Hæstiréttur íslands

Mál nr. 83/2002


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. maí 2002.

Nr. 83/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Hafsteini Sveinbirni Péturssyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.

H var gefið að sök kynferðisbrot annars vegar gegn stúlkunni A, fæddri 1982, í nóvember 1999 og hins vegar gegn stúlkunni B, fæddri 1990, í desember 1999 og einnig um haustið 1999. H neitaði sök. Atferli H gegn B í desember 1999 hafði þegar í stað verið kært til lögreglu og B gengist undir læknisskoðun strax daginn eftir atvikið. Niðurstöður hennar, svo og framburður annars læknisins fyrir dómi, voru á þá leið að áverkar þeir sem voru á kynfærum telpunnar samræmdust verknaðarlýsingu ákæru. Var H sakfelldur fyrir þetta atriði ákærunnar. Varðandi atferli H gegn B um haustið 1999 var talið að framburður B væri út af fyrir sig trúverðugur en nyti þó takmarkaðs stuðnings af gögnum málsins. Varð ekki talið, gegn eindreginni neitun H, að ákæruvaldinu hefði tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum. Samkvæmt því var H sýknaður af þessum ákærulið. Stúlkan A hafði búið á heimili H frá því í október 1999. Það var fyrst við skýrslugjöf hjá lögreglu í febrúar 2000 vegna brota H gegn B, sem hún greindi frá því að H hefði einnig brotið gegn sér í nóvember 1999. Nokkrum dögum eftir að brotið var talið hafa verið framið hafði A farið ásamt H og eiginkonu hans til Dublin á Írlandi, og verið kvöldstund ein með H. A bjó heima hjá H þar til um miðjan janúar 2000 er henni var vísað burtu af heimilinu. Framburður A þótti út af fyrir sig ekki ótrúverðugur en ýmis atriði í skýrslunni þóttu þó óljós. Var ekki talið að tekist hefði að sanna brot H að þessu leyti. Þótt sýknað væri af hluta ákæruefnis, sem sakfellt hafði verið fyrir í héraðsdómi, var refsiákvörðun héraðsdóms staðfest og H gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Voru B dæmdar miskabætur en miskabótakröfu A vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Pétur Kr. Hafstein og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. febrúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu, þyngingar á refsingu og greiðslu miskabóta samkvæmt ákæru.

Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi.  Til vara er þess krafist, að  héraðsdómur verði ómerktur og til þrautavara að refsing verði milduð og höfð skilorðsbundin og skaðabætur lækkaðar.

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram er ákærða með ákæru 27. júní 2001 gefið að sök kynferðisbrot, annars vegar aðfaranótt 14. nóvember 1999 gagnvart A, fæddri 1982, er hún bjó á heimili hans, og hins vegar aðfaranótt 27. desember 1999 gagnvart B, fæddri 1990, er hún var gestkomandi á heimili ákærða í Breiðholti. Þá er ákærða gefið að sök í ákæru 3. september 2001 kynferðisbrot gagnvart B haustið 1999 á þáverandi heimili hans í Grafarvogi þar sem hún var gestkomandi.

II.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var atferli ákærða gagnvart B 27. desember 1999 þegar í stað kært til lögreglu og gekkst hún undir læknisskoðun strax næsta dag. Niðurstöður hennar, svo og framburður annars læknisins fyrir dómi, eru á þá leið, að áverkar þeir, sem voru á kynfærum telpunnar samræmdust verknaðarlýsingu ákæru. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta sakarmat hans um þetta ákæruatriði.

Að því er varðar atferli það, sem ákært er fyrir í ákæru 3. september 2001, liggur fyrir, að telpan sagði ekki frá því fyrr en í júlí 2000. Við yfirheyrslu í Barnahúsi 30. desember 1999 vegna atviksins 27. desember sagði hún, að það hefði verið í fyrsta skiptið, sem ákærði hefði gert svona við sig, hann hefði aldrei gert það áður. Telpan bar fyrir dómi, að hún hefði gist tvisvar á heimili ákærða, í fyrra skiptið haustið 1999, á tímabilinu frá því að skóli hófst og til jóla, er ákærði bjó í Grafarvogi, og í seinna skiptið 27. desember 1999, er hann bjó í Breiðholti. Móðir telpunnar sagði hana hafa gist þrisvar heima hjá ákærða, einu sinni á fyrri staðnum og tvisvar á seinni staðnum. Ákærði neitaði því, að telpan hafi gist á heimili hans, er hann bjó á fyrri staðnum og kvað hana aðeins hafa gist einu sinni á síðara heimili hans, það er aðfaranótt 27. desember 1999. Eiginkona ákærða bar fyrir dómi, að telpan hefði aðeins gist einu sinni á heimili þeirra, 27. desember 1999. Ljóst er af vitnisburði Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings og Guðlaugar Snorradóttur sérkennara, að telpan hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli. Taldi Vigdís, að tilvik það, sem hún greindi frá seinna, hafi haft meiri og verri áhrif á hana, hún ætti erfiðara með að tala um það. Í skýrslu Guðlaugar fyrir dómi kom hins vegar fram, að mikil breyting hafi orðið á telpunni eftir áramótin 1999 og 2000.

Ákærði hefur staðfastlega neitað því að hafa brotið gegn telpunni haustið 1999 svo sem lýst er í ákæru 3. september 2001. Er ákæran byggð á framburði telpunnar. Dómarar Hæstaréttar hafa skoðað myndband það af skýrslu stúlkunnar, sem tekin var í Barnahúsi 16. mars 2001. Fallast má á það með héraðsdómi, að framburður hennar sé út af fyrir sig trúverðugur, en hann nýtur takmarkaðs stuðnings af gögnum málsins. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi, verður Hæstiréttur að meta, hvort ákæruvaldinu hafi í heild tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. gr. og 46. gr. laganna. Verður ekki talið, gegn eindreginni neitun ákærða, að ákæruvaldinu hafi tekist slík sönnun. Samkvæmt þessu verður því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins í ákæru 3. september 2001.

III.

Í I. kafla ákæru 27. júní 2001 er ákærða gefið að sök kynferðisbrot gagnvart A aðfaranótt 14. nóvember 1999. Stúlkan hafði þá búið á heimili ákærða og eiginkonu hans frá því í október 1999. Það var fyrst við skýrslugjöf hjá lögreglu 17. febrúar 2000 vegna áðurgreinds atviks 27. desember 1999, að stúlkan lýsti því, að ákærði hefði einnig brotið gegn sér. Fyrir dómi bar stúlkan, að hún hefði sagt vinkonu sinni frá þessu seint í desember, en vinkonan sagði hana hafa sagt sér frá því nokkru eftir að upp komst um atvik það, sem gerðist 27. desember. Hefði hún sagt sér, að hún hafi vaknað við að ákærði var að káfa á fætinum á henni. Fram er komið, að 18. nóvember 1999, fjórum dögum eftir að brotið er talið hafa verið framið, fór stúlkan ásamt ákærða og eiginkonu hans til Dublin á Írlandi, og var kvöldstund ein með ákærða.   Stúlkan bjó heima hjá ákærða þar til um miðjan janúar 2000, er henni var vísað í burtu af heimilinu.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sök. Sonur hans, sem var á heimilinu þetta kvöld, bar fyrir dómi, að ákærði hefði verið sofnaður að minnsta kosti klukkutíma áður en hann fór í burtu um nóttina, og eiginkona ákærða segir hann hafa farið að sofa á svipuðum tíma og hún.

 Dómarar Hæstaréttar hafa skoðað myndband það af skýrslu stúlkunnar, sem fyrir liggur í málinu. Fallast má á það með héraðsdómi, að framburður hennar sé út af fyrir sig ekki ótrúverðugur, en ýmis atriði í skýrslunni eru þó óljós svo sem lýsing hennar af því, er hún vaknaði og hvernig klæðnaður hennar var. Eins og að framan segir verður Hæstiréttur að meta, hvort ákæruvaldinu hafi tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum. Verður ekki talið, gegn eindreginni neitun ákærða, að ákæruvaldinu hafi tekist slík sönnun. Samkvæmt þessu verður að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins í þessum ákærulið. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 ber að vísa bótakröfu stúlkunnar frá héraðsdómi.

IV.

Brot það, sem ákærði er sakfelldur fyrir, er alvarlegt og beinist að mikilvægum hagsmunum. Þykja ekki efni til að breyta refsiákvörðun héraðsdóms, þótt sýknað sé af hluta ákæruefnis, og skal ákærði sæta fangelsi í 18 mánuði.

Í skýrslu Barnahúss 9. október 2001 kemur fram, að B hefur verið í meðferð hjá Vigdísi Erlendsdóttur sálfræðingi frá 15. janúar 2000 til 4. október 2001 og sótt 21 viðtal. Viðtölin leiddu í ljós, að telpan hafi orðið fyrir áfallaröskun og voru einkennin þrálát og ollu henni umtalsverðum erfiðleikum í daglegu lífi. Hafði hún meðal annars tvívegis gengist undir lyfjameðferð vegna þunglyndis að ráði barnageðlæknis. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð Margrétar Valdimarsdóttur deildarlæknis á Landspítala, barna- og unglingageðdeild, 11. apríl 2002 þar sem fram kemur, að áfallastreitueinkenni jukust, er lyfjameðferð var hætt, og var það mat lækna deildarinnar, að telpan hefði þörf fyrir þunglyndislyf enn um sinn. Þá hefur verið lagt fyrir Hæstarétt bréf Guðlaugar Snorradóttur sérkennara 2. maí 2002, þar sem greinir, að telpan hafi átt í mjög miklum tilfinningalegum erfiðleikum síðustu mánuði. Brot ákærða hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir telpuna og er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms, að hún eigi rétt á bótum úr hendi ákærða. Eru þær hæfilega ákveðnar í héraðsdómi og skulu bera dráttarvexti frá 14. maí 2000, er mánuður var liðinn frá því að krafa var sett fram.

Sakarkostnaður í héraði greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af ákærða. Ákvörðun héraðsdóms um þóknun til verjanda er staðfest, en þóknun réttargæslumanns brotaþola skal vera 120.000 krónur.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að jöfnu af ríkissjóði og ákærða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Hafsteinn Sveinbjörn Pétursson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði B 600.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. maí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Miskabótakröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Sakarkostnaður í héraði greiðist til helminga úr ríkissjóði og af ákærða. Ákvörðun héraðsdóms um málflutningsþóknun skipaðs verjanda er staðfest, en þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, ákveðst 120.000 krónur.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af ákærða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2001.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni dags. 27. júní  2001. á hendur: ,X, kennitala […], til heimilis […], Reykjavík, fyrir eftirgreind kynferðisbrot á heimili ákærða að […], Reykjavík:

I.

Mað því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 14. nóvember 1999, þegar stúlkan A fædd 1982, var sofandi á heimili ákærða, þuklað á kynfærum hennar innanklæða og  farið með fingur inn í þau.

II.

Með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 28. desember 1999, þegar stúlkan B, fædd 1990 var gestkomandi á himili ákærða, farið með fingur inn í kynfæri hennar með þeim afleiðingum að úr þeim blæddi.

Brot ákærða skv. 1. lið ákæru telst varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40, 1992 og brot skv. II. lið við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærða verði dæmdur til refsingar.

Bótakröfur:

1. Af álfu stúlkunnar A, kennitala ´82, er þess krafist að ákærði

verði dæmdur til að greiða henni miskabætur kr. 500.000, auk dráttarvaxta

skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1989 frá 14.11.1999 til greiðsludags. 

Auk þess er gerð krafa um þóknun við ráttargæslu og lögmannsaðstoð

við gerð bótakröfu að viðbættum virðisaukaskatti.

2. Af hálfu stúlkunnar B, kt. ´90, er þess krafist að ákærði verði

dæmdur til að greiða henni miskabætur kr. 2.000.000 auk dráttarvaxta  skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 27. desember 1999 til greiðsludags.  Auk þess er gerð krafa um þóknum við réttargæslu a viðbættum virðisaukaskatti.”

 

Önnur ákæra var gefin út 3. september 2001 á hendur ákærða og þá ákært:

,,fyrir kynferðisbrot, með því að hafa haustið 1999 á heimili ákærða að X , Reykjavík, nuddað og sleikt kynfæri stúlkunnar B fæddrar 1990, sem þar var gestkomandi.

Brot þetta telst varða við síðari málsið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Málin voru sameinuð.

Undir dómsmeðferð málsins var leiðrétt villa í II. kafla ákærunnar frá 27. júní sl., þar sem á að standa aðfaranótt mánudagsins 27. desember 1999, í stað þriðjudagsins 28. desember. Þessi villa sem nú hefur verið leiðrétt kemur ekki að sök.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.  Aðallega er krafist sýknu af bótakröfum, en til vara að þeim verði vísað frá dómi og til þrautavara að þær sæti verulegri lækkun.  Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

 

Upphaf máls þessa sem má rekja til þess að starfsmaður fjölskyldudeildar félagssviðs Kópavogs greindi lögreglu frá grunsemdum um að kynferðisbrot hefði verið framið gagnvart  B, sem er fædd 1990.  Daginn eftir tilkynninguna ræddi lögreglan við ÁB, móður B.  Í lögregluskýrslu dags. 29. desember 1999 er því meðal annars lýst að B hefði komið heim til sín illa sofin eftir að hafa gist á heimili ákærða aðfaranótt 27. desember 1999.  Síðar sama dag kom móðir B að henni í herbergi sínu er hún var að fela nærbuxur ataðar blóði.  B hefði greint móður sinni frá því að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega á þann hátt sem lýst er í ákærulið II í ákærunni frá 27. júní sl.  ÁB afhenti lögreglu þrennar að því er talið var blóðugar nærbuxur, þar á meðal nærbuxur er B hafði klæðst er hún gisti á heimili ákærða aðfaranótt 27. s.m. 

B var hinn 28. desember 1999 skoðuð af barnalækni og kvensjúkdómalækni og verður vikið að því síðar.

Tekin var skýrsla af B fyrir dómi 1999 og verður efni hennar rakið síðar.

Við rannsókn ætlaðs sakarefnins sem lýst var að ofan var tekin góð vitnaskýrsla af A 17. febrúar 2000.  Við þá skýrslutöku greindi hún frá kynferðisbroti ákærða gagnvart henni. Eftir það var tekin skýrsla af A fyrir dómi 7. apríl 2000.  Hún kom fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins og verður sá vitnisburður rakinn síðar.

Hinn 12. mars sl. lagði ÁB, móðir B, fram aðra kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn dóttur hennar.  Hún kvað B hafa greint frá því í viðtali hjá sálfræðingi að ákærði hefði framið kynferðisbrot gagnvart henni eins og lýst er í ákæru dags. 3. september sl.  Vegna þessa ætlaða brots ákærða var tekin skýrsla af B fyrir dómin 16. mars sl., en skýrslan verður rakin síðar.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu, ef ástæða þykir.

 

Ákæra dagsett 27. júní 2001

I

Ákærði neitar sök.  Hann kvað A hafa búið á heimili hans á þeim tíma sem í ákæru greinir. Samkomulagið hefði verið gott uns upp kom misklíð sem leiddi til þess að A flutti út. Hann kvað miskilíðina ekki hafa tengst   sakarefni máls þessa, en ásakanirnar á hendur sér hefðu komið fram síðar. Ákærði kvað A því hafa gist á heimili hans þessa nótt.  Hann viti ekki hvort hún gisti í sófa í stofunni, en þar hafi hún verið ásamt K, syni ákærða, er ákærði fór að sofa, en þau þrjú hefðu setið að drykkju um nóttina, en eiginkona ákærða hefði verið farin að sofa fyrr um kvöldið eða nóttina.  Þau þrjú sem vöktu horfðu á box í sjónvarpinu uns ákærði gafst upp og gekk til náða og kvaðst ekki eftir það hafa komið aftur fram í stofu um nóttina.  Hann lýsti ferð sem hann og eiginkona hans fóru til Dublinar stuttu eftir þann tíma, sem í þessum ákærulið  greinir, og að A hefði komið með í þá ferð.  Hún hefði til að mynda farið með ákærða út að borða í ferðinni. Ákærði lýsti því að hann hefði rætt við A um ásakanirnar á hendur sér, sem um ræðir í II. kafla ákærunnar, eftir að atburður sá sem hér er ákært vegna er talinn hafa átt sér stað.   Þá hafi komið fram í máli hennar að hún tryði ekki ásökunum á hendur ákærða. 

A kvaðst hafa búið á heimili ákærða frá því í október 1999 fram í jánúar 2000, en á þessum tíma vann hún með ákærða og eiginkonu hans.  Hún kvaðst hafa neytt áfengis á heimili ákærða að X samt ákærða, eiginkonu hans og syni að kvöldi 13. nóvember 1999.  Hún mundi ekki hvort fólkið fór á skemmtistað síðar um kvöldið.  Horft var á box í sjónvarpinu, en þegar það hófst hefði hún farið að sofa en hún kvaðst hafa sofnað í hornsófa í stofunni.  Hún kvaðst hafa farið fyrst að sofa af fólkinu sem þarna var. Hún hefði síðan vaknað um nóttina við það að einhver var með fingur inni í kynfærum hennar.  Maðurinn hefði einnig þuklað á kynfærum hennar.  Hún hefði ekki vitað hvað hún átti að gera, en vafði sænginni utanum sig til að reyna að hindra þetta og þóst vera sofandi.  Hún kvaðst hafa talið að þetta væri sonur ákærða, þar sem komið hefði til tals um kvöldið að hann fengi að gista í sama sófa og hún.  Hún hefði síðan séð er maðurinn gekki í burtu að þetta var ákærði. Hún kvað það ekki hafa farið á milli mála og skýrði hún það nánar.  Hún kvaðst ekki hafa rætt þetta við neinn morguninn eftir, en ástæðuna kvað hún hafa verið þá að ákærði og eiginkona hans hefðu alltaf verið sér góð og hún þess vagna ekki hafa vitað hvað hún ætti að gera.  Hún kvaðst því hafa brugðið á það ráð að forðast að vera nærri ákærða og þóst ekkert vita, þar sem hún hafði látist vera sofandi um nóttina. 

A kvaðst hafa greint Ö, vinkonu sinni, frá því sem ákærði gerði henni, en það hafi hún gert, að því er hún taldi, á milli jóla og nýárs 1999, eftir að J eiginkona ákærða hringdi hágrátandi í hana og sagði henni frá því, er móðir B hefði hringt, eins og rakið var úr vitnisburði A við ákærulið II. hér að aftan.

Auk vitnisburðar A fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins var tekin ef henni dómskýrsla 7. apríl 2000 eins og rakið var. Sú skýrsla var tekin upp á myndband sem hefur verið skoðað. Ekki þykir ástæða til að rekja vitnisburð hennar þar, en hann var efnislega á sama veg og undir aðalmeðferð málsins

J, eiginkona ákærða, kvað þau ákærða, A, K son ákærða og að hana minnti kunningja ákærða hafa farið að skemmta sér á Fjörukránna í Hafnarfirði að kvöldi 13. nóvember 1999.  Hún kvaðst ekki vita betur en að þau hefðu öll verið samferða heim.  A og K sonur ákærða hefðu horft á sjónvarpið fram eftir nóttu, en þau ákærðu gengu til náða um svipað leyti.  Í mesta lagi hafi liðið 5 til 10 mínútur á milli þeirra hjóna.  Hún bar ekkert um það sem gerðist á heimilinu eftir þetta og ekki fyrr en hún vaknaði um morguninn.  Hún kvað ásökun á hendur ákærða, sem í þessum ákærulið greinir, hafa komið fram eftir að hún vísaði A á dyr eftir slæma umgengni um íbúðina í fjarveru þeirra ákærða.

K, sonur ákærða, kvaðst hafa verið á heimili föður síns um kvöldið 13. nóvember og síðan farið ásamt honum og konu hans og A á dansleik um kvöldið.  J fór fjótlega að sofa eftir heimkomu, en hin þrjú ræddu saman í stofunni og horfðu á box í sjónvarpinu.  Ákærði hefði farið næstur að sofa. K kvað A hafa sofnað í sófanum, þar sem henni var ætlaður svefnstaður, en komið hafði til tals að K svæfi þar einnig, sem ekki varð úr.  Hann kvaðst hafa farið eftir að A lagðist til svefns og taldi hann að þá hefðu verið liðnar ein til tvær klukkustundir frá því að faðir hans fór að sofa, en er hann fór kvaðst hann hafa heyrt hrotur í föður sínum.  Hann kvaðst ekki hafa komið aftur á staðinn fyrr en daginn eftir.

Þ, vinkona A, lýsti kunningsskap þeirra, en hún kvaðst hafa umgengist A mikið þann tíma sem hún bjó á heimili ákærða í […].  Þ kvað A hafa greint sér frá því hvað ákærði gerði henni og er þá átt við háttsemi þá, sem í þessum ákærulið greinir.  Hún mundi ekki vel hvenær A greindi henni frá þessu, en taldi að það hafa verið eftir að kæran um ætlað brot ákærða gagnvart B var komin fram.  Þ kvað A hafa greint sér frá því að hún hefði vaknað við það að ákærði var að káfa á fæti hennar.  Frásögnin hafi ekki verið ítarlegri.

II

Ákærði neitar sök.  Hann kvað B hafa gist á heimili sínu aðfaranótt 27. desember 1999, en tímasetning ætlaðs brots samkvæmt þessum ákærulið hefur verið leiðrétt eins og rakið var.  Ákærði mundi óljóst eftir heimkomu sinni þessa nótt, en hann kvaðst hafa verið undir talsverðum áhrifum áfengis.  Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort börnin voru sofnuð, en hann hefði farið að sofa strax eftir heimkomuna.  Hann kvað ÁB, móðir B, hafa hringt í sig daginn eftir og boðað forföll frá vinnu, en hún var á þessum tíma í vinnu hjá ákærða. Álfhildur hefði greint honum frá því að hún þyrfti að fara með B í læknisskoðun vegna þess sem hann hefði gert henni.  Hann kvaðst hafa rétt konu sinni símann eftir þetta.  Hann kvað sér hafa orðið svo mikið um þetta að hann hefði leitað sér læknisaðstoðar daginn eftir. 

Í lögregluskýrslu 7. febrúar 2000 greindi ákærði svo frá að hann gæti ekki tjáð sig um atburði eftir að hann kom heim til sín aðfaranótt 27. desember.  Við þá skýrslutöku var honum kynntur vitnisburður B um að ákærði hefði sett fingur inn í kynfæri hennar þessa nótt.  Hann kvaðst þá ekki muna eftir þessu.

Fyrir dómi var ákærði spurður að því hvort hann ætti vanda til þess að það detti úr minni hans atburðir, sem átt hafa sér stað meðan hann væri undir áhrifum áfengis.  Hann kvað það geta komið fyrir eins og hjá öðrum.  Hann tók hins vegar fram að atburðir eins og sá, sem hann var sakaður um, muni aldrei hverfa úr minni hans.  Hann kvaðst í öðru máli, þar sem hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot, hafa verið aðvaraður um það, að hann kynni að vera sakaður um kynferðisbrot aftur ef hann neytti áfengis.  Hann skýrði þetta nánar.  Hann greindi frá því að hann hefði verið því mjög mótfallinn að B gisti á heimili hans eins og hún gerði og þá kvaðst hann helst ekki vilja að stúlkubörn gistu á heimili hans.

Tekin var vitnaskýrsla af B fyrir dómi 30. desember 1999.  Skýrslan var tekin upp á myndband, sem var skoðað undir aðalmeðferð málsins.

Nú verða rakin helstu atriði úr vitnisburði hennar.

B lýsti því er hún gisti þessa nótt á heimili ákærða og að hún hefði átt að sofa í rúmi með 6 ára gömlum syni hans.  Hún lýsti því hvar aðrir íbúar sváfu.  Hún kvaðst hafa sofið í náttkjól.  Hún kvaðst hafa vaknað um 5 leytið um nóttina er hún heyrði eitthvað úr eldhúsinu.  Hún kvaðst hafa reynt að sofna aftur, en ekki tekist það.  Ákærði hefði síðan komið inn í herbergið, en þá var hún vakandi.  Ákærði hefði lagst við hliðina á syni sínum, sem þá var á milli ákærða og hennar í rúminu.  Hún kvaðst telja að ákærði hefði ekki vitað að hún var vakandi þegar hann kom inn, en hann hefði ,,hótað mér bara að leggjast á bakið” og að hann ,,sagðist myndi verða öskureiður ef ég myndi ekki hlýða honum.” Hún kvaðst hafa gert það.  Hún lýsti því síðan með aðstoð teikninga hvar ákærði snerti hana og kvað hann hafa farið með höndina inn undir nærbuxur hennar og sett fingur inn í kynfæri hennar.  Hún kvaðst hafa orðið hrædd og hafa fundið til, en strax hefði komið blóð og einnig er hún fór á klósettið um morguninn.  Hún kvað nærbuxur sínar hafa orðið blóðugar og skipti hún um nærbuxur eftir heimkomu daginn eftir.  Ákærði fór síðan út úr herberginu, en áður hefði hann sagt að hann yrði öskureiður ef hún segið móður sinni frá því sem gerðist.  Hún kvaðst síðan hafa reynt að sofna aftur.  Daginn eftir fór hún í bíó en kom heim til sín um eftirmiðdaginn og greindi móður sinni frá því sem gerðist. 

ÁB, móður B, lýsti því er B kom heim til sín um 5 leytið 28. desember 1999 eftir að hafa gist á heimili ákærða.  B hefði ekki talað við neinn, verið dul og lokað sig mikið inni í herbergi og inni á salerninu.  ÁB kvaðst hafa gengið á hana og séð að hún hélt á blóðugum nærbuxum, sem hún reyndi að fela.  B sýndi móður sinni þá aðrar blóðugar nærbuxur, sem hún hefði reynt að þvo og hinar þriðju sem einnig voru blóðugar.  B hefði í fyrstu sagst hafa sest á plasthníf, en ekki viljað ræða þetta nánar, en sagðist hafa fleygt hnífnum.  Hún lýsti því síðan er dóttir hennar brast í grát og greindi henni skömmu síðar frá því að ákærði hefði kvöldið áður ætlað að svæfa hana og þá sett fingur inn í hana svo úr blæddi.  Hún kvað gott samband vera á milli þeirra mæðgna, en ástæðuna fyrir því að B vildi ekki greina henni frá í fyrstu hafi verið sú að ákærði hefði hótað ófarnaði í garð fjöslkyldunnar, einkum móður hennar, ef hún greindi frá því sem gerðist.  ÁB kvaðst hafa hringt í ákærða og sagt honum af fráösgn B og taldi hún að ákærði hefði brotnað saman og afhent konu sinni símann og greindi hún henni frá því sama.  ÁB kvað J, eiginkonu ákærða, hafa hringt daginn eftir og beðið sig um að kæra ekki atburðinn, en þá var málið þegar úr hennar höndum, því hún kvaðst hafa farið með dóttur sína til læknisskoðunar deginum áður.  ÁB lýsti afleiðingum verknaðarins á B, kvað hana hafa átt við svefntruflanir að stríða, henni tekið að ganga illa í skóla, en áður hefði henni gengið vel eftir að hún naut sérkennslu.  Það hefði eins og slokknað á henni, sem alltaf hefði verið brosmild og glöð.  Hún lýsti fleiri alvarlegum afleiðingum af meintri háttsemi ákærða á B. 

ÁB kvað B hafa gist þrisvar sinnum á heimili ákærða, þar af í tvö skipti er ákærði bjó í […], en er hún gisti þar hafi ÁB farið út að skemmta sér með ákærða og konu hans.  B hafi í öll skiptin sem hún gisti á heimili ákærða verið ekið heim til sín og hún ekki tekið eftir neinu sérstöku í fari hennar eftir að hún gisti í […].  Það hafi síðan verið í eitt sinn er þær mæðgur ræddu saman um fyrirhugaða ferð B í sveit að hún sagðist ætla að greina henni frá dálitlu og að hún mætti ekki reiðast. B greindi henni þá frá því að eitt sinn er hún gisti á heimili ákærða í […] í Grafarvogi þá hefði ákærði gert það sama og í það skipti sem hún hefði þegar greint frá, þ.e. að hann hefði verið að svæfa hana og strokið hana um kynfærin og kysst þau.

Þóra F. Fischer, kvensjúkdóma- og fæðingalæknir, skoðaði B ásamt Jóni R. Kristinssyni bærnalækni 28. desember 1999.  Læknarnir rituðu skýrslu um skoðunina og staðfesti Þóra hana og skýrði fyrir dóminum.  Hún lýsti áverkum á kynfærum B, meðal annars grunnum ,,léttblæðandi” áverka og mari í kring.  Lögð var fram teikning sem Þóra studdist við er hún skýrði mál sitt fyrir dóminum og það álit sitt að áverkinn á kynfærum B samrýmdist því vel að fingri hefði verið stungið inn í þau.  Þóra kvað áverkana ekki hafa getað verið af völdum sýkingar, sem valda yfirleitt almennum roða og ertingu á húð, sem ekki hefði verið fyrir hendi.  Þá lýsti Þóra því áliti sínu að í hæsta máta væri ólíklegt að stúlkan veitti sér áverkann sjálf og nefndi hún dæmi til stuðnings máli sínu um hversu ólíklegt þetta væri.

Guðlaug Snorradóttir sérkennari lýsti könnun sinni á stöðu nemenda í upphafi skólagöngu, en Guðlaug er sérkennari í kennslufræðum og talmeinafræði.  Hún kvað fljótlega hafa komið í ljós að B átti við erfiðleika að stríða á ákveðnum sviðum og lýsti hún því.  Hún lýsti aðstoð sem B og önnur börn í skólanum nutu vegna þessara erfiðleika og kvaðst hún því þekkja B vel bæði sem nemanda og sem persónu.  Hún lýsti góðum eiginleikum í fari B og miklum framförum í náminu.  Framfarir B voru stöðugar frá byrjun þar til í janúar 2000, er hún kvaðst hafa tekið eftir því að B var eins og annað barn.  Hún kvaðst hafa merkt miklar breytingar í fari hennar og lýsti hún þeim og meðal annars því, þegar B hefði ekki verið sú opna og glaða sál sem fyrr.  Aðrir sérkennarar merktu sömu breytingar í fari B á þessum tíma að sögn Guðlaugar.  Hún kvaðst hafa haft samband við móður B eftir að þessi breyting  varð orðin á henni og þá var henni greint frá því að B hefði orðið fyrir alvarlegu áfalli.  Guðlaug lýsti því hvernig B var haldin þráhyggju og sá stöðugt fyrir sér manninn sem beitt hefði hana ofbeldinu.  Hún kvað B nú í betra jafnvægi en áður og lýsti því hvernig fylgst væri með námi hennar, en hún nyti ekki lengur sérkennslu.

Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur lýsti meðferðarviðtölum sem hún hefur átt við B og staðfesti hún skýrslu sína um viðtölin, en þar kemur meðal annars fram að hún átti 21 viðtal við B á tímabilinu frá 15. janúar 2000 til 4. október sl., en tilefni viðtalanna var grunur um að B hefði sætt kynferðislegu ofbeldi.  Hún kvað B enn vera í viðtölum hjá sér.  Vigdís kvað niðurstöðu sína eftir viðtölin við B vera þá, að hún uppfylli öll greiningarviðmið áfallaröskunar.  Vígdís lýsti einkennum sem hún hefði orðið vör við hjá B þessu til stuðnings.  Hún kvað þessi einkenni dæmigerð hjá barni sem orðið hefði fyrir kynferðislegu ofbeldi, en einkennin geti einnig verið dæmigerð hjá börnum sem eru í kreppu af öðrum orsökum.  Hins vegar þurfi mikið áfall til að einstaklingur greinist með áfallaröskun.

Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti skýrslu sem hann ritaði um vinnu sína við málið, en hann rannsakaði nærbuxur af B með tilliti til þess hvort í þeim fyndist blóð.  Hann kvaðst ekki hafa fundið merki um blóð í buxunum.

A  mundi eftir því er B gisti á heimli ákærða þessa nótt.  Hún kvaðst hafa verið úti að skemmta sér með ákærða og eiginkonu hans og fóru þau heim á undan A, sem kom heim seint þessa nótt og þurfti að hringja í farsíma ákærða til að fá hann til að opna húsið, þar sem hún hefði gleymt húslyklunum.  Hana minnti að ákærði hefði hleypt sér inn.  Hún kvaðst síðan hafa frétt hvað gerðist um nóttina.  J, eiginkona ákærða, hefði hringt í sig og greint sér frá því hágrátandi að ÁB, móðir B, hefði hringt og borið fram ásakanir á hendur ákærða.

 

Ákæra dagsett 3. september 2001

Vísað er til þess sem áður greindi um aðdraganda rannsóknar þessa sakarefnis.

Ákærði neitar sök.  Hann kveðst ekki viss um það hvenær hann flutti frá [Grafarvogi í Breiðholt], en á þeim tíma sem hann bjó [í Grafarvogi] hafi lítil samskipti verið á milli ákærða og ÁB, móður B.  Samskipti þeirra urðu meiri síðar, en eiginkona hans þekkti hana hins vegar frá fyrri tíð.  Hann mundi ekki til þess að B hefði gist á heimili hans er hann bjó [í Grafarvogi] og taldi hann að stúlkan hefði einungis gist einu sinni á heimili hans og það hefði verið aðfaranótt 27. desember 1999.

Hjá lögreglunni bar ákærði að B hefði gist tvisvar til fjórum sinnum á heimili hans.  Fyrir dómi kvað hann framburð sinn hjá lögreglunni um þetta rangan, en hann hafi komist að því við að rifja upp samskipti sín og ÁB móður B.

Tekin var sýrsla af B fyrir dómi 16. mars sl.  Sú skýrsla var tekin upp á myndband, sem skoðað var undir aðalmeðferð málsins.  Helstu atriði vitnisburðar hennar verða nú rakin. 

Fram kom hjá B að hún kallar meint sakarefni samkvæmt þessari ákæru ,,fyrra skiptið.” Fram kom að ákærði hefði þá ,,gert það sama og fyrst” og er þá vísað til fyrra viðtalsins við B sem rakið var vegna sakarefnis í II. kafla fyrri ákærunnar.  Ekki kom skýrt fram hvenær atburðurinn, sem hún lýsti átti sér stað, en það var á heimili ákærða í Grafarvogi, líklega í […].  Fram kom hjá B að hún var byrjuð í skólanum er þetta gerðist. Hún mundi ekki hvort hún var búin að eiga afmæli, 29. nóvember, en þetta gerðist örugglega fyrir jól.  Hún kvaðst hafa verið í náttkjól og nærbuxum.  Ákærði kom inn í herbergi þar sem hún lá vakandi í rúminu með P, syni ákærða, en hann var sofandi.  Hann vissi að B var vakandi, þar sem hún var með opin augun, eins og hún lýsti.  Þetta átti sér stað að kvöldi um miðnætti að því er hún taldi.  Hann hefði girt niður um hana nærbuxurnar og síðan kysst og nuddað á henni kynfærin.  Hún kvað hann haf notað tungu sína og sleikt á henni kynfærin.  Hún kvað sér hafa liðið illa og hún hafi sagt ákærða að hún vildi fá að sofa.  Hann sagði henni að hún mætti ekki segja frá því sem gerðist og lýsti hún nákvæmlega aðstæðum er hann skipaði henni fyrir um þetta daginn eftir.  Hún kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessum atburði fyrst allra.  Hún lýsti vanlíðan sinni eftir þetta.

ÁB, móðir ákærðu, kvað B hafa gist þrisvar sinnum á heimili ákærða, þar af í tvö skipti er ákærði bjó í [Grafarvogi] og er hún gisti þar hafi ÁB farið út að skemmta sér með ákærða og konu hans.  B hafi í öll skiptin sem hún gisti á heimili ákærða verið ekið heim til sín og hún ekki tekið eftir neinu sérstöku í fari B eftir að hún gisti í [Grafarvoginum].  Það hafi síðan verið í eitt sinn er þær mæðgur ræddu saman um fyrirhugaða ferð B í sveit að B sagðist ætla að greina henni frá svolitlu og hún mætti ekki reiðast.  Hún greindi henni þá frá því að eitt sinn er hún gisti á heimili ákærða […] í Grafarvogi, þá hefði ákærði gert það sama og það skipti sem hún hafði þá þegar greint frá, þ.e. að hann hafi verið að svæfa hana og strokið hana um kynfærin og kysst þau.

Vísað er til vitnisburðar Vigdísar Erlendsdóttur og Guðlaugar Snorradóttur sem rakin var undir ákæruliði II í fyrri ákærunni en vitnisburður þeirra um hagi B á einnig við um sakarefni sem lýst er í þessari ákæru.

 

Niðurstaða

Ákæra dagsett 27. júní 2001

I

A hefur tvisvar sinnum gefið skýrslu fyrir dómi vegna málsins.  Vitnisburður hennar er efnislega eins í bæði skiptin. Eins og rakið var taldi hún í fyrstu að sonur ákærða ætti hlut að máli vegna þess að komið hafði til tals að hann gisti í sama sófa og hún svaf í.  Hún lýsti við báðar skýrslutökurnar fyrir dómi vissu sinni um það að maðurinn sem gekk út úr stofunni hefði verið ákærði, hann væri svo breiður, eins og hún komst að orði. 

Af vitnisburði og öðrum gögnum málsins má ráða að ákærði var eini karlmaðurinn í íbúðinni um nóttina eftir að sonur hans fór.  Þótt dimmt hafi verið í stofunni á þeim tíma telur dómurinn engan vafa leika á því með vísan til alls ofanritaðs að A sem var heimilismaður og vann auk þess með ákærða þekkti hann við þessar aðstæður, enda ákærði bæði stór maður og mikill vexti.  Eins og rakið var hefur A tvívegis borið um atburð þann sem lýst er í þessum ákærulið og er vitnisburður hennar efnislega á sama veg í bæði skiptin.  Hún greindi vinkonu sinni frá atburðinum þótt það hafi ekki verið í smáatriðum.  Hún lýsti viðbrögðum sínum eftir atburðinn, meðal annars því að hún hafi látið sem hún vissi ekki af því sem átti sér stað, þar sem hún lést vera sofandi í stofunni um nóttina eins og rakið var.  Þótt hún hafi eftir þetta farið í ferðalag með ákærða og eiginkonu hans til útlanda rýrir það að áliti dómsins ekki trúverðugleik vitnisburðar hennar. Samkvæmt öllu ofanrituðu og með vitnisburði A telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi, sem hér er ákært fyrir og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákærunni

II

B gekkst undir læknisskoðun 28. desember 1999 daginn eftir hið meinta brot ákærða.  Samkvæmt vitnisburði Þóru F. Fischer samrýmast áverkarnir á B því vel að fingri hafi verið stungið inn í kynfæri hennar.  Vísað er til þess sem áður er rakið um þetta.  Af vitnisburði Guðlaugar Snorradóttur og Vigdísar Erlendsdóttur má ráða að B hefur á þeim tíma sem í ákærunni greinir orðið fyrir alvarlegu áfalli sem hún hefur sjálf skýrt frá hvert var.  Vitnisburður ÁB, móður B, er og á sama veg.  Vísað er til vitnisburðar þessara vitna hér að framan.  Vitnisburður B um atvikið sem hér um ræðir er trúverðugur og fær stuðning af vitnisburði allra vitnanna sem lýst er að ofan. Það er álit dómsins og með með vísan til vitnisburðarins sem rakinnn var og gagna málsins að öðru leyti að breytingin á B um og eftir áramótin 1999/2000, sem áður er lýst, megi að mestu eða öllu leyti rekja til brota ákærða gagnvart henni.

Að öllu þessu virtu telur dómurinn sannað með vitnisburði B, sem fær stoð af vitnisburði vitnanna sem lýst er að ofan, en gegn neitun ákærða að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.

 

Ákæra dagsett 3. september 2001

Ákærði bar hjá lögreglunni að B hefði gist tvisvar til fjórum sinnum á heimili hans.  Fyrir dómi mundi hann ekki til þess að hún hefði gist á heimili hans að […í Grafarvogi].  Dómurinn telur hins vegar sannað með vitnisburði B og AB, móður hennar, að B  gisti á heimili ákærða haustið 1999, en af vitnisburði B má ráða að það var á tímabilinu eftir að skóli hófst þetta haust og fram að jólum.  Þótt ekki sé unnt að tímasetja þennan atburð nákvæmar kemur það ekki að sök eins og hér stendur á, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991, enda ljóst að vörn ákærða var ekki áfátt af þessum sökum. 

Af vitnisburði Guðlaugar Snorradóttur og Vigdísar Erlendsdóttur má ráða að B hefur á þeim tíma sem í ákærunni greinir orðið fyrir alvarlegu áfalli, sem hún hefur sjálf greint frá hver voru eins og áður er lýst.  Vitnisburður ÁB móður B styður þetta einnig.  Vísað er til röksemda í niðurstöðu við II. lið fyrri ákærunnar um það álit dómsins að breytingar í fari B sem vart varð um og upp úr áramótum 1999/2000 verði raktar til brota ákærða gagnvart henni. Þá er vitnisburður B um sakarefni þessarar ákæru trúverðugur og fær stuðning af vitnisburði vitnanna, sem vísað var til að ofan.

Samkvæmt öllu ofanrituðu telur dómurinn sannað með vitnisburði B, sem fær stuðning af vitnisburði Guðlaugar Snorradóttur, Vigdísar Erlendsdóttur og ÁB móðir B, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið það brot sem lýst er í þessari ákæru og er brot hans rétt fært til refsiákvæða.

Ákærði var í nóvember 1993 dæmdur í Hæstarétti í 12 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot. Áður hafði hann hlotið þrjá dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og gegn umferðarlagabrot.  Fram til ársins 1985 gekkst hann undir fjórar dómsáttir fyrir tékkabrot, áfengislagabrot og fyrir umferðarlagabrot. 

Brot ákærða eru til þess fallin að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar og er ljóst að brot hans höfðu það í för með sér fyrir B.  Brotin beindust þannig að mikilvægum gæðum, sem er sálarheill brotaþolana, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, og er þetta virt ákærða til refsiþyngingar.  Brot ákærða beindust að barni sem gisti á heimili hans annars vegar og hins vegar gegn unglingi, sem bjó þar um tíma.  Brot hans eru alvarleg.

Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 18 mánuði.

Með háttsemi sinni gagnvart A hefur ákærði gerst sekur um refsiverða meingerð gegn henni og á hún rétt á bótum úr hendi hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur.

Með háttsemi sinni gagnvart B hefur ákærði gerst sekur um refsiverða meingerð.  Brot ákærða hafði sérlega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hana.  B á rétt á bótum úr hendi ákærða, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Af öllu ofanverðu virtu þykir bætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 600.000 krónur.

Bæturnar skulu í báðum tilvikum bera dráttarvexti frá uppsögu dómsins að telja og til greiðsludags

Þá greiði ákærði 240.000 króna þóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A og B.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með taldar 300.000 krónur í málsvarnarlaun til Þorvaldar Jóhannessonar héraðsdómslögmanns og hefur þá verið tekið tillit til vinnu verjandans fyrir ákærða á rannsóknarstigi málsins.

Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Skúli J. Pálmason og Sigríður Ingvarsdóttir.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði A , kt. ´82, 300.000 krónur í miskaskaðabætur.

Ákærði greiði B, kt. ´90, 600.000 krónur í miskaskaðabætur.

Miskabæturnar skulu í báðum tilvikum bera dráttarvexti frá uppsögu dómsins að telja og til greiðsludags.

Ákærði greiði 240.000 króna þóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A og B.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með taldar 300.000 krónur í málsvarnarlaun til Þorvaldar Jóhannessonar héraðsdómslögmanns.