Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/2000


Lykilorð

  • Slysatrygging ökumanns
  • Bifreið
  • Ölvunarakstur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001.

Nr. 360/2000.

Haraldur G. Guðmundsson

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Slysatrygging ökumanns. Bifreiðir. Ölvunarakstur.

H höfðaði mál gegn vátryggingafélaginu V og krafðist slysabóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar bifreið, sem hann ók, valt. Bifreiðina hafði H tekið í heimildarleysi. Þegar H náði að gera vart við sig um 4 klukkustundum eftir slysið og lögregla kom á vettvang var H talsvert ölvaður. Bar H að hann hefði neytt áfengis eftir slysið vegna kulda sem að honum hefði sótt. Ekki var fallist á að heimildarlaus notkun H á bifreiðinni ætti ein og sér að valda því að slysatrygging ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 næði ekki til H, enda hefði þurft að kveða  sérstaklega á um það í tilvitnuðu ákvæði. Talið var að H bæri sönnunarbyrðina fyrir því að ölvunarástand hans yrði rakið til áfengisneyslu hans eftir slysið. Í ljósi þess, að engin ummerki voru um áfengisneyslu á vettvangi og að staðhæfing H um áfengisneyslu eftir slysið kom fyrst fram við skýrslugjöf í refsimáli sem höfðað var á hendur honum, var lagt til grundvallar að vínandinn í blóði H hefði átt rætur að rekja til áfengis, sem hann neytti fyrir slysið. Með hliðsjón af matsgerð dómkvadds matsmann var talið ljóst að áfengismagn í blóði H hefði verið slíkt er slysið varð, að samkvæmt vátryggingarskilmálum ætti hann ekki rétt til bota úr hendi V. Var V því sýknað af kröfum H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 2000. Krefst hann þess að viðurkenndur verði réttur hans til slysabóta úr hendi stefnda ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 7. ágúst 1996 til 1. október sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði aðeins viðurkennd að hluta og málskostnaður falli niður.

 

 

I.

Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi staddur á Sauðárkróki 6. ágúst 1996 vegna starfa sinna sem skipverji á togaranum Skagstrendingi SK 4, sem þar lá við bryggju. Að kvöldi þess dags mun hann í félagi við tvo eða þrjá aðra skipverja hafa drukkið hátt í heila flösku af sterku áfengi, en haldið síðan á veitingahús, þar sem hann kveðst hafa drukkið eitt glas af bjór. Þegar veitingahúsinu var lokað aðfaranótt 7. ágúst 1996 hafi hann haldið til skips og lagt sig, en farið á fætur um kl. 5 að morgni. Nokkru eftir það hafi hann farið aftur í land til að leita skipsfélaga, en enga fundið. Hann hafi þá komið að mannlausri bifreið með skráningarnúmeri F 915 og séð þar lykil í kveikjulási. Hafi sótt að honum þrá til að fara heim til sín á Grundarfjörð og hann fallið í þá freistni að taka bifreiðina í því skyni. Hann hafi ekið henni áleiðis frá Sauðárkróki um kl. 6 sem leið lá um Varmahlíð, en ákveðið skammt þar frá að snúa við. Á bakaleiðinni, rétt sunnan við bæinn Bergsstaði, hafi eitthvað rekist í framrúðu bifreiðarinnar og áfrýjandi misst stjórn á henni. Fór bifreiðin út af veginum og hafnaði í skurði, en áfrýjandi kastaðist út og lá skammt frá henni í grasi. Af veginum mun hvorki hafa verið unnt að sjá til áfrýjanda né bifreiðarinnar nema úr háum bifreiðum. Áfrýjandi kveður slysið hafa orðið um kl. 7 umræddan morgun, en vegna áverka, sem hann hlaut, gat hann ekki gert vart við sig. Lá hann á vettvangi þar til um kl. 11 um morguninn þegar ökumaður olíuflutningabifreiðar varð bifreiðarinnar var og kvaddi til lögregluna. Hún kom skömmu síðar og fann áfrýjanda. Samkvæmt frumskýrslu hennar var nokkur áfengisþefur úr vitum hans og var tekið blóðsýni úr honum laust eftir kl. 12. Reyndist vínandi í því vera 1,03‰. Við slysið hlaut áfrýjandi meðal annars brot og liðhlaup í hálsi með mænuskaða. Af þeim sökum mun hann vera lamaður upp að holhönd og einskis frekari bata vænta.

Með ákæru 24. mars 1997 var áfrýjandi sóttur til saka fyrir að hafa ekið ölvaður og óvarlega umrætt sinn, svo og fyrir að hafa tekið bifreiðina F 915 í heimildarleysi. Áfrýjandi gekkst við síðastnefnda brotinu, en neitaði sök að öðru leyti. Í því máli skýrði hann svo frá fyrir dómi að fljótlega eftir slysið hafi hann reynt að vekja athygli vegfarenda á sér, en það hafi ekki borið árangur. Honum hafi orðið kalt og hann farið að hagræða fatnaði sínum. Þá hafi hann orðið var við pela af sterku áfengi, sem hafi verið í vasa á yfirhöfn hans. Vegna kuldans hafi hann fengið sér sopa. Eftir því, sem leið á morguninn, hafi hann af sömu ástæðu fengið sér meira af áfenginu, en þó kastað upp miklu af því. Hann hafi lokið við pelann og reynt að því búnu að henda honum upp á veg þegar bifreið var í nánd, en ökumaður hennar hafi ekki veitt honum athygli. Eftir þetta hafi liðið nokkur tími þar til lögreglan kom á vettvang. Skýrði áfrýjandi frá því að þessi atvik hefðu ekki rifjast upp fyrir sér fyrr en hann leitaði aðstoðar geðlæknis út af martröðum, sem sóttu að honum eftir slysið. Hann hafi því ekki munað eftir þessum atvikum á fyrri stigum, hvorki þegar lögreglan tók af honum skýrslu 14. nóvember 1996 né þegar hann kom fyrst fyrir dóm í þessu máli. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 1997 var áfrýjandi sakfelldur fyrir nytjastuld og honum gerð refsing fyrir það brot, en hins vegar sýknaður af öðrum sakargiftum. Þessum dómi var ekki áfrýjað.

Í máli þessu, sem áfrýjandi höfðaði 29. september 1999, leitar hann viðurkenningar á rétti sínum til bóta úr hendi stefnda vegna framangreinds slyss. Reisir áfrýjandi kröfu sína á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en eigandi bifreiðarinnar F 915 hafði tryggt ökumann hennar lögboðinni slysatryggingu samkvæmt því ákvæði hjá stefnda.

II.

Í 92. gr. umferðarlaga, eins og ákvæðið hljóðaði áður en því var breytt með 2. gr. laga nr. 32/1998, var ekki mælt fyrir um að þargreind slysatrygging tæki ekki til ökumanns, sem notaði ökutæki í heimildarleysi. Um slíkt var heldur ekki rætt í skilmálum stefnda, sem giltu á þeim tíma um slysatryggingu ökumanns. Þá getur 2. mgr. 90. gr. umferðarlaga ekki samkvæmt efni sínu tekið til þeirrar slysatryggingar, eins og stefndi hefur borið við, enda er þar gagngert fjallað um undanþágu frá skaðabótaskyldu eiganda ökutækis samkvæmt 88. gr. og 89. gr. laganna. Þótt fallast megi á með stefnda að haldbær rök gætu almennt staðið til þess að undanskilja frá slysatryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga ökumann, sem slasast við heimildarlausa notkun á ökutæki, verður ekki litið fram hjá því að skylda hvíldi á eiganda ökutækis til að afla sér slíkrar vátryggingar, sem gilda átti „fyrir hvern ökumann sem tækinu stjórnar“, svo sem komist var að orði í ákvæðinu. Hefði beinlínis orðið að taka þar fram ef undantekning ætti að gilda í tilviki eins og hér um ræðir, en engu geta breytt í því efni ummæli þessu tengd, sem stefndi hefur vísað til, í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 32/1998. Að þessu gættu verður stefndi ekki sýknaður af kröfu áfrýjanda vegna þess eins að hann hafi ekið bifreiðinni F 915 í heimildarleysi þegar hann varð fyrir slysinu 7. ágúst 1996.

Eins og áður greinir reyndist vínandi í blóði, sem tekið var úr áfrýjanda um hádegi síðastnefndan dag, vera 1,03‰. Voru þá liðnar um fimm klukkustundir frá því að akstri hans lauk. Í máli þessu leitar áfrýjandi viðurkenningar á rétti sínum til slysabóta samkvæmt vátryggingarsamningi. Verður hann því sjálfur að bera sönnunarbyrði fyrir að vínandinn, sem mældist samkvæmt áðursögðu í blóði hans, verði rakinn til neyslu áfengis eftir slysið. Staðhæfing hans um það efni kom sem áður segir fyrst fram þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi í opinberu máli, þar sem hann var meðal annars sóttur til saka fyrir ölvunarakstur, en þá voru liðnir rúmlega sextán mánuðir frá slysdegi. Fyrir liggur í málinu að lögreglumenn könnuðu vettvang rækilega þegar áfrýjandi hafði verið fluttur af slysstað. Hvorki fundust þar ummerki eftir áfengisneyslu né hefur neitt annað komið fram í málinu, sem stutt getur fyrrgreinda staðhæfingu áfrýjanda. Verður því að leggja til grundvallar að vínandinn í blóði hans hafi átt rætur að rekja til áfengis, sem hann neytti fyrir slysið.

Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi leitaði stefndi eftir því að dómkvaddur yrði sérfróður lyflæknir eða eiturefnafræðingur til að láta uppi rökstutt álit um hvert gæti hafa verið vínandamagn í blóði áfrýjanda kl. 7 að morgni 7. ágúst 1996 að því gefnu að hann hefði ekki neytt áfengis eftir þann tíma og vínandi í blóði reynst vera 1,03‰ fimm klukkustundum síðar. Í matsgerð dr. Þorkels Jóhannessonar frá 10. mars 2000 var að gefnum þessum forsendum talið að ætla mætti að „þéttni etanóls í blóðinu hefði verið ca. 1.60‰ kl. 7:00“. Tekið var fram í matsgerðinni að leggja yrði áherslu á að „slíkir afturreikningar hljóta að geta verið með umtalsverðum frávikum.“ Í skýrslu, sem matsmaðurinn gaf fyrir héraðsdómi, var meðal annars skýrt nánar á hvaða grunni svonefndur afturreikningur væri reistur og hvaða þættir gætu haft áhrif á áreiðanleika hans. Sagði matsmaðurinn aðspurður að frávik frá því, sem almennt mætti ætla að eyddist af vínanda í blóði á hverri klukkustund og miðað hafi verið við í matsgerðinni, gætu „sem hægast verið 40% ... í báðar áttir“. Af þessu er ekki óvarlegt að ætla að þegar akstri áfrýjanda lauk að morgni 7. ágúst 1996 hafi vínandi í blóði hans að minnsta kosti numið þeim 1,20‰, sem um ræðir í 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, og hann þannig verið óhæfur til að stjórna ökutæki.

Áfrýjandi hefur sem fyrr segir borið því við í málinu að eitthvað hafi rekist í framrúðu bifreiðarinnar rétt fyrir slysið, hugsanlega fugl. Þetta hafi valdið því að hann missti stjórn á henni. Af rannsókn lögreglunnar á vettvangi verður ekkert ráðið, sem styrkt getur staðhæfingu áfrýjanda um þetta efni. Samkvæmt því hefur ekkert komið fram um að annað geti hafa valdið slysinu en ölvun hans.

Vegna þeirra atvika, sem að framan greinir, og með vísan til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1995 bls. 2249 verður að telja áfrýjanda hafa sökum ölvunar verið svo á sig kominn við akstur í umrætt sinn að fyrirmæli 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga eigi við um hann. Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að stefndi hafi með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stendur á fyrir ökumanni. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda skulu vera óröskuð. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Haraldar G. Guðmundssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2000.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 17. maí sl., að loknum munnlegum málflutingi, var höfðað af Haraldi G. Guðmundssyni, kt. 270265-4569, Fannafold 60a, Reykjavík, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu, þingfestri 5. október 1999.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda, ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 7. ágúst 1996 til 1. október 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst og máls­kostn­aðar, að skaðalausu, úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum máls­kostn­að­ar­reikn­ingi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun samkvæmt lögum nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnanda tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að kröfur stefnanda verði aðeins viðurkenndar að hluta og máls­kostnaður felldur niður.

Áður en dómur var kveðinn upp í málinu var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991.

Hinn 5. janúar 2000 var stefnanda veitt gjafsókn í máli þessu.

II

Hinn 7. ágúst 1996 tók stefnandi bifreiðina F-915 ófrjálsri hendi, og ók henni frá Sauð­árkróki að Varmahlíð í Skagafirði, en sneri bifreiðinni þar við og hugðist aka aftur til Sauðárkróks. Er stefnandi hafði ekið bifreiðinni skammt frá Varmahlíð ók hann henni út af þjóðveginum. Bifreiðin valt og kastaðist stefnandi út úr henni, en bifreiðin hafnaði ofan í skurði. Stefnandi brotnaði og hlaut liðhlaup í hálsi með mænu­skaða og liðhlaup í vinstri mjöðm. Varanlegar afleiðingar slyssins fyrir stefn­anda var lömun og skyntap í ganglimum og upp bol til móts við holhendur. Er stefnandi á 75% örorkubótum vegna þessa, en líkur eru til þess að hann verði bundinn hjólastól það sem eftir er ævinnar. Bifreiðin eyðilagðist við þessa útafkeyrslu, en hún var skylduvátryggð hjá stefnda.

Í kjölfar þessa var stefnandi ákærður fyrir heimildarlausa töku bifreiðarinnar og fyrir að hafa ekið ógætilega og undir áhrifum áfengis umrætt sinn.

Stefnandi hefur borið að hann hafi ásamt félögum sínum neytt áfengis kvöldið fyrir áðurgreint slys. Hafi þeir drukkið saman úr einni viskíflösku. Bar stefnandi í upp­hafi að þeir hafi verið þrír félagarnir, en nú fyrir dómi bar hann að þeir hafi verið fjórir saman. Þeir hafi síðan farið sama á Hótel Mælifell og setið þar uns barnum hafi verið lokað. Kvaðst hann hafa drukkið þar einn bjór. Stefnandi kvaðst síðan hafa gengið til skips með félaga sínum og lagt sig í koju til svefns. Hann hafi síðan vaknað um kl 05.00 og fengið sér að borða. Síðan hafi hann gengið frá borði og tekið um­rædda bifreið og ekið af stað um kl. 06.00. Stefnandi kvaðst þá ekki hafa fundið til áfengisáhrifa. Stefnandi kvaðst hafa misst stjórn á bifreiðinni vegna þess að eitthvað, sem hann taldi jafnvel hafa verið fugla, hafi rekist í framrúðuna. Við það hafi bifreiðin farið út af veginum og stefnandi kastast út úr henni og lent milli þúfna nokkru frá veginum, þaðan sem hann var ekki sýnilegur. Stefnandi kvaðst ekki hafa getað hreyft sig, en fljótlega fundið til kulda á höfði og hálsi. Hafi hann þá reynt að vefja yfirhöfn sinni um höfuð sér, en við það fundið fyrir vodkapela í vasa yfir­hafn­ar­innar. Kvaðst stefnandi hafa fengið sér sopa af áfenginu, en kastað upp. Þó kvað hann nokkuð magn hafa farið ofan í sig. Eftir það kvaðst stefnandi hafa reynt að fylla tóma flöskuna af mold og jarðvegi og reynt að troða ofan í hana stráum og lyfta henni þannig upp í því skyni að reyna að vekja athygli á sér. Þessi tilraun hans hafi verið án árangurs svo hann kvaðst hafa hent flöskunni í þá átt, sem hann hafi haldið að veg­ur­inn væri. Stefnandi skýrði fyrst frá því fyrir dómi er áðurgreint sakamál var til með­ferðar, að hann hefði drukkið áfengi eftir slysið. Stefnandi gaf þá skýringu á því, að frásögn hans hefði breyst að þessu leyti, að hann hefði ekki í fyrstu munað allt frá at­burðum næturinnar, en í viðtölum við geðlækni sinn hafi atburðarásin skýrst í huga hans. Við meðferð sakamálsins kom fram, að vettvangur slyssins hefði verið skoðaður og hreinsaður af lögreglumönnum án þess að áfengisumbúðir fyndust.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum hinn 22. desember 1997, var stefnandi sýknaður af ætluðum ölvunarakstri og ógætilegum akstri, en sakfelldur fyrir heim­ildarlausa töku bifreiðarinnar, samkvæmt 1. mgr. 259. gr. almennra hegn­ing­arlaga nr. 19/1944.

III

Stefnandi byggir rétt sinn til bóta úr hendi stefnda á því að eigandi bifreiðarinnar F-915 hafi keypt lögboðna ökumannstryggingu hjá stefnda og hafi stefnandi því verið slysa­tryggður hjá stefnda er hann hafi orðið fyrir slysi hinn 7. ágúst 1996, sem valdið hafi stefnanda tjóni.

Í almennum skilmálum stefnda sé kveðið svo á um, að stefndi skuli bæta tjón, eins og það sem stefnandi varð fyrir. Í vátryggingarskilmálum stefnda, sem í gildi hafi verið er tjónið varð, segi svo um gildissvið slysatryggingar ökumanns: „Félagið greiðir bætur fyrir tjón vegna umferðarslyss, sem ökumaður verður fyrir við stjórn hins vátryggða ökutækis, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.” Í 5. gr. sé talið upp hvað geti valdið því að bótaréttur geti fallið niður og sé heimildarlaus notkun öku­manns ekki þar á meðal, en stefnandi hafi verið sýknaður af öðrum atriðum, sem til álita komi. Þá sé hvergi að finna í skilmálum ákvæði þess efnis, að slysatrygging öku­manns falli niður vegna heimildarlausrar notkunar ökutækis.

Um lagarök vísar stefnandi til umferðarlaga svo og tryggingaskilmála stefnda.

Kröfu um vexti byggir stefnandi á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og kröfu um drátt­arvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breyt­ingum.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

IV

Stefndi byggir aðalkröfu sína á því, að stefnandi eigi ekki rétt til bóta úr hendi stefnda úr slysatryggingu ökumanns F-915, samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, vegna slyssins 7. ágúst 1996. Byggir stefndi á því, að stefnandi hafi notað bif­reiðina í heimildarleysi umrætt sinn og 92. gr. fyrrgreindra laga taki ekki til slíkrar notk­unar. Slík túlkun á 92. gr. leiði af almennum reglum laga um að ólögmætt atferli njóti ekki réttarverndar. Hvorki 92. gr. umferðarlaga né tryggingaskilmálar stefnda verði túlkaðir með þeim hætti, að ökutækjaþjófar séu slysatryggðir við nytjastuld, ef ekki sé annars getið í lagatexta eða tryggingaskilmálum. Slíkt væri gersamlega sið­laust og andstætt góðri viðskiptavenju í vátryggingamálum, að láta bifreiðareiganda greiða iðgjöld af slysatryggingu fyrir bílþjófa. Óhugsandi sé að löggjafinn hafi haft í hyggju, við setningu 92. gr. umferðarlaga, að lögskylda eigendur ökutækja til að slysa­tryggja afbrotamenn við stuld á ökutækjum, enda hafi orðalagi 92. gr. fyrrgreindra laga verið breytt í samræmi við slíkan skilning, með lögum nr. 32/1998.

Þá telur stefndi að stefnandi hafi valdið slysinu með stórfelldu gáleysi og ölvun­ar­akstri, sem leiði til missis bótaréttar úr slysatryggingunni, sbr. 124. gr. vá­trygg­inga­samningalaga nr. 20/1954, sbr. 20. gr. sömu laga og 5. gr. skilmála stefnda um slysa­tryggingu ökumanns. Þó svo stefnandi hafi verið sýknaður af ölvunarakstri um­rætt sinn, í sakamáli á hendur honum, hafi sá dómur ekki bindandi gildi í þessu máli. Stefnandi hafi haft 1.03 ‰ áfengismagn í blóði þegar sýni hafi verið tekið úr honum kl. 12.05 á slysadaginn. Óvíst sé hversu löngu fyrir þann tíma slysið hafi orðið. Slysið hafi verið tilkynnt kl. 11.05 til lögreglu, en stefnandi hafi borið að útafaksturinn hafi orðið kl 7.00. Stefnandi hafi borið að hann myndi ekki aðdraganda slyssins, en geðlæknir hans hafi borið fyrir dómi, að í samtalsmeðferð hafi stefnandi talið slysið hafa orðið kl. 06.00. Hins vegar hafi stefnandi borið á vettvangi að á þeim tíma hafi hann lagt af stað frá Sauðárkróki. Síðbúin fullyrðing stefnanda um drykkju úr vodka­pela eftir aksturinn hafi enga stoð og verði sú fullyrðing stefnanda ekki lögð til grund­vallar í þessu máli. Stefnandi hafi hins vegar játað fyrir lögreglu, að hafa drukkið þriðjung úr viskíflösku fyrr um kvöldið og samkvæmt framburði félaga stefnanda hafi stefnandi einnig drukkið bjór umrætt kvöld. Þá liggi fyrir framburður stefnanda um að hann hafi ekki náð að sofna um nóttina fyrir aksturinn og hafi tekið með sér bæði vodkapela og bjór í ökuferðina. Því megi allt eins ætla að stefnandi hafi haldið áfram drykkju við aksturinn. Telur stefndi því að miða beri við að áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið 1.03 ‰ er slysið varð og að öllum líkindum mun meira, þar sem blóð­sýni hafi verið tekið úr stefnanda alllöngu eftir slysið. Stefnandi hafi því, sökum áfeng­isdrykkju, verið ófær um að stjórna bifreið örugglega, sbr. 2. og 3. gr. um­ferð­ar­laga nr. 50/1987. Áfengisneysla stefnanda, svefnleysi hans og þreyta hafi því valdið slysinu. Síðbúin fullyrðing stefnanda um að eitthvað hafi lent á rúðu bif­reið­ar­innar, sem valdið hafi því að hann missti stjórn á ökutækinu, eigi ekki við neitt að styðjast. Stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að aka bifreið svo á sig kominn og hafi það valdið slysi hans.

Að beiðni stefnda var dómkvaddur lyflæknir til að gefa lýsingu á og láta í té rökstutt og skriflegt álit á eftirfarandi:

„Hvert áfengismagn sé líklegt, að hafi verið í blóði Haraldar G. Guðmundssonar á ætlaðri slysstundu um kl 7:00 miðvikudagsmorguninn 7. ágúst 1996.

Hvert áfengismagn sé líklegt að hafi verið í blóði Haraldar þegar lögreglu var til­kynnt um slysið kl 11:05 miðvikudagsmorguninn 7. ágúst 1996.

Hvort og þá hvaða máli það hafi skipt um áhrif áfengis á aksturshæfni Haraldar, að hann var vansvefta og þreyttur eftir miklar vökur við vinnu fyrir slysið.”

Niðurstaða hins dómkvadda matsmanns, Þorkels Jóhannessonar, prófessors, dr. med., var eftirfarandi: „Ekki liggur fyrir, hvort hlutaðeigandi hafði neytt áfengis á tíma­bilinu kl. 7:00 til kl. 12:05, né var heldur tekið þvagsýni samtímis blóðsýninu til ákvörð­unar á etanóli.

Ef maðurinn hefði ekki neytt áfengis á fyrrnefndu tímabili, má ætla, að þéttni etanóls í blóðinu hefði verið ca. 1.60‰ kl. 7:00 og ca. 1,20‰ kl. 11:05. Lögð er áhersla á, að slíkir afturreikningar hljóta að geta verið með umtalsverðum frávikum.

Þreyta er eitt þeirra atriða, er aukið geta áhrif etanóls á aksturshæfni manna. Örð­ugra er að meta syfju nema að því leyti sem syfja tengist þreytu.”

 Af framangreindum sökum telur stefndi að stefnandi eigi ekki rétt á bótum úr slysa­tryggingu ökumanns F-915, sbr. 124. gr. vátryggingasamningalaga nr. 20/1954, sbr. 20. gr. sömu laga og 5. gr. skilmála stefnda um slysatryggingu ökumanns.

Stefndi byggir varakröfu sína á því, að stefnandi eigi að minnsta kosti að bera tjón sitt sjálfur að hluta, sökum gáleysis síns.

V

Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort stefnandi njóti slysatryggingar öku­manns á grundvelli 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hefur stefndi hafnað bótaskyldu með þeim rökum í fyrsta lagi að ábyrgðartryggingin nái ekki til þess sem notar bifreið í algjöru heimildarleysi og hins vegar að stefnandi hafi verið ölvaður við aksturinn.

Kemur þá fyrst til skoðunar sú málsástæða stefnda, að tryggingin nái ekki til þess sem notar bifreiðina í algjöru heimildarleysi.

Er umrætt slys varð hljóðaði 92. gr. umferðarlaganna þannig: „Auk slysa­trygg­ingar ökumanns samkvæmt lögum um almannatryggingar skal eigandi skrán­ing­ar­skylds vélknúins ökutækis tryggja ökumann þess og gildir sú vátrygging fyrir hvern öku­mann sem tækinu stjórnar. Vátryggingin skal tryggja bætur vegna slyss sem öku­maður kann að verða fyrir við starfa sinn allt að 10.000.000 kr. vegna einstaks tjóns­at­burðar. Vátryggt skal hjá sama vátryggingafyrirtæki.”

Óumdeilt er að hvorki var í þágildandi 92. gr. umferðarlaga né í trygg­inga­skil­málum stefnda undanskilin ábyrgð á tjóni sem ökumaður varð fyrir við akstur bif­reiðar í heimildarleysi.

Með setningu laga nr. 32/1998, sem breytti m.a. orðalagi 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hljóðar 1. mgr. 92. gr. laganna nú svo, sbr. 2. gr. laga nr. 32/1998: „Auk ábyrgð­artryggingar skv. 91. gr. skal hver ökumaður sem ökutækinu stjórnar tryggður sér­stakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algjöru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr.”

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur m.a. fram, að slysatrygging ökumanns var lögfest með setningu núgildandi umferðarlaga árið 1987. Síðan segir í at­huga­semd­um með 2. gr. laganna, m.a. „Þá er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að slysa­tryggingin taki ekki til ökumanns sem notar ökutæki í algeru heimildarleysi og verði þá vísað til 2. mgr. 90. gr. laganna þar sem kveðið er á um að fébótaskyldan færist yfir á þann sem notar ökutæki í algeru heimildarleysi.” Samkvæmt þessum athugasemdum virðist sem löggjafinn hafi litið svo á að aðeins væri verið að færa í laga­textann það að ákvæðið verndaði ekki þá sem ækju bifreið í algjöru heim­ild­arleysi.

Fyrrgreint lagaákvæði kveður á um skyldu eiganda ökutækis til þess að vátryggja öku­mann bifreiðar sinnar. Með hliðsjón af því verður að telja óeðlilegt að sú skylda nái einnig til þess, sem stjórnar ökutæki í algjöru heimildarleysi. Með vísan til þess og framangreindra athugasemda með lögunum nr. 32/1998 verður að telja að stefnandi hafi ekki verið vátryggður hjá stefnda er umrætt slys varð. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Gjaf­sóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, er hæfi­lega ákveðinn 250.000 krónur og greiðist úr ríkissjóði. hefur þá verið litið til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan, en uppkvaðning hans hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómarans.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Haraldar G. Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 250.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.