Hæstiréttur íslands
Mál nr. 483/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 25. ágúst 2015. |
|
Nr. 483/2015.
|
Ákæruvaldið (Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi) gegn X (Bjarni Hólmar Einarsson hdl.) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að honum yrði heimilað að leiða fyrir dóm fimm tilgreind vitni og leggja fram yfirlýsingu eins vitnisins. Málinu var vísað frá Hæstarétti, enda hafði kæra borist héraðsdómi eftir að frestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var liðinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 10. júlí 2015 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að leiða fyrir dóm fimm tilgreind vitni. Þá var hafnað kröfu hans um að honum yrði heimilt að leggja fram yfirlýsingu eins vitnisins. Kæruheimild er í n. og p. liðum 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að áðurgreindar kröfur hans verði teknar til greina.
Sóknaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Vestfjarða sótti hvorki þing varnaraðili né verjandi hans við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 10. júlí 2015, en þinghaldinu lauk klukkan 10.07. Fyrir þinghaldið hafði héraðsdómari boðað verjandann til þinghaldsins, en hann svaraði því erindi með tölvubréfi 9. sama mánaðar þar sem fram kom að hann myndi ekki mæta og reiknaði ekki með að varnaraðili mætti heldur. Fór verjandinn þess á leit við dóminn að honum yrði sendur úrskurðurinn með tölvupósti og það gerði héraðsdómari sama dag og úrskurðurinn gekk. Kæra varnaraðila barst síðan héraðsdómi með tölvupósti 13. júlí 2015 klukkan 17.00.
Samkvæmt upphafsmálslið 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er kærufrestur þrír sólarhringar og byrjar hann að líða frá því aðili fékk vitneskju um úrskurðinn. Þessi frestur byrjaði að líða þegar við uppkvaðningu úrskurðarins þar sem verjandi varnaraðila hafði verið boðaður til þinghaldsins og tilkynnt að úrskurður yrði þá upp kveðinn. Kærufrestur var því liðinn þegar kæran barst héraðsdómi. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 10. júlí 2015.
I
Mál þetta sem lögreglustjórinn á Vestfjörðum höfðaði með ákæru 23. febrúar 2015 á hendur ákærða X, kennitala [...], [...], [...], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 2. nóvember 2014, á lögreglustöðinni á [...] að [...], neitað að láta lögreglu í té þvagsýni og þannig neitað að veita atbeina sinn við rannsókn á ætluðu broti hans fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Af hálfu ákæruvalds er brot ákærða talið varða við 3., sbr. 2. mgr. 47. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ásamt síðari breytingum og gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttinda samkvæmt 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga.
Málið var tekið til úrskurðar 2. júlí sl. um kröfu ákærða um að dómari úrskurði hvort heimilt sé að leiða fyrir dóminn sem vitni A, kennitala. [...], B, kennitala [...], C, kennitala [...], D lögreglumann og E lögreglumann. Þá krefst ákærði þess að honum verði heimilað að leggja fram yfirlýsingu framangreindrar B, dagsetta 2. júlí 2015. Af hálfu ákæruvalds hefur kröfum ákærða verið mótmælt utan þess að ekki er gerð athugasemd við að C gefi vitnaskýrslu vegna þeirra atvika er getið er um í ákæru og áttu sér stað 2. nóvember 2014.
II
Ákærði byggir vörn sína á því að lögregla hafi í tvö önnur skipti, skömmu fyrir 2. nóvember 2014, haft afskipti af ákærða vegna gruns um akstur undir áhrifum. Það hafi annars vegar verið 28. október 2014 í [...] og hins vegar 31. október sama ár, líklega á [...]. Af hálfu ákærða er vísað til þess að ofangreind vitni geti borið um afskipti lögreglu af ákærða þessa daga, þ. á m. að hann hafi þá gefið þvagsýni. Af hálfu ákærða hafi verið óskað eftir gögnum frá lögreglu vegna afskipta hennar af ákærða 28. og 31. október en engin gögn borist. C og B hafi verið í bifreið með ákærða 31. október en C hafi einnig verið í bifreið með honum 2. nóvember og geti borið um ástand ákærða þann dag. Þá hafi A verið með ákærða í bifreiðinni 28. október en D eigi að bera um atvik 28. október og E 31. október. Vörn ákærða byggi á því að ekki sé lagaleg heimild fyrir lögreglu til að stoppa ákærða ítrekað en hann hafi ávallt sýnt samvinnu og reynst vera í lagi. Loks byggir ákærði á því að yfirlýsing A hafi að geyma upplýsingar um þau atriði sem hún muni bera um gefi hún skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Máli sínu til stuðnings vísar ákærði einnig til 3. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 en samkvæmt ákvæðinu skulu ákærendur vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Einnig vísar hann til 70. gr. stjórnarskrárinnar og d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
III
Af hálfu ákæruvalds er því mótmælt að framangreind vitni verði leiddi fyrir dóminn til skýrslugjafar. Byggir ákæruvald á því að nefnd vitni geti ekki borið um atvik 2. nóvember 2014 og það sé bersýnilega tilgangslaust til sönnunar um atvik að leiða þau fyrir dóminn til skýrslugjafar, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Þá er af hálfu ákæruvalds vísað til þess að fyrir liggi gögn sem bendi til þess að ákærði hafi áður verið stöðvaður og hægt sé að leggja dóm á málið án þess að að vitnin verði leidd fyrir dóminn. Loks er á það bent af hálfu ákæruvalds að yfirlýsing B hafi ekkert gildi hvort sem henni verði heimilað að bera vitni eða ekki.
IV
Ákærði er ákærður fyrir að neita að láta lögreglu í té þvagsýni og þannig neita að veita atbeina sinn við rannsókn vegna gruns um að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þau vitni sem ákærði hyggst leiða fyrir dóminn er ætlað að bera um önnur tilvik en það sem átti sér stað 2. nóvember 2014 og getið er um í ákæru, og ákærði telur hafa átt sér stað 28. og 31. október 2014. Ekki er ágreiningur um að leiða vitnið C fyrir dóminn til að bera um atvik 2. nóvember 2014.
Meðal framlagðra gagna í málinu er útprentun úr dagbók lögreglu frá 28. október 2014 þar sem fram kemur að lögregla stöðvaði bifreið ákærða þann dag og leitaði í bifreiðinni. Þá liggur fyrir bréf lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 9. apríl 2014 þar sem ákærða var tilkynnt um að rannsókn væri hætt í máli sem verið hafði til rannsóknar vegna gruns um að ákærði hefði ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna 8. mars 2014.
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er hverjum manni, sem orðinn er 15 ára og lýtur íslenskri lögsögu og er ekki ákærði eða fyrirsvarsmaður hans, skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlegum spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Í 3. mgr. 110. gr. laganna segir að ef dómari telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Sú sönnunarfærsla sem fyrirhuguð er af hálfu ákærða með því að leiða framangreind vitni fyrir dóminn varðar ekki sakarefni málsins samkvæmt ákæru og hefur því ekki þýðingu við úrlausn þess. Þá hafa verið lögð fram gögn sem benda til þess að lögregla hafi áður haft afskipti af ákærða vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Einnig byggir ákærði á d-lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt ákvæðinu skal sá sem borinn er sökum um refsivert brot fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Séð skal um að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum. Þessi réttur er hins vegar háður því að lagaskilyrði séu að öðru leyti fyrir því að leiða viðkomandi einstaklinga fyrir dóm til skýrslugjafar og að vitnið sé nauðsynlegt til að upplýsa málið svo unnt sé að leggja á það dóm en eins og fyrr er rakið er það niðurstaða dómsins að svo sé ekki. Með vísan til framangreinds er kröfu ákærða um að leiða nefnda einstaklinga fyrir dóminn til skýrslugjafar hafnað.
Ákærði gerir einnig kröfu um að honum verði heimilt að leggja fram yfirlýsingu framangreindrar B. Yfirlýsingin hefur að geyma lýsingu hennar á atvikum sem áttu sér stað á [...], haustið 2014, og telur ákærði að þessar upplýsingar skipti máli vegna varna hans. Í 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að ákærandi leggi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati, þar á meðal þau sem hafa að geyma framburð ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu. Þó er einungis heimilt að leggja fram skýrslur sem vitni hafa gefið hjá lögreglu eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum ef ætlunin er að leiða þau fyrir dóm eða ekki er kostur á að fá þau fyrir dóm til að gefa skýrslu. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má ekki að öðru leyti en fram kemur í 2. mgr. leggja fram skjöl eða annars konar gögn ef þau hafa að geyma vitnisburð ákærða að annarra sem skylt er að koma fyrir dóm sem vitni. Í greinargerð sem fylgdi ákvæðinu kemur fram að með öllu sé óheimilt að leggja fram skjöl eða önnur gögn sem hafa að geyma framburð, m.a. vitna, t.d. ef um er að ræða frásögn af málsatvikum utan réttar án þess að um sé að ræða skýrslu fyrir dómi, hjá lögreglu eða öðrum stjórnvöldum sem komið hafa að rannsókn málsins. Með vísan til þess er kröfu ákærða um að leggja fram yfirlýsingu B hafnað.
Úrskurð þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu ákærða, X, um að heimilað verði að leiða fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins A, kennitala. [...], B, kennitala [...], D lögreglumann og E lögreglumann, er hafnað. Þá er hafnað kröfu ákærða um að C, kennitala [...], gefi skýrslu fyrir dómi til að bera um atvik í lok október 2014. Loks er kröfu ákærða um að honum verði heimilað að leggja fram yfirlýsingu B, dagsetta 2. júlí 2015, hafnað.