Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/1998
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ítrekun
- Skilorð
|
|
|
Fimmtudaginn 18. febrúar 1999. |
|
Nr. 395/1998: |
|
Ákæruvaldið |
|
|
|
(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) |
|
|
|
gegn |
|
|
|
Magnúsi Helga Kristjánssyni |
|
|
|
(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Skilorð.
M var ákærður fyrir þjófnað og var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu staðfest. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að með brotinu rauf M skilyrði reynslulausnar, um ítrekað brot var að ræða og andvirði þýfisins var mjög lítið. M var dæmdur til fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.
Í héraðsdómi er greint frá sakaferli ákærða, svo og því að með broti sínu nú rauf hann skilyrði reynslulausnar í tvö ár frá 29. september 1997 að telja á 360 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt fjórum nánar tilteknum dómum. Auk annars þess, sem getið er í héraðsdómi varðandi ákvörðun refsingar nú, verður að gæta að ákvæði 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, jafnframt því að líta til þess að brot ákærða beindist að varningi aðeins að andvirði 4.068 krónur. Að teknu tilliti til alls þessa og ákvæðis 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um refsingu ákærða.
Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Magnús Helgi Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Héraðsdómur Reykjavíkur 26. ágúst 1998.
Ár 1998, miðvikudaginn 26. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 284/1998: Ákæruvaldið gegn Magnúsi Helga Kristjánssyni sem tekið var til dóms 5. ágúst sl.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 17. mars sl. á hendur ákærða, Magnúsi Helga Kristjánssyni, kt. 030555-5979, Lambhóli við Starhaga, Reykjavík, „fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 22. febrúar 1998 stolið 2 lambalærum, að verðmæti samtals kr. 4.068, úr versluninni Nóatúni, Laugavegi 116, Reykjavík.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Málavextir:
Sunnudaginn 22. febrúar sl., laust fyrir kl. 19, veittu lögreglumenn í Reykjavík sem voru í eftirlitsferð um Laugaveg því athygli, er þeir voru staddir á móts við verslun Nóatúns, að tveir starfsmenn verslunarinnar voru að reyna að halda manni. Við nánari athugun kom í ljós að starfsmennirnir grunuðu manninn um þjófnað og voru að reyna að halda honum vegna þess. Færðu lögreglumennirnir hinn grunaða, ákærða í máli þessu, í lögreglubifreið meðan rætt var við starfsmennina.
Í samtali við annan þeirra, Rúnar Örn Kristinsson, kom fram að hann hefði verið við afgreiðslukassa þegar maðurinn kom gangandi að honum. Kvaðst hann hafa séð að maðurinn var með eitthvað innan á sér og beint til hans orðum. Hafi maðurinn ekkert viljað við hann tala og gengið fram hjá afgreiðslukassanum, áleiðis út úr versluninni. Kvaðst Rúnar Örn þá hafa farið á eftir manninum og annar starfsmaður verslunarinnar, Davíð Þór að nafni, komið sér til hjálpar við að stöðva manninn. Þegar þeir voru að ræða við manninn hafi þeir séð að hann hafði stungið inn á sig tveimur lambalærum og er þeir tóku þau af honum hafi hann brugðist reiður við og ruðst út úr versluninni og þeir hangandi á honum. Í þann mund sem það átti sér stað hafi lögregla komið að.
Í samtali lögreglumannanna við ákærða kvaðst hann ekki hafa neytt matar í þrjá daga og væri aðframkominn af hungri. Hefði hann stolið matnum sökum þess hve svangur hann væri. Var ákærði, sem var mjög ölvaður, færður á lögreglustöð og þar í fangaklefa. Kjötlæri þau sem um ræðir voru SS lambalæri að verðmæti 1.853 krónur og Mexico lambalæri að verðmæti 2.215 krónur.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu. Kvaðst hann sökum ölvunar ekkert muna eftir atvikum og gæti því ekki tjáð sig um sakarefnið.
Við meðferð málsins neitaði ákærði sakargiftum og kvaðst ekki hafa gerst sekur um þjófnað á tveimur lambalærum úr versluninni Nóatúni, Laugavegi 116 hér í borg, sunnudaginn 22. febrúar sl. Kvað hann sig ekki reka minni til að hafa komið inn í umrædda verslun milli kl. 18 og 19 umræddan dag.
Ákærði kvaðst muna að hafa lent í rifrildi við strák í versluninni Nóatúni við Hlemm, en hvenær það var myndi hann ekki. Þá kvaðst hann ekki muna um hvað rifrildi þeirra snerist. Ákærði kvaðst muna að greint sinn hafi hann verið ölvaður.
Vitnið Rúnar Örn Kristinsson, kt. 060680-3539, skýrði svo frá við meðferð málsins að greint sinn hafi hann verið við afgreiðslukassa í versluninni er hann hafi séð mann koma gangandi fram hjá afgreiðslukassanum. Kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að framan á manninum var stærðarinnar bunga. Vitnið kvaðst hafa stöðvað manninn og spurt hann hvað hann væri með innan á sér. Jafnframt hafi hann ýtt á hnapp, sem geri það að verkum að bjalla hringir á lager verslunarinnar. Þá hafi vinnufélagi hans, Davíð Þór Ágústsson, komið fram til vitnisins og saman hafi þeir leitað á manninum. Við þá leit hafi komið í ljós að maðurinn var með eitt lambalæri. Þeir hafi síðan spurt manninn hvort hann væri með eitthvað meira innan á sér, en því hafi hann svarað neitandi. Þá hafi þeir þreifað utan á jakka hans til að kanna hvort hann væri með eitthvað annað á sér og hafi komið í ljós annað lambalæri, falið innan klæða við vinstri öxl mannsins. Í framhaldi af þessu kvaðst vitnið hafa beðið Davíð Þór að hringja í lögregluna, en sjálfur hafi hann staðið í útidyrunum til að aftra því að maðurinn kæmist út. Eftir nokkra stund hafi maðurinn ruðst fram hjá vitninu, en vitnið kvaðst hafa hangið í manninum og reynt að koma í veg fyrir að hann kæmist út. Í þeim svifum hafi Davíð Þór komið og hafi þeim tekist að stöðva manninn upp við glugga á veitingastaðnum Keisaranum. Lögreglumenn hafi svo komið 3-5 mínútum síðar og þeir Davíð Þór skýrt þeim frá málavöxtum.
Vitnið kvað manninn hafa verið kominn svo til að útgöngudyrum verslunarinnar þegar hann var stöðvaður. Þá kvað vitnið manninn ekki hafa greitt fyrir lambalærin. Kvaðst vitnið hafa verið eitt við afgreiðslukassann þegar maðurinn gekk þar framhjá. Eftir að lögregla kom á vettvang hafi fjórir lögreglumenn komið út úr lögreglubifreiðinni og fært manninn í hana, en síðan hafi tveir lögreglumannanna komið inn í verslunina, þar sem þeir Davíð Þór hafi sýnt þeim lambalærin og lögreglumennirnir skráð hjá sér verð þeirra.
Vitnið kvaðst kannast við umræddan mann og hafa séð hann nokkrum sinnum í versluninni áður en þetta atvik átti sér stað, en einnig margsinnis fyrir utan verslunina. Bar vitnið kennsl á ákærða í dóminum.
Vitnið Davíð Þór Ágústsson, kt. 270180-3969, skýrði svo frá við meðferð málsins að þeir Rúnar Örn hefðu verið tveir við störf í verslun Nóatúns við Hlemm síðdegis 22. febrúar sl. Tveir afgreiðslukassar hefðu verið í notkun í versluninni og þeir Rúnar Örn verið í námunda við kassana þegar vitnið sá mann ganga fram hjá einum kassanna. Kvaðst vitnið hafa spurt manninn hvort hann væri með eitthvað sem hann hefði gleymt að borga fyrir. Ástæða þess að vitnið spurði manninn þessarar spurningar væri að vitnið hefði fylgst með manninum inni í versluninni stinga inn á sig tveimur lambalærum. Sem fyrr segir hafi maðurinn gengið fram hjá afgreiðslukössunum án þess að greiða og í framhaldi af því hafi vitnið spurt manninn framangreindrar spurningar og um leið gengið í veg fyrir hann. Þeir Rúnar Örn hafi síðan leitað á manninum og þá hafi komið í ljós að hann hafði falið innan á sér tvö lambalæri. Annað í hægri eða vinstri úlpuermi við öxl, en hitt hafi verið falið í buxnastrengnum að framanverðu. Kvaðst vitnið að svo búnu hafa farið inn á skrifstofu verslunarinnar og hringt í lögregluna, en meðan vitnið var að ræða við lögreglu hafi Rúnar Örn kallað til vitnisins og beðið það að koma til sín. Tók vitnið fram að það hafi ekki verið búið að ljúka samtalinu þegar Rúnar Örn kallaði og kvaðst vitnið hafa beðið lögreglumanninn að bíða, en að svo búnu hafi vitnið hlaupið til Rúnars Arnar. Þá hafi Rúnar Örn og maðurinn verið komnir út á stétt fyrir utan verslunina. Vitnið kvaðst hafa séð að maðurinn var að reyna að komast undan og að Rúnar hélt í úlpu mannsins. Kvaðst vitnið hafa komið Rúnari Erni til aðstoðar og hafi þeim tekist að stöðva manninn upp við rúðu á versluninni og hafi þeir haldið manninum um stund uns lögregla kom á vettvang. Lögreglumennirnir hafi handtekið manninn og fært í lögreglubifreið. Minnti vitnið að lögreglumennirnir hefðu verið fleiri en tveir. Þá minnti vitnið að tveir lögreglumenn hefðu komið með þeim Rúnari Erni inn í verslunina og tekið af þeim skýrslu. Einnig hafi þeir skráð niður verð hvors lambalæris um sig.
Vitnið kannaðist við í dóminum og bar kennsl á ákærða sem þann mann sem um ræðir í málinu. Þá kvað vitnið ákærða hafa verið kominn fram hjá afgreiðslukössunum og á leið út úr versluninni þegar hann var stöðvaður. Þar hafi þeir Rúnar tekið af honum lambalærin. Sömuleiðis kvað vitnið það liggja ljóst fyrir að ákærði hefði ekki greitt fyrir lambalærin og að hann hefði reynt að flýja af vettvangi. Þá kvað vitnið þá Rúnar Örn hafa gengið í veg fyrir ákærða og stöðvað hann. Lambalærin hafi verið í lofttæmdum umbúðum og myndi hann að þau hefðu ekki verið sömu tegundar. Loks kvað vitnið ákærða áreiðanlega hafa verið undir áhrifum áfengis greint sinn.
Niðurstaða:
Vitnin Rúnar Örn Kristinsson og Davíð Þór Ágústsson eru samsaga um að greint sinn hafi ákærði verið með eitthvað falið innan á sér þegar hann gekk fram hjá afgreiðslukössum verslunarinnar, en við leit vitnanna á ákærða reyndust það vera tvö lambalæri. Bera bæði vitnin að ákærði hafi bersýnilega ekki ætlað að greiða fyrir lambalærin, heldur haft í hyggju að komast með þau út úr versluninni. Telur dómurinn sannað með þessum framburði vitnanna, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Hefur ákærði með þessu atferli sínu brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði á langan sakaferil að baki. Á árunum 1972 til 1980 var hann níu sinnum dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot og brot gegn umferðarlögum og nam samanlögð óskilorðsbundin refsivist hans 2 árum og 3 mánuðum. Þá gekkst ákærði á þessu tímabili jafnoft undir sektargreiðslur fyrir ýmis brot, m.a. gegn fíkniefnalöggjöfinni. Frá 1981 til 1991 varð hlé á lögbrotum af hálfu ákærða, en á árinu 1992 gekkst hann fjórum sinnum með sátt undir að greiða sektir, fyrst 31. janúar fyrir ölvunarakstur og var þá sviptur ökuleyfi í 18 mánuði, næst 21. maí fyrir ölvunarakstur og auk þess brot á 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og var sviptur ökurétti í 3 ár. Þann 16. júní og 18. ágúst gekkst ákærði undir að greiða sektir fyrir að aka sviptur ökurétti. Hinn 12. apríl 1994 var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 1 ár, fyrir fíkniefnalagabrot, sem ákærði framdi í janúar 1986. Þá var ákærði dæmdur 27. maí 1994 í 20 mánaða fangelsi, þar af 18 mánuði skilorðsbundna í 1 ár, fyrir að aka sviptur ökurétti í júní 1992 og fyrir að aka ölvaður og sviptur ökurétti í mars 1994. Var skilorðsbundna refsing dómsins á undan felld inn í refsinguna. Ákærði var dæmdur í 2 ára fangelsi 19. maí 1995 fyrir líkamsárás (1. mgr. 217. gr. alm. hegningarlaga), nytjastuld og ýmis umferðarlagabrot, m.a. ölvun og réttindaleysi við akstur. Var hann jafnframt sviptur ökurétti ævilangt. Með ölvunar- og sviptingarakstri sínum í því máli og nytjastuldinum rauf hann skilorðshluta dómsins frá 27. maí 1994. Var sá dómur felldur inn í refsinguna. Ákærði hlaut 6 mánaða hegningarauka fyrir þjófnað þann 23. janúar 1996. Þann 30. sama mánaðar hlaut ákærði 4 mánaða hegningarauka fyrir hilmingarbrot. Loks hlaut ákærði 2 mánaða hegningarauka fyrir skjalafals og þjófnað þann 16. apríl 1996. Þann 29. september 1997 var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár á 360 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt fjórum síðastnefndu dómunum.
Með því broti sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, hefur hann rofið skilorð reynslulausnar, sbr. 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955, verður ákærða nú gerð refsing í einu lagi með hliðsjón af þeirri refsivist sem ólokið er og hún tiltekin skv. 77. gr. laganna. Þykir hún, þegar litið er til sakaferils ákærða, hæfilega ákveðin fangelsi í fjórtán mánuði.
Loks ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Magnús Helgi Kristjánsson, sæti fangelsi í 14 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 35.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.