Hæstiréttur íslands

Mál nr. 260/2015

Tryggingamiðstöðin hf. (Valgeir Pálsson hrl.)
gegn
A (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Viðmiðunartekjur
  • Gjafsókn


 

Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Viðmiðunartekjur. Gjafsókn.

A krafðist bóta vegna varanlegrar örorku úr hendi T hf. vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir á sjó. Í málinu var hvorki deilt um bótaskyldu né metna örorku. Voru aðilar auk þess sammála um að beita skyldi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bótanna og stóð ágreiningur þeirra því aðeins um hvort miða bæri útreikninginn við meðallaun verkafólks eða meðallaun starfsmanna við fiskveiðar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði eftir útskrift úr framhaldsskóla unnið hin ýmsu störf, einkum verkamannastörf. Hefði hann aðeins verið tæpra 24 ára gamall á slysdegi og á þeim tíma ekki lagt grunn að sérstakri fagmenntun. Þá hefði hann einungis verið á sjó í um níu mánuði er slysið varð. Talið var að þrátt fyrir að A hefði verið fastráðinn í skiprúm hefði ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að hann hefði lagt fyrir sig sjómennsku ef slysið hefði ekki orðið. Með vísan til þessa væri ekki unnt að fallast á með A að meðaltekjur starfsmanna við fiskveiðar væru tækur mælikvarði á framtíðartekjur hans. Var því talið að T hf. hefði að fullu gert upp við A en ágreiningslaust var í málinu að þær bætur sem T hf. hafði þegar greitt A voru miðaðar við miðgildi heildarlauna verkafólks. Var T hf. því sýknaður af kröfum A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmd fjárhæð verði lækkuð og beri 4,5% ársvexti frá 1. maí 2010 til dómsuppsögudags í Hæstarétti en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í því tilviki krefst hann þess að málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér 38.001.266 krónur, en að því frágengnu 27.579.633 krónur, í báðum tilvikum með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði og að frádregnum greiðslum áfrýjanda 14. febrúar 2012 og 19. nóvember sama ár samtals að fjárhæð 26.724.543 krónur. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar greinir varð stefndi fyrir líkamstjóni í slysi 11. júní 2009 þegar hann var við störf um borð í B sem var í eigu C hf. Í málinu er hvorki ágreiningur um bótaskyldu né metna örorku. Þá eru aðilar sammála um að beita skuli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku stefnda. Ágreiningur þeirra stendur hins vegar um hvort við þann útreikning beri að miða við meðallaun verkafólks 2009, svo sem áfrýjandi heldur fram, eða meðallaun starfsmanna við fiskveiðar 2005, svo sem stefndi byggir aðallega á, en ekki munu vera til nýrri upplýsingar um slík útreiknuð árslaun.

Stefndi var tæpra 24 ára er slysið varð en hann hafði lokið stúdentsprófi fjórum árum áður. Samhliða námi og að því loknu vann hann meðal annars við fiskvinnslu, uppskipun, dyravörslu og malbikunarvinnu þar til hann hóf störf við sjómennsku í september 2008. Þreytti hann inntökupróf í læknadeild háskóla […] í maí 2008 og fékk þar inngöngu um haustið sama ár. Ekki kom þó til þess að hann hæfi nám þá um haustið en þá bauðst honum starf sem háseti hjá C hf. Hafði hann stundað sjómennsku í 9 mánuði þá er slysið varð. Bar hann við skýrslutöku fyrir héraðsdómi að hann hefði haft í hyggju að halda áfram sjómennsku hefði hann ekki lent í slysinu. Skömmu eftir slysið sótti stefndi aftur um inngöngu í framangreindan háskóla og hóf hann þar nám í læknisfræði haustið 2009 og mun nú hafa lokið námi.

II

Svo sem fyrr greinir er ágreiningslaust með aðilum að ekki sé tækt að líta til rauntekna stefnda á þremur síðustu árunum fyrir slysið, en að þeim tíma frátöldum sem stefndi stundaði sjómennsku eru laun hans á umræddu tímabili í öllum tilvikum lægri en þau viðmiðunarlaun sem bæði hann og áfrýjandi telja að leggja eigi til grundvallar.

Eins og að framan er rakið hafði stefndi í kjölfar útskriftar úr framhaldsskóla lagt fyrir sig ýmis störf, einkum verkamannastörf. Þá er til þess að líta að á slysdegi var stefndi sem fyrr segir aðeins tæpra 24 ára og hann hafði ekki á þeim tíma lagt grunn að sérstakri fagmenntun. Með vísan til þessa er ekki unnt að fallast á það með stefnda að meðaltekjur starfsmanna við fiskveiðar árið 2005 séu tækur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Hann hafði einungis verið á sjó um níu mánaða skeið á árunum 2008 til 2009 og þrátt fyrir að vera þá fastráðinn í skiprúm hefur ekki verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hann hefði lagt fyrir sig sjómennsku ef slysið hefði ekki orðið, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 27. október 2011 í máli nr. 60/2011 og 20. desember 2011 í máli nr. 265/2011. Áfrýjandi hefur því gert að fullu upp við stefnda bætur fyrir metna varanlega örorku með greiðslu að fjárhæð 24.228.619 krónur 14. febrúar 2012, en ágreiningslaust er að þær bætur miðuðust við „miðgildi heildarlauna verkafólks á slysárinu 2009“. Samkvæmt öllu framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvörðun héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest með þeim hætti sem greinir í dómsorði en um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnda, A.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 850.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2015.

                Mál þetta, sem var dómtekið 4. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24 í Reykjavík með stefnu birtri 18. desember 2013.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 48.422.899 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 1. maí 2010 til 27. júlí 2011, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi greiði honum 43.373.704 krónur, til þrautavara 38.001.266 krónur og til þrautaþrautavara 27.579.633 krónur. Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að kröfurnar beri sömu vexti frá sama tíma og aðalkrafan að frádregnum greiðslum stefnda að fjárhæð 24.228.619 krónur þann 14. febrúar 2012 og 2.495.924 krónur þann 19. nóvember 2012. Í öllum tilvikum krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda án tillits til gjafsóknar stefnanda.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk greiðslu málskostnaðar að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að bætur verði lækkaðar verulega og beri 4,5% ársvexti til endanlegs dómsuppsögudags og dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og að málskostnaður verði felldur niður.

                Atvik máls og ágreiningur

                Þann 11. júní 2009 varð stefnandi fyrir slysi um borð í B sem gerður er út af C hf. í […]. Stefnandi var ásamt öðrum skipsfélaga að æfa siglingu léttbáts. Slysið vildi þannig til að hífingarvír slitnaði þegar verið var að hífa bátinn um borð í B með þá tvo innanborðs. Við það féll léttbáturinn um sjö metra í sjóinn og stefnandi og skipsfélagi hans á eftir honum. Stefnandi lenti á bakinu ofan í bátnum og féll þaðan í sjóinn. Honum var síðan bjargað um borð í B af öðrum skipsfélögum. Kallað var eftir aðstoð þyrlu sem kom á vettvang og flutti stefnanda á slysadeild LSH.

                Skipverjar um borð í B voru tryggðir áhafnatryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni á slysdegi. Greiðsluskylda tryggingafélagsins er óumdeild.

                Aðilar málsins fólu í sameiningu D hrl. og E lækni að meta afleiðingar slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Þeir skiluðu matsgerð, dags. 10. júní 2011. Niðurstaða matsgerðar er sú að stöðugleika hafi verið náð 1. maí 2010, tímabundin óvinnufærni stefnanda skv. 2. gr. skaðabótalaga hafi verið 100% á tímabilinu 11. júní 2009 til 1. maí 2010, tímabil þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga sé það sama og varanlegur miski hans skv. 4. gr. skaðabótalaga sé 33% og varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga 40%. Ekki er ágreiningur um niðurstöðu matsgerðarinnar.

                Stefnandi var rétt tæplega 24 ára gamall þegar slysið varð. Hann lauk stúdentsprófi frá […] árið 2005. Samhliða námi og að því loknu vann hann ýmis störf við fiskvinnslu, uppskipun, dyravörslu, malbikunarvinnu o.fl. þar til hann fékk vinnu sem háseti í september 2008. Hann hafði unnið um 9 mánuði á sjó þegar slysið varð og var fastráðinn á þeim tíma. Launatekjur stefnanda hækkuðu mikið þegar hann hóf sjómennsku en samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum voru launatekjur hans á viðmiðunarárunum skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, þ.e. árið 2006–2008 þessar: 2.587.522 krónur árið 2006, 1.261.179 krónur árið 2007 og 3.615.977 árið 2008 en hann fór til sjós í september það ár. Árið 2009, árið sem hann varð fyrir slysinu, voru launatekjur hans 4.391.214 krónur og bætur frá stefnda 1.625.108 krónur.

                Ágreiningur málsins lýtur að því hvaða launaviðmið beri að leggja til grundvallar við útreikning bóta fyrir varanlega örorku en aðilar eru sammála um að aðstæður séu þannig að rétt sé að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Stefndi Tryggingamiðstöðin hefur miðað bótagreiðslur til stefnanda við miðgildi heildarlauna verkafólks á slysaárinu. Stefnandi telur rétt að tekið sé mið af þeim launum sem hann hafði í því starfi sem hann gegndi á slysdegi, en til vara að útreikningurinn taki mið af meðallaunum sjómanna árið 2005, til þrautavara að miðað verði við meðaltal, annars vegar launa hans sjálfs á níu mánuðum fyrir slysið, uppreiknuðum til árslauna og hins vegar meðallaunum verkakarla árið 2009, og til þautaþrautavara að miðað sé við meðallaun verkakarla á slysárinu 2009.

                Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hann bar að á tímabilinu frá því hann lauk stúdentsprófi og þar til hann fékk hásetastarfið hafi hann unnið við ýmis störf og ekki alltaf í fullri vinnu. Hann kvaðst á þessum tíma hafa keppt í […] auk þess sem hann hafi í einhverjum mæli þegið laun sem ekki hafi verið gefin upp til skatts. Aðspurður sagðist hann hafa þreytt inntökupróf í læknadeildina við háskólann […] haustið 2009 að áeggjan vinar síns. Prófið hafi verið haldið í Reykjavík. Hann hafi staðist prófið og verið boðin innganga í námið. Þegar hann hafi fengið hásetastarfið hafi hann tilkynnt skólanum það með óformlegum hætti að hann hygðist ekki hefja nám við skólann. Kvað hann sér ekki hafa verið full alvara með námsfyrirætlanir sínar á þessum tíma og hafi engan veginn talið sér fært af fjárhagslegum ástæðum að fara í dýrt háskólanám. Þegar læknar hafi hins vegar gert honum grein fyrir því eftir slysið að hann myndi ekki verða fær um að snúa aftur til sjós hafi hann haft samband við skólann á ný og fengið inngöngu í námið á grundvelli inntökuprófsins frá haustinu áður.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að hann eigi í samræmi við meginreglu skaðabótaréttar rétt á fullum bótum úr hendi stefnda. Útreikningur stefnufjárhæðar taki mið af ákvæðum skaðabótalaga og niðurstöðum í matsgerð sem aðilar hafi aflað sameiginlega.

                Varanleg örorka stefnanda sé metin 40% í matsgerð matsmanna. Við útreikning skaðabóta fyrir varanlega örorku skuli byggja á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt ákvæðinu skulu árslaun ,,metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola“. Stefnandi hafi lokið stúdentsnámi frá […] árið 2005 og unnið ýmis störf samhliða námi og eftir að hann lauk því allt þar til hann fékk vinnu til sjós. Sjómannsstarfið sé eftirsótt, umsetið og vel launað og sjá megi af skattaupplýsingum að laun stefnanda hafi hækkað verulega þegar hann hóf störf til sjós og fram að slysi. Hafi því orðið miklar breytingar á högum stefnanda í aðdraganda slyssins og teljist aðstæður stefnanda því óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

                Auk þess beri að líta til þess, varðandi aðstæður stefnanda, að á árunum 2006–2008 hafi hann unnið hlutastörf fyrir ýmsa aðila, s.s. […], […], […] og Ríkissjóð. Launin hafi verið lág og sýni að stefnandi hafi ekki nýtt starfsgetu sína að fullu til tekjuöflunar nema hluta þeirra ára sem almennt skal leggja til grundvallar útreikningi skaðabóta fyrir varanlega örorku, sbr. meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um að viðmiðunarlaun skuli taka mið af meðaltekjum síðustu þrjú ár fyrir slys.

                Stefnandi starfaði við sjómennsku þegar hann slasaðist. Lögskráningardagar hans fyrir slysið hafi verið 197 talsins. Hann hafi verið fastráðinn háseti hjá C hf. þegar slysið átti sér stað og unnið þar í tæpa 10 mánuði. Á slysdegi og um alllangt skeið fyrir slysið, eða frá því í september 2008, hafi stefnandi því aflað sér launatekna með sjómannsstörfum. Fyrirætlanir hans hafi verið að halda áfram til sjós. Starfið hafi hentað honum vel og launin verið góð. Vegna afleiðinga slyssins hafi stefnandi orðið að hætta sjómennsku og ákveðið síðar að hefja nám eftir að hann hafi orðið ófær til líkamlegra átaka. Hann nemi nú læknisfræði við Háskólann […]. Hann hafi þreytt inntökupróf 24. maí 2008 en á þeim tíma hafi hann verið óráðinn um hvað hann vildi taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Þegar honum síðar hafi boðist hásetastarf hjá C í september sama ár, þ.e. rúmum þremur mánuðum eftir inntökuprófið, hafi hann afturkallað umsóknina. Hann hafi síðan skráð sig til náms þann 26. ágúst 2009, enda fyrirséð að hann ætti ekki afturkvæmt til starfa á sjó.

                Ekkert liggi fyrir um annað en að stefnandi hefði lagt sjómennsku fyrir sig til framtíðar ef slysið hefði ekki komið til. Viðmiðunarlaun við útreikning skaðabóta eigi því að taka mið af breyttum aðstæðum hans og miða við launtekjur í starfi hjá C hf. áður en slysið átti sér stað. Aðalkrafa stefnanda byggi á launum hans sjálfs frá því hann hóf starf sem háseti í september 2008 þar til hann slasaðist í júní 2009. Launatekjur hans á þessu tímabili, reikaðar til árslauna, séu 7.961.150 krónur að meðtöldu 8% framlagi í lífeyrissjóð og verðbótum miðað við launavísitölu fram að þeim tíma sem stöðugleika var náð.

                Verði ekki fallist á að miða útreikning skaðabóta fyrir varanlega örorku við laun stefnanda í starfi hans hjá C sé þess til vara krafist að útreikningur skaðabóta taki mið af meðallaunum þeirra sem störfuðu við fiskveiðar árið 2005 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, en nýrri tölur séu ekki fyrir hendi. Gefi þau laun réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans en laun síðustu þriggja ára fyrir slysið eða miðgildi heildarlauna verkafólks árið 2009, eins og stefndi telji rétt að gera. Varakrafan sé rökstudd á sama hátt og aðalkrafan. Fyrirætlanir stefnanda hafi verið að halda áfram sjómennsku. Réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda séu því meðallaun þeirra sem störfuðu við fiskveiðar á nefndu ári. Ekkert bendi til annars en að framtíðarlaun stefnanda hefðu a.m.k. verið jafnhá meðallaunum sjómanna við fiskveiðar.

                Verði ekki fallist á að framtíðarstarfsvettvangur stefnanda hafi verið sjómannsstörf byggir stefnandi þrautavarakröfu sína á því að bætur skuli miðaðar við laun hans sjálfs á níu mánaða tímabili fyrir slysið uppreiknuð til árslauna og meðallaunum verkakarla árið 2009. Krafan byggi á að meðaltal þessara viðmiðunarlauna hafi verið 6.247.742 krónur á ári.

                Þrautaþrautavarakrafa stefnanda er byggð á því að miða skuli örorkubætur hans við meðaltekjur verkamanna á slysárinu, þ.e. árið 2009. Á slysdegi hafi stefnandi verið 24 ára gamall. Samhliða framhaldsskólanámi og að því loknu hafi hann unnið ýmis verkamannastörf þar til hann hóf störf til sjós. Á slysdegi hafi hugur hans ekki staðið til frekara náms. Ef stefnandi, af einhverjum ástæðum öðrum en slysinu, hefði ákveðið að hætta sjómennsku og starfa í landi þá hefði væntanlega orðið fyrir valinu verkamannastörf af því tagi sem hann hafi haft reynslu af, s.s. við malbikun, fiskvinnslu eða uppskipun. Engin ástæða sé til að ætla annað en að launatekjur hans hefðu orðið í samræmi við meðallaun þeirra sem vinna verkamannavinnu. Stefnandi hafi sýnt fram á að tekjuöflunarhæfi hans sé langt umfram meðaltekjur verkamanna. Útreikningur skaðabóta sem byggir á þeim viðmiðunarlaunum sé því hvorki óeðlilegur né ósanngjarn. Útreikningur þrautaþrautavarakröfu stefnanda taki mið af meðaltali heildarlauna karlmanna sem unnu verkamannastörf árið 2009. Stefnandi telur einsýnt að leggja verði til grundvallar meðaltekjur karlmanna, enda standi engin rök til þess að einstaklingsbundið uppgjör sem ætlað er að bæta stefnanda framtíðartekjuskerðingu hans sé miðað við meðaltekjur allra, bæði karla og kvenna. Með öðrum orðum þá telur stefnandi að launamunur karla og kvenna eigi ekki að hafa áhrif á einstaklingsbundið uppgjör hans. Stefnandi sé karlkyns.

                Í stefnu er gerð nánari grein fyrir útreikningi krafna stefnanda. Ekki er ágreiningur um fjárhæðir heldur einvörðungu hvaða tekjur skuli leggja til grundvallar útreikningum. Til frádráttar kröfum stefnanda koma greiðslur sem stefndi hefur þegar innt af hendi, svo sem rakið er í kröfugerð stefnanda.

                Um lagarök, að öðru leyti en því sem að framan er rakið, vísar stefnandi til 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi málskostnað og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi það að taka skuli tillit til skattsgreiðslna af lögmannsþjónustu við ákvörðun hans. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxta er krafist frá því að einn mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda sendi stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. kröfubréf þar sem krafist var skaðabóta í samræmi við ákvæði skaðabótalaga og matsgerð D hrl. og E læknis, dags. 10. júní 2011.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi telur þær bætur sem þegar hafa verið greiddar vera réttar og í fullu samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

                Stefndi hafi fallist á að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Hafi það m.a. helgast af þeirri staðreynd að á þeim fjórum árum sem stefnandi hafði verið á vinnumarkaði að loknu stúdentsprófi hafi hann verið í fjölbreyttum störfum án þess að festa sig í sessi í ákveðnu starfi eða starfsgreinum.

                Þó að stefndi hafi í samkomulagsskyni fallist á að forsendur væru til að meta árslaun stefnanda sérstaklega, geti félagið ekki fallist á þá kröfu, að einvörðungu laun hans í þann stutta tíma sem stefnandi hafi verið háseti, svo sem aðalkrafan miðist við, eða laun þeirrar starfsgreinar einnar, samkvæmt varakröfu, séu réttasti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur hans.

                Stefnandi hafi útskrifast úr framhaldsskóla árið 2005. Hann hafi verið tæplega 24 ára gamall á slysdegi og hafi verið u.þ.b. fjögur ár á vinnumarkaði frá útskrift. Stefnandi hafi unnið ýmis störf á þessu tímabili og árslaun hans á árunum 2005 til 2008 séu á bilinu 1.261.179 kr. til 3.615.977 kr. Árslaun hans á umræddu tímabili nái í engu tilviki þeirri fjárhæð sem lögð hafi verið til grundvallar af hálfu stefnda við uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku. Þau störf sem stefnandi hafi unnið á umræddum tíma teljist almennt til verkamannastarfa og af þeim sökum telur stefndi að rétt hafi verið að miða við laun verkafólks við ákvörðun árslaunaviðmiðs. Þá sé því mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi á umræddu tímabili aðeins unnið hlutastörf.

                Stefnandi hafi stundað sjómennsku í um níu mánuði fyrir slysið. Engar forsendur séu til að leggja svo stutta starfsreynslu til grundvallar sem framtíðarstarfsvettvang eða að þetta stutta tímabil eigi eitt að ráða því hvernig líklegar framtíðartekjur stefnanda séu ákvarðaðar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Starfsreynsla stefnanda sé við ýmis störf og ekkert í hendi með að hann hafi á þeim tímapunkti er hann slasaðist markað sér vettvang út starfsævina. Stefnandi hafi til að mynda enga menntun eða starfsréttindi til slíkra starfa og því allt eins líklegt að hann hefði horfið til annarra starfa í framtíðinni.

                Þá telur stefndi sýnt, að hugur stefnanda hafi í reynd staðið til frekara náms enda hafði hann í verki sýnt áhuga sinn og getu til að sækja sér háskólamenntun með því að þreyta og standast inntökupróf og hljóta inngöngu í nám í læknisfræði. Því sé mótmælt að stefnandi hafi á slysdegi verið búinn að afturkalla umsókn sína og horfið með öllu frá þessum fyrirætlunum sínum, eins og haldið er fram í stefnu. Þvert á móti virðist stefnandi hafa frestað námi sínu haustið 2008 en ekki hætt við það.

                Stefndi telur enga lagastoð fyrir því að leggja til grundvallar að á slysdegi hafi stefnandi markað sér starfsvettvang til frambúðar með svo afgerandi hætti að eingöngu laun hans við sjómennsku séu réttasti mælikvarðinn á framtíðartekjur við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Með því að miða við heildarlaun verkafólks á slysárinu hafi verið komið til móts við þá stöðu stefnanda að hafa gegnt ýmsum verkamannastörfum árin fyrir slysið og að stefnanda hafi ekki tekist sönnun um að laun hans á svo stuttu tímabili sem nemur september 2008 til júní 2009 séu réttasti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur hans, hefði slysið ekki orðið.

                Á sömu forsendum og raktar hafa verið varðandi aðalkröfu stefnanda beri að sýkna stefnda af varakröfu hans um meðallaun sjómanna við fiskveiðar, enda byggi báðar kröfur á því meginsjónarmiði að sannað sé að stefnandi hafi á slysdegi markað sér starfsvettvang til frambúðar.

                Þá mótmælir stefndi því að þrautavarakrafa stefnanda komist að í málinu þar sem hún sé of seint fram komin. Stefnandi hafi lagt hana fram í upphafi aðalmeðferðar málsins og sé því mótmælt að krafan rúmist innan fyrri krafna hans og ekki sýnt að málsástæður að baki henni séu í samræmdi við þær málsástæður sem lágu fyrir og varnir stefnda taki mið af.

                Þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggist á sambærilegum forsendum og stefndi hafi gert í uppgjöri bóta vegna varanlegrar örorku, þ.e. tekjum verkamanna. Sá munur sé þó á, að stefnandi krefjist þess að eingöngu sé horft til tekna karla, en ekki beggja kynja, þar sem tekjur karla samkvæmt meðaltalsmælingu séu hærri en laun kvenna. Krafan endurspegli úrelt viðhorf og brjóti augljóslega í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

                Verði fallist á kröfu stefnanda að einhverju leyti krefst stefndi þess að þær verði lækkaðar verulega og dráttarvextir verði ekki dæmdir frá fyrri tíma en dómsuppsögu.

                Um lagarök vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 5.−7. gr., laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og laga um meðferð einkamála nr. 91.1991, einkum III. kafla. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

                Niðurstaða

                Ágreiningur máls þessa lýtur að fjárhæð skaðabóta til stefnanda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysi árið 2009. Ekki er deilt um bótarétt stefnanda. Aðilar máls eru sammála um að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar á slysdegi þannig að leggja beri 2. mgr. 7. gr. til grundvallar bótaútreikningi. Ágreiningurinn snýr að því hvaða tekjuviðmið skuli leggja til grundvallar útreikningi á bótum fyrir varanlega örorku samkvæmt ákvæðinu.

                Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsins þá slasaðist stefnandi alvarlega í júní 2009 þegar hann var við vinnu sem háseti um borð í B. Stefnandi var þá 24 ára gamall. Hann hafði lokið stúdentsprófi fjórum árum fyrir slysið og unnið við ýmis störf í landi þar til hann hóf sjómennsku í september 2008. Aðalkrafa stefnanda byggir á því að miða eigi við laun hans þá níu mánuði sem hann hafði unnið á sjó fyrir slysið, uppreiknuð miðað við árslaun en í fyrstu varakröfunni er miðað við meðallaun þeirra sem unnu við fiskveiðar á árinu 2005 en stefnandi kveður nýrri tölur ekki liggja fyrir. Ekki er deilt um útreikninga stefnanda á fjárhæð bóta verði fallist á forsendur þessara krafna hans.

                Ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 var breytt ár árinu 1999 með lögum nr. 37/1999. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 37/1999, er í athugasemdum við 6. gr., sem breytti 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, í dæmaskyni nefnt um aðstæður þar sem rétt sé að beita greininni, að tjónþoli hafi skömmu fyrir slys skipt um starf og með því orðið breytingar á launum hans. Segir í athugasemdunum að í slíkum tilvikum sé eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaun miðað við nýjar aðstæður. Hér hagar einmitt þannig til að stefnandi hafði níu mánuðum fyrir slysið hafið starf á sjó og við það hækkuðu tekjur hans mikið. Hann var fastráðinn á fiskiskip sem háseti þegar hann slasaðist. Með vísan til þessa og með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 100/2010 er það mat dómsins að líta beri til starfkjara á þessum nýja starfsvettvangi stefnanda við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, þrátt fyrir stuttan starfsaldur.

                Stefndi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til þess, til stuðnings kröfu sinni um að miða beri við meðallaun verkamanna, að stefnandi hafi áður en hann hóf sjómennsku þreytt inntökupróf í læknadeild háskóla […] og fengið inngöngu í skólann um haustið 2008. Hann hafi síðan frestað því að hefja námið. Sýni þetta að mati stefnda að stefnandi hafi ekki verið búinn að marka sér starfsvettvang á sjó heldur hafi hugur hans staðið til frekari menntunar svo sem raunin hafi orðið en fyrir liggur að stefndi hóf nám í læknisfræði haustið 2009 og er nú á lokaári. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa verið ráðinn í að hefja nám þegar hann þreytti inntökuprófið á sínum tíma og hann hafi lagt námsáform á hilluna þegar hann fékk plássið á B og tilkynnt skólanum óformlega um þá ákvörðun sína. Það hafi ekki verið fyrr en þegar læknar hafi gert honum ljóst eftir slysið að afleiðingar þess gerðu honum ókleift að stunda sjómennsku, að hann hafi ákveðið að sækja aftur um skólavist.

                Að mati dómsins eru atvik þessi, óháð því hve sterkur ásetningur stefnanda var fyrir slys til að afla sér frekari menntunar, ekki til þess fallin að telja meðallaun verkamanna réttari mælikvarða á framtíðartekjur hans heldur en laun háseta. Þá verður að telja að ákvörðun hans skömmu eftir slys, um að hefja langt háskólanám sem hann hefur stundað síðan, bendi frekar til þess að stefnandi hafi í raun meira aflahæfi en almenn verkamannalaun endurspegli.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að réttasti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur tjónþola séu laun í því starfi sem hann stundaði þegar hann varð fyrir slysi. Í ljósi þess hve stuttan tíma hann hafði verið í því starfi á slysdegi þykir hins vegar rétt að miða við meðallaun í þeirri starfgrein á heilu ári fremur en að uppreikna laun hans á 9 mánaða tímabili til árslauna. Verður varakrafa stefnanda því tekin til greina eins svo sem greinir í dómsorði.

                Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 27. júlí 2011 en þá var mánuður liðinn frá því að hann setti fram kröfu um greiðslu umdeildra bóta. Dráttarvaxtakrafa stefnanda styðst við skýra heimild í 9. gr. laga nr. 38/2001 og hefur stefndi ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að þannig standi á að rétt sé að miða við annan upphafsdag dráttarvaxta sbr. síðari málslið 9. gr. Vaxtakrafa stefnanda er því einnig tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

                Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 23. maí 2013. Málskostnaður hans greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Styrmis Gunnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostað, 997.350 krónur, sem rennur í ríkissjóð.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal greiða stefnanda, A, 43.373.704 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 1. maí 2010 til 27. júlí 2011, en með dráttavöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt af frádregnum greiðslum stefnda að fjárhæð 24.228.619 krónur þann 14. febrúar 2012 og 2.495.924 krónur þann 19. nóvember 2012.

                Stefndi greiði 997.350 krónur í málskostnað sem rennur til ríkissjóðs. Þóknun lögmanns stefnanda, Styrmis Gunnarssonar hdl., 850.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.