Hæstiréttur íslands
Mál nr. 770/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Þinghald
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn
1. desember 2014. |
|
Nr.
770/2014. |
Ákæruvaldið (enginn) gegn X (Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Þinghald. Frávísunarúrskurður felldur
úr gildi.
Ríkissaksóknari höfðaði mál gegn X fyrir kynferðisbrot með því að hafa
keypt vændi, sbr. 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómari ákvað
að öll þinghöld í málinu skyldu vera lokuð. I krafðist þess sem blaðamaður og
ritstjóri að héraðsdómari úrskurðaði um framangreinda ákvörðun sína, sbr. 2.
mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í héraði var kröfu I vísað
frá á þeim grundvelli að þeir hagsmunir sem hann byggði aðild sína á væru ekki
fullnægjandi til aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008.
Hæstiréttur vísaði til þess að í dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2000 í máli nr. 407/2000 hefði verið fallist á að
fréttamenn gætu átt aðild að kröfu samkvæmt lagaákvæðinu. Að virtum þeim dómi
yrði að telja að héraðsdómi hefði borið að leysa efnislega úr kröfu I. Var hinn
kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu I
til efnislegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason
og Helgi I. Jónsson.
Kærandi, Ingimar Karl Helgason, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20.
nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður
er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2014, þar sem vísað var frá
dómi kröfu kæranda um að þinghöld í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila fari
fram í heyranda hljóði. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kærandi krefst þess að hinn kærði
úrskurður verði felldur úr gildi og að kærumálskostnaður verði greiddur úr
ríkissjóði.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti,
en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst
hann kærumálskostnaðar úr hendi kæranda, er renni í ríkissjóð.
I
Kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti byggir varnaraðili á því
að kæra hafi ekki borist innan kærufrests, en í kærunni komi ekki fram að kært
sé innan hans. Í bréfi frá héraðsdómi sem fylgdi kæru til Hæstaréttar kemur
fram að kærandi hafi fengið vitneskju um úrskurðinn 17. nóvember 2014 og kæra borist
dóminum 20. sama mánaðar. Barst kæran því innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 193.
gr. laga nr. 88/2008.
Þá vísar varnaraðili til þess að kæran uppfylli ekki skilyrði 193. gr.
laga nr. 88/2008 þar sem kærandi geri hvorki grein fyrir ástæðum sem kæran sé
reist á né lögvörðum hagsmunum sínum. Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laganna skal í
skriflegri kæru til héraðsdómara meðal annars greint frá þeim ástæðum sem kæran
er reist á. Í kæru til Hæstaréttar er vísað til þess hverjar ástæður hann telur
að baki því að fella eigi frávísunarúrskurð héraðsdóms úr gildi. Samkvæmt þessu
verður frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.
II
Svo sem nánar er gerð grein fyrir í hinum kærða úrskurði ákvað
héraðsdómari við útgáfu fyrirkalls að þinghald til þingfestingar málsins yrði
lokað, svo og öll þinghöld eftir það, og var sú ákvörðun færð til bókar í því
þinghaldi með vísan til a. og d. liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Við
þingfestinguna var lagt fram ódagsett bréf kæranda, þar sem þess var krafist að
„formlegur úrskurður verði kveðinn upp um lokað þinghald í réttarhöldum yfir
grunuðum vændiskaupanda í máli nr. S-[...]/2014, ... svo hægt sé að láta reyna
á réttmæti þeirrar ákvörðunar fyrir æðra dómstigi. Setur undirritaður
fyrrgreinda kröfu fram sem blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs“.
Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp eftir að málsaðilum hafði verið
gefinn kostur á að tjá sig um kröfu kæranda. Var frávísun á kröfu hans reist á
því að þeir hagsmunir, sem hann byggði aðild sína á, væru ekki fullnægjandi til
aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Í kæru sinni til
Hæstaréttar vísar kærandi um aðild til umræddrar lagagreinar og gerir grein
fyrir henni á sama hátt og í áðurgreindu bréfi til héraðsdóms.
Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um þá meginreglu að
þinghald skuli háð í heyranda hljóði, en dómari geti þó í nánar tilgreindum
tilvikum ákveðið að það skuli fara fram fyrir luktum dyrum. Þá segir í 2. mgr.
10. gr. að sá sem sætti sig ekki við ákvörðun dómara um að þinghald skuli vera
lokað geti krafist þess að hann kveði upp úrskurð um þá ákvörðun sína. Í dómi
Hæstaréttar 13. nóvember 2000 í máli nr. 407/2000, sem birtur er í dómasafni
réttarins það ár á bls. 3697 var fallist á að fréttamenn geti átt aðild að
slíkri kröfu. Að virtum þeim dómi verður að telja að héraðsdómi hafi borið að
leysa efnislega úr kröfu kæranda. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr
gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu hans til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka
kröfu kæranda, Ingimars Karls Helgasonar, um að þinghöld í málinu skuli háð í
heyranda hljóði, til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14.
nóvember 2014.
Með ódagsettu bréfi, en mótteknu 11.
nóvember sl., krafðist Ingimar Karl Helgason, blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs, þess að
„formlegur úrskurður verði kveðinn upp um lokað þinghald í réttarhöldum yfir
grunuðum vændiskaupanda í máli nr. S-[...]/2014, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur,
svo hægt sé að láta reyna á réttmæti þeirrar ákvörðunar fyrir æðra dómstigi“,
eins og þar segir. Tekur bréfritari fram að hann setji kröfu sína fram sem
blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur
vikublaðs með vísan til dómaframkvæmdar, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr.
407/2000.
Í
umræddu máli er ákærða gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa keypt vændi
og er það talið varða við 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Við útgáfu
fyrirkalls ákvað dómari að þinghald til þingfestingar málsins yrði lokað, svo
og öll þinghöld eftir það. Við þingfestingu málsins var sú ákvörðun færð til
bókar með vísan til a. og d. liða 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð
sakamála. Í tilvitnuðum ákvæðum er að finna undantekningar frá þeirri
meginreglu íslensks réttarfars að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði. Eru
undantekningar þessar settar til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni
þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar, svo og ef telja má að nauðsyn beri
til vegna velsæmis.
Krafa
bréfritara byggist á því að rökstuðningur fyrir því að loka þinghaldi í málum
yfir vændiskaupendum sé ekki sannfærandi og, að því er honum virðist, til þess
eins að gæta nafnleyndar meintra gerenda. Telur hann vandséð að vændiskaupendur
eigi að njóta meiri friðhelgi en aðrir meintir brotamenn, svo sem í
líkamsárásarmálum eða fíkniefnamálum. Kröfu sinni til stuðnings vísar hann til
Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Samkvæmt
2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 getur sá sem ekki sættir sig við ákvörðun
dómara um að þinghöld í máli skuli vera lokuð krafist þess að hann kveði upp
úrskurð um þá ákvörðun. Hefur verið talið að sá sem krefst úrskurðar dómara
verði í þeim tilvikum að eiga lögvarða hagsmuni af sakarefni málsins, sbr. dóma
Hæstaréttar í málunum nr. 355/2010 365/2010, sem kveðnir voru upp 18. júní
2010. Eins og fyrr greinir setur bréfritari kröfu þessa fram sem blaðamaður og
ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs. Af
þeim orðum má draga þá ályktun að hann telji að mál þetta sé þess eðlis að það
eigi erindi við almenning í opinberri umfjöllun í nefndu vikublaði, og hafi
hann af þeirri ástæðu áhuga á að fylgjast með rekstri þess. Að áliti dómsins,
svo og með hliðsjón af ofangreindum dómum Hæstaréttar 18. júní 2010, getur
slíkt þó ekki talist fullnægjandi til aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr.
laga nr. 88/2008. Er kröfunni því vísað frá dómi.
Ingimundur
Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu
Ingimars Karls Helgasonar um að þinghöld í málinu nr. S-[...]/2014 fari fram í
heyranda hljóði er vísað frá dómi.