Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2001
Lykilorð
- Peningaþvætti
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2001. |
|
Nr. 161/2001. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Agli Ragnars Guðjohnsen og (Ásgeir Þór Árnason hrl.) Sigurði Guðmundssyni(Kristinn Bjarnason hrl.) |
Peningaþvætti. Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
E var ákærður fyrir fíkniefnabrot með því að hafa keypt og móttekið um 150 g af kókaíni, neytt þess sjálfur og dreift til tveggja nafngreindra manna hérlendis. Þá var hann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa í tvö skipti tekið við reiðufé af SÞ, sem hann hefði vitað að væri ávinningur hins síðarnefnda af sölu fíkniefna. Annars vegar 2.000.000 krónur, sem hann hefði tekið við ásamt meðákærða G og notað helming þess fjár til eigin nota. Hins vegar 4.150.000 krónur, sem hann hefði tekið við og geymt í bankahólfi sínu. Jafnframt var SG hdl. ákærður fyrir að hafa gert málamyndakaupsamning milli E og SÞ um kaup hins síðarnefnda á einkahlutafélaginu R ehf. fyrir 4.150.000 krónur, og að hafa með því að varðveita lykil að bankahólfi E tekið að sér vörslur þess reiðufjár, sem E tók við frá SÞ og geymdi í bankahólfinu. Í héraðsdómi var talið sannað að E hefði keypt, neytt og deilt með öðrum um 100 g af kókaíni. Jafnframt, að hann hefði vitað að það reiðufé sem hann tók við frá SÞ hefði verið ágóði af fíkniefnasölu, og hann hefði með því gerst sekur um peningaþvætti. Héraðsdómur taldi aftur á móti ekki unnt að vefengja staðhæfingar SG um að hann hefði talið sig sinna skyldum sínum sem lögfræðilegur ráðunautur E og veitt honum ráð og aðstoðað á grundvelli rangra upplýsinga þess síðarnefnda. Samkvæmt því yrði að miða við framburð SG um að hann hefði ítrekað gefið E þau ráð að tilkynna lögreglu um viðskipti sín við SÞ, enda hefði SG hvorki talið né mátt telja að E væri viðriðinn brotastarfsemi. Taldi héraðsdómur að framburður SG væri trúverðugur og ósannað að hann tengdist brotinu á annan hátt en hann héldi fram. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu E, en þyngdi refsingu hans úr 15 í 20 mánuði. Um ákæru á hendur SG tók Hæstréttur fram að ákæruvaldið hefði ekki gert kröfu um ómerkingu héraðsdóms þrátt fyrir að héraðsdómur hefði metið framburð SG trúverðugan. Við svo búið þættu ekki efni til að beita ákvæði 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Með vísan til þessa og þar sem sakfelling SG fengi ekki nægan stuðning í öðrum gögnum yrði að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu hans. Þá staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um upptöku eigna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Málinu var skotið til Hæstaréttar 26. apríl 2001 að ósk ákærða Egils Ragnars Guðjohnsen, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins að því er hann varðar og ákærða Sigurð Guðmundsson. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða Egils, en þyngingar á refsingu. Þá krefst ákæruvaldið þess að ákærði Sigurður verði sakfelldur og honum ákveðin refsing. Ennfremur er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um eignaupptöku.
Ákærði Egill krefst aðallega sýknu af ákæruatriðum í II. og IV. kafla ákæru en að hann verði dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa fyrir það brot sem honum er gefið að sök í I. kafla ákæru og gæsluvarðhaldsvist hans komi til frádráttar. Til vara krefst hann þess að refsing fari ekki fram úr fésekt en til þrautavara að refsing verði skilorðsbundin. Að því er varðar kröfu ákæruvaldsins um eignaupptöku krefst ákærði aðallega sýknu en til vara, að krafan nái aðeins til Rimax ehf., nú Blásúlna ehf.
Ákærði Sigurður krefst staðfestingar héraðsdóms.
Málið var höfðað í héraði gegn ákærða Agli og öðrum manni fyrir fíkniefnabrot og gegn þeim ásamt ákærða Sigurði fyrir peningaþvætti. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærði Egill og meðákærði, sem unir dómi, sakfelldir fyrir framangreind brot en ákærði Sigurður sýknaður.
I.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða Egils af ákæruatriðum í I., II. og IV. kafla ákæru, svo og um upptöku eigna. Þegar litið er til eðlis og umfangs peningaþvættis hans og háttsemi hans við það sem lýst er í héraðsdómi, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 11. til 19. október 1999.
II.
Í IV. kafla ákæru er ákærða Sigurði gefið að sök að hafa 16. september 1999 gert málamyndakaupsamning milli ákærða Egils og Sverris Þórs Gunnarssonar um kaup hins síðarnefnda á einkahlutafélaginu Rimax fyrir 4.150.000 krónur, og að hafa með því að varðveita lykil að bankahólfi Egils tekið að sér vörslur þess reiðufjár, sem Egill tók við frá Sverri Þór og geymdi í bankahólfinu. Er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og 141. gr. laga nr. 82/1998.
Héraðsdómur taldi ekki unnt að vefengja staðhæfingar ákærða Sigurðar um að hann hefði talið sig sinna skyldum sínum sem lögfræðilegur ráðunautur ákærða Egils og veitt honum ráð og aðstoðað á grundvelli rangra upplýsinga þess síðarnefnda. Samkvæmt því yrði að miða við þann framburð ákærða Sigurðar að hann hefði ítrekað gefið ákærða Agli þau ráð að tilkynna lögreglu um viðskipti sín við Sverri Þór, enda hefði ákærði Sigurður hvorki talið né mátt telja að ákærði Egill væri viðriðinn brotastarfsemi. Héraðsdómur taldi framburð ákærða Sigurðar trúverðugan og ósannað að hann tengdist brotinu á annan hátt en hann héldi fram. Fyrir Hæstarétti lýsti saksóknari því yfir að ekki væri gerð krafa um að héraðsdómur yrði ómerktur vegna þessa mats og verður að líta svo á að ákæruvaldið uni því. Við svo búið þykja ekki efni til að Hæstiréttur beiti ákvæði 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Vegna þessa og þar sem sakfelling ákærða Sigurðar fær ekki nægan stuðning í öðrum gögnum verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Sigurðar.
III.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Dæma ber ákærða Egil til greiðslu áfrýjunarkostnaðar ásamt ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen sæti fangelsi í 20 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 11. til 19. október 1999.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu ákærða Sigurðar Guðmundssonar.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku eigna og málskostnað eru staðfest.
Ákærði Egill greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurðar, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Egill greiði 2/3 hluta annars áfrýjunarkostnaðar en 1/3 hluti fellur á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2001.
Mál þetta sem þingfest var hinn 16. júní sl. en tekið til dóms hinn 28. febrúar sl. að loknum endurflutningi, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af Ríkislögreglustjóra hinn 16. maí 2000 á hendur Agli Ragnars Guðjohnsen, kennitala 090655-7449, Funafold 103, Reykjavík, Geir Hlöðver Ericssyni, kennitala 180667-4239,Tjarnarmýri 37, Seltjarnarnesi, og Sigurði Guðmundssyni, kennitala 100557-3209, Fellsmúla 12, Reykjavík.
Á hendur Agli Ragnars Guðjohnsen og Geir Hlöðver Ericssyni fyrir fíkniefnabrot.
1. Ákærða Agli með því að hafa frá maí 1998 til september 1999 keypt og móttekið samtals um 150 g af kókaíni af Sverri Þór Gunnarssyni, kt. 220572-4719, sem ákærði neytti sjálfur og dreifði til tveggja nafngreindra manna hérlendis.
2. Ákærða Geir Hlöðver með því að hafa í júlí og ágúst 1999 keypt og móttekið samtals um 5 g af kókaíni af Sverri Þór Gunnarssyni, sem ákærði neytti sjálfur og dreifði til vina sinna.
Á hendur Agli Ragnars Guðjohnsen og Geir Hlöðver Ericssyni fyrir peningaþvætti.
Með því að ákærði Egill Ragnars móttók í byrjun maímánaðar 1999, á tannlæknastofu sinni að Álfabakka 14 í Reykjavík, kr. 2.000.000 í reiðufé frá Sverri Þór Gunnarssyni, sem var greiðsla Sverris fyrir 30% hlut í einkahlutafélagi ákærðu Egils Ragnars og Geirs Hlöðvers, Rimax ehf., kt. 500299-3479 og ákærðu vissu að var ávinningur Sverris af sölu fíkniefna. Hinni mótteknu peningafjárhæð skiptu þeir á milli sín þannig að Egill notaði kr. 1.000.000 til eigin nota, en Geir Hlöðver lét leggja inn kr. 1.000.000 á tékkareikning félagsins nr. 100 við útibú Landsbanka Íslands við Álfabakka í Reykjavík hinn 5. maí 1999.
Á hendur Geir Hlöðver Ericssyni fyrir peningaþvætti.
Með því að hafa hinn 3. september 1999 tekið við Whirlpool kæliskápi, Whirlpool uppþvottavél, Philips 32” litsjónvarpi með fjarstýringu, Philips myndbandstæki með fjarstýringu og sjónvarpsskáp, frá ákærða Sverri Þór Gunnarssyni, sem ákærði vissi að var keypt fyrir ávinning Sverris af sölu fíkniefna. Kaupin fóru fram í nafni Rimax ehf. þann dag og staðgreiddi Sverrir Þór fyrir tækin með kr. 361.434, og átti hann að fá fjárhæðina endurgreidda frá Rimax ehf.
Á hendur Agli Ragnars Guðjohnsen og Sigurði Guðmundssyni, fyrir peningaþvætti.
Á hendur Agli fyrir að hafa, í byrjun septembermánaðar 1999, tekið við á tannlæknastofu sinni við Álfabakka 14 í Reykjavík, kr. 4.150.000 í reiðufé frá Sverri Þór Gunnarssyni, sem ákærði vissi að var ávinningur stórfelldra fíkniefnabrota Sverris. Ákærði geymdi peningana í bankahólfi sínu nr. 227 í útibúi Landsbanka Íslands að Álfabakka 10 í Reykjavík þar til Sverrir Þór Gunnarsson var úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi hinn 11. september 1999 í þágu rannsóknar vegna aðildar að stórfelldum innflutningi og dreifingu fíkniefna. Þá tók ákærði, Sigurður Guðmundsson héraðsdómslögmaður, að sér að gera málamyndakaupsamning, hinn 16. september 1999 á lögmannsstofu sinni að Sóltúni 3, Reykjavík. Málamyndasamningurinn var á milli ákærða Egils Ragnars og Sverris Þórs um kaup Sverris Þórs á einkahlutafélaginu Rimax fyrir kr. 4.150.000. Í framhaldi af því tók ákærði Sigurður vörslur peninganna með því að varðveita lykil bankahólfsins.
Heimfærsla til refsiákvæða.
Háttsemi ákærðu Egils Ragnars Guðjohnsen og Geirs Hlöðvers Ericssonar skv. lið I. telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986, sbr. fylgiskjal nr. I með þeirri reglugerð, sbr. 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 177/1986 og auglýsingu nr. 314/1981.
Háttsemi ákærðu Egils Ragnars Guðjohnsen, Geirs Hlöðvers Ericssonar og Sigurðar Guðmundssonar skv. liðum II., III. og IV. telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og 141. gr. laga nr. 82/1998.
Dómkröfur.
1. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.
2. Að ákærðu verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku kr. 2.000.000 hjá Agli Ragnars Guðjohnsen, Geir Hlöðver Ericssyni og Rimax ehf., nú Blásúlum ehf, kt 500299-3479, aðallega in solidum, en til vara pro rata að mati dómsins. Þá er þess krafist að ákærðu greiði allan sakarkostnað in solidum.
Að ákærða Geir Hlöðver Ericssyni verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku kæliskáps, uppþvottavélar, litsjónvarps, myndbandstækis og sjónvarpsskáps, samkvæmt haldlagningarskýrslu frá 21. október 1999, sbr. skjal í lögreglurannsóknargögnum nr. III/A-25.1.
Af hálfu ákærða Egils Ragnars Guðjohnsen er þess krafist aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins samkvæmt II. og IV. kafla ákæru en vegna I. kafla ákæru verði hann dæmdur í vægustu refsingu er lög leyfa og að hann teljist að fullu hafa afplánað refsingu sína með þeirri tíu daga gæsluvarðhaldsvist er hann sætti vegna máls þessa. Til vara er þess krafist að refsing, ef dæmd verði, fari ekki fram úr fésekt, en til þrautavara að ef fangelsisrefsing verði dæmd, þá verði hún skilorðsbundin eftir ákvæðum 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að gæsluvarðhaldsvist í tíu daga komi að fullu til frádráttar.
Þess er jafnframt krafist að ákærði Egill verði sýknaður af upptökukröfum ákæruvaldsins í 1. mgr. 2. tl. VI. kafla ákæru, en til vara að upptaka, ef dæmd verður, nái einungis til Rimax ehf., nú Blásúlna ehf. Til þrautavara er þess krafist að upptökukrafan verði dæmd pro rata.
Þá er krafist málskostnaðar vegna allrar málsmeðferðar verjanda og er í öllum tilvikum krafist þess að málskostnaður verði dæmdur úr ríkissjóði.
Af hálfu ákærða Geirs Hlöðvers Ericssonar er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talinn málskostnaður til ákærða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Til vara er þess krafist að ákærði Geir Hlöðver verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að sú refsing verði skilorðsbundin. Þá er þess einnig krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð auk málskostnaðar til handa ákærða.
Af hálfu ákærða Sigurðar Guðmundssonar eru gerðar þær kröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð þar með talinn málskostnaður til handa ákærða.
Málsatvik
Upphaf máls þessa má rekja til þess að í september árið 1999 kom upp umfangsmikið fíkniefnamál þar sem margir voru handteknir og ákærðir fyrir stórfelldan innflutning og sölu fíkniefna hér á landi. Við rannsókn málsins (S-774/2000) vöknuðu grunsemdir um að fjármunum vegna fíkniefnaviðskipta hefði verið komið í lögmætt eignaform með aðstoð nokkurra aðila. Hinn 10. október 1999 var Egill Ragnars Guðjohnsen, einn ákærðu í máli þessu, handtekinn og jafnframt gerð leit á heimili hans að Funafold 103, Reykjavík og á tannlæknastofu hans Álfabakka 14, Reykjavík. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 11. október 1999 var Egill Ragnars hnepptur í gæsluvarðhald að kröfu efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, vegna gruns um meðferð á fíkniefnum og peningaþvætti. Til grundvallar kröfunni lágu m.a. upptökur á símtölum milli ákærða Egils og Sverris Þórs Gunnarssonar, en hann var einn ákærðu í máli S-774/1999. Var talið að Egill hefði tekið við töluverðu magni af kókaíni frá Sverri Þór og einnig að töluverð fjármálaleg tengsl væru á milli þeirra tveggja, einkum þannig að umtalsverðar fjárhæðir hefðu runnið frá Sverri Þór í einkahlutafélag Egils, Rimax. Sverrir Þór hafði þá borið við yfirheyrslur að hann hefði keypt 30% í nefndu hlutafélagi. Sverrir Þór hafði einnig látið Egil hafa 4.150.000krónur í peningum en þeir peningar voru geymdir í bankahólfi Egils í Landsbanka Íslands, útibúi Álfabakka 10, Reykjavík. Egill hafði vísað lögreglu á lykil að bankahólfi þessu, sem Sigurður Guðmundsson, einnig ákærður í máli þessu, geymdi fyrir hann. Sigurður afhenti lögreglu lykilinn á skrifstofu sinni. Þá var lykillinn í umslagi merktu um móttöku 16.04.1999. Agli og Sigurði bar saman um að það væri rangur móttökudagur, ætti í raun að vera 16.09.1999. Egill Ragnars Guðjohnsen sat í gæsluvarðhaldi frá 11. til 19. október 1999.
Við rannsókn málsins kom í ljós að ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen var ekki einn eigandi að Rimax ehf., heldur var ákærði Geir Hlöðver Ericsson meðeigandi Egils. Eignaraðild Geirs Hlöðvers var hins vegar dulin vegna þess að hann hafði verið úrskurðaður gjaldþrota. Í ljósi þessa var talið að Geir Hlöðver tengdist þessum hluta málsins. Við yfirheyrslur viðurkenndi Geir Hlöðver að hafa neytt kókaíns sem hann hefði keypt af Sverri Þór og jafnframt að hann hefði tekið við greiðslu vegna kaupa Sverris Þórs á 30% hlut í Rimax. Einnig er óumdeilt að Sverrir Þór hafði lagt út fyrir kaupum Geirs Hlöðvers á heimilistækjum hinn 3. september 1999 með því að láta hann hafa ávísun að fjárhæð 361.434 krónur. Lögregla lagði hald á þau tæki hinn 21. október 1999.
Þáttur ákærða Sigurðar Guðmundssonar varðar samningsgerð fyrir ákærða Egil í kjölfar þess að Sverrir Þór Gunnarsson var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald. Útbjó Sigurður uppkast að samningi um kaup Sverris Þórs á eignarhlut Egils í Rimax ehf. Sigurður tók að því loknu við lykli að bankahólfi Egils og varðveitti á skrifstofu sinni, eins og áður er komið fram.
Dómur í málinu, S-774/2000, var kveðin upp í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 27. júní 2000. Þar var Sverrir Þór Gunnarsson dæmdur í 7 ára og sex mánaða fangelsi fyrir stórfelld fíkniefnabrot. Talið var sannað að Sverrir Þór hefði m.a. selt Agli Ragnars Guðjohnsen 100 g af kókaíni. Sverrir Þór var einnig dæmdur til að þola upptöku til ríkissjóðs á 21.400.000 krónum, sem talið var sannað að hefði verið ávinningur hans af fíkniefnaviðskiptum. Hæstaréttardómur í máli fimm sakfelldu sem ekki undu héraðsdóminum, þ.á m. Sverris Þórs Gunnarssonar, var kveðinn upp hinn 22. febrúar sl. Þar voru niðurstöður héraðsdóms varðandi brot Sverris Þórs staðfestar.
Við aðalmeðferð máls þessa gáfu skýrslu fyrir dómi ákærðu Egill Ragnars Guðjohnsen, Geir Hlöðver Ericsson og Sigurður Guðmundsson og vitnin Sigurður Ólafsson, Hannes Ívarsson, Sverrir Þór Gunnarsson, Jón Þorbjörn Hilmarsson, Árni Tómasson og Eymundur Sveinn Einarsson.
I. Ákæra á hendur Agli Ragnars Guðjohnsen og Geir Hlöðver Ericssyni fyrir fíkniefnabrot.
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen gaf skýrslu nokkrum sinnum við rannsókn þessa máls. Hinn 10. október 1999, í skýrslutöku hjá lögreglu í kjölfar handtöku hans, neitaði hann allri vitneskju um þau atriði sem þetta mál varðar. Í þinghaldi vegna gæsluvarðhaldskröfu á hendur honum hinn 11. október 1999 kvaðst ákærði hafa keypt fíkniefni af Sverri Þór Gunnarssyni. Kvaðst hann hafa byrjað að kaupa af Sverri um vorið 1998 og verið í viðskiptum við hann nokkuð samfellt þar til um 10. ágúst 1999. Hann kvaðst hafa keypt allt frá 2 g upp í 15 til 20 g í hvert skipti, samanlagt magn kvað hann „geta hafa verið” um 100 til 150 g. Einnig greindi ákærði frá því að hann hefði selt Sverri Þór Gunnarssyni 30% í Rimax ehf. fyrir 3 milljónir króna. Hann hefði fengið 2 milljónir króna greiddar í peningum en hefði skuldað Sverri Þór um það bil 600.000 krónur vegna fíkniefnaviðskipta og afganginn hefði hann í framhaldinu fengið greiddan í fíkniefnum. Ákærði breytti síðar framburði sínum og kvaðst í skýrslu hjá lögreglu hinn 14. október hafa keypt af Sverrir Þór um það bil 50 til 100 g af kókaíni. Þar hélt ákærði sig við fyrri framburð sinn um skuld við Sverrir Þór vegna kókaínviðskipta en sagði jafnframt að Sverrir Þór hefði aldrei afhent sér kókaín fyrir alla þá peninga sem hann hefði átt inni hjá honum (þ.e. 400.000 krónur). Í skýrslu hjá lögreglu 19. október 1999, sem hann staðfesti fyrir dómi sama dag, kvaðst ákærði hafa keypt um 80 til 100 g af kókaíni af Sverri Þór og hélt fast við fyrri framburð um skuld við Sverri Þór í tengslum við uppgjör vegna kaupa hans á 30% hlut í Rimax. Einnig kom fram að ákærði hefði ekki fengið næstum alla greiðsluna sem Sverrir Þór hefði átt að inna af hendi með kókaíni, einungis um fjórðung eða þriðjung. Við þingfestingu máls þessa neitaði ákærði sök varðandi þennan ákærulið.
Við aðalmeðferð máls þessa kvaðst ákærði hafa keypt um 27 g af kókaíni af Sverri Þór Gunnarssyni. Hann kvaðst telja að þessi viðskipti þeirra hefðu hafist síðla sumars eða um haustið 1998. Þau hefðu yfirleitt farið þannig fram að hann hefði hringt í Sverri og mælt sér mót við hann og fengið kókaín. Yfirleitt sagðist ákærði hafa fengið fíkniefnin afhent í húsakynnum sem Sverrir Þór hefði verið að gera upp, einhvern tíma í Sólheimum og á Grettisgötu. Einnig hefði hann tvisvar farið á bílastæðið við ísbúðina við Rauðalæk og fengið afhent þar efni hjá öðrum mönnum - kunningjum Sverris Þórs- fyrir milligöngu hans. Þetta hefðu yfirleitt verið 1 til 2 g í hvert skipti en einu sinni 8 g. Um mismunandi framburð sinn varðandi magnið sem hann hefði keypt og neytt kvaðst ákærði ekki hafa skýringar á því aðrar en að þar hefði „einhver ruglingur átt sér stað”. Honum hefði gefist tækifæri á þeim mánuðum sem liðnir væru til að fara gaumgæfilega yfir þetta og það sem hann héldi fram núna væri rétt. Framburð sinn fyrir dómi vegna gæsluvarðhaldskröfunnar 11. október 1999 skýrði ákærði svo að hann hefði verið að reyna að losna við gæsluvarðhaldið, hann hefði haft miklar áhyggjur af fjölskyldu sinni og hefði í raun ekki verið að hugsa rökrétt. Ákærði breytti einnig framburði sínum varðandi þá fjárhæð sem hann hefði skuldað Sverri Þór vegna kókaíns og kvaðst hafa skuldað honum um 100.000 til 140.000 krónur sem safnast hefði upp. Hann hefði aldrei átt að fá greitt frá Sverri Þór með kókaíni.
Ákærði kvaðst hafa keypt grammið af kókaíni á mismunandi verði. Oftast á 12.000 krónur, en þó hefði komið fyrir að hann hefði greitt fyrir það 10.000, 15.000 eða 17.000 krónur. Það hefði einnig komið fyrir að hann og kunningi hans, vitnið Sigurður Ólafsson, hefðu slegið saman fyrir kókaíni. Minnti ákærða að það hefði verið í þrjú skipti. Hann hefði séð um þau viðskipti við Sverri og séð um greiðslu fyrir þá báða. „Oftast” hefði Sigurður verið búinn að borga sér áður en hann hefði farið og náð í efnið. Ákærði vildi ekki kannast við að hafa selt Sigurði Ólafssyni kókaín, heldur hefðu þeir staðið saman að þessum innkaupum. Ákærði kvaðst telja að hann og Sigurður hefðu keypt saman samtals um 18 g. Ákærði kvað sér ekki hafa verið kunnugt um kaup meðákærða Geirs Hlöðvers Ericssonar á fíkniefnum af Sverri Þór en kvaðst hafa haft grun um þau.
Ákærði kvaðst í raun ekki hafa kynnst Sverri Þór fyrr en hann hefði farið að kaupa af honum kókaín. Hann hefði verið „í stólnum” hjá sér í nokkur ár og einhvern tíma á árinu 1998 hefði annar sjúklingur sagt sér að Sverrir Þór væri í neyslu. Síðan hefði liðið nokkur tími þangað til hann hefði grennslast fyrir um það hvort Sverrir gæti útvegað honum kókaín. Hann hefði vitað að Sverrir væri neytandi en ekki að hann væri seljandi. Hann hefði því beðið Sverri um að útvega sér efni. Fram kom hjá ákærða að honum hefði verið sagt að kókaín hefði mótvirkandi áhrif á áfengi, en honum hefði hætt við að drekka ótæpilega og fá svokallað „blackout” af áfengisneyslu.
Á meðan á yfirheyrslu yfir ákærða stóð fyrir dóminum voru spiluð fyrir hann fjölmörg símtöl á milli hans og Sverris Þórs. Í símtali frá 16. júní 1999 spurði ákærði Sverri Þór hvernig hafi verið „úti”. Ákærði mundi ekki eftir þessu en neitaði því að þetta stæði í nokkru sambandi við fíkniefni. Orðaskipti á milli þeirra í lok símtals frá 21. júní s.á., þar sem ákærði segir að „þetta líti miklu betur út en hitt”, skýrði ákærði þannig að þarna hefðu þeir verið að ræða um kókaín sem hefði verið betra en það sem hann hefði áður fengið hjá Sverri Þór og hann hefði ætlað að skipta hinu eldra fyrir þetta nýja. Símtal frá 22. júní s.á. skýrði ákærði á sama veg. Annað símtal seinna sama dag kvað ákærði einnig snúast um kókaín. Einnig barst þar í tal gjöf frá Sverri Þór til ákærða, sem ákærði kvað hafa verið tölvuvog sem hann hefði einu sinni notað til að vigta kókaín. Hann kvaðst hafa fleygt voginni í sjóinn, þetta hefði ekki verið dýr gripur og í raun gjöf gefin í hálfgerðu gríni. Í símtali frá 13. júlí s.á. segir ákærði við Sverri Þór að þeir skuli „tala undir rós” framvegis. Ákærði gat ekki gefið skýringu á þessu en taldi ekki að þeir hefðu verið hræddir um að síminn væri hleraður. Í símtali frá 21. ágúst s.á. ræða ákærði og Sverrir Þór m.a. um fíkniefnaneyslu ákærða og Sigurðar Ólafssonar kunningja hans.
Vitnið Sigurður Ólafsson bar fyrir dóminum að hann hefði neytt fíkniefna ásamt ákærða Agli Ragnars Guðjohnsen sumarið 1999. Vitnið sagði að þeir ákærði Egill væru kunningjar, hefðu oftast hist í veiðitúrum og farið saman út að skemmta sér nokkrum sinnum sumarið 1999. Þeir hefðu neytt kókaínsins á tímabilinu maí til ágúst það ár. Hann hefði ekki verið í fíkniefnaneyslu áður en þetta hefði byrjað nema eitthvað mörgum árum áður. Um vorið hefðu þeir verið úti að skemmta sér og talað um að spennandi væri að prófa slík efni. Þá hefði komið til tals að ákærði Egill gæti útvegað kókaín. Þetta hefði líklega verið í þrjú til fjögur skipti og heildarmagnið um 20 g sem þeir ákærði hefðu keypt saman. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða Egil annað hvort á tannlæknastofu hans eða á sínum vinnustað til að fá efnið en þeir hefðu ekki neytt þess í sameiningu. Þeir hefðu skipt efninu í nokkurn veginn tvo hluta en ekki vigtað það eða mælt á annan hátt. Hann hefði greitt 10.000 til 15.000 krónur fyrir grammið. Þeir hefðu yfirleitt komið sér saman fyrir fram um hversu mikið magn skyldi keypt í hvert skipti og það hefði verið frá einu grammi upp í tíu grömm í eitt skipti. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvaðan efnið hefði komið, það hefði ekki verið rætt og hann ekki spurt um það. Ákærði hefði alltaf haft milligöngu um að útvega efnið. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt Sverri Þór Gunnarsson en hefði séð hann nokkrum sinnum, á stofunni hjá ákærða og í kjötvinnslunni Rimax og einnig á sínum vinnustað. Hann hefði á sínum tíma haldið að Sverrir Þór væri að vinna hjá ákærða sem sendill og hefði tengt veru hans á tannlæknastofunni við það. Varðandi uppgjör milli hans og ákærða vegna kaupa á kókaíni sagði vitnið að það hefði yfirleitt farið fram eftir á. Hann hefði litið svo á að þetta væru sameiginleg innkaup hjá sér og ákærða Agli.
Skýrsla sú sem vitnið gaf hjá lögreglu við yfirheyrslu hinn 18. október 1999 var borin undir hann fyrir dóminum. Hann var beðinn um skýringar á mismunandi framburði hvað magn kókaínsins varðaði. Við yfirheyrsluna hjá lögreglu hafði vitnið sagst hafa fengið um 30 g hjá ákærða Agli en fyrir dóminum sagði hann að um 20 g hefði verið að ræða hjá þeim sameiginlega. Vitnið kvaðst halda sig við framburð sinn fyrir dóminum um 20 g sem hefðu skipst nokkurn veginn jafnt á milli þeirra ákærða Egils. Vitnið kvaðst hafa verið í ójafnvægi við yfirheyrsluna hjá lögreglu. Þeir hefðu einungis gert þetta í þrjú til fjögur skipti og þar af leiðandi væri minna magnið mun líklegra.
Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson kannaðist við að hafa selt ákærða Agli kókaín. Hann kvaðst halda að það hefði verið á árinu 1999. Vitnið kvaðst ekki hafa hugmynd um hvað hann hefði selt ákærða Agli mikið af fíkniefnum. Um magnið sagði hann að það gæti hafa „hlaupið á einhverjum tugum gramma”. Honum hefði verið tjáð í yfirheyrslu að ákærði Egill hefði sagt að það hefðu verið 100 til 150 g. Hann hefði ekkert verið að vefengja það og jánkað því. Það gæti alveg eins verið að hann hefði selt honum það magn eins og hvað annað. Hann hefði ekki haldið neitt sérstakt bókhald. Vitnið kannaðist ekki við að ein milljón af kaupverði hans á hlut í Rimax hefði verið greidd með fíkniefnaskuld ákærða Egils og inneign fyrir frekari úttekt á kókaíni. Vitnið kvaðst telja að ákærði Egill hefði verið í „einhverri” skuld við sig en ekki væri víst að sú skuld hefði öll verið til komin vegna fíkniefna. Ekki kannaðist hann við að ákærði hefði ætlað að fá meira af fíkniefnum og að það hefði átt að hafa áhrif á greiðsluna.
Sömu samtöl á milli vitnisins og ákærða Egils og höfðu verið spiluð fyrir ákærða Egil voru spiluð fyrir vitnið og hann kannaðist við að í mörgum þeirra hefðu þeir verið að ræða um fíkniefni. Bar skýringum hans saman við skýringar ákærða. Vitnið mundi eftir að hafa einhverju sinni selt ákærða Agli efni sem ekki þótti nógu gott og skipt því þá út fyrir nýtt. Vitnið taldi að þessi viðskipti á milli þeirra hefðu að mestu átt sér stað sumarið 1999. Vitnið kvaðst einnig hafa gefið ákærða Agli hassvindling af og til.
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson játaði fyrir lögreglu og fyrir dómi við aðalmeðferð máls þessa að hann hefði í júlí og ágúst 1999 keypt og móttekið kókaín af Sverri Þór Gunnarssyni, samtals um 5 g. Ákærði mótmælti því að hafa „dreift” efni til vina sinna eins og segir í ákæru. Ákærði sagðist hafa neytt efnisins sjálfur og með vini sínum án þess að hafa þegið greiðslu fyrir, þeir hefðu eingöngu notað þetta saman þegar þeir hefðu verið að skemmta sér. Þetta hefðu líklega verið fimm skipti eitt gramm í einu. Eitt gramm hefði nægt fyrir tvo í eina kvöldstund.
Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson kvaðst fyrir dóminum hafa selt ákærða Geir Hlöðver Ericssyni eitthvert óverulegt magn af kókaíni á tímabilinu júlí til ágúst 1999. Vitnið tók fram að hann myndi ekki nákvæmlega magnið en sagði að ef ákærði Geir hefði sjálfur sagt 5 g gæti það vel verið.
II. Ákæra á hendur Agli Ragnars Guðjohnsen og Geir Hlöðver Ericssyni fyrir peningaþvætti.
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen hefur neitað sök varðandi þennan lið ákæru á hendur honum.
Á dómþingi vegna kröfu um gæsluvarðhald hinn 11. október 1999 kvaðst ákærði Egill hafa selt Sverri Þór Gunnarssyni 30% hlut í kjötvinnslunni Rimax ehf. fyrir þrjár milljónir króna. Þar af hefðu tvær milljónir verið greiddar í peningum og hefði hann sett þá peninga inn í fyrirtækið sem lán. Þá hefði hann skuldað Sverri Þór u.þ.b. 600.000 krónur vegna fíkniefnaviðskipta og afganginn hefði hann í framhaldinu fengið greiddann í fíkniefnum. Framburður hans varðandi þetta atriði var svipaður í seinni yfirheyrslum við rannsókn málsins sbr. það sem fram kom um skýrslu ákærða varðandi lið I í ákæru.
Við aðalmeðferð máls þessa sagði ákærði Egill þannig frá að hann og meðákærði Geir hefðu stofnað kjötvinnsluna Rimax um mánaðamótin janúar-febrúar 1999. Reksturinn hefði verið erfiður í upphafi, peningar af skornum skammti og þeir hefðu rætt saman um að fá einhvern annan í reksturinn með sér. Þeir hefðu rætt við nokkra aðila varðandi þetta, en það hefði ekki gengið eftir. Í maí 1999 hefði hann hitt Sverri Þór nokkrum sinnum og hann hefði sagt sér að hann hefði þénað svolítið á fasteignaviðskiptum og væri að selja íbúð sem hann ætti á Grettisgötu. Ákærði sagði að upp úr þessum samtölum hefði kviknað hjá sér áhugi á að selja Sverri Þór 30% í fyrirtækinu. Hann hefði rætt þetta við meðákærða Geir og hefði orðið úr að þeir hefðu selt hvor sín 15%. Hann hefði haft munnlegt umboð frá meðákærða Geir til að selja þennan hlut hans. Þeir hefðu jafnframt tekið þá ákvörðun að lána félaginu peningana aftur þar sem salan hefði eingöngu verið gerð vegna þess að félagið hefði verið fjárþurfi - þetta hefði verið ungt félag í rekstri. Sverrir hefði greitt tvær og hálfa milljón króna fyrir þessi 30%. Ákærði kvaðst hafa skuldað Sverri Þór rúmar 100.000 krónur. vegna fíkniefnakaupa og það hefði átt að dragast frá sínum hlut í kaupverðinu. Eftirstöðvarnar hefði átt að draga frá launum Sverris Þórs þegar þar að kæmi þegar fyrirtækið væri orðið sterkara. Ákærði skýrði ósamræmi á milli framburðar síns í upphafi rannsóknar málsins og fyrir dóminum þannig, að hann og meðákærði Geir hefðu aðeins lagt inn tvær milljónir króna og við yfirheyrslur hefði hann verið búinn að „týna” eða gleyma hálfri milljón króna sem Geir hefði fengið. Hann hefði vitað mætavel hvað hann hefði skuldað Sverri fyrir kókaín og afganginn hefði átt að draga frá launum Sverris, ekki taka hann út í kókaíni eins og hann hefði áður sagt. Hann hefði ekki munað rétt eftir atvikum en hið rétta hefði komið í ljós síðar og hann væri að skýra rétt frá nú. Ákærði benti á að um greinilega hugsanavillu væri að ræða þar sem hann hefði átt að fá tvær milljónir króna fyrir sín 15% en meðákærði Geir aðeins eina milljón króna fyrir sinn hlut ef fyrri framburður hans hefði verið réttur. Borið var þá undir ákærða símtal á milli hans og meðákærða Geirs frá 8. september 1999 þar sem Geir talar m.a. um að hann sé viss um að það vanti peninga inn í fyrirtækið, talar m.a. um að ákærði „[liggi] með milljón í vasanum”. Ákærði sagði þann misskilning stafa af því að millifærsla á 500.000 krónum af stofnfé, sem Landsbankinn hefði átt að millifæra frá sér og yfir á Rimax, hefði aldrei átt sér stað það hefði verið rannsakað heilmikið í bankanum og komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að um mistök hefði verið að ræða sem stafað hefðu af því að Rimax hefði ekki verið komið með kennitölu. Hefðu verið lögð fram í málinu gögn frá Landsbankanum sem styddu þetta. Þetta væri sú hálfa milljón sem hefði vantað. Þegar Geir sé að tala um milljón í símtalinu sé það einhver vitleysa.
Ákærði sagði að aldrei hefði verið gerður skriflegur samningur um kaup Sverris Þórs á 30% hlut í Rimax, það hefði átt að gera um haustið. Samningsuppkast sem hefði fundist á tannlæknastofu hans hefði verið frá því í apríl þegar samningaumleitanir hefðu farið fram við annan aðila um kaup á hlut í fyrirtækinu. Í því skjali væri enginn tilgreindur sem kaupandi. Ákærði kvað það ekki vera rétt sem hann hefði áður sagt að Sverrir hefði komið á tannlæknastofu hans þar sem þeir hefðu undirritað þennan samning en Sverrir ekki viljað eiga samninginn og honum hefði því verið hent í ruslið þar á staðnum. Ákærði kvaðst aðeins hafa sýnt Sverri samningsuppkastið til að staðfesta það sem þeir hefðu verið að spá í um kaupverðið á 30% hlut. Síðan hefði átt að gera kaupsamning á svipuðum nótum. Hann hefði samt sem áður talið að þar með væri kominn á bindandi samningur við Sverri. Sverrir hefði afhent tvær og hálfa milljón króna í peningum sem sinn hlut af þessum samningi. Sú greiðsla hefði verið í seðlum. Sverrir hefði komið með þá í þremur umslögum merktum Landsbankanum. Ákærði kvaðst hafa fengið eina milljón króna og meðákærði Geir eina og hálfa milljón króna. Meðákærði Geir hefði lagt inn eina milljón króna en haldið eftir 500.000 krónum til eigin nota því eigendur fyrirtækisins hefðu allir verið á lágmarkslaunum. Ákærði kvaðst hafa skuldað Sverri Þór 100.000 til 140.000 krónur fyrir fíkniefnum og hefði átt að fá afganginn af sínum hlut (1,5 milljón króna) þegar betur væri farið að ganga hjá fyrirtækinu. Ákærði kvaðst ekki hafa hugsað sérstaklega út í hvort það væri óeðlilegt að fá þessa greiðslu í reiðufé. Svona væri ekki borgað með greiðslukorti og hann hefði ekki vitað til að Sverrir væri með ávísanahefti, sennilega þar sem hann hefði ekki skrifað sérlega vel. Það hefði ekki komið til tals hvaðan þessir peningar væru komnir en ákærði kvaðst hafa vitað mæta vel að Sverrir hefði verið búinn að kaupa gamalt húsnæði og gera upp á a.m.k. þremur stöðum í borginni auk þess sem hann hefði verið búinn að selja íbúð sem hann hefði átt á Grettisgötu, eins og áður var komið fram. Sverrir hefði sagt sér að hann hefði grætt töluvert á þessum viðskiptum. Þannig hefði hugmynd sín kviknað um að bjóða Sverri Þór hlut í fyrirtækinu. Ákærði sagði að ekki hefði hvarflað að sér að peningar þessir væru komnir úr fíkniefnaviðskiptum í maí 1999 þá hefði hann aldrei selt honum þennan hlut. Ákærði neitaði að hafa vitað um kaup Sverris Þórs á húsnæði í Sporðagrunni um vorið 1999, kvaðst halda að það hefði verið seinnipart sumarsins. Spilaður var hluti af samtali á milli Sverris og ákærða frá 22. júní 1999, þar sem ákærði talaði um að hitta Sverri í Sporðagrunni. Ákærði kannaðist við að þarna hefði hann vitað að Sverrir Þór ætti þessa eign að Sporðagrunni.
Ákærði Egill var síðan spurður út í ódagsettan reikning, útgefinn af Sverri Þór Gunnarssyni, að fjárhæð 1.743.000 krónur, fyrir vinnu hjá Rimax ehf. frá 1. maí til 25. ágúst 1999. Ákærði Egill kvað þetta vera skuldaviðurkenningu sem Sverri Þór hefði vantað til að geta fengið lánafyrirgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði. Skýringin væri sú að Sverrir hefði þurft að geta sýnt fram á tekjur til að fá greiðslumat vegna fasteignakaupa. Sverrir hefði á þessum tíma átt inni töluverðar fjárhæðir hjá Rimax. Egill var inntur eftir því hvort honum hefði ekki fundist þetta skrýtið úr því Sverrir Þór hefði haft svona mikil fjárráð. Egill kvaðst ekki hafa hugsað út í það, hann hefði vitað af eigin raun hversu erfitt gæti verið að fá lánaafgreiðslu. Hann hefði ekkert vitað um hagi Sverris Þórs hann hefði beðið sig um þetta og hann ekki séð neitt að því.
Aðspurður hvort hann hefði talið að menntun og reynsla Sverris nýttist vel í starfi hans fyrir Rimax kvað ákærði Sverri hafa farið í útkeyrslu fyrir Rimax fyrst í stað. Síðan hefði hann farið að skrifa út reikninga. Eftir tvær til þrjár vikur hefði verið haldinn starfsmannafundur og Sverrir kynntur sem skrifstofustjóri fyrirtækisins. Ákærði kvað Sverri Þór hafa staðið sig vel í starfi. Hann hefði verið sá eini sem hefði eitthvað kunnað á tölvuna í fyrirtækinu.
Í þinghaldinu var borið undir ákærða símtal á milli hans og Sverris Þórs frá 28. júní 1999 þar sem ákærði talar um að „Geiri “ hafi verið að segja við sig að Sverrir Þór þyrfti að fara varlega. Í símtalinu segir ákærði jafnframt að kunningi hans í „löggunni” hafi verið að spyrja um Sverri Þór. Sverrir Þór spyr í samtalinu hver þetta hafi verið og ákærði segir að hann heiti Þorgeir og sé í RLR. Ákærði spyr einnig í símtalinu: „Er eitthvað verið að fylgjast með þér ennþá?” og Sverrir Þór svarar: „Eflaust eitthvað”. „Já, það hlýtur að vera” segir ákærði. Ákærði sagðist hafa verið að búa þetta til, hann þekkti engan Þorgeir hjá RLR, enda væri sú stofnun ekki til lengur. Hann hefði orðið var við einhverja neyslu hjá þeim í Rimax og hefði ekki líkað það. Hann hefði bara verið að hræða þá úr neyslunni láta þá haga sér eins og menn.
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson hefur neitað sök hvað varðar þennan lið ákærunnar.
Ákærði bar við yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 12. október 1999 að hann hefði stofnað einkahlutafélagið Rimax ehf. ásamt meðákærða Agli. Ákærði kvaðst hafa verið gjaldþrota og þess vegna hefði verið ákveðið að eignaraðild hans kæmi hvergi fram. Í þeirri yfirheyrslu sagði hann jafnframt að þeir meðákærði Egill hefðu rætt um að Sverrir Þór Gunnarsson keypti 30% hlut í fyrirtækinu og myndi greiða fyrir það tvær milljónir króna. Hann hefði hins vegar aldrei séð þá peninga eða vitað af þeim. Í sömu yfirheyrslu kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa grunað að peningar Sverris Þórs hefðu komið úr fíkniefnaviðskiptum. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að þeir meðákærði Egill hefðu rætt þann möguleika fyrr en eftir að Sverrir Þór hafði verið handtekinn. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 21. október 1999 breytti ákærði framburði sínum varðandi kaup Sverris Þórs á 30% hlut í Rimax ehf. Þá bar hann að kvittun fyrir því að lögð hefði verið inn ein milljón króna á tékkareikning Rimax ehf. í Landsbankanum Álfabakka 5. maí 1999, með nafni konu sinnar, væri innborgunarseðill sem meðákærði Egill hefði fyllt út en ákærði kvaðst hafa lagt þetta inn. Nafn konu hans væri á seðlinum til að sýna að greiðslan væri frá honum komin. Ákærði kvað meðákærða Egil hafa látið sig hafa þessa peninga á tannlæknastofu sinni, „væntanlega í reiðufé”. Meðákærði hefði sagt sér að þetta væri greiðsla fyrir þeim hluta sem Sverrir Þór hefði verið að kaupa af ákærða, þ.e. 15% í Rimax ehf.
Ákærði Geir Hlöðver kvaðst, fyrir dómi við aðalmeðferð máls þessa aðspurður, hafa fengið óljósan grun um fíkniefnaneyslu meðákærða Egils á tímabilinu júlí, ágúst 1999. Hann hefði ekkert velt sérstaklega fyrir sér um hvaða efni væri að ræða en grunað að það væri kókaín. Hann hefði ekki vitað hvar hann hefði fengið efnin.
Ákærði sagði að meðákærði Egill hefði nefnt það við sig að ákveðinn aðili hefði áhuga á að kaupa 30% í fyrirtækinu, þ.e. 15% af hvorum þeirra. Meðákærði Egill hefði jafnframt sagt að þessi maður héti Sverrir og væri ágætis drengur og kvaðst ákærði hafa samþykkt þessi viðskipti. Ákærði sagðist engin samskipti hafa átt við Sverri sjálfur, hann hefði eingöngu samþykkt söluna til hans. Hann hefði fengið greitt fyrir eina milljón í reiðufé í umslagi frá Landsbankanum. Hann hefði sótt peningana á tannlæknastofu meðákærða Egils í Álfabakka og lagt peningana strax inn hjá Landsbankanum Álfabakka, á tékkareikning félagsins, en innleggsmiðinn væri merktur með nafni eiginkonu sinnar. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að sérstaklega hefði verið rætt um að þetta væri fullnaðargreiðsla, en hann hefði verið farinn að líta svo á og á sínum tíma hefði verið rætt um að þessi 30% hlutur yrði seldur á tvær milljónir. Þetta mál hefði í raun aldrei verið klárað að öllu leyti eins og símtalið á milli þeirra meðákærða bæri með sér. Þar var ákærði að vísa til símtals þeirra Egils frá 8. september 1999 sem áður hafði verið spilað í réttinum. Þar segir ákærði m.a. við meðákærða Egil: „...þú ert ekki búinn að leggja fram eina krónu og liggur með milljón í vasanum.” Ákærði sagðist ekki hafa verið alveg sáttur við fjármál fyrirtækisins eins og símtalið bæri með sér. Hann væri aftur á móti ekki sleipur í bókhaldi og hefði aldrei verið Hann hefði ekki séð um fjármálahliðina þarna, það hefði meðákærði Egill gert. Ákærði sagði að sér hefði fundist eitthvað vanta upp á til að hlutirnir gengju upp, en gat ekki skýrt nánar hvað hann meinti með þessum orðum. Hann væri ekki að vísa á neina ákveðna milljón í samtalinu, honum hefði einungis fundist að vantaði inn í hlutaféð og hann hefði litið svo á að þeir peningar sem komu fyrir söluna á hlutnum í fyrirtækinu ættu að renna beint inn í reksturinn. Hann hefði einungis tekið svona til orða. Ákærði neitaði því að hann hefði nokkurn tíma fengið meira en eina milljón króna fyrir sinn hlut í Rimax.
Aðspurður hvort hann hefði einhvern tíma spurt meðákærða Egil að því hvaðan Sverri Þór kæmi fé til að kaupa hlutinn í fyrirtækinu kvaðst ákærði Geir hafa heyrt frá meðákærða um þennan aðila sem hefði grætt „einhverjar” fjárhæðir á fasteignaviðskiptum og hefði áhuga á að koma inn í reksturinn. Ákærði sagði að sér hefði ekki fundist tvær milljónir svo há fjárhæð og hefði hann ekkert spáð í þetta meira. Hann kvaðst hafa velt fyrir sér í upphafi hvaða störfum Sverrir Þór ætti að gegna innan fyrirtækisins. Hann hefði verið titlaður skrifstofustjóri en hefði í raun keyrt út og síðan farið að skrifa út reikninga. Hann hefði staðið sig vel í vinnu og verið samviskusamur. Ákærði sagði einnig að ekki hefði verið mikil yfirbygging á fyrirtækinu, menn hefðu gengið í þau störf sem þurfti þannig að titillinn skrifstofustjóri hefði ekki sagt svo mikið. Ákærði kvaðst muna eftir fundi sem Egill hefði séð um þar sem starfsmönnum hefði verið tilkynnt að Sverrir Þór væri orðinn hluthafi í fyrirtækinu. Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta hefði verið, sennilega þó í ágúst.
Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa nokkurn tíma talað um það við meðákærða Egil að Sverrir Þór þyrfti að fara varlega, eins og komið hafði fram í samtali frá 28. júní 1999 á milli meðákærða Egils og Sverris Þórs, sem áður var vitnað til. Ákærði sagðist oft taka þannig til orða við fólk að það skyldi fara varlega. Aðspurður hvort hann hefði haft á tilfinningunni að vera Sverris Þórs í fyrirtækinu gæti komið óorði á það kvaðst ákærði aldrei hafa séð Sverri Þór áður en hann byrjaði að vinna hjá þeim og ekki hafa þekkt hann þegar hann hefði selt honum hlutinn. Í ágúst hefði Sverrir Þór verið búinn að vinna í fyrirtækinu í tvo - þrjá mánuði og þá hefði hann að sjálfsögðu verið farinn að þekkja hann. Þá kvaðst ákærði hafa verið farinn að hugsa ákveðna hluti, einkum í ljósi atviks sem hent hefði hann um verslunarmannahelgina þetta sumar. Þá hefði hann fengið lánaðan bíl Sverris Þórs, sem þá hefði staðið á bílasölu, en Sverrir Þór verið í útlöndum. Ákærði kvaðst hafa verið stöðvaður af lögreglunni uppi á Höfða og í framhaldi af því hefði komið ómerktur bíll frá fíkniefnalögreglu og leitað í bílnum. Hann hefði sagt að þeim væri frjálst að leita, hann væri með bílinn í láni, en þeir hefðu ekki leitað á sér og ekki gefið neinar skýringar á leitinni. Þetta hefði stuðað sig á þessum tíma. Að öðru leyti kvaðst ákærði hafa verið ánægður með Sverri Þór í vinnu og kvaðst jafnframt hafa kunnað mjög vel við hann. Síðar í ágústmánuði hefði hann farið að kaupa fíkniefni af Sverri Þór, en hann hefði haft grun um að hann gæti útvegað slíkt eftir leitina í bílnum. Engar aðrar ástæður hefðu verið fyrir því að hann hefði beðið hann um að útvega sér efnin, hvorki ábendingar né umtal um Sverri Þór.
Ákærði Geir kvað rekstur Rimax ehf. hafa verið erfiðan í byrjun vegna fjárskorts en hann hefði alltaf verið að lagast. Hann hefði haft miklar væntingar til rekstursins um að hann myndi ganga vel. Þetta hefði átt að verða sitt framtíðarstarf. Fyrirtækið hefði nú hætt rekstri og væri undir gjaldþrotaskiptum. Aðgerðir lögreglu í kjölfar handtöku Sverris Þórs hefðu kippt fótunum undan fyrirtækinu. Ákærði kvaðst hafa verið atvinnulaus fram í janúar 2000 en starfa nú sem sölumaður í kjötvinnslu. Hann hefði farið í fíkniefnameðferð í nóvember 1999 og hefði ekki neytt fíkniefna síðan.
Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson kannaðist við fyrir dóminum að hafa verið dæmdur fyrir umtalsverðan innflutning og sölu og dreifingu fíkniefna og að hafa haft einhverjar tekjur af fíkniefnaviðskiptum. Vitnið kvaðst hafa keypt 30% hlut í Rimax ehf. í byrjun maí 1999. Hann kvaðst ekki muna hvernig sú greiðsla hefði verið sem hann hefði innt af hendi og ekki nákvæmlega hversu há hún hefði verið einhvers staðar á bilinu tvær til þrjár milljónir. Vitnið minnti að greitt hefði verið fyrir með reiðufé. Einhver skuld ákærða Egils hefði verið inni í kaupunum en ekki endilega allt vegna fíkniefna. Vitnið kvaðst ekki muna til að ákærði Egill hefði átt að fá meira af fíkniefnum upp í greiðslu fyrir hlutinn í fyrirtækinu. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaðan þeir peningar sem hann greiddi við þetta tækifæri hefðu verið komnir. Hann hefði haft einhverjar tekjur vegna fíkniefnaviðskipta en einnig vegna fasteignaviðskipta og fleira. Hann hefði ekki haldið sérstakt bókhald til að halda peningum fyrir fíkniefni aðskildum frá öðrum peningum. Vitnið rámaði í að hafa sagt við ákærða Egil að hann vildi hætta í fíkniefnaviðskiptum og komast í löglega vinnu. Hann kvaðst samt ekki muna greinilega eftir þessu, en þetta hafði vitnið borið við skýrslutöku hjá lögreglu hinn 9. október 1999. Vitnið kvaðst einnig muna óljóst eftir að hafa fengið staðfestingu á því hjá ákærða Agli að hafa fengið greiddar 1,7 milljónir króna í laun frá maí fram í ágúst 1999. Vitnið minnti að það hefði verið út af lántöku hans hjá Íbúðalánasjóði, en hann hefði þurft að sýna fram á tekjur til að fá lán. Vitnið kvaðst hafa verið búinn að vinna hjá Rimax í nokkra mánuði þegar hann hefði fengið þessa staðfestingu um laun. Vitnið minntist þess ekki að ákærða Agli hefði komið á óvart að vitnið væri þrátt fyrir þetta með svo mikla peninga handbæra. Hann hefði ekki spurt sig út í þetta.
Spilað var fyrir vitnið samtal á milli hans og ákærða Egils, frá 13. júlí 1999, þar sem vitnið talar um „hina vinnuna á kvöldin”. Borið var undir vitnið hvort þarna hefði hann verið að tala um fíkniefnaviðskipti sín, eins og hann bar hjá lögreglu hinn 9. október 1999, og taldi vitnið að það gæti verið. Vitnið var einnig spurt út í ummæli í sama símtali þar sem ákærði Egill segir að þeir skuli héðan í frá tala saman „undir rós”. Vitnið var spurt í þessu sambandi hvort hann hefði haft ástæðu til að ætla að þessi ummæli vörðuðu fíkniefnaviðskipti hans. Vitnið kvaðst „auðvitað” hafa haft ástæðu til þess þar sem hann hefði verið „á fullu í fíkniefnabraski á þessum tíma.”
Vitnið kvaðst ekki hafa gert ákærða Agli á neinn hátt grein fyrir því að peningarnir sem hann hefði látið ákærða hafa væru afrakstur fíkniefnasölu. Hann hefði ekki spurt sig hvaðan þeir væru komnir. Aðspurður hvort ákærði Geir hefði spurt sig að hinu sama kvaðst vitnið aldrei hafa átt þessi viðskipti við ákærða Geir Hlöðver. Hann hefði ekki einu sinni vitað að hann væri að kaupa hlut í Rimax af ákærða Geir. Hann hefði talið sig vera að eiga viðskipti við ákærða Egil eingöngu. Vitnið kannaðist við símtal á milli hans og ákærða Egils þar sem sá síðarnefndi talaði um að „Geiri” hefði sagt að Sverrir Þór þyrfti að fara varlega og að kunningi ákærða Egils í lögreglunni hefði verið að spyrja um Sverri Þór. Vitnið kvaðst hafa fengið þær skýringar hjá ákærða Agli eftir á að þetta hefði verið eitthvert grín. Hann hefði sennilega verið að hræða sig.
Vitnið Hannes Ívarsson kjötiðnaðarmaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá Rimax ehf. sem verkstjóri. Ákærði Geir Hlöðver hefði ráðið sig og hann hefði starfað hjá fyrirtækinu frá byrjun. Vitnið kvað Sverri Þór Gunnarsson hafa komið til starfa hjá Rimax sem hvern annan starfsmann. Vitnið kvaðst telja að Sverrir Þór hefði komið til starfa um mánaðamótin júní júlí 1999. Sagt hefði verið að Sverrir væri skrifstofustjóri. Hann hefði séð um gerð reikninga og eitthvað verið í útkeyrslu. Seinna, einhvern tíma í ágúst, hefði ákærði Egill tjáð starfsfólkinu að Sverrir væri orðinn eigandi að þriðjungi í fyrirtækinu. Það hefði ákærði Egill gert. Þetta hefði engu breytt um störf Sverris hjá Rimax. Vitnið kvað engar grunsemdir hafa verið í gangi um tengsl Sverris við fíkniefnainnflutning áður en hann hefði verið handtekinn. Vitnið kvaðst aldrei hafa orðið var við neitt sem tengdist fíkniefnum innan fyrirtækisins og að engin neysla hefði verið á meðal starfsmanna.
Þá gáfu skýrslu fyrir dómi sem vitni, endurskoðendurnir Jón Þorbjörn Hilmarsson, Árni Tómasson og Eymundur Sveinn Einarsson. Tveir hinir fyrstnefndu skoðuðu bókhald Rimax ehf. í tengslum við rannsókn lögreglu og staðfestu framlagða skýrslu sína með niðurstöðum þeirrar rannsóknar. Vitnið Jón Þorbjörn kvað tilganginn með rannsókninni hafa verið að kanna í hvers konar ástandi bókhaldið væri. Engin sérstök markmið hefðu verið sett varðandi þessa rannsókn önnur en þau að kanna bókhaldið almennt. Að því er best fengist séð hefðu verið lögmæt fylgiskjöl fyrir öllum færslum frá upphafi árs og fram í lok júní. Engin gögn hefðu verið í bókhaldinu sem hefðu bent til þess að starfsemi fyrirtækisins snerist um annað en að kaupa og selja kjöt. Fram kom einnig í máli Jóns Þorbjörns að launagreiðslur fyrirtækisins hefðu verið færðar inn í bókhaldið með óeðlilegum hætti og fylgiskjöl ekki verið glögg eftir mitt árið 1999. Árni Tómasson nefndi að bókhald fyrirtækisins hefði verið slælega unnið og það farið úr böndum í júlí. Vantað hefði sárlega fylgiskjöl og bókhaldið ekki borið með sér viðskipti með hlutabréf félagsins. Vitnið Eymundur Sveinn kvaðst hafa fært bókhald fyrirtækisins. Peningastreymi hefði verið eðlilegt en hann hefði einungis náð að stemma af bókhald fyrir fyrri hluta ársins en afstemmningu hefði verið ólokið fyrir seinni hluta ársins.
III. Ákæra á hendur Geir Hlöðver Ericssyni fyrir peningaþvætti.
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson játaði við yfirheyrslur og fyrir dóminum að hafa hinn 3. september 1999 keypt tilgreind tæki af Heimilistækjum hf. Hann hefur hins vegar neitað sök varðandi ákæru um peningaþvætti.
Ákærði gerði við aðalmeðferð málsins athugasemd við orðalag í ákæru þar sem segir að hann hafi tekið við tækjunum af Sverri Þór Gunnarssyni. Ákærði kvaðst sjálfur hafa keypt þessi tæki en Sverrir Þór hefði lagt fram ávísun fyrir þeim, þ.e. borgað fyrir þau. Aðspurður hvort honum hefði ekki fundist athugavert að láta Sverri Þór leggja út fyrir tækjunum kvaðst ákærði hafa misst af meðákærða Agli í veiðitúr en hann hefði ætlað að gefa út geymslutékka frá Rimax, sem samið hefði verið um við gjaldkera Heimiltækja að yrðu notaðir við kaupin. Þar sem hann hefði ekki fengið tékkana hjá meðákærða Agli hefði Sverrir Þór lagt út fyrir tækjunum fram yfir helgina, en kaupin hefðu gerst á föstudegi. Sverrir hefði síðan átt að fá greitt til baka hjá Agli eftir helgina með þremur geymslutékkum. Andvirði tækjanna sagði ákærði að hefði átt að ganga upp í kaup sitt hjá Rimax. Aðspurður hvort hann væri búinn að greiða fyrir tækin eða hefði gert einhverja tilraun til þess kvaðst ákærði ekki hafa séð ástæðu til að greiða fyrir tækin þar sem þau hefðu verið tekin af sér, en hald var lagt á tækin af lögreglu hinn 21. október 1999. Sverrir hefði átt að fá þessa geymslutékka sem ákærði hefði verið búinn að semja um við meðákærða Egil, en það hefði greinilega ekki orðið. Ákærði kvaðst ekki hafa haft ástæðu til að vera tortrygginn varðandi þá peninga sem Sverrir Þór lagði þarna til enda hefði hann átt að fá þá til baka aftur. Ákærði kvaðst ekki hafa gert ráð fyrir því að Sverrir væri með meiri laun en hann hjá Rimax en kvaðst ekki hafa hugsað út í það hvort óeðlilegt væri að hann væri betur staddur fjárhagslega en hann og gæti því lánað honum peninga. Ákærði sagði að fyrst hefði verið rætt við gjaldkera Heimilistækja um sex geymslutékka en það hefði ekki verið samþykkt. Þá hefði samist um þrjá geymslutékka sem meðákærði Egill hefði ætlað að láta hann hafa en ekki gert, eins og áður kom fram. Aðspurður af hverju hann hefði leitað til Sverris vegna kaupanna kvaðst ákærði hafa verið að flytja búferlum þennan dag. Sverrir Þór hefði verið með tékkhefti og kvaðst ákærði í sjálfu sér ekki einu sinni hafa vitað hvort innistæða hefði verið fyrir þessari ávísun. Þetta hefði verið á föstudegi og hugsunin hefði verið að endurgreiða þetta eftir helgina. Ákærði sagði að talað hefði verið um að þegar fyrirtækið væri farið að ganga betur yrðu laun hans um 300.000 til 350.000 krónur á mánuði. Hann hefði verið búinn að taka út einhverja peninga en hefði ekki haft nákvæmt yfirlit yfir hversu mikið það hefði verið. Hann hefði talið sig eiga inni laun hjá fyrirtækinu á þeim tíma sem þessi heimilistæki hefðu verið keypt. Hann gæti ekki sagt nákvæmlega hve mikið en örugglega nóg fyrir tækjunum. Hann hefði ekki haft neina ástæðu til að ætla að þeir peningar sem Sverrir Þór hefði lánað þarna væru illa fengnir.
Meðákærði Egill Ragnars Guðjohnsen bar fyrir dóminum að hann teldi að ákærði Geir hefði átt inni laun hjá Rimax í september 1999. Hann kvaðst ekki geta nefnt upphæðina, eitthvað hefði verið búið að taka út og eitthvað staðið eftir. Meðákærði kvaðst hafa séð um fjármál Rimax og hafa verið sá eini sem hefði haft prókúru í fyrirtækinu, en þeir ákærði Geir hefðu tekið allar ákvarðanir sameiginlega. Ákærði Geir hefði verið titlaður framkvæmdarstjóri félagsins og hefðu laun hans átt að verða um 300.000 til 350.000 krónur á mánuði. Meðákærði kvaðst hafa vitað um kaup ákærða Geirs á heimilistækjunum 3. september 1999. Meðákærði kvaðst hafa átt að skrifa sex geymslutékka til Heimilistækja hf., sem hefðu átt að dragast frá launum ákærða Geirs. Síðan hefðu Heimilistæki ekki viljað taka við tékkunum og þá hefði átt að skrifa þrjá tékka í staðinn. Það hefði einhvern veginn ekki gengið eftir og meiri hefðu afskipti sín ekki orðið af því máli. Hann kvaðst hafa skrifað upphaflegu sex tékkana úr tékkhefti Rimax en hefði fengið þá til baka og þeir verið rifnir. Meðákærði kvað þessi tæki hafa verið fyrir ákærða Geir persónulega. Tékkarnir hefðu átt að vera laun til hans sem hefðu átt að skiptast í þessar greiðslur. Kaupin hefðu ekkert komið félaginu við. Meðákærði var spurður hvort hann teldi að ákærði Geir hefði átt inni hjá Rimax laun sem svöruðu til verðmætis tækjanna. Meðákærði svaraði að tékkarnir hefðu verið skrifaðir fram í tímann þannig að ákærði Geir hefði þá örugglega átt að eiga inni laun fyrir þeim þegar hefði átt að innleysa þá.
Borið var undir meðákærða Egil símtal á milli hans og Sverris Þórs Gunnarssonar frá 3. september 1999. Þar segist Sverrir Þór ætla að koma og ná í hina tékkana á eftir en meðákærði segist ekkert verða í bænum. Síðan segir meðákærði Egill: „Ég skrifa þá bara, ég var að fylla þetta út sko. Og þetta verða þá ekkert heimilistæki.” Sverrir Þór spyr: „Nei, hvað er þetta þá?” Meðákærði svarar: „Sko, við erum bara að þvo. Þetta eru bara laun á þig skilurðu frá Rimax, skilurðu, þetta er mjög flott og einfalt.” Meðákærði kvaðst muna vel eftir þessu símtali, það varði kaupin á heimilistækjunum. Hins vegar sé athugasemdin um að þvo sögð úr samhengi í einhverju gríni. Meðákærði neitaði því að þarna væri hann að tala um einhverjar færslur í bókhald Rimax. Þessi orð hefðu enga þýðingu af því þetta hefði aldrei farið fram.
Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson kvaðst muna eftir að hafa greitt fyrir heimilistæki sem ákærði Geir hefði keypt hinn 3. september 1999. Vitnið kvaðst hafa skrifað ávísun úr tékkhefti sínu. Þetta hefði verið lán til ákærða Geirs, sem hefði verið búinn að semja um kaup á einhverjum heimilistækjum og einhvern veginn kvaðst vitnið hafa átt að fá þetta greitt frá Rimax seinna meir. Vitnið kvaðst muna þetta óljóst, en þetta hefðu sennilega átt að vera laun til Geirs frá Rimax. Vitnið minnti að um þetta hefði verið rætt. Vitnið játti því að innistæða hefði verið fyrir ávísuninni.
Borið var undir vitnið símtal það á milli hans og ákærða Egils frá 3. september 1999, sem áður hafði verið spilað fyrir ákærða Egil. Vitnið var spurt hvað ákærði Egill væri að tala um þarna. Vitnið kvaðst ekkert muna eftir þessu. Hann myndi eftir kaupum á heimilistækjunum en vissi ekkert hvað ákærði Egill hefði verið að meina með að „þvo”.
IV. Ákæra á hendur Agli Ragnars Guðjohnsen og Sigurði Guðmundssyni fyrir peningaþvætti.
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen hefur neitað sök varðandi þennan lið ákæru á hendur honum.
Ákærði Egill kvaðst í skýrslu, sem hann gaf fyrir dómi vegna kröfu um gæsluvarðhald hinn 11. október 1999, hafa ætlað að selja Sverri Þór Gunnarssyni afganginn í fyrirtækinu, en af því hefði ekki orðið. Hann hefði þó fengið 4,2 milljónir til viðbótar hjá Sverri Þór, sem hefði átt að vera endanlegt kaupverð fyrirtækisins. Væru þeir peningar geymdir í bankahólfi nr. 227 í Landsbankanum í Mjódd sem væri á sínu nafni. Hann kvað megnið af seðlunum hafa verið vafið inn í sellofanplast. Hann sagði jafnframt meðákærða Geir Hlöðver Ericsson, meðeiganda sinn í fyrirtækinu, hafa vitað af þessum fyrirhuguðu viðskiptum. Ákærða Agli var sýndur óundirritaður kaupsamningur sem fannst á heimili hans við leit hinn 10. október 1999 og kvað hann þann samning vera um þessi viðskipti. Hann sagðist hafa farið með lykilinn að bankahólfinu til meðákærða Sigurðar Guðmundssonar lögmanns og falið honum lykilinn til varðveislu. Meðákærði Sigurður hefði gert fyrir hann uppkast að kaupsamningi við Sverri Þór. Ákærði greindi jafnframt frá því að Sverrir Þór hefði óskað eftir því að komast inn í fyrirtækið og sjálfur hefði hann talið þetta góða leið til að losna úr skuldum gagnvart honum. Ákærði kvaðst vita til þess að Sverrir Þór hefði verið að vinna í því að kaupa og gera upp gamlar íbúðir, en hvorugur þeirra hefði haft neina reynslu af kjötvinnslu. Í yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 14. október 1999 sagði ákærði þannig frá að Sverrir Þór hefði verið orðinn eigandi 30% hlutar í Rimax hf. Félagið hefði verið að kaupa dýra pökkunarvél, sem hefði átt að kosta rúmlega 4,5 milljónir auk virðisaukaskatts. Félagið hefði verið búið að greiða 1,6 milljónir inn á kaupverðið en ekki hefðu verið til peningar til að greiða það sem eftir hefði staðið. Sverrir hefði marg boðist til að greiða eftirstöðvarnar sjálfur gegn því að hann myndi eignast samsvarandi hlut í vélinni. Í lok ágúst hefði Sverrir Þór komið á tannlæknastofuna til sín í greinilegri vímu með 4,2 milljónir króna í reiðufé sem hann hefði sagst vilja nota til að greiða fyrir vélina. Hann hefði ekki viljað samþykkja það vegna ástands Sverris en Sverrir hefði beðið sig um að geyma peningana fram að helgi er hann myndi sækja þá. Ákærði kvaðst hafa samþykkt það og sett peningana í bankahólf sitt. Hann hefði fengið lánaðar 30.000 krónur úr einu búntinu og skilið eftir miða því til staðfestingar. Síðan hefði hann farið í veiðitúra sem hefðu staðið samfleytt í nokkra daga. Daginn eftir að hann kom til baka hefði Sverrir Þór verið handtekinn og hann hefði setið uppi með þessa peninga. Hann hefði þá haft samband við vin sinn Sigurð Guðmundsson lögmann og sagt honum frá vandræðum sínum og beðið hann um ráðleggingar. Hann hefði sagt Sigurði að hann væri að selja Rimax fyrir þessa fjárhæð og þeir hefðu meðal annars rætt hvort hann ætti að eiga frumkvæðið að því að afhenda lögreglunni þessa peninga og skýra frá viðskiptunum við Sverri Þór. Úr hefði orðið að hann semdi annan kaupsamning þar sem ákærði Egill seldi allt félagið fyrir samtals 4,2 milljónir, 1,5 milljón í greiðslu og 2,7 milljónir með því að yfirtaka skuldir félagsins við sig. Hann hefði beðið meðákærða Sigurð um að geyma kaupsamninginn á skrifstofu sinni ásamt lyklinum að bankahólfinu þar sem peningarnir væru geymdir. Meðákærði Sigurður hefði hins vegar stungið upp á því að ákærði geymdi kaupsamninginn heima hjá sér þannig að lögreglan myndi finna hann ef gerð yrði leit á heimili hans og það hefði allt gengið eftir. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað eða grunað að peningarnir sem Sverrir hefði greitt inn í félagið við inngöngu hans hefðu verið afrakstur fíkniefnaviðskipta. Aftur á móti hefði sér ekki litist á blikuna þegar hann hefði komið með 4,2 milljónir króna í reiðufé og hefði grunað að þeir peningar væru ekki vel fengnir.
Í skýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð þessa máls sagði ákærði Egill svo frá að hann hefði verið búinn að festa kaup á kjötpökkunarvél hjá fyrirtækinu Plastco vegna Rimax. Í júní hefði verið búið að borga 1.600.000 krónur inn á kaupin. Staðið hefðu yfir samningaumleitanir við Landsbankann um fjármögnun á vélinni. Hinn 31. ágúst hefði Sverrir Þór Gunnarsson komið á tannlæknastofuna til sín með 4.150.000 krónur í reiðufé, sett peningana á borðið og sagt að hann gæti borgað vélina með þessu. Ákærði sagði að Sverrir Þór hefði verið í annarlegu ástandi, hlegið mikið og eflaust verið undir áhrifum fíkniefna. Ákærði kvaðst hafa neitað því að vélin yrði borguð með þessum peningum því að búið væri að útvega fjármagn, en Sverrir Þór hefði engu að síður farið og skilið peningana eftir. Ákærði kvaðst hafa farið með peningana í bankahólfið sama dag án þess að telja þá. Hann hefði tekið 30.000 krónur að láni og sett athugasemd um það á miða sem hann hefði sett í hólfið ásamt peningunum. Ákærði kvaðst ítrekað hafa reynt að fá Sverri Þór til að koma og sækja peningana, en það hefði ekki tekist. Fyrst hefði hann lofað að koma en ekki staðið við það. Síðan kvaðst ákærði hafa farið í veiðiferð 3. september og komið aftur í bæinn að kvöldi miðvikudagsins 8. september. Hann hefði ítrekað reynt að ná í Sverri Þór, fyrst morguninn eftir og á föstudeginum, en hann hefði ekki verið í vinnunni og slökkt hefði verið á gsm-síma hans. Sverrir Þór hefði verið handtekinn föstudagskvöldið 10. september og kvaðst ákærði hafa frétt af handtökunni morguninn eftir og að húsleit hefði verið gerð hjá Rimax þá um nóttina. Ákærði sagði að fréttaflutningur af málinu í fjölmiðlum hefði ekki farið fram hjá sér.
Ákærði kvaðst hafa farið að hugsa um hvað ætti að gera við peningana eftir að hann frétti af handtökunni. Hann kvaðst hafa hugsað um hvort koma ætti þeim til lögreglu. Ákærði sagði að sig hefði ekki grunað að þessir peningar væru vegna stórfelldra fíkniefnabrota Sverris þegar hann hefði komið með þá til sín. Hann hefði þá ekki einu sinni vitað að hann hefði verið að flytja inn fíkniefni. Hann hefði litið á Sverri sem mann sem gæti útvegað þessi efni í gegnum aðra. Engin tengsl hefðu verið á milli þess að Sverrir hefði getað útvegað fíkniefni og þess að hann hefði komið sem hluthafi inn í Rimax. Eftir að Sverrir hefði verið handtekinn hefði hann hins vegar farið að gruna að þetta væru fíkniefnapeningar. Upphæðin og það hvernig umbúnaður peninganna hefði verið hefði gert sig óöruggan. Honum hefði verið mikið í mun að sýna að hann ætti ekki þessa peninga heldur Sverrir Þór. Hann hefði síðan farið í aðra veiðiferð sunnudaginn 12. september og komið aftur í bæinn 15. september. Að morgni 16. september hefði hann hringt í meðákærða Sigurð Guðmundsson lögmann og beðið hann um að hitta sig. Ákærði kvaðst hafa sagt meðákærða Sigurði frá peningunum og að þeir væru andvirði kaupa á afganginum á hlut hans í Rimax. Þeir hefðu rætt málið fram og til baka og niðurstaðan hefði orðið sú að bíða og sjá hvað myndi gerast. Ákærði Egill kvaðst hafa sagt meðákærða Sigurði að peningarnir væru komnir frá Sverri Þór Gunnarssyni, sem sæti í gæsluvarðhaldi. Hann kannaðist ekki við að meðákærði Sigurður hefði hvatt sig til að skila peningunum strax til lögreglu, þeir hefðu m.a. rætt þýðingu gæsluvarðhalds, að það eitt og sér væri ekki merki um sekt eða sakleysi, það væri eingöngu rannsóknaraðferð. Hann kvaðst telja að ef ákveðið hefði verið að skila peningunum þá hefði það einfaldlega verið gert. Tilurð kaupsamnings þess sem fannst við húsleit á heimili hans skýrði ákærði Egill svo, að hann hefði verið í örvinglan að reyna að gera grein fyrir þessum peningum sem voru í hólfinu. Kaupsamningurinn hefði átt að sýna að hann ætti ekki þessa peninga heldur Sverrir Þór. Hann hefði viljað sýna að Sverrir hefði átt eftir að borga sér við endanlega samningsgerð. Ákærði Egill kvaðst jafnframt hafa átt frumkvæðið að því að samningurinn var útbúinn. Ákærði Egill vildi ekki kannast við að einhver sérstök ástæða hefði verið fyrir því að hann geymdi samninginn heima hjá sér. Borinn var undir hann framburður fyrir lögreglu frá 14. október 1999, þar sem hann sagði svo frá að meðákærði Sigurður hefði stungið upp á því að ákærði Egill geymdi samninginn heima hjá sér þannig að lögreglan myndi finna hann ef gerð yrði leit á heimilinu og það hefði gengið eftir. Ákærði vildi ekki kannast við fyrir dóminum að þetta væri rétt eftir sér haft.
Ákærði Egill skýrði ástæðu þess að hann hefði beðið meðákærða Sigurð fyrir lykilinn þannig, að hann hefði verið að tryggja að enginn kæmist í peningana fyrr en þeim yrði skilað. Það væri aðeins einn lykill til og þar með hefði hann tryggt að hann sjálfur kæmist ekki í bankahólfið. Hann kvaðst hafa ætlað að skila peningunum til lögreglu ef Sverrir Þór yrði dæmdur sekur. Aðspurður kvaðst ákærði hafa skýrt tilvist peninganna þannig fyrir meðákærða Sigurði, að þeir væru út af uppgjöri vegna kaupa Sverris Þórs á Rimax. Hann hefði sagt að þau kaup hefðu þegar farið fram og samningurinn sem hann hefði beðið meðákærða Sigurð um að útbúa hefði átt að vera í samræmi við þann munnlega samning. Hann hefði sagt meðákærða hvert efni samningsins ætti að vera. Ákærði minntist þess ekki að meðákærði hefði spurt sig af hverju kaupverðið væri innt af hendi í reiðufé og hann hefði ekki gefið neinar skýringar á því að fyrra bragði. Hann minntist þess ekki að meðákærði hefði ítrekað sagt honum að fara til lögreglu eða kynnt sér afleiðingar þess ef hann gerði það ekki. Þeir hefðu einungis rætt almennt um hvað væri best að gera í stöðunni. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa neinar rökréttar skýringar á því af hverju hann hefði skýrt meðákærða Sigurði ranglega frá tilurð þeirra peninga sem voru geymdir í bankahólfinu. Hann hefði ekki hugsað skýrt á þessum tímapunkti þegar búið var að handtaka Sverri Þór. Hann hefði hins vegar leiðrétt þennan ranga framburð sinn eins fljótt og hann hefði getað, þ.e. fyrir lögreglu, en í yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 14. október 1999 breytti ákærði framburði sínum varðandi peningana í bankahólfinu á þá lund sem hann bar síðar um fyrir dómi, eins og áður var rakið.
Ákærði Egill greindi einnig frá því að eftir handtöku Sverris Þórs hefði í raun ekki verið hægt að halda uppi starfsemi hjá Rimax. Við húsleit hefðu verið tekin öll gögn og tölvur. Krafa væri komin fram um gjaldþrotaskipti á félaginu. Ákærði kvaðst hafa þurft að leggja til töluverða fjármuni úr eigin vasa eftir að starfseminni hefði verið hætt. Hann hefði greitt launatengd gjöld o.fl. og verið í persónulegum ábyrgðum fyrir félagið. Ákærði taldi að samtals væri hann búinn að greiða um 3.000.000 króna úr eigin vasa vegna þessa.
Ákærði Sigurður Guðmundsson hefur neitað sakargiftum í máli þessu.
Ákærði kvaðst í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins hafa þekkt til meðákærða Egils í nokkuð langan tíma, þeir hefðu kynnst í gegnum sameiginlegan kunningja. Ekki hefði verið um náinn vinskap að ræða, en þeir hefðu heilsast og ræðst við þegar þeir hefðu hist á förnum vegi. Hann hefði t.d. bara einu sinni komið á heimili meðákærða vegna pappíra sem hann hefði útbúið fyrir hann. Síðan hefði hann leitað til meðákærða sem tannlæknis og einhvern tíma hefði hann tekið að sér að innheimta kröfur fyrir hann vegna ógreiddra reikninga sjúklinga. Fyrir nokkrum árum hefði meðákærði Egill komið til sín og beðið sig um að ganga frá kaupmála á milli sín og konu sinnar. Hann hefði verið hans lögmaður í máli vegna of hraðs aksturs á árunum 1997-98 og síðar hefði meðákærði leitað til sín vegna stofnunar á hlutafélögum. Meðákærði hefði óskað eftir því að ákærði Sigurður „drægi upp skjal” þar sem hann hefði sagst vera að selja hlutafé í Rimax. Ákærði Sigurður kannaðist við að meðákærði Egill hefði komið til sín tvisvar sinnum um vorið 1999 eða seinni part vetrar. Í fyrra skiptið hefði hann útbúið einhvers konar samstarfsyfirlýsingu á milli Rimax og Bónus og í síðara skiptið hefði meðákærði komið og sagst vera að selja hlut í Rimax en þar hefði kaupandinn verið ónafngreindur og meðákærði hefði ekki viljað segja hver það væri.
Ákærði Sigurður lýsti þeim atburðum, sem urðu tilefni ákæru á hendur honum þannig, að hinn 16. september hefði meðákærði Egill komið á skrifstofuna til hans þar sem hann hefði verið að vinna að frágangi á uppgjörum vegna skattskila hlutafélaga, en mikið hefði verið að gera á þessum tíma. Þar hefði meðákærði tjáð sér að hann hefði gert kaupsamning um, eða hefði verið að ganga út úr hlutafélaginu Rimax og selt allt hlutaféð. Aðspurður kvað hann meðákærða hafa sagt sér að hann væri búinn að halda fund með starfsfólki Rimax þar sem hann hefði tilkynnt að hann væri að ganga út úr félaginu og hann hefði einnig sagt fjölskyldu sinni og samstarfsfólki á tannlæknastofunni frá því. Ákærði Sigurður kvaðst hafa innt meðákærða eftir því hver niðurstaðan hefði orðið varðandi þann samning sem hann hafði útbúið fyrir hann um vorið, þar sem kaupandi var ekki nafngreindur, en meðákærði hefði sagt að ekkert hefði orðið af þeim viðskiptum. Meðákærði hefði því næst tjáð honum það að hann hefði áhyggjur af því að kaupandinn hefði verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald. Ákærði Sigurður kvaðst hafa innt meðákærða Egil eftir því hvort þarna væri eitthvað skrítið á ferðinni en Egill hefði sagt að hann vissi ekki til annars en að þessi kaupandi, sem hefði verið starfsmaður félagsins, væri hinn besti maður sem hann vissi ekki til að væri í neinum vafasömum málum. Aðspurður hvaða máli hefði verið talað um að maðurinn tengdist kvað ákærði meðákærða Egil hafa sagt sér að handtakan tengdist hugsanlega einhverju fíkniefnamisferli. Meðákærði Egill hefði sagt að hann væri búinn að móttaka kaupverðið og að það hefði verið greitt í reiðufé. Ákærði kvaðst hafa innt meðákærða eftir því hvort honum þætti það ekki óeðlilegt, en hann hefði neitað því og sagt að þessi maður hefði verið í fasteignaviðskiptum og hann vissi til þess að hann hefði haft mikið upp úr þeim. Ákærði kvaðst í framhaldi af þessu hafa sagt við meðákærða Egil að það væri engin skynsemi í öðru en að fara og tilkynna lögregluyfirvöldum um viðskipti sín við þennan mann. Meðákærði gæti saklaus lent í því að vera grunaður og jafnvel verða handtekinn eða lent í varðhaldi sjálfur. Ákærði kvaðst hafa lagt á þetta þunga áherslu. Hann hefði hins vegar ekki vitað nein deili á þessum manni, þ.e. Sverri Þór Gunnarssyni, og ekki vitað annað en það sem meðákærði Egill hefði tjáð honum um hvernig hann tengdist þeim málum sem hann hefði verið handtekinn út af. Aðspurður kvaðst ákærði lítið hafa fylgst með fjölmiðlum á þessum tíma, það hefði verið mikið að gera í vinnu við að skila uppgjörum vegna hlutafélaga og hann sneri oft sólarhringnum við til vinnu. Hann hefði aldrei kynnst meðákærða Agli af öðru en góðu og ekki vitað til annars en að hann umgengist sómakært fólk og væri í samstarfi við virðuleg fyrirtæki. Hann sagði að ekki hefði hvarflað að sér að meðákærði gæti tengst slíku máli á einn eða annan hátt. Ákærði endurtók að hann hefði ítrekað ráðlagt meðákærða Agli að fara til lögreglu og skýra frá viðskiptum þeirra Sverris Þórs. Ákærði kannaðist við að samningur sem fannst við leit á heimili meðákærða væri sá samningur sem hann hefði útbúið fyrir meðákærða hinn 16. september 1999. Ákærði kannaðist ekki við að hafa ráðlagt meðákærða að hafa nefndan samning á heimili sínu til að hann fyndist við hugsanlega húsleit lögreglu. Hann kvað meðákærða Egil hafa sagst hafa móttekið kaupverðið fyrir fyrirtækið og hafa sett það í bankahólf sem hann ætti. Ákærði Sigurður kvaðst hafa tekið við lyklinum að bankahólfinu í lok fundar þeirra. Meðákærði Egill hefði beðið hann um að geyma lykilinn til staðfestingar á því að hann hefði komið til sín og rætt þessi mál. Hann hefði móttekið lykilinn og sett hann í umslag, merkt það og sett inn í peningaskáp. Hann hefði ítrekað enn þær ráðleggingar sínar sem lögmanns að meðákærði Egill færi og upplýsti um þessi viðskipti og segði þá jafnframt frá því að ákærði Sigurður geymdi lykilinn. Ákærði kvaðst ekki hafa hugsað út í að varhugavert væri fyrir sig að geyma lykilinn í ljósi ráðlegginga hans til meðákærða. Hann hefði litið á geymslu sína á lykilinum sem staðfestingu á því að fundurinn hefði átt sér stað - sem sönnun þess. Meðákærði Egill hefði verið í sínum huga á þessum tíma heiðarlegur maður sem hann hefði talið sig geta treyst í einu og öllu að það sem hann segði væri rétt og satt.
Aðspurður kvaðst ákærði hafa farið að skoða umfjöllun fjölmiðla eftir þennan fund og einnig hafa skoðað þau nöfn sem tengdust þeim hlutafélögum sem hann hefði stofnað fyrir meðákærða Egil út af umfjöllun um Sverri Þór Gunnarsson. Aðspurður hvort hann hefði gengið eftir því við meðákærða að hann færi til lögreglu kvaðst ákærði hafa komið við á tannlæknastofu meðákærða Egils nokkru síðar og spurt hann um þetta en hann hefði neitað því. Þá kvaðst ákærði hafa ítrekað þær ráðleggingar sínar um að meðákærði færi að fyrra bragði til lögreglu og upplýsti um viðskipti sín við þennan mann (Sverri Þór). Það hefði hins vegar ekki hvarflað að sér að meðákærði tengdist málinu sjálfur. Hann hefði staðið í þeirri trú lengi framan af að meðákærði Egill gæti ekki tengst þessu máli, einnig eftir að meðákærði hefði verið hnepptur í gæsluvarðhald. Aðspurður hvort ekki hefði hvarflað að honum að fara sjálfur til lögreglu og skýra frá atvikum málsins eftir að meðákærði var handtekinn kvaðst ákærði Sigurður ekki hafa hugleitt að gera það nema með meðákærða Agli. Hann kvaðst hafa mátt trúa því að meðákærði myndi skýra lögreglunni frá þessu sjálfur eins og hann hefði sagst myndu gera ef hann fengi grunsemdir eða upplýsingar um að sá aðili sem keypti af honum hlutaféð tengdist alvarlega þessum málum. Hann hefði treyst því að meðákærði Egill væri saklaus. Ákærði kvaðst enga vitneskju hafa haft um fíkniefnaneyslu meðákærða Egils þegar hann hefði komið til sín hinn 16. september 1999.
Ákærði Sigurður kvað lögreglumenn ekki hafa spurt neins um ástæður þess að hann hafði vörslur lykilsins að bankahólfinu þegar þeir hefðu komið ásamt meðákærða Agli til að ná í lykilinn.
Ákærði Sigurður var inntur eftir ástæðum þess að samningur sá sem hann útbjó fyrir meðákærða Egil 16. september 1999 hefði ekki fundist í tölvu hans við húsleit hinn 15. október 1999. Ákærði kvaðst hafa opnað samning þann sem hann hefði áður gert fyrir meðákærða Egil um vorið og skrifað ofan í hann samkvæmt upplýsingum meðákærða. Eina skýringin sem hann gæti gefið á því að samningurinn hefði ekki verið vistaður væri sú að hann hefði ekki viljað eyðleggja það skjal sem hann hefði vistað áður. Ákærði játti því að sá möguleiki væri fyrir hendi að vista skjalið undir nýju nafni, en gat ekki gefið skýringar á því af hverju það hefði ekki verið gert - þetta kæmi stundum fyrir. Engin sérstök ástæða hefði verið fyrir því að geyma það ekki.
Meðákærði Geir Hlöðver Ericsson kannaðist við að mikið hefði verið rætt um kaup á pökkunarvél fyrir kjötvinnsluna. Þær umræður hefðu staðið allt frá stofnun fyrirtækisins og það hefði í raun verið grundvöllurinn fyrir rekstri þess að það hefði yfir slíkri vél að ráða.
Í yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 21. október 1999 kvað meðákærði Geir ákærða Egil hafa sagt sér að Sverrir Þór hefði áhuga á að fjármagna kaupin á vélinni, en fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna hvort Sverrir Þór hefði einhvern tíma komið nálægt þessum umræðum.
Meðákærði kvaðst hafa vitað til að ákærði Egill hefði viljað losna út úr rekstrinum á Rimax. Hann hefði ekki haft tíma til að sinna þessu. Ákærði hélt að Sverrir Þór hefði ekki tekið þátt í þessari umræðu.
Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson kvaðst hafa afhent ákærða Agli 4.150.000 krónur í reiðufé. Sagði vitnið að sig minnti að þeir hjá Rimax hefðu verið að kaupa kjötpökkunarvél sem hefði vantað peninga fyrir. Þetta hefði verið sameiginleg ákvörðun. Þá hefði vantað þessa vél og hann hefði boðist til að leggja út þessa peninga fyrir henni. Vitnið kvaðst ekki muna til að hann hefði gefið skýringar á því hvaðan þessir peningar væru komnir, en hann hefði verið búinn að segja ákærðu Agli og Geir að hann hefði staðið í fasteignaviðskiptum og hefði hagnast töluvert á því. Vitnið kvaðst ekki muna hvort ákærði Egill hefði beðið sig um að koma og sækja peningana aftur. Vitnið kvaðst ekki telja að ákærði Egill hefði vitað um umsvifamikil fíkniefnaviðskipti hans sumarið 1999. Vitnið hefði aldrei talað um þau viðskipti við ákærða Egil. Hann hefði útvegað honum fíkniefni nokkrum sinnum og hann gæti ekki sagt hvaða ályktanir ákærði Egill hefði dregið af því. Vitnið kvaðst ekkert muna hvar hann hefði náð í þá peninga sem hann hefði afhent ákærða Agli til kaupa á pökkunarvélinni. Vitnið myndi ekki heldur hvort þetta hefði verið ákveðið fyrir fram. Vitnið kannaðist við að ákærði Egill hefði ámálgað við sig að hann myndi kaupa allan hans hlut í Rimax ehf., en mundi ekki hvort hann hefði litið svo á að þar með væri hann að kaupa þennan hlut. Vitnið taldi minnisleysi sitt geta stafað af fíkniefnaneyslu á þessum tíma en einnig því hve langt væri um liðið.
Vitnið var spurt um fasteignaviðskipti sín og hvort hann gæti gert grein fyrir hversu mikið hann hefði hagnast á þeim. Vitnið kvaðst hafa gert grein fyrir þessu þegar hans mál hefði verið tekið fyrir en hann minnti að hann hefði getað sýnt fram á 5 til 7 milljónir króna. Fyrst hefði hann átt íbúð á Grettisgötu 2, 60 til 70 fermetra. Síðan hefði hann keypt íbúð á tveimur hæðum með bílskúr í Frostafold. Kaup á íbúðinni á Grettisgötu hefðu gengið til baka vegna vanskila og hann tekið það sem búið hefði verið að borga upp í leigu. Eftir það hefði hann selt íbúðirnar á Grettisgötu og við Frostafold á svipuðum tíma og hagnast á því um 5 milljónir króna. Þetta hefði verið 1998 til 1999. Einhvern tíma hefði hann eða fyrirtæki sem hann hefði verið með átt íbúð í Sólheimum. Varðandi ferðir sínar til útlanda kvaðst vitnið hafa verið drjúgan hluta ársins 1998 í Danmörku. Hann hefði einnig farið nokkrum sinnum til útlanda árið 1999. Ekki kannaðist hann við að hafa eytt miklum peningum á þessum ferðum.
Niðurstöður
Ákæruliður I, 1
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen hefur viðurkennt fyrir dóminum að hafa keypt og móttekið kókaín af Sverri Þór Gunnarssyni frá því á árinu 1998 til hausts 1999 og að hafa neytt efnisins sjálfur eða með félaga sínum Sigurði Ólafssyni. Hins vegar hefur framburður ákærða um magn efnisins verið mjög á reiki. Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 10. október 1999 neitaði ákærði sakargiftum. Við fyrirtöku hjá dómara daginn eftir vegna kröfu um gæsluvarðhald kvaðst hann telja samanlagt magn „fíkniefna” hafa verið 100 til 150 g og nefndi jafnframt að hann hefði skuldað Sverri Þór Gunnarssyni u.þ.b. 600.000 krónur vegna fíkniefnaviðskipta þeirra. Við yfirheyrslu hjá lögreglu þremur dögum síðar breyttist framburður hans enn þannig að hann kvaðst telja að um hefði verið að ræða 50 til 100 g af kókaíni. Þá nefndi ákærði einnig að hann hefði skuldað Sverri Þór a.m.k. 500.000 krónur. Tæpri viku síðar talaði ákærði um 80 til 100 g í þessu sambandi, en hann hefði náð að velta þessu fyrir sér á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Við þá yfirheyrslu ítrekaði hann síðasta framburð sinn um fjárhæð fíkniefnaskuldar við Sverri Þór. Þessa skýrslu staðfesti ákærði fyrir dómi sama dag. Við þingfestingu málsins hinn 16. júní sl. neitaði ákærði sök en við aðalmeðferð málsins kvaðst hann sjálfur hafa keypt 27 g af kókaíni af Sverri Þór. Þá breytti ákærði jafnframt framburði sínum þannig að hann kvaðst einungis hafa skuldað Sverri Þór 100.000 til 140.000 krónur vegna fíkniefnaviðskipta. Gaf ákærði enn á ný þá skýringu á breyttum framburði að hann hefði náð að íhuga þetta mál betur, en fyrstu skýrslugjafir hans hefðu markast af því áfalli sem hann hefði orðið fyrir í kjölfar handtöku.
Framburður ákærða hefur verið óstöðugur. Skýringar hans á því hvers vegna hann hefur margbreytt framburði sínum þykja ekki trúverðugar, enda naut ákærði aðstoðar lögmanns við alla rannsókn málsins. Í þessu sambandi ber einnig að líta sérstaklega til framburðar Sverris Þórs Gunnarssonar, sem viðurkenndi hjá lögreglu að hafa selt ákærða 100 til 150 g af kókaíni en við aðalmeðferð kvaðst vitnið ekki hafa haft hugmynd um hversu mikið nákvæmlega það var, en það gæti hafa „hlaupið á einhverjum tugum gramma”. Þá verður ekki annað ráðið af þeim upptökum á samtölum ákærða og Sverris Þórs í síma, sem leiknar voru við meðferð málsins, en að samskipti þeirra á umræddu tímabili hafi verið mikil og bar fíkniefni oft á góma í þeim samtölum. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga framburð Sigurðar Ólafssonar, sem kvaðst við yfirheyrslu hjá lögreglu hafa keypt 30 g af kókaíni, en fyrir dómi talaði hann um u.þ.b. 20 g, sem hann hafði þá neytt með Agli.
Framburður ákærða um hvenær hann hóf að kaupa fíkniefni af Sverri Þór er einnig óljós. Við rannsókn málins sagði hann fyrir dómi að viðskiptin hefðu hafist um vorið 1998 og staðið nokkuð samfellt fram til um 10. ágúst 1999, en við aðalmeðferð málsins taldi hann viðskiptin hafa að öllum líkindum hafist síðla sumars eða um haustið 1998 og staðið til júlí-ágúst 1999. Af gögnum málsins og framburði þeirra sem skýrslur gáfu verður hins vegar ekki með öruggum hætti ráðið hvenær nákvæmlega ákærði Egill hóf að kaupa kókaín af Sverri Þór, en ljóst er þó að um langan tíma var að ræða, a.m.k. eitt ár og jukust þessi viðskipti þeirra jafnt og þétt uns þeim lauk um haustið 1999.
Ákæruvaldið gerði enga tilraun við meðferð málsins til að sýna fram á að einhver annar en Sigurður Ólafsson hefði tekið við kókaíni frá ákærða þó um það sé talað í ákæru. Með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 22. febrúar sl. var áðurnefndur Sverrir Þór dæmdur fyrir sölu á 100 g af kókaíni til ákærða. Samkvæmt framangreindu telst sannað að magn það af kókaíni sem ákærði keypti, neytti og deildi að hluta með Sigurði Ólafssyni hafi a.m.k. verið 100 g.
Ákærði hefur með þessari háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem vísað er til í ákæru varðandi þennan ákærulið.
Ákæruliður I, 2
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson er ákærður fyrir að hafa neytt sjálfur og dreift til vina sinna fíkniefnum. Hann hefur játað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa keypt af Sverri Þór Gunnarssyni það magn af fíkniefnum sem um ræðir. Samræmist sú játning framburði Sverris Þórs Gunnarssonar og öðrum gögnum málsins. Ákærði hefur neitað að hafa dreift efnunum eins og segir í ákæru, en viðurkennir að hafa neytt efnanna með vini sínum. Miðað skal við framburð ákærða um það að hann hafi neytt þeirra með einum vini sínum, en sú háttsemi hans telst vera miðlun á fíkniefnum í skilningi fíkniefnalöggjafar. Er þessi háttsemi hans því réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður II.
Ákærðu Agli Ragnars Guðjohnsen og Geir Hlöðver Ericssyni er gefið að sök peningaþvætti með því að hafa tekið við og skipt á milli sín 2 milljónum króna af ágóða Sverris Þórs Gunnarssonar af fíkniefnaviðskiptum, sem greiðslu fyrir 30% hlut í fyrirtæki þeirra Rimax ehf. Er þetta talið varða við 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997. Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. er lögð refsing við því að taka við eða afla sér eða öðrum ávinnings af hegningarlagabroti. Einnig að geyma eða flytja slíkan ávinning, aðstoða við afhendingu hans eða stuðla á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 10/1997 kemur skýrt fram að saknæm háttsemi samkvæmt ákvæðinu er ekki tæmandi talin og að túlka ber ákvæðið með hliðsjón af markmiðum og skilgreiningu tveggja alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að. Eru það samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988, almennt nefndur „fíkniefnasamningurinn”, og samningur um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990, gerður á vettvangi Evrópuráðsins, almennt nefndur „þvættissamningurinn”. Eru þessir samningar fylgiskjöl með frumvarpinu og segir í greinargerðinni að frumvarpinu sé „ætlað að færa íslenska löggjöf til samræmis við skuldbindingar fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins.” Með greindri lagabreytingu var peningaþvætti gert að sjálfstæðu refsiverðu broti. Stórfelld fíkniefnabrot sæta refsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga og samkvæmt 2. mgr. 264. gr. er refsirammi hækkaður ef peningaþvættisbrot tengist slíku broti. Eins og áður hefur verið rakið var Sverrir Þór Gunnarsson með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu 774/2000 dæmdur í sjö ára og sex mánaða fangelsi fyrir stórfelld fíkniefnabrot og til upptöku á jafnvirði 21.400.000 króna. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar hinn 22. febrúar 2001 í málinu nr. 312/2000.
Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson hefur við meðferð málsins borið að hafa haft nokkurn ágóða af fasteignaviðskiptum. Vitnið kvaðst ekki geta tilgreint lögmætar tekjur sínar nákvæmlega og nefndi að hann hefði ekki haldið tekjum þessum aðgreindum frá öðrum tekjum. Kvaðst hann m.a. hvorki hafa hugmynd um né skýr gögn um hagnað sinn vegna annarra viðskipta en fíkniefnaviðskipta. Af nefndum héraðsdómi og Hæstaréttardómi má sjá að gróði hans af fíkniefnasölu hefur verið margfalt meiri en af fasteignaviðskiptum. Verður því í þessu máli að miða við að langstærstur hluti þess fjár sem um ræðir hafi verið fíkniefnagróði, en að öllum líkindum einungis lítill hluti þessarar fjárhæðar kominn til vegna annarra tekna Sverris Þórs. Þá má einnig líta til þess að í héraðsdóminum var ekki fallist á tæplega 2.600.000 króna upptökukröfu á hendur sambýliskonu hans, þar sem dómurinn miðaði við framburð Sverris Þórs og hennar um að þeir tilteknu peningar hefðu verið ágóði vegna fasteignaviðskipta. Samkvæmt þessu hefur þegar verið gerð grein fyrir stærstum hluta þess fjár sem Sverrir Þór kann að hafa haft í tekjur af fasteignaviðskiptum. Hafa ber í huga að það er einmitt eðli peningaþvættisbrota að illa fengnu fé er blandað saman við lögmætan ágóða í þeim tilgangi að fela hið fyrrnefnda. Sú aðferð við þvættið að veita ágóða ólögmætra viðskipta inn í lögmætan rekstur og dylja þannig uppruna fjárins er eitt skýrasta dæmið um slík brot. Eins og síðar verður rakið verður einnig að líta til þess hvernig greiðsla er innt af hendi, miðað við fjárhæð, þegar metið er hvort um fíkniefnaágóða er að ræða. Samkvæmt framansögðu er upplýst að með kaupum sínum í Rimax ehf. hafi Sverrir Þór verið að dylja ávinning sinn vegna fíkniefnaviðskipta sinna.
Þrátt fyrir að framburður og gögn málsins séu misvísandi um það hve mikið Sverrir Þór Gunnarsson greiddi fyrir hlut sinn í Rimax ehf. þá má af framburði þeirra sem skýrslur gáfu fyrir dómi um þetta atriði fullyrða að sú fjárhæð hafi a.m.k. numið 2 milljónum króna, eins og miðað er við í ákæru. Af sömu ástæðu verður einnig að telja fram komið að viðskiptin áttu sér stað í byrjun maí 1999.
Kemur þá næst til skoðunar hvort ákærðu Egill og Geir hafi vitað af því að svo háttaði til að hlutur þeirra í félaginu var greiddur með ágóða vegna fíkniefnasölu.
Þáttur ákærða Egils Ragnars Guðjohnsen
Eins og þegar er komið fram hefur framburður ákærða Egils verið misvísandi um margt varðandi samskipti hans við Sverri Þór Gunnarsson. Ákærði Egill hefur þó ætíð haldið því fram að hann hafi ekki haft hugmynd um umfang fíkniefnaviðskipta Sverris Þórs og að hann hafi ekki grunað að peningar þeir er hann móttók í maí 1999 væru tilkomnir vegna fíkniefnaviðskipta. Kom fram í máli ákærða Egils að honum hafi fundist greiðslumátinn eðlilegur þar sem hann hafi ekki vitað til að Sverrir Þór hefði ávísanahefti og lét hann þess getið í þessu sambandi að Sverrir Þór skrifaði afar illa. Hins vegar hefur framburður hans verið óstöðugur um hversu mikið reiðufé Sverrir Þór innti af hendi vegna kaupanna. Talaði ákærði Egill í þessu sambandi m.a. um að hann hefði „týnt” eða gleymt að tiltaka hálfa milljón króna, sem meðákærði Geir hefði fengið í sinn hlut. Þá bar ákærði Egill í upphafi hjá lögreglu að skriflegur samningur hefði verið gerður um kaupin, en Sverrir Þór hefði sagst ekki vilja eiga samninginn og hent honum í ruslið. Síðar dró ákærði þennan framburð sinn til baka og kvaðst einungis hafa sýnt Sverri Þór samningsuppkast, en síðar hefði átt að gera kaupsamning á svipuðum nótum. Hann hafi engu að síður litið svo á að samningur hefði komist á um kaupin.
Þá var helst á ákærða Agli að skilja að hann hefði ekki þekkt mjög vel til Sverris Þórs á þeim tíma er kaup voru gerð. Þrátt fyrir það er upplýst, með framburði hans sjálfs og Sverris Þórs, að greiðslan hefði farið fram með þeim óvenjulega hætti að Sverrir Þór afhenti honum allt féð í peningaseðlum á tannlæknastofu hans, án þess að skriflegur samningur væri gerður þeirra í milli og án þess að kvittun væri gefin út um móttöku fjárins. Framangreind skýring ákærða á því hvers vegna hann hafi talið eðlilegt að Sverrir Þór stæði þannig að málum er ótrúverðug. Þykir þvert á móti sem aðdragandi og umgjörð þessara viðskipta hafi verið með þeim hætti að ákærða hafi hlotið að vera það ljóst að uppruni peninganna var ólöglegur ef hann hafði ekki vitneskju um það fyrir.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið um hljóðritanir af símtölum milli þessara tveggja manna sumarið 1999 og samkvæmt skýringum þeirra fyrir dómi og hjá lögreglu á þessum samtölum virðist sem góður vinskapur hafi verið með þeim ákærða Agli og Sverri Þór. Er ljóst að ákærði Egill vissi vel að Sverrir Þór stundaði umtalsverða sölu á fíkniefnum. Eins og fram kom í niðurstöðum undir ákærulið I er sannað að þessa vitneskju hafði ákærði Egill töluvert áður en viðskipti þau áttu sér stað sem hér er um fjallað, enda kvaðst ákærði Egill hafa þegar á þeim tíma keypt af Sverri Þór fíkniefni. Samkvæmt því sem að framan er rakið var um að ræða töluvert magn af fíkniefninu kókaíni sem mun vera sjaldgæfara, dýrara og erfiðara að nálgast en mörg önnur fíkniefni. Þá bar Sverrir Þór, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann hefði lýst því yfir við ákærða Egil að ástæða hans fyrir kaupum hans á hlutnum í Rimax ehf. hefði verið sú að hann vildi koma sér í heiðarlega atvinnu. Af framburði þeirra beggja er einnig ljóst að hluti kaupverðsins vegna Rimax ehf. var notaður til skuldajafnaðar við skuld ákærða Egils við Sverri Þór sem tilkomin var vegna fyrri fíkniefnaviðskipta þeirra. Að öllu þessu virtu er komin fram full sönnun fyrir því að ákærði Egill vissi að peningar þeir sem um ræðir voru ágóði af fíkniefnasölu. Þrátt fyrir þetta tók hann við fénu og ráðstafaði því eins og í ákæru greinir. Með þessari háttsemi sinni er ákærði Egill sekur um brot sem fellur undir skilgreiningu á peningaþvætti, þannig að háttsemi hans er réttilega lýst í ákæru og þar rétt færð til refsiákvæða.
Þáttur ákærða Geirs Hlöðvers Ericssonar
Ákærði Geir neitaði í fyrstu yfirheyrslu að hafa tekið við þessum peningum. Síðari skýring ákærða Geirs á þessum fyrsta framburði sínum var sú að hann kvaðst ekki hafa viljað segja frá eignarhlut sínum í Rimax ehf. þar sem hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota. Þykir dóminum mega fallast á að þetta sé ekki tortryggileg skýring á breyttum framburði. Upplýst er að ákærði Geir lagði inn á reikning Rimax ehf. sinn hluta kaupverðsins í nafni eiginkonu sinnar.
Þótt ákærði Geir hafi verið annar af stofnendum fyrirtækisins og framkvæmdastjóri þess hefur komið fram við meðferð málsins að hann hafði í raun lítið sem ekkert um fjármálahlið reksturs fyrirtækisins að segja. Þá bera bæði meðákærði Egill og Sverrir Þór að ákærði Geir hafi ekkert vitað um samskipti þeirra tveggja, önnur en þau sem tengdust fyrirtækinu, m.a. kvaðst Sverrir Þór ekkert hafa vitað um eignarhlutdeild ákærða Geirs í fyrirtækinu er kaupin áttu sér stað og því í raun talið sig vera að kaupa eignarhluta af ákærða Agli einum, enda hafi meðákærði Egill, en ekki ákærði Geir, fengið afhenta alla fjárhæðina. Auk þess er fram komið að meðákærði Egill gerði ákærða Geir ekki fullkomlega grein fyrir hversu mikla peninga Sverrir Þór greiddi fyrir hlut sinn. Líta ber til þess að samkvæmt framburði ákærða Geirs sjálfs fékk hann greiðslu sína þannig að meðákærði Egill afhenti honum eina milljón króna í peningaseðlum á tannlæknastofu sinni.
Ekki verður vefengdur sá framburður ákærða Geirs að Sverrir Þór hafi verið honum ókunnur er umrædd viðskipti áttu sér stað og að hann hafi samþykkt þau fyrir orð meðákærða Egils. Þá verður heldur ekki vefengdur sá framburður ákærða Geirs að hann hafi ekki vitað um fíkniefnaneyslu meðákærða Egils á þessum tíma. Af því sem rakið var undir ákærulið I er byggt á því að ákærði Geir hafi fyrst keypti fíkniefni af Sverri Þór í ágúst 1999, eða um þremur mánuðum eftir að kaup Sverris á hlut í Rimax ehf. áttu sér stað.
Eins og háttsemi ákærða er lýst í ákæru virðist brot hans talið felast í móttöku og ráðstöfun fjárins í maímánuði 1999. Kemur því ekki til skoðunar meintur síðar til kominn grunur eða vitneskja hans um að peningar þeir er hann fékk afhenta í byrjun maímánaðar 1999, sem greiðslu fyrir sinn hlut í sölu á 30% í Rimax ehf. til Sverris Þórs Gunnarssonar, væru afrakstur fíkniefnaviðskipta Sverris Þórs, þrátt fyrir að greiðslan væri innt af hendi í reiðufé. Samkvæmt framanrituðu verður háttsemi hans ekki felld undir 264. gr. almennra hegningarlaga.
Að öllu framanröktu virtu þykir dóminum varhugavert að telja fullsannað að á þeim tíma sem um ræðir í ákæru hafi ákærði Geir vitað eða mátt vita að umræddir peningar væru afrakstur fíkniefnaviðskipta og er hann því sýknaður af þessum hluta ákærunnar.
Ákæruliður III
Af því sem þegar er í ljós leitt undir öðrum ákæruliðum telst sannað að þeir fjármunir sem Sverrir Þór Gunnarsson hafði til ráðstöfunar á þessum tíma voru að stærstum hluta komnir til vegna fíkniefnaviðskipta hans. Með dómi Hæstaréttar hinn 22. febrúar sl. voru m.a. gerðir upptækir peningar Sverris Þórs sem hann átti á reikningi í banka. Leikin hefur verið í réttinum upptaka af símtali ákærða Egils við Sverri Þór þann sama dag og Sverrir Þór greiddi andvirði umræddra heimilistækja, eða hinn 3. september 1999. Eins og rakið hefur verið talar ákærði Egill m.a. um „þvott” þegar greiðsla þessi ber á góma. Með tilliti til annars sem fram er komið í málinu þykir ekki marktæk sú skýring ákærða Egils að það hafi hann einungis sagt í gríni. Samkvæmt því og öðru sem rakið hefur verið hér að framan um samskipti ákærða Egils og Sverris Þórs má ætla að tilgangur greiðslunnar hafi verið sá að þvætta peninga sem komnir voru til vegna fíkniefnakaupa með því að umbreyta þeim í skuld Rimax ehf. við Sverri Þór og dylja þannig uppruna þeirra. Hins vegar lýtur ákæran einungis að þætti ákærða Geirs í þessu peningaþvætti. Kemur þá einkum til skoðunar hvort hann hafi vitað að um peningaþvætti var að ræða.
Eins og rakið var undir ákærulið II telur dómurinn að þrátt fyrir að ákærði Geir hafi um vorið 1999 tekið við frá Sverri Þór greiðslueyri sem verður að teljast óvenjulegur í löglegum viðskiptum, eða einni milljón króna í peningaseðlum, sé ekki nægilega sannað að hann hafi á þeim tíma vitað að um fíkniefnagróða var að ræða. Hins vegar hafði mikið vatn runnið til sjávar frá þeim tíma og þar til þau viðskipti áttu sér stað sem um er fjallað í þessum hluta ákæru. Fíkniefnalögregla hafði m.a. stöðvað ákærða Geir er hann ók bifreið Sverris Þórs í byrjun ágúst og leitað að fíkniefnum í bifreiðinni, en Sverrir Þór hafði lánað ákærða Geir bifreiðina til einkanota yfir verslunarmannahelgi. Þá vissi ákærði Geir að Sverrir Þór seldi fíkniefni þar sem hann sjálfur hafði nokkrum sinnum keypt fíkniefni af Sverri Þór ekki síðar en í ágúst 1999. Auk alls þessa bar hann hjá lögreglu að hann hefði þegar um sumarið 1999 vitað að þriðji eigandi fyrirtækisins, meðákærði Egill, var fíkniefnaneytandi, en fyrir dómi talaði ákærði Geir einungis um grun sinn í þessu sambandi. Virðist svo sem fyrirtækið hafi í raun ekki haft bolmagn til að greiða ákærða Geir laun með eðlilegum hætti. Verður því að telja að ákærða Geir hafi a.m.k. að einhverju leyti grunað hvernig í pottinn var búið með fjármál Sverris Þórs er Sverrir Þór, samstarfsmaður hans í fyrirtækinu, greiðir án fyrirvara töluverða fjárhæð í hans þágu til kaupa á margvíslegum heimilistækjum. Verður þetta einnig að skoðast í ljósi þess að ákærði Geir vissi þó vel að fjárhagur Rimax ehf. var bágur og fyrirtækið var í greiðsluvandræðum, enda átti hann inni laun hjá fyrirtækinu og mátti hann ætla að svo háttaði einnig til hjá Sverri Þór sem eins og hann var orðinn einn af þremur eigendum fyrirtækisins og jafnframt almennur starfsmaður þess.
Þrátt fyrir framanritað þykir dóminum, með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, varhugavert að fullyrða að ákærða Geir hafi verið fulljóst að Sverrir Þór væri þarna að nota ágóða af fíkniefnaviðskiptum. Það mat styður sú staðreynd að í þessu tilviki var ekki um að ræða greiðslu í reiðufé frá Sverri Þór heldur gaf hann út ávísun af tékkareikningi sínum. Þrátt fyrir þetta eina atriði telst af öllu framanrituðu sannað að ákærða Geir mátti vera það ljóst að Sverrir Þór hafði tekjur af fíkniefnasölu. Mátti hann því einnig vita að greiðsla sú er Sverrir Þór reiddi fram í greint sinn væri hluti af ávinningi fíkniefnaviðskipta hans. Samkvæmt þessu er rétt að heimfæra þessa háttsemi ákærða undir 1. sbr. 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var vörn ekki áfátt þess vegna þar sem málið var sérstaklega flutt m. t. t. möguleika á þessari heimfærslu til refsiákvæða.
Ákæruliður IV
Þáttur ákærða Egils Ragnars Guðjohnsen
Af framburði ákærða Egils Ragnars Guðjohnsen, vitnisins Sverris Þórs Gunnarssonar og öðrum gögnum málsins er upplýst að sá síðarnefndi kom til hins fyrrnefnda á tannlæknastofu hans í byrjun septembermánaðar 1999. Skildi hann þar eftir 4.150.000 krónur í peningum vöfðum að stærstum hluta inn í sellofónplast. Mun Sverrir Þór hafa verið undir áhrifum fíkniefna greint sinn og hefur ákærði Egill haldið því fram að hann hafi m.a. þess vegna neitað að veita peningunum viðtöku. Af því sem þegar er rakið undir öðrum ákæruliðum telst einnig sannað að umræddir peningar hafi a.m.k. að mestu leyti verið komnir til vegna fíkniefnaviðskipta Sverris Þórs Gunnarssonar.
Eins og rakið hefur verið undir ákærulið I hafði ákærði Egill verið í umtalsverðum fíkniefnaviðskiptum við Sverrir Þór Gunnarsson um alllanga hríð áður en atvik þau verða sem ákært er fyrir í þessum hluta ákæru. Þá er sannað að í byrjun maí 1999 þvætti ákærði Egill ágóða Sverris Þórs af fíkniefnasölu, samanber umfjöllun um ákærulið II.
Framburður ákærða Egils um tilurð peninganna var einnig að nokkru óstöðugur. Við fyrstu yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði hann sök. Við síðari yfirheyrslur talaði hann fyrst um að peningarnir hefðu verið endanleg greiðsla Sverris Þórs fyrir allan sinn hlut í Rimax ehf. Síðar kom hins vegar fram hjá honum að um hefði verið að ræða greiðslu Sverris Þórs til kaupa á vél til pökkunar á kjöti en að Sverrir Þór hefði neitað að taka við peningunum, m.a. þar sem búið hefði verið að útvega fjármagn til kaupa á vélinni. Eigi að síður hefði Sverrir Þór skilið peningana eftir hjá sér í óþökk sinni og kvaðst ákærði Egill raunar ekki hafa talið peningana. Þrátt fyrir þetta tók ákærði Egill hluta af peningunum og notaði í eigin þágu. Ákærði Egill hélt því að lokum fram við aðalmeðferð málsins að hann hefði ekki ætlað sér peningana, en í ljósi þess gat hann ekki gefið vitræna skýringu á því háttalagi sínu að leita aðstoðar lögmanns, meðákærða Sigurðar, um að gera uppkast að samningi að því er virðist í þeim tilgangi að sýna fram á að umrædd fjárhæð væri tilkomin vegna lögmætra viðskipta, þ.e. kaupa Sverris Þórs á öllum hlutum ákærða Egils í Rimax ehf. Þá er upplýst með framburði ákærðu beggja að á fundi þeirra hinn 16. september 1999 skýrði ákærði Egill ranglega frá tilkomu peninganna og sagði að um væri að ræða greiðslu vegna kaupa Sverris Þórs á sínum hluta í Rimax ehf. Ekki er marktæk skýring ákærða Egils á þessu háttalagi sínu og hvers vegna hann bað meðákærða Sigurð að gera uppkast að kaupsamningi, sérstaklega þegar haft er í huga að ákærði Egill hefur viðurkennt að hafa á þeirri stundu grunað að peningarnir væru tilkomnir vegna fíkniefnaviðskipta. Þá er framburður ákærða Egils um samskipti sín við meðákærða Sigurð nokkuð á reiki, þar sem hann segir hjá lögreglu að meðákærði Sigurður hafi lagt fyrir hann að geyma uppkast af samningnum á heimili sínu í þeim tilgangi að lögreglan fyndi hann við húsleit, en ákærði Egill dró síðar þennan framburð sinn til baka með þeirri skýringu einni að við yfirheyrsluna hefði lögregla ekki bókað rétt eftir sér. Ákærði Egill var þó með verjanda sér við hlið er hann gaf þessa skýrslu hjá lögreglu. Þegar litið er til alls þessa verður ekki fallist á þá viðbáru ákærða Egils að honum hafi verið ókunnugt um hvaðan umræddir peningar voru komnir er hann tók við þeim.
Af því sem rakið hefur verið er sannað að ákærði Egill hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og réttilega er færð til refsiákvæða.
Þáttur ákærða Sigurðar Guðmundssonar
Ákærðu Egill og Sigurður eru einir til frásagnar um hvað fram fór á fundi þeirra hinn 16. september 1999. Af framburði þeirra er sýnt að þeir þekktust nokkuð, þótt ekki hafi verið um náinn vinskap að ræða. Af framburðinum verður ekki annað ráðið en að ákærði Sigurður hafi lítið þekkt til starfsemi Rimax ehf. og að hann hafi ekki haft grun um fíkniefnaneyslu meðákærða Egils.
Eins og fram er komið hefur framburður meðákærða Egils verið afar reikull, m.a. um fund ákærðu hinn 16. september 1999 og stangast nokkuð á við framburð ákærða Sigurðar. Hins vegar hefur framburður ákærða Sigurðar verið í góðu samræmi alla meðferð málsins og verður þess vegna við hann að miða þegar ósamræmis gætir milli framburðar þeirra.
Fram er komið í málinu að meðákærði Egill hafði áður leitað til ákærða Sigurðar um lögmannsaðstoð. Meðal annars hafði ákærði Sigurður nokkrum árum áður gert kaupmála fyrir meðákærða og eiginkonu hans. Þá hafði ákærði Sigurður gætt hagsmuna meðákærða Egils vegna kæru um of hraðan akstur. Einnig hafði ákærði Sigurður gefið meðákærða Agli ráð um stofnun á hlutafélögum, útbúið samstarfsyfirlýsingu milli Rimax ehf. og Bónuss hf. og gert drög að samningi meðákærða um sölu á Rimax ehf. til ónafngreinds aðila. Ákærði Sigurður ber að á fundi þeirra hinn 16. september 1999 hafi meðákærði Egill skýrt sér frá því að ekkert hefði orðið úr framangreindri sölu á fyrirtækinu en sagt ákærða Sigurði að honum hefði nú tekist að selja fyrirtækið. Greitt hefði verið fyrir það með yfirtöku skulda og með reiðufé sem væri geymt í bankahólfi hans. Þá bera þeir báðir að meðákærði Egill hafi sagt ákærða Sigurði að kaupandi fyrirtækisins hafi verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn fíkniefnamáls.
Vegna þessara upplýsinga var ákærða Sigurði rétt, sem lögmanni, að hafa varan á í samskiptum sínum við meðákærða Egil. Hins vegar má líta til þess að báðir bera þeir að ákærði Sigurður hafi á fundi þeirra skýrt út fyrir meðákærða þýðingu gæsluvarðhalds. Þá verður samkvæmt framansögðu að miða við þann framburð ákærða Sigurðar að hann hafi ítrekað ráðlagt meðákærða Agli að skýra lögreglu frá málum og meðákærði sagst myndu gera það um leið og hann fengi einhverja staðfestingu á því að um alvarlegt mál væri að ræða. Í þessu sambandi hefði meðákærði Egill einnig sagt að sér fyndist greiðslumátinn ekki vera óeðlilegur meðal annars vegna umfangsmikilla fasteignaviðskipta viðsemjanda hans. Auk þessa væru kaupin um garð gengin og starfsfólki Rimax hf. hefði verið tilkynnt um eigendaskiptin. Í þessu samhengi verður að hafa í huga framburð ákærða Sigurðar um að hann hafi á þessum tíma talið meðákærða Egil vera heiðarlegan mann sem hægt væri að treysta í einu og öllu og hann hafði áður veitt lögfræðilega ráðgjöf. Verða viðbrögð ákærða Sigurðar við óskum meðákærða Egils að skoðast í því ljósi, auk þess sem meðákærði Egill hefur staðfest að hafa gefið ákærða Sigurði villandi upplýsingar um málsatvik. Telur dómurinn því að ákærði Sigurður hafi á þeim tíma mátt standa í þeirri trú að meðákærði Egill væri ekki viðriðinn fíkniefni, enda mun meðákærði Egill ekki hafa sagt ákærða Sigurði mikil deili á Sverri Þór Gunnarssyni og tengslum þeirra tveggja.
Einnig verður að miða við þann framburð ákærða Sigurðar að hann hafi síðar spurt meðákærða hvort hann hefði farið til lögreglu en meðákærði hefði neitað því. Þá hefði hann ítrekað fyrri tilmæli sín í þessa veru.
Ekki er fallist á það með ákæruvaldinu að til sakfellingar horfi að ákærði Sigurður hafi gert samning fyrir meðákærða Egil um kaup á hlutabréfum í Rimax ehf. án þess að vista skjalið í tölvu sinni, en einungis var um að ræða stöðluð drög að kaupsamningi, sem meðákærði Egill sagði ákærða Sigurði að þegar hefði verið gerður munnlega. Var því ekki ætlunin að ákærði Sigurður gerði tillögur um efni samningsins. Í tilvikum sem þessum telst hvorki óeðlileg né óvanaleg sú aðferð lögmanns að nota til hægðarauka uppkast að eldra skjali er varðar sambærileg lögskipti. Er fallist á það með verjanda að tilgangur vistunar skjals í tölvu sé oft einungis sá að vinna í skjalinu síðar, en það hafi ekki verið ætlunin í þessu tilviki. Horfa verður og til þess að meðákærði Egill hefur dregið til baka þann framburð sinn hjá lögreglu að ákærði Sigurður hafi sérstaklega ráðlagt sér að geyma samningsdrögin á heimili sínu svo lögregla fyndi þau við húsleit.
Ekki er heldur fallist á það með ákæruvaldinu að með viðtöku ákærða Sigurðar á lykli að bankahólfi því þar sem peningarnir voru geymdir, hafi hann fengið peningana í sínar vörslur, enda upplýst að sú athöfn ein og sér leiðir ekki til þess að ákærði Sigurður hefði getað nálgast peningana. Samkvæmt framlögðum reglum um bankahólf var það einungis á valdi meðákærða Egils og eiginkonu hans og teljast peningarnir því enn hafa verið í umsjá ákærða Egils. Verður miðað við skýringar ákærða Sigurðar á því hvers vegna hann hafi talið rétt sem lögmaður ákærða Egils að taka við lykli að geymsluhólfi og geyma í sérstaklega merktu umslagi í traustri geymslu á lögmannstofu sinni. Samkvæmt framanrituðu verður og að miða við þann framburð ákærða Sigurðar að hann hafi sagt meðákærða Agli að láta lögreglu vita um fund þeirra og geymslu lykilsins.
Að öllu þessu virtu verður ekki vefengd sú fullyrðing ákærða Sigurðar að hann hafi talið sig sinna skyldum sínum sem lögfræðilegur ráðunautur meðákærða Egils og veitt honum ráð og aðstoð sem slíkur en á grundvelli rangra upplýsinga frá meðákærða Agli. Hafi ákærði Sigurður reynt að komast til botns í málinu með því að spyrja meðákærða Egil um málsatvik, en miða verður við þann framburð ákærða Sigurðar að hann hafi ítrekað gefið meðákærða Agli þau ráð að tilkynna lögreglu um viðskipti sín við Sverri Þór, enda hafi ákærði Sigurður hvorki talið né mátt telja meðákærða Egil vera viðriðinn brotastarfsemi. Þrátt fyrir það að gera verði ríkar kröfur til lögmanna um aðgæslu þegar grunur kemur upp um brotastarfsemi, þá er til þess að líta að ósannað er að ákærði Sigurður tengist brotinu á nokkurn annan hátt en þann sem hér hefur verið lýst. Telst aðkoma ákærða Sigurðar að máli þessu því ekki vera brot gegn hegningarlögum og ber að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Refsiákvörðun
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni og 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997. Samkvæmt sakavottorði ákærða var honum á árinu 1979 gert að greiða sekt vegna umferðarlagabrots. Við ákvörðun refsingar ákærða Egils er litið til þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar í þessu máli. Hins vegar ber að hafa í huga að brot hans varða umtalsvert magn kókaíns og peningaþvætti á verulegum fjárhæðum komnum til vegna fíkniefnaviðskipta. Sami refsirammi er við brotum gegn 1. mgr, sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og gildir um fíkniefnabrot samkvæmt 173. gr. a
Refsing ákærða Egils er ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 11. október 1999 til 19. október 1999.
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. sbr. 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann á tímabilinu 1985 til 1995 alls níu sinnum hlotið refsingar fyrir umferðarlagabrot, en síðast var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi. Þar sem nokkuð er um liðið frá brotum hans og um óskyld brot er að ræða hefur þessi sakarferill ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú.
Refsing ákærða Geirs ákveðst 200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 35 daga.
Kröfur um upptöku
Upptaka í tengslum við lið II í ákæru
Gerð er krafa um að ákærðu verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á 2 milljónum króna hjá Agli Ragnars Guðjohnsen, Geir Hlöðver Ericssyni og Rimax ehf. nú Blásúlum ehf., aðallega in solidum, en til vara pro rata að mati dómsins.
Kröfu um upptöku er beint gegn ákærðu Agli og Geir Hlöðver ásamt Rimax ehf. nú Blásúlum ehf. Krafan er aðallega um upptöku á jafnvirði 2.000.000 króna á hendur þessum aðilum in solidum en pro rata til vara.
Dómurinn telur að ekki verði fallist á að heimild sé til upptöku in solidum í því tilviki sem hér er til meðferðar. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og því ákvæði hefur verið breytt, má gera upptæka muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti, eða jafnvirði þessa. Með vísan til þess skal ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen sæta upptöku á jafnvirði 1.000.000 króna og Rimax ehf. nú Blásúlur ehf. á jafnvirði 1.000.000 króna.
Upptaka í tengslum við III. lið ákæru
Eftir úrslitum málsins og með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940 verður fallist á kröfu um upptöku hjá ákærða Geir Hlöðver Ericssyni á eftirtöldum munum sem lögregla lagði hald á hjá honum hinn 21. október 1999: Whirlpool kæliskáp, Whirlpool uppþvottavél, Philips 32” litsjónvarpi, Philips myndbandstæki og sjónvarpsskáp.
Sakarkostnaður
Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen greiða verjanda sínum, Ásgeiri Þór Árnasyni hæstaréttarlögmanni, 700.000 krónur í málsvarnarlaun. Ákærði Geir Hlöðver Ericsson skal greiða verjanda sínum, Tómasi Jónssyni hæstaréttarlögmanni, 400.000 krónur í málsvarnarlaun. Hefur þá verið tekið tillit til starfa lögmannanna við rannsókn málsins hjá lögreglu.
Eftir úrslitum málsins og með vísan til 3. mgr. 165. gr. og 166. gr. sömu laga skal ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen greiða helming almenns sakarkostnaðar, ákærði Geir Hlöðver Ericsson ¼ hluta, en ¼ hluti sakarkostnaðar fellur á ríkissjóð, svo og málsvarnarlaun verjanda ákærða Sigurðar Guðmundssonar, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Jón H. Snorrason saksóknari.
Héraðsdómararnir Hjördís Hákonardóttir, Finnur Torfi Hjörleifsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson kváðu upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen sæti fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 11. október 1999 til 19. október sama ár.
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson greiði 200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 35 daga.
Ákærði Sigurður Guðmundsson skal vera sýkn saka í máli þessu.
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 1.000.000 króna.
Rimax ehf. nú Blásúlur ehf. sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 1.000.000 króna.
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson sæti upptöku á eftirtöldum munum sem lögregla lagði hald á hjá honum hinn 21. október 1999:
-Whirlpool kæliskáp
-Whirlpool uppþvottavél
-Philips 32” litsjónvarpi
-Philips myndbandstæki
-sjónvarpsskáp
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen skal greiða verjanda sínum Ásgeiri Þór Árnasyni hæstaréttarlögmanni 700.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Geir Hlöðver Ericsson skal greiða verjanda sínum Tómasi Jónssyni hæstaréttarlögmanni 400.000 krónur í málsvarnarlaun.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða Sigurðar Guðmundssonar, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur, skulu greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Egill Ragnars Guðjohnsen greiði helming annars sakarkostnaðar, ákærði Geir Hlöðver Ericsson greiði ¼ hluta en ¼ hluti fellur á ríkissjóð.