Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2007


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Kærumál


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2007.

Nr. 320/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 9. júlí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdómur Reykjavíkur 12. júní 2007.

                Ár 2007, þriðjudaginn 12. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­víkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Arngrími Ísberg héraðsdómara, kveðinn upp svo­felldur úrskurður.

                   Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áframhaldandi gæsluvarð­haldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til 9. júlí nk. kl. 16.00, vegna ætlaðra brota gegn 244., 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að 30. janúar sl. hafi kærði verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til 2. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Jafnskjótt og kærði hafi losnað úr gæsluvarðhaldi hafi hann tekið upp fyrra afbrotamynstur og honum því verið gert að sæta aftur gæsluvarðhaldi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2007, þá með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, til 12. júní 2007. Í forsendum úrskurð­arins hafi gæsluvarðhaldinu verið markaður sá tími sem lögreglustjórinn þyrfti til að ljúka rannsókn mála á hendur kærða og í framhaldinu taka ákvörðun um saksókn á hendur honum. Framangreindur úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar.

             Með ákæru lögreglustjóra 11. júní 2007, hafi verið höfðað opinbert mál á hendur kærða, þar sem honum sé gefið að sök að hafa á rúmlega sjö mánaða tímabili, frá 3. október 2006 til 12. maí 2007, framið fjölmörg auðgunarbrot.

             Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember sl., í máli nr. S-1624/2006, hafi kærði verið sakfelldur fyrir auðgunar- og fíkniefnalagabrot, þar sem ákvörðun refsingar hafi verið frestað skilorðsbundið í 2 ár. Brotaferill kærða hafi að auki verið samfelldur síðustu mánuði og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Nauðsynlegt sé því að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í málum hans.

             Með vísun til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

             Samkvæmt ákæru, útgefinni í gær, er kærði ákærður fyrir að hafa framið  níu þjófnaðar- og gripdeildarbrot á tímabilinu frá byrjun október 2006 til miðs maí sl.  Ákæran verður þingfest nú á eftir.  Með vísun til þessa og þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra verður fallist á það með lögreglustjóra að hætta sé á að kærði haldi áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið.  Skilyrði c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er því uppfyllt og verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

             Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 9. júlí 2007, kl. 16:00.