Hæstiréttur íslands

Mál nr. 657/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Hjón
  • Erfðaskrá
  • Samningur


                                     

Mánudaginn 20. október 2014.

Nr. 657/2014.

A

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

B

C

D

E og

F

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Kærumál. Dánarbússkipti. Hjón. Erfðaskrá. Samningur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kveðið var á um að sameiginleg erfðaskrá G og H frá 1970 skyldi lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi G, en ekki erfðaskrá hennar frá 1993. Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild G til að ráðstafa þeim eignum, sem hún fékk með sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskrárinnar, var ekki takmörkuð með samningnum á þann hátt að slík ráðstöfun gæti ekki gerst með dánargjafagerningum eða erfðaskrá. Var því ekki girt fyrir að annað hjónanna gæti, án atbeina hins, ráðstafað eignunum með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 19. og 20. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Samkvæmt þessu og að því gættu að í erfðaskránni frá 1993 var tekið fram að hún hróflaði á engan hátt við gagnkvæmu erfðaskránni frá 1970, taldi Hæstiréttur að G hafi verið heimilt að ráðstafa eignunum með þeim hætti sem hún gerði í erfðaskránni frá 1993. Var því kveðið á um að við skipti á dánarbúi G skyldi erfðaskrá hennar frá 1993 lögð til grundvallar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2014 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að við skipti á dánarbúi G skuli lögð til grundvallar sameiginleg erfðaskrá hennar og H frá 8. september 1970. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að við skipti á dánarbúinu verði lögð til grundvallar erfðaskrá G frá 20. desember 1993. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er vakin athygli á því að í hinum kærða úrskurði sé tilgreining varnaraðila sem niðja H ekki tæmandi en jafnframt tekið fram að það komi ekki að sök við úrlausn málsins.

Í hinum kærða úrskurði er rakið meginmál sameiginlegrar og gagnkvæmrar erfðaskrár sem H og G gerðu 8. september 1970. Jafnframt er þar rakið meginmál þeirrar erfðaskrár er G gerði 20. desember 1993. Af því sem þar kemur fram um efni erfðaskrárinnar 8. september 1970 er ljóst að heimild langlífari maka til að ráðstafa þeim eignum, sem hann fékk með þeirri erfðaskrá, var ekki takmörkuð með erfðasamningi á þann hátt að slík ráðstöfun gæti ekki gerst með dánargjafagerningum eða erfðaskrá. Með þeim erfðasamningi sem fólst í ákvæðum sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskrárinnar 8. september 1970 var því ekki girt fyrir að annað hjónanna gæti, án atbeina hins, ráðstafað eignunum með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum 19. og 20. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Samkvæmt þessu og að því gættu að í erfðaskránni 20. desember 1993 var tekið fram að hún hróflaði á engan hátt við gagnkvæmu erfðaskránni frá 8. september 1970 gat G ráðstafað eignunum með þeim hætti sem hún gerði í erfðaskránni 20. desember 1993. Er því fallist á með sóknaraðila að við skipti á dánarbúi G verði erfðaskrá hennar frá 20. desember 1993 lögð til grundvallar.

Rétt er að málskostnaður í héraði falli niður en eftir framangreindum úrslitum verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Við skipti á dánarbúi G skal erfðaskrá hennar frá 20. desember 1993 lögð til grundvallar.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Varnaraðilar, B, C, D, E og F, greiði óskipt sóknaraðila, A, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2014.

I

                Mál þetta, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 20. desember 2013, var tekið til úrskurðar 8. september 2014 að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðilar eru B, [...], [...], C, [...], [...], D, [...], [...], E, [...], [...] og F, [...], [...].

                Varnaraðili er A, [...], [...], [...].

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að erfðaskrá G, dagsett 20. desember 1993, verði metin ógild og að erfðaskrá hennar og H 8. september 1970 verði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi G. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að erfðarskrá G, dagsett 20. desember 1993, verði metin gild og að hún verði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi hennar. Þá er gerð krafa um málskostnað, sameiginlega (in soldium) úr hendi sóknaraðila.

                                                                                              II

Málvextir

G, var fædd [...]. Þegar hún lést, [...] 2013, sat hún í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, H, sem lést [...] 1993. Hann var fæddur [...]. Þann 8. september 1970 gerðu hjónin sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá. Í meginmáli hennar eru meðal annars eftirfarandi ákvæði:

  1. Hvort okkar, sem lifir hitt, skal erfa það, er fyrr læzt, að öllum eignum þess, föstum og lausum, hverju nafni sem nefnast, svo sem lög framast leyfa, sbr. 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en ég, H, á niðja á lífi.  Ég, G, á hins vegar enga niðja á lífi.
  2. Það er vilji okkar, að G fái að sitja í óskiptu búi, fari svo, að hún lifi mig, H.
  3. Eftir lát þess okkar, sem lengur lifir, skal búinu skipt að jöfnu milli niðja H eftir almennum fyrirmælum laga.

Eftir andlát H fékk G leyfi til setu í óskiptu búi frá sýslumanni [...] 1993. Var leyfið veitt á grundvelli framangreinds ákvæðis í 2. gr. erfðaskrárinnar, án þess að leita þyrfti samþykki niðja H, sbr. 3. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 48/1989. Hinn 20. desember 1993 gerði G nýja erfðaskrá. Í henni er meðal annars að finna eftirfarandi ákvæði:

  1. gr.

Ég sit samkvæmt leyfi sýslumannsins í [...] í óskiptu búi eftir eiginmann minn H, kt. [...], sem síðast átti heimili að [...], [...] og lést [...] 1993. Leyfið er útgefið [...] 1993. H eignaðist þrjú börn með fyrri konu sinni, sem öll eru á lífi.

  1. gr.

Allar eignir mínar, hverju nafni sem nefnast, fastar og lausar, skulu eftir að skuldir hafa verið greiddar renna óskiptar til A, [...], [...]. Skal peningalegu andvirði þeirra varið til uppgræðslu lands samkvæmt nánari ákvörðun A.

  1. gr.

Erfðaskrá þessi hróflar á engan hátt við gagnkvæmri erfðaskrá minni og H, sem dagsett er í september 1970.

Dánarbú G var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2012. Með bréfi sem móttekið var 23. desember 2013 vísaði skiptastjóri búsins ágreiningi málsaðila um gildi erfðaskrár G frá 20. desember 1993 til héraðsdóms, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar eru niðjar H.

                                                                                              III

Málsástæður sóknaraðila

                Krafa sóknaraðila um að erfðaskrá G frá 20. desember 1993, verði metin ógild er á því reist að sameiginleg og gagnkvæm erfðaskrá verði ekki afturkölluð nema því aðeins að afturköllunin sé gerð kunn hinum aðilanum nema því aðeins að slíkt sé ekki unnt vegna sérstakra ástæðna. Um þetta séu skýr fyrirmæli í 2. mgr. 48. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Síðari erfðaskrá G fari augljóslega í bága við arfleiðsluna í sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskránni og beri þess vegna að ógilda hana. Hin sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá hjónanna innihaldi samning milli þeirra sem aldrei hafi verið löglega afturkallaður eða felldur úr gildi. Ljóst sé að G hafi ekki afturkallað sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskrána fyrir sitt leyti meðan H var á lífi, því að hún hafi neytt heimildar til setu í óskiptu búi á grundvelli þeirrar erfðaskrár eftir lát hans. Ef hún hefði viljað afturkalla skrána meðan H var á lífi, hefði hann að sjálfsögðu getað gert annars konar ráðstafanir fyrir sitt leyti, en til þess hafi ekki komið. Með því að fá útgefið leyfi til setu í óskiptu búi á grundvelli erfðaskrárinnar hafi hún fengið full eignaráð allra eigna beggja hjónanna og haldið þeim eignaráðum allt til andláts síns. Hún hafi þannig nýtt sjálf til fulls þau réttindi sem hún hafði samið um við eiginmann sinn við gerð erfðaskrárinnar.

Sóknaraðilar telja enn fremur ljóst að G hafi litið svo á að hún hafi ekki afturkallað sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskrána, því að hún árétti gildi hennar í erfðaskránni 20. desember 1993 og lýsi yfir að sú erfðaskrá „hróflar á engan hátt við“ eldri skránni. Síðari skráin fari þó augljóslega í bága við efni 3. greinar sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskrárinnar. Við blasi að G hafi sjálf talið, ranglega, að henni væri heimilt að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá eftir andlát eiginmanns síns án tillits til samningsins sem hún hafði gert við hann og birtist í sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskrá þeirra hjóna. Telja sóknaraðilar að hér eigi 38. gr. erfðalaga við og að erfðaskrá G beri einnig af þeirri ástæðu að meta ógilda.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili vísar til þess að hin sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá G og H frá 8. október 1970 hafi verið gild að efni til og tekið til nokkurra atriða er skoða verði nánar, m.a. í ljósi þess lagaumhverfis sem gilt hafi á þeim tíma. Fyrsta ákvæði erfðaskrárinnar kveði á um það að það hjónanna sem lifir hitt skuli erfa það er fyrr fellur frá, svo sem lög framast leyfa, vísað er til 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962 auk þess sem tekið er fram að H eigi niðja á lífi en G ekki. Á þeim tíma hafi verið kveðið á um það í 1. mgr. 3. gr. erfðalaga að foreldrar hins láta, væru þeir á lífi, tækju arf á móti maka hins látna. Ekkert liggi fyrir í málinu um það hvort foreldrar G hafi verið á lífi árið 1970. Hafi svo verið sé ákvæðið augljóslega ekki einungis sett til hagsbóta fyrir hana heldur þá einnig til þess að tryggja það að H yrði einkaerfingi hennar ef til þess kæmi að hún létist á undan honum. Þá hafi árið 1970 ekki verið að finna heimild í erfðalögum um rétt stjúpforeldris til setu í óskiptu búi eftir maka sinn ef stjúpbörn settu sig upp á móti því. Í því ljósi verði að skoða 1. og 2. gr. hinnar sameiginlegu erfðaskrár. Þannig megi því halda fram að 1. gr. erfðaskrárinnar um að hvort það sem lengur lifi skuli erfa hitt eins og lög framast leyfa, sbr. 35. gr. erfðalaga, sé til þess fallið að tryggja G sem mestan hlut í búinu færi svo að stjúpniðjar hennar legðust gegn setu hennar í óskiptu búi. Þrátt fyrir að framangreint bendi til þess að erfðaskrá hjónanna frá 1970 hafi fyrst og fremst verið gerð til þess að tryggja rétt langlífari maka sé með henni alls ekki gengið á lögbundinn erfðarétt niðja H. Hvort tveggja séu það lagaákvæði í erfðalögum, sem og ákvæði í 3. gr. erfðaskrárinnar frá 1970, sem tryggi þeim a.m.k. hluta af föðurarfi sínum. Nú þegar komið sé að skiptum í dánarbúi G munu sóknaraðilar þannig fá helming eigna búsins ef fallist verður á kröfur varnaraðila. Hefði komið til skipta á fyrri stigum, t.d. við fráfall H eða þá að G hefði óskað eftir skiptum síðar, hefðu sóknaraðilar fengið mun minna.

Varnaraðili vísar til þess að ef ekki hefði komið til þess að G gerði nýja erfðaskrá hefði allt búið gengið til niðja H, sbr. 3. gr. erfðaskrár hjónanna frá 1970. Með gerð hinnar nýju erfðaskrár sé augljóst að hún vildi að eigur sínar gengju til annarra aðila eftir sinn dag. Megi gera ráð fyrir því að á þeim 23 árum sem liðið hafi á milli gerðar erfðaskránna hafi breytingar orðið á högum og hugsun G. Það sé óþarft að sýna fram á einhverja sérstaka ástæðu þess að hún hafi breytt erfðaskránni enda sé mönnum almennt frjálst að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá, innan marka laga, án sérstakra útskýringa eða afsakana. Það megi reyndar geta sér til um að G hafi látið sér annt um Ísland og viljað stuðla að bættum landgæðum enda ákvæði í erfðaskrá hennar frá 1993 um að peningalegu andvirði eigna hennar skuli varið til uppgræðslu lands. Horfa verði til þeirrar meginreglu erfðaréttar að arfleifanda sé almennt heimilt að kveða á um ráðstöfun eigna sinna þannig að um sé að ræða hinsta vilja hans. Þannig skuli við túlkun og skýringu á öllum atriðum leggja áherslu á að þessi vilji arfleifanda megi ná fram að ganga. Heimildir til breytinga á erfðaskrá skuli skoða með þetta í huga, sem og þegar erfðaskrá er skýrð ein og sér eða tvær (eða fleiri) erfðaskrár eru lesnar saman.

                Varnaraðili vísar til þess að það sé í raun afsprengi þeirrar meginreglu, að arfleifanda skuli almennt heimilt að gera erfðaskrá þar sem leitast skuli við að ná fram hinum hinsta vilja, að arfleifanda skuli almennt heimilt að breyta, auka við eða afturkalla erfðaskrá sem hann hefur þegar gert. Erfðaskráin frá 8. september 1970 geymi engin ákvæði um að henni megi ekki breyta eða afturkalla. Hefði svo verið megi ætla að G hefði ekki getað breytt arfleiðsluvilja sínum árið 1993 eftir lát eiginmanns síns. Engin skuldbinding hafi verið gefin um að breyta ekki eða afturkalla ekki erfðaskrána og þar með ljóst að 49. gr. erfðalaga geti ekki átt við í málinu.

Vegna tilvísunar sóknaraðila til 2. mgr. 48. gr. erfðalaga bendir varnaraðili á að í 2. málsl. ákvæðisins komi fram að ef erfðaskrá er sameiginleg eða gagnkvæm, sé afturköllun því aðeins gild, að hún sé gerð hinum aðiljanum kunn, nema slíkt sé ekki unnt vegna sérstakra ástæðna. Þegar G hafi gert seinni erfðaskrá sína hafi ekki verið möguleiki fyrir hana að gera hinum aðiljanum það kunnugt enda slíkt ekki unnt vegna sérstakra ástæðna, þ.e. hann hafi þá þegar verið látinn. Í ljósi aðstæðna allra þann 20. desember 1993 sé því ljóst að henni hafi verið heimilt að breyta fyrri erfðaráðstöfun sinni kysi hún svo. Þá telur varnaraðili að 3. gr. erfðaskrár G, um að sú skrá hrófli á engan hátt við gagnkvæmri erfðaskrá hennar og H, verði að skilja á þann hátt að hún hrófli ekki við henni á annan hátt eða meiri en fram komi í þeirri nýju erfðaskrá og lög leyfi. Hér sé verið að árétta það atriði er gilt hefði hvort sem væri, um að niðjar H eigi rétt á þeim hluta er honum tilheyri í hinu óskipta búi.

Varnaraðili hafnar því að 38. gr. erfðalaga eigi við. Ekki hafi verið um nokkurn misskilning um erfðaskrárákvæði að ræða eða misskilning um heimildir til ráðstöfunar með nýrri erfðaskrá yfirhöfuð.

                                                                                              IV

Niðurstaða

                Í máli þessu er deilt um gildi erfðaskrár sem G gerði 20. desember 1993. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu hafði hún áður gert sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá 8. september 1970 með eiginmanni sínum, H. Í þeirri erfðaskrá er meðal annars mælt fyrir um að það hjónanna sem lifi hitt, skuli erfa það, er fyrr fellur frá að öllum eignum þess. Er þess getið að H eigi niðja á lífi en G eigi hins vegar enga niðja á lífi. Þá kemur fram að það sé vilji þeirra, að G fengi að sitja í óskiptu búi, færi svo, að hún lifði H. Eftir lát þess hjóna sem lengur lifði skyldi búinu skipt að jöfnu milli niðja H. Er hin sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá var gerð var réttur hjóna til arfs eftir hvort annað og réttur til setu í óskiptu búi takmarkaðri en samkvæmt núgildandi erfðalögum. Þannig var í 3. tl. 1. gr. erfðalaga mælt fyrir að foreldar maka tækju arf á móti eftirlifandi maka ef hinn látni lét ekki eftir sig niðja. Enn fremur var ekki til staðar réttur maka til setu í óskiptu búi með fjárráða stjúpniðjum án þeirra samþykkis, sbr. 8. gr. laganna. Ekkert liggur fyrr um hvort G, sem fædd var í [...], hafi átt foreldra á lífi er hjónin gerðu erfðaskrána 1970. Hins vegar átti H niðja og má ráða að með erfðaskránni hafi þau ætlað að tryggja, eins og unnt væri, að þeir myndu samþykkja að G sæti í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, félli hann frá á undan henni. Að öðrum kosti hefði hún fengið stærstan hluta dánarbúsins í sinn hlut.

                H andaðist þann [...] 1993 og var G veitt leyfi sýslumanns til setu í óskiptu búi [...] 1993. Um samþykki niðja hins látna fyrir setu í óskiptu búi var vísað til hinnar sameiginlegu og gagnkvæmu erfðarskrár hjónanna frá 1970. Ákvæði 8. gr. erfðalaga hafði þá verið breytt með 3. gr. laga nr. 48/1989 þar sem kveðið er á um að það hjóna sem lengur lifir, eigi rétt á setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum án þess að aflað sé samþykkis þeirra ef hið látna hefur mælt fyrir um þann rétt í erfðaskrá. Kom því ekki til þess að sýslumaður þyrfti að leita eftir leyfi frá niðjum H líkt og þurft hefði hefði hann fallið frá fyrir gildistöku laga nr. 48/1989. Skömmu eftir að G var veitt búsetuleyfið, eða þann 20. desember 1993, gerði hún nýja erfðaskrá þar sem fram kemur að eignir hennar skyldu að henni látinni renna óskiptar til varnaraðila. Tekið er fram í erfðaskránni að hún sitji í óskiptu búi eftir eiginmann sinn H og að erfðaskráin hrófli á engan hátt við gagnkvæmri erfðaskrá þeirri frá september 1970.

Það er meginregla í erfðarétti að arfleifandi hefur heimild til að afturkalla erfðaskrá sína, breyta henni eða bæta að vild. Í sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá G og H er ekki að finna ákvæði þess efnis að hvorugt hjónanna geti breytt eða afturkallað erfðaskrána án samþykkis hins. Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. erfðalaga er afturköllun sameiginlegrar eða gagnkvæmrar erfðaskrár hins vegar aðeins gild að hún sé gerð kunn hinum aðilanum, nema því aðeins að slíkt sé ekki unnt vegna sérstakra ástæðna. Síðari erfðaskrá G fer augljóslega í bága við ákvæði 3. gr. í sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskránni þar sem kveðið var á um að búinu skyldi, eftir lát beggja hjónanna, skipt að jöfnu milli niðja H eftir almennum fyrirmælum laga. Verður því að líta svo á að G hafi, með gerð hinnar nýju erfðaskrár, í verki afturkallað ákvæði 3. gr. erfðaskrárinnar frá 1970. Breytir engu í því samhengi þótt í texta hinnar nýju erfðaskrár komi fram að hún hrófli á engan hátt við þeirri erfðaskrá enda fær sú staðhæfing ekki staðist þar sem varnaraðilar voru með hinni nýju erfðaskrá sviptir arfsrétti sínum eftir G sem hún og H höfðu áður mælt fyrir um. Með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 48. gr. erfðalaga verður að telja að sú ráðstöfun hafi ekki verið gild. Dómurinn getur ekki fallist á það með varnaraðila að sú staðreynd að H hafi verið látinn, er afturköllunin átti sér stað, teljist vera sérstakar ástæður í skilningi ákvæðisins enda myndi slík lagatúlkun fela í sér að gildi sameiginlegrar og gagnkvæmrar erfðaskrár væri afar takmarkað. Sjónarmið varnaraðila, að horfa beri til lagaumhverfis við gerð erfðaskrárinnar frá 1970 eða til vilja G fá heldur ekki breytt þessari niðurstöðu.

 Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að G hafi ekki verið heimilt að afturkalla ráðstafanir sem gerðar voru í 3. gr. sameiginlegrar og gagnkvæmrar erfðaskrá hennar og eiginmanns hennar, H, 8. september 1970, með nýrri erfðaskrá 20. desember 1993. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að fyrrnefnda erfðaskráin verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi hennar.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðilum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

         Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Erfðaskrá G og H frá 8. september 1970 skal lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi G.

Varnaraðili, A, greiði sóknaraðilum, B, C, D, E og F, 300.000 krónur í málskostnað.