Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 23. apríl 2014. |
|
Nr. 256/2014.
|
A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn velferðarsviði Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2014, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að lögræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Er fallist á með varnaraðila að til þess að unnt sé að tryggja sóknaraðila viðeigandi læknismeðferð við alvarlegum geðsjúkdómi sem hann er haldinn, sé nauðsynlegt að verða við kröfu varnaraðila. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2014.
Með beiðni, dagsettri 1. apríl sl. og móttekinni sama dag, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], til heimilis að [...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í fjögur ár á grundvelli a- og b- liða 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild sóknaraðila er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Málið var þingfest og tekið til úrskurðar 7. apríl 2014.
I.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé 45 ára gamall, einhleypur, öryrki sem dvalið hefur á Réttar- og öryggisgeðdeild á Kleppi frá því í mars 2013. Varnaraðili hafi lengi glímt við geðræn veikindi og neyslu ávanabindandi efna og hann eigi að baki fjölmargar innlagnir á geðdeildir vegna alvarlegra geðrænna einkenna og hefur fengið þá greiningu að hann sé með aðsóknargeðklofa, áfengis- og vímuefnavanda. Einnig kemur fram að varnaraðili hafi verið lagður inn á geðdeild árið 2007 með geðrofseinkenni og í kjölfar þeirra veikinda sviptur sjálfræði og vistaður á lokaðri endurhæfingardeild. Eftir útskrift hafi varnaraðili sótt eftirmeðferð og tekið lyf en fyrir rúmum þremur árum hafi hann hætt að sækja reglulega eftirfylgd. Varnaraðili hafi svo verið lagður inn á deild 33A gegn vilja sínum 11. mars 2013 og í kjölfarið verið sviptur sjálfræði í eitt ár með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Á þeim tíma hafi varnaraðili verið mjög veikur þar sem hann hafði ekki sinnt viðhlítandi meðferð í nokkur ár auk mikillar neyslu vímuefna.
Í málinu liggur fyrir vottorð B yfirlæknis Réttar- og öryggisdeildar Klepps dagsett 31.mars 2014. Þar kemur fram að varnaraðili sé ennþá að ná sér af geðrofseinkennum, sem eru annað hvort eiginlegur geðklofasjúkdómur eða afvegaleiddur geðklofasjúkdómur í kjölfar gríðarlegrar neyslu. Það sé mat læknisins að eftir 6-8 mánaða meðferð á deild l5 til viðbótar kæmi til greina að útskrifa hann í styrkt sambýli en til þess að það geti orðið, verði hann að geta verið áfram í meðferð á geðdeild og fengið eftirfylgni í framhaldinu. Byggir læknirinn mat sitt á því að miðað við alvarlega geðrofssögu, neyslu, alvarlegra hótana, sé það hans fyrsta mat að sækja þurfi um ótímabundna sjálfræðissviptingu. Þó mætti sætta sig við 4 ára sviptingu sjálfræðis í þeirri veiku von að betur muni ganga næstu árin með meira eftirliti og umönnun.
B geðlæknir staðfesti læknisvottorð sitt í símaskýrslu fyrir dómi og gerði frekari grein fyrir veikindum varnaraðila og nauðsyn þess að hann yrði sviptur sjálfræði a.m.k. í 4 ár. Kom fram í máli læknisins að varnaraðili hafi átt til að vera ógnandi og væri hættulegur ef hann nyti ekki meðferðar.
Byggist krafa sóknaraðila á því að varnaraðili sé án vafa haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Sé því nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði, í hans eigin þágu, til að koma megi við og tryggja nauðsynlega endurhæfingar- og læknismeðferð.
Dómari, ásamt lögmanni sóknaraðila og skipuðum verjanda varnaraðila, ræddu við varnaraðila á öryggisgeðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Kvaðst varnaraðili ekki samþykkja kröfu sóknaraðila. Sagðist hann vera edrú og þyrfti enga meðferð. Sveinn Andri Sveinsson hrl. var skipaður verjandi varnaraðila samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Verjandi mótmælti framkominni beiðni en krafðist þess til vara að sjálfræðissviptingu yrði markaður skemmri tími, t.d. tvö ár.
II.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum. Teljast skilyrði a- og b- liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 því vera uppfyllt. Verður varnaraðili því sviptur sjálfræði tímabundið til þess að tryggja megi öryggi hans og til þess að hann njóti viðeigandi og langvarandi meðferð við geðsjúkdómi sínum. Verður varnaraðili því sviptur sjálfræði tímabundið til þess að tryggja megi öryggi hans og til þess að hann njóti viðeigandi og langvarandi meðferð við geðsjúkdómi sínum, en dómari telur rétt að sjálfræðissvipting verði tímabundin í 2 ár.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 87.850 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Guðfinnur Stefánsson settur héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár, frá deginum í dag að telja.
Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 87.850 krónur.