Hæstiréttur íslands
Mál nr. 172/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
Miðvikudaginn 26. maí 2004.
Nr. 172/2004. X
(Karl Axelsson hrl.)
gegn
Y
(enginn)
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
X krafðist þess að Y yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli sem Y hafði höfðað gegn X. Var krafa X reist á því að Y væri eignalaus með öllu en m.a. hefðu verði gerð þrjú árangurslaus fjárnám hjá varnaraðila á árinu 2001 auk þess sem hann væri í vanskilum með kröfur að tiltekinni fjárhæð. Í Hæstarétti var talið að þrátt fyrir að nokkur tími væri liðinn frá því að hin árangurslausu fjárnám hefðu verið gerð hefði X leitt nægar líkur að því að Y væri ófær um að greiða málskostnað. Yrði því að telja að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 væri fullnægt svo að krafa um málskostnaðartryggingu væri tæk.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. maí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu vegna máls sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 500.000 krónur „eða annarri fjárhæð samkvæmt mati Hæstaréttar.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði krefst varnaraðili greiðslu á 516.274 krónum í máli því sem hann hefur höfðað á hendur sóknaraðila. Við fyrirtöku málsins krafðist sóknaraðili með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 að varnaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu.
Krafa sóknaraðila um málskostnaðartryggingu er reist á því að varnaraðili sé eignalaus með öllu. Gerð hafi verið þrjú árangurslaus fjárnám hjá varnaraðila á árinu 2001 vegna krafna að fjárhæð 2.424.735 krónur auk þess sem hann sé í vanskilum með kröfur að fjárhæð 3.937.921 krónu samkvæmt vottorði frá Lánstrausti hf. 18. mars 2004. Liggi ekkert fyrir um að fjárhagsstaða varnaraðila hafi batnað frá þeim tíma, sem hin árangurslausu fjárnám voru gerð. Þá hafi varnaraðili, sem er öryrki, engra tekna aflað frá því að hin árangurslausu fjárnám voru gerð hjá honum. Fyrir liggi vottorð ríkisskattstjóra 19. apríl 2004 þar sem staðfest er að varnaraðili hafi ekki átt eignir samkvæmt skattframtölum 1999-2003.
Þrátt fyrir að nokkur tími sé liðinn frá því að hin árangurslausu fjárnám voru gerð hefur sóknaraðili leitt nægar líkur að því að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað. Verður því að telja að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt svo að krafa um málskostnaðartryggingu sé tæk. Að þessu virtu verður fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að setja slíka tryggingu og er hún hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Skal hún sett með peningum eða bankaábyrgð og héraðsdómara afhent skilríki fyrir tryggingunni innan tveggja vikna frá uppsögu dóms þessa.
Rétt er að málskostnaður í héraði falli niður.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðila, Y, er skylt að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 150.000 krónur. Ber að setja trygginguna með peningum eða bankaábyrgð innan tveggja vikna frá uppsögu dóms þessa.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2004.
Mál þetta höfðaði Y með stefnu birtri 10. mars sl. á hendur X. Í þessum úrskurði skal leyst úr kröfu stefnda um að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Krafa þessi var sett fram við þingfestingu málsins 23. mars sl. og tekin til úrskurðar að loknum málflutningi 1. apríl sl.
Í stefnu er krafist greiðslu á kr. 516.274, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Atvik í stuttu máli eru þau að stefnandi undirritaði 26. maí 2000 yfirlýsingu þar sem hann afsalaði sér arfi frá báðum foreldrum málsaðila, gegn greiðslu á kr. 961.949 frá stefnda. Stefnandi kveðst telja að stefndi hafi beitt sig blekkingum til að undirrita erfðaafsalið. Greiðsla sú sem stefndi innti af hendi hafi verið of lág og krefur stefnandi um leiðréttingu.
Stefndi krefst málskostnaðartryggingar með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Hann hefur lagt fram yfirlit frá Lánstrausti hf. um vanskil stefnanda. Þar kemur fram að að 29. janúar 2001 voru gerð tvö árangurslaus fjárnám hjá stefnanda. Þann 27. mars sama ár voru einnig gerð tvö árangurslaus fjárnám hjá honum. Fjárhæðir umræddra krafna sjást ekki af yfirliti þessu.
Stefnandi mótmælir kröfu stefnda. Hann kveðst hafa náð samkomulagi við umrædda kröfuhafa. Hann bendir á að ekki hafi verið krafist gjaldþrotaskipta á búi sínu. Loks hefur hann lagt fram yfirlit um gjaldastöðu sína hjá Tollstjóranum í Reykjavík, þar sem segir að hann sé skuldlaus.
Álit dómsins.
Í nokkrum dómum hefur verið fjallað um skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Oftast reynir á að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá stefnanda og er þá iðulega fallist á kröfu um málskostnaðartryggingu. Fordæmi eru hins vegar ekki fyrir því að svo langt sé um liðið frá hinu árangurslausa fjárnámi eins og er í þessu máli. Hér eru þrjú ár liðin frá hinni árangurslausu gerð. Þykir hún því ekki veita nægar líkur fyrir því að stefnandi verði ófær um að greiða málskostnað til stefnda. Frekari gögn styrkja þær líkur ekki. Verður kröfu stefnda hafnað.
Er lögmaður stefnanda veitti gagnsvör andsvörum lögmanns stefnda við munnlegan málflutning um þessa kröfu, krafðist hann málskostnaðar. Er þessi krafa of seint fram komin og verður henni ekki sinnt.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu stefnda, X, um að stefnanda, Y, verði gert að setja málskostnaðartryggingu.