Hæstiréttur íslands
Mál nr. 133/2001
Lykilorð
- Skuldamál
- Samningur
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2001. |
|
Nr. 133/2001. |
Danmail Postal Service Aps. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn ICU ehf. (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Skuldamál. Samningar. Aðfinnslur.
Með samningi við D tók I ehf. að sér að þróa hugbúnaðarkerfi í samræmi við þarfir viðskiptavina D. Deilt var um hvort D bæri að greiða I ehf. á grundvelli aðalsamningsins samkvæmt fyrirfram ákveðnu verði eða eftir reikningi byggðum á vinnustundum. Talið var að þótt réttara hefði verið að gera viðbótarsamning um verkið, félli það undir tiltekið ákvæði aðalsamnings aðila og var D því gert að greiða I ehf. umkrafða fjárhæð, sem byggði á vinnustundum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. apríl 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara lækkunar á dæmdri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningur aðila varðar þróun hugbúnaðarkerfis í samræmi við þarfir sænskra viðskiptavina áfrýjanda. Eftir bréf framkvæmdastjóra stefnda 6. ágúst 1998 um þróunarvinnu byggða á áður þróuðu hugbúnaðarkerfi fyrirtækisins gerðu aðilar með sér svokallaðan aðalsamning 12. og 14. ágúst sama ár. Þótt réttara hefði verið að gera einnig sérstakan viðbótarsamning um þessa þróunarvinnu hljóta ákvæði aðalsamningsins að gilda og verður að fallast á það með héraðsdómi að um hafi verið að ræða verk sem féll að b) lið 2. gr. samningsins. Af gögnum málsins sést að stefndi afhenti áfrýjanda kerfi á ákveðnu stigi til prófunar og að þróun þess hélt áfram eftir það. Meðal annars kom þá til Íslands maður á vegum áfrýjanda til samstarfs við starfsmenn stefnda. Áfrýjandi gerði engar athugasemdir við verk stefnda fyrr en eftir að til ágreinings þeirra kom um endurgjald fyrir verkið. Ekki liggur annað fyrir en að verkið hafi verið langt komið og sýnt að stefndi hafi verið fullfær um að ljúka því þegar upp úr slitnaði með aðilum. Með þessari athugasemd en annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en dráttarvexti, sem eftir 1. júlí 2001 og til greiðsludags dæmast samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Það þykir aðfinnsluvert að málið hefur dregist úr hömlu af hálfu áfrýjanda.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að eftir 1. júlí 2001 dæmast dráttarvextir samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Áfrýjandi, Danmail Postal Service Aps., greiði stefnda, ICU ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var samdægurs er höfðað með stefnu útgefinni 16. apríl 1999 og þingfest 24. júní s.á.
Stefnandi er ICU ehf., kt. 540197-2539, Sóltúni 3, Reykjavík,
Stefndi er Danmail Postal Service Aps., Gadelandet 20, 2700 Bronshöj, Danmörku.
Stefnandi gerir svofelldar dómkröfur:
1. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld skv. reikningum að fjárhæð DKK 214.650 ásamt 7,1 % dráttarvöxtum á ári af DKK 42.800 frá 15. september 1998 til 1. október 1998, með 7,5% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 10. október 1998, en af DKK 145.200 frá þeim degi til 30. október 1998 og af DKK 214.650 frá þeim degi til 1. febrúar 1999, með 7,4% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. mars 1999, með 7,3% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. apríl 1999, með 7,2% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. júní 1999, með 6,3% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. júlí 1999, með 6,1 % dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. desember 1999, með 6,3% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1.1. 2000, með 6,4% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. mars 2000, með 6,5% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. apríl 2000, með 6,6% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. maí 2000 og með dráttarvöxtum samkvæmt 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. vaxtalaga, í fyrsta sinn 30. október 1999.
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda
Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða lægri fjárhæð en krafist er.
Í báðum tilvikum er krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu eftir mati dómsins.
MÁLSATVIK OG MÁLSÁSTÆÐUR
Mál þetta er höfðað til greiðslu á vangoldnum reikningum vegna kaupa stefnda af stefnanda á vinnu við hugbúnaðargerð.
Stefnandi er hugbúnaðarfyrirtæki í Reykjavík. Stefndi er þjónustufyrirtæki á sviði kynningarstarfsemi í Kaupmannahöfn en stundar einnig hugbúnaðargerð.
Í júnímánuði 1998 hafði stefndi samband við stefnanda í þeim tilgangi að leita aðstoðar við hönnun hugbúnaðarkerfis fyrir tannlækna, Odontolog Liphe. Stefnandi hafði þróað ákveðnar aðferðir í hugbúnaðargerð sem unnt var að beita við smíði eins hluta kerfisins, e.k. bókunarkerfis, svokallað "Kalender/Patientkort". Varð úr að stefnandi bauðst til þess í júlí 1998 að hanna frumgerð ("prototype") þessa hluta kerfisins. Frumgerðin var send stefnda í tölvupósti hinn 3. ágúst og gerð grein fyrir því í skýrslu frá 6. ágúst hvernig aðferð stefnanda hefði nýst í hönnun hennar. Stefnandi hefur ekki krafið stefnda um greiðslu fyrir frumgerðina.
Í framhaldi af þessu gerðu aðilar með sér skriflegan samning, dags. 12. og 14. ágúst 1998. Í samningnum sem er á norsku segir m.a:
1 Avtalens omfang
Denne hovedavtale gjelder utvikling av software som skal utføres av ICU for MIS. Enkelte oppdrag som det kreves nærmere betingelser om, må samtykkes av partene som "vedlegg" til hovedavtalen.
1. Fremdrift
a) Produkter som utføres av ICU for MIS til fast pris skal bli ferdig i løpet av den tid og til den pris partene blir enige om i ett "vedlegg" til denne hovedavtale. Der etter løper en testperiode på 3 uker etter overlevering. MIS skal i denne periode teste produktet. Dersom produktet ikke opfyller de krav som er nedfelt i "vedlegget", skal partene seg imellem bli enige om en frist for justeringer.
b) Oppdrag som utføres av ICU for MIS til timepris blir prioriteret av ICU og leveres så snart som praktisk mulig. MIS vil forsøke å gi ICU en så lang varsel som mulig for slike oppdrag, og holde ICU orienteret om det underliggende projekts fremdrift. ICU skal overlevere fremdriftsrapporter pr. uke, måned eller det tidinterval partene blir enige om. Rapportene skal samtykkes av begge parter, og er deretter bindende.
2. Betalingsbetingelser
a) Produkter iflg. 2. a) betales etter testperiodens utløp. Dersom testperioden må forlenges, blir betalingstidspunktet også udsatt til det tidspunkt partene blir enige om ny test. Det foretas ikke betaling før produktet oppfyller de spesifikationer som er nedfelt i "vedlegget".
b) Timepris for oppdrag iflg. 2 b) er DKK 700, som skal justeres hver 6. måned i hovedavtalens gyldighedstid. Betalingsfrist er like lang som det tidsintervall som partene blir enige om, dog høyest én måned."
Eins og hér að framan kemur fram er í samningi þessum gengið út frá því að verkefni, sem stefnandi myndi taka að sér fyrir stefnda, gætu annars vegar verið unnin samkvæmt tilboði og hins vegar samkvæmt reikningi. Í samningnum er tiltekið að sé verk unnið samkvæmt reikningi skuli tímagjald vera DKK 700. Einnig er tekið fram um verk sem unnin eru samkvæmt reikningi að stefnandi skuli skila skýrslum með vissu millibili og að greiðslufrestur á reikningum skuli vera jafn langur og það tímabil sem skýrsla nær yfir.
Eftir undirritun samningsins kveðst stefnandi hafa tekið að sér að beiðni stefnda að þróa hluta bókunarkerfisins í samvinnu við stefnda. Stefndi hafi haft í hyggju að setja Odontolog Liphe/bókunarkerfið á markað í Svíþjóð og hafi þróun kerfisins að nokkru ráðist af þörfum þessara væntanlegu viðskiptavina. Vinna þessi hafi verið unnin á tímabilinu 12. ágúst til 28. október 1998 af Þresti Jónssyni og Gunnari Sigurðssyni, starfsmönnum stefnanda. Starfsmaður stefnda, Klaus Dalkov, hafi unnið að öðrum hlutum kerfisins á starfsstöð stefnda í Danmörku. Þröstur og Klaus hafi haft samskipti um tölvupóst og síma um framvindu verksins og dagana 10. til 16. október hafi Klaus dvalið í Reykjavík við að yfirfæra hluta úr eldri gerð bókunarkerfisins yfir í nýja kerfið ásamt því að setja sig inn í hugbúnaðarumhverfi nýja kerfisins. Hann hafi þá fengið afhent frumforrit að þeim hluta kerfisins sem stefnandi hafði unnið að. Lýsingu á frumforritunum sé að finna í skýrslu stefnanda sem fylgt hafi bréfi lögmanns stefnanda dagsettu 20. nóvember 1998. Jafnframt undirritaði Klaus f.h. stefnda leyfissamning um notkun á íhlutum stefnanda, en þá var að finna í frumforritunum.
Stefnandi kveður verkið hafa verið unnið á grundvelli 2b) í áðurgreindum samningi aðila. Stefnandi hafo skilað stefnda skýrslum með u.þ.b. tveggja vikna millibili, en skrifaði mánaðarlega reikninga og veitt stefnda mánaðar greiðslufrest á reikningum. Stefnandi hafi sent stefnda samtals 7 skýrslur á tímabilinu 21. ágúst til 30. október. Engar athugasemdir hafi borist frá stefnda varðandi framvindu verksins og hann hafi ekki haft uppi neinar mótbárur við greiðsluskyldu sinni fyrr en með bréfi dagsettu 30. október sem stefnandi hafi svarað með bréfi 3. nóvember 1998. Sundurliðun tíma eftir verkþáttum sé að finna í bréfi stefnanda dagsettu 27. nóvember 1998.
Stefnandi hafi gert stefnda þrjá reikninga vegna verksins, sem allir séu ógreiddir og sundurliðast skuld stefnda þannig:
|
Reikningur nr: |
dagsetning |
fjárhæð |
|
89 |
15. september 1998 |
DKK 42.800 |
|
91 |
10. október 1998 |
DKK 102.400 |
|
93 |
30. október 1998 |
DKK 69.450 |
|
|
Samtals |
DKK 214.650 |
Kröfu stefnanda um greiðslu reikninga byggir hann á reglum samningaréttar um að samninga skuli halda. Stefnandi hafi gert samning við stefnda um tilhögun vinnu er hann kynni að inna af hendi fyrir hann í framtíðinni. Aðilar hafi samið munnlega um að stefnandi tæki að sér fyrir stefnda að vinna að þróun kerfisins. Ekki hafi verið samið um fast verð og beri stefnda að greiða stefnanda samkvæmt reikningi á grundvelli liðar 2 b) í samningnum.
Krafa um dráttarvexti sé byggð á vaxtalögum nr. 25/1987 og krafa um málskostnað á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málið er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með heimild í lið 6 í samningi aðila frá l2/14 ágúst 1998.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að áður en verkið hófst hefði stefnandi gert greiningu á verkþáttum kerfisins fyrir stefnda. Í skýrslu stefnanda um frumgerð komi m.a. fram hve mikill tími hlutfallslega færi í hvern þátt fyrir sig og hver heildar tími við verkið yrði, þ.e. 110 klst. Jafnframt komi fram að útseldur tími sé DKK 700. Samantekt þessi sé ítarleg og gerð sé grein fyrir hverjum þætti fyrir sig. Heildarkostnaður við verkið hafi því erið DKK 77.000.
Á þessum forsendum hafi stefndi gengið til samninga við stefnanda. Hann hafi talið að fyrir lægi nákvæmt kostnaðarmat við hugbúnaðargerðina og að um fast verð væri að ræða. Hafi það verið ákvörðunarástæða af hálfu stefnda fyrir því að stefndi skrifaði undir samning u.þ.b. viku sðar. Stefndi hafi talið að um tilboð væri að ræða af hálfu stefnanda eða a.m.k. ígildi bindandi tilboðs, sem stefndi hafi gengið að með undirritun samningsins. Stefndi hefði haft réttmæta ástæðu til að ætla að samið hafi verið um fast verð grundvallað á fyrrgreindri skýrslu og ætti grein 2 a) í samningnum því við.
Grein 2 b) eigi ekki við hér. Hún eigi aðeins við ef einhver aukavinna yrði unnin umfram ofangreint. Til að vinna geti farið fram skv. grein 2 b), hefði þurft að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. að beiðni kæmi fram frá stefnda með fyrirvara, stefnandi gerði um verkið og verkþætti skýrslu þar sem fram kæmi umfang verksins og jafnframt hafi það verið skilyrði að samþykki beggja aðila lægi fyrir. Þegar þetta hafi átt sér stað hefði stefndi fyrst verið bundinn af grein 2 b) og myndi ef um slíkt væri að ræða greiða skv. tímagjaldi. Hins vegar hafi engin slík vinna verið innt af hendi af hálfu stefnanda fyrir stefnda.
Skýrslur þær sem stefnandi sendi stefnda fullnægi ekki ofangreindum skilyrðum og hafi enga þýðingu í þessu sambandi. Stefndi hafi litið svo á að einungis væri um að ræða gögn til glöggvunar um framvindu verkefnisins og hvað einstaka þætti hugbúnaðarins verið væri að vinna við.
Jafnframt sé á því byggt að stefnandi hafi ekki athent neinn nothæfan hugbúnað en stefnanda hafi ekki tekist þrátt fyrir alla þessa "vinnu" að framleiða kerfi sem virki. Sýkna beri því stefnda.
Varakröfu sína um lækkun stefnukrafna stefnanda styður stefndi þeim rökum, að gjaldtaka stefnanda sé bersýnilega ósanngjörn og brjóti í bága við meginreglu 5. og 6.gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Jafnframt er vísað til rökstuðnings fyrir aðalkröfu fyrir varakröfu.
Miðað við hinn ótrúlega tímafjölda sem skrifaður hafi verið á verkið megi ætla að starfsmenn stefnanda haft ekki haft nægjanlega þekkingu og reynslu á þessu sviði. Stefnandi hafi hins vegar gefið sig út fyrir að vera með sérfræðinga í vinnu, stefnandi hafi gert greiningu á verkefninu og tiltekið þann tíma sem það taki að fullvinna verkefnið. Vegna alls þess tíma sem farið hafi í hugbúnaðargerðina sé við engan annan að sakast nema stefnanda sjálfan og verði hann að taka áhættuna og bera hallann af þeim gríðarlega aukatíma sem farið hafi í verkið.
Áætlaður kostnaður við verkið hafi verið danskar krónur 77.000 en stefnandi hafi gefið út reikninga samtals að fjárhæð danskar krónur 214.650 sem sé um þreföldun á upphaflegri áætlun. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að verkið haft orðið umfangsmeira en upphaflega var lagt upp með.
Um lagarök er vísað til meginreglna kröfuréttar og laga um nr. 39/1922 um lausafjárkaup, einkum 5. og 6. gr., eftir atvikum með lögjöfnun.
Um réttarfar vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfur um málskostnað styður stefndi við 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Í málinu liggur frammi bréf sem dagsett er 6. ágúst 1998 og undirrituð af Guðmundi Löve forsvarsmanni stefnanda. Þar kemur fram tillaga stefnanda að því hvernig þróa skuli hugbúnaðarkerfi það sem vinna átti að fyrir stefnda. Er þar byggt á þeirri vinnu sem starfsmenn stefnanda eyddu í að vinna að frumgerð sem var annars vegar 62 klukkustundir og hins vegar áætlun þeirra um að það tæki að auki 48 klukkustundir að vinna með forritum sem stefnendur sjálfir legðu til verksins. Þannig væri það álit stefnanda að það tæki 110 klukkustundir að gera frumgerð kerfisins. Að þeirri niðurstöðu fenginni töldu forsvarsmenn stefnanda að með því að nota þær aðferðir og forrit sem þeir hefðu þróað sjálfir og nefnt er SFC í gögnum málsins mætti spara um 43% í vinnu við forritun og gerð umrædds hugbúnaðarkerfis. Þá kemur fram í málinu að stefnandi gerir ekki kröfu um greiðslu fyrir vinnu við frumgerð þessa.
Aðilar gerðu síðan með sér samning þann, dagsettan 12. og 14. ágúst 1998 sem gerð er grein fyrir hér að framan.
Stefnandi hefur lagt fram yfirlit eða skýrslur fyrir tímabilið 12. ágúst 1998 til 28. október s.á. Á yfirlitum þessum er gerð grein fyrir verkum þeim sem unnin eru, hversu langan tíma unnið er, hvert tímagjald sé og hver hafi unnið verkið.
Af skýrslum þessum er ljóst að verið er að gera grein fyrir framvindu verks þess er unnið skyldi samkvæmt samningi aðila og hver kostnaður væri vegna þessa og er á það fallist með stefnanda að hér sé um að ræða verk þeirrar gerðar sem fjallað er um í b) lið 2. gr. samningsins sem skyldi greiðast samkvæmt ákvæði b) liðar 3. greinar hans. Er hér og til þess að taka að ekki komu fram neinar athugasemdir við framvindu verksins né mótbárur við greiðsluskyldu fyrr en 30. október 1998.
Af hálfu stefnda er á því byggt að í umræddu bréfi Guðmundar Löve frá 6. ágúst 1998 komi fram að heildartími við gerð hugbúnaðar þess er stefnandi skyldi gera fyrir stefnda væru 110 tímar. Á það verður ekki fallist með stefnda að umrætt bréf verði túlkað á þennan hátt sbr. það sem hér að framan segir um skýrslugerð stefnanda og bréfaskriftir sem eru í samræmi við áðurgreind ákvæði samnings.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að fallist er á það með stefnanda að verk það sem hann krefur um greiðslu á hafi verið unnið í samræmi við samning aðila og við verði því sem um var samið en ekki liggja fyrir gögn svo sem matsgerð eða gögn annarrar gerðar sem renna stoðum undir það að reikningar séu ósanngjarnir eða úr hófi og verður stefndi því dæmdur til greiðslu þeirra eins og krafist er af stefnanda og með vöxtum eins greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Danmail Postal Service Aps. greiði stefnanda ICU ehf. DKK 214.650 ásamt 7,1 % dráttarvöxtum á ári af DKK 42.800 frá 15. september 1998 til 1. október 1998, með 7,5% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 10. október 1998, en af DKK 145.200 frá þeim degi til 30. október 1998 og af DKK 214.650 frá þeim degi til 1. febrúar 1999, með 7,4% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. mars 1999, með 7,3% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. apríl 1999, með 7,2% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. júní 1999, með 6,3% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. júlí 1999, með 6,1 % dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. desember 1999, með 6,3% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1.1. 2000, með 6,4% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til 1. mars 2000, með 6,5% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. apríl 2000, með 6,6% dráttarvöxtum á ári frá þeim degi til l. maí 2000 og með dráttarvöxtum samkvæmt 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. vaxtalaga, í fyrsta sinn 30. október 1999.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.