Hæstiréttur íslands

Mál nr. 605/2008


Lykilorð

  • Kröfugerð
  • Skriflegur málflutningur
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. mars 2009.

Nr. 605/2008.

Traust þekking ehf.

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

gegn

Stál Plús ehf.

(enginn)

 

Kröfugerð. Skriflegur málflutningur. Frávísun frá héraðsdómi.

 

T krafðist þess að „viðurkennt verði með dómi að [S] sé óheimilt að flytja inn, framleiða eða láta framleiða, bjóða til sölu, selja eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af saltsprautuvél, sem lýst er í matsgerð [...] vélaverkfræðings sem vél boðin til sölu af stefnda, eða áþekkum vélum.“ Þá krafðist hann þess að birgðir af sprautusöltunarvél, sem lýst hafði verið í fyrrgreindri matsgerð, yrðu gerðar upptækar án endurgjalds til handa T. Loks krafðist T að S yrði gert að greiða sér 6.000.000 krónur. S var sýknaður í héraði en lét málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti. Var litið svo á að hann krefðist staðfestingar héraðsdóms og var í málinu því kveðinn upp dómur án munnlegs málflutnings, sbr. 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Talið var að ekki fengist staðist að T gæti um efnisatriði krafna sinna vísað til framlagðra skjala í málinu án þess að taka lýsingu þeirra upp í kröfuna sjálfa. Virtist T gera ráð fyrir að dómurinn leysti úr því í dómsorði hvernig lýsa skyldi vélinni sem um ræddi ef krafan yrði tekin til greina. Taldi Hæstiréttur að þessi háttur á kröfugerð T yrði ekki talinn geta samrýmst ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991. Krafa T um skaðabætur byggðist á þeirri forsendu að fallist yrði á viðurkenningarkröfu hans. Var málinu vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2008. Hann krefst þess að „viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að flytja inn, framleiða eða láta framleiða, bjóða til sölu, selja, eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af saltsprautuvél, sem lýst er í matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, vélaverkfræðings sem vél boðin til sölu af stefnda, eða áþekkum vélum.“ Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að þola að birgðir af sprautusöltunarvél, sem lýst sé í fyrrgreindri matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, verði gerðar upptækar án endurgjalds til handa áfrýjanda. Áfrýjandi krefst þess ennfremur að stefnda verði gert að greiða sér 6.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2007 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr.  158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Með vísan til sama lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs málflutnings.

Í tveimur fyrri kröfuliðum áfrýjanda er um hina umdeildu saltsprautuvél vísað til lýsingar á henni í „matsgerð Sveins Víkings Árnasonar“ vélaverkfræðings. Talið verður að í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 felist að krafa í dómsmáli þurfi að vera svo skýr að taka megi hana í dómsorð ef fallist er á hana sbr. 2. mgr. 114. gr. sömu laga. Ekki fær staðist að áfrýjandi geti um efnisatriði krafna sinna vísað til framlagðra skala í málinu án þess að taka lýsingu þeirra upp í kröfuna sjálfa. Virðist áfrýjandi gera ráð fyrir að dómurinn leysi úr því í dómsorði hvernig lýsa skuli vélinni sem um ræðir ef krafan yrði tekin til greina. Þessi háttur á kröfugerð áfrýjanda verður ekki talinn geta samrýmst nefndu ákvæði í 80. gr. laga nr. 91/1991 og verður þessum kröfum því vísað frá héraðsdómi. Krafa áfrýjanda um skaðabætur byggist á þeirri forsendu að fallist sé á viðurkenningarkröfu hans. Verður henni því í samræmi við það sem að framan segir einnig vísað frá héraðsdómi og þar með málinu í heild.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður litið svo á að í stefndi krefjist þess að Hæstiréttur dæmi honum sama málskostnað vegna reksturs málsins í héraði og honum var þar tildæmdur með hinum ómerkta héraðsdómi. Verður fallist á þá kröfu.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Traust þekking ehf., greiði stefnda, Stál Plús ehf., 450.000 krónur í málskostnað í héraði.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. ágúst 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. þessa mánaðar, var höfðað 5. febrúar 2007.

Stefnandi er Traust þekking ehf., Klapparstíg 18, Reykjavík.

Stefndi er Stál Plús ehf., Bæjarhrauni 2, Hafnarfirði.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.                    Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að flytja inn, framleiða eða láta framleiða, bjóða til sölu, selja, eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af saltsprautuvél, sem lýst er í matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, vélaverkfræðings, á dskj. 24, sem vél boðin til sölu af stefnda, eða áþekkum vélum.

2.                    Að stefndi verði dæmdur til að þola að birgðir hans af sprautusöltunarvél, sem lýst er í fyrrgreindri matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, verði gerðar upptækar án endurgjalds til handa stefnanda.

3.                    Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 6.000.000 ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá birtingardegi stefnu þessarar til greiðsludags.

4.                    Að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt  málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.

I.

Í stefnu kemur m.a. fram að stefnandi hafi um langt skeið framleitt og selt sprautusöltunarvélar til notkunar við fiskvinnslu, sem hannaðar eru af Trausta Eiríkssyni vélaverkfræðingi, en stefnandi, sem er félag í eigu Trausta, hafi einkarétt til framleiðslu og sölu vélanna. Meðal annars sé um að ræða vél TR 850 sem seld hafi verið hér á landi og erlendis. Vélin samanstandi af sprautuvél, grófsigti og fínsigti. Í tiltekinni gerð vélarinnar, sem stefnandi hafi nú hætt framleiðslu á, sé nálarhausinn færður upp og niður á öxlum sem liggja niður frá báðum endum haussins. Útfærsla á nálarhausnum og sjálfar nálarnar séu með öðru sniði en nálar hjá öllum framleiðendum sem stefnandi þekkir til. Stýribúnaður, m.a. í nálarhausnum, sé með allt öðru sniði en nálar hjá öðrum framleiðendum. Þá sé yfir vélinni öryggishlíf úr gagnsæu plasti sem sé þannig formuð að hún þrengist eftir því sem ofar dregur þannig að séð frá hlið sé um trapisuform að ræða. Stefnanda sé ekki kunnugt um að saltsprautuvélar séu eða hafi verið framleiddar af öðrum hér á landi þar til nú nýlega að komið hafi fram vélar sem notfæri sér það framlag er stefnandi hafi innt af hendi við hönnun slíkra véla. Vélar sem framleiddar eru af erlendum samkeppnisaðilum séu allar frábrugðnar vélum stefnanda, bæði hvað varðar útlit, tæknilega útfærslu, m.a. hvað varðar síur og öxla.

Stefnandi hafi orðið þess áskynja haustið 2005 að stefndi hefði í hyggju að flytja inn og selja hér á landi saltsprautuvélar sem framleiddar eru í Lettlandi. Um sé að ræða vélar sem stefndi kveðist ýmist hafa hannað sjálfur eða látið hanna í Lettlandi. Fyrsta vélin er stefndi seldi hér á landi hafi verið seld Írafelli ehf. í Hafnarfirði. Stefnandi telji að stefndi hafi með einhverjum hætti komist yfir teikningar af vél sinni en hann hafi ekki fullvissu um á hvern hátt það hafi gerst.

Umrædd vél, sem var seld Írafelli, sé nauðalík vél stefnanda og sé form og útfærsla sú sama. Þannig færi öxlar nálarhausinn upp og niður og séu þeir studdir með fjórum hjólum hvorum megin eins og útfært sé á teikningu stefnanda 8730-05. Nálarhausinn sé þannig úr garði gerður að vökvaþrýstingurinn þrýstir nálinni niður, vegna stimpils sem er festur efst á nálina. Þetta sé gagnstætt erlendum vélum, t.d. vélum framleiddum af Formaco í Danmörku, þar sem hverri nál er þrýst niður með gormi. Þá sé grófsían eins útfærð og grófsía stefnanda. Þegar vélin var seld Írafelli ehf. hafi hún ekki verið útbúin fínsíu, en slík sía hafi verið sett upp við vélina síðar. Fínsían sé útfærð á sama hátt og samkvæmt teikningu stefnanda nr. 8730-16. Útfærsla á vélarhúsi og þversnið vélarinnar og færibandsins sem flytur fiskinn gegnum vélina sé eins og í vél stefnanda, sbr. teikningar nr. 8730-02b og 8730-02a. Útlitið sé sambærilegt. Vélin hafi öryggishlíf úr gagnsæju efni og sé form hennar hið sama og form öryggishlífar stefnanda. Mótor á vél stefnda sé ekki undir hlíf en það fyrirkomulag hafi verið á eldri gerðum véla stefnanda. Þá séu nálar í vél stefnda eins og nálar í eldri gerðum véla stefnanda.

Stefndi telji að takmarkaðir möguleikar séu á útfærslu á saltsprautvél af þeirri gerð sem hér um ræðir og að þau atriði sem séu sameiginleg með vélunum byggist á þekktum aðferðum. Stefnandi telji á hinn bóginn að fjölmargir möguleikar séu á því að útfæra saltsprautuvél og að útfærslumöguleikarnir takmarkist ekki aðeins við þá útfærslu sem stefnandi nýtist við. Stefnandi telji raunar að að tæknileg útfærsla hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og feli í sér sjálfstætt framlag hans við útfærslu á þeirri tæknilegu lausn sem við sé að eiga. Þetta sjálfstæða framlag sé öðrum óheimilt að nýta sér með eftirgerð, líkt og stefndi geri.

Af þessu tilefni hafi stefnandi sent stefnda bréf dagsett 25. október 2005, þar sem því hafi verið lýst að sala stefnda á vél sinni væri andstæð lögum. Þessu hafi verið hafnað með bréfi stefnda dagsettu 15. nóvember 2005. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á að skoða vél stefnda og hafi það verið niðurstaða sérfræðings hans að notaðar hafi verið aðferðir við útfærslu vélarinnar sem stefnandi einn hafi notast við, sbr. bréf dagsett 15. desember 2005. Enn hafi stefndi hafnað að um brot væri að ræða, sbr. bréf stefnda dagsett 10. janúar 2006.

Að ósk stefnanda var Sveinn Víkingur Árnason vélaverkfræðingur dómkvaddur sem matsmaður 10. febrúar 2006 og skilaði matsmaður matsgerð í apríl 2006. Verður gerð grein fyrir niðurstöðum matsmanns í lok þessa kafla.

Í greinargerð stefnda er atvikum m.a. lýst svo að stefndi starfi við hönnun, smíði og uppsetningu á framleiðslulínum ásamt ýmsum búnaði, bæði fyrir fiskvinnslu og til notkunar um borð í fiskiskipum og starfi hann í samkeppni við stefnanda á því sviði. Árið 2005 hafi stefndi ákveðið að leggja drög að hönnun og framleiðslu nýrrar vélar, svokallaðrar saltsprautunarvélar. Áður en hönnun og framleiðsla vélarinnar hófst hafi stefndi kannað sérstaklega hjá Einkaleyfastofu hvort fyrir hendi væri einkaleyfi til hönnunar vélarinnar hér á landi. Jafnframt hafi þetta verið kannað í evrópskum einkaleyfabanka. Svo hafi ekki reynst vera.

Fyrirséð hafi verið að hönnun vélarinnar og framleiðsla þyrfti að fara fram í nánu samstarfi við notendur hennar. Hafi stefndi því ákveðið að ganga til samstarfs við félögin Thor ehf. og Írafell ehf. og hafi stefndi selt þeim eina saltsprautunarvél þann 5. júlí 2005. Forsendur samningsins hafi verið þær að um frumsmíði vélarinnar væri að ræða og að stjórnkerfi vélarinnar og nánari útfærsla þyrfti að vera unnin í nánu samstarfi kaupanda og seljanda. Samið hafi verið um að vélinni mætti skila stæðist hún ekki væntingar kaupanda. Þetta hafi fyrirsvarsmaður kaupanda, Guðni Gunnarsson, staðfest. Í yfirlýsingu Guðna á dskj. nr. 29 komi fram að í upphafi hafi verið nokkrir örðugleikar við vélina, þ.e kar við grófsíu og grófsían sjálf hafi verið of litlar auk þess sem fínsían starfaði ekki sem skyldi. Unnið hafi verið að endurbótum þessara atriða í samvinnu við kaupandann og starfi vélin nú eins og henni sé ætlað eins og fram komi í yfirlýsingu nefnds Guðna.

Stefndi kveðst ekki hafa afhent eða selt aðra vél þessarar tegundar, en það sé staðfest með yfirlýsingu Eymundar Sveins Einarssonar löggilts endurskoðanda 31. febrúar 2007 og skýrslu Sturlu Más Jónssonar sem var sölumaður hjá stefnda frá febrúar 2006 til október 2006. Ástæða þessa hafi verið sú að stefnandi varð strax í upphafi mjög ósáttur við framleiðslu stefnda. Þetta megi ráða af rafpósti Trausta Eiríkssonar dagsettum 10. september 2005.  Að auki hafi stefnandi sent rafpóst til stærstu fiskframleiðenda hérlendis þar sem því var haldið fram að framleiðsla stefnda væri illa fengin eftirlíking af framleiðslu stefnanda og að vélin væri meingölluð. Hafi framleiðslu stefnanda verið líkt við ”Mercedes Bens” en framleiðslu stefnda við “Trabant”. Þessi bréf hafi borist víða og leitt til þess að stefndi gat ekki komið vöru sinni á framfæri. Hafi stefnda því verðið nauðugur einn sá kostur að senda erindi til Neytendastofu þar sem kvartað var undan ólögmætum viðskiptaháttum stefnanda. Neytendastofa hafi lokið málinu með ákvörðun 15. mars 2007 og talið stefnanda hafa brotið gegn ákvæðum 5. og 6. gr. laga nr. 57/2005 þar sem ummæli í fyrrgreindum tölvupóstum og bréfum hefðu brotið gegn góðum viðskiptaháttum og gefið villandi upplýsingar til neytenda. Hafi það verið niðurstaða Neytendastofu að þar sem matsgerð hefði leitt í ljós að vél stefnda væri ekki framleiðslueftirlíking af vél stefnanda, hefði stefnanda borið að gæta þess í viðskiptum að reyna að hafa ekki áhrif á viðskiptavini með villandi eða ósanngjörnum upplýsingum um keppinauta sína, en það hefði stefnandi gert með fyrrgreindum bréfum.

Eins og áður getur var Sveinn Víkingur Árnason vélaverkfræðingur dómkvaddur sem matsmaður til að meta hvort sú tæknilega lausn sem birtist í sprautusöltunarvél, hannaðri af Trausta Eiríkssyni, aðgreini sig nægilega frá vörum samkeppnisaðila til að hún njóti verndar gegn eftirlíkingum skv. 5. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gegnsæi markaðarins nr. 57/2005. Jafnframt hvort sambærileg vél, sem boðin væri til sölu hér á landi af Stál Plús ehf., fæli í sér eftirlíkingu á framangreindri vél.

Við matið yrði eftirfarandi spurningum svarað;

1.                    Að matsmaður lýsi í stuttu máli útliti og þeirri tæknilegu útfærslu/lausn sem notast er við af hálfu matsbeiðanda í sprautusöltunarvél hans, TR 850. Jafnframt að vél matsþola sé lýst á sama hátt.

2.                    Að matsmaður leggi með rökstuddum hætti faglegt mat sitt á það hvort útlit og sú tæknilega útfærsla/lausn sem notast er við af hálfu matsbeiðanda í sprautusöltunarvél hans, TR 850, aðgreini sig frá vörum annarra samkeppnisaðila (að eftirgerðum undanskildum) og feli í sér sjálfstæða hugmynd eða sjálfstætt framlag, en ekki aðeins hagnýtingu á þekktum aðferðum á viðkomandi sviði.

3.                    Að matsmaður leggi með rökstuddum hætti faglegt mat sitt á þvð hvort vél matsþola feli í sér eftirlíkingu á vél matsbeiðanda í heildarmati sínu. Matsmaður skuli þannig leggja mat sitt á hvort þau atriði sem einkenna útlit og tæknilega útfærslu TR 850 birtist í vél matsþola og hvort nokkur einkenni séu á henni sem greini hana með afgerandi hætti frá vélinni TR 850.

4.                    Að matsmaður leggi með rökstuddum hætti mat sitt á það hvort og að hvaða marki útlit vélanna, hvorrar um sig hafi að einhverju leyti ráðist af tæknilegum kröfum eða eiginleikum slíkra véla.

5.                    Að í tengslum við svar við spurningu 3 leggi matsmaður með rökstuddum hætti mat sitt á það hvort líklegt sé að vél matsþola hafi verið hönnuð án vitundar um tilvist vélar matsbeiðanda og hvort líklegt sé að aðeins sé um hagnýtingu á þekktum aðferðum á viðkomandi sviði að ræða. Matsmaður skuli beita faglegu mati sínu og eigin skynsemi við svar á þessari spurningu.

Matsmaður svaraði öllum spurningunum fjórum og verður nú gerð grein fyrir niðurstöðum matsmanns einkum varðandi spurningar nr. 3 og 5 sem þykja skipta hér mestu máli.

Varðandi spurningu nr. 3  var svar matsmanns eftirfarandi:

Útlit.

Vélarnar hafa báðar sama grunnútlit. Á myndum af vélum annarra framleiðenda má sjá að vélar þeirra allra hafa þetta grunnútlit. Mótor sem drífur færibandið er staðsettur við enda bandsins og er drifás mótorsins hornréttur á ás tromlunnar í færibandinu. Mótorinn á vél matsbeiðanda vísar niður og er almennt undir hlíf en mótorinn á skoðaðri vél matsþola vísaði upp og var ekki undir hlíf. Hvoru tveggja teljast þekktar leiðir til að drífa færiband. Vél matsþola er í útliti líkari vélum CFS Food Systems og Formaco Machinery Company A/S en vél matsbeiðanda.

Tæknileg útfærsla,

Hvað tæknilega útfærslu varðar eru vélar matsþola og matsbeiðanda líkar varðandi grunnatriði eins og tveggja þrepa síu (síunin er þó útfærð með nokkuð mismunandi hætti) og nálarhaus sem stýrir þrýstingi á fiskinn með pækilþrýsingi. Þá er færslukerfi fyrir nálarhausa mjög líkt útfært í vélum matsþola og matsbeiðanda. Nálarnar eru einnig líkar þó hlutföll séu ekki þau sömu.

Heildarmat.

Þau atriði sem telja má sértæk í ytra  útliti vélar matsbeiðanda er ekki að finna í vél matsþola (alveg gegnsæ og fremur stutt hlíf). Þau atriði sem telja má sértæk varðandi tæknilega útfærslu í vél matsbeiðanda eru með mjög líkum hætti í vél matsþola (nálarhaus og færslubúnaður fyrir hann).

Ef beitt er heildarmati (útlit og tæknileg útfærsla) er vél matsþola ekki eftirlíking af vél matsbeiðanda. Vél matsþola aðgreinir sig frá vél matsbeiðanda hvað útlit varðar og er nær öðrum vélum hvað það varðar. Varðandi tæknilega útfærslu eru grundvallaratriði hönnunar mjög lík (nálarhaus og lyftibúnaður fyrir nálarhaus).

Spurningu 5 svaraði matsmaður svo:

Það verður að teljast líklegt að matsþoli hafi haft vitneskju um vél matsbeiðanda þegar hönnun fór fram. Matsbeiðandi var þá eini framleiðandi sprautusöltunarvéla á Íslandi og því einn aðalkeppinautur matsþola a.m.k. á því markaðssvæði. Ekki var mögulegt að skoða færslubúnað fyrir nálarhaus á öðrum vélum en vél matsþola og á teikningu af vél matsbeiðanda og eru þær útfærslur mjög líkar og ólíklegt að vél matsþola hafi verið hönnuð án vitneskju um slíkan búnað. Þó má geta þess að þessi aðferð við lóðrétta færslu er vel þekkt. Varðandi nálarhausinn þá er hönnun og undirliggjandi tækni hans sérstök fyrir vél matsbeiðanda (miðað við þá vitneskju sem matsmaður gat viðað að sér) og er sami búnaður í vél matsþola mjög líkur og ólíklegt verður að teljast að ekki hafi legið fyrir vitnskja um nálarhaus matsbeiðanda og tæknilega útfærslu hans þegar nálarhaus matsþola var hannaður.

Matsmaður staðfesti mat sitt fyrir dóminum.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur Trausti Eiríksson fyrirsvarsmaður stefnanda og Svavar Þorsteinsson fyrirsvarsmaður stefnda. Skýrslur vitna gáfu auk matsmanns, Árni Snæbjörnsson endurskoðandi, Jóhann Oddgeirsson, framkvæmdastjóri, Eymundur Einarsson endurskoðandi, Sturla Jónsson, Guðni Gunnarsson, Bergþór Konráðsson og Sigurður Vilhjálmsson. Þykja ekki efni til að rekja skýrslurnar.

                Dómarar gengu á vettvang ásamt lögmönnum og fyrirsvarsmönnum aðila fyrir upphaf aðalmeðferðar.

II.

Kröfu sína um að stefnda verði dæmt óheimilt að nota þá tæknilegu útfærslu/lausn sem stefnandi hefur einn rétt til, byggir stefnandi á því að tæknileg útfærsla/lausn hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og feli í sér sjálfstætt framlag hans við útfærslu á þeirri tæknilegu lausn sem við sé að eiga. Þetta sjálfstæða framlag sé öðrum óheimilt að nýta sér með eftirgerð, líkt og stefndi geri í þessu tilfelli, á grundvelli 5. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005. Samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir á hverjum tíma. Í ákvæðinu felist meðal annars bann við því að selja eða framleiða eftirlíkingar sem fela í sér óheiðarlega hagnýtingu á framlagi annarra, og sé þá ekki gert að skilyrði að viðkomandi vara njóti verndar samkvæmt öðrum lögum er vernda hugverk, s.s. einkaleyfi.

Stefnandi byggir á því að vernd samkvæmt framangreindu ákvæði  njóti sérhvert framlag sem telja megi að hafi fjárhagslegt verðmæti fyrir framleiðandann, sem aðgreini sig jafnframt frá vörum samkeppnisaðila. Það liggi fyrir að þetta verðmæti verði að engu ef samkeppnisaðilum sé heimilt að eftirgera umrætt framlag án þess að hafa lagt á sig erfiði og kostnað sem framleiðandi hefur haft af framleiðslunni.

Með mati hins dómkvadda matsmanns telji stefnandi sig hafa sýnt fram á að nálarhaus, færslubúnaður fyrir hann og undirliggjandi tækni sé sjálfstætt framlag í þessu sambandi og ekki einvörðungu hagnýting á þekktum aðferðum. Þannig taki matsmaður fram í mati sínu að útfærsla/lausn stefnanda sé sértæk hvað varðar nálarhaus og færslubúnað fyrir hann. Hönnun og undirliggjandi tækni nálarhaussins sé sérstök fyrir vél stefnanda. Telur stefnandi útfærsluna/lausnina því njóta verndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/2005.

Þá telji stefnandi jafnframt að með matinu sé sýnt fram á að útfærsla/lausn stefnda á nálarhaus, færslubúnaði fyrir hann og undirliggjandi tækni sem hann notast við í vél sinni sé bein eftirlíking af útfærslu/lausn stefnanda og þar með brot gegn framangreindri 5. gr. laga nr. 57/2005. Matsmaður telji að hönnun og undirliggjandi tækni nálarhaussins sé sérstakur fyrir vél stefnanda og að sami búnaður í vél stefnda sé mjög líkur og ólíklegt að ekki hafi legið fyrir vitneskja um nálarhaus stefnanda og tæknilega útfærslu hans þegar nálarhaus stefnda var hannaður. Sé þar meðal annars um að ræða að dæluþrýstingur stýrir því viðnámi sem nálarnar veita þegar nálarhausinn er færður niður í fiskinn. Með þessu telji stefnandi ljóst að um eftirlíkingu sé að ræða á hönnun nálarhauss, færslubúnaðar fyrir hann og undirliggjandi tækni vélar stefnanda, sem brjóti gegn 5. gr. laga nr. 57/2005. Stefnandi telji því ótvírætt að innflutningur og sala stefnda á saltsprautuvélinni brjóti gegn þessu ákvæði.

Stefnandi byggi ennfremur á því að stefndi hafi við sölu vélanna brotið gegn hönnunarvernd sinni er tekur til útlits vélarinnar, sbr. 9. gr. laga um hönnun nr. 46/2001 en hann eigi hönnunarskráningu nr. 44/2005.

Stefnda sé því óheimil notkun útfærslunnar/lausnarinnar í atvinnustarfsemi sinni og beri að dæma þessa háttsemi stefnda óheimila, þ.m.t. að framleiða, flytja inn, bjóða til sölu, etja á markað eða nota þessa tæknilegu útfærslu/lausn í atvinnustarfsemi sinni.

Kröfu sína um eignaupptöku byggir stefnandi á 4. mgr. 26. gr. laga nr. 57/2005, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um brot gegn 5. gr. laga nr. 57/2005 sé að ræða og samkvæmt því sé þess krafist að sprautusöltunarvélar stefnda, sem brjóta gegn rétti stefnanda, verði gerðar upptækar, enda sé um að ræða hluti sem orðið hafa til við misgerning. Hagsmunir stefnanda verði fyrir borð bornir án eignaupptöku, enda óeðlilegt að birgðir af ólögmaætum eintökum sem eigi sé heimilt að selja eða ráðstafa, séu áfram í vörslu stefnda.

Kröfu sína um skaðabætur byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga og 1. mgr. 38. gr. laga um hönnun nr. 46/2001. Á því sé byggt að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að gera eftirlíkingu af útfærslu/lausn stefnanda af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða í það minnsta gáleysi. Þetta sé honum óheimilt vegna ákvæða 5. gr. laga nr. 57/2005 og 9. gr. laga nr. 46/2001 um hönnun. Lög nr. 57/2005 hafi ekki að geyma ákvæði um skaðabætur, en ljóst sé að saknæmt brot gegn lögunum, sem hafi fjárhagslegt tjón í för með sér, beri að bæta eftir almennum reglum skaðabótaréttarins. Stefndi hafi ekki upplýst stefnanda um fjölda keyptra og seldra eintaka af eftirlíkingunni, en stefnandi telji að lágmarki sé um þrjár sprautusöltunarvélar að ræða.

Skaðabótakrafa stefnanda sé byggð á því að stefnandi hafi orðið af sölu sama fjölda sprautusöltunarvéla og stefndi hafi þegar selt, enda sé staðganga alger milli varanna og um beina eftirlíkingu að ræða. Ágóði af hverju eintaki sprautsöltunarvéla stefnanda hafi á árunum 2005-2006 að meðaltali verið tvær til tvær og hálf milljón króna, sbr. fram,lagða staðfestingu löggilts endurskoðanda. Þar sem stefnandi telji líklegt að stefndi hafi selt þrjú eintök af eftirlíkingunni þá nemi bótakrafa stefnanda 6.000.000 króna. Krafist sé dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá birtingardegi stefnu til greiðsludags, sbr. 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 eða ákvæðum laga nr. 46/2001 og sé því krafist sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda.

Í fyrsta lagi sé þeirri málsástæðu stefnanda mótmælt, að stefnandi hafi einkarétt til sölu og framleiðslu saltsprautunarvéla hér á landi, enda komi það fram á dskj. nr. 27 að ekkert einkaleyfi sé til framleiðslu slíkra véla hér á landi.

Í öðru lagi sé byggt á því að hönnunarvernd stefnanda taki ekki til vélar stefnda. Hönnunarverndin taki til útlits á vél sem ekki líkist útliti vélar stefnda auk þess sem hönnunarverndin hafi verið skráð þann 15. nóvember 2005 eftir að stefndi hafði selt vél sína í júlí 2005.

Í þriðja lagi sé mótmælt öllum málsástæðum stefnanda í þá veru að tæknileg útfærsla hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og að hún feli í sér sjálfstætt framlag við útfærslu á þeim tæknilegu lausnum sem við sé að eiga í slíkum vélum. Sé á því byggt að fjöldi véla sé útfærður á sama hátt og vél stefnanda, þótt hætt hafi verið framleiðslu og markaðssetningu á sumum vélanna af ýmsum ástæðum. Í stefnu sé því haldið fram að vélar sem séu framleiddar af erlendum samkeppnisaðilum séu allar frábrugðnar vélum stefnanda, bæði hvað varðar útlit og tæknilega útfærslu, m.a. hvað varðar síur og öxla. Þessu sé mótmælt sem röngu og í því sambandi vísað til auglýsingar Kvótamarkaðarins sem er á dskj. nr. 45 þar sem auglýst er til sölu sænsk sprautusöltunarvél sem virðist byggja á nákvæmlega sömu lausn og vél stefnda. Þá komi fram á upplýsingasíðu VGI ehf. á dskj. nr. 46 upplýsingar um svokallaða “Fomaco vél” sem sé áþekk vél stefnanda.

Í fjórða lagi sé á því byggt að stefndi hafi á engum tíma stolið eða líkt eftir hönnun vélar stefnanda likt og haldið er fram í stefnu. Fullyrðingum um hönnunarstuld sé harðlega mótmælt, enda sé vél stefnda hans eigið hugverk en ekki annarra.  Sé þvert á móti á því byggt að stefnandi hafi á engum tíma gefið stefnda þann eðlilega tíma sem hann hafi þurft til þróunar og framleiðslu á nýrri útgáfu vélarinnar. Hafi stefnandi jafnframt með óeðlilegum viðskiptaháttum komið í veg fyrir að stefndi kæmi vöru sinni á framfæri á markaði í samkeppni við stefnanda.

Þegar dómkvaddur hafi verið matsmaður til að skoða fyrstu og einu framleiðsluvél stefnda hafi hún ekki verið komin í endanlegan búning. Samt sem áður hafi það verið niðurstaða matsmanns að vél stefnda væri ekki framleiðslueftirlíking af vél stefnanda. Stefndi hafi hins vegar frá þeim tíma haldið áfram með vinnu við þróun nýrrar útgáfu vélarinnar. Vél stefnda hafi því verið breytt mikið eftir að dómkvaddur matsmaður skoðaði hana og mat. Því taki viðurkenningarkrafa stefnanda í reynd til vélar sem nú sé ekki lengur framleidd af stefnda. Þrátt fyrir þetta sé þó óhjákvæmilegt að gera grein fyrir einstökum atriðum er skilji milli véla aðila.

a.        nálar og nálarhaus.

Í stefnu sé því haldið fram að nálarhaus vélar stefnanda sé þannig úr garði gerður að vökvaþrýsingur stýri því magni pækils sem sprautað er í hráefnið um leið og vökvaþrýstingurinn þrýsti nálinni niður, vegna stimpils sem festur sé efst í nálina og að þetta sé gagnstætt erlendum vélum, t.d. vélum framleiddum af Farmaco í Danmörku þar sem hverri nál sé þrýst niður með gormi. Stefndi byggir á því að þetta sé ekki rétt, þar sem þessi tækni sé einnig notuð í vél samkvæmt dómskjali nr. 46 og í “ Landsmiðjuvélinni”. Þá hafi þetta einnig verið tækni vélar sem fyrirtækið Málmey ehf. hafði í hyggju að framleiða og var búið að kynna á heimasíðu sinni.

Þá sé það ekki rétt að útfærsla stefnanda á nálarhausnum og sjálfar nálarnar á vélinni séu með öðru sniði en nálar hjá öðrum framleiðendum slíkra véla. Sé á því byggt að Landsmiðjan hf. hafi í mörg ár framleitt saltsprautuvélar sem voru með samskonar nálar en þeirri framleiðslu hafi síðan verið hætt. Margar þessarra véla séu þó enn  í notkun hérlendis. Þá bendi stefndi á að hann hafi hannað nýjan haus á vélina sem byggi á annarri tækni. Eitt megineinkenni þess hauss sé að viðnám nála stýrist af loftþrýstingi undir nálar og vökvaþrýstingi ofan frá.

Þá byggi stefndi á því að ekki séu líkindi með þeim nálum sem notaðar eru í vélar stefnda og stefnanda. Upphaflega hafi nálar í vél stefnda verið áþekkar nálum “Landsmiðjuvélarinnar”. Sú lausn hafi ekki uppfyllt væntingar stefnda og því hafi verið ákveðið að skipta þessum nálum nálum út fyrir aðra grennri tegund nála.

b.       grófsía

Þá sé því haldið fram í stefnu að grófsíur á vélum aðila séu með sama hætti. Þessu sé mótmælt og á því byggt að þegar matsmaður skoðaði vélina hafi verið bráðabirgðagrófsía á henni sem hafi samanstaðið af plötu og kari. Á mynd af vél stefnanda TR-850 sé grófsía staðsett við hlið vélar (sem lítið færiband) og virðist lítið kar vera undir því. Í vél stefnda sé sprautuþrýstingur hins vegar of mikill fyrir svo lítið kar. Því sé grófsía á vél stefnda með þeim hætti að fyrir framan vélina sé staðsett 400 lítra kar með kælispírölum og síubandi. Þar sé því um allt aðra lausn að ræða.

c.        fínsía.

Varðandi fínsíu í vél stefnda sé því alfarið mótmælt að um sömu lausn sé að ræða. Við þróun á vél stefnda hafi verið útbúin fínsía til bráðabirgða. Síðan hafi verið keypt fínsía á vél stefnda frá fyrirtækinu Valve & Filter Corporation, sem augljóslega sé ekki hugverk stefnanda.

d.       útfærsla á vélarhúsi.

Á því sé byggt að ekkert sé óeðlilegt við að útfærsla á vélarhúsi og þversnið vélanna og færibandsins sem flytur fiskinn gegnum vélarnar sé ámóta í vélum aðila. Hafa verði í huga að allar saltsprautuvélar hafa bönd sem flytja fisk gegnum vélina og vélarhús þar sem mótorar og fleira eru staðsett.. Þetta sé einnig niðurstaða matsmanns. Þá sé það ekki rétt að öryggishlíf á vél stefnda og stefnanda séu eins að því leyti að öryggishlífin sé úr gagnsæu efni og að form hennar sé það sama og á vél stefnanda. Af gögnum sé ljóst að öryggishlíf á vél stefnda sé úr stáli og form hennar sé ekki það sama og á vél stefnanda.

Af framansögðu sé því ljóst að engin líkindi séu með vélum aðila og telji stefndi því að sýkna beri hann af viðurkenningarkröfu stefnanda.

Um upptökukröfu stefnanda byggir stefndi á þeim málsástæðum og lagarökum og varða sýknukröfu af viðurkenningarkröfu stefnanda. Sé á því byggt að stefndi hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 við hönnun og síðar framleiðslu á saltsprautunarvél. Því sé kröfu stefnanda um upptöku alfarið mótmælt enda séu skilyrði þessa úrræðis ekki fyrir hendi í málinu. Þá liggi fyrir að stefndi hafi ekki getað framleitt eða selt vélar á innlendum markaði vegna aðgerða stefnanda. Því séu engar vélar til sem gera mætti upptækar að kröfu stefnanda.

Að því er varðar skaðabótakröfu stefnanda þá mótmælir stefndi bæði grundvelli skaðabótaskyldu sem og þeim forsendum sem stefnandi leggur til grundvallar við ákvörðun meints fjártjóns.  Er byggt á því að stefndi hafi ekki valdið stefnanda neinu tjóni með þeim hætti sem byggt er á í stefnu, auk þess sem stefnandi hafi ekki sannað meint tjón sitt eða grundvöll slíkrar bótaábyrgðar. Þá byggir stefndi á því, að jafnvel þó að bótagrundvöllur teldist vera fyrir hendi, þá sé bótakrafa stefnanda svo vanreifuð að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá dómi ex officio.

Vegna áskorunar stefnanda hafi stefndi nú upplýst að hann hafi einungis selt eina vél en ekki þrjár eins og byggt sé á af hálfu stefnanda. Ástæða þess sé eingöngu sú að stefndi hafi ekki getað hafið sölu og framleiðslu vélarinnar vegna markvissra aðgerða stefnanda gegn honum á samkeppnismarkaði. Neytendastofa hafi nú tekið afstöðu til kvartana stefnda þar að lútandi og hafi niðurstaða stofnunarinnar verið sú að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum 5. og 6. gr. laga nr. 57/2005. Stefnandi hafi þvert á móti valdið stefnda miklu tjóni og geymi stefndi sér allan rétt til þess að krefja stefnanda um bætur vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir af þessum sökum.

Stefndi byggir kröfur sínar á reglum laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga. Þá vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og varðandi málskostnað til 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins svo og í málflutningi 12. þessa mánaðar tefldi lögmaður stefnda m.a. fram málsástæðum er varða aðild í málinu, m.a. að stefnandi sé ekki eigandi þeirra réttinda er hann byggi mál sitt á svo og atriðum varðandi aðild stefnda. Var þessu mótmælt sem nýjum málsástæðum og of seint fram komnum af lögmanni stefnanda. Er fallist á sjónarmið stefnanda að þessu leyti og koma þessar nýju málsástæður ekki til álita varðandi niðurstöðu málsins, hvorki að kröfu né að sjálfsdáðum.

Upplýst er í málinu að stefnanda hefur ekki verið veitt einkaleyfi á þeirri tæknilegu útfærslu sem hann byggir málssóknina á og verður niðurstaða því ekki byggð á einkaleyfi enda er ekki í reynd á því byggt af hálfu stefnanda.

Ekki er fallist á að hönnunarvernd vélar stefnanda taki til vélar stefnda. Ber í því sambandi til þess að líta að eins og fram kemur í mati dómkvadds matsmanns að vél stefnda er ekki eftirlíking af vél stefnanda og útlitslega líkist vél stefnda frekar vélum annarra framleiðenda en stefnanda. Jafnframt er tekið fram í matinu að allar  vélarnar sem voru bornar saman hafa sama grunnútlit. Verður krafa stefnanda því ekki tekin til greina á grundvelli laga um hönnun nr. 46/2001.

Eins og að framan getur byggir stefnandi einkum á því að stefnda sé óheimilt að nota þá tæknilegu útfærslu/lausn sem stefnandi hefur einn rétt til. Tæknileg útfærsla/lausn hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og feli í sér sjálfstætt framlag hans við útfærslu á þeirri tæknilegu lausn sem við sé að eiga. Þetta sjálfstæða framlag sé öðrum óheimilt að nýta sér með eftirgerð, líkt og stefndi geri í þessu tilfelli, á grundvelli 5. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005. Stefnandi telji sig hafa sýnt fram á að nálarhaus, færslubúnaður fyrir hann og undirliggjandi tækni sé sjálfstætt framlag í þessu sambandi og ekki einvörðungu hagnýting á þekktum aðferðum. Þannig taki matsmaður fram í mati sínu að útfærsla/lausn stefnanda sé sértæk hvað varðar nálarhaus og færslubúnað fyrir hann. Telur stefnandi útfærsluna/lausnina því njóta verndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/2005.

Þá telji stefnandi jafnframt að með matinu sé sýnt fram á að útfærsla/lausn stefnda á nálarhaus, færslubúnaði fyrir hann og undirliggjandi tækni sem hann notast við í vél sinni sé bein eftirlíking af útfærslu/lausn stefnanda og þar með brot gegn framangreindri 5. gr. laga nr. 57/2005. Matsmaður telji að hönnun og undirliggjandi tækni nálarhaussins sé sérstakur fyrir vél stefnanda og að sami búnaður í vél stefnda sé mjög líkur og ólíklegt að ekki hafi legið fyrir vitneskja um nálarhaus stefnanda og tæknilega útfærslu hans þegar nálarhaus stefnda var hannaður. Með þessu telji stefnandi ljóst að um eftirlíkingu sé að ræða á hönnun nálarhauss, færslubúnaðar fyrir hann og undirliggjandi tækni vélar stefnanda, sem brjóti gegn 5. gr. laga nr. 57/2005.

Að mati dómsins er ljóst að margt er líkt með tæknilegri útfærslu á færslubúnaðinum, nálarhausum og útliti nála svo og undirliggjandi tækni í vélum aðila og er fallist á það með dómkvöddum matsmanni að þessi atriði séu sértæk í vél stefnanda. Ekki er þó um að ræða eftirlíkingu þar sem mál,  málsetningar, form og samsetningar eða staðsetningar eru ekki nákvæmlega eins  þótt þessir hlutir séu mjög líkir í báðum vélunum. Má því segja að um svipaða tæknilega útfærslu og virkni sé að ræða en ekki beina eftirlíkingu. Stefndi, sem að líkindum hefur þekkt útfærsluna að þessu leyti í vél stefnanda og hugsanlega öðrum svipuðum vélum, þykir því fremur hafa nýtt sér hugmyndina að útfærslunni, hvaðan sem hún hefur upphaflega komið, en ekki beint líkt eftir útfærslu stefnanda. Samkvæmt gögnum málsins hefur vél stefnda verið í þróun frá því að hann seldi Írafelli ehf. hana og erfiðleikar komið fram. Bendir það ekki til þess að um eftirlíkingu sé að ræða eða að stefndi hafi haft undir höndum teikningar af vél stefnanda. Þá ber enn og aftur að leggja áherslu á að þrátt fyrir að hin tæknilega útfærsla á vélunum að þessu leyti sé mjög lík er tæknilega útfærslan í vél stefnanda ekki einkaleyfisvernduð og  mál, málsetningar á teikningum, yfirborðsform og staðsetningar eru ólíkar.

Að framangreindu virtu telur dómurinn í ljósi heildarmats að vél  stefnda sé ekki eftirlíking á vél stefnanda. Braut stefndi því ekki gegn ákvæði 5. gr. laga nr. 57/2005 við framleiðslu vélar sinnar.  Ber samkvæmt þessu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem eftir atvikum þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

Dóm þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari meðdómsmennirnir og Indriði Sævar Ríkharðsson vélaverkfræðingur og Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur

Dómsorð:

Stefndi, Stál Plús ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Traustrar þekkingar ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.