Hæstiréttur íslands

Mál nr. 150/2005


Lykilorð

  • Vátryggingamiðlun
  • Umboðssvik
  • Skilorð
  • Dráttur á máli


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. apríl 2006.

Nr. 150/2005.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

Helgu Markúsdóttur

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Vátryggingamiðlun. Umboðssvik. Skilorð. Dráttur á máli.

H var sakfelld fyrir hafa brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 62. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa sem framkvæmdastjóri H ehf. staðið fyrir því að hafin var miðlun vátrygginga fyrir hönd félagsins í 34 tilvikum árið 1999 án starfsleyfis. Hún var ennfremur sakfelld fyrir umboðssvik, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa á frá október 1999 til janúar 2000 staðið fyrir því að tveimur erlendum tryggingafélögum voru sendar 23 umsóknir um tryggingar í nafni H ehf., sem þáði umboðslaun fyrir, þó að tryggingatakarnir hefðu veitt starfsmönnum V ehf. umboð til þeirrar ráðstöfunar. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafði lögum verið breytt þannig að viðurlög við þeim brotum, sem H hafði gerst sek um samkvæmt I. lið ákæru, voru orðin vægari en áður var. Þá var óumdeilt að hún hafði bætt allt það tjón, sem leiddi af brotum hennar, auk þess sem verulegur dráttur varð á rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn. Með hliðsjón af þessu þótti hæfileg refsing vera skilorðsbundið fangelsi í 3 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst sýknu.

Í I. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa með nánar tiltekinni háttsemi brotið gegn ákvæðum 3. mgr. 81. gr., sbr. 99. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi með áorðnum breytingum. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms voru ákvæði þessi felld úr gildi, en í stað þeirra er nú komin 2. mgr. 6. gr. og 62. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga. Samkvæmt síðastnefndri lagagrein varða brot, sem ákærðu eru gefin að sök í I. kafla ákæru, sektum eða fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að fella dóm á málið að þessu leyti eftir ákvæðum laga nr. 32/2005. Með þessari athugasemd verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu staðfest með vísan til forsendna hans.

Við ákvörðun refsingar ákærðu verður að taka tillit til þess að viðurlög við slíkum brotum, sem hún gerðist sek um samkvæmt I. kafla ákæru, eru að lögum nú orðin vægari en áður var. Óumdeilt er að ákærða hefur bætt allt tjón, sem leiddi af brotum hennar. Að teknu tilliti til þessa, svo og þess verulega dráttar, sem varð á rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn, er refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi 3 mánuði. Skal sú refsing bundin skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærða greiði sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun á báðum dómstigum, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Helga Markúsdóttir, sæti fangelsi 3 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 813.034 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Birgis Más Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, 498.000 krónur, og fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns,  249.000 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2005.

          Mál þetta var höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans, dagsettri 14. október 2004 á hendur Helgu Markúsdóttur, [kt. og heimilsfang], Álftanesi,

             „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um vátryggingastarfsemi, framin í Reykjavík:

I.

Fyrir brot gegn lögum um vátryggingastarfsemi, með því að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins HMS Tryggingamiðlunar, kt. [...], staðið fyrir því að hafin var miðlun vátrygginga fyrir hönd félagsins í eftirtöldum 34 tilvikum í október 1999, án starfsleyfis:

            

  1. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758360, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 20.10. 1999.
  2. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758204, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 21.10. 1999.
  3. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3759780, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 25.10. 1999.
  4. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758373, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 22.10.1999.
  5. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758453, beiðni um tryggingu dags. 25.10 1999 og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 22.10.1999.
  6. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758211, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 23.10.1999.
  7. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11517589, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 25.10.1999.
  8. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11517512, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 25.10.1999.
  9. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11538995, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 21.10.1999.
  10. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758212, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 16.10.1999.
  11. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3761938, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 23.10.1999.
  12. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758217, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 21.10.1999.
  13. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3766504, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 23.10.1999.
  14. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3761933, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 23.10.1999.
  15. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758441, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 19.10.1999.
  16. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758326, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 25.10.1999.
  17. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758203, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 21.10.1999.
  18. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758450, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 21.10.1999.
  19. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758458, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 25.10.1999.
  20. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3759778, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 23.10.1999.
  21. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758332, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 18.10.1999.
  22. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758631, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 18.10.1999.
  23. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11522878, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 24.10.1999.
  24. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11513822, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 25.10.1999.
  25. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11515770, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 12.10.1999.
  26. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11515834, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 12.10.1999.
  27. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11586761, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 19.10.1999.
  28. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11586716, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 19.10.1999.
  29. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11522753, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 19.10.1999.
  30. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11515200, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 19.10.1999.
  31. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11513708, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 25.10.1999.
  32. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11515372, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 21.10.1999.
  33. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11513867, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 22.10.1999.
  34. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758446, beiðni um tryggingu og umboð til ákærðu sem vátryggingamiðlara hjá HMS Tryggingamiðlun dags. 19.10.1999.

Telst þetta varða við 3. mgr. 81. gr., sbr. 99. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60, 1994.

II.

Fyrir umboðssvik, með því að hafa á tímabilinu október 1999 til janúar 2000, misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Vátryggingamiðlunarinnar, kt. [...], með því að senda tryggingafélögunum Sun Life og Friends Provident eftirtalda tryggingasamninga sem gerðir höfðu verið við umrædd félög samkvæmt umboðum tryggingataka til starfsmanna Vátryggingamiðlunarinnar ehf., í nafni einkahlutafélagsins HMS Tryggingamiðlunar, kt. 130999-3119, sem ákærða var einnig framkvæmdastjóri fyrir, og voru umboðslaun vegna samninganna, alls 12.742,62 pund, því greidd HMS Tryggingamiðlun ehf., en ákærða hætti störfum hjá Vátryggingamiðluninni ehf. í lok árs 1999:

 

  1. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758209, dags. 15.10.1999, fjárhæð þóknunar 946,05 pund, greidd 9. nóvember 1999.
  2. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758208, dags. 12.10.1999, fjárhæð þóknunar 556,50 pund, greidd 5. nóvember 1999.
  3. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758356, dags. 20.10.1999, fjárhæð þóknunar 946,05 pund, greidd 5. nóvember 1999.
  4. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11517386, dags. 7.10.1999, fjárhæð þóknunar 255,43 pund, greidd 26. nóvember 1999.
  5. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11530366, dags. 5.10.1999, fjárhæð þóknunar 255,43 pund, greidd 14. desember 1999.
  6. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11514191, dags. 15.10.1999, fjárhæð þóknunar 348,84 pund, greidd 26. nóvember 1999.
  7. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758207, dags. 14.10.1999, fjárhæð þóknunar 364,22 pund, greidd 5. nóvember 1999.
  8. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3766501, dags. 14.10.1999, fjárhæð þóknunar 333,90 pund, greidd 5. janúar 2000.
  9. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3766512, 14.10.1999, fjárhæð þóknunar 333,90 pund, greidd 5. janúar 2000.
  10. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11513921, dags. 17.10.1999, fjárhæð þóknunar 510,87 pund, greidd 26. nóvember 1999.
  11. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758350, dags. 17.10.1999, fjárhæð þóknunar 450,58 pund, greidd 18. nóvember 1999.
  12. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3768609, dags. 24.09.1999, fjárhæð þóknunar 556,50 pund, greidd 1. febrúar 2000.
  13. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758213, dags. 6.10.1999, fjárhæð þóknunar 890,40 pund, greidd 5. nóvember 1999.
  14. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758218, dags. 27.10.1999, fjárhæð þóknunar 556,50 pund, greidd 5. nóvember 1999.
  15. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11575820, dags. 2.09.1999, fjárhæð þóknunar 510,87 pund, greidd 11. janúar 2000.
  16. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11516553, dags. 30.09.1999, fjárhæð þóknunar 967,60 pund, greidd 26. nóvember 1999.
  17. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11513778, dags. 21.10.1999, fjárhæð þóknunar 510,87 pund, greidd 26. nóvember 1999.
  18. Vátryggjandi Friends Provident, samningur nr. 11539314, dags. 1.11.1999, fjárhæð þóknunar 178,81 pund, greidd 26. janúar 2000.
  19. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758332, dags. 18.10.1999, fjárhæð þóknunar 333,91 pund, greidd 2. desember 1999.
  20. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758631, dags. 18.10.1999, fjárhæð þóknunar 333,91 pund, greidd 17. desember 1999.
  21. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3759638, dags. 28.05.1999, fjárhæð þóknunar 556,50 pund, greidd 17. desember 1999.
  22. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758444, dags. 19.10.1999, fjárhæð þóknunar 556,50 pund, greidd 2. desember 1999.
  23. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758019, dags. 13.10.1999, fjárhæð þóknunar 556,50 pund, greidd 3. janúar 2000.
  24. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758343, dags. 05.10.1999, fjárhæð þóknunar 556,50 pund, greidd 2. desember 1999.
  25. Vátryggjandi Sun Life, samningur nr. 3758214, dags. 12.10.1999, fjárhæð þóknunar 375,48 pund, greidd 17. nóvember 1999.

Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar.”

 

Ákæruvaldið gaf út framhaldsákæru 17. febrúar 2005 „til að leiðrétta villu í lið ákæru nr. II.

Á ákærunni verði svofelldar breytingar:

1)      Í stað orðanna “eftirtalda tryggingasamninga sem gerðir höfðu verið við umrædd félög” í umræddum lið komi: eftirtaldar umsóknir um tryggingar sem síðar voru samþykktar af félögunum, sem gerðar voru.

2)      Í töluliðum 1 – 25 í umræddum lið komi orðið “umsókn” hvarvetna á undan skammstöfuninni “dags.”

 

          Við aðalmeðferð málsins 17. febrúar sl. féll ákæruvaldið frá kröfum sínum samkvæmt töluliðum 19 og 20 í II. kafla ákærunnar. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 17. febrúar 2005.

          Ákærða hefur neitað sök. Hún krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að málinu verði vísað frá að hluta eða í heild. Að öðrum kosti krefst ákærða þess að henni verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærðu málsvarnarlauna samkvæmt framlagðri tímaskýrslu.

          Upphaf máls þessa má rekja til þess að ágreiningur kom upp á árinu 1999 milli ákærðu og A um rekstur Vátryggingamiðlunarinnar ehf., hér eftir nefnt VM, en bæði voru eigendur hennar á þessum tíma og var A framkvæmdastjóri félagsins en ákærða starfandi framkvæmdastjóri þar sem A dvaldi erlendis. Þann 23. desember 1998 undirrituðu ákærða og A samkomulag um það hvernig haga ætti stjórnunarlegum samskiptum og upplýsingaflæði á milli eigenda VM á meðan A dveldi í útlöndum. Þar kemur fram að ákærða átti að vera framkvæmdastjóri og bera ábyrgð á daglegri stjórn fyrirtækisins, þar með talið að koma öllum viðskiptaupplýsingum á framfæri til allra stjórnarmanna fyrirtækisins. Þá átti mánaðarlega að fara fram rekstraruppgjör hjá fyrirtækinu og átti ákærða að gefa A vikulegt yfirlit yfir helstu verkefni og málefni rekstrarins. 

          Ákærða stofnaði nýtt fyrirtæki sem fékk nafnið HMS vátryggingamiðlun ehf., hér eftir nefnt HMS, á meðan hún sá um rekstur VM en samþykktir hins nýja félags eru dagsettar 2. september 1999 og var sótt um starfsleyfi fyrir félagið 23. september sama ár en starfsleyfið er dagsett 26. október sama ár. Á þeim tíma voru starfsstöðvar beggja félaga á sama stað á Suðurlandsbraut 30. Eigendur HMS voru ákærða, B, faðir ákærðu, C og D.

          Í bréfi til A frá 12. október 1999 óskaði ákærða eftir því að samkomulag næðist sem fyrst um uppgjör við slit á samstarfi þeirra í VM. Segir í niðurlagi bréfsins að hafi samkomulag ekki gengið eftir fyrir 20. október muni ákærða gera ráðstafanir til að vernda hagsmuni sína en að því sé þegar hafinn undirbúningur ef á þurfi að halda. Ákærða og A gerðu með sér samkomulag með samningi dagsettum 30. desember 1999. Í samkomulaginu fólst að A sæi framvegis um rekstur VM sem flytti á annan stað en ákærða sæi um rekstur HMS auk þess sem hún hætti störfum sem framkvæmdastjóri VM og endurskoðendur og lögfræðingar félaganna áttu að vinna að úrlausn ágreinings þeirra. Fjármálaeftirlitinu var gerð grein fyrir samkomulaginu og framvindu málsins.

          A hafði þann 28. júní 2000 samband við Fjármálaeftirlitið vegna ágreinings milli hans og ákærðu og óskaði eftir því að rannsakað yrði hvernig ákærða og fyrirtæki hennar hefðu staðið að yfirfærslu vátryggingasamninga sem áttu að vera hjá VM. Fjármálaeftirlitið tók málið til athugunar.

          Í rannsóknargögnum málsins liggur frammi bréf F, tryggingaráðgjafa, til Fjármálaeftirlitsins, dags. 23. ágúst 2000. Þar kemur fram að hann hafi unnið fyrir VM til ágústloka 1999 en þá hefði hann farið til Bandaríkjanna til langdvalar. Hefði hann selt samninga fyrir VM sem áttu að taka gildi nokkrum mánuðum síðar. Þegar hann hefði haft samband við ákærðu seint á árinu 1999 vegna greiðslu fyrir samningana, hefði hún sagt honum að samningarnir yrðu greiddir af HMS og að hann yrði að gefa út kvittun fyrir þeim hjá HMS. Kvaðst F hafa rætt þetta við A sem hefði talið um umboðssvik að ræða og hvatt hann til að rita Fjármálaeftirlitinu bréf.

          Einnig liggur frammi bréf E til Fjármálaeftirlitsins dags. 8. september 2000. Lýsir E því að hann hafi unnið hjá VM frá 1998 við sölu lífeyrissparnaðar og skyldra trygginga. Á haustmánuðum 1999 hefði önnur miðlun verið sett á stofn á sama stað og VM og hin nýja miðlun, HMS, yfirtekið VM. Hefði bréfritari ekki viljað vinna þarna eftir yfirtökuna. Samninga sem hann hefði skilað inn á umboði VM hefði hann átt að fá greidda síðar. Síðasti samningurinn, sem átti að greiðast til hans í nafni VM, hefði verið greiddur út úr HMS og ákærða hefði sagt honum að ekki kæmi til greina að greiða samninginn út hjá VM þar sem starfsemi þess félags lægi niðri. Þegar bréfritari hefði spurt nánar út í það hefði ákærða svarað því til að það skipti engu máli hvernig greitt væri.             

          Í kjölfar eftirlitsheimsóknar Fjármálaeftirlitsins skrifaði ákærða eftirlitinu bréf 29. september 2000 þar sem hún segir m.a. að frá því HMS var stofnað, 2. september 1999, hafi ráðgjafarnir sem fylgdu henni einungis selt fyrir HMS en ekki fyrir VM enda hefði hún sjálf haft leyfi til miðlunar. Á þessum tímapunkti hafi verið boðnir samningar fyrir HMS en ekki VM. Síðan segir ákærða í bréfinu að þótt HMS hafi strangt til tekið ekki haft heimild til að bjóða samninga undir eigin nafni þessa daga áður en leyfið var gefið út, þýði það hins vegar ekki að VM eigi tilkall til samninganna. Lýsti ákærða síðan þeim fyrirætlunum sínum að óska eftir því við samningshafa að gerð yrðu ný umboð. Þá hefðu samningar sem sannanlega tilheyrðu VM og voru sendir út á nafni HMS fyrir mistök verið sendir til VM og greiddur mismunur á umboðslaunum og greiddum sölulaunum.

          Þann 13. október 2000 gerðu þau A og ákærða hins vegar samning sín á milli um að ákærða seldi hlut sinn í VM og kom þar fram að A félli frá öllum kröfum og málssóknum á hendur ákærðu og öðrum tilgreindum aðilum. Í samningnum er þess einnig getið að A hafi dregið til baka ásakanir í garð ákærðu og HMS hjá Fjármálaeftirlitinu og að með samkomulaginu væri bundinn endir á öll deilumál milli aðilanna.

          Að frumkvæði Fjármálaeftirlitsins var haldinn fundur í HMS 16. október 2000 þar sem lögð voru fram bréf þess til ákærðu og HMS en í því voru athugasemdir og athugunarefni þess raktar og aðilum veitt aukið tækifæri til að tjá sig. Var þá lagt fram afrit af samkomulagi ákærðu og A frá 13. október 2000.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                          

          Ákærða sendi Fjármálaeftirlitinu bréf dags. 24. október 2000. Þar segir að umboð á vegum ákærðu og HMS hafi verið dagsett nokkrum dögum fyrir útgáfu starfsleyfis en ákærða hafi verið í góðri trú um að henni væri heimilt að miðla vátryggingum þar sem hún persónulega sem löggiltur vátryggingamiðlari taldi sig hafa gilda starfsábyrgðartryggingu á þessum tímapunkti, bæði í gegnum VM og HMS þar sem sú trygging hefði tekið gildi í september 1999. Aldrei hefði verið um ásetning að ræða að brjóta gegn ákvæðum laga eða framkvæmt gegn betri vitund. Samningarnir hefðu ekki verið sendir út til hinna erlendu aðila fyrr en eftir leyfisveitinguna. Þá kom fram í bréfinu að eftir athugasemdir Fjármálaeftirlitsins hefði verið ákveðið að óska eftir nýju umboði frá viðkomandi vátryggingatökum. Jafnframt er því lýst í bréfinu að fyrir mistök hefðu fimm samningar legið hjá HMS sem tilheyrðu VM. Fleiri samningar hefðu verið á umboðseyðublaði Vátryggingamiðlunarinnar ehf. en ákærða hefði talið þá tilheyra HMS þar sem þeir hefðu verði gerðir af sölumönnum HMS.

          Fjármálaeftirlitið felldi úr gildi starfsleyfi ákærðu sem vátryggingamiðlara 18. desember 2000 og var afturköllun starfsleyfis staðfest með bréfi viðskiptaráðuneytisins dagsettu 20. desember 2000. Starfsleyfi ákærðu til vátryggingamiðlunar var dagsett 25. júní 1998.  

          Með bréfi dagsettu 28. desember 2000 tilkynnti Fjármálaeftirlitið ríkislögreglustjóranum ætluð refsiverð brot ákærðu.

          Af hálfu ákærðu hefur verið krafist frávísunar málsins frá dómi að hluta eða í heild vegna óskýrleika. Ákæruvaldið hefur leiðrétt ákæruna í tvígang, fyrst í framhaldsákæru og síðar við aðalmeðferð málsins, en allt að einu verður ekki talið að málið sé svo óskýrt að ekki verði lagður dómur á sakarefnið. Er frávísunarkröfu ákærðu því hafnað.

          Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dóminum.

         

I. kafli.

          Ákærða kvaðst saklaus af sakargiftum í þessum kafla ákærunnar enda hefði hún ekki staðið fyrir því að hafin var miðlun vátrygginga fyrir hönd HMS í tilgreindum 34 tilvikum án starfsleyfis. Þetta hefði gerst fyrir mistök. Kvaðst ákærða ekki hafa vitað á þessum tíma að notuð væru umboð HMS en það hefði komið í ljós síðar.

          Ákærða kvaðst hafa stofnað HMS vátryggingamiðlun ehf. þegar komin var upp mikil óánægja í samstarf þeirra A í VM þar sem ákærða hafði starfað sem framkvæmdastjóri og verið eigandi að hálfu á móti A. A hefði í lok ársins 1998 beðið ákærðu að taka við rekstri fyrirtækisins á meðan hann yrði í burtu á biblíuskóla. Kvaðst ákærða hafa verið framkvæmdastjóri VM á meðan verið var að ganga frá málum á milli þeirra A, í um það bil tvo mánuði. Þá hefði hún verið framkvæmdastjóri HMS og séð um fjármál og launagreiðslur. Ákærða kvaðst hafa þurft að vinna áfram fyrir VM á þessu tímabili því fyrirtækið hefði verið starfandi á hennar starfsleyfi og þessi tilhögun því verið til hagsbóta fyrir VM. Ákærða kvaðst hafa reynt að gæta hagsmuna beggja fyrirtækja á þessu tímabili og leitast við að afla báðum fyrirtækjum nýrra viðskiptavina og hefði það tekist að einhverju leyti. Benti ákærða á að Fjármálaeftirlitið hefði gefið henni leyfi til að vinna hjá báðum fyrirtækjunum á þessu tímabili. Aðspurð um ummæli sín í bréfi til A 12. október 1999 um að hafinn væri undirbúningur að viðeigandi ráðstöfunum til að vernda hagsmuni hennar, kvaðst ákærða hafa átt við að undirbúningur að stofnun HMS væri hafinn en leyfi ekki fengið þegar bréfið var ritað. 

          Ákærða kvaðst ekki kunna skýringu á því að umboð á nafni HMS komust í umferð áður en HMS fékk starfsleyfið en taldi að starfsmaður skrifstofunnar hefði sett þau fram of snemma. Ákærða kannaðist við að hafa búið umboðin til í tölvu sinni, þ.e. umboðsformið, en hún hefði ekki sett þau í umferð heldur hefði H séð um að hafa þessi gögn tiltæk fyrir ráðgjafana. Ákærði kvaðst hafa haldið fund eftir að starfsleyfi HMS kom í hús og sagði að nú gætu menn byrjað að miðla fyrir HMS. Hefði hún verið búin að leggja áherslu á að rugla ekki málum VM og HMS saman. Ákærða kvaðst hafa hætt störfum sem framkvæmdastjóri VM í lok árs 1999. Ákærða kvaðst ekki hafa vitað af því að umboðin fóru í umferð áður en starfsleyfið fékkst, það hefði verið gegn hennar fyrirmælum. Þegar starfsleyfið hefði verið fengið hefði hún haldið fjöldafund og þá hefðu menn verið búnir að ákveða sig hjá hvoru félaginu þeir vildu vera.

          Aðspurð um ummæli í bréfi til Fjármálaeftirlitsins frá 24. október 2000 þar sem hún segist hafa verið í góðri trú um að henni væri heimilt að miðla vátryggingum þar sem hún persónulega sem löggiltur vátryggingamiðlari taldi sig á þessum tímapunkti hafa gilda starfsábyrgðartryggingu bæði í gegnum VM og HMS þar sem sú trygging hefði tekið gildi í september 1999, kvaðst ákærða hafa verið að miðla vátryggingum fyrir VM og hefði verið með löggilt leyfi sjálf. Ákærða kannaðist ekki við að hafa sagt við G að það væri allt í lagi að byrja að miðla vátryggingum þótt hún væri ekki komin með leyfið. Þá kannaðist hún ekki heldur við að hafa sagt I að byrja að miðla tryggingum áður en leyfið var fengið.

          Vitnið G, systursonur ákærðu, kvaðst hafa verið verktaki sem sölufulltrúi hjá VM og orðið sölufulltrúi hjá HMS við flutning fyrirtækjanna á Suðurlandsbraut. Aðspurður kvaðst hann hafa vitað að það hefði þurft starfsleyfi fyrir HMS. Staðfesti hann framburð sinn hjá lögreglu um að hann hefði haldið að HMS hefði ekki verið búið að fá starfsleyfið þegar umboð í nafni þess voru prentuð út og byrjað að nota þau. Hefði honum þótt þetta skrítið en ákærða sagt að hún væri ekki komið með leyfi en að þetta væri allt í lagi. Ákærða hefði sagt honum að hefja miðlun trygginga fyrir HMS áður en starfsleyfið var fengið. Þá hefði verið rætt um að reyna að ná tryggingastofninum en vitnið kvaðst ekki vita hvernig það fór.           

          Vitnið K kvaðst hafa verið sölumaður trygginga hjá VM og síðar hjá HMS. Vitnið kvaðst ekki vera viss um hvernig staðið var að miðlun trygginga á tímabilinu frá því HMS var stofnað og þar til starfsleyfi HMS fékkst. Einhverjar breytingar hefðu þó orðið. Ákærða eða D hefði tilkynnt sölumönnum hvenær hefði átt að fara að nota umboð frá HMS en ekki mundi vitnið hvenær það hefði verið tilkynnt. Umboð fyrir miðlarana hefðu legið frammi í bakka. Kvaðst vitnið hafa unnið fyrir ákærðu frá því HMS var stofnað og hefðu skilin á milli fyrirtækjanna verið skýr og fyrirmæli hefðu komið frá ákærðu um að miðlarar ættu að halda verkum fyrir hvort fyrirtæki um sig aðgreindum. Vitnið kvað J á skrifstofunni hafa tekið við umboðum og samningum hvort heldur fyrir VM eða HMS þegar þeim var skilað inn. Aðspurður kvaðst vitnið ekki átta sig á því hvort hann var byrjaður að vinna áður en starfsleyfið fékkst.

          Vitnið L kvaðst hafa verið tryggingaráðgjafi hjá VM en flutt sig yfir til HMS þegar sú miðlun var stofnuð og hefðu skilin á milli fyrirtækjanna tveggja verið skýr. Hefði breytingin verið tilkynnt með engum fyrirvara og sölumönnum gefinn kostur á að flytja sig yfir til HMS. Mundi hann ekki nákvæmlega hvenær byrjað var að vinna með umboð frá HMS og mundi heldur ekki hver afhenti honum þau og mundi aðspurður ekki til þess að ákærða hefði sagt honum á einhverjum ákveðnum tímapunkti að byrja að vinna fyrir HMS. Ekki hefði borist í tal hvenær starfsleyfi bærist enda hefðu menn treyst yfirmönnum HMS til að hafa þetta í lagi en sjálfur hefði hann eingöngu haft umboð á nafni HMS í tösku sinni eftir að hann hóf störf fyrir það fyrirtæki.                                                                    

          Vitnið M, mágur ákærðu, kvaðst hafa unnið sem almennur ráðgjafi hjá VM en síðan fylgt ákærðu yfir til HMS. Kvaðst vitnið ekki hafa gert sér grein fyrir því að bíða hefði þurft eftir starfsleyfi HMS áður en sala trygginga var hafin og mundi hann ekki eftir að fundur hefði verið haldinn um það efni. Hann hefði fengið í hendur umboð á HMS og hafið sölu.

          Vitnið kvað aðskilnað milli fyrirtækjanna VM og HMS hafa verið skýran í hans huga en hann minnti að hann hefði ekki fengið bein fyrirmæli frá ákærðu um að hefja tryggingamiðlun. Kvaðst vitnið þó muna atvik illa enda langt um liðið. Mundi vitnið ekki hvernig tilkynnt var um stofnun HMS. Vitnið kvað hafa verið skipt um eyðublöð um leið og tilkynnt var um stofnun HMS.

          Vitnið N starfaði sem söluráðgjafi hjá VM sem fór yfir til HMS þegar það var stofnað vegna þess að hann þekkti ákærðu betur en hinn eiganda VM sem hefði verið mikið fjarverandi. Vitnið kvaðst hafa byrjað að selja tryggingar fyrir HMS síðsumars eða um haustið 1999 en mundi ekki hvort ákærða hefði sagt sér sérstaklega að byrja að miðla tryggingum fyrir HMS. Hefði vitnið vitað að ákærða var með leyfi til að vera vátryggingamiðlari og talið það nægja. Vitnið kvaðst hafa sótt sér umboð í hillur á skrifstofunni. Hann hefði jafnan haft töluvert af umboðum tilbúin í tösku sinni sem hann hefði skilað aftur á skrifstofuna þegar hann hefði fengið undirritanir viðskiptavina á þau. Vitnið kvað aðskilnað milli félaganna VM og HMS hafa verið skýran í sínum huga.

          Vitnið O kvaðst hafa verið sölumaður hjá VM en farið yfir til HMS þegar það var stofnað og kvaðst hafa treyst ákærðu til að vera með öll leyfi til starfseminnar. Mundi vitnið eftir umræðu um að dregist hefði að gefa út starfsleyfi fyrir HMS en kvað aðskilnað milli VM og HMS hafa verið skýran í sínum huga. Umboð hefðu legið frammi á skrifstofunni fyrir ráðgjafana og hefði vitnið skilað þeim þangað aftur eftir frágang þeirra. Vitnið hefði gert upp við ákærðu vegna vinnunnar en honum hefði ekki verið gert að gera HMS reikning vegna samninga fyrir VM. 

          Vitnið P var tryggingasali hjá VM en flutti sig yfir til HMS við stofnun þess. Mundi hann ekki eftir nákvæmri tímasetningu þess að hann hóf sölu fyrir HMS en taldi að beðið hefði verið þar til álitaefni varðandi leyfi voru komin á hreint.

          Vitnið Q var tryggingamiðlari hjá VM en flutti sig yfir til HMS haustið 1999 og kvaðst hann hafa byrjað að selja fyrir HMS í september. Hefði honum ekki verið kunnugt um að starfsleyfi þyrfti til að hefja sölu trygginga en hann teldi sig hafa byrjað að selja fyrir HMS eftir að ákærða hefði sagt honum að gera það án þess að hann væri viss um það. Honum hefðu verið afhent öll gögn á skrifstofunni á Suðurlandsbraut.

          Vitnið I var tryggingaráðgjafi hjá VM en flutti sig yfir til HMS þegar það var stofnað og vísaði vitnið til lögregluskýrslu að öðru leyti. Vitnið kvað aðskilnað milli fyrirtækjanna hafa verið skýran. Hefði verið haldinn fundur í HMS og tilkynnt að hefja ætti miðlun trygginga fyrir HMS en ekki mundi vitnið nákvæmlega hvaða forráðamaður HMS hefði tilkynnt þetta. Taldi vitnið ólíklegt að hann hefði hafið notkun á umboðum stíluðum á HMS fyrir þennan fund.

          Vitnið C starfaði sem sölumaður trygginga hjá VM og síðan hjá HMS auk þess sem hún var meðeigandi og stjórnarmaður í HMS. Mundi vitnið ekki hvað varð til þess að hún fór að selja tryggingar fyrir HMS en mundi ekki eftir því að ákærða hefði sagt henni að byrja að miðla tryggingum fyrir HMS. Þá kvaðst vitnið ekki muna eftir því að hafa séð um að ljósrita umboð fyrir tryggingaráðgjafana heldur hefði hver ljósritað gögn fyrir sig.

          Vitnið S, fyrrverandi eiginmaður ákærðu, var sölumaður hjá VM en flutti sig yfir til HMS. Kvað hann sölumenn hafa fengið umboð í nafni HMS fyrir mistök C á skrifstofunni þegar enn var beðið eftir starfsleyfi fyrirtækisins. Mundi vitnið ekki eftir því að ákærða hefði gefið út fyrirskipun um að hefja sölu trygginga fyrir HMS.

          Vitnið J, systir ákærðu, kvaðst ekki vita hvers vegna farið var að nota umboð í nafni HMS í stað umboða í nafni VM en engin formleg tilkynning hefði komið um það. Væntanlega hefði verið um að ræða mistök af hálfu C, starfsmanns á skrifstofu, en hún hefði séð um að hafa umboð, samninga og önnur gögn aðgengileg fyrir tryggingaráðgjafana.

 

Niðurstaða.

          Ákærða hefur neitað sök. Er á því byggt að miðlun í skilningi laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi hafi ekki farið fram fyrr en eftir að starfsleyfið var fengið. Þá er á því byggt að ákærða hafi ekki brotið af sér persónulega en engin heimild sé til að beita hlutlægri ábyrgð og því sé það ekki á ábyrgð ákærðu þótt talið verði að miðlun hafi farið fram áður en starfsleyfi HMS lá fyrir.

          Samkvæmt vátryggingamiðlaraskrá fékk ákærða starfsleyfi til miðlunar vátrygginga 25. júní 1998. Ljóst er af gögnum málsins og óumdeilt að leyfi hennar var afturkallað 20. desember 2000 og hafði ákærða því gilt starfsleyfi á því tímabili sem hér um ræðir. Hins vegar er ljóst af skráningu í vátryggingamiðlunarskrá að leyfi hennar fellur undir starfsábyrgðartryggingu VM og hafði ákærða því einungis leyfi til að miðla í nafni þess félags. Þau umboð sem getið er í þessum ákærulið eru öll stíluð á HMS sem sannanlega hafði ekki fengið starfsleyfi þegar þeirra var aflað. Í 1. gr. reglugerðar nr. 351/1997 um miðlun vátrygginga, sbr. samhljóða ákvæði í núgildandi reglugerð nr. 853/1999 um sama efni, er að finna skilgreiningu á því hvenær miðlun vátrygginga telst hafin en í 1 tölulið 1. gr. kemur fram að miðlun vátrygginga felist m.a. í því að undirbúa samninga um vátryggingu. Verður því að telja að miðlun vátrygginga í skilningi 3. mgr. 81. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi hafi verið hafin þegar byrjað var að vinna við að afla umboða hjá tryggingatökum. Vitnið G fullyrti fyrir dóminum að ákærða hefði sagt sér að hefja miðlun vátrygginga áður en starfsleyfi fyrir HMS var fengið og vitnið Q taldi sig hafa byrjað að selja tryggingar fyrir HMS eftir að ákærði sagði honum að gera það. Önnur vitni gátu ekki fullyrt hvenær þau hófu miðlun trygginga fyrir fyrirtækið.

          Ljóst er að ákærða var framkvæmdastjóri beggja fyrirtækjanna á umræddum tíma og starfandi á skrifstofu þeirra. Með vísan til framangreindra vitnisburða og lýsinga ákærðu í framangreindum bréfum til Fjármálaeftirlitsins þykir ljóst að ákærða hafi staðið fyrir því að hafin var miðlun vátrygginga fyrir HMS áður en starfsleyfi fyrirtækisins var fengið. Að öllu framanrituðu virtu verður því að telja að ákærða hafi með háttsemi þeirri sem lýst er í þessum ákærulið brotið gegn ákvæðum 3. mgr. 81. gr. framangreindra laga um vátryggingastarfsemi. Verður ákærða því sakfelld eins og krafist er.

 

II. kafli.

          Ákærða kvaðst saklaus af umboðssvikum. Tilgreindir samningar VM hefðu verið sendir út til erlendu tryggingafélaganna í nafni HMS fyrir mistök á skrifstofunni. Um hefði verið að ræða eina sendingu til hvors tryggingafélags en hún hefði ekki farið af stað fyrr en eftir að HMS var komið með starfsleyfið. Ákærða kvað vinnuferlið við sendingu samninganna út vera þannig að tryggingaráðgjafarnir skiluðu samningunum á skrifstofuna og starfsmenn skrifstofunnar skráðu þá og sendu þá út og hefði hún sjálf ekki tekið við þeim. Ef tryggingafélögin úti samþykktu umsóknina og fyrsta iðgjald væri greitt hefði miðlunin fengið greitt fyrir samninginn. Tvisvar í mánuði fékk miðlunin yfirlit yfir samþykkta samninga. J skrifstofustjóri hefði skráð samningana á tölvunni og reiknað út þóknun ráðgjafanna en ákærða hefði greitt þeim samkvæmt því en aldrei sjálf séð umboðin. Kvaðst ákærða hafa gefið starfsfólki sérstök fyrirmæli um að halda málefnum félaganna tveggja aðskildum og ætti að setja í sitt hvorn bakkann þá samninga annars vegar sem ráðgjafarnir voru búnir að gera og hins vegar samninga sem áttu að taka gildi síðar. Þessir tveir bunkar hefðu blandast og verið sendir í einni sendingu út en það hefði einungis gerst fyrir mistök. Kvaðst ákærða ekki hafa vitað af þessu fyrr en eftir á enda ekki hennar hlutverk að sjá um útsendingu samninga.

          Ákærða kvaðst fyrst hafa vitað af því að sendir höfðu verið út samningar á umboðum VM í nafni HMS þegar Fjármálaeftirlitið fann þessa samninga hjá henni tæpu ári síðar. Hún hefði reynt að leiðrétta þetta í samráði við yfirlögfræðing Fjármálaeftirlitsins með því að gefa út ný umboð en HMS hefði þá verið búið að þjónusta þessa viðskiptavini í heilt ár. Þá samninga, sem ekki fékkst undirritun á, hefði hún sent aftur til A og greitt honum mismuninn á því fé sem HMS hafði fengið í umboðslaun fyrir þá og þess sem ráðgjafarnir hefðu fengið í sölulaun og taldi sig því hafa „gert gott úr þessu.” Hins vegar hefði henni ekki þótt eðlilegt að samningarnir færu til VM þar sem hún hafði á þeim tíma þjónustað þá í heilt ár.

          Aðspurð kannaðist ákærða ekki við að hafa átt þau samtöl við þá F og E sem þeir lýstu í bréfum sínum til Fjármálaeftirlitsins á árinu 2000.

          Vitnið G, systursonur ákærðu, kvað hafa verið staðið þannig að tryggingamiðluninni að HMS fengi samningana sem gerðir voru á tímabilinu frá því HMS var stofnað og þangað til starfsleyfið fékkst. Staðfesti vitnið framburð sinn hjá lögreglu um að ákærða hefði skoðað samninga inni á skrifstofu sinni áður en þeir voru sendir út og hefði samningunum verið blandað saman þar. Kvaðst vitnið þó ekki hafa rannsakað þetta sérstaklega og gat ekki sagt nákvæmlega til um í hverju skoðun ákærðu á samningunum fólst.

          Vitnið F kvaðst hafa unnið sem tryggingamiðlari hjá VM en kvaðst muna lítið eftir málinu vegna veikinda sinna síðustu fjögur árin. Kvaðst hann hafa talað við A og þá munað eftir bréfi dagsettu 23. ágúst 2000 sem hann undirritaði og sendi Fjármálaeftirlitinu. Aðspurður kvað vitnið A hafa samið texta bréfsins en vitnið lesið það yfir og samþykkt það. Kvaðst vitnið með bréfinu hafa verið að lýsa því yfir að hann hefði á þessum tíma unnið fyrir VM en ekki HMS og ætti að fá greitt frá VM. Kvaðst vitnið jafnan hafa haft samband við ákærðu þegar hann vann hjá VM. Þótt vitnið hefði aldrei unnið hjá HMS hefði ákærða allt að einu beðið hann að gefa út reikning á HMS vegna verks sem hann var að vinna fyrir VM.        

          Vitnið L gat ekki sagt til um það hvort einhverjir samningar frá VM hefðu hafnað hjá HMS á þessum tíma. Kannaðist hann við að hafa sagt í skýrslu hjá lögreglu að einhverjir samningar í nafni VM hefðu verið sendir til útlanda í nafni HMS. Hann hefði hins vegar talið sig vera að fjalla um deilur milli ákærðu og A þegar hann gaf skýrsluna. Aðspurður kvaðst vitnið hafa skilað inn samningum til stúlknanna á skrifstofunni.

          Þegar lögregluskýrsla af vitninu var borin undir hann kannaðist hann við undirritun sína en kvað sig ekki hafa getað sagt til um það hvort tryggingar, sem seldar voru í nafni VM, hefðu átt að tilheyra HMS því það væri ákvörðun stjórnenda fyrirtækisins.

          Vitnið M, mágur ákærðu, kvaðst muna eftir því að samningar sem hann var með í burðarliðnum hjá VM þegar HMS var stofnað hefðu gengið áfram til HMS og hann fengið sölulaun frá HMS. Kom fram hjá vitninu að oft hefði verið búið að undirrita umboðin og samningur fullgerður að öðru leyti en því að þurft hefði að hringja inn kortanúmer viðkomandi. Þá staðfesti vitnið framburð sinn hjá lögreglu um að hann vissi til þess að samningar sem hann var með ófullgerða hjá VM þegar HMS var stofnað, hefðu farið til HMS. Hann hefði skilað inn til HMS slíkum samningum til HMS þótt hann hefði hafið vinnu við þá á meðan hann vann enn fyrir VM. Ef samningur hefði ekki gengið í gegn fyrr en eftir að HMS var stofnað, þ.e. búið var að undirrita umboð, uppkast verið gert að samningi en kortanúmer ekki fengið, hefði hann skilað slíkum samningi til HMS. Hann hefði talið það liggja beint við og hefði hann væntanlega spurt að því þótt hann myndi það ekki sérstaklega. Hefði vitninu jafnframt verið gert að gefa út nótu á HMS fyrir samninga sem gerðir voru í umboði VM og hefði ákærða sagt honum að gera það enda hefði hún greitt honum sölulaun. Vitnið kvaðst hafa lagt umboð og samninga inn á skrifstofu fyrirtækisins þegar hann hafði lokið sölu.

          Kannaðist vitnið við að skipt hefði verið um eyðublöð um leið og HMS var stofnað þótt hann aðspurður vissi ekki hvenær HMS var stofnað formlega.     

          Vitnið P kvað samningum fyrir bæði félögin hafa verið skilað á sama stað á umræddu tímabili. Mundi vitnið ekki til þess að sölumönnum hefði verið gert að gefa út reikninga á HMS fyrir umboð í nafni VM. Kannaðist vitnið við að hann hefði farið af stað eftir samtal við ákærðu og fengið lántaka sem hefðu áður skrifað upp á umboð frá VM til að gera samning við HMS en það taldi vitnið eðlileg vinnubrögð þar sem hann hefði hafið störf fyrir HMS. Aðskilnaður milli fyrirtækjanna hefði verið á hreinu og komið hefðu bein fyrirmæli frá ákærðu um að halda samningum félaganna aðskildum. Umboð hefðu legið frammi á skrifstofunni en ákærða hefði ekki afhent þau persónulega. Frágengnum samningum hefði verið skilað á skrifstofuna.                                                                                          

          Vitnið S, fyrrverandi eiginmaður ákærðu, mundi ekki eftir því hvað varð um samninga sem gerðir voru í nafni VM. 

          Vitnið E gaf skýrslu fyrir dóminum í gegnum síma. Kannaðist hann við að hafa skrifað bréf dags. 8. september 2000 og staðfesti efni þess. Aðspurður kvað vitnið A hafa hjálpað sér við að skrifa bréfið.

          Vitnið A gaf skýrslu fyrir dóminum í gegnum síma. Staðfesti hann lögregluskýrslu sína frá 13. maí 2003 en taldi að þeir samningar sem um væri að ræða varðandi umboðssvikaákæruna væru ekki einungis 13 heldur frekar um það bil 70.

          Kvaðst vitnið hafa verið tilneytt til að losa ákærðu út úr VM en rétt væri að hvorki hann né VM ætti frekari kröfur á hendur ákærðu.

          Vitnið J, systir ákærðu, kvaðst hafa unnið á skrifstofu VM en síðar unnið sem skrifstofustjóri hjá HMS. Hefði hún séð um daglegan rekstur skrifstofu HMS. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að tilkynnt hefði verið að á ákveðnum tímapunkti hefðu menn átt að byrja að selja tryggingar fyrir HMS. Ákærða hefði tilkynnt um stofnun HMS en á þessum tíma hefði hún unnið bæði fyrir HMS og VM.

          Vitnið vissi um eitt skipti þar sem rangir samningar fóru út vegna þess að tveir bunkar fóru út í sama umslagi en annars hefðu samningar fyrirtækjanna verið sendir út í sitt hvoru umslaginu. Í þetta skiptið hefðu samningar frá HMS og samningar frá VM farið í sama umslagið fyrir mistök og hefðu þau verið ákærðu óviðkomandi. 

          Vitnið kvað verklag við skil ráðgjafa á samningum hafa verið á þann veg að þeir hefðu skilað samningum inn og hefðu samningarnir verið settir annað hvort í bakka HMS eða bakka VM. Síðan hefðu samningarnir verið sendir út til viðeigandi tryggingafélaga um það bil mánuði áður en þeir áttu að taka gildi. Ákærða hefði hvergi komið nálægt samningunum áður en þeir voru sendir út en skrifstofan hefði séð um að fara yfir þá og senda þá út.

 

Niðurstaða.

             Ákærða hefur neitað sök. Hún hefur kannast við að tilgreindar umsóknir um tryggingar hafi verið sendar til hinna erlendu tryggingafélaga í nafni HMS en hefur fullyrt að það hafi gerst  fyrir mistök. Ákærða hefði hvergi komið nálægt umræddri sendingu enda hefði það ekki verið í hennar verkahring að sjá um útsendingu samninga.

             Ákærða var um nokkurra mánaða skeið haustið 1999 í fyrirsvari fyrir bæði HMS og VM sem framkvæmdastjóri beggja félaga og fór þannig með fjárreiður þeirra beggja á því tímabili. Henni bar því að gæta hagsmuna beggja. Í gögnum málsins liggja frammi bréf þeirra F og E til Fjármálaeftirlitsins sem rakin eru hér að framan en báðir unnu þeir við tryggingaráðgjöf og sölu trygginga hjá VM á umræddum tíma. Báðir hafa þeir F og E staðfest bréfin að efni til hér fyrir dóminum. Með vísan til vitnisburðar þeirra og einnig framburða vitnanna G og M verður að telja sannað að ákærða hafi af ásetningi staðið fyrir því að tilgreindum tryggingafélögum voru sendar í nafni HMS umsóknir um tryggingar sem gerðar voru af VM með þeim afleiðingum að umboðslaun vegna samninganna voru greidd til HMS. Með því verður að telja ákærðu hafa misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri beggja félaga og breytir hér engu þótt hún hafi ekki sjálf séð um að ganga frá gögnunum til sendingar.

              

Refsing og sakarkostnaður.

          Ákærða hefur ekki áður gerst sek um refsiverðan verknað. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærða bar sem framkvæmdastjóri VM ríka ábyrgð á fyrirtækinu og henni bar að gæta hagsmuna þess í hvívetna. Á hinn bóginn er ljóst að rannsókn máls þessa hefur tekið óhóflegan tíma og er dráttur rannsóknarinnar að verulegu leyti óútskýrður og ber að taka tillit til þess við ákvörðun refsingar. Þá er komið fram að uppgjör hefur farið fram milli ákærðu og Inga Eldjárns vegna málefna VM. Með vísan til alls framanritaðs og hliðsjón af ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga telst refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu refsivistarinnar í 2 ár og fellur hún niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

          Loks ber ákærðu að greiða allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Birgis Más Ragnarssonar hdl., sem teljast hæfilega ákveðin í einu lagi 400.000 krónur.

          Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Björn Þorvaldsson, fulltrúi ríkislögreglustjóra.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

 

D ó m s o r ð :

          Ákærða, Helga Markúsdóttir, sæti fangelsi í 5 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.          

          Ákærða greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Birgis Más Ragnarssonar hdl., 400.000 krónur.