Hæstiréttur íslands

Mál nr. 100/2001


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Ábyrgð
  • Einföld ábyrgð
  • Skuldskeyting
  • Ógildingarkrafa
  • Samningalög
  • Sýkna að svo stöddu


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 100/2001.

Sparisjóður Mýrasýslu

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Sæmundi Sigmundssyni

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Skuldabréf. Ábyrgð. Einföld ábyrgð. Skuldskeyting. Ógildingarkrafa. Samningalög. Sýkna að svo stöddu.

 

Sparisjóðurinn M tók á sig einfalda ábyrgð á láni sem N hf. fékk hjá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda. Í tengslum við lánveitinguna rituðu S, stjórnarmaður í N hf., og O, oddviti, f.h. hreppsins H, hvor undir sína ábyrgðaryfirlýsinguna. Í yfirlýsingu S kom fram að hann ábyrgdist gagnvart sparisjóðnum greiðslu á helmingi lánsins. Þegar á reyndi gat N hf. ekki staðið í skilum af láninu. Af þessum sökum samdi N hf. með samþykki sparisjóðsins um að breyta skilmálum þess skuldabréfs sem lá til grundvallar láninu. Svo fór að sparisjóðurinn þurfti að greiða stærstan hluta af láninu og krafði S vegna þess um greiðslu á helmingi þeirrar fjárhæðar auk helmings eftirstöðva lánsins. Í málinu krafðist S sýknu með vísan til þess annars vegar að það væri ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að bera fyrir sig ábyrgðaryfirlýsingu hans. Í þessu sambandi vísaði hann meðal annars til þess að ábyrgðaryfirlýsing hreppsins hefði verið bundin tímamörkum. Sparisjóðnum hefði borið að kynna honum efni yfirlýsingarinnar og gefa honum kost á að takmarka ábyrgð sína með sama hætti. Í dómi Hæstiréttur kemur fram að af ákvæðum ábyrgðaryfirlýsinganna verði ekki ráðið að það hafi verið forsenda hvors ábyrgðarmannanna fyrir sig að hinn gengist í sams konar ábyrgð, enda hafi ábyrgð hvors þeirra náð til helmings lánsins. Ábyrgð þeirra hafi verið skipt og vanefnd annars þeirra því ekki getað haft nein áhrif á umfang ábyrgðar hins. Þá leiddi hvorki staða aðila né önnur atvik til slíkrar niðurstöðu. Krafa S um sýknu var hins vegar byggð á því að ábyrgð hans hefði fallið niður við þá breytingu sem var gerð á skilmálum þess skuldabréfs sem lá til grundvallar láninu. Hæstiréttur hafnaði þessari málsástæðu með vísan til þess að samþykki S hefði ekki þurft fyrir breyttum skilmálum, en þeir hefðu hvorki falið í sér nýjan samning né verið íþyngjandi fyrir S. Var S því gert að greiða sparisjóðnum helming þeirrar fjárhæðar sem hann hafði greitt af láninu, en sýknaður að svo stöddu af kröfu sparisjóðsins um greiðslu á helmingi af eftirstöðvum þess.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.350.337 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. október 1999 til greiðsludags.

Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.169.030 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 3.869.345 krónum frá 25. október 1999 til 1. mars 2000, af 4.283.637 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 4.705.228 krónum frá þeim degi til 1. mars 2001, en af 5.169.030 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

I.

Á árinu 1993 var Norræna skólasetrið hf. sett á stofn í því skyni að byggja og reka ráðstefnuhótel í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Er fram komið að stefndi átti sæti í stjórn félagsins frá upphafi til ársins 1996. Til að greiða kostnað við verkið tók félagið lán að fjárhæð 14.000.000 krónur hjá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda samkvæmt skuldabréfi útgefnu 17. desember 1993. Skyldi lánsfjárhæðin gengistryggð miðað við danskar krónur og endurgreiðast með átján afborgunum á sex mánaða fresti á gjalddögunum 1. mars og 1. september á hverju ári, í fyrsta sinn 1. mars 1995. Af láninu skyldi greiða 9.8% ársvexti fram til 1. mars 1996. Gat lánveitandi samkvæmt bréfinu breytt vöxtunum á tveggja ára fresti í samræmi við þróun vaxta á erlendum bankamarkaði að undangenginni tilkynningu til lántakanda, í fyrsta sinn 1. mars 1996. Að öðrum kosti skyldu vextir vera óbreyttir. Stefndi, sem var í stjórn félagsins, ritaði undir skuldabréfið fyrir hönd þess ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum. Til tryggingar skuldinni tók áfrýjandi á sig einfalda ábyrgð gagnvart lánveitandanum. Sigfús Sumarliðason, þáverandi sparisjóðsstjóri áfrýjanda, ritaði undir skuldabréfið fyrir hönd hans. Í tengslum við útgáfu skuldabréfsins rituðu stefndi og þáverandi oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps, hvor undir sína ábyrgðaryfirlýsingu. Segir í yfirlýsingu stefnda 31. desember 1993 að hann „ábyrgist gagnvart Sparisjóði Mýrasýslu, Borgarnesi, greiðslu á helmingi láns Norræna Skólasetursins h/f... hjá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda, skv. skuldabréfi útg. 17/12 1993, að höfuðstól kr. 14.000.000... Ábyrgðin tekur einnig til vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar er af innheimtu kann að leiða. Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgist hinn helming lánsins og hefur verið undirrituð ábyrgðaryfirlýsing þar að lútandi. Ábyrgðin tekur gildi við undirritun þessarar yfirlýsingar og gildir á meðan ofangreint skuldabréf er ógreitt.” Samhljóða ákvæði er í ábyrgðaryfirlýsingu ofangreinds oddvita fyrir hönd hreppsins 29. desember sama ár, að öðru leyti en því að þar er í stað tilvísunar til hreppsins vísað til sams konar ábyrgðar stefnda og í stað ákvæðins um gildistökuna hefur verið bætt eftirfarandi setningu með annars konar letri: „Ábyrgðin tekur gildi við undirritun þessarar yfirlýsingar og gildir til 1. ágúst 1994, enda verði byggingarframkvæmdum þá lokið.“

Lánið fór í vanskil og með sérstökum samningi Norræna skólasetursins hf. og Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda 4. nóvember 1995, sem nefndur var „endursamningur“, var skilmálum skuldabréfsins breytt og samkomulag gert um niðurfellingu þriggja greiðslna, sem greiða átti af skuldabréfinu 1. mars og 1. september 1995 og 1. mars 1996, en vextir skyldu bætast við höfuðstólinn. Jafnframt var greiðslum fjölgað úr átján í tuttugu og sex. Segir í samkomulaginu að við þetta lengist lánið um fimm og hálft ár. Þá segir að „vaxtabreytingar geti farið fram á ári hverju en ekki annað hvert ár eins og upphaflega var gert ráð fyrir.” Undir þennan samning rituðu forsvarsmaður Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda og fjórir stjórnarmenn Norræna skólasetursins hf., en þó ekki stefndi. Samningur þessi var áritaður um samþykki áfrýjanda af Sigfúsi Sumarliðasyni. Fram er komið að nafni Norræna skólasetursins hf., aðalskuldara lánsins, var síðar breytt í Heimar hf. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 31. ágúst 1999. Upplýst er að tæpar 60.000 krónur fengust upp í kröfuna við skiptalok. Skuldabréfið lenti í vanskilum og með yfirlýsingu um skuldskeytingu 25. október 1999, undirritaðri af áfrýjanda og samþykktri af lánveitanda, varð áfrýjandi aðalskuldari lánsins. Eins og fram er komið hafði bú aðalskuldara, Heima hf., þá verið tekið til gjaldþrotaskipta síðla sumars þetta ár. Segir í yfirlýsingu áfrýjanda um skuldskeytinguna að þar sem svo standi á sé ábyrgð hans á láninu orðin virk og því óski hann eftir að gerast skuldari þess. Áfrýjandi hafði greitt kröfuhafa öll vanskil skuldarinnar 25. október 1999. Í málinu krefur hann stefnda um helming þeirra greiðslna, 3.869.345 krónur og helming þeirra þriggja afborgana, sem áfrýjandi hefur greitt síðar, 1.299.685 krónur auk helmings eftirstöðva lánsins, 5.181.307 krónur. Samtals nema kröfur áfrýjanda því á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar stefnda 10.350.337 krónum. Ekki er tölulegur ágeiningur í málinu.

II.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því, að það hafi verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, að bera fyrir sig ábyrgðaryfirlýsingu hans, eins og gildistíma ábyrgðar Hvalfjarðarstrandarhrepps var háttað, stöðu aðila við samningsgerð og öllum atvikum. Það hafi verið grundvallarforsenda þess að stefndi samþykkti að gangast í ábyrgð á hluta lánsins að hreppurinn hefði einnig samþykkt fyrir sitt leyti að gangast í sams konar ábyrgð um hinn hluta lánsins. Tildrög þess að hann gekkst í ábyrgðina hafi verið þau að þáverandi oddviti hreppsins hafi leitað til stefnda um þetta og hafi oddvitinn haft öll samskipti um málið við áfrýjanda. Aldrei hefði komið til álita að stefndi tæki að sér víðtækari ábyrgð en hreppurinn, eins og raunin hafi orðið. Áfrýjanda hafi mátt vera þetta ljóst, enda hafi komið fram í ábyrgðaryfirlýsingu stefnda, að hreppurinn tæki að sér ábyrgð á hinum hluta lánsins. Í sérákvæði í ábyrgðaryfirlýsingu hreppsins komi fram að ábyrgðin taki gildi við undirritun yfirlýsingarinnar og gildi til 1. ágúst 1994, enda verði byggingarframkvæmdum þá lokið. Nærtækust skýring á þessu ákvæði sé sú, að ábyrgðin hafi aðeins átt að gilda þangað til fasteign aðalskuldarans væri orðin veðhæf. Hafi áfrýjanda borið að kynna stefnda gildistíma þessarar yfirlýsingar og gefa honum kost á að takmarka ábyrgð sína með sama hætti, en samkvæmt gögnum málsins verði að ganga út frá því að ábyrgðaryfirlýsing hreppsins 29. desember 1993 hafi legið fyrir hjá áfrýjanda er stefndi undirritaði yfirlýsingu sína 31. desember sama ár. Það hafi verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að halda því leyndu fyrir sér að ábyrgð hans hafi verið víðtækari en ábyrgð hreppsins.  Af hálfu áfrýjanda var því haldið fram við munnlegan málflutning að ósannað væri að yfirlýsing oddvitans hefði borist honum áður en stefndi undirritaði sína yfirlýsingu.

III.

Þegar meta skal hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera löggerning fyrir sig skal samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar koma til.

Ábyrgðaryfirlýsing stefnda ber með sér að hún hafi verið samin af þáverandi lögmanni áfrýjanda. Við aðalmeðferð málsins kvaðst lögmaðurinn hafa samið hana að ósk sparisjóðsstjórans. Hann sagðist einnig hafa samið megintexta ábyrgðaryfirlýsingar Hvalfjarðarstrandarhrepps að öðru leyti en því að hann kannaðist ekki við ákvæðið um tímatakmörkun ábyrgðar hans. Taldi hann að því hefði verið bætt við síðar. Kvaðst hann ekki hafa haft hana undir höndum er hann samdi ábyrgðaryfirlýsingu stefnda og vissi ekki ástæðu þess að yfirlýsingarnar urðu ekki samhljóða. Aðspurður um það hvers vegna ákvæðið um ábyrgð hreppsins hafi verið haft í yfirlýsingu stefnda sagði hann: „Ég þykist vita að það sé vegna þess að ég hef verið upplýstur um að svo væri.” Þáverandi sparisjóðsstjóri bar fyrir dómi að hann minntist þess ekki að um það hafi verið rætt að yfirlýsingarnar ættu að vera samhljóða og gat enga skýringu á því gefið hvers vegna gildistími þeirra var með mismunandi hætti. Er hann var nánar spurður um gildistíma ábyrgðar hreppsins minnti hann að ábyrgðin hafi verið „hugsuð þannig að það væri hægt að veðsetja húsið þegar þessi frestur rynni út.” Hann kvaðst ekki þora að fullyrða hvort stefnda var kynnt ábyrgðaryfirlýsing hreppsins áður en hann undirritaði sína yfirlýsingu, en honum og stefnda bar saman um að hinn síðastnefndi hafi undirritað yfirlýsinguna hjá sparisjóðsstjóranum.

Í ábyrgðaryfirlýsingu stefnda er, eins og að framan segir, ákvæði þess efnis að Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgist hinn helming lánsins og hafi yfirlýsing um það verið undirrituð. Á sama hátt er í ábyrgðaryfirlýsingu hreppsins vísað til yfirlýsingar stefnda. Af þessum ákvæðum verður ekki ráðið að það hafi verið fosenda hvors ábyrgðarmannanna fyrir sig að hinn gengist í sams konar ábyrgð, enda náði ábyrgð hvors þeirra til helmings lánsins. Ábyrgð þeirra var þannig skipt og gat vanefnd annars ábyrgðarmannsins á greiðslu því ekki haft nein áhrif á umfang ábyrgðar hins. Bar að þessu leyti ekki nauðsyn til að kynna stefnda ábyrgðaryfirlýsingu hreppsins. Framburður þeirra manna, sem stóðu að gerð og móttöku yfirlýsingarinnar, og önnur gögn benda heldur ekki til annars. Þegar framangreint er virt þykir ekkert fram komið í málinu, sem styður þá fullyrðingu stefnda að áfrýjanda hafi mátt vera ljóst að það hafi verið forsenda ábyrgðar stefnda á láninu að hreppurinn tæki að sér sams konar ábyrgð að efni til og hann. Við mat á stöðu aðila málsins ber til þess að líta að stefndi sat í stjórn lántakans frá upphafi og allt til ársins 1996. Átti honum því að vera gjörkunnugt um fjárhag félagsins og fjárhagslegar skuldbindingar þess þegar hann gekkst í ábyrgðina. Stefndi stundaði sjálfur eigin atvinnurekstur á þessum tíma. Samkvæmt öllu framansögðu eru ekki efni til að fallast á að víkja beri til hliðar ábyrgðaryfirlýsingu stefnda á grundvelli ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936.

IV.

Verður þá tekin afstaða til þeirrar málsástæðu stefnda að ábyrgð hans hafi fallið niður við svokallaðan endursamning Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda og áfrýjanda 4. nóvember 1995, sem lýst hefur verið hér að framan. Óumdeilt er að hvorki var leitað eftir samþykki stefnda við samningsgerðina né honum kynnt efni samningsins. Stefndi heldur fram að um nýjan samning hafi verið að tefla sem hann hefði þurft að samþykkja til að ábyrgð hans teldist skuldbindandi. Þá hafi breytingar, sem í honum fólust, verið íþyngjandi fyrir hann þar sem lánstíminn hafi verið lengdur um rúmlega fimm ár og vöxtum breytt. Af þessum ástæðum sé ábyrgð hans fallin niður.

Þegar samningurinn 4. nóvember 1995 var gerður, tæpum tveimur árum eftir að skuldabréfið var gefið út, höfðu engar afborganir verið greiddar af því vegna fjárhagsörðugleika aðalskuldarans. Breyting, sem gerð var á skilmálum skuldabréfsins með samningnum var á þann veg að felldar voru niður þrjár afborganir, heimilt var að breyta vöxtum árlega og lánstíminn var lengdur um fimm og hálft ár. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram gögn frá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda, sem sýna að vextir eftir breytinguna urðu aldrei hærri en upphaflegir vextir skuldabréfsins. Er ljóst að hefði þessi skilmálabreyting ekki farið fram hefði lánið að öllum líkindum verið allt gjaldfellt eins og fjárhag aðalskulda var háttað. Var þá í kjölfar ógjaldfærni aðalskuldara unnt að ganga að stefnda um að efna ábyrgðarskuldbindingu sína. Í ljósi tengsla stefnda við aðalskuldara, sem lýst er hér að framan, mátti honum vera kunnugt um þessa stöðu mála. Þegar til framangreinds er litið verður hvorki fallist á þá málsástæðu stefnda að um nýjan samning hafi verið að ræða né heldur að skilmálabreytingin hafi verið íþyngjandi fyrir hann. Þurfti því ekki samþykki stefnda fyrir samningnum og var hann af þeim sökum skuldbindandi fyrir hann.

Eins og fram er komið gerðist áfrýjandi með samningi um skuldskeytingu við Lánasjóð Vestur-Norðurlanda nýr skuldari lánsins 25. október 1999 í kjölfar þess að bú fyrrum skuldara þess var tekið til gjaldþrotaskipta 31. ágúst sama ár. Í skuldskeytingunni kom fram að áfrýjandi viðurkenndi að ábyrgð hans væri orðin virk gagnvart lánasjóðnum, enda taldi áfrýjandi ljóst að lítið sem ekkert fengist upp í skuldir aðalskuldara, eins og síðar kom á daginn. Áfrýjandi hefur hins vegar ekki greitt lánasjóðnum eftirstöðvar skuldarinnar. Getur hann því ekki að svo komnu máli krafið stefnda um greiðslu þeirra eftirstöðva. Ber því að sýkna stefnda að svo stöddu af þeirri kröfu áfrýjanda. Eins og lýst hefur verið bar stefndi á grundvelli yfirlýsingar sinnar ábyrgð á greiðslu helmings lánsins gagnvart áfrýjanda, sem hafði greitt lánasjóðnum 25. október 1999 gjaldfallnar afborganir, vexti og kostnað með 7.738.689 krónum, og þrjár síðari afborganir með 2.599.371 krónu, samtals 10.380.060 krónur. Ber stefnda því samkvæmt framansögðu að greiða áfrýjanda helming þeirrar fjárhæðar, 5.169.030 krónur ásamt vöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Sæmundur Sigmundsson, greiði áfrýjanda, Sparisjóði Mýrasýslu, 5.169.030 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 3.869.345 krónum frá 25. október 1999 til 1. mars 2000, af 4.283.637 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 4.705.228 krónum frá þeim degi til 1. mars 2001 og af  5.169.030 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi er sýknaður að svo stöddu af öðrum kröfum áfrýjanda í málinu.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 23. janúar 2001.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. janúar 2001, hefur Sparisjóður Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14 Borgarnesi, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 14. apríl 2000 á hendur Sæmundi Sigmundssyni, kt. 140135-2249, Kveldúlfsgötu 17 Borgarnesi.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi, Sæmundur Sigmundsson, verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 10.350.337 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxta­laga nr. 25/1987 frá 25. október 1999 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða 24,5% virðisaukaskatt af þjónustu lögmanns. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 25. október 2000.

Af hálfu stefnda er þess krafist aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara, að hann verði einungis dæmdur til greiðslu skuldar að höfuðstól kr. 3.869.345 og að hann verði sýknaður að svo stöddu að öðru leyti. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu, þ. m. t. 24,5% virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

II.

Í máli þessu krefur stefnandi samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu, en stefndi ber fyrir sig ógildingarreglur samningaréttar, einkum forsendubrest og ákvæði 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 með síðar breytingum, en sakarefni málsins er í aðalatriðum þetta:

Lánasjóður Vestur-Norðurlanda veitti Norræna Skólasetrinu hf. í Hvalfjarðar-strandarhreppi lán til húsbyggingar í formi skuldabréfs með bankaábyrgð, ekki fasteignaveði.  Stefnandi, Sparisjóður Mýrasýslu, gekkst í einfalda ábyrgð fyrir láninu. Stefndi í máli þessu og Hvalfjarðarstrandarhreppur gengust í bakábyrgð gagnvart Sparisjóði Mýrasýslu, hvor um sig fyrir helmingi lánsins. Aðalskuldari varð gjaldþrota en stefnanda, Sparisjóði Mýrasýslu, tókst að semja um yfirtöku lánsins, gegn því að greiða upp vanskilin. Í máli þessu krefur þannig ábyrgðarmaður að láni öllu, bakábyrgðarmann að helmingi láns um helming greiddra vanskila og helming yfirtekinna eftirstöðva skuldabréfs.

Varnir stefnda eru einkum þessar:

Ábyrgðaryfirlýsing Hvalfjarðarstrandarhrepps var þannig úr garði gerð að stefnandi hefur enga tilraun gert til þess að krefja hreppinn. Hún var tímabundin, þ.e. gilti aðeins frá undirritunardegi 29. desember 1993  “til 1. ágúst 1994, enda verði byggingarframkvæmdum þá lokið”,  svo sem segir í skjalinu. Nærtækt er að álykta að miðað hafi verið við að fasteignaveð í nýbyggingunni kæmi í stað bakábyrgðar hreppsins þegar byggingin teldist nægjanlega veðhæf samkvæmt reglum Sparisjóðsins.

Í ábyrgðaryfirlýsingu stefnda Sæmundar er sérstaklega tekið fram, að Hvalfjarðarstrandahreppur, sem tveim dögum fyrr hafði undirritað yfirlýsingu sína, ábyrgist hinn helming lánsins, en þess er að engu getið í skjalinu að hreppurinn leysist úr ábyrgð eftir rúmlega 7 mánuði, "enda verði byggingarframkvæmdum þá lokið”. Stefndi kveður það hafa verið forsendu af sinni hálfu að Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgðist með sama hætti og hann sjálfur, þ.e. væri í venjulegri bakábyrgð. Þá hafi stefnandi leynt sig efni ábyrgðarskjals Hvalfjarðarstrandarhrepps, að minnsta kosti með þeim hætti að tilkynna sér ekki um það efni skjalsins, þegar það barst Sparisjóðnum, að um væri að ræða ábyrgð skammtímaábyrgð hreppsins sem ætlað væri að falla sjálfkrafa niður. Sér hafi ekki verið frá þessu skýrt, enda augljóst að hann hefði þá aðeins gefið kost á að ganga í sams konar ábyrgð. Að öllu þessu athuguðu telur stefndi að ábyrgðaryfirlýsing sín hafi verið fengin með þeim hætti að víkja beri henni til hliðar samkvæmt ógildingarreglum samningalaga, einkum 36. gr. með síðari breytingum.

Einnig reifar stefndi þá röksemd fyrir sýknukröfu, að ekki hafi verið leitað samþykkis síns er láninu var skuldbreytt með sérstakri yfirlýsingu, dags. 4. nóvember 1995,  lánstíminn m. a.  lengdur um 5 ár. Þar sem skilmálum lánveitingar þeirrar sem var grundvöllur ábyrgðar stefnda hafi verið breytt án samþykkis hans, hafi ábyrgð hans fallið niður, enda verði að líta svo á að um nýja lánveitingu hafi verið að ræða.

 Varakrafa stefnda miðast við að stefnandi geti einungis endurkrafið um þær fjárhæðir sem hann hefur greitt, en ekki um nafnverð eftirstöðva skuldabréfs þess er hann yfirtók.

Stefnandi andmælir öllum framangreindum sýknurökum stefnda, og byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því, að stefndi hafi tekist á hendur ábyrgð á greiðslu á helmingi höfuðstóls skuldar samkvæmt umræddu skuldabréfi auk vanskilakostnaðar, með ábyrgðar-yfirlýsingu, dags. 31. desember 1993. Þar skipti engu hvort Hvalfjarðarstrandarhreppur hafi gengist í ábyrgð fyrir greiðslu hins helmings skuldarinnar. Ábyrgð Hvalfjarðarstrandarhrepps geti engu breytt varðandi ábyrgð stefnda. Ábyrgð stefnda hafi hvorki orðið þrengri né víðtækari við það hvernig ábyrgð Hvalfjarðarstrandarhrepps eða annarra aðila var háttað á greiðslu umræddrar skuldar að hluta eða öllu leyti.

Stefnukrafan sundurliðast þannig:

1)            50% af vanskilum greiddum 8. okt. 1999, kr. 7.298.283,92.... 3.649.142 ísl. kr.

2)            50% af greiddum lögmannskostnaði, kr. 376.288 ...................188.144 ísl. kr.

3)            50% af greiddu skuldskeytingargjaldi, kr. 64.118 ............... 32.059 ísl. kr.

4)            50% af yfirteknum eftirstöðvum skuldabréfsins pr. 1.9.1999

      1.247.183,75 d.kr.  eða 623.592 d.kr. x 10,393.................... 6.480.992 ísl. kr.

Samtals 10.350.337 ísl. kr. auk dráttarvaxta frá 25. október 1999, en óumdeilt er að þann dag lauk stefnandi við að greiða ofangreind vanskil og undirritaði þann dag yfirlýsingu um skuldskeytingu.

III.

Nánar tilgreint eru málavextir þeir, að með skuldabréfi, útgefnu 17. desember 1993, viðurkenndi Norræna skólasetrið hf., kt. 590593-3899, Mjóstræti 10B Reykjavík, að skulda Lánasjóði Vestur-Norðurlanda kr. 14.000.000 ísl. kr., bundið opinberu viðmiðunar kaupgengi Seðlabanka Íslands á dönskum krónum á útborgunardegi lánsins. Lánið skyldi endurgreiða með átján afborgunum á sex mánaða fresti, með gjalddaga 1. mars og 1. september ár hvert, í fyrsta sinn 1. mars 1995 og í síðasta sinn 1. september 2003. Af láninu skyldi greiða vexti, sem fram til 1. mars 1996 skyldu vera 9,80% ársvextir. Lánasjóður Vestur­-Norðurlanda gat með tilkynningu til lántaka, sem skyldi send í fyrsta sinn fyrir gjald­dagann 1. mars 1996, breytt vöxtunum fyrir næsta tveggja ára tímabil, eða frá og með 1. mars 1996 til l. mars 1998, í samræmi við þróun vaxta á erlendum bankamarkaði. Að öðrum kosti skyldu vextirnir óbreyttir. Þannig gat Lánasjóður Vestur-Norður­landa breytt vöxtunum með tilkynningu til lántaka á tveggja ára fresti út lánstímabilið.

Til tryggingar skaðlausri endurgreiðslu á láninu, öllum vöxtum og kostnaði tók stefnandi, Sparisjóður Mýrasýslu, á sig einfalda ábyrgð.

Með ábyrgðaryfirlýsingu, dags. 31. desember 1993, tók stefndi á sig ábyrgð gagnvart stefnanda, Sparisjóði Mýrasýslu, á greiðslu á helmingi umrædds láns Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda til Norræna skólasetursins hf.

Ábyrgðin tók einnig til vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af innheimtu kynni að leiða. Ábyrgðin skyldi gilda meðan umrætt skuldabréf væri ógreitt. Í ábyrgðaryfirlýsingunni segir að Hvalfjarðarstrandar­hreppur ábyrgist helming lánsins og hafi ábyrgðaryfirlýsing þar að lútandi verið undirrituð. Fram er lögð í málinu ábyrgðaryfirlýsing Hvalfjarðarstrandarhrepps dagsett tveim dögum fyrr, eða 29. desember 1993, sem er samhljóða ábyrgðaryfirlýsingu stefnanda, að öðru leyti en því, að í stað setningarinnar : "Ábyrgðin tekur gildi við undirritun þessarar yfirlýsingar og gildir á meðan ofangreint skuldabréf er ógreitt” er skráð setningin: "Ábyrgðin tekur gildi við undirritun þessarar yfirlýsingar og gildir til l. ágúst 1994, enda verði byggingarframkvæmdum þá lokið.”

Með endursamningi 4. nóvember 1995 var gert samkomulag um niðurfellingu [það orð er notað í skjalinu] þriggja greiðslna sem greiða átti 1. mars og l. september 1995 og 1. mars 1996, en vöxtum bætt við höfuðstól skuldarinnar. Lánið var einnig lengt um fimm og hálft ár, þannig að greiðslur skyldu vera 26 í stað 18. Jafnframt var samið um að vaxtabreytingar gætu farið fram á ári hverju, en ekki annað hvert ár eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Stefndi undirritaði ekki þetta samkomulag.

Nafni útgefanda skuldabréfsins, Norræna skólasetursins hf., var síðar breytt í Heimar hf. Bú Heima hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands uppkveðnum 31. ágúst 1999. Óumdeilt er að við skiptin hefur komið í ljós að félagið átti ekki nema yfirveðsettar eignir og því ljóst að ekkert kemur upp í umrædda skuld við gjaldþrota­skiptin. Heimum hf. er því ekki stefnt í máli þessu.

Eftir gjaldþrot aðalskuldara eða 25. október 1999 fór fram skuldskeyting vegna umrædds skuldabréfs og gerðist stefnandi Sparisjóður Mýrasýslu aðalskuldari. Stefnandi kom þá láninu í skil og tók að sér að greiða eftirstöðvar þess í samræmi við skilmála skuldabréfsins og skuldbreytingarskilmálana frá 4. nóvember 1995.

Stefnukröfur máls þessa byggjast á umræddri skuldskeytingu og greiðslu. Óumdeilt er að stefnandi greiddi vanskilaskuld samkvæmt skuldabréfinu, 7.298.283,92 ísl. kr., lögfræðikostnað, 376.288 ísl. kr., og skuldskeytingargjald, 64.118 ísl. kr., og að eftirstöðvar skuldarinnar voru þá, miðað við 1. september 1999, 1.247.183,75 danskar krónur, gengi 10,393, auk áfallandi vaxta frá þeim degi, en næsti gjalddagi var 1. mars 2000. Samtala ofangreindra fjárhæða, ísl. kr. 10.350. 337, er stefnukrafan.

IV.

Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi til áður tilvitnaðrar ábyrgðaryfirlýsingar, sem samin var af Gísla Kjartanssyni hdl. þáverandi lögmanni stefnanda, en hún hljóðar svo:

 “Sæmundur Sigmundsson, kt. 140135-2249, Kveldúlfsgötu 17, Borgarnesi, lýsir því hér með yfir, að hann ábyrgist gagnvart Sparisjóði Mýrasýslu, Borgarnesi, greiðslu á helmingi láns Norræna skólasetursins h/f, kt. 590593-3899, hjá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda, skv. skuldabréfi útg. 17/12 1993, að höfuðstól kr. 14.000.000 -fjórtánmilljónir og 00/100. Ábyrgðin tekur einnig til vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar er af innheimtu kann að leiða. Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgist hinn helming lánsins og hefur verið undirrituð ábyrgðaryfirlýsing þar að lútandi.

Ábyrgðin tekur gildi við undirritun þessarar yfirlýsingar og gildir á meðan ofangreint skuldabréf er ógreitt."

Ábyrgðaryfirlýsing Hvalfjarðarstrandarhrepps, sem undirrituð sé af Jóni Einarssyni, þáverandi oddvita, sé eins að efni til, nema um gildistíma, en þar virðist hafa verið málað yfir texta þann sem var um gildistíma og vélritað eftirfarandi:

"Ábyrgðin tekur gildi við undirritun þessarar yfirlýsingar og gildir til 1. ágúst 1994, enda verði byggingarframkvæmdum þá lokið."

Nærtækust skýring á þessu breytta ákvæði í ábyrgðaryfirlýsingu sveitarfélagsins sé, að   ábyrgðin hafi hafi aðeins átt að standa þar til fasteign sú er um ræðir væri orðin veðhæf. Fasteignaveð kæmi þá í stað ábyrgðarmanna. Ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið móttekin af stefnanda án nokkurra athugasemda, og hann þar með fallist á gildistíma hennar.

Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins, en þessi yfirlýsing Hvalfjarðarstrandar-hrepps, dags. 29.12.1993, hafi verið afhent stefnanda tveimur dögum áður en stefndi undirritaði framangreinda yfirlýsingu sína hinn 31.12.1993.

Stefndi segir, að tildrög þess að hann gekkst í ábyrgð þá er mál þetta varðar, hafi verið þau, að þáverandi oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps hafi leitað til sín um það og hafi oddvitinn átt öll samskipti við stefnanda vegna þessa en ekki stefndi sjálfur. Stefndi hafi einungis komið til stefnanda þann 3l. desember 1993 til þess að undirrita ábyrgðaryfirlýsinguna. Komið hafi fram í yfirlýsingunni að Hvalfjarðarstrandarhreppur hefði þá undirritað og ábyrgst hinn helming lánsins.

Stefndi kveðst ekkert hafa heyrt af ábyrgð þessari fyrr en stefnandi krafði hann greiðslu haustið 1999, eða nær 6 árum eftir að ábyrgðin var veitt. Með bréfi dags. 30. nóvember 1999 hafi lögmaður stefnda óskað eftir því að stefnandi upplýsti hvort Hvalfjarðarstrandarhreppur hefði undirritað og afhent stefnanda ábyrgðaryfirlýsingu með sama hætti og stefndi.

Í bréfi 6. desember 1999 hafi lögmaður stefnanda lýst því yfir að slík yfirlýsing hefði aldrei verið undirrituð. Sú fullyrðing hafi reynst röng.

Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 17. desember 1999, hafi því verið lýst yfir af hálfu stefnda, að ábyrgðaryfirlýsing stefnda væri óskuldbindandi þar sem hún hefði byggst á röngum forsendum, svo sem nánar sé lýst í bréfinu. Skömmu eftir þetta hafi komið fram ábyrgðaryfirlýsing sú frá Hvalfjarðarstrandarhreppi er nú liggur frammi í málinu og áður er lýst.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að það hafi verið grundvallarforsenda þess að hann samþykkti að gangast í umrædda ábyrgð, að Hvalfjarðarstrandarhreppur gengist í samsvarandi ábyrgð um hinn hluta lánsins, enda sérstaklega tekið fram í ábyrgðaryfirlýsingunni að Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgðist hinn hluta lánsins. Þetta hafi stefnanda verið ljóst eða mátt vera ljóst. Aldrei hefði komið til álita af hálfu stefnda að hann tæki á sig viðtækari ábyrgð en Hvalfjarðarstrandarhreppur.

Eins og atvikum sé hér háttað hefði stefnanda borið að kynna stefnda sérákvæði í ábyrgðaryfirlýsingu sveitarfélagsins um gildistíma og gefa honum þannig kost á því að taka afstöðu til þess hvort hann væri reiðubúinn að taka á sig víðtækari ábyrgð en sveitarfélagið. Þegar litið sé til efnis ábyrgðaryfirlýsingarinnar, stöðu aðila og atvika við samningsgerðina   þá sé ljóst, að það sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig ábyrgðaryfirlýsinguna samkvæmt efni sínu hvað varðar gildistíma.

Af þessum sökum beri að víkja til hliðar ákvæði yfirlýsingarinnar um að hún gildi meðan skuldabréfið sé ógreitt, og marka henni sama gildistíma og ábyrgð Hvalfjarðarstrandarhrepps. Ljóst megi því vera að ábyrgð með þeim gildistíma sé löngu fallin niður.

Við mat á stöðu aðila við samningsgerðina verði að líta til þess að stefnandi sé fjármálafyrirtæki sem starfi við lánveitingar og skjalagerð í tengslum við þær. Þá beri að líta til þess að ábyrgðaryfirlýsingin sé samin af starfsmanni stefnanda. Á því er jafnframt byggt að forsendur fyrir gildistíma ábyrgðar stefnda hafi brostið vegna þeirra atvika sem að framan greinir og þeirra atvika er nú verður lýst:

Hinn 4. nóvember 1995 hafi verið endursamið um lánveitingu Lánasjóðs Vestur- Norðurlanda og Norræna skólasetursins hf. með samþykki stefnanda. Þar á meðal hafi lánstími verið lengdur um fimm og hálft ár. Ekki hafi verið leitað samþykkis stefnda fyrir þessari breytingu eða honum með öðrum hætti tilkynnt um hana. Stefndi byggir á því, að með því að skilmálum lánveitingar þeirrar sem var grundvöllur ábyrgðar stefnda, hafi verið breytt án samþykkis hans, hafi ábyrgð hans fallið niður, enda verði að líta svo á að um nýja lánveitingu hafi verið að ræða.

Verði ekki á það fallist að ábyrgð stefnda sé ógild eða úr gildi fallin, þá er varakrafa stefnda á því byggð, að stefnandi geti einungis endurkrafið stefnda að því leyti sem hann hafi orðið að greiða skuld við Lánasjóð Vestur-Norðurlanda á grundvelli ábyrgðar þeirrar er stefnandi tókst á hendur. Á því er byggt að endurkrafa stefnanda á hendur stefnda á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar stofnist ekki við það að stefnandi takist á hendur greiðsluskyldu gagnvart lánasjóði Vestur-Norðurlanda, heldur einungis að því leyti sem stefnandi innir greiðslur af hendi.

Stefndi er vísar til 36. gr. laga nr. 7/1936 með síðar breytingum og reglna samningaréttar um rangar og brostnar forsendur.

V.

Stefndi, Sæmundur Sigmundsson, fullyrti er hann gaf aðilaskýrslu fyrir dómi að hann hefði aldrei undirritað ábyrgðaryfirlýsingu þá, sem mál þetta snýst um, óbreytta, ef sér hefði verið kunnugt um að ábyrgð Hvalfjarðarstrandarhrepps væri tímabundin, þ.e. gilti aðeins í rúma sjö mánuði, enda yrði byggingarframkvæmdum þá lokið. Hann taldi sig ekki hafa frétt af þessari takmörkun á ábyrgð Hvalfjarðarstrandarhrepps fyrr en eftir að ábyrgð hreppsins var niður fallin vegna þessarar takmörkunar.

Stefndi minntist þess ekki að það hefði verið haft neitt samráð við sig þegar endursamið var um lánið, en þann samning undirritaði hann ekki.

Hann kvaðst hafa setið í stjórn Norræna skólasetursins framan af. Hann sagði að það hefði verið oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps sem einkum hefði haft samskipti við stefnanda varðandi þessa lántöku og ábyrgðir. Hann minnti að hann hefði skrifað undir ábyrgðaryfirlýsinguna á skrifstofu sparisjóðsstjóra.

 Gísli Kjartansson, kt. 020644-2499, tók við starfi sparisjóðsstjóra í apríl 1999. Áður var hann lögmaður Sparisjóðsins. Hann bar fyrir dóminum að hann hefði samið ábyrgðaryfirlýsingu stefnda, dags. 31.12.1993, að beiðni þáverandi sparisjóðsstjóra. Að öðru leyti kvaðst hann ekkert hafa haft með þessa lánveitingu að gera. Hann minntist þess ekki að það hefði komið fram að það hefði verið forsenda af hálfu stefnda Sæmundar að Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgðist með sama hætti og hann. Hann minntist þess heldur ekki að sér hefði verið kunnugt um þá takmörkun sem Hvalfjarðarstrandarhreppur gerði á sinni ábyrgðaryfirlýsingu, þ.e. setninguna: “Ábyrgðin tekur gildi við undirritun þessarar yfirlýsingar og gildir til 1. ágúst 1994, enda verði byggingarframkvæmdum þá lokið.”

Sigfús Sumarliðason, kt. 241032-4699, sem lét af starfi sparisjóðsstjóra í apríl 1999, gaf skýrslu fyrir dóminum. Spurður um það hvers vegna það væri tekið sérstaklega fram í ábyrgðaryfirlýsingu þeirri sem stefndi Sæmundur undirritaði og lögmaður stefnanda samdi textann að, að Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgðist hinn hluta lánsins, sagði sparisjóðsstjórinn fyrrverandi: “Ætli að það hafi ekki bara verið til upplýsingar.”  Hann vildi ekki fullyrða, og sagðist raunar efast um, að hin takmarkaða ábyrgðaryfirlýsing Hvalfjarðarstrandarhrepps hefði legið fyrir, eða stefndi verið búinn að kynna sér hana, þegar hann undirritaði ábyrgðaryfirlýsingu sína. “Ef hún hefur verið póstlögð þá hefur hún að líkindum borist síðasta dag ársins, sama daginn og Sæmundur undirritar sína ábyrgðaryfirlýsingu.” Hann sagði að það þeir sem hefðu rætt við sig vegna þessarar lántöku hefðu aðallega verið Sigurlín Sveinbjarnardóttir stjórnarformaður Norræna skólasetursins og svo stefndi Sæmundur og Jón Einarsson oddviti. Spurður um það af lögmanni stefnda hvernig hefði á því staðið að Sparisjóðurinn hefði sætt sig við þessa takmörkuðu bakábyrgð hreppsins, sem líkur voru á að yrði úr gildi fallin áður en kæmi að fyrsta gjalddaga skuldabréfsins 1. mars 1995, svaraði sparisjóðsstjórinn fyrrverandi: “Ég man það nú ekki, en mig minnir að þessi ábyrgð hafi verið hugsuð þannig að það væri hægt að veðsetja húsið, skólasetrið, þegar þessi frestur rynni út.” Aðspurður sagði hann að þeir Jón Einarsson oddviti hefðu verið bræðrasynir. Hann kvaðst ekki þora að fullyrða að stefnda Sæmundi hefði verið kynntur endursamningur sá um greiðslukjör af skuldabréfinu sem gerður var 4. nóvember 1995. Hann tók fram að stefndi Sæmundur hefði verið áhugamaður um þessa framkvæmd frá upphafi.

Álit dómsins.

Stefndi Sæmundur og oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps áttu sæti í stjórn Norræna skólasetursins hf. Því tókst að semja um lántöku hjá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda, enda fengist bankaábyrgð fyrir láninu. Síðan tókst því að semja við stefnanda, Sparisjóð Mýrasýslu, um slíka ábyrgð. Af ábyrgðaryfirlýsingu þeirri er lögmaður stefnanda samdi og deilt er um í máli þessu er sýnt, að upphaflegt skilyrði stefnanda fyrir því að ganga í ábyrgðina var að stefndi og Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgðust gagnvart honum helming lánsins hvor um sig og að ábyrgð þeirra gilti þar til skuldabréfið væri að fullu greitt.

Að skjalagerð var staðið með þeim hætti að ábyrgðaryfirlýsing bankans, stefnanda, var rituð á sjálft  skuldabréfið sama dag og það var gefið út, 17. desember 1993. Síðan útbjó stefnandi ábyrgðaryfirlýsingar fyrir bakábyrgðarmennina hvorn um sig og lagði þær fyrir þá til undirritunar.

Oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps breytti þeim texta er honum var sendur, með þeim hætti að ábyrgð hreppsins reyndist niður fallin þegar á hana reyndi, og undirritaði skjalið svo breytt hinn 29. desember 1993.

Stefndi Sæmundur undirritaði sína ábyrgðaryfirlýsingu óbreytta og umræðulaust á skrifstofu stefnanda tveimur dögum síðar, hinn 31. desember 1993.

Þar segir m. a.: “Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgist hinn helming lánsins og hefur verið undirrituð ábyrgðaryfirlýsing þar að lútandi.”

Ekkert er fram komið sem hnekkir þeirri staðhæfingu stefnda Sæmundar, að honum hafi verið ókunnugt um það þegar stefnandi fékk honum skjalið til undirritunar og hann undirritaði, að þessi staðhæfing í skjalinu var röng eða a. m. k. villandi, meðábyrgðarmaður hans hafði þá þegar undirritað ábyrgðaryfirlýsingu allt annars efnis, yfirlýsingu um skammtímaábyrgð sem hverfandi líkur voru á að gæti orðið virk.

Stefndi byggir ekki á 30. gr. samningalaganna, enda bendir gervi skjals þess er oddviti undirritaði, þ. á m. aðferð við breytingu skjalsins, vottun þess og stimpill sá er hann hefur notað, til þess oddviti hafi undirritað skjalið á heimili sínu í Hvalfjarðarstrandarhreppi og sent það í pósti, enda þótt útgáfustað sé ekki breytt frá hinum tölvuskráða frumtexta og hann sagður í Borgarnesi.

Stefnandi tók þessa ábyrgðaryfirlýsingu Hvalfjarðarstrandarhrepps góða og gilda. Hann gerði stefnda á engan hátt aðvart um að Hvalfjarðarstrandarhreppi hefði tekist að semja um að losna undan því að taka á sig ótímabundna ábyrgð, og það því rangt eða að minnsta kosti villandi að Hvalfjarðarstrandarhreppur ábyrgðist hinn helming lánsins og að undirrituð hefði verið ábyrgðaryfirlýsing þar að lútandi.

Stefnandi heldur því ekki fram að hann hafi tilkynnt stefnda eða sagt honum frá því að hann hefði fengið ábyrgðaryfiryfirlýsingu Hvalfjarðarstrandarhrepps svo breytta og tekið hana gilda, eftir að hann fékk hana í hendur. Sparisjóðsstjórinn taldi, er hann gaf aðilaskýrslu, að sér hefði borist yfirlýsing svo breytt sama dag eða næstu daga eftir að stefndi undirritaði, ef hún hefði verið send í pósti.

Stefnandi hefur lagt á það ríka áherslu í málflutningi sínum, að það skipti engu hvort Hvalfjarðarstrandarhreppur hafi gengist í ábyrgð fyrir greiðslu hins helmings skuldarinnar. Ábyrgð hreppsins geti engu breytt varðandi ábyrgð stefnda. Ábyrgð stefnda hafi hvorki orðið þrengri né víðtækari við það hvernig ábyrgð Hvalfjarðarstrandarhrepps eða annarra aðila var háttað á greiðslu umræddrar skuldar að hluta eða öllu leyti.

Á þetta má fallast. En sá er munur á, að teljist 36. gr. samningalaga ekki eiga við í máli þessu og ábyrgð stefnda heldur, þá verður stefndi fyrir verulegu tjóni meðan  Hvalfjarðarstrandarhreppur er skaðlaus af sinni ábyrgðaryfirlýsingu. Og það sem hér skiptir máli: Úrslit máls þessa velta á því, hvort það telst hafa verið andstætt góðri viðskiptavenju eða ósanngjarnt að halda því leyndu fyrir stefnda að margnefnd fullyrðing í ábyrgðarskjalinu var röng eða misvísandi og að meðábyrgðarmaður stefnda og stefnandi höfðu fundið þá leið til þess að tryggja skaðleysi stefnanda að ábyrgð bakábyrðarmanns yrði tímabundin, stæði aðeins þar til bygging lántakanda yrði veðhæf, þá kæmi fasteignaveð í stað ábyrgðarmanns sem baktygging bankaábyrgðar. Bakábyrgð yrði þá næsta áhættulítil, félli niður áður en kæmi að fyrsta gjalddaga lánsins.

Ef hugað er að atvikum þeim sem 2. mgr. 36. gr. samningalaga mælir fyrir um að líta beri til, þá er að því að hyggja að stefnandi, Sparisjóður Mýrasýslu, er gróin og virt fjármálstofnun sem alfarið er stjórnað í héraði og hefur svæðisbundinn hóp viðskiptamanna, sem hún þekkir vel og veit hverjum hún getur treyst.  Ætla má að það traust hafi verið gagnkvæmt í því tilviki sem hér um ræðir. Stefndi Sæmundur hefur um áratuga skeið átt og rekið umsvifamikið og virt fyrirtæki, hann er sérleyfishafi og gerir út allmarga hópferðabíla. Hjá því getur ekki farið að hann hafi þekkt og treyst stefnanda.

Til þess er og að líta, að gögn máls þessa benda til, að megin hvatinn að því að ráðast í þá framkvæmd sem verið var að fjármagna, kunni að hafa verið af öðrum toga en markaðslegum. Aðilar máls þessa og meðábyrgðarmaðurinn virðast hafa sameinast um að vinna að og greiða fyrir framkvæmd, þar sem ófjárhagslegur tilgangur mun hafa vegið þungt. Samvinna að slíkum markmiðum er til þess fallin að skapa traust, í þessu tilviki traust stefnda á forstöðumanni peningastofnunar sem stundar lánsviðskipti og hefur reynt fagfólk, þar á meðal lögmann, í sinni þjónustu.

Að öllu þessu athuguðu telst 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 eiga við í máli þessu, sem leiðir til þess að stefndi verður sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en rétt þykir að hvor aðili beri sinn málskostnað.

Málið sótti af hálfu stefnanda Ingi Tryggvason hdl, en Kristinn Bjarnason hrl. hélt uppi vörnum fyrir stefnda.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi,  Sæmundur Sigmundsson, á að vera sýkn af öllum dómkröfum stefnanda, Sparisjóðs Mýrasýslu, í máli þessu

Málskostnaður fellur niður.