Hæstiréttur íslands
Mál nr. 220/2006
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2006. |
|
Nr. 220/2006. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur. Sératkvæði.
X var sakaður um að hafa brotið gegn 2. mgr. 200. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart dóttur sinni. Með héraðsdómi var hann sakfelldur fyrir verulegan hluta þeirrar háttsemi sem honum var gefin að sök. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að skýrslur X hjá lögreglu og fyrir dómi væru um margt misvísandi, en að framburður Y væri í heild sinni trúverðugur og renndu traust sýnileg sönnunargögn stoðum undir frásögn hennar. Hins vegar væri ljóst að Y hefði ekki glöggt tímaskyn. Var í ljósi framburðar hennar ekki talið sannað að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í 3. tölulið ákæru fyrr en Y var orðin 12 ára. Þá var ekki talið sannað að X hefði viðhaft það athæfi sem greindi í 1. tölulið ákæru fyrr en á árinu 2004 og var hann sakfelldur fyrir það. X var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar og til að greiða Y 2.000.000 króna í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærða verði gert að greiða 3.500.000 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð.
Skýrslur ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi eru um sumt misvísandi. Héraðsdómur, sem skipaður var þremur dómurum, hefur lagt mat á sönnunargildi framburðar hans fyrir dómi. Dómendur Hæstaréttar hafa átt þess kost að horfa á myndbandsupptöku af skýrslu Y fyrir dómi. Í heild er framburður hennar trúverðugur og ekki ástæða til að draga í efa að hún sé þar að lýsa atburðum sem hún upplifði. Renna traust sýnileg sönnunargögn stoðum undir frásögn hennar eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Hins vegar er ljóst að stúlkan hefur ekki glöggt tímaskyn. Hefur héraðsdómur tekið tillit til þessa við mat á framburði hennar og talið varhugavert að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um hluta þeirrar háttsemi, sem í 3. tölulið ákæru greinir, fyrr en stúlkan var orðin 12 ára. Má á það fallast, en þetta verður þó að telja eiga við allan þennan tölulið ákærunnar. Með þessum athugasemdum verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða vegna þeirra atriða er um ræðir í 2. og 3. tölulið ákæru að öðru leyti staðfest. Í fyrsta tölulið ákæru er ákærði sakaður um að hafa í nokkur skipti sýnt dóttur sinni klámmyndir í tölvu þegar hún var 10-14 ára gömul. Héraðsdómur sakfelldi ákærða fyrir að hafa viðhaft þetta athæfi nokkrum sinnum þegar stúlkan var 12-14 ára. Fyrir dómi lýsti stúlkan því að ákærði hefði sýnt sér klámefni í tölvunni sinni, en af framburði hennar verður ekki skýrlega ráðið hversu gömul hún var þegar ákærði hóf það athæfi. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi fannst geisladiskur með klámefni á heimili ákærða. Fær framburður ákærða um að hann hafi fengið diskinn að gjöf á árinu 2004 stoð í framburði vitnis. Ekki fannst annað klámefni í tölvutæku formi í fórum ákærða. Þykir því ekki fram komin sönnun um að ákærði hafi viðhaft það athæfi sem hann er sakað um í þessum lið fyrr en á árinu 2004. Verður hann því sakfelldur fyrir að hafa sýnt dóttur sinni nokkrum sinnum klámmyndir í tölvu á því ári.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða og miskabætur til handa Y.
Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara var sakarkostnaður fyrir héraðsdómi, að meðtöldum tildæmdum málsvarnarlaunum og launum réttargæslumanns, 972.435 krónur og annar sakarkostnaður fyrir Hæstarétti en málsvarnarlaun skipaðs verjanda 43.287 krónur. Verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins á báðum dómstigum samkvæmt framangreindu yfirliti og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hér fyrir dómi, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, X, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.389.222 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er sammála meirihluta dómara um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar hans og greiðslu sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu hefur Y gert kröfu um greiðslu miskabóta samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999 og er ég sammála meirihlutanum um að uppfyllt séu skilyrði fyrir greiðslu slíkra bóta. Í niðurstöðu héraðsdóms um ákvörðun miskabóta má finna rök sem að sumu leyti falla að ákvæði 4. gr. laganna um bætur fyrir varanlegan miska þar sem segir að brot ákærða séu til þess fallin „að skaða sjálfsmynd stúlkunnar og valda henni gríðarlegum andlegum erfiðleikum síðar meir.“ Hér er til þess að líta að heimild til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. laganna er sjálfstæð og geta bætur samkvæmt þeirri grein komið til viðbótar bótum samkvæmt 4. gr. laganna. Skilin milli þessara ákvæða eru þó um sumt óljós. Í 4. gr. segir að við ákvörðun um fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska skuli litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til þeirra erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola og eru bótafjárhæðir staðlaðar á grundvelli miskastigs. Hins vegar eru bótafjárhæðir samkvæmt 26. gr. laganna ekki bundnar við ákveðinn mælikvarða. Er dómstólum þar látið eftir mat á hæfilegri fjárhæð miskabóta eftir því sem rétt þykir í hverju tilviki. Vegna hins mikla og alvarlega miska sem ákærði, sem er faðir Y, hefur með ítrekuðum og refsiverðum hætti valdið henni frá unga aldri tel ég að miskabætur samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga skuli ákveðast 2.500.000 krónur, en við ákvörðun þeirra verður einnig að nokkru leyti að líta til dóma sem fallið hafa í málum sem svipar til þessa máls. Um upphafstíma vaxta og dráttarvaxta er ég sammála meirihluta dómara.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2006.
Málið er höfðað með ákæruskjali dags. 18. mars 2005 á hendur: X, kt. [...], Reykjavík,
,,fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni Y, kennitala [...], framin á árunum 1998 til sumars 2004 á heimili ákærða að A, en síðan að B, Reykjavík, sem hér greinir:
1. Í nokkur skipti sýnt stúlkunni klámmyndir í tölvu þegar hún var 10-14 ára.
2. Í nokkur skipti farið höndum um brjóst, rass og kynfæri stúlkunnar innan klæða þegar hún var 8 til 9 ára.
3. Þegar stúlkan var á aldrinum 8 til 9 ára sleikt kynfæri hennar og sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar, en síðan er hún var á aldrinum 10 til 14 ára í nokkur skipti látið hana fróa sér, tvívegis látið hana sjúga getnaðarlim sinn, sleikt kynfæri hennar og loks á sama árabili margsinnis haft samræði við stúlkuna.
Telst 1. liður varða við 209. gr., 2. liður við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr., en 3. liður við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. lög nr. 40, 1992, lög nr. 82, 1998, lög nr. 14, 2002 og lög 40, 2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu C f.h. Y er krafist miskabóta að fjárhæð 3.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 16. júlí 2004 til 18. febrúar 2005, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga.“
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og lækkunar á bótakröfu.
Réttargæslumaður brotaþolans, Sif Konráðsdóttir, hrl. gerir sömu kröfur og greinir í ákæru.
Málavextir
Í gögnum málsins kemur fram að allt frá árinu 1997 hafa verið uppi grunsemdir um að meintur brotaþoli, Y, sætti kynferðislegu ofbeldi. Þannig segir m.a. í skýrslu Þorgeirs Magnússonar sálfræðings, frá 21. október 1997, sem ræddi þá við Y: ,,Telpan var í sveitadvöl í sumar um tveggja mánaða skeið að D og upplýsti húsmóðirin þar að hún hefði haft í frammi einhverja óskilgreinda kynferðislega tilburði, auk þess sem samskipti hennar við fyrrverandi sambýlismann móður hennar, E, f. [...], höfðu að mati húsmóðurinnar, einnig á sér einhvern kynferðisblæ, snerting náin o.s.frv. Allt er þetta þó ósköp óljóst í eyrum undirritaðs...Að samtalinu loknu sé ég ekki ástæðu til að fylgja þessum grunsemdum eftir að sinni nema eitthvað fleira eigi eftir að bætast við. Í viðtalinu kemur ekkert fram sem styður að stúlkan hafi orðið fyrir neinum áföllum á kynferðissviðinu... “.
Í málinu liggja fyrir minnispunktar frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna dvalar Y hjá F í D, þar sem hún var í sumardvöl árin 1997-2000 og að hluta einnig í vetrardvöl. Þar segir að F hafi allt frá því að hún tók stúlkuna fyrst til sín árið 1997 séð hjá henni hegðun sem benti til einhvers konar misbeitingar og kynferðislegrar áreitni og að stúlkan sýndi af sér óeðlilega kynferðislega hegðun og væri klámfengin í tali við önnur börn.
Með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur frá 13. september 2004 var þess farið á leit við lögregluna í Reykjavík að hún tæki til lögreglurannsóknar hvort Y, hafi með einhverjum hætti verið misboðið kynferðislega af kynföður sínum, X, ákærða í máli þessu. Fram kemur í bréfinu að málefni stúlkunnar hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur um hríð en barnaverndar- og félagsmálayfirvöld hafi í raun haft afskipti af hennar málefnum frá fæðingu. Hún hafi verið sett í fóstur nokkurra mánaða gömul en farið til móður sinnar aftur 5 ára gömul.
Um forsögu málsins segir í bréfinu að þegar Y hafi verið í 12 ára bekk G, en þar hafi hún verið í sérdeild vegna þroskaraskana sem hún hafi átt við að glíma, hafi borist tilkynning frá skólanum til Barnaverndar varðandi það að stúlkan hafi sagt samnemendum sínum frá því að hún hafi verið misnotuð kynferðislega af föður sínum. Í gögnum málsins er að finna bréf H, kennara Y frá 7. maí 2003, þar sem fram kemur að I, nemandi hans hafi komið að máli við kennarann með bréf, þar sem hann sagði að Y hefði verið misnotuð af pabba sínum. Annar nemandi hafi einnig komið með bréf til kennarans með sömu skilaboðum. I hafi sagt að Y hefði sagt honum þetta, gegn því að hann lofaði að segja engum frá.
Málið var sent í Barnahús til frekari könnunar 28. maí 2003 en þá neitaði Y því að þetta hefði gerst. Málinu var lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur í september 2003. Strax í sama mánuði fóru aftur að berast tilkynningar til Barnaverndar er vörðuðu líðan stúlkunnar. Y fór í J veturinn 2003-2004 og var málið þá enn á ný kannað og til meðferðar hjá Barnaverndinni. Í fyrrnefndu bréfi Barnaverndar Reykjavíkur segir að ljóst hafi verið að stúlkunni leið ekki vel og skrifuðu starfsmenn Barnaverndar bréf til BUGL þar sem beðið var um aðstoð fyrir hana. Ennfremur hafi verið hugað að öðru skólaúrræði fyrir Y. Þar sem móðir stúlkunnar hafi verið til góðrar samvinnu um bætta líðan stúlkunnar og hafi notið stuðnings hjá Vetrargarði hafi málinu aftur verið lokað í júní 2004 hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hinn 16. júlí 2004 hafi síðan borist tilkynning frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur til Barnaverndar um að Y hafi sagt jafnöldrum sínum í Vinnuskólanum frá því að faðir hennar hafi þröngvað henni til samræðis við sig. Einnig barst tilkynning frá K hinn 30. ágúst 2004 þar sem fram kom að Y hafi sagt nemendum og starfsfólki frá því að faðir hennar hafi misnotað hana með kynferðislegum hætti. Þá kom móðir Y í viðtal til starfsmanns Barnaverndar hinn 10. september 2004 og greindi frá því að Y hafi tjáð henni með nákvæmri frásögn að faðir hennar hafi misnotað hana kynferðislega. Þá segir í bréfi Barnaverndar að rætt hafi verið við Y og staðfesti hún það sem þegar hafði komið fram. Kom fram í samtalinu við hana að hún hafi rætt þetta við samnemendur sína og skólastjóra.
Hinn 8. október 2004 lagði C móðir Y, fram kæru fyrir hennar hönd, gegn ákærða vegna kynferðisbrota gagnvart henni. Greindi hún svo frá að grunur hafi vaknað hjá henni um einhvers konar kynferðislegt ofbeldi af hálfu hans gagnvart Y þegar hún var 8 ára gömul en þá hafi hún verið í sveit að D, á vegum barnaverndaryfirvalda í Reykjavík. Hafi hún farið í læknisskoðun og verið svæfð en ekkert hafi komið út úr því. Þá hafi einnig vaknað grunur er Y var á lokaári sínu í G og tjáði nokkrum drengjum frá misnotkuninni. Þá kvaðst C nýlega hafa rætt við dóttur sína um kynferðismál. Hafi Y þá tjáð henni í fyrsta skipti að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega. Kvað hún misnotkunina hafa byrjað að A, sem Y kalli ,,rauða húsið“, en þar hafi ákærði sýnt henni klámmyndir í tölvu og í blöðum. Hann hafi káfað á Y og rætt við hana um kynferðismál. Hann hafi sýnt henni kynfæri sín og fróað sér fyrir framan hana. Þá hafi hann stundum sleikt á henni kynfærin og stundum farið með lim sinn að hluta til inn í kynfæri hennar án þess að hafa við hana samfarir en hann hafi sagt við hana að ,,hann vildi ekki brjóta vegginn“. Hafi þetta átt sér stað áður en Y hafi byrjað að hafa blæðingar, en það hafi verið um 12 ára aldurinn. Misnotkunin hafi alltaf átt sér stað að kvöldi til. Þá greindi Y móður sinni frá því að misnotkunin hafi haldið áfram þegar ákærði flutti að B en þá hafi ákærði fyrst haft eiginlegar samfarir við Y og hafi það ekki átt sér stað sjaldnar en 10 sinnum í herbergi hans. Hafi mikið blætt eftir fyrstu samfarirnar og ákærði hafi þá ekki notað smokk. Síðar hafi hann byrjað að nota verjur er hann hafði samfarir við hana en hann hafi keypt verjur með bragði. Þá hafi ákærði látið Y sleikja á sér kynfærin og kvað hún saltbragð hafa verið af þeim. Hafi ákærði leitað á hana þegar hann var ölvaður eða eftir að hann hafði horft á klámefni. Kvaðst C hafa spurt Y að því hvort hún væri farin að lifa kynlífi með öðrum en föður sínum en hún hafi svarað því að það hafi hún aldrei gert og kæmi ekki til með að gera þar sem reynsla hennar hafi verið svo ógeðsleg. C kvað Y hafa farið síðast til föður síns um miðjan júní eða júlí 2004 og hafi hann þá haft við hana samfarir.
Lagði C fram skrifleg gögn, sem liggja frammi í málinu, en hún kvaðst hafa tekið niður á blað það sem Y sagði henni um hina kynferðislegum misnotkun.
Ákærði var handtekinn 11. október 2004 og var framkvæmd leit á heimili hans með hans samþykki. Þar fundust m.a. CD diskar með klámefni, myndbandsspólur og verjur með bragðefnum í skúffu í skrifborði. Þá fundust notaðar umbúðir af verjum á gólfi og við gafl rúmsins. Í herberginu var tvíbreitt rúm og undir því lágu tvær verjur og ein til viðbótar fannst klemmd milli rúms og veggjar. Þurfti að lyfta rúmi upp til þess að ná til hennar en hún hafði límst við vegginn. Verjurnar voru notaðar og var vökvi í þeim. Lagt var hald á þessa hluti, sængurfatnað og annað sem tengst gæti hinum ætlaða refsiverða verknaði. Þá voru teknar ljósmyndir á vettvangi.
Í skýrslu tæknideildar frá 27. október 2004 kemur fram að sæðisblettir hafi fundist í laki af rúminu og gáfu sumir sterka svörun. Blettirnir voru skornir úr lakinu og sendir til frekari rannsókna. Blettir á öðrum sængurfatnaði gáfu veika svörun og voru því ekki nýtilegir til frekari rannsókna.
Lífsýni voru tekin úr ákærða og Y vegna fyrirhugaðrar DNA-rannsóknar.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst hann neita ásökunum um kynferðislegt ofbeldi gagnvart dóttur sinni, Y. Kvaðst hann hafa hitt hana síðast í júní en þá hafi hún dvalist hjá honum að B í u.þ.b. viku. Hafi samband hans við hana verið óreglulegt enda samband hans við móður hennar brösótt. Hafi Y stundum hringt og beðið um að vera sótt eða einfaldlega birst heima hjá þeim. Þegar hún hafi gist hafi hún sofið í rúmi hans og hann stundum hjá henni þar. Ekki sé hægt að loka hurðinni að herbergi hans því þar liggi kaplar. Kvað ákærði samband sitt við Y vera með ágætum og virtist honum sem henni þætti vænt um sig. Hins vegar hafi samband hans við móður hennar verið lítið frá því að þau slitu samvistum skömmu eftir fæðingu Y. Hafi C farið fram á það við hann fyrir um mánuði síðan að greiða helming af fermingarkostnaði Y en honum hafi fundist það of hátt og óskað endurskoðunar á því. Hugsanlega væri kæra þessi tilkomin vegna þess að C hafi ætlað til Frakklands með E, fósturföður Y, en vegna þess að ákærði hafi neitað henni um peninga hafi þær áætlanir raskast. Þá greindi ákærði frá því að Y hafi fengið lyf við ofvirkni frá barnsaldri en eftir að hún hafi elst hafi hún þjáðst af depurð og fengið lyf við því.
Í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða 15. október 2004 kvaðst hann ekki minnast þess að hafa framið kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Kvaðst hann hafa þjáðst af minnisleysi og komi fyrir að hann ,,myndi ekki heilu og hálfu dagana og jafnvel lengri tímabil“. Minnisleysið væri ekki bundið neinni reglu en kæmi alloft upp þegar rætt væri um liðna atburði. Spurður um þrjár verjur sem fundust undir rúmi hans við húsleit hinn 11. október 2004, kvaðst hann nota verjur þegar hann stundi sjálfsfróun. Varðandi myndaskrár í tölvu sem haldlögð var á heimili hans og bentu til þess að um barnaklám væri að ræða kvað ákærði aldrei hafa átt barnaklám á tölvu sinni. Hann ætti tvær klámmyndir sem ekki teldust til barnakláms. Þá ætti vinur hans, L, einhverja CD-diska hjá honum með einhverju klámefni.
Skýrsla var tekin af L sem staðfesti að hann væri eigandi umrædds disks. Hann kvaðst ekki hafa vitað að barnaklám væri að finna á disknum.
Við yfirheyrslu hinn 4. nóvember 2004 var framburður Y hjá lögreglu borinn undir ákærða og kvaðst hann ekki kannast við að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Hafnaði hann öllum hennar framburði Hann kvaðst þó muna eftir einu tilviki er hún greip um ákærða miðjan og stakk höfði undir bol hans. Síðan hafi hún farið að strjúka á honum bringuna og farið niður á læri. Honum hafi fundist þetta óþægilegt og viljað að hún hætti. Þá hafi hann ekki neytt hana til að koma til sín heldur hafi hún oftast komið með strætó. Það megi vel vera að Y hafi vitað af verjum í herbergi hans því hún gramsaði mikið og eflaust hafi hún séð þær í skrifborðsskúffu. Ákærði kvaðst þó ekki vita hvernig hún hafi vitað að þær væru með bragðefnum.
Hinn 11. janúar 2005 voru ákærða kynntar niðurstöður úr DNA-kennslagreiningu. sem raktar eru hér á eftir. Kvaðst ákærði ,,ekki kannast við þetta“. Hann kvaðst hafa verið á sterkum lyfjum í átta daga í apríl 2004 og myndi því ekkert frá þeim tíma. Hann vissi ekki til þess að þetta hafi gerst en hafi eitthvað gerst, hafi það átt sér stað í apríl 2004. Ákærða var þá einnig kynnt niðurstaða neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota þar sem fram kom að farið hafi verið inn í leggöng Y. Kvað hann ,,engin níðingsverk hafa átt sér stað af sinni hálfu“ og ítrekaði að ef eitthvað hefði átt sér stað, hafi það gerst í apríl 2004, þegar hann var á lyfjakúr.
Í yfirheyrslu 18. janúar 2005 var borið undir ákærða læknisvottorð Margrétar Georgsdóttur vegna lyfjagjafa ákærða á árinu 2004 en þar kemur fram að þau lyf sem ávísað var á ákærða hafi ekki áhrif á minni eða aðra starfsemi heila. Kvað ákærði það rétt sem þar kæmi fram, hins vegar hafi hann fengið verkjalyf, parkodin forte, sem hafi slegið á verkina. Hann hafi tekið eina til tvær töflur, kannski annan hvern dag á meðan á lyfjakúrnum stóð.
Samkvæmt eiginskýrslu rannsóknardeildar frá 12. janúar 2005 kemur fram að reynt hafi verið að hafa uppi á vottorði eða öðrum gögnum sem varðaði svæfingu og læknisskoðun á Y á Landspítala 1997 en án árangurs.
Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem Y gekkst undir 29. október 2004 er frásögn Y lýst svo: ,,Stúlkan segir að hún hafi farið frá 5 ára aldri til föður síns um aðra hvora helgi. Faðirinn tekur hana upp í rúm til sín og afklæðir hana sjálfur að neðan og ,,reið mér“ eins og stúlkan segir. Hann hallaði stundum hurðinni. Hún segir að fyrstu árin hafi hann ekki notað smokk en síðan hafi hann notað smokk til að hún myndi ekki fá sýkingar. Hann fór inn í mig og vildi líka hafa sáðlát á mig. Það var vont, óþægilegt. Getur ekki munað hvenær þetta byrjaði, en hætti í sumar eftir að hún hefur ekki viljað hafa samband við hann en hann sendir henni SMS sem hún svarar ekki. Segir móður sinni frá þessu og núna 2 mánuðum seinna eru þær komnar á NMT“. Um ástand Y segir: 14 ára situr hokin á stól við hlið móður og á í fyrstu erfitt að ná kontakt við hana. Eftir tvo tíma hér saman í stofunni verður betri kontaktur og mynd af henni og kynferðislegri reynslu hennar kemur í ljós. Hún er með all mörg gömul ör á vinstra handabakinu og 2 nýleg á sitthvoru brjóstinu eftir sjálfsmeiðingar. Þetta er greinilega sú leið sem hún hefur notað til að tjá tilfinningar sínar, hún gat ekki lýst líðan sinni með orðum.“
Þá segir að lokum í niðurstöðum skýrslunnar: ,,Það var ekki létt fyrir stúlkuna að koma hingað og tjá sig um kynferðislega reynslu sína með föður sínum. Móðir hennar hefur sl. mánuði og ár verið að spyrja hana um hvort eitthvað kynferðislegt sé í gangi heima hjá föður hennar, en stúlkan hefur alltaf neitað, þar til fyrir tveimur mánuðum. Stúlkan er með ör sem eru eftir sjálfsmeiðingar á vinstra handabaki og þegar gerð var líkamsskoðun reyndi hún að fela brjóstin en þar eru í dag nýlegir sjálfsáverkar á sitthvoru brjósti. Sjálfsáverkar af þessu tagi lýsa hennar ómeðvituðu innri líðan betur en hún sjálf hefur orðaforða til að gera. Hún er ekki fær um að tjá sig um líðan síðan, sem getur verið hluti af langvarandi óeðlilegu kynferðislegu sambandi við föður. Hún þekkir ekki annað. Að fá hana til að segja frá hvað gerðist gekk ekki fyrr en við vorum orðnar einar í herberginu. Reynir undirrituð að spyrja sem minnst leiðandi spurninga. Þá kemur í ljós að undirritaðri finnst hún barnalegri en aldur hennar ætti að gefa til kynna. Aðspurð hvort hún hafi haft samfarir við aðra karlmenn þá fæ ég undirrituð svör sem tjáð eru á trúverðugan hátt. Hún segir: ,,mamma segir að ég megi það ekki“, en að hún hefur kysst og kelað við stráka. Skoðun á kynfærum sýnir að hún er með þykka slímhúðarflipa sem liggja út frá introitus á stað þar sem meyjarhaftið hefur verið á. Það er enginn vafi á að það hefur verið farið inn í þessi leggöng. Tekin eru sýni til sýklaræktunar og blóð í veiruleit. Engin lyf gefin.“
Í málinu liggur frammi greinargerð vegna DNA-rannsóknar hjá Rettsmedisinsk institutt við háskólann í Osló, dags. 23. desember 2004. Í samantekt segir: ,,Sáðfrumur fundust í öllum sýnum sem send voru til rannsóknar en auk þess fundust þekjufrumur í sýnum úr laki og smokkum. Sýnin voru greind með DNA-greiningaraðferðum og DNA snið þeirra ákvarðað. Í þeim sýnum, þar sem bæði fundust sáðfrumur og þekjufrumur, voru frumgerðir aðskildar og DNA snið hvorrar frumgerðar ákvarðað. Niðurstöður rannsóknar voru þær, að á ætlaðri ytri hlið smokks, sem merktur var C-1, fundust þekjufrumur og var DNA snið þeirra hið sama og DNA snið þolanda, Y. Áætlaðri innri hlið sama smokks fundust sáðfrumur og var DNA snið þeirra hið sama og DNA snið kærða, X. Greining á þekjufrumum, sem einangraðar voru úr sýni A-2a, leiddi í ljós blöndu úr tveim eða fleiri einstaklingum. Úr niðurstöðunum mátti greina eitt DNA snið í miklum meirihluta, og var það hið sama og DNA snið kærða, X. Aukasamsæturnar, sem voru sjáanlegar í sex af ellefu lyklum sýnisins, finnast allar í DNA sniði þolanda, Y, og er því ekki hægt að útiloka að minnihlutaþáttur sýnisins sé uppruninn frá henni. DNA greining á öðrum sýnum, bæði sæðisfrumum og þekjufrumum, leiddi í ljós að DNA snið þeirra var hið sama og DNA snið kærða, X. Í svari RMI er greint frá þeim aðferðum sem stuðst er við svo og segir um áreiðanleika niðurstöðunnar að líkurnar á að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi er ávallt minni en 1:1.000.000. Unnt er að reikna líkurnar í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir.“
Af hálfu sækjanda var óskað eftir því að honum yrði heimilað að leita eftir frekari gögnum hjá Rettsmedisinsk institutt i Oslo um það hvort unnt væri, með hliðsjón af magni þekjufruma sem greindust í sýni af ytra byrði verju, sem merkt var C-1 í rannsóknargögnum málsins, að segja til um líkur á því hvort ætlaður brotaþoli hafi tekið verjuna upp með fingrum og þá jafnframt hvort unnt væri að leiða líkum að því hvaðan úr líkama ætlaðs brotaþola þekjufrumurnar gætu verið.
Þessari kröfu sækjanda mótmælti verjandi ákærða. Var kveðinn upp í dóminum úrskurður þess efnis að sækjanda væri þetta heimilt. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi 8. desember 2005 og var aðalmeðferð málsins frestað meðan gagnanna var aflað. Í niðurstöðu Rettsmedisinsk institutt frá 23. desember 2005 kemur fram að ekki sé mögulegt að segja til um magn þekjufruma og ekki heldur unnt að greina milli sýna frá húð eða slímhimnu með smásjárskoðun. Því væri ekki unnt að segja til um frá hvaða líkamshluta þekjufrumurnar stöfuðu.
Þá liggja frammi í málinu mörg gögn er varða Y m.a. afskipti skóla- og barnaverndaryfirvalda af henni allt frá árinu 1996.
Þar á meðal er vottorð Stefáns J. Hreiðarssonar læknis, dagsett 10. janúar 2005, er varðar andlega og líkamlega heilbrigði Y. Þar segir eftirfarandi í samantekt: ,,Fjórtán og hálfs árs stúlka, sem býr við skerta námsgetu, greind hefur mælst ofarlega á tornæmisstigi og námsframfarir í samræmi við það. Samfara þessu oft barnaleg miðað við aldur. Löng saga um erfiðleika í hegðun og aðlögun, uppfyllti greiningarviðmið um ofvirkni og athyglisbrest með mótþróa og ögrandi hegðun, en hin síðari ár þróast í tilhneigingu til að draga sig í hlé, skerta færni í félagslegum samskiptum. Hegðunarkvarðar hafa gefið grun um röskun á einhverfuróti og er beðið frekari greiningar vegna þessa. Óhætt er að fullyrða að grunnvandi Y er af líffræðilegum toga, hugsanlega ættlægum, en rót í félagsumhverfi frá upphafi hefur aukið á vanda hennar. Það ber þó að leggja áherslu á að Y er ekki greindarskert á þann hátt að greind er vel ofan marka þroskahömlunar. Hins vegar býr hún við skerta getu miðað við aldur, til að meta aðstæður og eiga félagsleg samskipti, auk tilhneigingar til hömluleysis og mótþróahegðunar.“...
Í málinu liggur einnig frammi ítarleg greinargerð rituð af sérfræðingum BUGL varðandi umsókn Barnaverndar Reykjavíkur um úrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir Y. Þar kemur fram að Y hafi hinn 29. nóvember 2004 verið lögð inn á unglingadeild BUGL. Aðdragandi innlagnarinnar hafi verið almenn vanlíðan, líðan hennar hafi farið versnandi frá því að hún greindi frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hendi föður. Y eigi sér langa sögu um hegðunarerfiðleika. Um hálfum mánuði áður en Y lagðist inn hafi hún verið með sjálfskaðandi hegðun heima fyrir. Í niðurlagi greinargerðarinnar segir: ,,Það er mat undirritaðra að Y hafi þörf fyrir áframhaldandi einstaklingsmiðaða meðferð, s.s. styrkt fóstur eða langtímameðferð á meðferðarheimili. Uppeldisaðstæður Y frá fæðingu hafa verið erfiðar, hún hefur endurtekið upplifað höfnun umönnunaraðila, er því afar mikilvægt að það úrræði sem verður fyrir valinu sé undirbúin og hafi þá sérþekkingu sem til þar til að annast Y. Það má því segja að Y er enn í þörf fyrir öryggi, ögun, örvun og ástúð. Það er mat undirritaðra að móðir Y eigi erfitt með að skapa þau uppeldisskilyrði sem Y er í þörf fyrir. Y hefur endurtekið greint frá því meðan á innlögn stóð að móðir hennar beitti hana líkamlegu ofbeldi ásamt því að kalla hana ýmsum niðrandi og niðurbrjótandi nöfnum. Hefur móðir ekki neitað þessu en virðist ekki kunna önnur ráð til að sinna stúlkunni. Við teljum það geta haft mikla þýðingu fyrir líðan Y að hún komist í styrkt fóstur eða langtímameðferð. Ef því verður ekki við komið þá er hætta á því að Y sigli í sama farið og áður.“
Af hálfu Ríkissaksóknara var með bréfi, dagsettu 12. maí 2005, óskað eftir greinargerð dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar, sérfræðings í klínískri sálfræði og réttarsálfræði, um viðtalsmeðferð hans fyrir Y en Barnavernd Reykjavíkur hafði áður, með bréfi dagsettu 22. nóvember 2004, farið þess á leit að hann veitti Y sálfræðiaðstoð. Í greinargerð dr. Jóns Friðriks frá 27. ágúst 2005 segir: ,,Undirritaður hefur aðeins átt þrjú viðtöl við Y frá því í nóvember á síðasta ári og eru ástæður þess nokkrar. Hún mætti fyrst í viðtal í nóvember 2004 með móður sinni, en ekki í viðtal er bókað var í framhaldi af því, þrátt fyrir ítrekanir. Þann 29. nóvember var hún lögð inn á barna- og unglingageðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, þar sem hún dvaldi til 25. febrúar 2005. Hún mætti í eitt viðtal til undirritaðs í maí 2005, en hefur svo verið vistuð í langtímameðferð á Meðferðarheimilinu [...] frá 5. júlí sl., þar sem undirritaður hitti hana þann 25. ágúst sl. Í þessum fáu viðtölum hefur hún verið afar treg að ræða misnotkun föður síns og í síðasta viðtalinu baðst hún undan því að ræða hana þangað til síðar.
Af gögnum sem fylgdu Y frá Barnavernd Reykjavíkur, til undirritaðs og á Meðferðarheimilið [...], Árbót, kemur í ljós að hún á við mjög alvarleg og langvinn vandamál að stríða. Sum þessara vandamála stafa trúlega frá upplagi hennar og uppeldi en önnur geta verið afleiðingar alvarlegrar kynferðislegrar misnotkunar. Í þessum gögnum kemur m.a. fram að hún var vistuð hjá fósturforeldrum frá átta mánaða aldri til fimm ára aldurs og strax um þriggja ára aldur var henni vísað á barna- og unglingageðdeildina til athugunar. Þá átti hún við svefnerfiðleika að stríða og ,,margvísleg skapgerðar-, tilfinninga- og hegðunarvandamál“. Sjö ára gömul var hún metin af ofvirkniteyminu á barna- og unglingageðdeildinni og sýndu niðurstöðurnar m.a. að greind hennar var á tornæmisstigi og hún hafði ,,alvarleg ofvirknieinkenni“, átti við hegðunarerfiðleika að stríða og erfiðleika í félagslegum samskiptum. Í síðustu innlögn á barna- og unglingageðdeildina á þessu ári var hún svo metin greindarfarslega ,,á mörkum tornæmis og vægrar þroskahömlunar (IQ=70)“.
Eins og fram kemur í gögnum um Y og í viðtölum við hana þá kemur hún stundum afar undarlega fyrir. Hún virðist eiga erfitt með að tala um sjálfa sig og virðist ekki skilja fyllilega það sem við hana er sagt. Hún svarar spurningum stuttlega og oft með öðrum spurningum eða út í hött. Það getur því verið erfitt að meta ástand hennar og að svo stöddu er hvorki unnt að meta afleiðingar ætlaðrar misnotkunar föður hennar né hversu varanleg áhrif þeirra verða útfrá þeim viðtölum sem ég hef átt við hana. Það er hins vegar ljóst að alvarleg kynferðisleg misnotkun, sem auk þess á sér stað yfir langan tíma, getur haft mjög alvarleg áhrif á fólk, bæði varanlega og til skamms tíma.“
Þá liggja fyrir tölvupóstskeyti er E, fósturfaðir stúlkunnar sendi ákærða og Y, þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af stúlkunni vegna slæms aðbúnaðar hjá móður hennar. Í einu skeytanna hvatti hann stúlkuna til að senda kærunefnd barnaverndarmála kvörtunarbréf þar sem fram kæmi meðal annars að stúlkan vildi flytja til hans.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði neitaði alfarið sök. Spurður um ástæðu þess að ákærði hefði sagt við lögreglu að hafi eitthvað gerst, þá hefði það gerst í apríl 2004, er ákærði var á lyfjakúr, kvaðst ákærði hafa tekið svo til orða vegna þvingunar lögreglumannsins sem yfirheyrði hann. Ákærði kvað Y ekki hafa verið stadda á heimili sínu í apríl 2004. Hann kvaðst hafa búið á heimili móður sinnar og stjúpföður að A á því tímabili sem ákæra tekur til, en hann kvaðst einnig hafa búið í Kópavogi og erlendis. Ákærði kannaðist við að húsið hefði verið kallað rauða húsið. Ákærði kvaðst hafa flutt í B árið 2000. Hann kvaðst hafa verið að vinna í Borgarfirði og gist þar frá haustmánuðum 2002 til desember sama ár, en komið oft í bæinn um helgar. Ákærði kvaðst einnig hafa dvalist hjá systur sinni í Noregi seinni part ársins 2002 og flutt til hennar árið 2003. Hann kvaðst hafa dvalist hjá systur sinni frá maí til októberloka 2003. Ákærði kvaðst lítið hafa umgengist dóttur sína árið 1998 og sama sem ekkert á árinu 1999 alveg fram til september 2000. Hún hafi þó nokkrum sinnum komið til systur ákærða, M, á árinu 2003 og dvalist tvo til þrjá daga, en u.þ.b. viku í júní 2004. Ákærði kvað Y hafa sofið í sófa er hún gisti yfir nótt á A, en í B hafi hún í fyrstu sofið á bedda, en á árinu 2002 hafi hún farið að sofa í sama rúmi og ákærði. Ákærði kvaðst hafa sofið í íþróttabuxum og bol en aldrei sofið nakinn. Y hafi sofið í náttfötum. Ákærði kvaðst hafa átt klámefni, sem fannst á heimili hans, en hluti þess hafi verið sameign hans og félaga hans. Ákærði kvað Y ekki hafa haft aðgang að klámefni á heimili hans, en hún hefði haft aðgang að tölvunni. Ákærði var spurður um skýringu þess að þekjufrumur Y fundust á ytra byrði smokks er fannst í herbergi ákærða, en í innra byrði þess voru sáðfrumur úr ákærða. Kvað þá ákærði að Y hefði komið smokkunum fyrir þar sem þeir fundust. Kvað hann skýringu þess vera þá að fósturpabbi Y hafi barist fyrir að fá forræði hennar í tvö til þrjú ár án árangurs og þegar ákærði hafi byrjað að leita til barnaverndarnefndar varðandi Y, hafi ákærða farið að berast hótanir um að láta hana í friði. Kvað hann að Y hefði komið smokkunum fyrir að áeggjan fósturföður hennar. Það sé eina leiðin til þess að þau fái að búa saman. Spurður um skýringar á því að þekjufrumur úr Y hafi einnig fundist í laki á rúmi ákærða, kvað ákærði að Y hefði sofið í rúminu. Spurður um ástæðu þess að Y bæri ákærða þessum sökum, áréttaði ákærði að þetta væri eina leiðin fyrir Y til þess að þau fengju að búa saman, hún og fósturfaðir hennar.
Ákærði kvaðst þrisvar hafa haft samband við félagsmálayfirvöld vegna ásakana Y á hendur móður sinni, um að móðir hennar væri að lemja hana og brenna hana með sígarettum. Hann kvað þá fundi engu hafa skilað, en upplýsingar um illa meðferð af hendi móðurinnar hafi borist ákærða í gegnum fósturföður Y. Ákærði kvaðst einnig hafa haft samband við skóla sem Y gekk í. Ákærði var spurður um klámdiska þá sem voru haldlagðir hjá honum. Hann kvaðst hafa rispað diskana þegar hann hafi séð hvaða efni var á þeim, þannig að ekki væri unnt að spila þá. Ákærði kvað tvær tölvur hafa verið á heimilinu, önnur hafi verið frá árinu 2000, en hann kvaðst ekki vita til þess að hægt hafi verið að spila DVD diska á henni. Síðan hafi ákærði fengið sér nýja tölvu í febrúar- mars árið 2004.
Spurður um verjur þær sem fundust á heimili ákærða, kvaðst ákærði hafa notað þær við samfarir og sjálfsfróun. Hann kvaðst ekki muna hvenær hann hefði síðast haft samfarir við konu, en það hefði verið eftir eitthvert grillpartý. Hann kvaðst hafa sett smokkana í ruslið að lokinni notkun og einnig á borð við hliðina á rúmi. Ákærði kvað hafa komið fyrir að Y hefði komið á heimili hans, að honum fjarstöddum. Hún hefði oft verið að gramsa í hlutum og tekið fjármuni frá ákærða. Ákærði var spurður um það hvernig Y hefði ávarpað hann og kvað hann hana ekki hafa kallað hann neitt, hvorki pabba né X. Þó hafi komið fyrir að hún ávarpaði hann sem X, eða X, en aldrei sem pabba.
Að beiðni lögreglustjórans í Reykjavík og með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36, 1999 var skýrsla tekin af Y fyrir dómi hinn 20. október 2004 .
Vitnið greindi frá því að ákærði hafi fyrst byrjað að misnota hana þegar hún var 8 eða 9 ára. Hann hafi snert rass hennar, brjóst og kynfæri innan klæða. Hann hafi þó ekki farið inn í kynfæri hennar. Þetta hafi gerst í ,,rauða húsinu“ þar sem ákærði bjó hjá móður sinni. Hann hafi einnig sleikt á henni kynfærin. Kvaðst hún hafa reynt að ýta honum frá sér en hann hafi ekki hætt. Þetta hafi gerst ,,bara stundum“. Þegar hann hafi búið í rauða húsinu hafi hann haft ,,smá“samfarir við sig en þá hafi typpið farið aðeins inn í hana en hann hafi ekki fengið fullnægingu. Þegar hún hafi verið um 10 eða 11 ára, á kynþroskaskeiði, hafi hann snert hana alls staðar og neytt hana til að snerta á sér typpið með því að taka í hönd hennar. Hún hafi barið frá sér og reynt að láta hann hætta en án árangurs. Kvað vitnið ákærða hafa haldið misnotkuninni áfram að B. Kvaðst hún hafa ,,nuddað á honum tillann“ og hafi hann ,,riðið henni í rúmi“. Nánar spurð kvað vitnið ákærða hafa haft samfarir við sig um leggöng. Þetta hafi gerst í fyrsta sinn að B. Hann hafi notað verjur og sæði hafi komið í smokkinn. Þetta hafi alltaf gerst á kvöldin á pabbahelgum inni í herbergi hans. Hurðinni hafi verið hallað aftur en afi hennar og amma hafi verið heima en ekkert séð. Kvaðst hún hafa farið til ákærða hverja helgi og stundum hafi þetta gerst þá. Þau hafi sofið í sama rúmi í herbergi hans en það væri dálítið stórt. Þetta hafi gerst síðast í sumar þegar hún hafi verið hjá honum og þá einu sinni. Nánar spurð kvað vitnið ákærða alltaf hafa notað verjur eftir að hún varð kynþroska en ekki fyrir þann tíma. Það hafi verið bragð af smokkunum ,,banani og eitthvað svoleiðis“. Hann hafi síðan losað sig við smokkana eftir notkun. Vitnið kvað að blætt hefði úr henni fyrst þegar ákærði hafði við hana samfarir. Hún hafi hlaupið inn á klósett og þrifið blóðið en það hafi lent á gólfinu. Ákærði hafi viljað koma inn til hennar til þess að vita hvað hafi gerst en hún hafi ekki hleypt honum inn.
Vitnið var spurð um það hvort hún hafi séð videómyndir hjá ákærða og kvaðst hún hafa séð myndir í tölvunni hjá honum ,,af fólki að ríða og svoleiðis “. Þá hafi hann orðið svo æstur og byrjað að gera eitthvað við hana eins og í myndunum. Kvað hún hann hafa káfað á sér innan klæða, m.a. snert brjóst og kynfæri. Þá hafi hann gefið henni áfenga drykki, Woodys. Ákærði hafi fyrst byrjað að gefa henni áfengi um þar síðustu jól. Hann hafi allt í allt gefið henni áfengi 3-4 sinnum. Þegar þau hafi horft á myndirnar hafi ákærði farið í sleik við hana og ákærði hafi neytt hana til þess að ,,sjúga tillann“ á honum. Það hafi gerst tvisvar sinnum. Hafi ákærði verið ánægður að fá fullnægingu. Nánar spurð kvað vitnið þó ekkert sæði hafa komið en ákærði hafi sagt við hana að hann hafi fengið fullnægingu. Spurð um það hversu oft í mánuði ákærði hafi misnotað hana kynferðislega kvað vitnið það hafa gerst mjög oft, um 10 sinnum í mánuði. Kvaðst vitnið hafa verið mikið hjá pabba sínum og stundum hafi hún verið send til hans þegar móðir hennar hafi farið á fyllerí. Hún hafi gist hjá honum tvær nætur í senn. Kvaðst hún ekki hafa farið til ákærða óbeðin. Henni þætti leiðinlegt hjá honum því hann gerði þetta við hana. Hana langi ekki til að hafa samband við hann og hafi aldrei langað til þess.
Vitnið kvað sér hafa liðið illa yfir því sem ákærði gerði við hana. Engum hafi líkað við hana og hún hafi alltaf verið ein. Ákærði hafi sagt við hana að hún mætti ekki segja frá þessu. Hún hafi þó sagt besta vini sínum N frá þessu. Hún hafi einnig sagt vinum sínum í K frá þessu en það væru strákar. Kvaðst hún þó ekki muna nöfn þeirra en einn þeirra heiti O. Hún hafi sagt honum frá þessu þegar hún var 14 ára. Þá kvaðst hún hafa sagt I frá þessu þegar hún var 8 ára og fyrir skömmu hafi hún sagt kærasta sínum, P, frá þessu. Þegar hún var í vinnuskóla síðastliðið sumar hafi hún sagt vinnufélögum sínum frá þessu. Þau hafi kjaftað frá og þá hafi hún sagt Æ verkstjóra sínum frá þessu líka. Hún hafi einnig sagt móður sinni frá þessu. Það hafi verið í fyrsta sinn þetta sumar sem hún sagði einhverjum fullorðnum frá þessu. Spurð um það hvers vegna hún hefði ekki greint frá þessu fyrr, kvaðst vitnið ekki hafa verið tilbúin til þess og hafi óttast að það myndi ,,skapa vandamál “. Vitnið kvað að sér hefði liðið illa og þá hafi hún oftast skorið á sér hendurnar. Hún kvaðst ekki hafa haft samfarir við annan en ákærða.
Vitnið var spurð um þann tíma er hún var í sveitinni. Hún kvaðst ekki muna hversu gömul hún var þá en ákærði hafi verið byrjaður að misnota hana kynferðislega þá. Kvaðst hún muna eftir því að hafa farið í læknisskoðun á þessum tíma.
Vitnið, C, móðir Y, kvaðst hafa haft verið að ræða við dóttur sína um kynlíf er dóttir hennar hefði sagt sér frá því hvað pabbi hennar hefði gert við hana. Vitnið kvað dóttur sína hafa sagt sér að ákærði hefði haft samfarir við hana nokkrum sinnum og einnig munnmök. Hún hefði sagt að þetta hefði byrjað þegar Y var um átta ára gömul, en grunsemdir hefðu vaknað í skóla Y þegar hún var 12 ára gömul. Þá hefði Y sagt frá því að pabbi hennar hefði gert eitthvað við hana, hún send í Barnahús árið 2003, en ekki viljað segja frá neinu.Vitnið kvað Y hafa sagt að ákærði hefði oft haft við hana samfarir, en hún vissi ekki hversu oft, en þó ekki sjaldnar en tíu sinnum. Vitnið kvað Y hafa sagt vitninu að ákærði hefði síðast átt við hana kynferðislega sumarið 2004. Vitnið staðfesti að þeir minnispunktar er frá vitninu stafa, hafi verið ritaðir eftir frásögn Y. Vitnið kvað Y hafa verið hjá pabba sínum aðra hvora helgi á þessum tíma, en það hafi þó ekki verið reglulegt. Þá kvað vitnið Y farið í sveit að D um sjö ára aldur, eða árið 1997 og hafi verið þar nokkur sumur, en einnig hafi hún dvalist aðra hvora helgi, tvo vetur. Þá kvað vitnið að Y hefði ekki átt í kynferðissambandi við stráka. Vitnið kvaðst minna að Y hefði farið í læknisskoðun og þá hafi hún verið svæfð til þess að komast að því hvort á henni hefði verið brotið kynferðislega, en ekkert hefði komið fram þá. Vitnið kvað samskipti þeirra E, fyrrverandi sambýlismanns vitnisins, hafa verið góð og hafi E verið mjög góður við Y. Vitnið kvaðst aldrei hafa orðið vör við neitt kynferðislegt í þeirra samskiptum. Þá kvað vitnið það rétt að Y vildi búa hjá E, en hann væri að reyna að fá Y upp á móti vitninu, þar sem hann vilji ættleiða hana. Vitnið kvaðst kannast við það að F, húsráðandi að D hafi sagt, er E kom einhverju sinni að sækja Y, að E snerti Y á óeðlilegan hátt. Þá var vitnið spurt um tilgreint atvik á kaffihúsi um sumarið 2004, er Y hitti E þar. Vitnið kvaðst hafa spurt Y að því hvort hún hefði átt í kynferðislegu sambandi við E, vegna þess hvernig hún snerti hann og hann hana. Hún kvað hana hafa orðið hneykslaða á þessari spurningu vitnisins. Vitnið kvaðst telja að Y hefði hitt föður sinn á árunum 1998-2004 um 15 sinnum eða oftar. Vitnið kvaðst hafa verið í sambúð með E á árunum 1993-2000.
Vitnið kvað Y hafa verið mjög ,,passíva“ í tali sínu um ákærða. Vitnið kvaðst sjálf hafa stungið upp á því að hún umgengist hann, en frumkvæði að því hafi aldrei komið frá ákærða. Vitnið kvað að sér hefði þótt mjög erfitt að trúa því að ákærði gerði svona hluti, en kvaðst hafa viljað vita hvað væri rétt og þegar Y hefði undirgengist læknisskoðun hefði hjúkrunarfræðingurinn sagt að hún hefði margoft haft samræði.
Vitnið kvað Y hafa verið mjög lifandi og glaðvært barn, en um átta ára aldurinn hafi það breyst og hún byrjað að skaða sjálfa sig. Hafi Y gefið þær skýringar að hún væri að refsa sjálfri sér og vildi finna fyrir sársaukanum. Vitnið kvað Y hafa ávarpað ákærða sem X, en ekki pabba.
Vitnið kvað Y fyrst hafa gist á A hjá föður sínum þegar hún var sex eða sjö ára og hafi hún sofið uppi í rúmi hjá honum, en hann hafi átt queen size rúm þar.
Vitnið, P, vinur Y, kvaðst hafa verið kærasti hennar í nokkra mánuði frá hausti 2004 til jóla. Vitnið kvað þó ekkert kynferðislegt hafa gerst milli þeirra. Þá kvað vitnið að hún hefði verið með félaga sínum, en þau hefðu heldur ekki sofið saman. Vitnið kvað stúlkuna hafa sagt sér að faðir hennar hefði misnotað hana, en hún hefði ekki átt erfitt með að ræða ítarlega um það. Vitnið kvað að þegar hún talaði um E, fósturföður sinn, nefndi hún hann með nafni hans. Þá taldi vitnið að milli hennar og E hefði verið gott samband.
Vitnið, Q, kvaðst hafa verið leiðbeinandi í Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2004 og Y hefði verið meðal þeirra barna er hún hafði umsjón með. Hún kvað tvær stúlkur í hópnum hafa komið til vitnisins og sagt henni að Y hefði sagt þeim að hún hefði ,,tottað“ pabba sinn. Vitnið kvaðst hafa rætt við Y og hún sagt vitninu að pabbi hennar væri að misnota hana kynferðislega og ekki mætti segja neinum frá. Vitnið kvað Y hafa sagt að hann hefði snert hana með höndum og munni á kynfærum og hún snert hann sömuleiðis og hafi þetta athæfi viðgengist í þó nokkurn tíma. Mamma hennar mætti aldrei fá að vita þetta, því að þá yrði hún mjög reið. Y hafi ekki skilið hvers vegna þyrfti að tilkynna um þetta, en vitnið kvað Barnaverndarnefnd hafa verið tilkynnt um málið. Vitnið kvað Y hafa verið að tala um kynföður sinn, er hún sagði vitninu frá misnotkuninni, ekki stjúpföður sinn. Vitnið kvað hana hafa talað mjög vel um stjúpföður sinn og líkað mjög vel við hann. Vitnið kvað hana hafa notað orðið pabbi um ákærða.
Vitnið, I, kvaðst hafa verið félagi Y í G. Hann kvaðst eitt sinn hafa spurt hana að því hvort eitthvað væri að og hefði hún þá sagt honum og félaga vitnisins, R, að pabbi hennar hefði misnotað hana. Hún hafi notað orðalagið ,,nauðgað“.
Vitnið kvaðst telja að um tvö ár væru síðan þetta gerðist. Vitnið kvaðst strax hafa sagt kennara sínum frá þessu. Vitnið kvaðst telja að Y hafi verið um 12 ára þegar þessi misnotkun átti sér stað. Vitnið kvaðst hafa fengið tölvupóst frá E þess efnis að E vildi taka Y að sér og kvaðst vitnið alveg geta verið sammála því, þar sem mamma Y væri leiðinleg.
Vitnið, S, kvaðst vera skólastjóri í K og hafi Y verið nemandi hennar þar. Vitnið kvaðst hafa orðið vör við einhverja vanlíðan hjá henni og hafi hún verið farin að rífa sig mikið til blóðs og rispa sig upp. Vitnið hafi rætt við Y og hafi hún þá sagt vitninu frá því að hún og faðir hennar hefðu haft samfarir, á heimili hans og móður hans. Vitnið kvað Y einnig hafa verið með kynferðislega tilburði við starfsmenn og nemendur í skólanum, farið ofan í buxur hjá nemendum og í klofið á strákunum. Einnig hefði hún rætt um það í skólaferðalagi að hún hefði átt samfarir við föður sinn. Vitnið kvað hana hafa sagt að hún hefði verið 12 ára þegar það byrjaði. Vitnið kvað hana hafa notað orðið pabbi, er hún ræddi um gerandann. Vitnið kvaðst vita að fósturfaðir Y héti E og hafi hann einhvern tíma komið í skólann og sótt hana. Vitnið kvaðst hafa veitt athygli ,,svolítið ýktri snertingu“ af hans hálfu í garð Y. Vitnið kvað Y ætíð hafa rætt um E sem góðan mann og aldrei kallað hann pabba heldur bara E.
Vitnið, F, kvaðst hafa um árabil tekið við börnum til sumardvalar að D. Hún kvaðst meðal annars hafa annast börn sem vitað væri til að hefðu verið beitt kynferðislegu ofbeldi.
Vitnið kvað Y fyrst hafa komið að D sumarið 1997. Síðan hafi hún komið sumrin, 1998, 1999 og 2000. Einnig hafi hún dvalist hjá vitninu einu sinni í mánuði, um helgi, að vetrarlagi, sömu ár. Vitnið kvað hana hafi verið mjög erfitt barn. Hún hafi verið uppátektarsöm, viljað hátta sig fyrir framan drengi og verið að áreita önnur börn. Hún hafi verið mjög snertifælin. Vitnið kvað að vaknað hefði hjá sér grunur um kynferðislega misnotkun, strax eftir fyrsta sumarið. Vitnið kvað að grunur sinn hefði beinst að fósturföðurnum, E. Vitnið kvað að sér hefði fundist hann káfa á henni. Hann hefði farið með báðar hendur sínar ofan í buxnavasa stúlkunnar, þannig að hendur hans fóru niður í skaut stúlkunnar. Hafi þetta gerst, er þau sátu öll við eldhúsborðið og voru að drekka kaffi. Kvaðst vitnið hafa fundið að þessu við hann. Eftir það hafi hann aldrei komið inn til vitnisins. Þá kvað vitnið E hafa rætt við stúlkuna í síma og kallað hana ástina sína og sagt að hann saknaði hennar. Vitnið kvað að hún hefði getið um grunsemdir sínar við Barnaverndarnefnd Reykjavíkur strax um sumarið 1997. Vitnið kvað hegðun hennar hafa versnað með hverju sumri sem leið. Vitnið var spurt um minnisblað sem vitnið ritaði 20. júní 2000, þar sem vitnið sagði að allt benti til að stúlkan hefði þurft að horfa á eða heyra um hluti tengda klámi. Kvað þá vitnið að stúlkan hefði beinlínis talað þannig og sagt fóstra sinn ganga um hálfberan og hefði klósettið opið þegar hann væri þar inni. Vitnið kvaðst ekki muna hvort stúlkan hefði dvalist hjá henni fram yfir áramótin 2000-2001. Vitnið kvað stúlkuna mjög lítið hafa talað um ákærða og hann hafi lítið samband haft við stúlkuna meðan hún dvaldi hjá vitninu.
Vitnið, T, stjúpfaðir ákærða, kvað ákærða búa á heimili hans. Þau hafi búið að A, á árunum 1994-2000, er þau fluttu í B. Vitnið kvað Y ekki hafa verið mikið inni á heimilinu á þessum árum og aldrei hafi verið nein regla á umgengni. Vitnið kvað það hafa komið fyrir, er stúlkan var í G að hún kæmi við hjá þeim eftir skólann, þótt ákærði hefði ekki verið heima þá. Vitnið kvað stúlkuna hafa sofið í stofunni, er hún gisti á A, en hjónaherbergið hafi verið opið inn í stofu. Ákærði hafi hins vegar sofið uppi á lofti, í mjóu rúmi. Eftir að þau fluttu í B hafi ákærði sofið í stofunni, en stúlkan í herbergi X. Í ársbyrjun 2003 hafi ákærði fengið mjög breitt rúm og eftir það hafi hún sofið inni hjá honum. Þau hafi ekki sofið fyrir luktum dyrum, þar sem mjög erfitt sé að loka dyrum að herbergi ákærða. Vitnið kvað stúlkuna vera mikið utan í öllum karlmönnum og kvaðst vitnið telja að sú hegðun hennar hefði byrjað er þau fluttu í B. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð ákærða með nokkurt klámefni.
Vitnið kvað ákærða hafa verið að vinna úti á landi frá ágúst 2001 fram til desember 2002. Þeir hafi stundum komið í bæinn um helgar. Vitnið kvað ákærða hafa farið til systur sinnar í Noregi í lok júlí 2003 og komið til baka í október sama ár. Vitnið kvað Y hafa ávarpað ákærða sem X, en ekki pabba. Vitnið kvaðst hafa lesið lögregluskýrslurnar í málinu og einnig hefðu aðrir í fjölskyldu ákærða gert slíkt hið sama.
Vitnið, U, móðir ákærða, kvað telpuna hafa í mesta lagi hafa gist tvisvar á heimili vitnisins og ákærða, árið 1997. Telpan hafi komið mjög óreglulega í umgengni til föður síns, en hún hafi verið um áramótin 1998 hjá vitninu, þar sem móðir hennar hafi farið til Frakklands. Vitnið kvaðst hafa flutt í B árið 2000 og hafi þá telpan stundum komið til þeirra og gist. Hins vegar hafi dóttir vitnisins, M flust frá Noregi þetta sama ár og hafi telpan þá verið dálítið hjá henni. Vitnið kvað telpuna hafa síðast komið til ákærða í júní 2004 og þá verið yfir nótt.
Vitnið kvað telpuna hafa sofið í stofunni á A er hún gisti þar, en ákærði hefði sofið uppi á lofti. Eftir að þau fluttu í B hafi stúlkan í fyrstu sofið í stofunni eða í herberginu hans til skiptis. Eftir að hann fékk sér tvíbreitt rúm árið 2003 hafi hún sofið í sama rúmi og hann.
Vitnið kvaðst aldrei hafa orðið vör við nokkuð óeðlilegt í samskiptum ákærða við dóttur sína og aldrei hafa séð nokkurt klámefni í hans fórum. Stúlkan hafi sofið í náttfötum og hann í síðum íþróttabuxum.
Vitnið kvað stúlkuna aldrei hafa notað orðið pabbi í samskiptum sínum við ákærða, heldur hafi hún ávarpað hann sem X. Vitnið kvað stúlkuna hafa verið að strjúka bæði ákærða og eiginmanni vitnisins á óviðurkvæmilegan hátt.
Vitnið kvaðst hafa lesið skýrslu sem tekin var af stúlkunni og skýrslur sem voru teknar af móður stúlkunnar. Einnig hefðu aðrir í fjölskyldu vitnisins lesið skýrslurnar, þar á meðal systur ákærða sem komu fyrir dóminn.
Vitnið, V, systurdóttir ákærða, kvaðst hafa búið í B í rúman mánuð eða tvo frá ágúst 2000. Eftir það hafi hún verið þar nánast hvern dag enda hafi hún alist upp þar á heimilinu. Þó hún hafi ekki verið þar að staðaldri hafi hún oft gist þar og stundum verið þar langt fram eftir kvöldi, jafnvel til miðnættis. Kvaðst vitnið ekki hafa orðið vör við að Y hafi komið í heimsókn þennan tíma sem hún dvaldi þar árið 2000. Spurð um árið 2001 kvaðst hún lítið hafa orðið vör við Y. Hún hafi komið þangað um einu sinni í mánuði en stundum hafi liðið lengri tími á milli. Á árinu 2002 hafi komur Y verið óreglulegar. Hún hafi hringt upp úr þurru, beðið um að fá að koma í heimsókn og hvort einhver gæti sótt sig. Einnig hafi hún verið þarna um helgar en stundum hafi liðið langur tími á milli. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við Y þann tíma sem vitnið bjó að B á árinu 2003 frá september til apríl 2004. Nánar spurð kvaðst hún eitthvað örlítið hafa séð Y fyrri part ársins 2004. Ákærði hafi búið á heimili vitnisins í Þ frá apríl 2003 en þá hafi hún flutt til Noregs.
Aðspurð kvað vitnið Y hafa verið mjög háða ákærða. Lýsti vitnið því svo að hún hafi strokið honum, potað í hann og tekið utan um hann. Hún hafi elt hann um allt og hafi þetta farið svolítið í taugarnar á honum. Vitnið hafi því oft verið beðin um að taka Y og leika við hana eða tala við hana. Hún hafi líka verið byrjuð að strjúka afa þeirra og hann hafi beðið hana um að hætta því. Hafi þeim öllum fundist þetta mjög óþægilegt og óheilbrigt. Spurð um það hvernig ákærði og Y voru klædd þegar þau sváfu í sama rúmi, kvað vitnið ákærða hafa verið í íþróttabuxum og bol en Y hafi alltaf farið í náttföt. Vitnið kvaðst aldrei hafa orðið vör við neitt sem vakið gæti grunsemdir um eitthvað óviðeigandi á milli þeirra. Hafi ákærði átt það til að ýta Y frá sér þegar áreiti hennar var mikið gagnvart honum. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð klámfengið efni í tölvu ákærða.
Vitnið, M, systir ákærða, kvaðst hafa flutt til Íslands 7. september árið 2000 og keypt íbúð í Þ skömmu síðar. Kvaðst hún einu sinni hafa séð Y árið 2000 en hún hafi einu sinni komið á B í september. Þá hafi hún komið til þeirra á jólunum. Kvað hún Y hafa komið heim til hennar annað slagið á árinu 2001, leikið við krakkana og gist. Aðspurð kvaðst vitnið mikið hafa verið í B og börn hennar hafi farið beint úr skóla til afa síns og ömmu. Kvað hún ekki hafa verið mikil samskipti á milli ákærða og Y á árinu 2002. Þau samskipti hafi þá yfirleitt verið á heimili vitnisins enda hafi ákærði komið með Y þangað til að losna við áreiti hennar og káf. Hafi ákærði og Y stundum gist hjá vitninu en þá ekki sofið saman. Spurð um árið 2003, kvað vitnið ákærða nær alltaf verið á heimili vitnisins því að maður hennar hafi farið út til Noregs í byrjun árs. Ákærði hafi búið þar alveg þangað til þau fóru saman til Noregs en komu öll aftur heim í október. Y hafi komið í heimsókn til vitnisins í Þ þetta árið en hún og ákærði hafi ekki sofið saman. Hafi orðið rifrildi eitt sinn þegar sonur vitnisins fékk að sofa hjá honum en ekki Y.
Vitnið, L, var spurður um tvo diska með klámfengnu efni sem fundust hjá ákærða við húsleit. Greindi hann svo frá að hann hafi starfað sem viðgerðarmaður í Tölvulistanum árið 2001 en við skýrslutöku hjá lögreglu hefði hann ranglega sagt að hann hafi starfað þar árið 2000. Til viðgerðar hafi komið tölva með þessu efni á og hafi hann og félagar hans tekið afrit af því. Vitnið kvað möppuheiti sem fram koma á diskinum hafa verið til staðar er hann tók afrit af diskinum. Hann hafi tekið diskinn með sér heim og þar hafi hann verið þar til í apríl 2004 en þá hafi vitnið losað sig við þennan disk og farið með hann til ákærða en vitnið kvaðst ekki muna hvort hann og ákærði hafi sett diskinn í drifið. Ákærði hafi í mars-maí sama ár keypt hluti í tölvuna. Borið var undir vitnið það sem fram kemur í gögnum lögreglu um að hluti geisladisksins hafi verið inni á hörðum diski tölvunnar en verið eytt út í maí 2004. Kvað vitnið sennilegt að einhver hafi byrjað að setja efnið inn á harða diskinn en hætt við, hvort sem það var vitnið sjálft, ákærði eða einhver annar. Vitnið kvað ákærða eiga nánast ekkert klámefni á diskum.
Vitnið var spurt um þann framburð vitnisins í lögregluskýrslu, frá mars 2005, er vitnið sagði að það væru um 2 ár síðan vitnið lét ákærða fá diskana. Kvað þá vitnið að það hefði sagt að það væru um 2 ár, en gæti skeikað einu ári til eða frá, og það félli þá væntanlega undir árið 2004.
Vitnið, Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur, kvaðst hafa tekið samtals fimm viðtöl við Y. Hún hefði sagt vitninu frá því í nóvember árið 2004 að faðir hennar hefði misnotað hana. Hún hefði sagt að það hefði byrjað þegar hún var átta ára og því hefði lokið árið 2003. Vitnið var spurt um það hvort það væri visst um að stúlkan hefði sagt að kynferðislegri misnotkun hefði lokið árið 2003 og kvaðst vitnið þá hafa skrifað þetta niður í minnispunkta sína. Hún hafi sagt vitninu að hún myndi eftir fyrsta skiptinu, en ekki viljað ræða þetta neitt. Vitnið var beðið að gera grein fyrir því sem fram kemur í vottorði vitnisins að stúlkan eigi við að stríða mjög alvarleg og langvinn vandamál sem geti verið afleiðingar alvarlegs kynferðislegs ofbeldis. Vitnið kvað þá að stúlkan hefði verið lögð inn á barna- og unglingageðdeild fyrir rúmu ári síðan vegna mikillar vanlíðunar og sjálfsskaðandi hegðunar og á sama tíma sé hún að skýra frá því hvað gerst hefði. Það sé merki þess að eitthvað hafi gerst. Þá hafi stúlkan alla tíð sýnt af sér óeðlilega kynferðislega hegðun miðað við aldur og geri það enn. Þessi atriði séu til marks um að hún hafi verið misnotuð kynferðislega, auk þess sem stúlkan hafi formálalaust sagt jafnöldrum sínum á meðferðarheimilinu, þar sem stúlkan dvelst nú, frá því að hún hafi stundað kynlíf með föður sínum.
Vitnið kvað nokkur batamerki hafa komið fram hjá stúlkunni eftir að hún fór á meðferðarheimilið. Vitnið kvað stúlkuna hafa rætt við vitnið um E, fyrrum fósturföður sinn og hafi hún verið reið móður sinni að þau væru ekki lengur saman.
Vitnið kvaðst hafa gengið séstaklega eftir því hvort hún átti við E eða ákærða er hún ræddi meinta kynferðislega misnotkun og kvað vitnið að það hefði komið skýrt fram hjá stúlkunni að hún ætti við ákærða.
Vitnið, E, kvaðst hafa hafið sambúð með C, móður Y, árið 1992 og hafi þau búið saman til ársins 2003. Vitnið kvaðst stundum hafa ekið C í umgengni til fósturforeldra Y, en Y hafi verið í fóstri fyrstu ár sambúðarinnar. Vitnið kvaðst hafa keypt hús í Danmörku árið 1993 og þangað hafi Y og móðir hennar flust með vitninu. Þar hafi þau búið í um tvö eða þrjú ár. Vitnið kvað sér hafa fundist að C ætti erfitt með að sýna stúlkunni væntumþykju og hún hafi átt við drykkjuvandamál að stríða. Vitnið kvað C hafa beitt Y ofbeldi og stundum hafi C ekið Y til ákærða, og skilið hana þar eftir fyrir utan heimili hans, í frosti og kulda. Vitnið kvaðst hafa sýnt Y eins mikla ást og hægt væri og samband þeirra væri mjög gott. Hann kvaðst alltaf hafa verið stoltur af Y. Vitnið kvaðst hafa orðið var við það fyrir um tveimur árum síðan að Y vildi ekki fara til ákærða í umgengni, en C hafi ekki hlustað á það. Vitnið kvað Y ekki hafa sagt sér frá því hvers vegna hún vildi ekki fara til ákærða, en kvað hana hafa reynt að segja vitninu frá því fyrir um ári síðan, að ákærði misnotaði hana, en hún hafi þó átt mjög erfitt með það. Vitnið kvaðst oft hafa hugleitt að ættleiða Y, þar sem vitnið kvaðst hafa vitað hversu erfitt líf Y hefði verið. Vitnið kvað Y hafa verið mjög hrædda við móður sína.
Vitnið var spurt um það hvort hann kannaðist við atvik, sem vitnið F bar um fyrir dómi, að vitnið hefði, í einni heimsókn sinni til stúlkunnar, farið ofan í buxnavasa stúlkunnar og snert á henni klofið. Vitnið kvað það algera fjarstæðu, en kannaðist við að F hefði einhvern tíma reiðst sér, þar sem vitnið kvaðst vita til þess að F hefði ekki verið góð við Y. Vitnið kvaðst hafa reynt allt til að bjarga Y úr þeim ömurlegu aðstæðum sem hún hefði verið í, en hvergi hefði verið hlustað á hann. Vitnið kvaðst vera alið upp við eðlilegar aðstæður og hafa viðurstyggð á því hátterni að eiga við börn kynferðislega.
Vitnið var spurt um það hvort eitthvað væri til í því að Y hefði spunnið upp frásögn af meintri háttsemi ákærða að áeggjan vitnisins. Vitnið kvað það algerlega út í bláinn og kvaðst einmitt hafa sagt við Y, að segja ekki rangt frá, því að vitnið hefði grunað að þessi framburður Y hefði verið að undirlagi C. Vitnið kvaðst margoft hafa spurt hana hvort hún væri að segja satt, er hann frétti af meintri kynferðislegri háttsemi ákærða og kvað vitnið að Y hefði sagt að þetta væri satt. Vitnið kvaðst telja að Y segði satt frá meintri kynferðislegri háttsemi ákærða í hennar garð, þótt vitnið óski þess að þetta sé ekki satt. Vitnið kvað Y oft hafa séð mömmu sína í kynmökum með öðrum mönnum þar sem hurðinni hafi aðeins verið hallað fram á gang. Vitnið kvaðst muna eftir því að Y hefði eitt sinn komið til vitnisins í kringum árið 2000. Hafi henni þá liðið illa og verið rispuð á höndum.
Vitnið kvað umgengni við ákærða hafa verið mjög stopula og stundum hafi liðið um 5-6 mánuðir á milli. Vitnið kvaðst eiga erfitt með að giska á hversu tíð umgengnin hafi verið milli þeirra, þar sem engin regla hefði verið á umgengninni.
Vitnið kvað Y hafa sagt sér að ákærði hefði gefið henni bjór að drekka þegar hún var um 12 ára gömul. Vitnið kvað Y hafa kallað ákærða pabba er hún ræddi um hann.
Vitnið, Ómar Þ. Pálmason rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa annast vettvangsrannsókn á heimili ákærða 11. október 2004. Hann kvaðst hafa ljósmyndað vettvang og leitað mögulegra lífssýna. Einnig hefðu nettengdar tölvur verið rannsakaðar. Tölva í opnu rými húsnæðisins hefði verið rannsökuð þar sem þar hefðu fundist skrár sem gáfu til kynna hugsanlegt barnaklám. Þá hafi rúmföt ákærða verið haldlögð. Tveir notaðir smokkar hafi legið á gólfi við rúmið og þeir hafi verið settir í sér poka. Þá hafi einn notaður smokkur verið límdur við vegg við rúmið og gulir taumar runnið niður vegginn frá smokknum, en smokkurinn hafi verið gulur að lit. Vitnið kvað smokkinn alveg hafa verið fastan við vegginn. Borinn var undir vitnið sá framburður ákærða að Y hlyti að hafa fundið smokkinn í ruslafötu í herbergi ákærða og hent honum á bak við rúmið. Kvað vitnið þann framburð hlægilegan og benti á að smokkurinn hefði verið alveg fastur við vegginn og til þess að sú skýring ákærða stæðist hefði vökvinn utan á smokknum þurft að vera í töluverðu magni og alveg ferskur til þess að renna niður vegginn og límast svo fast við hann, eins og umræddur smokkur hafi gert. Þá kvað vitnið að storknunartími blóðs og munnvatns væri skammur. Blóð storknaði t.d. við stofuhita á 7-14 mínútum.
Vitnið, Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar, kvaðst hafa rannsakað það sem haldlagt var á heimili ákærða, teygjulak, hvítt lak, tvenn koddaver og sængurver. Hann hafi leitað að lífssýnum og fundið bletti sem gáfu jákvæða svörun við sæðisprófun. Á öðrum hlutum hafi hann fundið bletti sem gáfu veika og óskýra svörun og því ekki talið sæði. Hinir nothæfu blettir hafi verið á teygjulaki og þeir hafi verið skornir úr lakinu og sendir til frekari rannsóknar til Noregs. Þá kvaðst hann hafa dregið saman niðurstöður Rettsmedisinsk institutt, en þar hafi hinar haldlögðu verjur verið rannsakaðar. Í greinargerð þar að lútandi komi fram að í þeim fjórum sýnum sem send voru úr teygjulakinu, á ætlaðri innri og ytri hlið verjanna, svo og í pinnastrokum sem tekin voru af vegg, hafi fundist sáðfrumur og DNA snið þeirra allra hafi samsvarað DNA sniði ákærða. Þekjufrumur sem hafi fundist í teygjulakinu hafi samsvarað DNA sniði grunaða utan í einu sýninu þar sem fram hafi komið blanda allavega tveggja einstaklinga. Þær aukasamsætur sem hafi komið fram í blöndunni hafi allar verið til staðar í DNA sniði Y. Á ætlaðri ytri hlið verju hafi komið fram þekjufrumur og DNA snið þeirra hafi samsvarað DNA sniði Y. Um hafi verið að ræða þá verju sem klemmd var á milli rúms og veggjar. Aðspurður kvað vitnið erfitt að segja frá hvaða líkamshluta slíkar þekjufrumur stafi en ætla mætti af magni þekjufruma að mun meiri snertingu þurfi til en aðeins þá að snerta með höndunum með því að taka verju upp. Í raun sé ólíklegt að það að taka upp hlut og leggja frá sér aftur skilji eftir slíkt magn af þekjufrumum að það kalli fram svörun. Meiri snerting þurfi að koma til. Nánar spurður kvað hann mun meiri líkur á því að slíkt magn þekjufruma yrði eftir hafi manni verið fróað, þ.e. með ítrekuðum strokum á ytra borði verju. Það sama eigi við um munnmök og kynmök í leggöng eða endaþarm enda snerting þá mikil en ekki sé hægt að segja að eitt sé líklegra en annað.
Spurður um sýni úr laki, kvað vitnið að allar aukasamsætur sem voru í sýninu hafi verið til staðar í DNA sýni Y og væri því ekki útilokað að uppruna sýnisins mætti rekja til hennar. Vitnið kvað ekki útilokað að hægt væri að skilja eftir sig þekjufrumur liggi manneskja lengi á laki þar sem sé sæðisblettur. Hins vegar telji hann ólíklegt að það sé unnt með snertingunni einni. Nánar spurður kvað vitnið líklegra en annað að sú blöndun sem þarna sé um að ræða hafi komið er sæði hafi lekið frá stúlkunni en þó væri ekkert hægt að fullyrða um það. Vitnið kvað aðspurður það ekki skipta máli varðandi þetta mat að um skylda einstaklinga væri að ræða enda hafi legið fyrir hrein samanburðarsýni frá þeim báðum. Þær aukasamsætur sem komu fram væru ekki til staðar í DNA sniði ákærða og því hafi þær hlotið að koma annars staðar frá. Þessar aukasamsætur væru allar til staðar í DNA sniði Y eins og áður greinir.
Vitnið kvað að hægt væri að greina á milli ensíma í vessum sem finnast í leghálsi og í munnvatni. Það hafi hins vegar ekki komið fram í hinum norsku niðurstöðum en með því hefði verið unnt að leiða líkur að því hvaðan úr líkamanum þekjufrumurnar kæmu. Rannsóknin hafi þó sennilega beinst að því að finna hvort sæðisfrumur væru til staðar og greina þær þekjufrumur sem hafi fundist en ekki rannsaka hvaðan þær hafi komið. Þá kvað vitnið unnt að rannsaka þekjufrumur og sæðisfrumur sem hafi þornað við tilteknar aðstæður í mánuði eða jafnvel ár.
Vitnið kom aftur fyrir dóm 15. febrúar sl. Vitnið var spurt um það sem fram kemur í svari Rettsmedisinsk institutt. Vitnið kvað að í svari þeirra fælist að ekki væri unnt að segja til um ákveðinn frumufjölda og ekki hafi heldur verið unnt að segja til um hvaðan úr líkamanum þessar þekjufrumur komu, þ.e. frá lófa, munnholi eða leggöngum. Vitnið kvað meira magn þekjufruma losna úr rakri slímhúð, en af þurri húð. Vitnið var spurt um það hvort þekjufrumur frá höndum ákærða hefðu átt að finnast á ytra byrði smokksins, ef hann hefði notað smokkinn við sjálfsfróun. Sagði vitnið þá að það væri rétt, þekjufrumur frá ákærða hefðu átt að finnast á ytra byrði smokksins, en eingöngu hefðu fundist þekjufrumur með DNA sniði Y á ytra byrði smokksins.
Vitnið, Æ, kvaðst hafa skoðað tölvur ákærða á sínum tíma. Vitnið kvaðst hafa séð ummerki um sama ,,möppustrúktur“ á hörðum diski tölvu ákærða og hafi verið á diski sem haldlagður var, en búið hafi verið að eyða því. Vitnið kvað disk þann sem haldlagður var ekki hafa verið rispaðan og hafi hann verið vel lesanlegur. Vitnið afhenti diskinn í réttinum og var hann lagður fram.
Niðurstaða
Þar sem ákærði neitar sök samkvæmt öllum ákæruliðum, ráðast úrslit málsins að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, þótt jafnframt njóti við í máli þessu sýnilegra sönnunargagna, sem leggja verður mat á.
Ákærði var margítrekað yfirheyrður hjá lögreglu um meinta refsiverða háttsemi gagnvart Y, en neitaði ávallt sakargiftum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 11. janúar 2005, kvað ákærði þó að ef eitthvað hefði gerst í þá veru sem í ákæru greinir, þá hefði það átt sér stað í apríl 2004, þegar ákærði hefði verið á sterkum lyfjakúr og minni hans á þeim tíma gloppótt. Fyrir dómi gaf ákærði þá skýringu á þessum framburði að hann hafi verið þvingaður af lögreglumanninum sem yfirheyrði hann og gerði lítið úr þeim framburði sínum hjá lögreglu að minni hans hefði verið gloppótt, en kvað Y ekki hafa dvalist hjá honum í apríl 2004.
Dómurinn horfði á myndbandsupptöku af dómsyfirheyrslu yfir stúlkunni. Hún átti afar erfitt með að greina frá í sjálfstæðri frásögn, var niðurlút, mjög lokuð og virtist taugaóstyrk, og neri hendur sínar í sífellu. Henni veittist greinilega mjög þungbært að bera vitni og öll hegðun hennar lýsti feimni eða skömm. Hún var lágmælt og svaraði spurningum seint, jafnvel þegar hún var spurð að nafni. Í gögnum málsins kemur fram að stúlkan hefur allt frá fæðingu búið við gríðarlega erfiðar uppeldisaðstæður og er samkvæmt mati sérfræðinga á mörkum ,,á mörkum tornæmis og vægrar þroskahömlunar (IQ=70)“.Til þessa verður meðal annars að horfa þegar dómurinn leggur mat á framburð hennar og hvort hugsanlegt sé að stúlkan geti verið að spinna upp frásagnir af atburðum.
Verður nú vikið að þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í hverjum ákærulið.
Ákæruliður 1.
Ákærði hefur neitað sök samkvæmt þessum ákærulið. Samkvæmt framburði ákærða hafa verið tölvur á heimili hans, sem hann hefur haft aðgang að frá árinu 2000. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði fengið sér nýja tölvu í mars-apríl 2004. Á heimili ákærða fannst geisladiskur með klámefni, en ákærði hefur borið að vinur hans, L, hafi gefið sér þann disk á árinu 2004 og rennir framburður vitnisins L stoðum undir þann framburð ákærða. Y lýsti því fyrir dóminum að ákærði hefði sýnt sér klámefni í tölvunni sinni. Í minnispunktum, er móðir Y skrifaði eftir frásögn Y og liggja frammi í dóminum, lýsir Y á nákvæman hátt hinum ýmsu kynferðisathöfnum er hún kvaðst hafa séð í tölvu ákærða. Þá lýsti hún því á trúverðugan hátt, að þegar hann sýndi henni klámefnið yrði hann æstur og færi að gera við hana eins og myndirnar sýndu. Af framburði hennar varð ekki skýrlega ráðið hve gömul hún var þegar ákærði hóf að sýna henni klámefnið á tölvunni, en hún skýrði dóminum frá því að þegar ákærði hefði sýnt henni klámefnið hefði hann einnig gefið henni áfenga drykki og kvað hún það fyrst hafa gerst um jólin 2002, en þá var stúlkan 12 ára gömul. Þegar litið er til þess hversu ung Y er og þess að hún hefur verið greind á mörkum tornæmis og vægrar þroskahömlunar er að mati dómsins óhugsandi að Y sé að spinna upp frásagnir af þessu. Tölvudiskur með klámefni, sem fannst í vörslum ákærða, er vel lesanlegur og er þá fram komið að ákærði hefur ekki sagt satt og rétt frá er hann greindi dóminum frá því að hann hefði rispað diskinn svo að ekki væri unnt að lesa hann. Rýrir þessi framburður hans trúverðugleika framburðar hans um þá háttsemi sem hann er borinn sökum í þessum ákærulið.
Fram er komið í málinu að stúlkan dvaldi hjá föður sínum um helgar þann tíma sem ákæruliður þessi tekur til, og gisti þá jafnan hjá honum, þótt jafnframt sé fram komið að umgengni hafi ekki verið regluleg.
Jafnvel þótt umræddur tölvudiskur hafi fyrst komist í vörslur ákærða árið 2004, þykir í ljósi framangreinds og framburðar stúlkunnar ekki varhugavert að telja sannað, að ákærði hafi í nokkur skipti sýnt stúlkunni klámmyndir í tölvu þegar hún var 12-14 ára gömul, en ekki 10-14 ára eins og greinir í ákæru, enda er fram komið að ákærði hafði aðgang að tölvu á heimili sínu allt frá árinu 2000.
Ákærði er samkvæmt því sakfelldur fyrir þá háttsemi og er sú háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður 2.
Ákærði hefur neitað sök samkvæmt þessum ákærulið. Fyrir dómi lýsti Y því að þegar hún var átta eða níu ára gömul hafi ákærði snert hana á rassi, brjóstum og kynfærum, innanklæða. Hún neitaði því að ákærði hefði ,,farið inn í kynfæri hennar“ á þessum aldri. Þá lýsti hún því fyrir Jóni Friðriki Sigurðssyni sálfræðingi að faðir hennar hefði byrjað að misnota hana er hún var 8 ára gömul og vitnið, F, kvað að hjá sér hefði vaknað grunur um að stúlkan hefði verið misnotuð kynferðislega, strax eftir fyrsta sumarið sem hún dvaldi hjá henni, en það var sumarið 1997. Vitnið, C, móðir Y kvað stúlkuna hafa tjáð sér að ákærði hefði byrjað að misnota hana þegar hún var 8 ára gömul. Vitnið, Jón Friðrik, kvaðst hafa gengið sérstaklega eftir því við stúlkuna hvort hún ætti við kynföður sinn eða stjúpföður, E, þegar hún ræddi um misnotkun föður og kvað hann hafa komið skýrt fram í hennar framburði að hún ætti við ákærða.
Þótt ráða megi af framburði F fyrir dómi að hana hafi grunað að fósturfaðir telpunnar væri sá sem misnotaði hana kynferðislega, hefur telpan sjálf aldrei borið um það og ætíð talað um fósturföðurinn sem góðan mann eins og fram kemur í vætti vitnanna Q, S og P, sem og vitnisburði móður stúlkunnar. Vitnið Q bar jafnframt um það að stúlkan hefði sagt vitninu að hún væri mjög reið ákærða fyrir það sem hann hefði gert henni.
Framburður stúlkunnar fyrir dómi var að mati dómsins trúverðugur. Hún lýsti því að ákærði hefði búið í rauðu húsi í vesturbænum hjá móður sinni, þegar þetta gerðist og kemur það heim og saman við það að ákærði bjó á þessum tíma í rauðu húsi á A í Reykjavík. Þá er jafnframt sannað í málinu að stúlkan fór í umgengni til ákærða á þessu aldursskeiði, þótt umgengni væri óregluleg. Þegar framangreint er virt er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærulið þessum greinir. Hann er því sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður 3.
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið.
Framburður stúlkunnar fyrir dómi um hluta þeirra atvika sem ákært er fyrir í þessum ákærulið er nokkuð óljós. Þannig kvað hún ákærða hafa farið höndum um brjóst, rass og kynfæri sín er hún var á aldrinum 8-9 ára, en kvað nei við, er hún var spurð um hvort ákærði hefði ,,farið inn í kynfæri hennar“ er hún var á þeim aldri og sagði ákærða ekki hafa gert meira við hana fyrr en hún varð eldri. Síðar í skýrslutökunni, er stúlkan var spurð að því hvort ákærði hefði átt eitthvað frekar við hana á þeim aldri, kvað stúlkan ákærða hafa farið með getnaðarliminn ,,smá“ inn í hana er hún var 8 eða 9 ára gömul og sleikt hana að neðan. Þegar borinn er saman framburður stúlkunnar um þessi atriði verður að líta til þess að spurning rannsakandans var nokkuð ónákvæm, er hann spurði hvort ákærði hefði þá farið ,,inn í kynfæri hennar“ og kann að hafa valdið misskilningi hjá stúlkunni, þar sem hún hafði rétt áður lýst því er ákærði fór höndum um rass hennar, brjóst og kynfæri. Síðar í skýrslutökunni lýsir hún því að ákærði hafi farið ,,smá“ með getnaðarlim sinn inn í hana er ákærði bjó í ,,rauða húsinu “. Þótt ósamræmis gæti að þessu leyti í framburði stúlkunnar tímasetti hún það atvik er ákærði fór ,,smá“ með getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar við þann tíma er ákærði bjó á A, en þá var stúlkan innan við 10 ára gömul. Hún kvað ákærða þá einnig hafa sleikt kynfæri sín á þeim aldri. Samkvæmt framburði F, varð hún vör við óeðlilega hegðun stúlkunnar er stúlkan dvaldist hjá henni, á aldrinum 7-10 ára, sem hún tengdi við grun um kynferðislega misnotkun gagnvart telpunni. Samkvæmt framburði Jóns Friðriks Sigurðssonar fyrir dómi kemur og fram að stúlkan tjáði honum að ákærði hefði byrjað að misnota hana þegar hún var 8 ára gömul. Kemur jafnframt fram í gögnum frá skóla telpunnar á þessum aldri að hún hafi þá verið farin að sýna af sér óviðurkvæmilega hegðun eins og þá að sækja í að girða niður um börn. Allt framangreint rennir að mati dómsins stoðum undir að stúlkan hafi á aldrinum 8 til 9 ára orðið fyrir grófri kynferðislegri misnotkun. Ekkert hefur komið fram í málinu er bendir til þess að stúlkan hafi sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu stjúpföður sín, eða nokkurs annars en ákærða og er framburður hennar um þá háttsemi sem lýst er í þessum hluta ákæruliðar að mati dómsins trúverðugur og hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi, er Y var 8-9 ára, sleikt kynfæri hennar og sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar.
Telpan bar fyrir dómi að ákærði hefði fyrst haft samfarir við hana eftir að hún varð kynþroska, en það hafi hún orðið 10 eða 11 ára gömul. Hún kvað ákærða þá hafa gert ,,miklu meira“ en að snerta hana, hann hefði neytt hana til að nudda lim hans og hafa samfarir. Þegar þau horfðu á klámmyndir saman, hefði hann neytt hana til að sjúga lim hans tvisvar. Í framburði stúlkunnar kemur hins vegar ekki glögglega fram að ákærði hafi á þessu aldursskeiði sleikt kynfæri hennar eins og greinir í ákæru og og er ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi.
Vitnið I bar fyrir dómi að Y hefði sagt honum að faðir hennar misnotaði hana og kvaðst hann telja að Y hefði verið 12 ára þegar sú misnotkun hafi átt sér stað. Samkvæmt framburði vitnisins S sagði stúlkan henni að ákærði hefði fyrst hafi við hana samfarir er hún var 12 ára gömul. Þá bar vitnið Q fyrir dómi að tvær stúlkur í vinnuhóp hennar hefðu tjáð henni á árinu 2004, að Y hefði sagt þeim að hún hefði tottað pabba sinn. Vitnið kvaðst hafa rætt við Y og hún sagt vitninu að pabbi hennar væri að misnota hana kynferðislega. Vitnið kvað Y hafa sagt að hann hefði snert hana með höndum og munni á kynfærum og hún snert hann sömuleiðis og hafi þetta athæfi viðgengist í þó nokkurn tíma. Vitnið kvað Y hafa verið að tala um kynföður sinn, er hún sagði vitninu frá misnotkuninni, ekki stjúpföður sinn.
Stúlkan fór í læknisskoðun á neyðarmóttöku 29. október 2004 og í niðurstöðum læknisins kemur eftirfarandi fram: ,,Aðspurð hvort hún hafi haft samfarir við aðra karlmenn þá fæ ég undirrituð svör sem tjáð eru á trúverðugan hátt. Hún segir: ,,mamma segir að ég megi það ekki“, en að hún hefur kysst og kelað við stráka. Skoðun á kynfærum sýnir að hún er með þykka slímhúðarflipa sem liggja út frá introitus á stað þar sem meyjarhaftið hefur verið á. Það er enginn vafi á að það hefur verið farið inn í þessi leggöng.“
Jafnframt segir í skýrslunni að skoðun með spekulum hafi verið auðveld miðað við aldur stúlkunnar og meyjarhaftsleifar greinilegar.
Samkvæmt niðurstöðum Rettsmedisinsk institutt i Oslo fundust á ætlaðri ytri hlið smokks, sem fannst undir rúmi í herbergi ákærða, þekjufrumur og var DNA snið þeirra hið sama og DNA snið Y. Á ætlaðri innri hlið sama smokks fundust sáðfrumur og var DNA snið þeirra hið sama og DNA snið ákærða.
Með framhaldsrannsókn á uppruna þekjufruma á ytra byrði smokksins var ekki unnt að staðreyna hvaðan þekjufrumur á ytra byrði smokksins voru upprunnar, en ákærði hefur borið við þeirri vörn að Y Sara hafi snert smokkinn með fingrum og þaðan séu þekjufrumur hennar komnar á ytra byrði smokksins. Vitnið Björgvin Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður kvað meira magn þekjufruma losna úr rakri slímhúð, en af þurri húð. Þá kvað vitnið að ef ákærði hefði notaði smokkinn við sjálfsfróun, eins og ákærði hefur borið um, hefðu átt að finnast á ytra byrði smokksins þekjufrumur ákærða, en þar hefðu eingöngu fundist þekjufrumur úr Y.
Vitnið Ómar Þ. Pálmason rannsóknarlögreglumaður taldi þá skýringu ákærða hlægilega að þekjufrumur Y á ytra byrði smokksins stöfuðu af því að hún hefði tekið smokkinn upp með fingrum og kastað honum undir rúm. Kvað vitnið smokkinn hafa límst við vegginn og taumar lekið frá honum niður vegginn, sem væri órækt merki þess að vökvi á ytra byrði hans hefði verið í nokkru magni og alveg ferskur.
Smokkur þessi var gulur að lit og smokkar með ávaxtabragði fundust í herbergi ákærða við húsleit á heimili hans. Y bar fyrir dómi að ákærði hefði notað smokka er hann hefði haft við hana samfarir og hefðu þeir verið með ávaxtabragði, t.d. bananabragði.
Þá bar hún og fyrir dómi að enginn annar en pabbi hennar hefði átt við hana kynferðislega og samrýmist sá framburður hennar framburði fyrrum kærasta hennar, P. Vitnið Jón Friðrik kvað stúlkuna hafa tjáð sér að ákærði hefði misnotað hana frá því að hún var 8 ára og alveg til ársins 2003.
Ákærði hefur haldið því fram að ásakanir Y um kynferðislegt ofbeldi af hans hálfu séu að áeggjan fyrrum fósturföður hennar, E, enda hafi E unnið að því að fá að ættleiða telpuna og hafi E hvatt telpuna til að koma smokkunum fyrir. Ákærði hefur ekki forræði telpunnar og hefur hann virst sýna lítinn vilja til að umgangast hana. Þá verður glögglega ráðið af tölvupóstsamskiptum E og ákærða, framburði E fyrir dómi og gögnum máls þessa að E hefur haft miklar áhyggjur af velferð stúlkunnar og leitað til ákærða vegna þess, og bar fyrir dómi að hann hefði tilkynnt um slæman aðbúnað stúlkunnar til barnaverndaryfirvalda, en hvergi hefði verið á hann hlustað. Vandséð er hver ávinningur E gæti verið að því að fá Y til að bera á ákærða rangar sakargiftir og er þessi framburður ákærða að mati dómsins fjarstæðukenndur.
Þegar framangreindar rannsóknarniðurstöður frá Rettsmedisinsk institutt og neyðarmóttöku Landspítala eru virtar og horft til framburðar vitnanna, Q, S og I, sem rennir traustum stoðum undir framburð Y sjálfrar, sem og vitnisburðar Ómars Þ. Pálmasonar rannsóknarlögreglumanns og Björgvins Sigurðssonar sérfræðings, er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi að láta Y fróa sér, tvívegis látið hana sjúga getnaðarlim sinn, og haft samræði við hana.
Y gat ekki greint nákvæmlega frá aldri sínum er ákærði hafði fyrst við hana samfarir, en kvað það fyrst hafa gerst eftir að hún varð kynþroska, 10-11 ára gömul. Stúlkan lýsti því hins vegar á trúverðugan hátt, með töluverðri nákvæmni, hvernig fyrsta skiptið hefði verið og kvað mikið hafa blætt úr leggöngum sínum. Af framburði vitnisins S ráða að ákærði hefði fyrst haft við hana samfarir er hún var 12 ára og á sá framburður sér einnig nokkra stoð í framburði þeirra Q og I. Þegar framangreint er virt er að mati dómsins varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í þessum hluta ákæruliðar greinir, þ.e. að láta stúlkuna fróa honum, tvívegis láta hana sjúga getnaðarlim sinn og hafa við hana samræði fyrr en stúlkan var orðin 12 ára.
Við mat á því hvort telja beri sannað að ákærði hafi margsinnis haft samræði við stúlkuna verður að horfa til þess að stúlkan bar fyrir dómi að hún hefði farið í umgengni til ákærða um hverja helgi. Er hún var spurð um það hversu oft í mánuði ákærði hefði átt við hana kynferðislega, kvað hún að það hefði verið mjög oft, ,,svona eitthvað 10 sinnum eða eitthvað“. Samkvæmt framburði móður stúlkunnar, sem samrýmist framburði ákærða sjálfs, var umgengni þeirra feðgina óregluleg og kvað ákærði að umgengni hans við telpuna hefði á tíðum verið mjög lítil þann tíma sem ákæra tekur til. Móðir stúlkunnar bar fyrir dómi að hún héldi að ákærði hefði hitt stúlkuna í umgengni um 15 sinnum á því tímabili er ákæra tekur til. Einnig báru systur ákærða, þær V og J, og móðir ákærða, U, að umgengni við stúlkuna hafi verið óregluleg, þótt jafnframt megi af þeirra framburði ráða að stúlkan hafi oft komið á heimili ákærða á þessu árabili. Í framburði C, móður stúlkunnar kemur og fram að stúlkan hafi tjáð henni að ákærði hefði oft haft samfarir við hana og ekki sjaldnar en 10 sinnum.
Samkvæmt framburði vitnisins U, móður ákærða kom Y síðast í umgengni til ákærða sumarið 2004 og samrýmist sú tímasetning, þeim tíma er Y bar að ákærði hefði síðast haft við hana samfarir.
Þegar allt framangreint er virt er að mati dómsins varhugavert að telja sannað að ákærði hafi ,,margsinnis“ haft samræði við stúlkuna, þótt dómurinn telji, með hliðsjón af trúverðugum framburði stúlkunnar sem á sér stoð í framburði vitnanna, Q, S og I, að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi, þegar stúlkan var á aldrinum12-14 ára haft við hana samræði í nokkur skipti.
Samkvæmt ákærulið þessum er ákærði því sakfelldur fyrir að hafa sleikt kynfæri Y er hún var á aldrinum 8-9 ára og sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar, en síðan er hún var á aldrinum 12-14 ára í nokkur skipti látið hana fróa sér, tvívegis látið hana sjúga getnaðarlim sinn og að hafa á sama árabili haft samræði við hana í nokkur skipti.
Sú háttsemi ákærða sem hann hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt ofangreindu er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Refsiákvörðun.
Ákærði hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé.
Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir eru mjög alvarleg og stóðu yfir í langan tíma. Þau beindust gegn dóttur ákærða, sem hefur allt frá fæðingu búið við afar erfiðar uppeldisaðstæður. Af gögnum málsins verður ráðið að stúlkan hefur ekki notið umönnunar og uppeldis ættmenna sinna, nema í afar takmörkuðum mæli, og það var ákærða fullkunnugt um. Í stað þess að vernda barn sitt og hjálpa því við þessar hörmulegu aðstæður, beitti hann barnið grófu kynferðislegu ofbeldi og brást algerlega trausti þess og foreldraskyldum sínum gagnvart því. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimm ár.
Skaðabótakrafa
Af hálfu C, vegna ófjárráða dóttur hennar, Y, hefur verið lögð fram miskabótakrafa að fjárhæð 3.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 16. júlí 2004, en frá þeim degi megi með vissu ætla að meintum brotum hafi verið lokið, til þess dags er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Krafan er þannig rökstudd að ákærði hafi með athöfnum sínum misnotað gróflega vald sitt yfir Y, en hann sé faðir hennar og hafi þannig brugðist foreldra- og trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni. Megi honum vera ljóst hve alvarlegar afleiðingar atferli hans hafi haft fyrir líf og sálarheill hennar, sérstaklega að virtum aðstæðum hennar frá unga aldri. Y hafi alist upp við það að hafa verið hafnað af fósturforeldrum sínum sem höfðu annast hana allt frá fæðingu og fram til fimm ára aldurs. Þá hafi hún alist upp við óreglu á heimili sínu. Í stað þess að veita henni allan þann stuðning sem börn almennt þurfi á að halda við aðstæður sem þessar, þá hafi ákærði brotið gegn henni með því að beita hana kynferðislegu ofbeldi.
Krafa um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða styðst við 170. gr. laga um meðferð opinberra mála svo og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í greinargerð dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings, kemur fram að hann telur hvorki unnt að meta afleiðingar ætlaðrar misnotkunar föður hennar né varanleika áhrifa þeirra. Það sé hins vegar ljóst að alvarleg kynferðisleg misnotkun sem auk þess vari í langan tíma, geti haft mjög alvarleg áhrif á fólk, bæði varanlega og til skamms tíma.
Í gögnum málsins kemur glögglega fram að Y hefur allt frá fæðingu búið við afar erfiðar uppeldisaðstæður, sem án efa hafa sett mark sitt á sálarlíf hennar. Þótt erfitt sé í ljósi framangreinds, að meta umfang andlegs tjóns stúlkunnar, er hið grófa kynferðislega ofbeldi sem ákærði beitti stúlkuna, allt frá unga aldri, til þess fallið að skaða sjálfsmynd stúlkunnar og valda henni gríðarlegum andlegum erfiðleikum síðar meir. Þykja miskabætur til handa stúlkunni vegna hinnar refsiverðu meingerðar ákærða ákveðnar 2.000.000 króna sem bera vexti eins og í dómsorði greinir.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað málsins, 1.147.233 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 90.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, sem dómformaður, Ásgeir Magnússon og Kristjana Jónsdóttir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir saksóknari.
Dómsorð
Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm ár.
Ákærði greiði Y 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 16. júlí 2004 til 18. febrúar 2005, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 1.147.233 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.