Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-90

Þrotabú AZAZO hf. (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)
gegn
Ólafi Páli Einarssyni (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Réttindaröð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 28. febrúar 2019 leitar þrotabú AZAZO hf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. sama mánaðar í málinu nr. 61/2019: Ólafur Páll Einarsson gegn þrotabúi AZAZO hf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ólafur Páll Einarsson leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að viðurkennt verði að krafa sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti á leyfisbeiðanda njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2016 var AZAZO hf. gert að greiða gagnaðila 5.810.327 krónur vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi þeirra. Félagið áfrýjaði dóminum 17. febrúar 2017 en bú þess var síðan tekið til gjaldþrotaskipta 3. október sama ár. Með dómi 30. nóvember 2017 í máli nr. 114/2017 var málinu vísað frá Hæstarétti þar sem leyfisbeiðandi hafði ekki sett tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í samræmi við ákvörðun réttarins um að verða við kröfu gagnaðila um slíka tryggingu. Snýr ágreiningur aðila að því hvernig beita eigi 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við aðstæður sem þessar. Krafa gagnaðila mun hafa verið á gjalddaga 26. október 2015 en frestdagur við gjaldþrotaskiptin var 28. september 2017. Gagnaðili höfðaði fyrrnefnt mál um kröfu sína 8. janúar 2016 sem var innan sex mánaða frá gjalddaga hennar svo sem áskilið er í lagaákvæðinu. Úr því að málið var ekki dæmt að efni til fyrir Hæstarétti deila aðilarnir á hinn bóginn um hvort nægilegt sé gagnvart skilyrðum ákvæðisins að dómur réttarins um frávísun málsins hafi gengið á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, eins og Landsréttur lagði til grundvallar, eða hvort miða verði í þessu sambandi við uppkvaðningu héraðsdóms, eins og gert var í úrskurði í héraði í máli þessu. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins myndi hafi fordæmisgildi um skýringu á 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og sé úrskurður Landsréttar bersýnilega rangur að þessu leyti, en leyfisbeiðandi hefur nú fallið frá öðrum málsástæðum sem hann bar fyrir sig í héraði og fyrir Landsrétti.

Úrlausn um hvort með dómi í skilningi 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé eingöngu átt við efnisdóm eða hvort úrlausn um frávísun máls frá Landsrétti eða Hæstarétti geti einnig fallið þar undir verður að teljast hafa fordæmisgildi. Á þeim grunni er umsókn leyfisbeiðanda um kæruleyfi tekin til greina.