Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-29

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Vigfúsi Ólafssyni (Óskar Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Brenna
  • Skaðabætur
  • Ásetningur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 19. desember 2019, sem barst Hæstarétti 16. janúar 2020, leitar Vigfús Ólafsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. desember 2019 í máli nr. 580/2019: Ákæruvaldið gegn Vigfúsi Ólafssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur rök standa til þess að fallast á beiðnina.

Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brennu samkvæmt 1., sbr. 2. mgr., 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa valdið eldsvoða í íbúðarhúsnæði. Í eldsvoðanum fórust karl og kona. Þá var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga. Í dóminum var vísað til þess að þegar leyfisbeiðandi kveikti eldinn hefði hann vitað að á efri hæð hússins hefðu verið þau sem létust í eldsvoðanum. Þá hefði hann vitað að mikill eldsmatur var í húsinu og ekki getað dulist að svo gæti farið að þau kæmust ekki úr húsinu ef kviknaði í því og líklegt væri að þau gætu beðið bana. Þrátt fyrir þessa vitneskju hefði leyfisbeiðandi kveikt eld. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í fjórtán ár og honum gert að greiða börnum og foreldrum hinna látnu skaðabætur. Í héraði hafði leyfisbeiðandi verið sakfelldur fyrir brennu og manndráp af gáleysi samkvæmt 215. gr. fyrrgreindra laga og gert að sæta fangelsi í fimm ár.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Byggir hann á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Í fyrsta lagi séu engin fordæmi fyrir því að sakborningur sé sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga vegna háttsemi sem leiðir til dauða tveggja einstaklinga í einum og sama verknaði. Í öðru lagi þurfi að skera úr um mörk ásetnings og gáleysis í málinu. Í þriðja lagi fari niðurstaða Landsréttar um ásetning leyfisbeiðanda til manndráps á skjön við réttarframkvæmd og skrif fræðimanna. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og uppfylli ekki þær sönnunarkröfur sem hvíli á ákæruvaldinu um sekt ákærða samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 108. gr. laga nr. 88/2008. Loks telur leyfisbeiðandi mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar í málinu í ljósi ósamræmis milli niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar um heimfærslu til refsiákvæða sem hafi haft veruleg áhrif á ákvörðun refsingar í málinu.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn um mörk ásetnings og gáleysis í máli af þeim toga sem hér um ræðir myndi hafa verulega almenna þýðingu, auk þess sem mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um ákvörðun refsingar. Er því með vísan til a. og b. liða 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 fallist á umsókn leyfisbeiðanda um að málið verði flutt um framangreind atriði.