Hæstiréttur íslands

Mál nr. 119/2016

Lánasjóður íslenskra námsmanna (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
gegn
A og B (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Fyrning
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Gjaldþrotaskipti
  • Gjafsókn

Reifun

A gaf út skuldabréf til L vegna námsláns árið 2005 og tókst B á hendur sjálfskuldarábyrgð á þeirri skuld. Bú A var tekið til gjaldþrotaskipta í september 2011 og lauk skiptum í júlí 2012 en L lýsti ekki kröfu í þrotabúið. L myndaði afborgun af skuldabréfinu með gjalddaga 1. mars 2014 sem A greiddi. A hafnaði frekari greiðsluskyldu þar sem hann taldi að skuld sín hefði fyrnst tveimur árum eftir að skiptum lauk á búi hans, samkvæmt 2., sbr. 3. mgr. 165 gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. L höfðaði í kjölfarið mál þetta til heimtu eftirstöðva skuldarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með breytingum sem lögleiddar hefðu verið með 1. gr. laga nr. 142/2010 og hefðu falið í sér styttingu fyrningarfrests krafna á hendur þrotamanni og þrengri rétt kröfuhafa til þess að rjúfa fyrningu hefði verið miðað að því að auðvelda þeim einstaklingum sem sætt hefðu gjaldþrotaskiptum að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Hinsvegar hefði engin breyting verið gerð á því með hvaða hætti skuldari gæti rofið fyrningu á hendur sér sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Með fyrirvaralausri afborgun A hefði hann rofið fyrningu kröfunnar og við hefði tekið nýr fyrningarfrestur í samræmi við 4. gr. laga nr. 14/1905. Hefði því krafa L verið ófyrnd þegar málið var höfðað og var A og B gert að greiða L umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 2016.  Hann krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 6.561.912 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. september 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 4. mars 2014 að fjárhæð 123.855 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.

I

Í málinu liggur fyrir að 16. desember 2005 gaf stefndi A út skuldabréf að fjárhæð 4.402.460 krónur til áfrýjanda og kom það í stað eldra skuldabréfs vegna námsláns sem þessi stefndi mun tvívegis hafa greitt afborganir af á árinu 2004. Stefndi B tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á þessari skuld. Greiðsla afborgana af skuldabréfinu hófst 1. mars 2006 samkvæmt reglum áfrýjanda og var lánið í skilum til 1. mars 2010. Með auglýsingu umboðsmanns skuldara 20. október 2010 í Lögbirtingablaði var tilkynnt að embættinu hefði borist umsókn stefnda A um greiðsluaðlögun. Frá þeim tíma hófst tímabundin frestun greiðslna hans á skuldabréfinu samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögunum. Bú þessa stefnda var svo tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu hans 21. september 2011 og lauk skiptum 23. júlí 2012.

Áfrýjandi lýsti ekki kröfu í þrotabúið. Eftir fyrirspurn áfrýjanda 11. nóvember 2013 upplýsti umboðsmaður skuldara hann um að stefndi A hefði afturkallað umsókn um greiðsluaðlögun og það verið auglýst í Lögbirtingablaði 15. september 2011. Í framhaldi af því myndaði áfrýjandi afborgun af skuldabréfinu með gjalddaga 1. mars 2014 sem þessi stefndi greiddi 4. mars sama ár. Með tölvubréfi 25. ágúst 2014 til áfrýjanda hafnaði hann hins vegar frekari greiðsluskyldu þar sem hann taldi skuld sína hafa fyrnst 23. júlí 2014 eða tveimur árum eftir að skiptum lauk á búi hans samkvæmt 2., sbr. 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með bréfi til áfrýjanda 19. september 2014 hafnaði stefndi B einnig greiðsluskyldu þar sem hann taldi að krafan á hendur sér væri jafnframt fyrnd samkvæmt 7. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í kjölfarið höfðaði áfrýjandi mál þetta á hendur stefndu til heimtu eftirstöðva skuldarinnar miðað við gjaldfellingu hennar við töku bús stefnda A til gjaldþrotaskipta 21. september 2011.

II

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að krafa áfrýjanda á hendur þeim sé fyrnd á grundvelli 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010. Tveggja ára fyrningafrestur hafi hafist við skiptalok 23. júlí 2012 og verið liðinn þegar mál þetta var höfðað 16. mars 2015. Geti greiðsla stefnda A á afborgun af skuldinni 4. mars 2014 engu breytt í því sambandi enda verði fyrning kröfu á grundvelli 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 aðeins rofin með málsókn kröfuhafa að gættum skilyrðum 3. mgr. 165. gr.

Með þeim breytingum sem lögleiddar voru með 1. gr. laga nr. 142/2010 og fólu í sér styttingu fyrningarfrests krafna á hendur þrotamanni og þrengri rétt kröfuhafa til þess að rjúfa fyrningu var miðað að því að auðvelda þeim einstaklingum sem sætt hafa gjaldþrotaskiptum að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Umrædd lagabreyting fól þannig í sér takmörkun á einhliða rétti kröfuhafa til þess að rjúfa fyrningu kröfu án tillits til vilja skuldara. Með henni var hins vegar engin breyting gerð á því með hvaða hætti skuldari getur rofið fyrningu kröfu á hendur sér, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda sem gilda um fyrningu kröfu áfrýjanda á hendur stefndu, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007. Standa engin efni til þess að túlka umrædda lagareglu með rýmri hætti en felst í bókstaflegum skilningi orða hennar, skýrðum til samræmis við 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.

Þegar stefndi A innti framangreinda afborgun af hendi 4. mars 2014 lágu fyrir fullnægjandi upplýsingar um höfuðstól eftirstöðva kröfunnar, verðbætur, vexti og aðra þætti sem máli gátu skipt. Með framangreindri og fyrirvaralausri afborgun rauf hann fyrningu kröfunnar og við tók nýr fyrningarfrestur í samræmi við 4. gr. laga nr. 14/1905. Af því leiðir að krafa áfrýjanda á hendur stefndu var ófyrnd þegar mál þetta var höfðað og ber því að fallast á kröfu hans í málinu sem hvorki sætir af hálfu stefndu rökstuddum tölulegum mótmælum né athugasemdum við áskilda vexti og upphafstíma þeirra.

Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Um gjafsóknarkostnað stefndu fer eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndu, A og B, greiði áfrýjanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, sameiginlega 6.561.912 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. september 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 4. mars 2014 að fjárhæð 123.855 krónur.

Stefndu greiði áfrýjanda sameiginlega 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 750.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2015

Mál þetta, sem dómtekið var 3. nóvember sl., er höfðað 16. mars sl. af  Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík gegn A, [...], Garðabæ og B, [...], Kópavogi.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum 6.561.912 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 21. september 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 123.855 krónur 4. mars 2014. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefjast stefndu greiðslu málskostnaðar.

I

                Málsatvik eru óumdeild. Stefndi A sótti um námslán hjá stefnanda 2. júní 1999 vegna náms í almannatengslum. Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 skulu námsmenn sem fá lán hjá stefnanda undirrita skuldabréf við lántöku, teljist þeir lánshæfir samkvæmt reglum stefnanda. Í samræmi við það ritaði stefndi A undir skuldabréf nr. [...]. Námslok stefnda í almannatengslum eru skráð 31. maí 2002 og var námslánsfjárhæðin þá færð inn á skuldabréfið, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997, sbr. nú 7. gr. reglugerðar nr. 478/2011. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 hefst endurgreiðsla námslána tveimur árum eftir námslok. Stefndi greiddi tvær fyrstu afborganirnar af skuldabréfinu, eða afborganir 30. júní 2004 og 1. september 2004. Árið 2005 var stefnda veitt undanþága frá árlegri endurgreiðslu námslánsins þar sem hann var í lánshæfu námi, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997, sbr. nú 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Með útgáfu skuldabréfs nr. [...], 16. desember 2005, var framangreindu R-skuldabréfi vegna námslána skuldbreytt. Skyldi lánið vera verðtryggt miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs. Námslánið skyldi bera breytilega vexti sem skyldu aldrei vera hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar, eða nú 1% ársvextir, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 602/1997, sbr. nú 8. gr. reglugerðar nr. 478/2011.Vextir skyldu reiknast frá námslokum. Með áritun á skuldabréf nr. [...] tókst B á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól skuldabréfsins, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða. Höfuðstóll sjálfskuldarábyrgðarfjárhæðarinnar skyldi breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs m.v. grunnvísitölu, 239,7 stig. Árlegar endurgreiðslur lánanna ákvarðast í tvennu lagi.  Annars vegar föst afborgun að jafnaði á fyrri hluta árs og hins vegar viðbótargreiðsla þann 1. september ár hvert, sem tekur mið af tekjustofni fyrra árs.  Fyrsta afborgun á námslánum, samkvæmt framangreindu láni, var 1. mars 2006, en þá hafði stefndi A lokið námi sínu í alþjóðastjórnmálum. Námslok eru skráð þann 30. september 2005. Árlegar endurgreiðslur voru greiddar allt fram til gjalddaga þann 1. mars 2010.

Með auglýsingu sem birt var í Lögbirtingarblaði, 20. október 2010, var tilkynnt að umboðsmaður skuldara hafi móttekið umsókn stefnda A um greiðsluaðlögun einstaklinga og þá hafi hafist tímabundin frestun greiðslna hjá honum samkvæmt lögum nr. 128/2010 um breytingar á lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Er stefndi, A, fór í greiðsluskjól, samkvæmt lögum nr. 101/2010, var hann í skilum með afborganir af námslánum sínum. Stefnandi myndaði ekki nýja afborgunargjalddaga hjá stefnda eftir að hann fór í greiðsluskjól. Með bréfi 30. maí 2011 tilkynnti umsjónarmaður með greiðsluaðlögun stefnanda að umboðsmaður skuldara hefði samþykkt umsókn stefnda frá 16. maí 2011 og innköllun hefði verið birt í Lögbirtingablaði. Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2011 krafðist stefndi, A, þess að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2011. Stefnandi lýsti ekki kröfu í þrotabú A og kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnanda, við skýrslugjöf fyrir dóminum, að það hefði farist fyrir. Námslán hans hjá stefnanda voru þá í skilum, en afborgunargjalddagar stofnuðust ekki á stefnda, A, þar sem stefnandi taldi hann vera í greiðsluaðlögunarferli. Skiptum var lokið á þrotabúi A 23. júlí 2012.

Stefnandi sendi fyrirspurn á umboðsmann skuldara með tölvupósti 11. nóvember  2013, þar sem óskað var eftir upplýsingum um framgang greiðsluaðlögunar hjá stefnda, A. Umboðsmaður skuldara svaraði því til að afturköllun umsóknar hafi verið birt í Lögbirtingablaði 15. september 2011. Stefnandi myndaði þá næsta afborgunargjalddaga vegna námslána stefnda, A, eða 1. mars 2014, að fjárhæð 123.855 krónur. Stefndi greiddi afborgunarfjárhæðina  4. mars 2014. Stefnufjárhæð í málinu tekur mið af því að allar kröfur stefnanda á hendur stefnda A hafi fallið í gjalddaga er bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 21. september 2011, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991, allt að frádreginni innborguninni 4. mars 2014. 

Með tölvubréfi til stefnanda 25. ágúst 2014 hafnaði stefndi, A, allri greiðsluskyldu á afborgunargjalddaga 1. september 2014 með þeim rökum að krafa stefnanda hafi fyrnst 23. júlí 2014 eða þegar tvö ár voru liðin frá skiptalokum í þrotabúi hans. Með tölvubréfi til stefnanda 19. september 2014 hafnaði stefndi, B, því að hann bæri ábyrgð á skuldabréfinu eða öðrum skuldbindingum sem stefndi, A, var með hjá stefnanda þegar bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. 

Við aðalmeðferð málsins gaf fyrirsvarsmaður stefnanda aðilaskýrslu.

II

Stefnandi byggir á því að stefndi, A, hafi með undirritun sinni á upphaflegt R-skuldabréf vegna námsláns nr.[...] og síðan með nafnritun sinni á nýtt skuldbreytt skuldabréf vegna námsláns nr.[...], sem gefið var út til skuldbreytingar á R-láninu, skuldbundið sig til að endurgreiða námslánið með þeim skilmálum sem fram koma á námslánsskuldabréfinu sjálfu og í samræmi við fyrirmæli laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Á því sé jafnframt byggt að stefndi, B, hafi með undirritun sinni á skuldabréf vegna námsláns nr. [...] tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á námslánsskuldbindingum sonar síns, A., vegna sama láns.  Samkvæmt skýrum og ótvíræðum skilmálum ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi stefndi, B, lofað að greiða námslánsskuldina in solidum með aðalskuldara, þ.e. höfuðstól lánanna að meðtöldum vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði vegna vanskila lánanna.

Krafa stefnanda byggi á því að krafa stefnanda á hendur stefnda, A, hafi fallið í gjalddaga við úrskurð héraðsdóms um töku bús stefnda A til gjaldþrotaskipta 21. september 2011, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. sömu laga byrji nýr fyrningarfrestur að líða á kröfum á hendur þrotamanni á þeim degi sem skiptunum sé lokið, hvort sem kröfu sé lýst við gjaldþrotaskiptin eða ekki, svo fremi sem vanlýst krafa fyrnist ekki á skemmri tíma. Nýr fyrningarfrestur hafi þá byrjað að líða gagnvart stefnda, A, frá þeim degi sem skiptum á þrotabúi hans var lokið, eða 23. júlí 2012.

Stefndi, A, hafi greitt 123.855 krónur inn á námslánsskuld sína hjá stefnanda 4. mars 2014.  Byggt sé á því að með innborguninni hafi stefndi viðurkennt með skýrum hætti skuld sína við stefnanda og hafði stefnandi enga ástæðu haft til að ætla annað en að stefndi hygðist ætla að greiða námslán sitt á réttum gjalddaga framvegis. Á því sé byggt að með innborgun stefnda, A, 4. mars 2014 og þar með viðurkenningu hans á skuld sinni, hafi stefndi slitið fyrningu kröfunnar og þar með hafi nýr fyrningarfrestur byrjað að líða frá og með þeim degi, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905. Byggt sé á því að með ákvæði 1. gr. laga nr. 142/2010, um breytingu á 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sé einvörðungu verið að þrengja úrræði kröfuhafa til þess að slíta fyrningu kröfu sinnar.  Í athugasemdum með lagaákvæðinu komi með skýrum hætti fram að tilgangur lagasetningarinnar hafi verið að þrengja úrræði kröfuhafa frá því að viðhalda kröfu sinni út í hið óendanlega.  Hins vegar sé þess ekki getið að skuldara eða þrotamanni sé meinað að viðurkenna kröfu sína með greiðslu eða öðrum hætti og rjúfa þannig fyrningu kröfunnar sjálfur samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Stefnandi byggi á því að stefndi, A, hafi 1. mars 2014 greitt 123.855 krónur inn á námslánsskuld sína hjá stefnanda og þar með hafi nýr fyrningarfrestur tekið að líða frá þeim degi samkvæmt almennum reglum um fyrningu kröfunnar eða í þessu tilviki 10 ára fyrningarfrestur, sbr. 4. gr. og 6. gr. laga nr. 14/1905. Stefndi A hafi með skýrum hætti viðurkennt skuld sína við stefnanda og hafi stefnandi enga ástæðu haft til að ætla annað en að stefndi A hygðist ætla að greiða námslán sitt á réttum gjalddaga framvegis.

Verði talið, þrátt fyrir þetta, að krafa stefnanda á hendur stefnda, A, sé fallin niður vegna fyrningar skv. fyrirmælum 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010, sé á því byggt að krafa á hendur stefnda, B, sé í fullu gildi. Fyrirmæli 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010 stytti einungis fyrningartíma gagnvart þrotamanninum persónulega. Fyrirmæli laganna lúti ekki að styttri fyrningartíma á hendur sjálfskuldarábyrgðarmönnum eða meðskuldurum þrotamanns. Á því sé byggt að kröfuréttur stefnanda á hendur stefnda, B, sé beinn og byggi á loforði hans um að greiða kröfu stefnanda ef stefndi, A, greiði ekki námslánsskuld sína á réttum tíma. Stefndi, B hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota og geti fyrningarfrestur samkvæmt 165. gr. laga nr. 21/1991 þar af leiðandi ekki gilt um kröfuréttindi stefnanda á hendur honum. Af því leiði óhjákvæmilega að fjögurra ára fyrningarfrestur á kröfu stefnanda á hendur stefnda, B, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, sé í fullu gildi og beri þegar af þeirri ástæðu að dæma hann til greiðslu kröfunnar. Krafa stefnanda hafi fallið í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku bús A til gjaldþrotaskipta, 21. september 2011. Þann dag hafi krafa stefnanda á hendur stefnda, B, vegna skuldabréfsins, orðið gjaldkræf sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905. Krafa stefnanda á hendur stefnda, B, fyrnist því ekki fyrr en í fyrsta lagi 21. september 2015.

Stefnandi byggi kröfu um greiðslu dráttarvaxta á því að krafan hafi fallið í gjalddaga 21. september 2011, er bú stefnda, A, hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991.  Stefndu beri að greiða dráttarvexti af skuldinni, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá gjalddaga kröfunnar. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að miða bera við síðari upphafstíma dráttarvaxta gagnvart stefnda, B, þá sé á því byggt að það geti ekki verið síðar en 19. september 2014 en þá hafi stefndi B sent stefnanda tölvupóst þar sem hann hafi hafnað greiðsluskyldu sinni.

Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og um ábyrgðarskuldbindingar. Þá vísar stefnandi til laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 33/2013 um neytendalán, laga nr. 121/1994 um neytendalán (brottfallin), laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá vísar stefnandi til reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum og reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með síðari breytingum (brottfallin).  Um varnarþing vísast til ákvæða í skuldabréfunum sjálfum og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988.

III

Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að krafa stefnanda á hendur stefnda, A sé fyrnd og að þar með sé krafa stefnanda á hendur stefnda, B, sem ábyrgðarmanns á lánum stefnda, A., jafnframt fyrnd í samræmi við meginreglu kröfuréttar um ábyrgðir sem felur í sér að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslu ef aðalkrafan er ógild eða fallin niður. Stefndi, A, hafi krafist þess 21. september 2011, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við 1. mgr. 64. gr. laga um laga nr. 21/1991. Fallist hafi verið á kröfu stefnda, A., og kveðinn upp úrskurður um að bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta. Skipaður hafi verið skiptastjóri þrotabúsins og skiptum lokið 23. júlí 2012. Kröfur stefnanda vegna umræddra lána hafi því fyrnst 23. júlí 2014, þegar tvö ár hafi verið liðin frá skiptalokum, sbr. 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Umrædd ákvæði séu sérákvæði um fyrningu sem tekið hafi gildi 28. desember 2010, eftir að breytingarlög nr. 142/2010 hefðu verið samþykkt á Alþingi. Umrædd lög gangi því framar almennum ákvæðum fyrningarlaga nr. 150/2007, enda um að ræða í senn yngri lög og sérlög um fyrningu krafna í kjölfar gjaldþrotaskipta. Skilyrði þess að almennum lögum verði beitt til fyllingar sérlögum eða með lögjöfnun sé að sérlögin séu þögul um tilvikið. Svo sé ekki í þessu tilviki enda sé hin nýja sérregla um fyrningu í kjölfar gjaldþrotaskipta tæmandi um hvernig fyrningu verði slitið við þær aðstæður. Þá sé rétt að ítreka að í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sé skýrlega tekið fram að fyrningu krafna á hendur gjaldþrota einstaklingum verði „aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrestsins mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum.“ Ekkert slíkt mál hafi verið höfðað á hendur stefnda, A., jafnvel þó að stefnandi hafi mátt vita um gjaldþrotið, enda gjaldþrotaskiptin auglýst í Lögbirtingablaðinu, ásamt innköllunum í samræmi við lagaákvæði þar um.

Á fyrningartímanum, það er frá skiptalokum 23. júlí 2012 til 23. júlí 2014, hafi stefndi, A, borið ábyrgð á greiðslu þeirra krafna sem frá stefnanda stöfuðu vegna námslánsins sem tekið var 2. júní 1999, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Sá greiðsluseðill, sem stefnandi hafi sent stefnda, A., undir lok febrúar 2014 og greiddur hafi verið 4. mars 2014, hafi því verið greiddur í samræmi við skýra lagaskyldu þar um. Engu breyti hins vegar um fyrningartíma kröfunnar þótt stefnandi hafi kosið að krefja stefnda, A, um greiðslu einstakra afborgana en ekki höfuðstól lánsins alls þegar bú stefnda, A., hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, svo sem stefnanda hefði verið heimilt að gera samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 verði fyrningu krafna á hendur einstaklingum sem hafi farið í gegnum gjaldþrot „aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum.“ Umrætt ákvæði taki því af öll tvímæli með það að greiðslur afborgana á fyrningartímanum leiða ekki til þess að fyrningu sé slitið samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905.

Í málatilbúnaði stefnanda sé meðal annars á því byggt að 1. gr. laga nr. 142/2010 um breytingu á 165. gr. laga nr. 21/1991 hafi aðeins verið hugsuð til þess að þrengja úrræði kröfuhafa til þess að slíta fyrningu kröfunnar. Að ákvæðið hafi ekki komið í veg fyrir að þrotamaður eða skuldari ryfi fyrningu sjálfur, samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905. Þessi lagatúlkun stefnanda standist ekki, þegar skoðaðar séu þær athugasemdir sem fylgt hafi lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 142/2010. Eins og sjá megi af athugasemdum hafi löggjafinn gert ráð fyrir því að ekki væri hægt að rjúfa umræddan tveggja ára fyrningarfrest nema í algjörum undantekningartilvikum og þá aðeins að undangegnum dómi þess efnis. Skipti hér engu hvort lesið sé lagaákvæðið sjálft eða lögskýringargögn með því. Einungis dómur geti rofið tveggja ára fyrningarfrestinn og þá aðeins hafi málið verið höfðað innan fyrningarfrestsins. Þá þurfi kröfugerð að vera í samræmi við ákvæðið, þ.e. viðurkenningarkrafa um slit fyrningar en ekki aðfararhæf dómkrafa.

Þá sé ljóst að krafa stefnanda á hendur stefnda, B, ábyrgðarmanni lána stefnanda til stefnda, A., sé jafnframt niður fallin enda lifi kröfur á ábyrgðarmenn ekki eftir að þær hafi fyrnst á hendur aðalskuldara. Þessi meginregla sé staðfest í 7. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Almenn lög um fyrningu kröfuréttinda gildi hér aðeins til fyllingar þar sem yngri sérlög séu þögul og eigi þessi meginregla kröfuréttar því hér við auk þess sem um sé að ræða lögfestingu á fornri meginreglu kröfuréttar.

Fari svo ólíklega að kröfur stefnanda nái fram að ganga sé ljóst að mjög mikilsverðir samfélagslegir hagsmunir myndu raskast. Eins og fram hafi komið í forsendum þess frumvarp sem varð að lögum nr. 142/2010 hafi breyttum fyrningartíma krafna verið ætlað að auðvelda einstaklingum sem lent hafi í því skipbroti, sem persónulegt gjaldþrot óneitanlega sé, að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Ef þeim auðskiljanlegu ákvæðum 165. gr. laga nr. 21/1991 verði hrundið sé ljóst að það myndi hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir stefndu í þessu máli, sem og þá fjölmörgu einstaklinga sem séu í sömu eða svipaðri stöðu. Í því samhengi sé rétt að geta þess að 540 einstaklingar hafi verið úrskurðaðir gjaldþrota árið 2014. Margir hverjir bíði nú fyrningar krafna þeirra sem ekki hafi fengist greiddar við gjaldþrotaskipti í því skyni að hlutaðeigandi geti hafið endurreisn sinna fjármála. Það hafi stefndi A talið sig þegar hafa gert.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu sé gerð krafa um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti, að mati dómsins.

Um lagarök vísa stefndu einkum til 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög 142/2010, og meginreglu kröfuréttar um ábyrgðir. Þá vísast jafnframt til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Jafnframt vísast til meginreglu skiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og lögmætisreglu ríkisréttar (stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar). Um málskostnað vísar stefndu til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu hafa uppi kröfu um greiðslu álags á málskostnað. Byggir sú krafa á 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, sbr. a- og c-lið 1. mgr. 131. gr. laganna. Að mati stefndu sé mál þetta höfðað þvert á skýr lagaboð þess efnis að krafa stefnanda sé niður fallin sakir fyrningar. Krafa um að stefnandi verði dæmdur til greiðslu réttarfarssektar byggir á því að fyrirliggjandi dómsmál sé vísvitandi höfðað að þarflausu og dómkröfur vísvitandi rangar, í trássi við skýrt lagaboð um fyrningu krafna á hendur einstaklingum sem hafi orðið gjaldþrota. Um kröfu um álag á málskostnað vísist jafnframt til 20. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands, Codex ethicus. Varðandi kröfu um réttarfarssekt vísi stefndu til. a- og d-liða 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt vísist til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

                                                                       IV.

Stefndi, A, tók námslán hjá stefnda 2. júní 1999. Undirritaði stefndi, B, skuldabréf vegna námslánsins sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Að loknu námi var stefnda veitt undanþága frá árlegri endurgreiðslu vegna síðara náms. Greiddi stefndi fyrst af námsláninu 1. mars 2006 og allar afborganir eftir það til 1. mars 2010. Síðar það ár fór stefndi í svonefnt greiðsluskjól á grundvelli laga nr. 101/2010. Afturköllun umsóknar stefnda um greiðsluskjól var síðan birt í Lögbirtingablaði 15. september 2011. Var bú stefnda tekið til gjaldþrotaskipta 21. september 2011 og skiptum lokið 23. júlí 2012. Stefnandi lýsti ekki kröfu í þrotabúið. 

Með lögum nr. 142/2010 var ákvæðum laga nr. 21/1991 um fyrningu krafna á hendur gjaldþrota einstaklingum breytt. Fyrningarfrestur slíkra krafna hafði verið í samræmi við kröfuna fjögur, tíu eða tuttugu ár, eftir því um hvaða kröfu var að ræða. Var fyrningafresturinn styttur og gerður tvö ár. Jafnframt var lögfest að sami frestur gilti um kröfur sem ekki hefði verið lýst við gjaldþrotaskiptin, nema þær fyrndust á skemmri tíma eftir almennum reglum. Lögunum var breytt að þessu leyti í kjölfar efnahagshrunsins. Í athugasemdum sagði að með þessu móti væri þeim einstaklingum sem teknir hefðu verið til gjaldþrotaskipta en bæru áfram ábyrgð á skuldum, sem ekki hefðu fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, auðveldað að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.

Stefnandi lýsti ekki kröfu í þrotabú stefnda, A. Í samræmi við skýrt ákvæði 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 gilti um kröfu stefnanda á hendur stefnda tveggja ára fyrningarfrestur. Samkvæmt 3. mgr. sama ákvæðis verður fyrningu, samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, einungis slitið með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanni og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Ákvæði 3. mgr. 165. gr. var bætt við 165. gr. laga nr. 21/1991 með lögum nr. 142/2010 og var nýmæli að því leyti að mælt var sérstaklega fyrir um fyrningu í þeim lögum. Fyrir liggur að stefnandi höfðaði ekki slíkt mál innan fyrningarfrests. Breytir þá engu þó svo stefndi, A hafi greitt eina afborgun af láninu á fyrningartíma. Verður stefndi A, því sýknaður af kröfum stefnanda.

Stefndi B tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu. Ekki er í 165. gr. laga nr. 21/1991 kveðið sérstaklega á um fyrningu krafna á hendur ábyrgðarmanni að skuld þrotamanns og er ekki að finna í greinargerð með lögum nr. 142/2010 athugasemdir um hvernig með kröfur á hendur ábyrgðarmanni skuli fara vegna breyttra reglna um fyrningu kröfuréttinda á hendur þrotamanni. Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 150/2007 er kveðið sérstaklega á um áhrif fyrningar aðalkröfu gagnvart ábyrgðarmanni. Hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst áður en fyrningu hefur verið slitið gagnvart ábyrgðarmanni, með þeim hætti sem lögin mæla fyrir um, telst krafan á hendur ábyrgðarmanni jafnframt fyrnd. Lög nr. 150/2007 tóku gildi 1. janúar 2008. Samkvæmt 28. gr. laganna gilda þau einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna. Krafa stefnanda á hendur B stofnaðist fyrir gildistöku laganna. Hin nýja regla 2. mgr. 25. gr. laga nr. 150/2007 er í samræmi við meginreglur kröfuréttar um ábyrgðir en af þeim leiðir að ábyrgðarmaður verður jafnan ekki krafinn um greiðslu ef aðalkrafan er ógild eða fallin niður. Krafa stefnanda á hendur aðalskuldaranum er fallin niður fyrir fyrningu. Í samræmi við það verður stefndi, B, einnig sýknaður af kröfum stefnanda.

Í samræmi við niðurstöðu málsins greiði stefnandi stefndu sameiginlega 600.000 krónur í málskostnað. Engin efni eru til að beita álagi á málskostnað eða réttarfarssekt.

Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefndu Gísli Tryggvason héraðsdómslögmaður.

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndu, A og B, eru sýknir af kröfum stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 600.000 krónur í málskostnað.