Hæstiréttur íslands
Mál nr. 519/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2005. |
|
Nr. 519/2005. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði(Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi) gegn X (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. janúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að ekki hafi formlega borist niðurstaða úr DNA rannsókn sem beðið hafi verið eftir. Aftur á móti hafi rannsóknin farið fram og samkvæmt upplýsingum frá rannsóknaraðilum hafi ekki verið unnt að greina sýni á hinni haldlögðu sveðju. Sýni úr blóði á skóm varnaraðila komi hins vegar heim og saman við sýni úr brotaþola.
Enda þótt ekki verði sýnt fram á með DNA rannsókn að hinni haldlögðu sveðju hafi verið beitt af varnaraðila er til þess að líta að hinn sterki grunur sem beinist að honum, byggir meðal annars á framburði vitna um þátt varnaraðila í umræddri árás og að hann hafi þá verið vopnaður sveðju og beitt henni við árásina, sbr. dóm Hæstaréttar 12. október 2005 í máli nr. 442/2005. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. desember 2005.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði krefst þess að X, [kt. og heimilisfang], verði með dómsúrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 13. janúar 2006 vegna gruns um brot á 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Gæsluvarðhaldskrafan er studd við og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
Kærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni. Hann krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
I.
Lögreglan í Hafnarfirði hefur unnið að frumrannsókn tveggja líkamsárása, sem unnar voru við [...] aðfaranótt sunnudagsins 2. október sl. Þolendur þeirra voru A og B, en sá síðarnefndi hefur legið á Sjúkrahúsi Reykjavíkur með þrjá skurðáverka á höfði, tvær sprungur í höfuðkúpu og áverka á fingri, sem mun hafa nær því skorist frá hönd mannsins, auk annarra minni áverka. Samkvæmt læknisvottorði hlutust af árásinni tvær sprungur í höfuðkúpu B, djúpir skurðir á höfði, mjög djúpt sár á hægri hendi og minni sár á höfði og líkama. Þá kemur fram í læknisvottorðinu að miðað við höfuðáverkana sé líklegt að fremur þungu og beittu verkfæri hafi verið beitt og áverkar á hægri hendi gætu skýrst af því að brotaþoli hafi borið fyrir sig hendi eða reynt að verja sig og fengið högg af þungum hníf eða sveðju.
Kærði er grunaður um aðild að báðum líkamsárásum, í félagi við C og D. Hann neitað fyrst allri aðild að árásunum, en samkvæmt vætti nokkurra vitna mun kærði hafa ráðist á mennina og meðal annars lagt til B með sveðju.
II.
Fjögur vitni hafa borið hjá lögreglu um aðild kærða að nefndum líkamsárásum og þau öll greint frá því að kærði hafi verið með sveðju, sem hann hafi beitt gegn fórnarlömbunum. Samkvæmt lýsingu tveggja þeirra mun umrædd sveðja vera með bognu og breiðu blaði, allt að 40 cm að lengd.
Kveður lögreglustjóri grun um meint brot kærða enn hafa styrkst. Þannig hafi lögregla nú undir höndum tímasettar ljósmyndir úr samkvæminu að [...]. Á ljósmynd megi sjá að kl. 01:00 um nóttina hafi kærði verið klæddur í bol sem líti út eins og bolur sem fannst rennandi blautur ásamt gallabuxum í fataskáp að [...] eftir handtöku kærða og hafi kærði á þeim tíma verið nokkuð hárprúður. Í blautu fötunum hafi fundist blóðblettir. Við handtöku á tímabilinu frá kl. 03:09-03:15, hafi kærði verið kominn í annan bol og hafði hann verið snoðaður, sem komi heim og saman við ljósmynd af kærða sem tekin var í samkvæminu kl. 02:36. Þá hafi þær upplýsingar fengist frá tæknideild að blóð hafi fundist á þeim skóm sem kærði var í við handtöku og hafi mátt greina að skórnir höfðu verið bleyttir, eins og reynt hefði verið að þrífa þá. Þá hafi verið tekin skýrsla af þeim brotaþola, sem hlaut alvarlegustu áverkana og hafi hann greint svo frá að kærði hafi ráðist að honum með sveðju.
Hefur framburður kærða um atvik málsins breyst við rannsóknina, en í skýrslutöku hjá lögreglu þann 20. október sl. kvaðst kærði kannast við að hafa átt þátt í að ráðast að B. Þá kvað kærði föt sín hafa verið blóðug, hann hafi reynt að skola úr þeim, en síðan haft fataskipti og að hann hafi verið klipptur í samkvæminu, eftir að ráðist var að B. Aftur á móti kannast kærði ekkert við að hafa beitt eggvopni í árásinni.
Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, raka í meðfylgjandi kröfu lögreglustjóra dags. í dag. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er þess krafist að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 13. janúar nk.
Í ljósi nefndra vitnisburða og framangreindra atriða þykir sterkur og rökstuddur grunur fram kominn um að kærði hafi framið brot gegn 211 gr., sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum, en brot gegn nefndum lagaákvæðum geta varðað fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.
Rannsókn sem enn stendur yfir á árás þar sem beitt var stórhættulegu vopni, m.a. ítrekað á höfuð brotaþola og hlaut brotaþoli af alvarlega áverka, er nú á lokastigi, en beðið er eftir niðurstöðu DNA-greiningar, sem er að vænta innan skamms. Eftir það mun málið verða sent Ríkissaksóknara til meðferðar.
Miðað við það sem fram hefur komið við meðferð málsins þá var árásin mjög hrottaleg og hending virðist hafa ráðið því að ekki fór enn verr. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er grunaður um verður að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðahaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 teljast vera fyrir hendi.
Þykir því rétt að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald á hendur kærða, eins og hún er sett fram, með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til kl. 16:00 föstudaginn 13. janúar 2006.