Hæstiréttur íslands

Mál nr. 449/2003


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Vegabréf


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. desember 2003.

Nr. 449/2003.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksónari)

gegn

Li Xiao Hua

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

 

Skjalafals. Vegabréf.

Í samræmi við játningu L, 25 ára kínversks ríkisborgara, var hún sakfelld fyrir skjalafals samkvæmt 1. mgr. 155. almennra hegningarlaga með því að hafa við vegabréfaskoðun framvísað fölsuðu vegabréfi og þannig komið til landsins án gildra ferðaskilríkja og án vegabréfsáritunar. Við úrlausn málsins var litið til þess að vegabréf eru opinber skilríki, sem miklu skiptir að treysta megi í samskiptum manna og þjóða. Þegar eðli brotsins var virt, hversu alvarlegt það var og litið til almennra varnaðaráhrifa refsinga voru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna, sem þótti hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2003 af hálfu ákæruvalds og krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að hún verði dæmd til vægustu refsingar, sem lög leyfa, og refsingin verði skilorðsbundin.

Við meðferð málsins í héraði játaði ákærða sakargiftir og var málið rekið þar og dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Ákærða er 25 ára kínverskur ríkisborgari. Í málinu er henni gefið að sök skjalafals með því að hafa við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli 8. nóvember 2003 framvísað fölsuðu vegabréfi og þannig komið til landsins án gildra ferðaskilríkja og án vegabréfsáritunar, eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákæra var gefin út 19. nóvember síðastliðinn og málið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness sama dag. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmd til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingar var frestað í eitt ár héldi hún almennt skilorð 57. gr. laganna með áorðnum breytingum. Ekki er ágreiningur um að háttsemi hennar varði við fyrrnefnt refsiákvæði.

Ákærða var á leið frá Stokkhólmi til Minneapolis í Bandaríkjunum er hún var handtekin á Keflavíkurflugvelli í framhaldi þess að hún framvísaði þar við vegabréfaskoðun fölsuðu vegabréfi. Við ákvörðun refsingar ákærðu og þess hvort sú refsing skuli vera bundin skilorði eða ekki verður að líta til þess að vegabréf eru opinber skilríki, sem miklu skiptir að treysta megi í samskiptum manna og þjóða. Samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga skal það metið refsingu til þyngingar ef falsað skjal er notað sem opinbert skjal. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 136/1998 um vegabréf kemur fram að á vegum alþjóðalögreglunnar Interpol hafi ítrekað verið vakin athygli á nauðsyn þess að auka öryggi í útgáfu vegabréfa, bæði varðandi ýmsa öryggisþætti í prentum vegabréfa og útgáfu þeirra. Þótt ekki sé dregið í efa að ákærða hafi viljað leita sér betra lífs og keypt vegabréfið af einhverjum, sem gerðu sér aðstöðu hennar að féþúfu, verður ekki fram hjá því horft að hún notaði hið falsaða skjal í þeim tilgangi að komast ólöglega inn í annað land. Ákærða er hins vegar ung að árum og ekkert liggur fyrir um að hún hafi áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Þegar til alls framanritaðs er litið er refsing hennar hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu ákærðu hefur því verið haldið fram að við ákvörðun refsingar vegna skjalafalsbrots hafi dómstólar að jafnaði skilorðsbundið refsinguna, þegar um fyrsta brot er að tefla og ekki hefur hlotist tjón af háttseminni. Brot ákærðu verður ekki lagt að jöfnu við slík brot, enda eru skjalafalsbrot af margvíslegum toga og við ákvörðun refsingar er í hverju tilviki litið til margra atriða. Þegar eðli brotsins er virt, hversu alvarlegt það er og litið til almennra varnaðaráhrifa refsinga eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hennar.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.

         Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Ákærða, Li Xiao Hua, sæti fangelsi í 30 daga.

         Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

         Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2003.

I.

                Málið höfðaði Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli með ákæru útgefinni 19. nóvember 2003 á hendur ákærðu, Li Xiao Hua, kínverskum ríkis­borgara, fæddri 10. október 1978, búsettri í Guan Zhou í Canton fylki í Kína, fyrir skjalafals, með því að hafa eftir komu til Íslands með flugi frá Stokkhólmi 8. nóvember síðastliðinn, við vega­bréfa­­skoðun vegna landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli, framvísað fölsuðu japönsku vega­­bréfi, útgefnu á nafnið Keiko Miyata, þar sem skipt hafði verið um upplýsingasíðu og í stað ljósmyndar af upphaflegum eiganda þess verið sett mynd af ákærðu, og hún þannig komið til landsins án gildra ferðaskilríkja og án vegabréfsáritunar, en málsatvikum er nánar lýst í ákæru. 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar fyrir brot á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara fyrir brot á 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

                Með afdráttarlausri játningu ákærðu fyrir dómi, sem samrýmist framburði hennar hjá lögreglu og öðrum gögnum málsins, er framangreind háttsemi hennar sönnuð.  Óumdeilt er að ákærða hafi vitað að vegabréfið væri falsað og að hún hafi framvísað því í blekkingarskyni vegna landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli til að komast út af Schengen-svæðinu og til Bandaríkjanna.  Að þessu virtu þykir háttsemi hennar varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, en þeirri heimfærslu ákæruvaldsins til refsi­ákvæða er ekki mótmælt af hálfu ákærðu.

II.

                Ákærða er 25 ára gömul.  Rannsóknargögn málsins bera með sér að hún sé af fátæku fólki komin í Kína og hafi farið frá heimalandi sínu í lok október, með viðkomu í Tælandi þar sem hún hafi keypt hið falsaða vegabréf á svörtum markaði.  Í framhaldi hafi hún verið kynnt fyrir manni, sem hafi útvegað henni flugfarseðil til Bandaríkjanna, en þangað hafi hún ætlað að flytja í von um betra líf.  Hafi hún samið svo um við manninn að hún myndi greiða honum 20-30.000 bandaríkjadali fyrir aðstoðina og taldi að hún yrði ekki lengur en 2-3 ár að greiða skuldina ef hún kæmist til Bandaríkjanna.  Þar væri hægt að fá góða atvinnu, svo að hún gæti einnig sent foreldrum sínum peninga til Kína.  Frá Tæ­landi hafi hún flogið til Svíþjóðar í fylgd með ókunnum manni, með við­komu í fleiri löndum, sem ákærða kunni ekki að nefna, og þaðan með enn öðrum manni til Íslands, þar sem þau hafi millilent, á fyrirhugaðri leið sinni til Bandaríkjanna.  Hafi sá maður sagt henni við komuna hingað til lands að þau skyldu þykjast vera kærustu­­par, hann myndi sjá um allt og að hún ætti bara að fylgja honum eftir, en ákærða kann varla orð í ensku.  Er nú í ljós komið að maður sá er fylgdi henni til Íslands heitir Li Qiang og sætir ákæru fyrir sams konar brot og ákærða (mál réttarins nr. S-2169/2003), en við komu til landsins gaf hann upp nafnið Kenichi Yasuhara og fram­vísaði því til stuðnings fölsuðu japönsku vegabréfi með mynd af sér í.  Að sögn Li Qiang mun ákærða hafa ferðast í fylgd með honum frá Madrid til Stokkhólms og þaðan með flugi til Íslands.  Við leit á Keflavíkurflugvelli fundust tæplega 1.300 bandaríkjadalir í fórum ákærðu og rúm­lega 2.100 dalir í fórum samferðamanns hennar, auk andvirðis ríf­lega 130.000 króna í öðrum gjald­eyri.

III.

                Framangreind lýsing á ferðatilhögun ákærðu og öll atvik að broti hennar bera þess glögg merki að hún sé fórnarlamb mansals, en á undanförnum árum hefur færst í vöxt að einstaklingar og alþjóð­legir glæpahringar hafi gert örbirgð íbúa fátækra þjóða að féþúfu sinni.  Er einkennandi fyrir fólk í hennar stöðu að vera sent fjárlítið til ókunnugra landa, yfirleitt fleiri en eins, þar sem það er kynnt fyrir ónafn­greindum tengi­liðum, sem útvega því fölsuð vegabréf og flugfarseðla gegn himin hárri greiðslu, sem við­komandi skuldbinda sig til að endurgreiða eftir að komið er á áfangastað.  Eru Banda­ríkin „vinsæl“ í þessu sambandi, en svo virðist sem auðvelt sé að telja fólki, sem býr við mikla efnahagslega fátækt í heimalandi sínu, trú um að í landi eins og Bandaríkjunum bíði þeirra gull og grænir skógar, með nægri atvinnu og góðum launum.  Hitt gleymist í kynningar­­ferlinu að réttarstaða þessa fólks í viðkomandi landi er bágborin, enda um ólög­lega innflytjendur að ræða.  Þar njóta viðkomandi ekki sjálf­sagðra félagslegra réttinda, eru oft ekki mælandi á tungumál viðkomandi lands og eru algjör­lega háðir þeim aðila, sem tekur á móti þeim á áfangastað, um húsaskjól og atvinnu.  Sú atvinna verður eðli máls samkvæmt ekki opinber og felst oftar en ekki í vinnu í svokölluðum „sweat-shops“, á veitingastöðum og/eða við vændi, þar sem fólki er haldið nauðugu að störfum og þarf að vinna langan vinnudag, í þeirri von að geta endurgreitt tugþúsunda dala skuld við „vel­gerðar­menn“ sína.  Slíkt kallast vinnuþrælkun.  

Í tilviki ákærðu, sem er ung og á alla framtíðina fyrir sér, stóð hugur hennar til þess að komast til Bandaríkjanna, í von um mun betri lífskjör en í heimalandi sínu.  Er ekki annað fram komið í málinu en að þessi þrá hennar hafi ýtt henni út á þá braut að útvega sér hin fölsuðu skilríki, í þeim tilgangi að nota þau til þess að blekkja meðal annars landa­mæra­verði, en sú varð raunin á er ákærða framvísaði vegabréfinu við vega­bréfa­­skoðun vegna landamæraeftirlits á Kefla­víkur­­flug­­velli.  Þótt ekki megi gera lítið úr alvarleika háttsemi ákærðu, sem að lögum getur varðað fangelsi allt að 8 árum, er óhjákvæmilegt að líta til þess sem áður segir um tilgang ákærðu með brotinu, sem var ekki sá að baka öðrum tjón, heldur sá einn að freista þess að bæta lífskjör sín og fjölskyldu sinnar í framandi landi.  „Glæpur“ hennar felst í því að vera ung, fátæk og auð­­trúa.  Þykir því við ákvörðun refsingar mega líta til þeirra refsilækkunarsjónarmiða, sem tilgreind eru í 3. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga. 

Með framangreind atriði í huga og að teknu tilliti til aldurs ákærðu, hrein­skilnis­legrar játningar hennar fyrir dómi og þess að ekkert liggur fyrir um það í málinu að hún hafi áður gerst sek um refsiverða háttsemi, þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. 

Af hálfu ákæruvaldsins var því haldið fram að tildæmd refsing fyrir brot ákærðu skyldi vera óskilorðsbundin, bæði vegna almennra og sérstakra varnaðaráhrifa, en senda bæri þau skilaboð til þeirra aðila, sem standa að ólöglegum flutningi fólks milli landa, að Ísland væri ekki ákjósanlegur kostur í slíkri brotastarfsemi.  Var í því sambandi vísað til sænskrar dómaframkvæmdar.  Þótt vissulega megi færa gild rök fyrir því að skilorðs­bundin fangelsis­refsing fyrir brot af þessu tagi, framið af erlendum ríkisborgara, sem fyrir liggur að verður vísað úr landi að lokinni dómsmeðferð, þjóni eðlis máls samkvæmt litlum eða engum varnaðartilgangi, verður að gæta sömu sjónarmiða og gagnvart íslenskum ríkis­borgurum, sem fundnir eru sekir um sams konar eða keimlík brot.  Er löng hefð fyrir því að refsing fyrir fyrsta brot gegn skjalafalsákvæði almennra hegningarlaga, þar sem ekkert fjártjón verður af háttseminni og viðkomandi hefur ekki sakaferil, er að öðru jöfnu ákvörðuð skilorðsbundin.  Þótt stemma verði stigu við ólög­legum flutningi fólks af ólíku þjóðerni inn á íslenskt yfir­ráða­svæði, hvort heldur sem er til dvalar hér á landi eða vegna millilendingar á leið til annarra áfangastaða, er ekki unnt að gera ákærðu að blóraböggli fyrir mun alvarlegri glæpi þeirra sem stóðu að ferð hennar.  Ákærða var fórnarlamb þeirra og verður henni ekki fórnað öðru sinni, öðrum til viðvörunar.  Til þess hefur hún ekki unnið með framan­greindri háttsemi sinni.  Er því fallist á það sjónarmið verjanda að skilorðs­binda refsingu ákærðu, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, annan en þóknun Steingríms Þorbjarnarsonar dómtúlks, sem dómari kvaddi til aðstoðar við meðferð málsins.  Þykir hún hæfilega ákveðin 8.000 krónur og greiðist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna.  Þóknun Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns er hæfilega ákveðin 40.000 krónur og greiðist sem fyrr segir af ákærðu.

                Eyjólfur Kristjánsson löglærður fulltrúi Lög­reglu­stjórans á Keflavíkurflugvelli sótti málið af hálfu ákæruvalds.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Ákærða, Li Xiao Hua, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnu einu ári frá dómsuppsögu haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærða greiði 40.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, sem og annan sakarkostnað; þó ekki 8.000 króna þóknun til dómtúlks.