Hæstiréttur íslands

Mál nr. 458/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 2

 

Miðvikudaginn 2. nóvember 2005.

Nr. 458/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og  Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. nóvember 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

         

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur  Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], skuli sæta áfram gæslu­varðhaldi allt til föstudagsins 4. nóvember 2005, klukkan 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki innflutning á talsverðu magni af fíkniefnum sem komið hafi til landsins með póstsendingum.  Leiki grunur á að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Kærði sé talinn tengjast málinu sem aðalmaður ásamt A.  Um sé að ræða þrjú mál sem stofnað hafi verið til vegna haldlagningar fíkniefna sem fundist hafi við tolleftirlit með póstsendingum undanfarnar vikur og fyrr í sumar. Um efnismagn og tegund fíkniefna sem lagt hafi verið hald á vísar lögreglan nánar til fyrirliggjandi efnaskýrslna og greinar­gerðar Húnboga Jóhannssonar, dags. 6. þ.m.  Um meinta verkaskiptingu kærða A og aðferð við innflutninginn er vísað til rökstuðnings fyrir heimild til húsleitar á heimilum þeirra, dags. 17. þ.m., auk annarra fyrirliggjandi gagna.

[...]

Unnið hafi verið mikið og markvisst að rannsókn málsins allt frá handtöku ofan­greindra aðila. Teknar hafi verið skýrslur af sakborningum, vitnum og öðrum aðilum sem tengjast kunni málinu. Kærði hafi játað tiltekna aðild að málinu en ósamræmi hafi verið í framburði hans miðað við framburð annarra og gögn í málinu. Brýn þörf sé á frekari skýrslutökum yfir kærða til að bera undir hann aðra framburði og gögn. Auk þess eigi enn eftir að yfirheyra aðila sem tengjast kunni málinu.  Að mati lögreglu kunni fleiri aðilar að tengjast málinu sem sakborningar. Það skipti því enn miklu máli að vernda rannsóknar­hagsmuni og í því skyni sé nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir að hann geti samræmt framburð sinn og annarra sem tengjast kunni málinu eða hann geti haft áhrif á framburði annarra sem eftir sé að yfirheyra eða skotið undan munum eða gögnum sem kunni að hafa sönnunargildi fyrir málið.

             Lögreglan kveður sakarefnið aðallega vera talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

             Samkvæmt gögnum málsins þykir vera rökstuddur grunur um aðild kærða að innflutningi talsverðs magns fíkniefna. Telja verður að ætluð háttsemi hans geti varðað fangelsi, ef sakir sannast. Þá hefur lögreglustjóri gert grein fyrir því að brýn þörf sé á frekari skýrslutökum yfir kærða svo og að þörf sé á að bera undir hann aðra framburði sem gefnir hafa verið á gæsluvarðhaldstímanum. Í ljósi þess verður því að telja að kærði geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Með vísan til framanritaðs og rannsóknar­gagna verður því fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt og þykir ekki ástæða til að marka því skemmri tíma en krafist er.  Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

             Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. nóvember 2005, klukkan 16:00.