Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-86

Goldman Sachs International (Heiðar Ásberg Atlason lögmaður)
gegn
LBI ehf. (Pétur Örn Sverrisson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Afleiðusamningur
  • Gjaldmiðlar
  • Gengi
  • Erlend réttarregla
  • Lagaskil
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 26. febrúar 2019 leitar Goldman Sachs International leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í málinu nr. 734/2018: LBI ehf. gegn Goldman Sachs International, á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með beiðni 6. mars 2019 leitar LBI ehf. jafnframt leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðandans Goldman Sachs International um að krafa hans, aðallega að fjárhæð 37.885.508,57 bandaríkjadalir en til vara 30.316.201,99 bandaríkjadalir, verði viðurkennd við slit á LBI ehf., áður Landsbanka Íslands hf. Krafan lýtur að uppgjöri nítján afleiðusamninga sem aðilarnir gerðu á árinu 2008. Mun vera óumdeilt að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008 um að setja skilnefnd yfir Landsbanka Íslands hf. hafi leitt af sér vanefnd á samningunum og heimilað leyfisbeiðanda Goldman Sachs International að rifta þeim og reikna út tap sitt vegna vanefndanna. Í meginatriðum lýtur ágreiningur aðilanna annars vegar að því hvaða gengi gjaldmiðla hafi átt að leggja til grundvallar við útreikning á tapinu og hins vegar hvort jafna hafi átt út greiðslum milli samninganna.

Í úrskurði héraðsdóms var krafa leyfisbeiðandans Goldman Sachs International viðurkennd með fjárhæðinni 30.256.237 bandaríkjadalir. Byggði sú niðurstaða á því að þeim leyfisbeiðanda hafi verið skylt að jafna út greiðslum milli fimm nánar tilgreindra samninga en ekki í öðrum tilvikum. Þá taldi Landsréttur að þótt aðilarnir hafi samið um að ensk lög ættu að gilda um samningssamband sitt lægi ekkert fyrir um hvaða regla ætti að gilda um gengisviðmiðun við slíkar aðstæður og væri heldur ekkert vikið að því í samningum aðilanna. Yrði því samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar að beita 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands sem teldist ófrávíkjanleg regla að þessu leyti. Samkvæmt því hafi leyfisbeiðanda Goldman Sachs International borið að reikna út tap sitt vegna allra samninganna eftir birtu gengi Seðlabanka Íslands þann dag sem uppgjör þeirra skyldi miðað við. Var krafa hans því viðurkennd með fjárhæðinni 24.644.429 bandaríkjadalir.

Leyfisbeiðandinn Goldman Sachs International byggir í fyrsta lagi á því að úrskurður Landsréttur sé bersýnilega rangur að efni til með því að þar hafi 19. gr. laga nr. 36/2001 ranglega verið lögð til grundvallar við úrlausn á ágreiningi aðila um hvaða gengi hafi borið að miða uppgjör samninganna við. Í öðru lagi vísar leyfisbeiðandinn til þess að málið varði mikilsverða almannahagsmuni þar sem það gæti leitt til víðtækrar endurupptöku á slitameðferð Landsbanka Íslands hf. ef úrskurður Landsréttar yrði látinn standa óraskaður. Þá bendir leyfisbeiðandinn í þriðja lagi á að dómur Hæstaréttar í málinu hefði verulegt fordæmisgildi, einkum um skýringu á hugtakinu  „ófrávíkjanlegar reglur“ í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/2000.

Leyfisbeiðandinn LBI ehf. telur að í málinu séu ekki uppfyllt skilyrði fyrir kæruleyfi samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Verði það hinn bóginn veitt leiti hann einnig kæruleyfis fyrir sitt leyti til að fá leyst úr aðalkröfu sinni um að kröfum gagnaðila síns verði með öllu hafnað. Vísar leyfisbeiðandinn þá meðal annars til þess að það geti haft verulegt fordæmisgildi í skilningi framangreinds ákvæðis hvort minni kröfur verði gerðar um sönnun krafna sem lýst er við slitameðferð ef svo háttar til að um efnisrétt að baki þeim gildi erlendar réttarreglur.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða að úrlausn þess hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram fyrri dómsúrlausnir þannig að uppfyllt séu skilyrði 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er því hafnað umsókn leyfisbeiðandans Goldman Sachs International um kæruleyfi og þar með einnig umsókn leyfisbeiðandans LBI ehf.