Hæstiréttur íslands
Mál nr. 356/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Greiðsla
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2014. |
|
Nr. 356/2013. |
LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Euroclear Bank S.A. (Óttar Pálsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Greiðsla.
L hf. (áður LÍ hf.) krafðist þess að staðfest yrði með dómi riftun á greiðslu LÍ hf. á peningamarkaðsinnláni til E þann 7. október 2008 sem og að E yrði gert að endurgreiða fjárhæðina sem greidd var. Greiðslan fór fram eftir að Fjármálaeftirlitið hafði sett skilanefnd yfir L hf. Byggði L hf. kröfu sína á 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 441/2011 og 112/2012 hefði því verið slegið föstu að á tímabilinu 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hefði L hf. verið settur í aðstöðu, sem jafna mætti til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðarði þau atvik sem málin tóku til. Taldi Hæstiréttur einnig að leggja yrði stöðu skilanefndar, að því er varðaði þá ráðstöfun sem deilt var um í málinu, að jöfnu við ráðstöfun skiptastjóra í þrotabúi. Yrði riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum skiptastjóra, sem gerðar hefðu verið eftir upphaf gjaldþrotaskipta, en um heimildir hans færi samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laganna. Að sama skapi yrði þeim reglum ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum, sem hefðu verið gerðar af eða á ábyrgð skilanefndar sem skipuð var yfir L hf. 7. október 2008. Breytti engu þar um þótt ráðstöfun sú, sem riftunar var krafist á, hefði verið gerð fyrir lögákveðinn frestdag við slitameðferð bankans. Þegar af þessari ástæðu var niðurstaða héraðsdóms um sýknu E staðfest.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2013. Hann krefst þess að „staðfest verði með dómi riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. á peningamarkaðsinnláni“ að fjárhæð 3.301.420.833 krónur til stefnda 7. október 2008, svo og að stefnda verði gert að greiða sér þá fjárhæð með vöxtum, aðallega samkvæmt 8. gr. en til vara 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 7. október 2008 til 30. september 2011 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt málatilbúnaði aðila hafði Landsbanki Íslands hf., sem nú ber heiti áfrýjanda, um árabil veitt stefnda, sem áfrýjandi kveður vera stærstu alþjóðlegu verðbréfaskráninguna í heimi og hafa meðal annars farið með vörslur rafrænt skráðra skuldabréfa áfrýjanda, þjónustu sem uppgjörsbanki fyrir færslur í íslenskum krónum milli stefnda og viðskiptamanna hans og munu þær hafa farið gegnum innlánsreikning hans hjá áfrýjanda. Stefndi kveðst í september og fram í október 2008 jafnframt hafa daglega lagt inn hjá áfrýjanda svonefnd peningamarkaðsinnlán, sem hverju sinni hafi verið á bilinu frá 200.000.000 til 6.000.000.000 krónur, en þetta hafi undantekningalaust verið gert á þann hátt að innlánin hafi verið á gjalddaga næsta dag. Slík viðskipti hafi áður verið milli aðilanna árum saman og ávallt staðfest með rafrænum orðsendingum án þess að frekari skriflegir samningar væru gerðir.
Að morgni 29. september 2008 var greint frá því opinberlega að vegna fjárhagsörðugleika hafi Glitnir banki hf. skömmu áður leitað eftir fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands, en þetta hafi leitt til þess að fyrrnefnda bankanum hafi verið boðið hlutafjárframlag úr ríkissjóði að fjárhæð 600.000.000 evrur gegn 75% eignarhluta í honum og hafi stjórn félagsins og helstu hluthafar samþykkt það boð. Í héraðsdómsstefnu kveður áfrýjandi stjórn Landsbanka Íslands hf. hafa haldið fund sama dag og hafi þar verið rætt um að þessi „ákvörðun ríkisins hafi haft neikvæð áhrif á eigið fé“ félagsins, svo og að leita yrði „allra skynsamlegra leiða til þess að treysta og styrkja eiginfjárstöðu bankans“, en samkvæmt þessu hafi legið fyrir á því tímamarki að bankinn „uppfyllti ekki kröfur sem til hans voru gerðar um stöðu eiginfjárgrunns“. Eftir gögnum málsins lét áfrýjandi þó sama dag frá sér fara fréttatilkynningu af þessu tilefni, þar sem lýst var jákvæðri afstöðu til fyrrgreindrar ráðstöfunar vegna Glitnis banka hf. og tekið fram að áfrýjandi væri í sterkri stöðu vegna umfangs innstæðna viðskiptamanna, greiðslubyrði væri létt af skuldum hans á gjalddaga fram til miðs árs 2009 og greiðslugeta traust, enda næmi andvirði auðseljanlegra eigna hans um 8.000.000.000 evrum. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda krafðist fjármálaeftirlitið í Bretlandi þess 3. október 2008 að hann legði 400.000.000 sterlingspund á reikning við Englandsbanka ekki síðar en að morgni 6. sama mánaðar sem varasjóð vegna innlánsreikninga í útibúi áfrýjanda þar í landi. Seðlabanki Evrópu hafi samhliða þessu tilkynnt áfrýjanda um breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum milli þeirra, sem hafi aukið þörf hans á lausafé um 400.000.000 evrur. Þótt breska fjármálaeftirlitið hafi 5. október 2008 lækkað kröfu sína um framlag frá áfrýjanda í varasjóð í 200.000.000 sterlingspund hafi hann ekki fengið við þetta ráðið og því leitað eftir aðstoð Seðlabanka Íslands, sem neitað hafi verið um.
Að morgni 6. október 2008 gaf ríkisstjórnin út svofellda yfirlýsingu: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“ Forsætisráðherra flutti ávarp sama dag klukkan 16, þar sem greint var frá stórfelldum örðugleikum, sem íslenskir viðskiptabankar stæðu frammi fyrir, og boðað að flutt yrði á Alþingi frumvarp til laga, sem myndi gera ríkinu kleift að bregðast við ástandi á fjármálamörkuðum. Eftir gögnum málsins virðist stefndi hafa klukkan 16.49 þennan dag beint boði til áfrýjanda um að veita honum peningamarkaðsinnlán að fjárhæð 3.300.000.000 krónur, sem bæri 15,5% ársvexti og væri á gjalddaga degi síðar, en vextir yrðu samkvæmt því að fjárhæð 1.420.833 krónur. Svo virðist sem áfrýjandi hafi samþykkt þetta boð skömmu síðar. Að kvöldi sama dags var frumvarp, sem forsætisráðherra hafði boðað í áðurnefndu ávarpi að flutt yrði, samþykkt sem lög nr. 125/2008 og leiddu þau meðal annars til breytinga á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Á grundvelli 100. gr. a. síðarnefndu laganna, sbr. 5. gr. þeirra fyrrnefndu, ákvað Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í fréttatilkynningu, sem áfrýjandi sendi frá sér í framhaldi af þessu, kom fram að það væri markmið skilanefndar að tryggja að viðskiptabankastarfsemi hans héldi áfram og hafi hann ekki verið tekinn til slita þótt hann nyti vegna þessarar ráðstöfunar verndar fyrir fullnustugerðum lánardrottna. Áfrýjandi sendi eintak af þessari tilkynningu til stefnda laust eftir hádegi þennan dag. Áður en dagur þessi var á enda endurgreiddi áfrýjandi fyrrgreint peningamarkaðsinnlán með því að leggja 3.301.420.833 krónur inn á reikning stefnda hjá sér.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var nánar tilgreindum eignum og skuldbindingum áfrýjanda ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú heitir Landsbankinn hf., og tók hann frá þeim tíma yfir starfsemi áfrýjanda, sem þessu tengdist. Meðal eigna, sem fluttar voru á þennan hátt frá áfrýjanda, voru kröfuréttindi hans og allt reiðufé, en um skuldbindingar, sem nýi bankinn tók við, sagði meðal annars eftirfarandi í ákvörðuninni: „Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum ... Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals“. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2008 til áfrýjanda kom fram að stjórn þess hafi „tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. ... hafa á ... svokölluð peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum ... Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins í dag var ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til ... Nýja Landsbanka Íslands hf. ... Er því beint til endurskoðenda sem annast endanlegan frágang stofnefnahagsreikninga að huga sérstaklega að þessu og jafnframt að skilanefndir og stjórnir félaganna vinni eftir því sama þar sem mikilvægt er að um samræmi sé að ræða við framkvæmd málsins.“ Í öðru bréfi Fjármálaeftirlitsins 21. sama mánaðar var þessi afstaða ítrekuð og hún rökstudd.
Með lögum nr. 129/2008 var aftur breytt lögum nr. 161/2002 og á grundvelli þeirra var áfrýjanda veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008. Í breytingalögunum var einnig kveðið á um að í þeim fjármálafyrirtækjum, sem Fjármálaeftirlitið hafði sett skilanefnd yfir, skyldi frestdagur miðast við gildistöku breytingalaganna, sem var 15. nóvember 2008. Með lögum nr. 44/2009 voru enn gerðar breytingar á ýmsum ákvæðum laga nr. 161/2002. Við þá breytingu var áfrýjandi, sem naut ennþá heimildar til greiðslustöðvunar, tekinn til slita, en um þá meðferð voru sett sérstök ákvæði í síðastnefndu lögin. Var þar einkum mælt fyrir um að reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skyldu gilda meðal annars um lýsingu og meðferð krafna, svo og að um slitastjórn, störf hennar og þá menn, sem ættu sæti í henni, skyldu gilda reglur laganna um skiptastjóra. Upphaf slita skyldi miðast við 22. apríl 2009, en þann dag tóku lög nr. 44/2009 gildi.
Slitastjórn áfrýjanda tilkynnti stefnda með bréfi 15. ágúst 2011 að hún rifti framangreindri greiðslu til hans frá 7. október 2008 á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Skoraði hún á stefnda að greiða áfrýjanda 3.301.420.833 krónur með vöxtum, aðallega samkvæmt 8. gr. og til vara 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 7. október 2008 til greiðsludags. Með því að stefndi varð ekki við þeirri áskorun höfðaði áfrýjandi mál þetta 25. október 2011.
II
Samkvæmt framansögðu leitar áfrýjandi með máli þessu riftunar á þeirri ráðstöfun, sem hann kveður felast í því að peningamarkaðsinnlán stefnda til sín hafi verið greitt 7. október 2008 með því að fjárhæð þess ásamt umsömdum vöxtum hafi verið lögð inn á reikning stefnda hjá áfrýjanda. Verði riftunarkrafan tekin til greina krefst áfrýjandi þess jafnframt að stefnda verði gert að endurgreiða fjárhæðina, sem lögð var inn á reikning hans.
Með dómi Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011 var því slegið föstu að með ákvörðun Fjármálaeftirlitins 7. október 2008 og skipun skilanefndar yfir áfrýjanda, sem hafi farið með allar heimildir félagsins og öll málefni þess, þar á meðal haft umsjón með eignum og annast rekstur þess, hafi áfrýjandi verið settur í aðstöðu, sem jafna mætti til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar tilkall annarra til peninga í vörslum hans á grundvelli eignarréttinda. Hafi þessu ástandi fyrst lokið 22. apríl 2009 þegar lög nr. 44/2009 tóku gildi, en þá var áfrýjandi tekinn til slita eins og áður greinir. Með dómi Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 var framangreind aðstaða áfrýjanda á hinu tilgreinda tímabili áréttuð, en í málinu var leyst úr um skyldu áfrýjanda til að endurgreiða peninga, sem honum höfðu verið ofgreiddir í uppgjöri í lok október og byrjun nóvember 2008.
Skilanefndin, sem sett var yfir áfrýjanda, var skipuð í skjóli opinbers valds og var henni samkvæmt heiti sínu ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila hans. Verður að leggja stöðu skilanefndar að því er varðar þá ráðstöfun, sem áfrýjandi krefst riftunar á og var á ábyrgð nefndarinnar, að jöfnu við ráðstöfun skiptastjóra í þrotabúi. Reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun ráðstafana þrotamanns er ætlað að leiðrétta afturvirkt ráðstafanir þrotamanns, sem í raun hafa falið í sér mismunun milli lánardrottna hans. Er riftunarreglunum og reglum um endurgreiðslu við riftun ætlað að tryggja jafnræði kröfuhafa að því marki, sem unnt er að lögum, við gjaldþrotaskiptin og úthlutun úr þrotabúi. Eftir upphaf gjaldþrotaskipta gilda á hinn bóginn aðrar reglur um heimildir til að ráðstafa fjármunum þrotabús og fer skiptastjóri með þær heimildir, sbr. 1. mgr. 122. gr. laganna. Framangreindum riftunarreglum verður ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum skiptastjóra, sem gerðar hafa verið eftir upphaf gjaldþrotaskipta. Með sama hætti verður þeim reglum ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum, sem voru gerðar af eða á ábyrgð skilanefndar sem skipuð var yfir áfrýjanda 7. október 2008. Þótt frestdagur við slitameðferð áfrýjanda hafi eins og að framan greinir verið með lögum ákveðinn 15. nóvember 2008 og ráðstöfun sú, sem riftunar er krafist á, hafi því verið gerð fyrir þann dag, breytir það ekki framangreindri niðurstöðu. Verður stefndi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfum áfrýjanda. Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, LBI hf., greiði stefnda, Euroclear Bank S.A., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2013.
Mál þetta var höfðað 17. október 2011 og tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 5. febrúar 2013. Stefnandi er LBI hf.,áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndi er Euroclear Bank SA, Boulevard du Roi Albert II 1, Brussel, Belgíu.
Stefnandi krefst þess aðallega „að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. á peningamarkaðsinnláni að fjárhæð kr. 3.301.420.833 til stefnda þann 7. október 2008“. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmt til þess að greiða stefnanda sömu fjárhæð með vöxtum skv. 8. gr. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. október 2008 til 30. september 2011 en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að á fjárkröfuna reiknist vextir skv. 4. gr. nr. 38/2001 frá 7. október 2008 til 30. september 2011 en með dráttarvöxtum skv. 6. gr . laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Málsatvik
Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í stefnanda, sem þá hét Landsbanki Íslands hf., 7. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Fór hún samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., með allar heimildir stjórnar og málefni stefnanda, þar á meðal með rekstur hans og umsjón eigna. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var meðal annars birt á fréttaveitu Reuters kl. 9:40 umræddan dag. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var innlend starfsemi stefnanda flutt yfir til Nýja Landsbankans hf. sem hafði verið stofnaður sérstaklega í þessu skyni. Um svipað leyti var á vef stefnanda birt tilkynning þar sem lögð var áhersla á að stefnandi hefði ekki verið tekinn til gjaldþrotaskipta en hefði hins vegar verið settur undir umsjón skilanefndar og nyti tímabundinnar verndar gagnvart fullnustuúrræðum kröfuhafa.
Undanfari þessara aðgerða Fjármálaeftirlitsins var sú lausafjárkreppa sem hófst á fjármálamörkuðum upp úr miðju ári 2007 og leiddi meðal annars til alvarlegrar stöðu stefnanda þegar leið á árið 2008. Ríkisstjórn Íslands tilkynnti 29. september 2008 um yfirtöku ríkisins á 75% af hlutafé í Glitni banka hf. og hafði sú ákvörðun veruleg áhrif á möguleika annarra íslenskra banka til að afla lausafjár svo og á stöðu þeirra að öðru leyti, þ. á m. stöðu stefnanda. Á fundi bankaráðs stefnanda 29. september 2008 var rætt um ákvörðun ríkisins og að leita þyrfti allra skynsamlegra leiða til þess að treysta og styrkja eiginfjárstöðu bankans. Segir í stefnu að á þessu tímamarki hafi legið fyrir að stefnandi uppfyllti ekki kröfur sem til hans voru gerðar um stöðu eiginfjárgrunns bankans.
Síðdegis 3. október 2008 gerði fjármálaeftirlitið í Bretlandi kröfu um að stefnandi greiddi Englandsbanka 400 milljónir sterlingspunda að morgni mánudagsins 6. október 2008 til þess að auka við varasjóð vegna svokallaðra Icesave reikninga í Bretlandi. Á sama tíma tilkynnti Seðlabanki Evrópu breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum við stefnanda. Samtals höfðu þessar breytingar í för með sér að lausafjárþörf stefnanda jókst um 800 milljónir evra. Á sunnudeginum 5. október 2008 lá fyrir að Seðlabanki Evrópu hafði frestað því að gera kröfu um umrædda innborgun en stóð hins vegar á því að lækka fyrirgreiðslu sína um þessa fjárhæð. Þurfti stefnandi af þessum sökum að leita fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands. Helgina 4. til 5. október 2008 jukust beiðnir um úttektir af Icesave reikningum stefnanda í Bretlandi og Hollandi verulega og reyndist ekki unnt að greiða út allar þær úttektir sem safnast höfðu mánudaginn 6. október 2008. Þann dag lá jafnframt fyrir að Seðlabanki Íslands væri ekki reiðubúinn að lána stefnanda þá fjármuni sem þurfti til að mæta kröfum breska fjármálaeftirlitsins. Segir í stefnu að stefnandi hafi því ekki getað staðið við skuldbindingar sínar á þessum degi og þannig verið ógjaldfær. Í gögnum málsins er einnig rakið ávarp forsætisráðherra 6. október 2008 og setning svokallaðra neyðarlaga, þ.e. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Svo sem fyrr segir var stefnanda skipuð skilanefnd á grundvelli laganna degi síðar eða 7. október 2008 og jafnframt var ákveðið að stofna nýjan banka, Nýja Landsbankann hf., í því skyni að taka yfir innlenda fjármálastarfsemi stefnanda.
A
Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu lék vafi um það, eftir yfirtöku stefnanda og uppskiptingu á eignum hans og skuldbindingum, hvort peningamarkaðsinnlán sem fjármálafyrirtæki lögðu inn í bankann skyldu flytjast til nýja bankans sem innlán, en í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 voru allar eignir stefnanda færðar til Nýja Landsbankans hf., að undanskildum tilteknum eignum í viðauka, þ. á m. allt reiðufé stefnanda og allar auðseljanlegar (e. liquid) eignir hans sem og allir gagnkvæmir samningar sem vörðuðu fasteignir og auðseljanlegar eignir. Þá voru tilteknar skuldbindingar færðar frá stefnanda til NBI, nánar tiltekið skuldbindingar samkvæmt innlánum í útibúum hér á landi, þar á meðal gagnvart fjármálafyrirtækjum og Seðlabanka Íslands, sbr. 7-8 gr. ákvörðunarinnar, auk annarra tiltekinna skuldbindinga, einkum ábyrgða, sbr. 9. gr. hennar. Í stefnu er greint frá því að sökum framangreinds vafa hafi peningamarkaðsinnlán stefnda svo og tiltekinna annarra fjármálafyrirtækja, verið greidd eftir að reglulegri starfsemi stefnanda lauk. Samkvæmt gögnum málsins nema þær fjárhæðir sem alls voru greiddar með þessum hætti rúmum 42 milljörðum króna. Segir í greinargerð stefnda að ekki verði annað ráðið en að peningamarkaðsinnlán hafi verið endurgreidd fjármálastofnunum allt til 19. nóvember 2008.
Með bréfi Fjármálaeftirlitsins til stefnanda 11. nóvember 2008 sagði eftirfarandi:
Samkvæmt ábendingu hefur stjórn Fjármálaeftirlitsins tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. hafa á tiltekna fjármögnun þesssar fyrirtækja, nánar tiltekið þegar um er að ræða svokölluð peningarmarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum. Aflað hefur verið ýmissa gagna frá bönkunum og endurskoðendum þeirra um meðferð þessarar fjármögnunar á starfsemi bankanna. Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins í dag var ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.) og Nýja Kaupþings banka hf. með þeim ákvörðunum sem um ræðir. Er því beint til endurskoðenda sem annast endanlegan frágang stofnefnahagsreikninga að huga sérstaklega að þessu og jafnframt að skilanefndir og stjórnir félaganna vinni eftir því sama þar sem mikilvægt er að um samræmi sé að ræða við framkvæmd málsins.
Með tilkynningu Fjármálaeftirlitsins frá 21. nóvember 2008 var vísað til bréfsins 11. nóvember 2008 og gerð frekari grein fyrir málinu. Sagði þar meðal annars að við vinnu við gerð stofnefnahags nýju bankanna hefði verið við það miðað að öll innlán í kerfum bankanna (innistæður á reikningum viðskiptamanna) flyttust yfir óháð því hvaða viðskiptamaður ætti í hlut. Þegar um væri að ræða svokölluð „peningamarkaðslán/innlán/PM lán/innlán“ hefði verið fylgt þeirri reglu að litið væri á slíkar millifærslur sem innlán, „nema þegar gagnaðili bankans hefur verið annað fjármálafyrirtæki“. Þá sagði eftirfarandi: „Í þeim tilvikum hefur verið litið á slíka millifærslu sem lánveitingu frá fjármálafyrirtæki sem hefur verið skilin eftir í gömlu bönkunum.“ Í tilkynningunni var þessi niðurstaða svo rökstudd nánar.
B
Hinn 6. október 2008 gerðu stefnandi og stefnda með sér samning um lán sem vísað er til sem „peningamarkaðsinnláns“ af báðum málsaðilum. Í framlögðum endurritum af sendingar- og móttökutilkynningu um greiðsluna í alþjóðlegu samskiptakerfi fjármálastofnana, svonefndu SWIFT-kerfi (Society for Worldwide Interbank Financial Telecommunication), er löggerningur aðila auðkenndur sem „fast lán/innlán“ („Fixed Loan/Deposit“). Þar kemur fram að lánið sé að fjárhæð 3,3 milljarðar króna, veitt 6. október 2008, með gjalddaga degi síðar eða 7. sama mánaðar, og skyldi fjárhæðin bera 15,5% ársvexti. Af hálfu stefnda hefur verið upplýst að hann hafi jafnan geymt þær íslensku krónur sem voru í hans eigu hjá stefnanda og hafi þá inneign hans hjá stefnanda eftir atvikum verið ráðstafað til stefnanda sem peningamarkaðsláni, allt eftir því hvort slík ráðstöfun taldist hagkvæm. Hafi stefnandi þannig verið svonefndur uppjgörsbanki stefnda sem sé alþjóðlegt fjármálafyrirtæki sem sýsli með alla gjaldmiðla. Er þannig ágreiningslaust að peningamarkaðslán aðila 6. október 2008 var liður í reglulegum og viðvarandi viðskiptum þeirra.
C
Stefnanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008. Slitameðferð stefnanda hófst með gildistöku laga nr. 44/2009 hinn 22. apríl 2009 og er ólokið. Fjölmörg fjármálafyrirtæki hafa lýst kröfum í bú bankans vegna peningamarkaðsinnlána samkvæmt því sem fram kemur í stefnu. Nánar tiltekið eru þær kröfur að fjárhæð 15.470.793.059 krónur. Í stefnu er hins vegar upplýst að samtals hafi Nýi Landsbankinn greitt 43.672.201.488 krónur, 280.034 sterlingspund og 40.579.742 bandaríkjadali vegna peningamarkaðsinnlána til fjármálafyrirtækja á tímabilinu 7. október til 19. nóvember 2008.
Stefnandi hefur upplýst að afstaða slitastjórnar hans til þessara krafna hafi verið sú að þær njóti forgangs sem innistæður. Þessi afstaða slitastjórnar sé hins vegar umþrætt og hafi ágreiningi vegna þeirra mála verið vísað til dómstóla til úrskurðar.
Í stefnu segir að við skoðun slitastjórnar á ráðstöfunum sem gerðar hafi verið í bankanum fyrir frestdag hafi komið í ljós að 7. október 2008 hafði verið innt af hendi greiðsla til stefnda vegna umræddrar kröfu og fjárhæðin 3.301.420.833 krónur (þ.e. samningsfjárhæð ásamt eins dags samningsvöxtum) lögð inn á bankareikning stefnda hjá stefnanda sem síðar var fluttur yfir til Nýja Landsbankans hf. Óumdeilt er að þegar greiðslan 7. október 2008 fór fram hafði skilanefnd stefnanda tekið við stjórn bankans samkvæmt framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirliitsins. Hinn 15. ágúst 2011 hafi slitastjórn stefnanda sent stefnda riftunaryfirlýsingu vegna framangreindrar ráðstöfunar. Í riftunaryfirlýsingunni hafi slitastjórnin lýst yfir riftun á framangreindri greiðslu og gert kröfu um að stefndi endurgreiddi stefnanda stefnufjárhæð málsins. Í riftunaryfirlýsingunni hafi komið fram að riftunin á framangreindum greiðslum væri byggð á 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Kröfur stefnanda um riftun framangreindrar greiðslu er reist á 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnandi byggir á því að uppfyllt séu skilyrði beggja ákvæðanna en tekur fram að nægjanlegt er, til að riftun nái fram að ganga, að skilyrði annars hvors þeirra teljist uppfyllt.
Með hliðsjón af fjárhagsstöðu stefnanda þegar greiðsla peningamarkaðsinnlánsins var innt af hendi byggir stefnandi á því að greiðslan hafi skert greiðslugetu bankans verulega í skilningi tilgreinds ákvæðis 134. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir liggi að bankinn hafi verið ógjaldfær þegar greiðslan hafi verið innt af hendi og hafi kröfuhöfum því verið mismunað með greiðslunni. Stefnandi vísar til þeirra fjárhæða sem greiddar voru fjármálafyrirtækjum á tímabilinu 7. október til 19. nóvember 2008 og áður greinir. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki haft fjármuni til að greiða hina umdeildu kröfu og kröfur annarra fjármálafyrirtækja vegna peningamarkaðsinnlána. Fjármagna hafi þurft greiðslurnar m.a. með láni frá Seðlabanka Íslands. Ljóst sé að greiðslan til stefnda og sambærilegar greiðslur hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega í skilningi ákvæðis 134. gr. laga nr. 21/1991.
Auk þess byggir stefnandi á því, eins og atvikum var háttað, að skuldin hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var enda hafi, vegna fjárhagsstöðu bankans og óvissu um efndir skuldbindinga, ekki verið réttmætt að greiða peningamarkaðsinnlánið á þessu degi. Þá er á því byggt að greiðslan geti ekki verið venjuleg eftir atvikum þegar af þeirri ástæðu að kröfuhöfum bankans var eða mátti vera kunnugt um fall bankans og ógjaldfærni hans.
Kröfur stefnanda byggjast einnig á því að það hafi verið ótilhlýðilegt í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 að greiða einstökum kröfuhöfum út fjármuni þegar ljóst var að stefnandi var ógjaldfær og ljóst mátti vera að viðkomandi greiðsla gæti skert jafnræði kröfuhafa. Þá telur stefnandi að líta verði svo á að kröfuhafar bankans, og þá sérstaklega fjármálafyrirtæki, hafi vitað eða mátt vita um umrædda ógjaldfærni í síðasta lagi frá skipun skilanefndar bankans.
Stefnandi telur að í ljósi þeirra aðstæðna sem voru á íslenskum fjármálamarkaði þegar greiðslurnar áttu sér stað, og þess að stefnandi var ógjaldfær, hafi ekki verið tilhlýðilegt af stjórnendum stefnanda að greiða upp peningamarkaðsinnlánið. Þessi ótilhlýðileiki og ógjaldfærni bankans hafi mátt vera ljós öllum þeim sem áttu viðskipti á íslenskum fjármálamarkaði eftir skipun skilanefndar bankans í byrjun dags. 7. október 2008.
Með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. krefst stefnandi þess að stefnda greiði stefnanda stefnufjárhæð með vöxtum. Aðallega er byggt á því að stefnda skuli greiða vexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því að greiðslan var innt af hendi til upphafsdags dráttarvaxtareiknings, þar sem endurheimtukrafa vegna riftunar á grundvelli 141. gr. er skaðabótakrafa skv. 3. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Til vara er byggt á því að stefnda beri að greiða vexti á umræddu tímabili skv. 4. gr. vaxtalaga. Krafan um dráttarvexti miðar við að þeir reiknist á kröfuna mánuði eftir að áskorun um greiðslu var send stefnda sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því að málsgrundvöllur stefnanda sé rangur. Þannig sé krafa stefnanda færð í búning riftunar þegar raunverulega hafi verið um að ræða skuldskeytingu á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sem áður greinir. Að virtum atvikum málsins sé vafalaust að ráðstöfun innláns stefnda til NBI á grundvelli 7. gr. einhliða ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem reist var á þeim valdheimildum sem Fjármálaeftirliltinu voru fengnar með lögum, geti aldrei talist greiðsla skuldar í merkingu 134. gr. laga nr. 21/1991. Engin greiðsla hafi verið millifærð frá stefnanda til Nýja Landsbankans hf. umræddan dag. Þvert á móti hafi innláni stefnda verið ráðstafað til hins nýja banka. Engar greiðslur hafi því átt sér stað frá stefnanda til stefnda. Það eina sem hafi gerst í skiptum málsaðila hafi verið að nýr skuldari tók við greiðsluskyldu samkvæmt innláninu. Í þessu samhengi sé ástæða til að benda á að stefnandi hafði enga fjármuni til að greiða skuldbindinguna við stefnda þann 9. október 2008 líkt og byggt er á í stefnu að hafi átt sér stað, enda höfðu þá allar eignir og reiðufé verið flutt til Nýja Landsbankans hf. Stefndi telur að ef um var að ræða lausafjárfyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands hljóti hún að hafa verið til Nýja Landsbankans hf. og hafnar því sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi fengið fé til þeirrar greiðslu sem stefndi fékk í hendur. Af öllu framangreindu leiði að málið sé höfðað á röngum grundvelli og/eða af röngum aðila og verði þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Að öðru leyti byggir stefnandi málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að almenn skilyrði riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga séu ekki uppfyllt í málinu þar sem stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni við ráðstöfunina. Aðilar séu sammála um að peningamarkaðsinnlán séu innlán sem njóti stöðu forgangskröfu við slit stefnanda, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en jafnframt liggi fyrir að forgangskröfur muni verða greiddar að fullu við slitin. Byggir stefndi á því að þar sem skuldin hefði allt að einu greiðst við slitameðferð stefnanda sé óheimilt að rifta ráðstöfuninni, sbr. meginskilyrði riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga um tjón þrotamanns, sem meðal annars komi fram í 142. gr. laga nr. 21/1991 sem og undirliggjandi rök og lögjöfnun frá 139. gr. laganna. Stefndi vísar einnig til þess að útborgun innláns hafi ekki raskað jafnræði kröfuhafa, enda verði stöðu innlánshafa ekki jafnað til stöðu almennra kröfuhafa.
Í annan stað byggir stefndi sýknukröfu sína á því að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt í málinu. Þannig byggir stefndi á því að túlka verði riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga þröngt með hliðsjón af því að hér sé um að ræða íþyngjandi heimildir sem taldar séu upp með tæmandi hætti í XX. kafla laganna. Stefndi telur að ekki hafi verið um að ræða greiðslu á skuld í skilningi ákvæðisins. Þvert á móti hafi verið um að ræða skuldskeytingu á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar, þ.e. greiðslu skuldbindingar sem flutt hafði verið yfir til Nýja Landsbankans hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Stefndi hafi aldrei stofnað, að eigin frumkvæði, reikning hjá nýja bankanum og engir raunverulegir fjármunir hafi runnið frá stefnanda til stefnda við ráðstöfunina.
Verði talið að um greiðslu á skuld hafi verið að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefndi á því að ekkert skilyrða greinarinnar séu uppfyllt í fyrirliggjandi máli. Stefndi hafnar því þannig að greiðslan hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi ákvæðisins. Um sé að ræða hlutlægt skilyrði sem túlka verði samkvæmt orðanna hljóðan. Hin umstefnda greiðsla hafi verið greidd eftir gjalddaga og því alveg ljóst að hún fór ekki fram fyrr en eðlilegt var í viðskiptasambandi aðila. Því er einnig hafnað að greiðslan hafi átt sér stað fyrr en eðlilegt var þar sem ekki hafi verið réttmætt að greiða skuldbindingar á þessum degi vegna fjárhagsstöðu bankans og óvissu um efndir skuldbindinga, líkt og haldið sé fram af hálfu stefnanda. Byggir stefndi á því að þetta sjónarmið stefnanda sé ekki í samræmi við framangreinda túlkun á 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefndi telur að stefnandi hafi engin rök eða sannanir fært fyrir því hvernig greiðslugeta stefnanda hafi skerst verulega við umrædda ráðstöfun. Stefndi vísar til þess að heildareignir stefnanda hafi samkvæmt árshlutauppgjöri fyrir fyrri helming árs 2008 numið 3.970.372.000.000 króna. Samkvæmt yfirliti frá skilanefnd stefnanda 20. febrúar 2009 hafi heildareignir hans í nóvember 2008, eftir framkvæmd hinnar ætluðu riftanlegu ráðstöfunar, numið um 3.400.000.000.000 króna. Samkvæmt upplýsingum frá stefnanda hafi auðseljanlegar (e. liquid) eignir hans numið að jafnvirði um 8 milljörðum evra, eða um 1.144.000.000.000 króna, þann 29. september 2008. Ætluð greiðsla til stefnda hafi, sem hlutfall af framangreindum stærðum, numið einungis um 0,004% - 0,01%. Jafnvel þó aðeins væri litið til auðseljanlegra eigna stefnanda sé þannig ljóst að hlutfall greiðslunnar af þeim hafi verið hverfandi, eða um 0,01%, miðað við stöðuna 29. september 2008 samkvæmt upplýsingum frá stefnanda sjálfum. Jafnvel þótt aðeins væri litið til greiðslu peningamarkaðsinnlána á tímabilinu 7. október til 19. nóvember 2008 sé ljóst að ætluð greiðsla til stefnda sé óveruleg eða rétt um 0,35% af þessum heildargreiðslum. Samtala ætlaðra riftanlegra greiðslna út úr stefnanda á þessu tímabili eigi hins vegar engin áhrif að hafa á þetta mat enda slíkar greiðslur stefnda alls óviðkomandi. Jafnvel þó ekki væri á þetta fallist myndu heildargreiðslur vegna peningamarkaðsinnlána á umræddutímabili aðeins nema um 1,47% af heildareignum stefnanda miðað við eignastöðuna í nóvember 2008.
Fullyrðingum um að stefnandi hafi ekki átt fjármuni til að inna hina ætluðu greiðslu af hendi og því hafi þurft að fjármagna hana sérstaklega, meðal annars með láni frá Seðlabanka Íslands, er mótmælt. Í þessu samhengi beri einnig að hafa í huga að innlánið hafi einungis verið lagt inn í nýja bankann af reikningi stefnda þremur dögum áður en skuldskeytingin átti sér stað, eftir að stefnandi var orðinn ógjaldfær samkvæmt eigin yfirlýsingum. Jafnvel þó talið yrði að fjármunir hefðu runnið út úr bankanum sé í besta falli hæpið að fullyrða án frekari rökstuðnings eða sannana að lántöku frá Seðlabanka hafi verið þörf til að endurgreiða innlán sem lagt var inn svo skömmu áður sem raun ber vitni.
Stefndi byggir einnig á því að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum í skilningi síðasta málsliðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Byggir stefndi á því að samkvæmt orðanna hljóðan beri að túlka þetta skilyrði rúmt. Nægjanlegt sé að greiðsla hafi „virst“ venjuleg eftir atvikum. Þannig bendir stefndi á að engin tengsl hafi verið á milli ætlaðrar greiðslu og fjárhagslegrar stöðu stefnanda. Um hafi verið að ræða venjubundið viðskiptasamband aðila og innlánið var aðeins lagt inn til mjög skamms tíma. Byggir stefndi á því að greiðsla á innláni sem er liður í svo venjubundnu viðskiptasamstarfi megi virðast venjuleg eftir atvikum. Því til viðbótar bendir stefndi á að innlánið hafi verið lagt inn hjá stefnanda eftir að hann var orðinn ógjaldfær. Hafi lánveitingin þannig verið til þess fallin að létta stefnanda róðurinn. Þá telur stefndi að líta verði til þeirra kringumstæðna sem uppi voru, einkum þess að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi borið með sér að stefnt væri að því að viðhalda millibankasamskiptum af hálfu Nýja Landsbankans hf. Innlán stefnda hafi verið fært til nýja bankans í samræmi við það. Samtímis tilkynningu um hina ætluðu greiðslu hafi stefnda einnig verið tilkynnt að nýi bankinn tæki við greiðslumiðlun fyrir hann. Séu þessar aðstæður allar hafðar í huga hafi stefnda mátt virðast ætluð greiðsla venjuleg eftir atvikum í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Í annan stað reisir stefndi málatilbúnað sinn á því að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Þannig hafi ráðstöfunin ekki verið ótilhlýðileg í skilningi ákvæðisins og jafnvel þó talið verði að svo hafi verið hafi stefnda ekki mátt vera ljós ætluð ógjaldfærni stefnanda. Stefndi byggir á því að túlka verði skilyrðið um ótilhlýðileika þröngt. Almennt verði skilyrðinu aðeins beitt um ráðstafanir þar sem beinlínis er verið að koma undan fjármunum með ólögmætum eða óeðlilegum hætti til að tryggja hagsmuni ákveðinna kröfuhafa, oftast tengdum þrotamanni. Ekki hafi verið um neitt slíkt að ræða í fyrirliggjandi máli. Þar hafi verið um ætlaða greiðslu á innláni að ræða, sem fært hafði verið yfir til Nýja Landsbankans hf., og veitt var til mjög skamms tíma í samræmi við langa og reglulega framkvæmd. Vísar stefndi einnig til þess að samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Fjármálaeftirlitsins hafi öll innlán í útibúum á Íslandi verið tryggð og síðar hafi legið fyrir að innlán yrðu forgangskröfur við slit stefnanda. Innlán hafi verið frjáls til ráðstöfunar og megi ætla að mikill fjöldi úttekta hafi átt sér stað og fjárhæðir þeirra verið verulegar á tímabilinu frá því að skilanefnd var sett yfir stefnanda og fram til stofnunar Nýja Landsbankans hf. Sé litið til alls framangreinds sé ljóst að ráðstöfunin var fyllilega eðlileg, í samræmi við meðhöndlun sambærilegra mála og ekki á neinn hátt ótilhlýðileg.
Stefndi telur að það fái ekki staðist að honum hafi mátt vera ljóst að viðkomandi greiðsla gæti skert jafnræði kröfuhafa, líkt og stefnandi haldi fram, en á þessum tíma hafi aðrir en stefnandi sjálfur engar upplýsingar haft um ætlaða ógjaldfærni hans. Ekkert í opinberum upplýsingum hafi bent til þess að staðan gæti orðið með slíkum hætti heldur þvert á móti. Þá hafi ekkert verið í samskiptum aðila þessa daga sem benti til þess að greiðslan væri á nokkurn hátt óeðlileg. Stefndi bendir einnig á að yfirgnæfandi meirihluti sambærilegra lána hafi verið greiddur á tímabilinu og að starfsmenn stefnanda hafi sjálfir ekkert ótilhlýðilegt talið vera við það. Þá sé ljóst að þessar ákvarðanir hafi verið teknar með samþykki eða að minnsta kosti vitneskju skilanefndar og þar með Fjármálaeftirlitsins enda hafi skilanefndin heyrt beint undir það. Af fréttaflutningi Reuters þann 7. október 2008 hafi enn fremur mátt ráða að stefnandi væri kominn undir stjórn Fjármálaeftirlitsins jafnvel þó að hann væri ekki kominn í slitameðferð.
Stefndi bendir enn fremur á að ekki hafi verið tekin af öll tvímæli um það fyrr en með bréfi Fjármálaeftirlitsins dags. 21. nóvember 2008 að peningamarkaðsinnlán skyldu ekki flytjast yfir til Nýja Landsbankans hf. Því er mótmælt að um þetta hafi ríkt vafi fram að þessu tímamarki og á því byggt að stefnandi hafi talið víst að peningamarkaðsinnlán yrðu flutt. Bendir stefndi á þau atriði sem áður ræðir um að greiðslur hafi átt sér stað með samþykki Fjármálaeftirlits og skilaefndar. Telur stefndi að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að ráðstöfun á peningamarkaðsinnláni stefnda hafi verið ótilhlýðileg, sé óhugsandi að stefndi hafi mátt gera sér grein fyrir að svo væri. Í öllu falli viðurkenni stefnandi að tilteknir starfsmenn hans hafi staðið í þeirri trú að færa skyldi umræddar skuldbindingar til Nýja Landsbankans hf. Samkvæmt þessu og með vísan til þeirra upplýsinga sem gerðar höfðu verið opinberar á umræddum tíma telur stefndi að hann hafi ekki getað ætlað annað en að ráðstöfunin væri fyllilega tilhlýðileg. Stefndi hafnar því einnig að honum hafi mátt vera ljós ætluð ógjaldfærni stefnanda og byggir á sambærilegum sjónarmiðum um það efni og áður eru rakin í tengslum við 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefndi byggir einnig á því að ráðstafanir sem framkvæmdar séu eftir að gjaldþrotaskipti eru hafin séu ekki riftanlegar, en leggja megi aðstæður stefnanda á umræddum tíma að jöfnu við það að hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Engin rök standi til þess að heimilt sé að rifta ráðstöfunum sem framkvæmdar hafa verið, ekki af þrotamanni, heldur beinlínis í skjóli opinbers valds, eftir að þrotamaður missti allt forræði á athöfnum sínum, líkt og hér eigi við.
Þá er á því byggt, til vara, að samningur aðila um innlánið hafi verið ógildur og riftun leiði til óréttmætrar auðgunar. Stefnanda hafi frá 6. október 2008 verið skylt að leita gjaldþrotaskipta og því óheimilt að taka við innlánum frá og með þeim degi. Stefndi byggir á því að þar sem stefnandi var að eigin sögn orðinn ógjaldfær daginn sem samningurinn um innlánið var gerður og fjármunirnir voru lagðir inn hjá stefnda sé samningurinn um innlánið ógildur samkvæmt ákvæðum 30., 33. eða í öllu falli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Hann vísar einnig til þess að stefnandi hafi sviksamlega þagað yfir atvikum sem skiptu máli um samninginn í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 7/1936 og því sé samningurinn ekki skuldbindandi fyrir stefnda í samræmi við 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Jafnframt verði að telja það óheiðarlegt af hálfu stefnanda að bera samninginn fyrir sig vegna framangreindra atvika er fyrir hendi voru er hann komst á, samanber skilyrði 33. gr. laga nr. 7/1936. Í öllu falli hljóti það að teljast ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig og beri því að víkja honum til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936. Verði fallist á kröfur stefnanda muni það einnig leiða til óréttmætrar auðgunar stefnanda, þar sem hann mun auðgast á þeirri ólögmætu aðgerð að taka við innstæðu þegar hann var orðinn ógjaldfær og muni það leiða til tjóns stefnanda.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda fyrir sýknu er á því byggt að stefndi eigi gagnkröfu á hendur stefnanda sem nota megi til skuldajafnaðar. Um sé að ræða skaðabótakröfu stefnda á hendur stefnanda sem nemi sömu fjárhæð og stefnukrafa máls þessa. Stefndi vísar til þess sem áður segir um ógjaldfærni stefnda 6. október 2008 og þeirra upplýsinga sem hann gaf á þessum tíma sem stefndi telur hafa verið villandi. Gerð samnings um innlán af hálfu stefnanda hafi því falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi.
Stefndi mótmælir að lokum vaxtakröfu stefnanda þar sem hún eigi sér enga lagastoð. Varakrafa stefnda um stórlega lækkun dómkrafna er að stærstum hluta byggð á sömu sjónarmiðum og málsástæðum og krafa um sýknu, einkum og sér í lagi þeirri málsástæðu fyrir sýknu að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni við hina riftanlegu ráðstöfun. Verði talið að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni geti það ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur áætluðum vöxtum sem fallið hefðu á innlánið frá þeim tíma sem greiðsla átti sér stað til þess tíma er greiðsla á lýstri kröfu stefnda hefði átt sér stað, hefði ekki komið til hinnar riftanlegu ráðstöfunar. Í öllu falli verði að koma til frádráttar dómkröfunni fjárhæð í réttu hlutfalli við þær greiðslur sem þegar hafa verið inntar af hendi af hálfu stefnanda upp í forgangskröfur.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að peningmarkaðsinnlán að fjárhæð 3,3 milljarðar króna, sem stefnandi tók hjá stefnda 6. október 2008, var endurgreitt stefnda 7. sama mánaðar, sem var gjalddagi lánsins. Ágreiningur aðila um hvort umrætt peningamarkaðsinnlán teljist innlán í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, og njóti þar með forgangs við slit stefnanda, getur ekki komið til úrlausnar í máli þessu. Verður því ekki á það fallist að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda með vísan til þess að krafa stefnanda muni verða að fullu greidd við slit stefnanda. Með vísan til dóms Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 169/2011 verður ennfremur ekki á það fallist að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda á þeim grundvelli að hann sé rangur aðili að þeim kröfum sem hafðar eru uppi í málinu.
A
Óumdeilt er að greiðsla framangreinds láns fór þannig fram að endurgreiðslufjárhæð lánsins var færð yfir á innlánsreikning stefnda sem síðar var fluttur yfir í Nýja Landsbankann hf. þegar hann tók til starfa 9. október 2008, en bankinn tók yfir innlenda fjármálastarfsemi stefnanda samkvæmt nánari fyrirmælum í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sama dag sem áður er gerð grein fyrir. Liggur jafnframt fyrir að við greiðslu lánsins 7. október 2008 dag hafði Fjármálaeftirlitið ákveðið að skipa stefnanda skilanefnd, svo sem áður er gert grein fyrir.
Með vísan til dóms Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 verður lagt til grundvallar að frá 7. október 2008 hafi stefnandi verið í aðstöðu sem leggja má að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans. Felst í þessu að líta verður svo á að frá og með þessum degi hafi legið fyrir að stefnandi gæti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga og ekki væri talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans myndu líða hjá innan skamms tíma. Jafnframt verður við það miðað að forræði á búi stefnanda hafi á þessum tímamarki flust til Fjármálaeftirlitsins svo og þeirrar skilanefnar sem Fjármálaeftirlitið skipaði stefnda 7. október 2008. Frá og með þessum degi var endanlegt ákvörðunarvald um greiðslur og aðra ráðstöfun eigna stefnanda þannig á forræði Fjármálaeftirlitsins og þeirrar skilanefnar sem starfaði fyrir hönd stofnunarinnar, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga nr. 161/2002 um breytingar á fjármálafyrirtækjum, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
Af hálfu stefnda er viðurkennt að honum hafi verið ljóst, frá og með birtingu fréttatilkynningar á fréttaveitu Reuters kl. 9:40 að morgni 7. október 2008, að Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir stjórn stefnanda. Stefndi hefur sömuleiðis vísað til tilkynningar sem birt var um svipað leyti á heimasíðu stefnanda, og einnig var rakin á umræddri fréttaveitu, þar sem efnislega kom fram að stefnandi hefði ekki verið tekinn til gjaldþrotaskipta, en hefði hins vegar verið settur undir umsjón skilanefndar og nyti tímabundinnar verndar gagnvart innheimtu krafna.
Að öllu þessu virtu verður á það fallist með stefnanda að stefnda, sem er alþjóðlegt fjármálafyrirtæki með umfangsmikla starfsemi á millibankamarkaði, hafi mátt vera ljóst frá og með morgni 7. október 2008 að stefnandi væri fyrirsjáanlega ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Mátti stefndi einnig vita að við þessar aðstæður voru heimildir stefnanda til greiðslu hvers kyns skuldbindinga afar þröngar og að meginstefnu háðar því að fyrir lægi heimild samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlits eða samþykki skilanefndar, sbr. áðurnefnd fyrirmæli 3. mgr. 100. gr. laga nr. 161/2002 sem og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar ákvæðum 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt þessu mátti ganga út frá því að greiðslur stefnanda sem inntar væru af hendi án viðhlítandi heimildar í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins eða samþykkis skilanefndar væru riftanlegar samkvæmt almennum reglum um umboðsskort og vanheimild. Þótt dómurinn telji þannig að almennt hljóti að teljast ólíklegt að riftunarheimildir XX. kafla laga nr. 21/1991 hafi raunhæfa þýðingu vegna gerninga fjármálafyrirtækis við aðstæður sem þessar, verður allt að einu ekki á það fallist að beiting þessara reglna sé alfarið útilokuð. Kemur því til úrlausnar hvort skilyrðum 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt með tilliti til atvika málsins eins og afstaða hefur verið tekin til þeirra hér að framan.
B
Þess sér hvergi stað í gögnum málsins að skilanefnd stefnanda, sem fór með heimildir stjórnar hans samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008, hafi á þeim tíma, sem atvik máls þessa áttu sér stað, gert athugasemdir við að lán, svo sem það sem hér um ræðir, væri greitt upp. Þvert á móti verður sú ályktun dregin af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. sama mánaðar þar sem innlend fjármálastarfsemi stefnanda var flutt yfir til Nýja Landsbankans hf., svo og tilkynningum stofnunarinnar, sem birtar voru þann dag, að gert hafi verið ráð fyrir því að innlendri fjármála starfsemi stefnanda yrði haldið áfram með eins eðlilegum hætti og kostur var. Gat ekki annað falist í þessari afstöðu en stefnandi, og síðar Nýi Landsbankinn hf., greiddi viðskiptamönnum sínum, þ.á m. stefnda, kröfur þeirra eftir því sem þær féllu í gjalddaga, nema annað væri ákveðið af skilanefnd eða Fjármálaeftirlitinu.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi mátt ætla að sú greiðsla sem stefnandi innti af hendi með færslu á bankareikning hans í bankanum hinn 7. október 2008 væri eðlilegur þáttur í áframhaldandi starfsemi hans sem yrði framhaldið undir umsjón skilanefndar eða með öðrum hætti. Er þá einnig litið til þess að greiðslan til stefnda fól það í sér að tíðkanlegur samningur tveggja fjármálastofnana á millibankamarkaði var efndur samkvæmt efni sínu og með þeim hætti sem venja var til í viðskiptum sem þessum, bæði almennt og milli aðila máls þessa. Er ekkert komið fram sem bendir til þess að með greiðslunni hafi stefnandi leitast við að tryggja hagsmuni stefnda umfram hagsmuni annarra kröfuhafa.
Þótt stefnda mætti samkvæmt því sem áður greinir vera ljóst að stefnandi væri ógjaldfær og ótilhlýðilegt væri að taka við umtalsverðum fjárhæðum úr hendi hans án heimildar í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins eða samþykkis skilanefndar, hafði greiðslan þannig ekki á sér neitt það yfirbragð að tilefni væri til að ætla að hún fæli í sér mismunun kröfuhafa eða leiddi til þess að eignir stefnanda yrðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða þær leiddu til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Er því ekki fullnægt skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 til að fallast á kröfu stefnanda um riftun. Í ljósi ofanritaðs er það einnig niðurstaða dómara að fyrir liggi að umrædd greiðsla hafi virst venjuleg eftir atvikum í skilningi lokaorða 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Eru því ekki efni til þess að taka sérstaka afstöðu til þess hvort greiðslan taldist greidd fyrr en eðlilegt var eða hvort umrædd fjárhæð skerti greiðslugetu stefnanda verulega.
Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar verður litið til þess að málið er eitt fimm samkynja mála sem rekin hafa verið samhliða fyrir dóminum. Samkvæmt þessu, og að teknu tilliti til umfangs málsins, þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 900.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur samkvæmt íslenskum lögum.
Af hálfu stefnanda flutti málið Þórir Júlíusson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Óttar Pálsson hrl. ásamt Halldóri Brynjari Halldórssyni hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi Euroclear Bank SA, er sýkn af kröfum stefnanda, LBI hf.
Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.