Hæstiréttur íslands
Mál nr. 498/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfarargerð
- Endurupptaka
- Lögvarðir hagsmunir
|
|
Miðvikudaginn 5. janúar 2000. |
|
Nr. 498/1999. |
Krist-Tak Búðardal ehf. (Sveinn Skúlason hdl.) gegn Vesturbraut 20 ehf. (enginn) |
Kærumál. Aðfarargerð. Endurupptaka. Lögvarðir hagsmunir.
V krafðist þess, með beiðni til héraðsdóms, að K yrði borið út úr leiguhúsnæði. Héraðsdómari boðaði K á dómþing vegna málsins með símskeyti, en útivist varð af hálfu K. Héraðsdómari kvað upp úrskurð, þar sem krafa V var tekin til greina og beindi V þá kröfu sinni um útburðargerð að sýslumanni. K krafðist þess að héraðsdómur endurupptæki málið. Áður en til þess kæmi bar sýslumaður K út úr húsnæðinu. Talið var, að þar sem úrskurði dómsins, sem beiðni K um endurupptöku sneri að, hefði þegar verið framfylgt með útburðargerð, brysti K réttarhagsmuni af því að hann kæmi til endurskoðunar. Var kröfu K um endurupptöku því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. nóvember 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku á máli varnaraðila gegn honum, sem var lokið með úrskurði héraðsdómsins 12. sama mánaðar um heimild varnaraðila til að fá sóknaraðila borinn út úr fasteigninni Vesturbraut 20 í Búðardal með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreint mál verði endurupptekið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili þess með beiðni til Héraðsdóms Vesturlands 29. október 1999 að sóknaraðili yrði borinn út úr fyrrnefndu húsnæði. Héraðsdómari beindi tilkynningu til sóknaraðila um þessa kröfu með símskeyti 2. nóvember sama árs, þar sem jafnframt var boðað að hún yrði tekin fyrir á dómþingi 8. sama mánaðar á nánar tilteknum tíma. Af hálfu sóknaraðila var það þinghald ekki sótt. Héraðsdómari kvað upp úrskurð 12. nóvember 1999, þar sem krafa varnaraðila um útburðargerð var tekin til greina. Með bréfi 16. nóvember 1999 tilkynnti sýslumaðurinn í Búðardal fyrirsvarsmanni sóknaraðila að fram væri komin krafa varnaraðila um útburðargerð, svo og hvenær hún yrði tekin fyrir. Samdægurs krafðist sóknaraðili þess við héraðsdómara að málið yrði endurupptekið með vísan til 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísaði sóknaraðili einkum til þess að boðun til þinghaldsins 8. nóvember 1999 hefði ekki verið birt með lögmætum hætti. Héraðsdómari tilkynnti aðilunum 17. nóvember 1999 að beiðnin um endurupptöku yrði tekin fyrir í þinghaldi 24. sama mánaðar. Áður en til þess kom bar sýslumaður sóknaraðila út úr húsnæðinu 19. nóvember 1999.
Þegar beiðni sóknaraðila um endurupptöku var tekin fyrir í héraðsdómi 24. nóvember 1999 hafði úrskurði dómsins, sem hún sneri að, þegar verið framfylgt með útburðargerð sýslumanns. Við svo búið brast sóknaraðila réttarhagsmuni af því að úrskurðurinn kæmi til endurskoðunar, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 2026. Var kröfu sóknaraðila um endurupptöku því réttilega hafnað með hinum kærða úrskurði, sem verður þannig staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. nóvember 1999.
I.
Málið höfðaði Ingi Tryggvason, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd Vesturbrautar 20 ehf., kt. 420195-2739, Vesturbraut 20 Búðardal, er krafðist þess með bréfi dags. 29. október 1999 að heimilað yrði með dómsúrskurði að Krist-Tak Búðardal ehf., kt. 640398-2449, Vesturbraut 20 Búðardal, yrði borið út úr fasteigninni að Vesturbraut 20 Búðardal ásamt því er félaginu fylgdi. Þá krafðist sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins úr hendi varnaraðila og þess að fjárnám yrði heimilað í eignum hans fyrir kostnaði af aðförinni.
Dómari boðaði fyrirsvarsmann varnaraðila, Kristinn Jónsson, til þingfestingar málsins með símskeyti dags. 2. nóvember 1999 er móttekið var 3. s.m.
Málið var þingfest á dómþingi 8. nóvember 1999, og það þá tekið til úrskurðar skv. 1. mgr. 82. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Var úrskurður í málinu kveðinn upp 12. nóvember 1999, þar sem fallist var á dómkröfur sóknaraðila í málinu og má af framlögðum skjölum í málinu ráða að aðför samkvæmt úrskurðinum hafi farið fram 19. s.m.
Með bréfi, dags. 16. nóvember 1999, er barst dóminum samdægurs í símbréfi, krafðist Sveinn Skúlason, héraðsdómslögmaður, endurupptöku málsins fyrir hönd varnaraðila. Dómari boðaði málsaðila til dómþings með símbréfi dags. 17. nóvember 1999, vegna hinnar framkomnu kröfu varnaraðila. Krafan var tekin fyrir á dómþingi 24. nóvember 1999 og þá tekin til úrskurðar.
II.
Kröfu sína um endurupptöku styður varnaraðili þeim rökum að birting símskeytis þess er dómurinn sendi varnaraðila til boðunar vegna þingfestingar málsins hafi ekki borist honum og jafnframt að hafna hefði átt beiðni gerðarbeiðanda um útburð. Varnaraðili vísar, kröfum sínum til stuðnings til ákvæða a. og b. liða 2. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála. Þá kveðst varnaraðili munu hafa uppi þær dómkröfur við endurupptöku málsins að hinni umbeðnu gerð verði hafnað og gerðarbeiðandi dæmdur til greiðslu hæfilegs málskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að synjað verði kröfum varnaraðila um endurupptöku málsins. Telur sóknaraðili að ekki séu forsendur til slíkrar endurupptöku þar sem aðför samkvæmt úrskurði héraðsdóms í málinu hefur þegar farið fram.
III.
Atvikum málsins er ítarlega lýst í úrskurði dómsins frá 12. nóvember 1999 í máli þessu.
Við fyrirtöku málsins 24. nóvember 1999 greindi fyrirsvarsmaður varnaraðila, Kristinn Jónsson, frá því að símskeyti héraðsdóms þar sem hann var boðaður til þingfestingar málsins hafi verið sett í pósthólf hans í húsi Samvinnuháskólans á Bifröst þar sem hann stundar nú nám. Kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa það fyrir venju að sækja póst í hólfið á þriðjudögum og föstudögum, en föstudaginn 5. nóvember hafi hann, gagnstætt venju, ekki sótt póst í það, og það hafi hann ekki gert fyrr en mánudaginn 8. nóvember. Það hafi hins vegar reynst of seint, þar sem þingfestingartími málsins hafi þá verið liðinn. Af hálfu varnaraðila var þess getið, að varnaraðili teldi birtingu símskeytis dómsins fyrir fyrirsvarsmanni hans hafa verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við 85. gr. einkamálalaga. Í því sambandi benti varnaraðili á, að af móttökuáritun á umrætt símskeyti yrði ekki ráðið að skeytið hefði verið birt fyrir löghæfum forsvarsmanni varnaraðila eða á lögheimili hans. Gat varnaraðili þess ennfremur að hann teldi sömu málsástæður eiga við um símskeyti það er innihélt greiðsluáskorun sóknaraðila í málinu og var undanfari riftunaryfirlýsingar hans er birt var með sama hætti. Fyrirsvarsmaður varnaraðila lýsti því hins vegar yfir að honum hefði borist síðastgreinda símskeytið er innihélt riftunaryfirlýsingu sóknaraðila.
IV.
Gerðarþola var rétt að beiðast endurupptöku þessa máls samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Það er grunnregla íslensks réttarfars, að dómstólar megi því aðeins leysa úr tilteknu sakarefni að aðili máls sem úrlausnar krefst eigi lögvarða hagsmuni af því að fá úr málinu leyst.
Í máli þessu liggur fyrir endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Dalasýslu, dags. 19. nóvember 1999, þar sem því lýst að sýslumaður hafi þann dag framkvæmt aðför samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Vesturlands í máli þessu frá 12. nóvember 1999, þar sem sóknaraðila var heimilað að bera varnaraðila ásamt því er honum fylgir út úr fasteigninni að Vesturbraut 20 Búðardal með beinni aðfarargerð.
Þegar litið er til þess að aðför samkvæmt þeim úrskurði dómsins er varnaraðili krefst endurupptöku á hefur farið fram, telur dómarinn sýnt að varnaraðili eigi ekki lengur réttarhagsmuni af því að fá úrlausn um þær dómkröfur er hann hyggst hafa uppi við endurupptöku málsins. Stafar það af því að úrskurður um þær fengi ekki haggað gildi þeirrar aðfarar sem þegar hefur farið fram í málinu, sbr. 2. mgr. 139. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ber af þessum sökum að hafna kröfu varnaraðila um endurupptöku máls þessa.
Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið hafðar uppi kröfur um málskostnað í þessum þætti málsins.
Finnur T. Hjörleifsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfum varnaraðila, Krist-Taks Búðardals ehf., um endurupptöku Héraðsdóms Vesturlands á máli dómsins nr. A-10-1999, Vesturbraut 20 ehf. gegn Krist-Taki Búðardal ehf., er hafnað.
Málskostnaður dæmist ekki.