Hæstiréttur íslands

Mál nr. 220/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 7

 

Miðvikudaginn 7. júní 2000.

Nr. 220/2000.

Dánarbú Brands Brynjólfssonar

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

gegn

Jóni Baldvinssyni

Laxnesbúinu ehf.

Héðinshöfða ehf. og

(Jón Magnússon hrl.)

Baldri Baldurssyni

(sjálfur)

                                                

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

D höfðaði mál gegn J, einkahlutafélaginu L, einkahlutafélaginu H og B og krafðist þess að viðurkennt yrði að hann ætti ákveðinn hluta hlutafjár í L og að samþykktir félagsins frá 1993 og 1995 yrðu dæmdar ógildar. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms að krafa D væri óljós, tilgreining málsástæðna í stefnu óskýr og bæri að vísa málinu frá dómi á grundvelli d., e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilarnir Jón Baldvinsson, Laxnesbúið ehf. og Héðinshöfði ehf. krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Baldur Baldursson krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði sóknaraðila að ekki verði komist hjá að vísa málinu frá héraðsdómi. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, dánarbú Brands Brynjólfssonar, greiði varnaraðilum, Jóni Baldvinssyni, Laxnesbúinu ehf., Héðinshöfða ehf. og Baldri Baldurssyni, hverjum fyrir sig 25.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2000.

I

                Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17. og 18. nóvember 1999.  Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi um frávísunarkröfu stefndu 17. f.m.

Stefnandi er dánarbú Brands Brynjólfssonar, kt. 211216-3959, Skipholti 21, Reykjavík.

                Stefndu eru  Jón Baldvinsson, kt. 021042-4129,  Laxnesbúið ehf., kt. 631090-2069, Héðinshöfði ehf., kt. 580180-0439, allir til heimilis að Furuvöllum, Mosfellsbæ, og  Baldur Baldursson, kt. 281034-2359, Blikahöfða 7, Mosfellsbæ.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi 58,52 prósent hlutafjár í einkahlutafélaginu Laxnesbúinu ehf. og að samþykktir stefnda frá 1993 og 1995 verði dæmdar ógildar.  Hann krefst ennfremur málskostnaðar úr hendi stefndu.

                Stefndu krefjast aðallega frávísunar málsins og málskostnaðar en til vara sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

                Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfum verði hrundið.

                Í þinghaldi 28. mars sl. lét dómari bóka að hann teldi galla kunna að vera á málinu sem fólginn væri í því að lögmælts málshöfðunarfrests, samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, hefði ekki verið gætt og varðaði frávísun án kröfu.  Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 91/1991 gafst aðilum kostur á að tjá sig munnlega um þetta samhliða flutningi um frávísunarkröfur stefndu.

II

                Þann 18. maí 1949 var Laxnesbúið hf. stofnað.  Hlutafé var ákveðið 1.350.000 krónur.  Í 7. gr stofnsamnings og 6. gr. samþykkta var kveðið á um að yrði hlutafé aukið skyldu hluthafar eiga forgangsrétt að aukningahlutum í hlutfalli við hlutafjáreign hvers hluthafa og jafnframt var kveðið á um forkakaupsrétt félagsins og, að því frágengnu, annarra hluthafa að fölum hlutum.

                Af hálfu stefnanda hefur verið lögð fram fundargerðabók Laxnesbúsins hf. þar sem síðasti fundur, framhaldsaðalfundur, er skráður 25. apríl 1964.  Þá varð Brandur Brynjólfsson eigandi að hlutafé að nafnverði 755.000 krónur.  Í stefnu segir að Brandur Brynjólfsson hafi fengið í sínar vörslur hlutabréf sem nam hlutafjáreign hans.  Hluta af þeim, eða 186.000 krónur, hafi hann sett að handveði en varðveitt afganginn “fram á þennan dag eða sem nemur að nafnverði krónur 570.000 (svo) eða sem nemur 42,22% eignarhlut af því heildarhlutafé sem gefið var út. . .”

                Framlögð hlutabréf á nafni Brands Brynjólfssonar nema samtals 569.000 krónum.

                Brandur Brynjólfsson andaðist 27. júlí 1999.  Dánarbú hans, stefnandi máls þessa, er skuldaviðgöngubú.

                Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 27. apríl 1964, var stjórn þannig skipuð:  Formaður Gunnar St. Fjeldsted.  Meðstjórnendur Ingólfur Ólafsson og Baldur Baldursson.  Í varastjórn Stefán Wathne og Brandur Brynjólfsson.

                Í stefnu segir að Brandur Brynjólfsson hafi tilkynnt um nýja stjórn þ. 25. október 1990 en þess sé ekki getið í fundargerðabók félagsins og ekki sjáist af gögnum hlutafélagaskrár að hin nýja stjórn  hafi verið skráð þar.

                Af hálfu stefndu voru lögð fram bréf Baldvins Jónssonar hrl. frá 1. og 17. janúar 1991 til hlutafélagaskrár þar sem mótmælt er sem ólögmætri tilkynningu Brands Brynjólfssonar  hrl., dags. 25. október 1990, um hluthafafund, kosningu stjórnar og prókúruumboð varðandi Laxnesbúið hf.  Einnig bréf hlutafélagaskrár, dags. 11. október 1991, til Baldvins Jónssonar hrl. þar sem segir að ekki muni verða af birtingu á tilkynningu frá Brandi Brynjólfssyni hrl.

                Frammi liggur yfirlýsing Gunnars St. Fjeldsted og Baldurs Baldurssonar frá 22. mars 1993.  Þar segir að á stjórnar- og hluthafafundi, sem haldinn verði 7. apríl 1993, verði borin fram tillaga um að fela Jóhanni Þórðarsyni hrl. að undirbúa og auglýsa aðalfund Laxnesbúsins hf. eigi síðar en 15. maí 1993.  Jafnframt sé honum falið að endurskoða samþykktir hlutafélagsins og leiðrétta í samræmi við lög nr. 32 frá 1978 um hlutafélög.  Þá sé honum falið að láta endurskoðanda gera reikninga fyrir félagið, auglýsa eftir hlutafé og láta prenta ný hlutabréf sem hann afhendi í stað hinna eldri sem verði þá fargað.

                Aðalfundur var haldinn 12. maí 1993 að undangenginni auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.  Mættir voru Jóhann Þórðarson, Þórarinn Jónasson, Gunnar St. Fjeldsted, Brandur Brynjólfsson, Bergur Oliversson, Jón Baldvinsson, Baldvin Jónsson og Elías Kristjánsson.  Bergur Oliversson óskaði eftir að fundinum yrði frestað svo að mönnum gæfist kostur á að kanna hvernig staða hluthafa væri í félaginu.  Ákveðið var, vegna lagabreytinga sem voru meðal auglýsts fundarefnis, að framhaldsaðalfundur yrði boðaður innan tveggja mánaða.

                Boðað var til framhaldsaðalfundar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu þar sem skorað var á hluthafa að mæta á skrifstofu Jóhanns Þórðarsonar hrl. með hlutabréf sín fyrir fundinn eða tilkynna honum um hlutafjáreign.  Á fundinum var Baldvin Jónsson með hlutabréf að upphæð 160.000 g. krónur og Jón Baldvinsson með hlutabréf að upphæð 20.000 g. krónur og með hlutabréf fyrir Héðinshöfða hf. að upphæð 440.000 g. krónur.  Þórarinn Jónasson skýrði frá hlutafjáreign Gunnars St. Fjeldsted að upphæð 180.000 g. krónur og Stefáns Wathne að upphæð 60.000 g. krónur.  Þá var mættur Baldur Baldursson og var bókað að hann hefði yfir að ráða hlutabréfum að upphæð 20.000 g. krónur.  Tillaga að nýjum samþykktum í samræmi við lög nr. 32/1978 var samþykkt  Þá var ákveðin heimild til að gefa út jöfnunarhlutabréf, þannig að hlutafé yrði 1.350.000 krónur, í samráði við endurskoðanda félagsins eftir athugun við skattyfirvöld.

                Í fundargerð  aðalfundar í Laxnesbúinu hf. 30. nóvember 1995 voru mættir Jón Baldvinsson form., Baldur Baldursson, Kristján Oddgeirsson og Baldvin Jónsson.  Segir í fundargerðinni að þeir hafi yfir að ráða 2/3 af hlutafé félagsins sem lýst hafi verið.  Á fundinum var m.a. samþykkt, samkvæmt breyttum lögum um hlutafélög, að breyta félaginu í einkahlutafélag og breyta samþykktum í samræmi við það. Samþykkt var að stjórn félagsins yrði skipuð þannig:  Jón Baldvinsson framkvæmdastjóri og formaður, til vara Baldvin Jónsson hrl.

                Í  tilkynningu Jóns Baldvinssonar, dags. 1. desember 1995, til hlutafélagaskrár segir að á hluthafafundi í Laxnesbúinu hf. þ. 1. desember (svo) 1995 hafi verið samþykkt að breyta félaginu í einkahlutafélag og samþykkt ný lög fyrir félagið.  Í stjórn hafi verið kjörinn Jón Baldvinsson, sem jafnframt sé framkvæmdastjóri með prókúruumboði, og varamaður Baldvin Jónsson.  Endurskoðandi Sigurður Stefánsson, löggiltur endurskoðandi.

                Í bréfi Jóns Baldvinssonar til Brands Brynjólfssonar, dags. 27. júní 1996, er vísað til þess að samkvæmt nýjum lögum um einkahlutafélög skuli hlutafé nema 500.000 krónum og beri því nauðsyn til að greiða mismuninn 486.500 krónur, þ.e. frá upprunalegri hlutafjárupphæð.  Segir í bréfinu að Brandur hafi ekki orðið við áskorun í Lögbirtingablaðinu um að framvísa hlutbréfum við Jóhann Þórðarson eða öðrum áskorunum sem varði hlutafélagið.  Voru sett fram tilmæli um að hann kæmi með hlutabréf, sem væru í vörslu hans, og fengi þeim skipt auk þess að greiða hluta sinn af hinni nýju hlutafjárupphæð í hlutfalli við upphæð hlutabréfanna.

                Þórður H. Sveinsson hdl. sendi Brandi Brynjólfssyni bréf, dags. 14. ágúst 1996.  Þar er er skírskotað til hækkunar hlutafjár úr 13.500 krónum (g. krónum 1.350.000) í 500.000 krónur.  Aðrir hluthafar hafi innt af hendi rúmar 300.000 krónur sem hafi verið notaðar til greiðslu opinberra gjalda o. fl.  Var skorað á Brand Brynjólfsson  að mæta með hlutabréf sín og tilkynna um hlutafjáreign í Laxnesbúinu ehf. þ. 23. ágúst s.á. hjá Jóni Baldvinssyni.  Að öðrum kosti yrði litið svo á að hann hefði ekki áhuga á að skrá sig fyrir nýjum hlutum við hækkun hlutafjár í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína og yrðu hlutir þá boðnir öðrum hluthöfum til kaups.

                Hlutafélagaskrá var tilkynnt þ. 31. október 1996 að Signý Jóhannsdóttir hefði komið í varastjórn í stað Baldvins Jónssonar.

                Samkvæmt hlutaskrá 1. desember 1996, undirritaðri af Jóni Baldvinssyni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa, er Jón Baldvinsson eigandi að 2.000 krónum, Héðinshöfði ehf. að 492.110 krónum, Baldur Baldursson að 200 krónum og Brandur Brynjólfsson að 5.690 krónum.  Samtals 500.000 krónur.

                Lögmaður Brands Brynjólfssonar ritaði lögmanni Jóns Baldvinssonar bréf þ. 4. febrúar 1999.  Þar er mótmælt “harðlega þeim gerræðislegu aðferðum sem umbj. yðar hefur beitt undanfarin misseri til að sölsa undir sig eignir hlutafélagsins.  Hefur það verið gert með þeim hætti að senda svok. samþykktir til Hlutafélagaskrár.  Önnur samþykktin fyrir hlutafélagið, undirrituð af Baldvin Jónssyni hrl, er ódagsett og er ekkert vitað um það hvenær hún kom til  Hlutafélagaskrár.  Seinni samþykktin stafar frá umbj. yðar og er dagsett 30. nóvember 1995.  Samþykktum þessum er mótmælt sem þýðingarlausum þar sem ljóst er að allar meginreglur hlutafjárlaga nr. 2/1995 og einkahlutafélagalaga nr. 138/1994 um yfirtöku og samruna félaganna hafa verið brotnar. . . “  Síðan segir m.a. að óhugsandi sé að Jón Baldvinsson geti með einu  pennastriki, án þess að hafa lagt fram nein sönnunargögn um hlutabréfaeign sína, fullyrt að hann sé nánast einn eigandi að Laxnesbúinu hf., nú Laxnesbúinu ehf.

                Lögmaður Brands Brynjólfssonar sendi ríkislögreglustjóranum erindi 12. febrúar 1999 og fór þess á leit að fram yrði látin fara opinber rannsókn á því með hvaða hætti hlutaskrá, dags. 1. desember 1996, hafi verið útbúin í Laxnesbúinu ehf. (áður Laxnesbúinu hf.) og á hvaða grundvelli hún hafi verið gerð.  Þá var óskað opinberrar rannsóknar á því hvernig Jón Baldvinsson og félag í hans eigu, Héðinshöfði ehf., hafi komist yfir  98,82 % hlutafjár í Laxnesbúinu ehf.

                Lögmaður Brands Brynjólfssonar óskaði síðan eftir því við viðskiptaráðuneytið með bréfi 8. mars 1999 að það sæi til þess að hluthafafundur yrði haldinn, samkvæmt 62. gr. laga nr. 138/1994, í Laxnesbúinu ehf. svo fljótt sem verða mætti.

                Aðalfundur Laxnesbúsins ehf. vegna 1996 og 1997 var haldinn 27. apríl 1999. Lögmaður Brands Brynjólfssonar setti fram svofelld andmæli við  hlutaskrá frá 1. desember 1996:  “Mótmælt er hlutaskránni eins og hún er framsett og því atkvæðahlutfalli sem fylgir henni.  Þess er krafist að 42% eignarhlutur umbjóðanda míns í hlutafélaginu sé virtur.”  Þá lagði lögmaðurinn fram svohljóðandi bókun, undirritaða af honum og Þórunni Brandsdóttur:

“Umboðsmaður Brands Brynjólfssonar krefst bókunar á eftirfarandi.

Undirrituð vísar til framhaldsaðalfundar hinn 23. júní 1993 og gerir þá kröfu f.h. Brands Brynjólfssonar að stjórn Laxnesbúsins hf. nú ehf. standi við þá ákvörðun sína um að gefa út jöfnunarhlutabréf að fjárhæð kr. 1.350.000 þannig að Brandur verði skráður fyrir 42% hlut í félaginu.

Mótmælt er þeirri aðferð sem notuð var við að breyta hlutafélagi í einkahlutafélag og hækka hlutafé úr kr. 13.500 nýkr. í krónur 500.000 skv. bréfi Þórðar Sveinssonar hdl. dags. 14.08.1996.  Hvergi er minnst á gengi hinna eldri hlutabréfa sem þó hefði verið skylt ef meta átti þau til verðs miðað við þá fjármuni sem notaðir voru til að greiða hið nýja hlutafé einkahlutafélagsins samt. að fjárhæð kr. 500.000.  Mótmælt er harðlega að greiðsla opinberra gjalda upp á kr. 300.000 standi jafnfætis gengi að fjárhæð kr. 13.500 eins og fram kemur í bréfi Þórðar.  Því er harðlega mótmælt að greiðsla opinberra gjalda geti skapað greiðanda meirihlutaeign  í félaginu.  Með lækkun krónunnar 100 falt um áramótin 1980/1981 var gengi upprunalegra hlutabréfa fellt um 100.

Á hluthafafundinum 1993 var ákveðið að hækka gengi hlutabréfanna að nýju um 100 falt þannig að kr. 13.500 áttu að verða kr. 1.350.000.  Skorað er á fundinn að fylgja þessari síðustu ákvörðun aðalstjónarfundar frá 1993 og gefa út jöfnunarhlutabréf þannig að hlutur Brands Brynjólfssonar verði 42% af heildarhlutafé félagsins.  Jafnframt er áskilinn réttur til að kaupa viðbótarhlut í félaginu í samræmi við 42% eignarhlut.”

- - - - -

Því er lýst yfir af hálfu stefnanda að ljóst sé af gögnum málsins að hann sé eigandi að hlutafé sem nemi 790.000 krónum eða 58,52% af heildarhlutafé “stefnda”.  Áður er fram komið að stefnandi telji Brand Brynjólfsson hafa verið eiganda hlutafjár að upphæð 570.000 krónur.  Einnig er vísað til framlagðs afrits af framsali Baldurs Baldurssonar á hlutabréfum að upphæð 20.000 krónur til Brands Brynjólfssonar, dags. 30. september 1977, og afrits af samþykki Gunnars St. Fjeldsted fyrir sölu hlutabréfa til Brands að nafnverði 200.000 krónur þ. 22. júní 1979 svo og yfirlýsingar hans, dags. 13. október 1999, um að Brandur sé réttur eigandi umræddra hlutabréfa.

Af framsetningu málsástæðna í stefnu verður ráðið að kröfugerð stefnanda sé reist á því að vegna ákvarðana á fundum Laxnesbúsins hf./ehf. og samþykkta sendra hlutafélagaskrá, hvort tveggja á árunum 1993 og 1995, sem hafi verið ólögmætar og í ósamræmi við samþykktir og stofnsamning félagsins frá 18. maí 1949, sé eignarhluti hans einungis talinn nema 5.690 krónum af 500.000 króna heildar hlutafjárupphæð.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna félagaréttar, almennra hegningarlaga, “t.d. 249. gr.”, 72. gr stjórnarskrárinnar og meginreglna samninga-, kaupa- og kröfuréttar, auk laga um hlutafélög og einkahlutafélög og samþykkta og stofnsamnings “hlutafélagsins”.

 

III.

Frávísunarkrafa stefndu, Jóns Baldvinssonar, Laxnesbúsins ehf. og Héðinshöfða ehf., er í meginatriðum rökstudd á eftirfarandi hátt.

Stefndu eigi ekki óskipt réttindi og beri ekki óskipta skyldu en af því leiði að þeir eigi ekki óskipta aðild  og beri þegar af þeim sökum að vísa málinu frá dómi sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991.  Ekki sé gerð tilraun til þess í málavaxtalýsingu stefnanda, lýsingu hans á málsástæðum eða lagarökum að rökfæra það eða réttlæta að málið skuli sótt með sama hætti á hendur stefndu svo sem ættu þeir óskipta aðild.  Í dómkröfum stefnanda sé ekki gerð nein grein fyrir því hvaða kröfum sé beint gegn hverjum aðila fyrir sig og uppfylli slík  kröfugerð ekki skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Hvergi í málsástæðum stefnanda sé að finna að dómkröfur hans beinist að einstökum hluthöfum eða grundvallist á hugsanlegri ábyrgð stjórnarmanna og/eða hluthafa og séu ákvæði e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 ekki uppfyllt varðandi stefndu, Jón Baldvinsson og Héðinshöfða ehf.

Við málflutning gerði stefndi Baldur Baldursson, sem er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur, framangreind rök að sínum.

Ekki er fallist á að vísa beri málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 sem kveður á um að svo skuli gert ef þeim, sem bera óskipta skyldu, er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar.

Að öðru leyti er fallist á frávísunarröksemdir stefndu með þeim frekari rökum sem  hér verður greint.

Krafa um ógildingu “samþykkta stefnda (svo) frá  1993 og 1995” er of óljóst mörkuð.  Tilgreining málsástæðna í stefnu er afar óskýr.   Ekki verður séð að lagarök stefnanda tengist kröfugerð hans og málsástæðum nema að hluta til.

Samkvæmt þessu ber að vísa málinu frá dómi á grundvelli d., e., og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. 

Við höfðun málsins voru málshöfðunarfrestir samkvæmt 71. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 79. gr. laga nr. 32/1978, og 124. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 148. gr. laga nr. 32/1978, löngu liðnir.  Ber einnig af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi.

Niðurstaða úrskurðar þessa er sú að málinu verður vísað frá dómi.  Stefnanda verður gert að greiða hverjum hinna stefndu 35.000 krónur í málskostnað. 

                Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Málinu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, dánarbú Brands Brynjólfssonar, greiði hverjum hinna stefndu, Jóni Baldvinssyni, Laxnesbúinu ehf., Héðinshöfða ehf. og Baldri Baldurssyni, 35.000 krónur í málskostnað.