Hæstiréttur íslands

Mál nr. 486/2009


Lykilorð

  • Útivist
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 2010.

Nr. 486/2009.

Árni Sigurjón Sveinbjörnsson og

Guðrún Sveinbjörnsdóttir

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Kráki ehf.

(Stefán Ólafsson hrl.)

Útivist. Frávísun máls í héraði.

Á og G áfrýjuðu dómi héraðsdóms þar sem þeim var gert að greiða K ehf. rúmlega þrjár milljónir króna. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem skilyrði skorti til málskots. Talið var að þar sem þingsókn af þeirra hálfu féll niður í héraði eftir þau skiluðu greinargerð væri þeim ekki heimilt, samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, að áfrýja dómi héraðsdóms nema með gagnáfrýjun, ef slík aðstaða hefði verið uppi. Þess í stað hefðu þau getað leitað eftir endurskoðunar á dóminum með beiðni um endurupptöku málins í héraði eftir ákvæðum XXIII. kafla laganna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2009. Þau krefjast aðallega sýknu en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefjast þau lækkunar á kröfu stefndu. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti, en til vara „að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum áfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti.“ Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig munnlega fyrir Hæstarétti um hvort vísa bæri málinu frá réttinum á grundvelli 4. mgr. 96. gr. sömu laga. 

Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu birtri 14. febrúar 2008 og krafðist þess að áfrýjendur yrðu dæmd til að greiða honum 7.179.620 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Var málið þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra 20. febrúar 2008. Áfrýjendur tóku til varna með greinargerð, sem lögð var fram í héraði 2. apríl 2008. Þau kröfðust aðallega sýknu, en til vara lækkunar á fjárhæð kröfu stefnda. Á dómþingi 7. maí 2008 var dómkvaddur maður til að láta í té álit um nánar tilgreind atriði. Matsgerðin var síðan lögð fram í þinghaldi 18. febrúar 2009 þar sem aðeins var mætt af hálfu stefnda, en lögmaður hans upplýsti að lögmaður áfrýjenda væri forfallaður. Í þingbókina var bókað að í næsta þinghaldi myndi dómari leita sátta „og því er lögð áhersla á að af hálfu stefndu [áfrýjenda] verði sótt þing í málinu.“ Ákveðið var að taka málið fyrir næst 4. mars 2009. Í það þinghald var ekki mætt af hálfu áfrýjenda og ekki heldur á síðari dómþing 1. og 14. apríl 2009 en á því síðarnefnda var málið tekið til dóms. Með hinum áfrýjaða dómi sem kveðinn var upp 29. maí 2009 voru áfrýjendur dæmd til að greiða stefnda óskipt 3.470.175 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum og 450.000 krónur í málskostnað.

Eins og að framan greinir féll niður þingsókn af hálfu áfrýjenda fyrir héraðsdómi eftir að þau höfðu skilað greinargerð sinni. Af tölvupóstsamskiptum þáverandi lögmanns áfrýjenda og héraðsdómara máttu þau ætla að málinu hefði verið frestað utan réttar til sáttameðferðar. Það fær því þó ekki breytt að samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 gátu áfrýjendur eftir að héraðsdómur gekk ekki áfrýjað honum nema með gagnáfrýjun ef slík aðstaða hefði verið uppi. Þess í stað gátu þau leitað endurupptöku málins í héraði eftir ákvæðum XXIII. kafla laganna. Samkvæmt þessu brestur skilyrði til málskots áfrýjenda og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjendur, Árni Sigurjón Sveinbjörnsson og Guðrún Sveinbjörnsdóttir, greiði óskipt stefnda, Kráki ehf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 29. maí 2009.

I

      Mál þetta var þingfest 20. febrúar 2008 en tekið til dóms 14. apríl sl.

Stefnandi er Krákur ehf., Melabraut 21, Blönduósi.

Stefndu eru Árni Sigurjón Sveinbjörnsson og Guðrún Sveinbjörnsdóttir, bæði til heimilis að Króksseli, Sveitarfélaginu Skagaströnd.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum 7.179.620 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2000 um vexti og verðtryggingu af 7.042.620 krónum frá 1. febrúar 2007 til 1. júní 2007 en af 7.179.620 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess einnig að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefjast þau málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnanda.

II

Atvik máls

                Aðila greinir verulega á um málsatvik. Stefnandi lýsir þeim þannig að Soffía Jónsdóttir, dóttir stefndu Guðrúnar, hafi komið að máli við Lárus Jónsson, forsvarsmann stefnanda, í júní 2006 og spurt hvort hann gæti flutt veiðihús frá Straumfjarðará að heimili stefndu. Hún hafi lýst því að búið væri að fá aðila til að sjá um flutninginn og hífingu á húsinu. Mikið hafi legið á og helst hefði verkinu þurft að vera lokið seinni partinn í júlí það ár. Soffía hafi beðið Lárus um að nefna hvað það gæti kostað að gera húsið, sem í raun var tvær byggingar með tengibyggingu á milli, alls um 200 fermetrar, flutningshæft frá Straumfirði. Lárus hafi rissað á blað kostnað við að rífa millibygginguna og kostnað við að gera undirstöður undir húsið að Króksseli. Sérstaklega hafi verið tekið fram að kostnaður vegna aksturs og tækja væri óviss. Ekkert hafi síðan gerst í málinu nokkurn í tíma. Þá hafi Lárus hringt til stefndu og ákveðið hafi verið að fresta málinu fram yfir slátt. Þegar liðið var að hausti 2006 hafi stefnda Guðrún komið til Lárusar og viljað koma verkinu af stað og sagt allt tilbúið varðandi flutning og hífingu hússins. Guðrún hafi ekki leitað eftir tilboði frá stefnanda en ákveðið hafi verið að stefnandi tæki það að sér. Þegar stefnandi ætlaði að hefja verkið hafi komi í ljós að verktakinn sem ætlaði að annast flutninginn hafi ekki getað sinnt því. Að endingu hafi stefndu falið stefnanda að leita tilboða í flutninginn og hífingu. Stefnandi hafi eytt miklum tíma og kostnaði í þessa þætti og samhæfingu þeirra. Þá hafi þurft að fylgjast með veðurspám en ekki hafi verið unnt að flytja húsin nema veður væri skaplegt. Flutningurinn sjálfur hafi síðan tekið nær tvo sólarhringa og nauðsynlegt hafi verið að fá lögreglufylgd úr þremur lögregluumdæmum og taka niður skilti á vegum og einbreiðum brúm. Veður hafi einnig tafið ferðalagið og þá hafi vont veður einnig tafið verkið þegar komið var að heimili stefndu. Húsin hafi verið tekin upp hinn 8. nóvember 2006 og verið komin að Króksseli degi síðar. Stefnandi heldur því fram að Lárus Jónsson hafi farið tvær ferðir vestur í Straumfjörð til að skoða aðstæður og mæla húsið. Nokkru áður en flutningurinn átti sér stað hafi nokkrir menn frá stefnanda farið vestur til þess að rífa millibygginguna og loka sárum á einingunum tveimur. Veður hafi síðan valdið því að menn frá stefnanda urðu að fara aukaferð vestur til að loka húsinu betur og þá hafi einnig þurft að leita til heimamanna við það verk. Þá hafi mikil vinna farið í að taka saman innanstokksmuni, húsgögn og smáhluti sem ekki var reiknað með í upphafi. Vegna lélegrar festingar á ull undir húsinu hafi hún gengið mikið úr skorðum við flutninginn en það hafi þurft að laga og í það hafi farið mikill tími á áfangastað. Stefnandi segir að fleira hafi komið til sem hafi haft í för með sér aukinn kostnað. Stefnandi lýsir því einnig að Lárus Jónsson hafi farið nokkrar ferðir að heimili stefndu til að mæla fyrir húsinu og staðsetja það. Þegar vinna hafi hafist við að festa húsin niður á festingar sem áður höfðu verið steyptar hafi verið kominn vetur. Sökum veðurs hafi oft verið erfitt að ferðast á milli heimilis stefndu og starfsstöðvar stefnanda en ekki hafi verið aðstaða til gistingar á heimili stefndu auk þess sem aðstaða fyrir starfsmenn hafi verið slæm.

                Í lýsingu málavaxta gerir stefnandi grein fyrir kröfu sinni. Hann kveðst hafa samið við stefndu um flutning húsanna og verkið í heild sinni. Stefndi Árni sé skráður fyrir jörðinni Króksseli en bæði stefndu séu nú ásamt Soffíu Jónsdóttur skráð eigendur hins nýja húss á Króksseli. Að ósk stefndu hafi reikningum verið skipt á milli þeirra með ákveðnum hætti og það skýri hvers vegna sumir reikninganna séu stílaðir á stefnda Árna en aðrir á stefndu Guðrúnu. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af þeirra hálfu í framhaldi af útgáfu reikninganna en þau hafi viðurkennt með greinargerðum sínum til dómsins, vegna eldra máls sem höfðað var á hendur þeim, að þau bæru sameiginlega ábyrgð á öllu verkinu. Reikningar sem beint var til stefnda Árna séu alls að fjárhæð 6.183.109 krónur en síðasti reikningurinn á hann hafi verið gerður 30. desember 2006. Stefndi Árni hafi samtals greitt 3.475.171 krónu. Afsláttur sem gert var ráð fyrir, að fjárhæð 69.064 krónur, hafi fallið niður þegar ekki var staðið í skilum en það hafi verið forsenda afsláttarins. Krafa á hendur stefnda Árna sundurliðist því þannig: 6.183.109+69.064–3.475.171, samtals 2.777.002 krónur. Hér sé búið að taka út þrjá reikninga sem séu á framlögðu viðskiptayfirliti þar sem þeir tengist ekki máli þessu. Reikningar þessir séu frá 15. nóvember 2006 að fjárhæð 1.150 krónur, reikningur frá 12. desember 2006 að fjárhæð 3.990 krónur og reikningur frá 20. desember 2006 að fjárhæð 3.220 krónur. Reikningar sem stílaðir eru á stefndu Guðrúnu eru samtals að fjárhæð 7.127.052 krónur en hinn síðasti er frá 17. apríl 2007. Innborganir sem stafa frá stefndu Guðrúnu nema samtals 2.793.498 krónum. Í tilfelli Guðrúnar falli afsláttur niður líkt og hjá stefnda Árna, alls 69.064. krónur. Krafan sundurliðist því þannig: 7.127.052+69.064–2.793.498, samtals 4.402.618 krónur. Stefnandi kveðst bera búinn að taka út reikninga sem eru á framlögðu viðskiptayfirliti sem ekki varða mál þetta. Þeir reikningar séu samtals að fjárhæð 268.948 krónur og færðir sem innborgun 3. nóvember 2006. Allir reikningar á stefndu Guðrúnu hafi verið gerðir fyrir 30. desember 2006 utan tveir sem samtals nema 137.000 krónum en þeir voru gefnir út 16. og 17 apríl 2007.

                Stefndu lýsa málavöxtum þannig að í febrúar 2006 hafi þau keypt veiðihús við Straumfjarðará á Snæfellsnesi. Þau hafi þurft að láta flytja húsið að Króksseli og koma því fyrir þar. Stefnandi hafi gert tilboð í verkið og boðist til að vinna það fyrir 1.200.000 til 1.350.000 krónur. Stefndu hafi tekið tilboðinu en stefnandi hafi hins vegar ekki byrjað á verkinu fyrr en í nóvember 2006 og skilað verkinu allt of seint. Stefndu segja að skipta megi verkinu í fjóra verkþætti. Í fyrsta lagi hafi þurft að gera klárt í Króksseli til að unnt væri að taka við húsunum. Í öðru lagi hafi þurft að rífa húsin við Straumfjarðará. Í þriðja lagi þurfti að flytja húsin og í fjórða lagi þurfti að vinna við millihús að loknum flutningi.

                Varðandi fyrsta þáttinn segja stefndu að þurft hafi að steypa undirstöður fyrir húsin að Króksseli og mæla fyrir þeim. Samkvæmt tilboði og verkáætlun stefnanda hafi sá þáttur átt að kosta 350.000 til 450.000 krónur. Annar verkþátturinn hafi falist í því að rífa veiðihúsin í sundur og gera þau klár fyrir flutning. Aðilar hafi samið sérstaklega um þennan þátt og áttu stefndu að greiða stefnanda 850.000 til 900.000 krónur fyrir þennan þátt. Þriðji verkþátturinn hafi falist í flutningi húsanna frá Straumfirði að Króksseli. Húsin hafi verið tekin upp 8. nóvember 2006 og flutt daginn eftir. Stefndu gera ekki athugasemd við reikning vegna hífingar af og á bifreið ásamt vinnu að fjárhæð 803.958 krónur. Stefndu halda því fram að húsin hafi skemmst mikið vegna vanrækslu starfsmanna stefnanda við flutning þeirra. Stefndi hafi t.d. rifið húsin í sundur og látið þau standa opin í u.þ.b. þrjár vikur. Í dag sé þakið farið að síga og gólfið skemmt, enda hafi rignt og blásið inn í húsin meðan á þessu stóð. Fjórði verkþátturinn hafi falist í smíði millihúss en ráð hafi verið fyrir því gert að húsið yrði byggt upp með líkum hætti og var í Straumfirði en þar hafi verið 46 fermetra millihús. Stefndu segja stefnanda hafa tekið mikið af efni úr eldra millihúsi og flutt að Króksseli og notað aftur. Hinn 15. nóvember 2006 hafi stefnandi byrjað á smíði millihússins en um þennan verkþátt hafi ekki verið samið sérstaklega og snúist ágreiningur aðila að miklu leyti um uppgjör vegna þessa þáttar. Stefndu eru ekki sátt við vinnu stefnanda við smíði millihússins og telja það að mörgu leyti óklárað. Nefna sem dæmi að niðurföll séu í ólagi, húsið án gólfefnis, hurðir passi ekki og ýmislegt annað sé illa unnið. Þá mótmæla stefndu sérstaklega lýsingu í stefnu þess efnis að stefnandi hafi tekið verkið að sér í heild. Þetta sé ekki rétt, t.d. hafi stefnandi unnið litla jarðvinnu að Króksseli. Þá sé rangt að reikningum hafi ekki verið mótmælt en stefnanda hafi strax í byrjun árs 2007 verið sagt að reikningar væru óhóflega háir.

III

Málsástæður og lagarök

                Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. stoð í 5., 6. og 28. gr. eldri laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 og í 45., 46. og 47. gr. núgildandi laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Varðandi gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi til meginreglu 12. gr. nefndra laga nr. 39/1922 og til 48. og 49. gr. laga nr. 50/2000. Stefnandi segir að ekki hafi verið samið um sérstakt verð fyrir verkið og heldur því fram að það endurgjald sem hann krefur stefndu um sé sanngjarnt og eðlilegt, enda hafi stefndu ekki gert athugasemdir við verðið fyrr en með greinargerð sinni til dómsins í máli sem áður var höfðað vegna sömu kröfu. Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á ákvæðum laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, einkum ákvæðum 17., 24. og 28. greina laganna. Stefndu hafi ekki borið fyrir sig galla á þeirri þjónustu sem þau fengu né hafi þau kvartað undan því að dráttur hafi orðið á verkinu. Stefnandi byggir á því að uppgefið verð samkvæmt framlögðum reikningum sé sanngjarnt. Stefnandi vísar ennfremur kröfum sínum til stuðnings til almennra reglna nefndra laga um lausafjárkaup. Varðandi samaðild stefndu vísar stefnandi til 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um dráttarvexti er reist á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Vísar stefnandi einkum til 3. mgr. 5. gr. laganna varðandi upphafstíma dráttarvaxta og til 1. mgr. 6. gr. varðandi prósentutölu dráttarvaxta. Loks vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 varðandi kröfu sína um málskostnað úr hendi stefndu.

                Stefndu reisa aðalkröfu sína á því að krafa stefnanda sé að fullu greidd. Þau hafi þegar greitt 6.488.897 krónur fyrir verkið sem þau telji fullnaðargreiðslu. Stefndu vísa til laga um þjónustukaup nr. 42/2000 en í 4. gr. þeirra laga segi að útseld vinna skuli byggð á fagþekkingu og vera í samræmi við góða viðskiptahætti. Í 6. gr. laganna sé mælt fyrir um að seljanda þjónustu sé skylt að veita upplýsingar um hvort fyrirhuguð kaup á þjónustu séu óhagkvæm fyrir neytanda að teknu tilliti til kostnaðar og annars. Við mat á kröfum stefnanda verði að líta til þess að stefnandi sé verktakafyrirtæki sem sérhæfi sig í verkum eins og því sem hann tók að sér fyrir stefndu. Stefnanda hafi því borið að gera skriflegan samning um jafnháa kröfu og stefnukrafan er ef hann vildi eyða allri óvissu varðandi verksamninginn. Það sé meginregla í samninga- og verktakarétti að umdeilanlega samninga beri að skýra þeim aðila í óhag sem hefði getað hlutast til um skýrara form samnings, einkum ef hann hefði haft yfirburði við samningsgerðina í skjóli sérþekkingar sinnar. Tilgangurinn með starfsemi stefnanda sé byggingarstarfsemi, verktakastarfsemi og skyldur rekstur og því sé með ólíkindum að hann hafi ekki gert hefðbundinn verktakasamning um verkið. Í þessu sambandi benda stefndu á ákvæði 29. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 en þar komi fram að verð megi ekki fara verulega fram úr þeirri verðáætlun sem seljandi þjónustu láti neytanda fá en stefnandi hafi látið stefndu hafa verðáætlun upp á 1.200.000 til 1.350.000 krónur. Stefnandi krefji stefndu um fjárhæð sem nemi rúmum 12.000.000 króna umfram efri mörk verkáætlunarinnar en slíkt sé ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til verktaka.

                Stefndu reisa varakröfu sína á því að miðað við umfang þeirra reikninga sem stefnt er fyrir hefði verið nauðsynlegt að útskýra ýmislegt betur. Nefna þeir sem dæmi að erfitt sé að átta sig á hvernig reikningar vegna aksturs, fæðis, alhliðablöndu, spónabagga o.fl. tengist flutningi húsanna. Stefndu mótmæla öllum reikningum sem röngum og ósönnuðum og benda á að engin fylgiskjöl hefðu fylgt og því hafi þau ekki haft möguleika á að staðreyna upphæðir sem þar koma fram. Einnig sé ógerlegt fyrir þau að staðreyna útlagðan kostnað stefnanda sem fram kemur á reikningunum en stefnanda hafi verið í lófa lagið að láta gögn frá sínum viðskiptavinum fylgja reikningunum þannig að stefndu hefðu getað lagt mat á reikningana. Stefndu skora í greinargerð sinni á stefnanda að leggja fram reikninga og/eða kvittanir varðandi allan útlagðan kostnað. Stefndu mótmæla sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda og segja að af fordæmum Hæstaréttar Íslands megi ráða að dráttarvextir verði ekki dæmdir nema vaxtafótur sé tilgreindur í stefnu. Stefnandi tilgreini ekki vaxtafót og vísi ekki til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og því sé ekki lagaheimild til að fallast á kröfu hans um dráttarvexti.

                Hvað lagarök varðar vísa stefndu til ákvæða laga nr. 42/2002 um þjónustukaup, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og meginreglna kröfu-, samninga- og verktakaréttar. Krafa um málskostnað úr hendi stefnanda er reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Þá er krafa um sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda studd við lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.

IV

Niðurstaða

                Undir rekstri málsins óskuðu stefndu eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að leggja mat á hvað væri hæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefnanda. Matsgerð var lögð fram í þinghaldi hinn 18. febrúar sl. Eftir það munu einhverjar viðræður hafa farið fram milli aðila um hugsanlega sátt í málinu. Málið var síðan tekið fyrir 4. mars 2009 en þá var óskað eftir fresti til að reyna að ljúka málinu með sátt. Við fyrirtöku málsins hinn 1. apríl sl. óskaði lögmaður stefnanda eftir fresti til að skila sókn í málinu en útivist varð af hálfu stefndu. Stefnandi skilaði síðan sókn í þinghaldi hinn 14. apríl sl. og þann dag var málið tekið til dóms.

                Í sókn stefnanda eru gerðar sömu dómkröfur og í stefnu. Stefnandi telur að framkomnar varnir stefndu leiði ekki til þess að lækka beri kröfur hans. Stefnandi bendir á að í matsgerð sé sérstaklega tekið fram að gerð kostnaðaráætlunar hafi verið erfið vegna eðlis málsins og þá hafi matsmaður tekið fram að niðurstöður hans séu nálgun þar sem upplýsingar um einstaka liði matsgerðarinnar hafi verið misgóðar. Þá rekur stefnandi sjónarmið sín varðandi þá þætti matsins sem hann telur ekki rétta.

                Stefndu reisa sýknukröfu sína á því að þau hafi að fullu greitt stefnanda fyrir verkið. Fallast má á með stefndu að lög um þjónustukaup nr. 42/2000 gildi um viðskipti aðila og því hafi stefnanda borið að sinna leiðbeiningarskyldu þeirri sem fram kemur í 6. gr. laganna. Hins vegar bar stefnanda ekki að sjá til þess að gerður yrði skriflegur samningur um verkið þótt það hefði vissulega verið betra fyrir báða aðila. Skjal það sem stefndu nefna tilboð í verkið verður ekki með nokkru móti skilið þannig að þar sé um að ræða heildarverð fyrir allt verkið. Raunar er blaðið eingöngu rissað upp og verður ekki skilið sem tilboð í ákveðið verk. Verða stefndu því ekki sýknuð með þeim rökum að þau hafi að fullu staðið skil á greiðslum til stefnanda.

Kröfu um lækkun á kröfum stefnanda rökstyðja stefndu einkum með því að erfitt hafi verið fyrir þau að átta sig á reikningum stefnanda og að fylgigögn hafi vantað, auk þess sem því er haldið fram að stefnandi geri kröfu um greiðslu fyrir hluti sem ekki tengist verkinu. Stefnandi hefur lagt fram sundurliðaða reikninga og tekið frá reikninga sem ekki varða verk þetta beint. Eru því ekki efni til að lækka dómkröfu stefnanda af þessum sökum, enda hefði óskýrleiki kröfugerðar leitt til frávísunar en ekki sýknu. 

Eins og áður er getið var, að ósk stefndu, dómkvaddur matsmaður til að leggja mat á hæfilegt endurgjald til stefnanda. Líkt og fram kemur í matsgerð eru kostnaðaráætlanir og kostnaðarmat í eðli sínu ávallt nálgun að réttri niðurstöðu. Í matinu er verkinu skipt upp í sex þætti. Í fyrsta lagi er vinna við Straumfjarðará samtals 1.383.830 krónur. Í annan stað er kostnaður við flutning húsanna 1.444.280 krónur. Í þriðja lagi er standsetning húsanna og smíði tengibyggingar að Króksseli samtals 6.900.638 krónur. Í fjórða lagi lagfæring á austara húsi 370.831 króna. Í fimmta lagi lagfæring á vestara húsi 888.884 krónur og í sjötta lagi lagfæring vegna skilagalla alls 360.735 krónur. Þætti eitt til fjögur hefur stefnandi þegar unnið og skilað af sér. Samtals nema þeir liðir 10.099.579 krónum. Niðurstaða matsmanns er því sú að hæfilegt endurgjald fyrir vinnu þá sem stefnandi innti af hendi sé 10.099.579 krónur. Þá telur matsmaður rétt að stefndu fái 360.735 króna afslátt vegna galla. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt með gögnum og þykir rétt að leggja hana til grundvallar við úrlausn máls þessa. Frá þeirri fjárhæð er rétt að draga kostnað vegna galla að fjárhæð 360.735 krónur. Af gögnum málsins má ráða að stefndu hafa fengið samkomulagsbætur frá tryggingafélagi sínu vegna vatnstjóns (liðir 4 og 5 í matsgerð) en ætla verður að þeir hafi sætt sig við þá fjárhæð sem tryggingafélagið vildi greiða vegna tjónsins. Stefnandi átti ekki þátt í samningum vegna þessa og ber því ekki að draga frá stefnukröfum hans tjón sem getið er í fimmta lið matsgerðarinnar. Hið sama gildir um fjórða lið matsgerðarinnar sem er kostnaður við úrbætur á tjóni vegna raka. Það verk vann stefnandi. Hins vegar liggur ekki fyrir hvenær mat á tjóninu fór fram og því ekki vitað hvort það var fyrir eða eftir að stefnandi lagfærði tjónið sem metið er í fjórða lið matsgerðarinnar. Af þessu verða stefndu að bera hallann og ber stefndu því að greiða stefnanda fyrir þá vinnu. Samkvæmt þessu ber stefndu að greiða stefnanda samtals 9.738.844 krónur fyrir verkið. Inn á skuldina hafa verið greiddar alls 6.268.669 krónur og nemur skuld stefndu við stefnanda því 3.470.175 krónum.

Að framan er rakin krafa stefnanda um dráttarvexti. Stefndu hafa sérstaklega mótmælt kröfu um dráttarvexti og halda því fram að vaxtafót vanti í kröfu stefnanda og þá vanti einnig tilvísun til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Í kröfugerð vísar stefnandi til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þá vísar hann í lagarökum til 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Verður því ekki fallist á þá kröfu stefndu að ekki beri að reikna dráttarvexti á kröfu stefnanda og skulu þeir greiddir eins og í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykir hæfilegt að stefndu greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Stefndu, Árni Sigurjón Sveinbjörnsson og Guðrún Sveinbjörnsdóttir, greiði óskipt stefnanda, Kráki ehf., 3.470.175 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 3.333.175 krónum frá 1. febrúar 2007 til 1. júlí 2007 en af 3.470.175 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndu greiði stefnanda óskipt 450.000 krónur í málskostnað.