Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2004


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Skilorðsrof


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. maí 2004.

Nr. 34/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Birgi Andréssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Þjófnaður. Tilraun. Skilorðsrof.

B var sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot og tilraun til þjófnaðar. B átti talsverðan sakaferil að baki og með brotunum rauf hann skilorð eldri dóms. Þótti refsing B hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Birgir Andrésson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2003.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 14. október sl. á hendur ákærðu, Birgi Andréssyni, [...], og A, […], , “fyrir eftirtalda þjófnaði framda í Reykjavík á árinu 2003:

I

Ákærðu báðum:

1.  Laugardaginn 10. maí í félagi brotist inn í skrifstofuhúsnæði að […], með því að spenna upp hurð, og stolið 3 tölvum, 2 prenturum, 2 mælum, símatæki, upptökutæki, sjónauka, myndavél og tölvubúnaði, samtals að verðmæti kr. 2.041.883.

M. 010-2003-11504

2.  Þriðjudaginn 20. maí í félagi og auðgunarskyni brotist inn í skrifstofuhúsnæði […], með því að spenna upp glugga, en ákærðu hurfu af vettvangi er þjófavarnarkerfi fór í gang.  M. 010-2003-12363

Teljast  framangreind brot varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, að því er varðar brotið í lið I, 2.

II

Ákærða Birgi:

1.  Þriðjudaginn 13. maí brotist inn í verkstæði […], með því að spenna upp hurð, og stolið peningaskúffu sem innihélt smámynt og Doro símatæki að verðmæti um kr. 6.000.  M. 010-2003-11685

2.  Þriðjudaginn 20. maí í verslun […], stolið hengilás, Sonax ilmhjálmi, ferðavatnsbrúsa og veiðibúnaði, samtals að verðmæti kr. 14.522.

M. 010-2003-12880

3.  Mánudaginn 7. júlí í verslun […], stolið veiðistöng, vigt, rafhlöðum, fjöltengi, hleðslutæki fyrir farsíma, flugnaneti, sexkantasetti og topplykla­setti, samtals að verðmæti kr. 14.202.  M. 010-2003-16970

Teljast framangreind brot í lið II varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”

Málavextir

I. kafli ákærunnar, 1. tl.; innbrotsþjófnaður í skrifstofuhúsnæðið

[…].

Við húsleit hjá ákærða Birgi 20. maí sl. fundust tölvuprentari og ADSL-módem sem raktir voru til innbrots í fyrirtækið […].  Leiddi það til þess að ákærðu viðurkenndu hjá lögreglu að hafa átt þar hlut að máli.  Hafa þeir haldið við það fyrir dómi.  Þess er að geta að ákærðu hafa ekki, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi, kannast við að hafa tekið nema lítinn hluta af því sem ákært er fyrir.  Þannig kannast ákærði Birgir aðeins við að þeir hafi tekið þarna tvo tölvuprentara, rafmagnssnúrur fyrir tölvubúnað og eina fartölvu.  Ákærði A hefur viðurkennt að hafa farið þarna inn og tekið þaðan tölvuprentara að beiðni meðákærða svo og “ADSL-módem.”   Fyrir dómi hefur hann sagt að hann hafi ekki áttað sig á því hvað væri á seyði fyrr en Birgir kom út ýtti við honum þar sem hann mókti í bílnum og bað hann fara inn og sækja prentarann sem hefði dottið í gólfið.  Þá kveðst hann ekki vita neitt um þetta “módem.”  Í málinu er óstaðfestur listi yfir það sem saknað var og hefur ákæruvaldið ekki gert tilraun til að sanna frekari þjófnað á ákærðu.  Verður ekki talið sannað gegn neitun ákærðu að þeir hafi stolið meiru en þeir hafa viðurkennt, þ.e.a.s. tvo tölvuprentara, fartölvu, og rafmagnssnúrur.  Teljast ákærðu hins vegar báðir vera aðalmenn í þjófnaðinum og sekir um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.

I. kafli ákærunnar, 2. tl.; tilraun til innbrotsþjófnaðar í

[…].

Fyrir liggur að ákærðu voru handteknir klukkan 4.30 þriðjudagsnóttina 20. maí í bíl sem sést hafði við […] um það leyti sem þjófavarnarkerfið fór í gang, en það var rúmum hálftíma áður.  Ákærði Birgir hefur játað að hafa brotist inn í skrifstofuhúsnæði stöðvarinnar til þess að stela verðmætum en orðið frá að hverfa þegar þjófavörnin fór í gang. 

Tekin var skýrsla af ákærða A hjá lögreglu klukkan rúmlega níu um morguninn eftir handtökuna.  Var haft eftir honum þar að um hálfellefu kvöldið áður hefði meðákærði komið í heimsókn til hans.  Um hálfeitt hefði Birgir sagt að hann vildi fara í innbrotsleiðangur og talað um nokkur fyrirtæki, þar á meðal […].  Hefði hann sagt Birgi að hann væri til í það að koma með.  Hafi þeir farið á bíl Birgis og hann ekið rakleiðis upp á Sævarhöfða og lagt bílnum við […].  Hafi Birgir sagt að þar ætlaði hann að brjótast inn og stela tölvubúnaði fyrir “milljón eða meira.”  Hefði hann beðið ákærða A að halda vörð í bílnum á meðan og aka bílnum að dyrum á fyrirtækinu þegar hann kallaði.  Kvaðst ákærði hafa sagt Birgi að honum litist ekki á þetta þar sem hann taldi sig vita að fyrirtækið væri vaktað og grunsamlegur bíll stæði þar hjá.  Birgir hefði sagt að þetta væri í lagi og hann myndi brjótast inn allt að einu.  Hefði hann haft orð á því að þeir skyldu ráðast á lögreglu eða öryggisverði ef þeir rækjust á þá, tekið kúbein úr bílnum og farið og spennt upp glugga í […] og skriðið þar inn.  Hefði Birgir dregið frá gluggatjöldin eftir að hann var kominn inn en þá hefði þjófavörnin farið í gang.  Birgir hefði ekki látið það á sig fá heldur verið þarna inni í nokkrar mínútur áfram en svo komið út gangandi í hægðum sínum, líklega með kúbeinið í höndunum.  Sjálfur hefði hann verið í mikilli geðshræringu út af vælinu í þjófavörninni.  Hefði Birgir sest undir stýri og ætlað að aka á brott en bíllinn þá ekki farið í gang.  Hefði Birgir þurft að eiga við vélina áður en það tókst.  Þá hefði hann einnig falið kúbeinið í sandhrúgu þarna skammt frá.  Birgir hefði ekið í Grafarvogshverfið og leitað þar að öðru kúbeini í nýbyggingum og sagt að hann vildi brjótast inn í fleiri fyrirtæki.  Hefði hann ekki haft erindi sem erfiði.  Hefði hann þá sagt Birgi að hann skyldi lána honum kúbein sem hann ætti heima.  Með þessu hefði hann viljað láta Birgi aka sér heim og ætlað að verða þar eftir því honum hafi ekki litist á þetta allt saman.  Stuttu seinna hefði einhver öryggisvörður hringt í gemsann hjá Birgi og stefnt honum upp að […].  Á leiðinni þangað hefði lögreglan stöðvað för þeirra og þeir verið handteknir.

Ákærði A hefur neitað því fyrir dómi að eiga hlut að þessum verknaði.  Hann kannast við að hafa verið í bílnum með Birgi og viljað fá hann til þess að aka sér heim.  Beri hann því ekki ábyrgð á þessari innbrotstilraun.  Hann kveður þá Birgi hafa verið að drekka saman og “dópa” um kvöldið.  Hefði Birgir talað um það um kvöldið hann ætlaði að skoða einhver fyrirtæki, svo sem […], sem hann vildi brjótast inn í.  Seinna um kvöldið hafi þeir farið á bíl Birgis og kveðst ákærði þá ekki hafa gert sér grein fyrir því að þetta væri innbrotsleiðangurinn.  Birgir hafi ekið upp að […].  Ákærði kveðst hafa beðið Birgi um að aka sér heim þegar þangað var komið, enda hafi hann þá verið farið að gruna hvað til stæði hjá Birgi og ekki viljað eiga þátt í því.  Birgir hafi sagt að hann þyrfti aðeins að skreppa frá.  Hafi Birgir beðið sig um að vera á verði í bílnum á meðan og koma með bílinn að dyrunum þegar hann myndi kalla.  Kveðst ákærði hafa sagt að hann vildi ekki taka þátt í þessu og beðið Birgi að aka sér heim.  Eftir að bjallan fór í gang -en bíllinn ekki- segist ákærði hafa reynt að hjálpa við að gangsetja hann en svo sest inn í bílinn aftur og ætlað að bíða þess að lögreglan kæmi.  Eftir að þeir komust af stað kveðst hann hafa beðið Birgi um að aka sér heim en Birgir ekið um og skoðað sig um.  Að lokum hafi Birgir tekið stefnuna heim en þá hafi þeir verið stöðvaðir og handteknir. 

Ákærði er spurður af verjandanum hvort hann hafi gert sér grein fyrir því, þegar Birgir bað hann um að halda vörð, að hann væri að fara til þess að brjótast inn.  Segist ákærði þá ekki hafa vitað hvað Birgir væri að gera og ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en bjallan fór í gang hvað væri að gerast.  Hann segist ekki hafa samþykkt að vera á verði fyrir Birgi.  Fyrir framan nafnritun sína undir þessa skýrslu hefur ákærði sett stafina M.f.  Hann hefur aðspurður sagt að þeir eigi að þýða “með fyrirvara”.  Með því hafi hann viljað setja fyrirvara við efni skýrslunnar vegna þess hve slæmu ástandi hann hafi verið í.  Hann er spurður hvað það sé í skýrslunni sem ekki sé rétt.  Segir hann það ekki vera rétt þar sem segi að þeir hefðu farið út í bíl Birgis og á leiðinni að […] hefði Birgir talað um að hann ætlaði að brjótast þar inn og stela þar fyrir milljón.  Hið rétta sé að hann minni að hann “hafi fengið upplýsingar um að hann hafi sagt að hann væri búinn að fá einhverjar upplýsingar um þessa malbikunarstöð.”  Annað sé ekki rétt.  Þá sé það ekki rétt sem segi að Birgir hafi beðið hann að vera á verði í bílnum og aka honum að dyrum fyrirtækisins þegar hann myndi kalla.  Þá segir hann það vera rangt í skýrslunni að hann hafi séð Birgi skríða inn um gluggann.  Hann hafi ekki séð annað til Birgis en að hann gekk í átt að húsinu.  Þá sé hann ekki viss um að það sé rétt að Birgir hafi farið að leita að kúbeini í nýbyggingum í Grafarvogi.  Kveðst hann neita þessu.  

Ákærði skýrir misræmi í framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi verið illa á sig kominn þegar hann gaf lögregluskýrsluna og viljað sem fyrst sleppa úr haldi.  Hann hafi því frekar ýkt en dregið úr þegar hann gaf skýrsluna.

Lögreglumenn þeir sem komu að yfirheyrslu ákærða hafa komið fyrir dóm og sagt að hann hafi ekki gert þeim grein fyrir að hann skrifaði undir skýrsluna með fyrirvara og þeir hafi ekki tekið eftir þessum bókstöfum við nafnritun hans.

Ákærði Birgir var ekki spurður nákvæmlega út í innbrotið í […] og aðdraganda þess þegar hann kom fyrir dóm í málinu og skýrsla hans hjá lögreglu var ekki borin undir hann.    Hann kom ekki fyrir dóm í aðalmeðferð í málinu vegna forfalla og var af ákæruvaldsins ákveðið að láta sitja við það.  Liggur ekki annað fyrir en að unnt sé að fá hann fyrir dóm.  Er ekki heimilt að byggja á skýrslu Birgis hjá lögreglu um þátt ákærða í brotinu, sbr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála

Skýrsla ákærða sjálfs hjá lögreglu verður ekki skilin á annan veg en þann að hann hafi samþykkt að fara með meðákærða í bílferðina þótt hann vissi að hann ætlaði að brjótast inn.  Hann hefur ekki gefið trúverðuga skýringu á því að hann hefur breytt framburði sínum.  Frásögn ákærða fyrir dómi hefur verið þvælukennd og þar hefur hann slegið úr og í um sumt.  Eru ekki efni til þess að draga í efa að lögregluskýrslan geymi efnislega rétta endursögn af því sem hann bar fyrir lögreglu og skiptir ekki máli þótt hann telji sig hafa gert fyrirvara um efni skýrslunnar með því að setja stafina m. f. við nafn sitt.  Verður því að telja sannað að hann hafi vísvitandi slegist í þjófnaðarferðina með Birgi og var það fallið til þess að styrkja þjófnaðaráform hans, sbr. 2. mgr. almennra hegningarlaga.  Aftur á móti er ósannað að hann hafi hvatt meðákærða til þjófnaðarins eða veitt honum liðsinni í verki.  Ákærði hefur þannig orðið sekur um hlutdeild í þjófnaðartilraun meðákærða og brotið gegn 244. gr., sbr. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 22. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

II. kafli ákærunnar.

                Ákærði Birgir hefur skýlaust játað þá þrjá innbrotsþjófnaði sem greinir í þessum kafla ákærunnar og orðið sekur um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.

Refsingar og sakarkostnaður

                Ákærði Birgir á að baki talsverðan sakaferil.  Hann hefur hlotið fimmtán refsidóma til þessa, síðast 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi 11. desember 2001.  Hann hefur rofið skilorð þess dóms og verður refsingin dæmd upp og ákærða gerð refsing í einu lagi.  Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.

                Ákærði A á að baki nokkurn sakaferil en þó er þess að geta að honum hefur aðeins einu sinni verið refsað fyrir hegningarlagabrot, árið 1986 að hann var dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað.  Auk þess hefur honum verið refsað sjö sinnum fyrir umferðarlagabrot.  Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.  Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Dæma ber ákærða A til þess að greiða verjanda sínum, Þresti Þórssyni hdl., 55.000 krónur í málsvarnarlaun en ekki er að sjá að annan kostnað hafi leitt af málinu.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Birgir Andrésson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

                Ákærði, A, sæti fangelsi í 3 mánuði.  Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð.

                Ákærði, A, greiði verjanda sínum, Þresti Þórssyni hdl., 55.000 krónur í málsvarnarlaun.