Hæstiréttur íslands

Mál nr. 268/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Mánudaginn 19. maí 2008.

Nr. 268/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. ágúst 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið kynferðisbrot sem eru þess eðlis að gæsluvarðhald yfir honum sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Hins vegar hefur ekki verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila vegna þessara ætluðu brota. Í því ljósi þykir ekki unnt á þessu stigi að fallast á að gæsluvarðhaldinu verði markaður sá tími sem ætla megi að taki að reka mál þetta fyrir héraðsdómi. Fyrir liggur að málið verður sent ríkissaksóknara til ákvörðunar í júní. Að þessu gættu er fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi er verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

       Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 7. júlí 2008 kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að X, kt. [...], [heimilisfang], verði með úrskurði gert að sæta  gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. ágúst  nk. kl. 16:00.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður styttri tími.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 201. gr., 1. mgr. 202. gr., 1. mgr. 194. gr., 209. gr. og 3. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að barnaverndaryfirvöld hafi frá árinu 2004 nokkrum sinnum haft til athugunar mál systranna A, f. 1998, B, f. 1994 og C, f. 1996 vegna uppeldisaðstæðna þeirra. Fimm barnaverndartilkynningar hafi borist á árunum 2004 til 2007. Grunsemdir hafi verið um óviðeigandi og refsiverða kynferðislega hegðun kærða gagnvart dætrum sínum og vörslu klámefnis en vegna takmarkaðra upplýsinga hafi ekki verið gripið til aðgerða af hálfu yfirvalda fyrr en nú. Hinn 19. febrúar sl. hafi borist tilkynning um meint refsivert athæfi kærða gagnvart telpu sem hafi verið tíður gestur á heimili kærða. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að fram færi könnunarviðtal við telpuna í Barnahúsi. Í framhaldi af því hafi farið fram viðtöl við systurnar þrjár og hafi komið fram sterkur  grunur um að kærði beitti þær kynferðislegu ofbeldi og viðhefði aðrar kynlífsathafnir. Kærði hafi játað hjá lögreglu að hann gangi oft nakinn um heimili sitt, ekki einungis þegar heimilisfólk sé viðstatt, heldur einnig þegar vinkonur dætra hans séu í heimsókn. Þá hafi hann jafnframt viðurkennt að hafa viðhaft ýmsar kynferðislegar athafnir í ásýnd barna og fróað sér í viðurvist dætra sinna. Þá telur lögreglan ennfremur að kominn sé fram sterkur rökstuddur grunur um að kærði hafi látið stjúpdóttur sína um árabil þola kynferðislega nauðung sem meðal annars hafi gengið út á að neyða hana til kynmaka við sig. Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu 2. apríl sl. hafi kærði neitað sök.  Hann hafi verið yfirheyrður hjá lögreglu 4. apríl sl. og þá hafi hann breytt framburði sínum og játað það sem að framan greinir að undanskyldu því að hafa haft kynmök við stjúpdóttur sína.  Í þessari yfirheyrslu hafi hann jafnframt játað ítrekuð brot sín gagnvart telpu sem hafi verið gestkomandi á heimilinu.  Að mati lögreglu hafi kærði lýst kenndum sínum sem lögreglan telji vera barnagirnd.

Við rannsókn tölvudeildar á tölvugögnum kærða hafi fundist talsvert magn af barnaklámi, þ.á m. ljósmyndir af dætrum hans.  Hinn 23. apríl sl. og 8. maí sl. hafi verið lagðar fram kærur á hendur kærða fyrir blygðunarsemisbrot gegn tveimur vinkonum dætra hans.  Önnur stúlkan hafi greint frá því að kærði hafi lagst allsnakinn við hlið hennar og hún fundið fyrir lim hans.  Hinn 25. apríl sl. hafi sonur kærða frá fyrra hjónabandi lagt fram kæru á hendur honum fyrir grófa kynferðislega misnotkun sem átt hafi sér stað er hann hafi verið drengur.  Hálfsystir kærða hafi einnig lagt fram kæru  á hendur honum 29. apríl sl. fyrir kynferðisbrot gegn sér í æsku.  Þessi brot séu hins vegar fyrnd. Rannsókn mála á hendur kærða sé mislangt á veg komin.  Rannsókn flestra þeirra  sé þó lokið eða við það að ljúka.  Kærði hafi samþykkt að gangast undir sálfræðimat og sé sú vinna langt á veg komin.

Lögreglustjórinn kveðst byggja kröfu sína á að almannahagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram. Sterkur rökstuddur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um þau brot sem hann hafi verið kærður fyrir.  Brot hans geti varðað við 1. mgr. 201., gr. 1. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar stjúpdóttur hans.  Ætlað brot gegn 1. mgr. 194. gr. geti varðað allt að 16 ára fangelsi.  Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar fullvíst sé talið að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum séu gefin að sök.  Eins og fram komi í gögnum málsins hafi kærði ítrekað reynt að réttlæta brot sín. Megi því ætla að hann sé sjúkur maður sem beri ekki skynbragð á gjörðir sínar.  Það myndi stríða gegn réttarvitund almennings ef slíkur maður gengi laus meðan mál hans er til meðferðar.

Er fulltrúi lögreglustjóra gerði grein fyrir kröfunni fyrir dómi kom m.a. fram að stefnt væri að því að ljúka rannsókn málsins í þessum mánuði og senda málið til ákvörðunar ríkissaksóknara í byrjun júní.            

Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem þung fangelsisrefsing er lögð við samkvæmt 1. mgr. 201. gr., 1. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Verður talið að meint brot séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.  Þá er einnig að líta til þess að rannsókn málsins hefur  verið umfangsmikil en miðað vel áfram.  Málið verður sent ríkissaksóknara til ákvörðunar í byrjun júní.  Krafa lögreglustjórans er að gæsluvarðhaldið standi allt til 13. ágúst 2008.  Verður fallist á að það sé raunhæfur tími sem ætla megi að taki að reka mál sem þetta fyrir héraðsdómi, miðað við að ákæra verði gefin út í júní.  Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er því fullnægt til að gæsluvarðhaldi verði beitt og verður því krafa lögreglustjórans tekin til greina eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. ágúst nk. kl. 16:00.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. ágúst nk. kl. 16:00.