Hæstiréttur íslands

Mál nr. 407/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Mánudaginn 4. júlí 2011.

Nr. 407/2011.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanna.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar  Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2011, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 4. apríl 2011 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en varnaraðili hafi kært úrskurð héraðsdóms innan lögboðins frests.

Því hefur ekki verið haldið fram í málinu að innanríkisráðherra hafi ekki farið að lögum við úrlausn á máli varnaraðila. Þá eru ekki efni til að dómstólar hnekki mati ráðherra á því hvort skilyrði 7. gr. laga nr. 13/1984 séu uppfyllt. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2011.

I

Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 28. apríl sl., var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu varnaraðilans X, kt. [...],[...],[...], um úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins, dagsettri 5. apríl 2011, þess efnis að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Póllands, sbr. 14. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um að framselja varnaraðila til Póllands.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst réttargæslumaður þóknunar sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

II

Málavextir

Með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 26. október 2010, barst dóms- og mannréttindaráðuneytinu (nú innanríkisráðuneytið) framsalsbeiðni héraðsdómara í Póllandi frá 15. sama mánaðar. Samkvæmt beiðninni og gögnum sem fylgdu henni var varnaraðili, með dómi héraðsdómstóls í [...] frá 9. febrúar 2007, sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 178 gr., sbr. 1. mgr. 177. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa 26. júlí 2005 í [...] í Póllandi, ekki gætt nægilegrar varúðar við akstur bifreiðar með þeim afleiðingum að hann ók aftan á aðra bifreið, sem við það lenti aftan á þriðju bifreiðinni, en við áreksturinn hlaut ökumaður bifreiðarinnar sem varnaraðili ók á líkamstjón, m.a. höfuðáverka og áverka á mænu, en varnaraðili flúði af vettvangi. Refsing var ákveðin fangelsi í 2 ár, skilorðsbundið til fjögurra ára, 30 dagsektir, hver að fjárhæð  10 PLN og ökuréttarsvipting í 3 ár, frá 6. ágúst 2005. Með ákvörðun sama héraðsdómstóls frá 3. nóvember 2008 var ákveðið að varnaraðili skyldi afplána refsinguna þar sem hann hafði ekki greitt dagsektirnar þrátt fyrir að hafa vitað um þá skyldu sína og meðferð málsins, auk þess sem hann hafði yfirgefið Pólland, ekki mætt fyrir dóminn og ekki gert tilraun til að útskýra háttsemi sína. Í framsalsbeiðninni er tekið fram að varnaraðili hefði ekki áfrýjað dóminum, né ákvörðuninni um fullnustu fangelsisrefsingarinnar, þrátt fyrir að hafa verið leiðbeint um þann rétt sinn.

Hinn 8. nóvember sl. kynnti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu varnaraðila framsalsbeiðnina. Kvaðst hann kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann en hafnaði kröfu um framsal. Í kjölfarið sendi ríkissaksóknari ráðuneytinu álitsgerð, dagsetta 16. nóvember sl., þess efnis að skilyrði framsals skv. I. kafla laga nr. 13/1984 teldust uppfyllt. Ráðuneytið frestaði ákvörðunartöku í málinu að ósk varnaraðila, sem í framhaldinu greiddi umræddar dagsektir í heimalandi sínu og óskaði eftir því að framsalsbeiðnin yrði afturkölluð. Pólsk yfirvöld tilkynntu ráðuneytinu í byrjun marsmánaðar sl. að þau myndu ekki afturkalla beiðnina.

Hinn 5. apríl sl. féllst ráðuneytið á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sbr. 17. gr. laganna. Í ákvörðun ráðuneytisins er rakið að það hafi lagt heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða 7. gr. laga nr. 13/1984. Persónulegar aðstæður varnaraðila, sem sé 41 árs pólskur ríkisborgari, séu þær að hann hafi dvalist hér í um fjögur ár, stundi atvinnu, sé við góða heilsu og eigi hér eiginkonu. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að aðstæður varnaraðila væru ekki með þeim hætti að sjónarmið 7. gr. laganna stæði í vegi fyrir framsali. Þá er rakið í niðurstöðu ráðuneytisins að það hafi fengið þær upplýsingar að varnaraðili hafi, eftir að framsalsbeiðnin var kynnt honum, með atbeina lögmanns síns í Póllandi, greitt sekt sem hann hafi fengið samkvæmt framangreindum dómi ytra. Pólsk yfirvöld hafi hins vegar ekki talið grundvöll til þess að afturkalla framsalsbeiðnina. Var lögmanni varnaraðila gefið færi á að koma að athugasemdum vegna þessa en engar frekari athugasemdir bárust frá honum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kynnti varnaraðila ákvörðun ráðuneytisins þann 15. apríl sl. og krafðist hann samdægurs úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi.

III

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili bendir á að hann hafi komið hingað til lands í janúar árið 2007 í atvinnuleit og hafi frá þeim tíma stundað hér svo til samfellda vinnu. Haldi hann hér heimili ásamt eiginkonu sinni, sem einnig sé pólskur ríkisborgari og stundi hér vinnu. Varnaraðili kannast við það mál, sem framsalsbeiðni pólskra yfirvalda byggist á en lýsir málsatvikum öðruvísi. Honum hafi ekki verið kunnugt um niðurstöðu málsins enda hafi dómurinn verið kveðinn upp eftir að varnaraðili hafi haldið til Íslands. Hafi hann verið í þeirri trú að með ökuleyfissviptingunni, sem í upphafi var ákveðin til bráðabirgða, hefði hann tekið út sína refsingu. Það hafi verið fyrst hjá lögreglu 11. október 2010, sem hann hefði fengið vitneskju um dóminn. Í munnlegum málflutningi kom fram að varnaraðili kannaðist við að hafa verið birt ákæra vegna málsins áður en hann flutti frá Póllandi.

Varnaraðili telur að við ákvörðun í máli þessu beri að meta hagsmuni þeirra er að máli þessu koma, þ.e. annars vegar hagsmuni varnaraðila og hins vegar hagsmuni pólskra yfirvalda að fá hann framseldan. Hagsmunir pólskra yfirvalda varði jafnvirði tólfþúsund íslenskra króna. Þar sem ákærði vegna fjarvistar sinnar hafi ekki vitað um greiðsluskyldu sína og greiddi ekki þessa lágu fjárhæð, sé honum gert að afplána tveggja ára fangelsisdóm. Meðalhófsreglan, sem kveðið sé á um í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skyldi stjórnvöld til að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 13/1984.

IV

Niðurstaða

Krafist hefur verið framsals varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til fullnustu tveggja ára fangelsisdóms fyrir brot gegn pólskum hegningarlögum. Brot það sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir í Póllandi myndi varða hann refsingu samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en við því liggur allt að fjögurra ára fangelsi. Þá varðar brotið jafnframt við 1. mgr. 4. gr. og 3. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Því er fullnægt skilyrðum 2. gr., 1. mgr. og 1. töluliðar 3. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984. Dæmd refsing myndi hvorki fyrnd né fallin niður, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Framsalsbeiðnin hefur verið borin fram með tilskildum hætti og er hún studd viðhlítandi gögnum, sbr. 12. gr. laga nr. 13/1984. Þá hefur verið gætt lögbundinna stjórnsýslureglna við meðferð málsins og mat á því að almenn lagskilyrði framsals séu fyrir hendi.

Varnaraðili telur að hafna beri kröfu um framsal hans og vísar í því samhengi til  meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra frá 25. ágúst 2010 er fjallað um undanþáguákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984. Þótt ekki liggi fyrir staðfesting á því að varnaraðila hafi verið birtur dómur pólskra yfirvalda eða tilkynnt um þinghald þar sem tekið var fyrir rof hans á skilyrðum dómsins, líkt og byggt er á í framsalsbeiðninni, er óumdeilt að varnaraðila var birt ákæra í málinu áður en hann fluttist til landsins í janúar 2007. Var honum því kunnugt um að til meðferðar væri fyrir dómstólum ytra sakamál gegn honum. Með vísan til framangreinds eru ekki efni til að hnekkt verði mati ráðherra á því hvort skilyrði undanþáguákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984 séu uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu teljast uppfyllt skilyrði fyrir framsali varnaraðila. Verður því að staðfesta ákvörðun um framsal hans til Póllands.

Þóknun réttargæslumanns er ákveðin 313.375 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun innanríkisráðherra frá 4. apríl 2011 um að framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands, er staðfest.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 313.375 krónur, greiðist úr ríkissjóði.