Hæstiréttur íslands
Mál nr. 223/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
- Fasteign
|
|
Mánudaginn 13. maí 2013. |
|
Nr. 223/2013.
|
Hjördís Helgadóttir (sjálf) gegn Íslandsbanka hf. (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing. Fasteign.
H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um að úrlausn þinglýsingarstjórans á Selfossi um að færa veðskuldabréf aftur inn á fasteignina L yrði ógilt, svo og yfirlýsing embættisins í kjölfar leiðréttingar á mistökum við þinglýsingu samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þinglýsingarstjóri hafði þinglýst veðskuldabréfinu á fasteignina 12. desember 2007 þrátt fyrir að samþykki H sem maka þinglýsts eiganda hinnar veðsettu fasteignar hefði ekki legið fyrir líkt og áskilið er í 1. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 64. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Að kröfu H afmáði þinglýsingarstjóri veðskuldabréfið af fasteigninni en tók síðar ákvörðun um að færa það aftur inn á eignina. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem veðskuldabréfið hafði verið háð áðurgreindum annmarka hefði þinglýsingarstjóra borið að vísa skjalinu frá þinglýsingu. Þar sem skjalinu var þrátt fyrir þennan ágalla þinglýst á eignina, hefði þinglýsingarstjóra að réttu lagi átt að bæta úr mistökunum með því að færa athugasemd í þinglýsingabók um samþykkisskortinn. Í málinu hagaði á hinn bóginn þannig til að H hafði undirritað skilmálabreytingu við veðskuldabréfið 9. janúar 2010 sem maki þinglýsts eiganda hinnar veðsettu fasteignar. Þá hafði frestur samkvæmt 2. mgr. 65. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 til að höfða mál til ógildingar hinnar upphaflegu ráðstöfunar löngu verið liðinn þegar H hófst handa á árinu 2012 að fá bætt úr mistökunum. Hafði því ekki verið tilefni til viðbragða af hálfu þinglýsingarstjóra við kröfu H um að veðskuldabréfið yrði afmáð af eigninni og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl 2013. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. mars 2013, þar sem staðfest var úrlausn þinglýsingarstjórans á Selfossi 30. október 2012 um að færa veðskuldabréf með þinglýsingarnúmeri X-5463/2007 aftur inn á fasteignina Langholt 1, landnúmer 166247, fastanúmer 220-0863 og 220-0859. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreind úrlausn þinglýsingarstjóra verði ógilt og jafnframt yfirlýsing 2. nóvember 2012 sem innfærð var á jörðina Langholt I með þinglýsingarnúmeri X-3149/2012 og lagt fyrir þinglýsingarstjóra að aflýsa henni eða afmá úr þinglýsingabók. Til vara krefst hún „staðfestingar á ógildi sömu úrlausnar og yfirlýsingar.“ Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram þinglýsti þinglýsingarstjórinn á Selfossi veðskuldabréfi því er um ræðir í málinu, og út var gefið 10. desember 2007, þótt ekki lægi fyrir samþykki sóknaraðila sem maka þinglýsts eiganda hinnar veðsettu fasteignar, sbr. 1. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 64. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þar sem veðskuldabréfið var háð þessum annmarka hefði þinglýsingarstjóra borið að vísa skjalinu frá þinglýsingu. Skjalinu var þrátt fyrir þennan ágalla þinglýst. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga hefði þinglýsingarstjóri að réttu lagi átt að bæta úr mistökum af þessum toga með því að færa athugasemd í þinglýsingabók um samþykkisskortinn.
Í máli þessu hagar á hinn bóginn þannig til að sóknaraðili undirritaði 9. janúar 2010 sem maki þinglýsts eiganda hinnar veðsettu fasteignar skilmálabreytingu við veðskuldabréfið og samþykkti þar skýrlega þá ráðstöfun sem í upphaflegri veðsetningu eignarinnar fólst. Þar við bætist að frestur samkvæmt 2. mgr. 65. gr. hjúskaparlaga til að höfða mál til ógildingar hinni upphaflegu ráðstöfun var löngu liðinn þegar sóknaraðili hófst handa á árinu 2012 um að fá bætt úr þeim mistökum sem urðu við þinglýsingu veðskuldabréfsins í upphafi. Af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar var ekki tilefni til viðbragða af hálfu þinglýsingarstjóra við kröfu sóknaraðila. Með þessum athugasemdum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hjördís Helgadóttir, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. mars 2013.
Með bréfi dagsettu 21. nóvember sl. krafðist Þorsteinn Pétursson hdl., þess, fyrir hönd Hjördísar Helgadóttur kt. 030649-3389, Langholti 1, Flóahreppi, að ógilt verði úrlausn þinglýsingarstjóra við sýslumannsembættið á Selfossi dags. 30. október 2012 og jafnframt yfirlýsing dags. 2. nóvember sama ár sem innfærð var á jörðina Langholt 1, landnúmer 166247, fastanúmer 220-0863 og 220-0859, með þinglýsingarnúmeri X-3149/2012 og lagt verði fyrir sýslumanninn á Selfossi að aflýsa henni úr þinglýsingabók. Til vara er krafist staðfestingar á ógildi sömu úrlausnar og yfirlýsingar. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi. Afrit kröfunnar barst dóminum 22. nóvember sl.
Varnaraðili er Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160. Þá hefur þinglýsingarstjórinn, sýslumaðurinn á Selfossi, gert athugasemdir við málatilbúnað sóknaraðila, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú úrlausn þinglýsingarstjóra að færa veðskuldabréf með þinglýsingarnúmer X-5463/2007 aftur inn á fasteignina Langholt 1, landnúmer 166247, fastanúmer 220-0863 og 220-0859. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins. Munnlegur málflutningur fór fram þann 12. febrúar sl.
Sóknaraðili lýsir málsatvikum svo að með bréfi dagsettu 27. ágúst til sýslumannsins á Selfossi hafi hún krafist þess að afmáð yrði skuldabréf með veði í jörðinni Langholti 1, en jörðin sé þinglýst eign eiginmanns hennar, Hreggviðs Hermannssonar, kt. 180750-3559. Veðskuldabréfið sé gefið út af Múr og smíði ehf. þann 10. desember 2007 og sé skilgreint sem veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum. Jafnvirði þess hafi verið 15.000.000 krónur, lánveitandi hafi verið Glitnir en bréfið sé nú í eigu varnaraðila. Bréfið hafi verið móttekið til þinglýsingar 11. desember 2007 og innfært í þinglýsingabók 12. desember 2007. Sóknaraðili hafi krafist þess að skjalið yrði afmáð af jörðinni Langholti 1 með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en þar segi að verði þinglýsingarstjóri þess áskynja að færsla í fasteignabók sé röng eða mistök hafi orðið við þinglýsinguna ella skuli hann bæta úr. Hafi verið vísað til 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en þar sé kveðið á um að öðru hjóna sé óheimilt án skriflegs samþykkis hins að veðsetja fasteign sína ef hún er ætluð til bústaðar fyrir fjölskylduna. Þau hjón hafi búið á jörðinni við útgáfu skjalsins og hafi búið þar alla sína búskapartíð. Sóknaraðili hafi aldrei gefið skriflegt samþykki eins og fortakslaust sé áskilið í 60. gr. hjúskaparlaga og hafi því verið óheimilt að þinglýsa veðskuldabréfinu á sínum tíma. Í veðskuldabréfinu sé ekki vísað til 60. gr. laganna eins og áskilið sé og hafi þinglýsingarstjóra verið bent á þennan ágalla. Þann 19. september sl. hafi sýslumaðurinn á Selfossi ákveðið að verða við kröfunni og hafi hann fjarlægt veðskuldabréfið úr fasteignabók embættisins með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga. Varnaraðili hafi með bréfi dagsettu 8. október sl. til sýslumanns tilkynnt að þessi úrlausn yrði borin undir héraðsdóm en það erindi hafi verið afturkallað eftir að sýslumaður hafði þann 30. október sl.ákveðið að færa bréfið aftur inn á eignina. Þá hafi sýslumaður þann 2. nóvember sl. útbúið yfirlýsingu um að bréfið yrði fært aftur inn og hafi því verið þinglýst á jörðina.
Sóknaraðili byggir á því að sýslumaður geti ekki sjálfur endurskoðað úrlausn sína frá 19. september sl. um að afmá bréfið af jörðinni. Hann hafi gefið aðilum fjögurra vikna frest til að bera úrlausnina undir héraðsdóm skv. 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga. Varnaraðili hafi afturkallað ákvörðun sína um að bera úrlausina undir héraðsdóm og þar sem fjögurra vikna frestur sé löngu liðinn án þess að úrlausninni hafi verið breytt hljóti hún að standa. Hvorki sé að finna heimild í þinglýsingalögum fyrir sýslumann til að breyta úrlausn sinni af sjálfsdáðum né samkvæmt beiðni aðila. Þá hafi þetta verið ákveðið eftir að fjögurra vikna frestur hafi verið liðinn og því sé þetta enn langsóttara. Margdæmt sé að sýslumenn hafi ekki úrskurðarvald um efnisatvik að baki skjali eins og sýslumaður virðist byggja á í úrlausninni frá 30. október sl. Varnaraðila hafi verið ein fær leið samkvæmt þinglýsingalögum til að fá úrlausninni frá 19. september sl. breytt. Hann hafi ákveðið að nýta sér ekki þá leið og hafi það verið á forræði hans að afturkalla málið úr héraðsdómi og breyti önnur úrlausn sýslumanns í sama máli frá 30. október sl. engu hér um.
Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga sé það einungis héraðsdómari sem geti breytt úrlausn sýslumanns með rökstuddum úrskurði innan þess tímaramma sem lögin setji. Í 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segi að þau lög gildi ekki um þinglýsingu og heimild ti breytingar á úrlausn sé ekki að finna í þinglýsingalögum nr. 39/1978. Því standi ákvörðun sýslumanns frá 19. september sl. og beri því að ógilda úrlausn hans frá 30. október sl. eða staðfesta að hún sé ógild og jafnframt yfirlýsinguna frá 2. nóvember sl. og afmá hana af eigninni.
Sóknaraðili segir varakröfu sína setta fram ex tuto komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að síðari úrlausn sýslumanns um innskráningu bréfsins sé markleysa.
Varnaraðili vísar til þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 1. gr., 3. gr. og 27. gr., almennra reglna réttarfars og hjúskaparlaga. Um málskostnað er vísað til laga nr. 91/1991.
Varnaraðili gerir þær athugasemdir við málavaxtalýsingu sóknaraðila að umrætt veðskuldabréf sé undirritað fyrir hönd útgefanda og sé veðsetningin samþykkt af þinglýstum eigendum. Einnig skrifi undir bréfið maki Agnesar Hörpu Hreggviðsdóttur. Sóknaraðili, maki Hreggviðs Hermannssonar, skrifi ekki undir sem maki þinglýsts eiganda en votti undirskrift eiginmanns síns og dóttur. Þann 13. janúar 2009 hafi skilmálum veðskuldabréfsins verið breytt og undir þá breytingu skrifi allir hlutaðeigandi aðilar, þ.m.t. sóknaraðili.
Varnaraðili byggir á því að þegar kæra vegna úrlausnar þinglýsingarstjóra frá 19. september hafi verið afturkölluð hafi verið fallist á athugasemdir varnaraðila og umrætt skuldabréf fært að nýju inn á fasteignina. Telur varnaraðili að með því hafi þinglýsingarstjóri leiðrétt þau mistök sín að afmá bréfið af eigninni og sé slík leiðrétting heimil samkvæmt 27. gr. þinglýsingalaga. Þegar þessi mistök hafi verið leiðrétt þann 30. október sl. hafi varnaraðili ekki lengur haft lögvarða hagsmuni af áframhaldandi rekstri málsins fyrir dómi. Hafi verið búið að færa málið í sama farveg og verði hafði fyrir hina umdeildu ákvörðun þinglýsingarstjóra. Hafi varnaraðili því ekki átt annan kost en að afturkalla kæru sína því hið ólögmæta ástand hefði verið leiðrétt. Þá telur varnaraðili að allar þær röksemdir komist að í þessu máli sem hefðu komist að í hinu fyrra máli sem hefði verið afturkallað.
Varnaraðili telur að með undirritun sinni á skilmálabreytinguna í janúar 2009 hafi sóknaraðili samþykkt veðsetninguna og því hafi sú ákvörðun sýslumannsins að afmá umrætt veðskuldabréf verið röng. Í bréfi þinglýsingarstjóra sem sent hafi verið kæranda 19. september sl. komi fram að þar sem ekki hafi verið aflað samþykkis maka þinglýsts eiganda fyrir veðsetningu eignarinnar í samræmi við fyrirmæli 60. gr. hjúskaparlaga hafi ekki verið lagaskilyrði til þess að þinglýsa veðskuldabréfinu á fyrrgreindar eignir. Varnaraðili telur að samkvæmt 65. gr. hjúskaparlaga hefði sóknaraðili, sem maki þinglýsts eiganda, þurft að höfða mál fyrir dómi til að fá samningnum hrundið. Hefði sú málshöfðun skv. skýru orðalagi 2. mgr. 65. gr. laganna þurft að eiga sér stað innan sex mánaða frá því sóknaraðili fékk vitneskju um hann, í síðasta lagi innan árs frá því samningnum var þinglýst. Sóknaraðili votti undirskrift eiginmanns síns á veðskuldabréfinu og hafi henni því verið kunnugt um veðsetninguna frá útgáfu þess. Allir málshöfðunarfrestir til ógildingar skjalsins séu því útrunnir. Hafi þessar röksemdir komið fram í bréfi varnaraðila til sýslumanns dags. 8. október sl. og hafi þinglýsingarstjóra því verið rétt að leiðrétta fyrri mistök sín með því að færa hið umþrætta veðskuldabréf að nýju inn á fasteignina Langholt 1 á grundvelli 27. gr. laga nr. 39/1978.
Niðurstaða.
Samkvæmt gögnum málsins barst sýslumannsembættinu á Selfossi þann 11. desember 2007 veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði 15.000.000 króna til þinglýsingar á fasteignirnar Langholti 1, Flóahreppi. Um var að ræða veðskuldabréf sem gefið hafði verið út af Múr og smíði ehf. til handa Glitni banka sem lánveitanda, nú Íslandsbanka og var það tryggt með 8. veðrétti í fyrrgreindum eignum. Skjalinu var þinglýst þann 12. desember sama ár. Þinglýstur eigandi eignanna er Hreggviður Hermannsson, en hann er maki sóknaraðila máls þessa. Hreggviður samþykkti veðsetninguna sem þinglýstur eigandi en sóknaraðili ritaði ekki undir skjalið í reit þar sem gert er ráð fyrir samþykki maka þinglýsts eiganda en aftur á móti ritaði hún á skjalið í reit þar sem gert er ráð fyrir að vottuð sé rétt dagsetning, undirritun og fjárræði útgefanda, veðsala og maka þinglýsts eiganda (útgefanda/veðsala). Fyrir liggur að skilmálum veðskuldabréfsins var breytt þann 13. janúar 2009 og samþykkti Hreggviður veðsetninguna sem þinglýstur eigandi og sóknaraðili ritaði samþykki sitt á skjalið sem maki þinglýsts eiganda. Með bréfi dagsettu 27. ágúst sl. krafðist sóknaraðili þess að framangreint veðskuldabréf yrði afmáð af jörðinni á þeim grundvelli að hún hefði aldrei samþykkt veðsetninguna sem maki þinglýsts eiganda eins og áskilið sé í 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þann 19. september sl. mun þinglýsingarstjóri hafa fallist á þessar röksemdir sóknaraðila og með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga var veðskuldabréfið fjarlægt úr fasteignabók embættisins. Varnaraðili skaut þessari ákvörðun til héraðsdóms en afturkallaði erindið eftir að sýslumaður ákvað þann 30. október sl. að færa bréfið aftur á eignina og þinglýsa yfirlýsingu þess efnis þann 2. nóvember sl.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 má bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögum þessum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Úrlausnin skal borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.
Í 27. gr. sömu laga er fjallað um leiðréttingu á röngum færslum og bráðabirgðavernd réttinda. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skal þinglýsingarstjóri bæta úr verði hann þess áskynja að færsla í fasteignabók sé röng eða mistök hafi orðið um þinglýsinguna ella. Talið hefur verið að leiðrétting þinglýsingarstjóra samkvæmt þessari lagagrein sé ekki háð tímatakmörkunum.
Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er öðru hjóna óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda eða veðsetja fasteign sína, þar á meðal sumarbústað, leigja hana eða byggja, ef hún er ætluð til bústaðar fyrir fjölskylduna eða er notuð við atvinnurekstur beggja hjóna eða hins. Samkvæmt 64. gr. laganna skal skjalið, ef óskað er þinglýsingar á löggerningum er greinir í 60. gr., geyma yfirlýsingu um hvort sá er skjal stafar frá sé í hjúskap og hvort eign sé bústaður fjölskyldu hans eða notuð við atvinnurekstur hjóna eða sé ætluð til þess.
Í 1. mgr. 65. gr. laganna segir að hafi annað hjóna gert samning án samþykkis hins þar sem þessa var þörf og getur hitt þá fengið samningnum hrundið með dómi. Þetta á þó ekki við um samninga skv. 61. gr. ef viðsemjandi sýnir fram á að honum hafi hvorki verið ljóst né átt að vera ljóst þegar samningurinn var gerður að makanum væri samningsgerðin óheimil. Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laganna skal höfða dómsmál innan sex mánaða frá því að það hjóna, sem samþykkja skyldi löggerninginn, fékk vitneskju um hann og í síðasta lagi innan árs frá því að honum var þinglýst eða lausafé afhent.
Ljóst er að umrætt veðskuldabréf, sem þinglýst var þann 12. desember 2007, uppfyllti ekki þau skilyrði sem sett eru í 1. mgr. 60. gr. hjúskaparlaga, sbr. 64. gr. laganna og lúta að samþykki maka þinglýsts eiganda þegar veðsetja skal eign sem ætluð er til bústaðar fyrir fjölskylduna og hefði átt að vísa því frá þinglýsingu. Skjalinu var allt að einu þinglýst og hefur 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga verði skýrð svo að ekki sé gerlegt að vísa skjali frá þinglýsingu á þessu stigi, heldur sé unnt að gera athugasemd um þetta efni í þinglýsingabók. Þá ber að líta til þeirrar sérreglu sem fram kemur í 65. gr. hjúskaparlaga og lýtur að því að höfða verði dómsmál innan tilskilins frests í því skyni að fá samningnum hrundið með dómi.
Samkvæmt framansögðu brast þinglýsingarstjóra því heimild til þess að fjarlægja umrætt veðskuldabréf af fasteignum maka sóknaraðila og var honum því heimilt með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga að færa þinglýsingu skjalsins til fyrra horfs. Verður öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu því hafnað og úrlausn þinglýsingarstjóra að færa veðskuldabréfið aftur inn á fasteignina Langholt 1 staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Öllum kröfum sóknaraðila, Hjördísar Helgadóttur á hendur varnaraðila, Íslandsbanka hf., er hafnað og er staðfest sú úrlausn þinglýsingarstjóra við sýslumannsembættið á Selfossi að færa veðskuldabréf með þinglýsingarnúmer X-5463/2007 aftur inn á fasteignina Langholt 1, landnúmer 166247, fastanúmer 220-0863 og 220-0859.
Málskostnaður fellur niður.