteknum hætti. Er óumdeilt að stefnandi er brautryðjandi hér á landi á sviði útflutnings íslenskrar tónlistar og hafði í störfum sínum undanfarin ár tryggt sér ákveðin viðskiptasambönd sem nýttust stefnda við kaup þess á hlut í Spori ehf., en stefnandi hafði verið framkvæmdastjóri þess félags. Í samningnum er hvergi að því vikið hversu miklum fjármunum stefndi hefði í hyggju að ráðstafa í útflutning á íslenskri tónlist eða hvernig þeirri starfsemi yrði hagað. Má af gögnum málsins ráða að stefnandi hafi að miklu leyti haft frjálsar hendur um það hvernig hann hagaði þessum störfum sínum. Af hálfu stefnda er viðurkennt að rekstrarárið 2001 hafi verið fyrirtækinu verulega óhagstætt og hafi af þeim sökum þurft að grípa til umfangsmikilla aðhaldsaðgerða. Stefndi mótmælir því að staðið hafi til að leggja niður tónlistarútflutning á vegum fyrirtækisins en viðurkennir að stefnanda hafi í desember árið 2001 verið tilkynnt að frekara fjármagni yrði ekki veitt til þessara verkefna árið 2002.
Á því er meðal annars byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi vanefnt ráðningarsamninginn með því að leggja niður tónlistarútflutning á vegum stefnda, en slíkur útflutningur hafi verið grundvöllur að kjörum stefnanda hjá fyrirtækinu. Að mati dómsins er ósannað að fyrir stefnda hafi vakað að leggja slíkan útflutning niður en upplýst hefur verið að vegna rekstrarörðugleika hafi orðið að draga mjög úr fjárframlögum til slíkrar starfsemi. Eins og samningum aðila var háttað verður stefnandi að una við þetta mat stefnda, enda ekki annað í ljós leitt en að það sé byggt á mati á afkomuhorfum fyrirtækisins í ljósi markaðsaðstæðna. Verður því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi hafi vanefnt samninginn að þessu leyti.
Stefnandi byggir einnig á þeirri málsástæðu að stefndi hafi vanefnt samninginn með því að greiða ekki umsamdar uppbótargreiðslur. Ljóst er að ágreiningur var með aðilum um það hvort tiltekinn kostnaður, sem til hafði fallið áður en stefnandi kom til starfa hjá fyrirtækinu, ætti að koma til frádráttar þegar hagnaðarhlutdeild stefnanda var reiknuð. Þá var um það deilt hvort stefnandi ætti rétt á uppbótargreiðslu sem væri að lágmarki jöfn að krónutölu því sem hann fengi vegna fyrsta ársins. Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefnandi sjálfur eftir lausn undan samningsskyldum sínum og bar við miklum veikindum sínum. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi í framhaldi af þessari beiðni sinni lagt fram með skýrum hætti hvaða kröfu hann gerði að því er uppbótargreiðslur varðaði. Verður að telja að það hafi staðið stefnanda næst að leggja fram slík gögn, enda má ætla að hann hafa haft einna besta yfirsýn yfir starfsemi þeirrar deildar sem hann veitti forstöðu. Virðast slík gögn ekki hafa verið til reiðu fyrr en við starfslok stefnanda um mánaðamótin mars/apríl 2002. Ber því að hafna því að stefndi hafi vanefnt ráðningarsamning aðila enda ekki annað í ljós leitt en að starfslok stefnanda hafi verið af ástæðum er hann sjálfan varðaði. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar á ráðningarsamningi.
Samkvæmt 5. tl. umrædds ráðningarsamnings skyldi stefnandi fá sem uppbótargreiðslur 5% af hagnaði vegna tónlistarútflutnings á vegum stefnda. Stefndi byggir á því að til frádráttar hagnaðargreiðslu til stefnanda skuli koma kostnaður sem féll til áður en stefnandi hóf störf hjá fyrirtækinu. Er upplýst að uppsafnaður kostnaður af þessum sökum hafi numið rúmum 35 milljónum króna í árslok 1998. Í upphaflegum samningi aðila frá 23. júlí sama ár var ekkert að þessum kostnaði vikið og heldur ekki í hinum síðara samningi frá 13. janúar 1999. Má telja með miklum ólíkindum að stefnandi hefði gengið til samninga um uppbótargreiðslur ef til frádráttar ætti að koma kostnaður sem til féll áður en hann kom til starfa. Verður stefndi að bera hallann af því að samningur aðila var ekki skýr að þessu leyti og verður túlkun stefnda á þessu samningsákvæði því hafnað.
Í síðara samningi aðila var ekki sambærilegt ákvæði og í fyrri samningi um að uppbótargreiðsla til stefnanda skyldi vera að lágmarki jöfn að krónutölu því sem hann fengi vegna fyrsta ársins. Samkvæmt gögnum málsins varð tap af útflutningi ársins 2000 og á stefnandi því ekki rétt á uppbótargreiðslu vegna þess árs. Verður kröfu stefnanda að þessu leyti því hafnað.
Stefnandi hefur lagt fram gögn sem sýna stöðu útflutningsverkefna miðað við 4. apríl 2002. Þar sem stefndi hefur ekki hnekkt þessum gögnum verður við uppgjör aðila að byggja á þeim. Verður niðurstaða málsins því sú að stefndi á eftir að standa stefnanda skil á uppbótargreiðslum vegna ársins 1999, kr. 792.787 og vegna ársins 2001, kr. 1.843.342, eða samtals kr. 2.636.129. Þykir rétt að þessi fjárhæð beri dráttarvexti frá því einum mánuði eftir að stefnandi lagði fram útreikninga sína, eða 4. maí 2002 til greiðsludags og frá henni ber að draga greiðslu stefnda til stefnanda í byrjun júlí sama ár, kr. 799.083.
Eftir þessum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda kr. 300.000 upp í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Skífan ehf., greiði stefnanda, Steinari Berg Ísleifssyni, kr. 2.636.129 með dráttarvöxtum frá 4. maí 2002 til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 799.083 og kr. 300.000 upp í málskostnað.