Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2006
Lykilorð
- Skuldabréf
|
|
Fimmtudaginn 11. maí 2006. |
|
Nr. 5/2006. |
Guðjón Bjarnason(Baldvin Hafsteinsson hrl.) gegn KB rafverktökum ehf. (Jón Egilsson hdl.) |
Skuldabréf.
S ehf. gaf út skuldabréf til KB ehf. með sjálfskuldarábyrgð G. KB ehf. framseldi bréfið til SK en við það tók félagið á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldinni. Það greiddi síðan skuldina sem ábyrgðaraðili og krafði S ehf. og G um greiðslu hennar. Ekki var talið að áritanir á skuldabréfið um greiðslu KB ehf. hefðu leitt til þess að krafa á hendur S ehf. og G yrði talin fallin niður. Varð að líta svo á að KB ehf. hefði fengið kröfuna framselda með áritunum og afhendingu skuldabréfsins og var því fallist á kröfu þess um greiðslu bréfsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. janúar 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, en til vara að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Sæsmíð ehf., sem í upphafi stóð einnig að áfrýjun máls þessa, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2006. Með bréfi 8. maí sama ár hefur skiptastjóri tilkynnt Hæstarétti að þrotabúið standi ekki lengur að áfrýjun málsins.
Með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Guðjón Bjarnason, greiði stefnda, KB rafverktökum ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. september sl., var höfðað 6. janúar 2005 af KB rafverktökum ehf., Dalvegi 26, Kópavogi, á hendur Sæsmíð ehf., Grandagarði 8, Reykjavík, og Guðjóni Bjarnasyni, Mýrargötu 26, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 2.066.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 25. nóvember 2002 til 10. mars 2003, af 1.933.000 krónum frá þeim degi til 14. apríl sama ár og af 2.066.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er og vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti og málskostnaðar samkvæmt mati dómsins þar sem tekið verði tillit til kostnaðar vegna málflutnings um ágreining sem leyst var úr með úrskurði undir rekstri málsins.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi byggir kröfur í málinu á skuldabréfi sem stefnandi hafði framselt Sparisjóði Kópavogs en þurfti að innleysa. Stefnda Sæsmíð ehf. er samkvæmt skuldabréfinu aðalskuldari þess og stefndi Guðjón sjálfskuldarábyrgðarmaður, en stefnandi er kröfuhafi. Við framsalið til Sparisjóðs Kópavogs 18. janúar 2001 tók stefnandi á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldinni en hann leysti skuldabréfið til sín samkvæmt kvittunum, sem áritaðar eru á það, með greiðslum í nóvember 2002 og í mars og apríl 2003 hjá Lögmönnum Kópavogi sf. sem hafði skuldabréfið til innheimtu fyrir Sparisjóðinn. Stefnandi greiddi sem ábyrgðarmaður samtals 2.066.000 krónur og krefur stefndu in solidum um þá fjárhæð ásamt dráttarvöxtum frá þeim tíma er greiðslur fóru fram til Sparisjóðsins. Stefnandi rekur málið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndu byggja sýknukröfuna á því að þeir verði ekki krafðir um greiðslu þar sem ritað hafi verið á skuldabréfið að það hafi verið greitt upp og vísa í því sambandi til 1. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf. Þeir telja því kröfuna á hendur þeim ekki lengur vera fyrir hendi.
Í dóminum var kveðinn upp úrskurður undir rekstri málins 20. apríl sl. þar sem leyst var úr ágreiningi málsaðila um það hvort stefnanda væri heimilt að leiða tvö tilgreind vitni fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Með úrskurðinum var stefnanda talið þetta heimilt. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 31. maí sl.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir kröfunni þannig að hún sé byggð á innleystu skuldabréfi nr. 481370 sem stefnandi hefði framselt til Sparisjóðs Kópavogs. Skuldabréfið sé útgefið í Reykjavík 18. janúar 2001, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur. Skuldabréfið hafi átt að greiða með sjö jöfnum afborgunum á 3 mánaða fresti, fyrst 10. apríl 2001. Greiðandi bréfsins sé stefnda Sæsmíð ehf. en fyrirsvarsmaður þess sé Guðjón Bjarnason. Guðjón beri einnig sjálfskuldarábyrgð. Eigandi bréfsins, þ.e. stefnandi, hafi framselt það til Sparisjóðs Kópavogs en hann hafi orðið að leysa það til sín 14. apríl 2003 og hafði þá greitt alls 2.066.000 krónur þar sem greiðandi bréfsins hafi ekki staðið í skilum með greiðslur til Sparisjóðsins. Sparisjóðurinn hefði sent bréfið í innheimtu til Jóns Eiríkssonar hdl. hjá Lögmönnum Kópavogi sf. og þar hafi stefnandi greitt skuldina með þremur innborgunum, alls 2.066.000 krónum, sem hann krefji stefndu in solidum um í málinu. Fyrsta greiðsla hafi verið 25. nóvember 2002, að fjárhæð 250.000 krónur, önnur greiðsla 10. mars 2003, að fjárhæð 1.683.000 krónur og þriðja greiðslan 14. apríl 2003, að fjárhæð 133.000 krónur. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og hafi því verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Stefnandi mótmæli því að krafa stefnanda á hendur stefndu hafi fallið niður við það að hann hafi fengið áritun á skuldabréfið um að hann hafi greitt kröfuna. Hvergi komi fram að stefndu hafi greitt kröfuna og staðfest hafi verið af lögmanninum, sem hafi haft kröfuna til innheimtu fyrir Sparisjóð Kópavogs og starfsmanni hans, sem hafi áritað skuldabréfið um greiðslur stefnanda, að stefnandi hafi leyst kröfuna til sín. Stefndu hafi engar greiðslur innt af hendi vegna innheimtu á skuldinni. Þeir viti að þeir hafi ekki greitt stefnanda skuldina samkvæmt skuldabréfinu og séu því grandsamir um rétt stefnanda og hvað áritanirnar á skuldabréfinu þýði. Í málatilbúnaði stefndu komi fram útúrsnúningar á því sem áritað hafi verið á skuldabréfið.
Stefnandi vísi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum og krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. síðasttöldu laganna.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu halda því fram að með framsali stefnanda á skuldabréf, útgefið af stefnda Sæsmíð ehf., 18. janúar 2001, hafi stefnandi tekið á sig ábyrgð á greiðslu þess með sérstakri yfirlýsingu sem árituð sé á bréfið. Stefnandi hafi greitt skuldabréfið að fullu 14. apríl 2003, eins og fram komi með áritun fulltrúa kröfuhafa á bréfið, en þar segi: „Bréf þetta var greitt upp 14.04.2003 af KB verktökum kt. 560500-2460, hjá Lögmönnum Kópavogi sf.”
Skuldin samkvæmt skuldabréfinu hafi þannig verið gerð upp að fullu og sé þar af leiðandi ekki lengur til staðar. Krafa á hendur stefndu verði þar af leiðandi ekki byggð á skuldabréfinu enda beri það skýrt með sér að hún sé upp gerð. Skuldabréfið verði því ekki notað sem heimildarskjal til heimtu kröfu á hendur stefndu. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi fengið kröfu á hendur stefndu sérstaklega framselda sér. Stefndu vísi í því sambandi til meginreglna kröfuréttarins um viðskipta- og skuldabréf og framsal kröfuréttinda. Því beri að sýkna stefndu.
Stefndu vísi m.a. til meginreglu 1. gr. tilskipunar 9. febrúar 1798. Þá vísi stefndu til 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 129. gr. sömu laga um málskostnað, svo og sérstaklega til 131. gr. laganna.
Niðurstaða
Í áritun á skuldabréfinu kemur fram að það hafi verið greitt upp 14. apríl 2003 af stefnanda. Einnig eru þar skráðar innborganir og er kröfugerð stefnanda í samræmi við það sem þar kemur fram um þær. Í áritunum á skuldabréfið kemur hvergi fram að stefndu hafi greitt skuldina og þeir halda því heldur ekki fram í málinu að þeir hafi gert það. Lögmaðurinn sem innheimti kröfuna fyrir Sparisjóð Kópavogs og starfsmaður hans, sem tók á móti greiðslum og áritaði um þær á skuldabréfið, hafa báðir staðfest fyrir dóminum að áritaðar kvittanir á bakhlið skuldabréfsins hafi verið færðar þar í samræmi við greiðslur sem stefnandi hafi innt af hendi til Sparisjóðsins á lögmannsstofunni. Þessar áritanir eru í samræmi við ákvæðið í tilskipuninni sem stefndu vísa til. Þær leiða hins vegar ekki til þess að krafa stefnanda á hendur stefndu hafi fallið niður samkvæmt meginreglunni í tilskipuninni eins og stefndu halda fram. Verður að líta svo á að stefnandi hafi fengið kröfuna framselda með áritunum og afhendingu á skuldabréfinu enda er það í samræmi við fyrirmælin í tilvitnuðu ákvæði tilskipunarinnar.
Samkvæmt þessu hefur stefnandi leyst til sín kröfuna samkvæmt skuldabréfinu og hefur með því öðlast rétt á hendur stefndu, Sæsmíð ehf. sem aðalskuldara og Guðjóni Bjarnasyni sem sjálfskuldarábyrgðaraðila, til greiðslu á kröfunni. Ber með vísan til þessa að taka kröfu stefnanda til greina, sem er ómótmælt að öðru leyti, enda er hún studd viðeigandi gögnum og rökum.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber stefndu að greiða stefnanda in solidum 150.000 krónur í málskostnað vegna alls rekstrar málsins fyrir dóminum.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Sæsmíð ehf. og Guðjón Bjarnason, greiði stefnanda, KB rafverktökum ehf., in solidum 2.066.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 25. nóvember 2002 til 10. mars 2003, af 1.933.000 krónum frá þeim degi til 14. apríl sama ár og af 2.066.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags en vextir leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Stefndu greiði stefnanda in solidum 150.000 krónur í málskostnað.