Hæstiréttur íslands
Mál nr. 455/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 10. júlí 2015. |
|
Nr. 455/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á því stæði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. júlí 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. júlí nk. kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kröfuna byggir lögreglustjóri á a. lið 1. mgr. 95. gr. og b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kærði hafnar kröfunni og kvað enga rannsóknarhagsmuni vera fyrir hendi lengur.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar mál er varði framleiðslu, innflutning, sölu og dreifingu á sterkum fíkniefnum. Þann 30. júní sl. hafi lögreglan farið í húsleit að [...], heimili X, en þá hafi lögreglan haft í höndum upplýsingar um að X geymdi fíkniefni í sameign hússins. Við þá leit hafi fundist mikið magn af MDMA og peningar. Í kjölfar hafi lögreglan farið í húsleit í íbúð X og við þá leit hafi fundist upplýsingar um sendingu á sófa frá Rotterdam í Hollandi. Samskiptin í tölvunni hafi verið á nafni aðila að nafni Y en skjöl varðandi þessa sendingu hafi fundist í tölvu X á heimili hans. Lögreglan hafi farið að vöruhóteli [...] og kannað með umræddan sófa, en grunur lék á að í honum væru falin fíkniefni. Við skoðun á sófanum hafi komið í ljós að búið var að negla spónaplötu við bak hægra sætis sófans. Sófinn hafi verið gegnumlýstur og komið í ljós pakkningar sem innihéldu mikið magn af sterkum fíkniefnum.
Þá segir að X, Y og aðili að nafni Z hafi verið handteknir í kjölfarið og gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins, en þeir hafi verið grunaðir um að hafa staðið að ofangreindum innflutningi fíkniefna. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi Y og Z játað sök. Z kvaðst skulda X pening og að X hafi boðið honum að greiða skuldina með því að móttaka fíkniefnin. Z kvaðst hafa tekið því og þeir hafi fengið Y til að afhenda vegabréf sitt og þannig hafi þeir getað skráð hann sem móttakanda sófans. Framburði Z og Y ber saman um aðild þeirra að innflutningnum. X neitar sök. Hann kveðst ekki kannast við Y né Z. X kannast ekki við þau skjöl sem fundust í tölvu á heimili hans sem hafi að geyma upplýsingar um pöntun á sófa frá Rotterdam. X neiti því einnig að hafa átt þær MDMA töflur sem fundust í sameign á heimili hans. Nánar varðandi málsatvik og framburði kærðu er vísað í meðfylgjandi gögn.
Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa staðið í umfangsmikilli framleiðslu á MDMA töflum og innflutningi fíkniefna hingað til lands sem og sölu og dreifingu þessara efna hér á landi. Lögreglan kveðst hafa upplýsingar um að fleiri aðilar hafi staðið að framleiðslu efnanna sem og innflutningi þeirra hingað til lands og sé nauðsynlegt að hafa uppi á þeim einstaklingum sem og öðrum sem kunni að tengjast málinu. Lögreglan hafi óskað eftir aðstoð hollenskra yfirvalda við rannsókn málsins. Þá sé lögreglan að vinna í því að fara yfir þau gögn sem lagt hefur verið hald á í tengslum við rannsókn málsins. Lögreglan telji brýna nauðsyn á því að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, en það sé ljóst að ef kærði gangi laus þá geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann. Þá geti kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi ekki lagt hald á. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins. Þá lagði sækjandi fram upplýsingaskýrslu vegna húsleitar í geymslum á vegum kærða í gær, 7. júlí sl. þar sem áhöld til töflugerðar fundust ásamt öðrum hlutum tengdum fíkniefnum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, svo og rannsóknargagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Þá hafa tveir meðkærðu játað aðild sína að innflutningi fíkniefna, sem kærði er grunaður um aðild að, en kærði kveðst ekki kannast við þá aðila í skýrslutöku hjá lögreglu. Telur dómurinn að gangi kærði laus megi ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Er rannsókn nýrra upplýsinga skammt á veg komin. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina. Jafnframt er fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamál
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. júlí nk. kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.