Hæstiréttur íslands
Mál nr. 516/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun barns
|
|
Föstudaginn 21. ágúst 2015. |
|
Nr. 516/2015.
|
A (Þuríður Kristín Halldórsdóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Vistun barns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B um að börn A yrðu vistuð utan heimilis í tiltekinn tíma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að börn sóknaraðila, B og C, skyldu vistuð utan heimilis hennar á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur til 5. janúar 2016. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015.
Krafa sú sem hér er til úrlausnar barst dóminum 15. júní sl. og var tekin til úrskurðar 10. júlí sl.
Sóknaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Ráðhúsi Reykjavíkur, Reykjavík og varnaraðili er A, [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði að börnin B, kt. [...] og C, kt. [...], sem lúta forsjá A, kt. [...] og D, kt. [...], og skráð eru með lögheimili að [...], [...], verði vistuð áfram utan heimilis móður á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. júní 2015 til 20. júní 2016, samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst ekki málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að framangreindri kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur hér fyrir dómi.
I
Sóknaraðili lýsir málsatvikum með þeim hætti að krafa hans lúti að vistun utan heimilis á börnunum C, sem er tíu ára, og B, sem varð 8 ára nú í febrúar. Lúti börnin forsjá foreldra sinna, A, varnaraðila, og föður síns D. Hafi mál barnanna verið unnin á grundvelli barnaverndarlaga frá árinu 2008, fyrst í stað hjá fjölskyldu- og velferðarnefnd [...], sveitarfélaginu [...] og [...]. Foreldrar barnanna hafi skilið í ágúst 2011 og hafi varnaraðili flutt í kjölfarið með börnin í [...]. Áfram hafi verið áhyggjur af velferð barnanna á heimilinu en varnaraðili hafi þá hafið sambúð með öðrum manni, E. Í október 2012 hafi varnaraðili og sambýlismaður hennar, E, flutt í [...] og hafi málefni barnanna verið tilkynnt barnaverndaryfirvöldum þar í þeim mánuði. Hafi í kjölfarið borist tilkynningar, frá skóla barnanna, barnavernd í [...] og frá ættingjum þeirra. Hafi tilkynningarnar allar lotið að því sama, það er að eldri bróðir barnanna, F, hafi haft miklar áhyggjur af systkinum sínum á heimili varnaraðila og sambýlismanns hennar. Komi meðal annars fram í tilkynningum að varnaraðili væri vond við börnin og að E hellti köldu vatni yfir C ef hann pissaði undir. Þá væru systkinin sett út á svalir illa klædd og látin vera þar lengi, ef þau gerðu eitthvað af sér.
Þann 24. maí 2013 hafi starfsmenn barnaverndar í [...] farið, að beiðni lögreglunnar á [...], í skóla barnanna og fært þau til skýrslutöku í Barnahúsi og í kjölfar þess í læknisskoðun. Ástæða beiðni lögreglunnar hafi verið að eldri bróðir barnanna, sem fæddur sé árið 2000, hafi í skýrslutöku í Barnahúsi greint frá ofbeldi af hendi varnaraðila og sambýlismanns hennar, E, í garð barnanna. Hafi F verið í skýrslutöku vegna ofbeldis sem hann hafi sjálfur orðið fyrir af hendi E á heimili varnaraðila, en leita hafi þurft með drenginn á bráða- og slysadeild vegna þess. Við skýrslutökuna hafi börnin staðfest það sem komið hafi fram hjá eldri bróður þeirra. Í kjölfar þess hafi verið óskað eftir samvinnu foreldra um að vista börnin utan heimilis sem og hafi verið gert. Síðar hafi barnaverndarnefnd [...] ítrekað úrskurðað að börnin yrðu vistuð utan heimilis. Börnin hafi farið í fóstur að [...] við [...] þar sem eldri bróðir þeirra sé í varanlegu fóstri og hafi þau gengið í [...] skólaárið 2013-14.
Tilkynningar hafi haldið áfram að berast seint á árinu 2013 og í byrjun árs 2014, um ofbeldi og neyslu varnaraðila og E og hafi lögreglan ítrekað verið kölluð til á heimili þeirra vegna þess. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. apríl 2014 hafi E verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi, m.a. vegna ofbeldisbrota gegn bróður barnanna, en dóminum hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Þann 30. maí 2014 hafi barnaverndarnefnd [...] kveðið upp úrskurð um vistun barnanna utan heimilis til tveggja mánaða og hafi nefndin jafnframt falið starfsmönnum sínum að gera kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjaness um að varnaraðili yrði svipt forsjá barnanna. Breyting hafi orðið á lögheimili barnanna 13. maí 2014, en lögheimili þeirra hafi þá verið flutt til Reykjavíkur og í ljósi þess hafi barnaverndarnefnd [...] óskað eftir samkomulagi við barnaverndaryfirvöld í Reykjavík um vinnslu málsins samkvæmt 3. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga. Úrskurður nefndarinnar hafi verið felldur úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 18. júlí 2014, með vísan til þess að samkomulag barnaverndarnefndar [...] og [...] um vinnslu málsins hefði ekki legið fyrir á úrskurðardegi og hefði barnaverndarnefnd [...] því ekki verið bær til að kveða upp úrskurð um áframhaldandi fóstur systkinanna á vegum nefndarinnar. Málefni barnanna hafi verið tilkynnt til Barnaverndar Reykjavíkur samkvæmt 15. gr. barnaverndarlaga, en börnin hafi farið heim til varnaraðila og hafi byrjað nám í [...] í [...] haustið 2014.
Málefni barnanna hafi ítrekað verið tekin fyrir á fundum Barnaverndar Reykjavíkur á tímabilinu september til nóvember 2014. Á fundi sóknaraðila 25. nóvember 2014 hafi verið ákveðið að börnin yrðu vistuð utan heimilis á meðan þess yrði freistað að varnaraðili gengist undir forsjárhæfnimat og bætti uppeldisaðstæður sínar. Í kjölfar fundarins hafi starfsmenn Barnaverndar verið í samskiptum við lögmann varnaraðila og hafi meðal annars verið ákveðið að hafa fund 2. desember 2014. Áður en til þess fundar hafi komið hafi starfsmanni Barnaverndar hins vegar borist tölvupóstur frá lögmanni varnaraðila, um að varnaraðili ásamt börnunum væri flutt til [...]. Þann 2. desember 2014 hafi starfsmaður Barnaverndar haft samband við skóla barnanna og hafi þar komið fram að börnin væru hætt í skólanum þar sem þau væru flutt til [...] með varnaraðila og stjúpföður, E.
Mál barnanna hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi 9. desember 2014 þar sem fram hafi komið að verulegar áhyggjur væru af aðstæðum barnanna og hafi nefndin talið fullreynt að ná samvinnu við varnaraðila um stuðningsaðgerðir á heimilinu að svo stöddu. Einnig hafi komið fram á fundinum að fyrir lægi samþykki barnaverndarnefndar [...] fyrir áframhaldandi vinnslu málsins hjá varnaraðila, sbr. 3. mgr. 15. gr. bvl., dags. 3. desember 2014. Á fundinum hafi verið úrskurðað að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 27. gr. bvl., frá 9. desember 2014 til 9. febrúar 2015, en áform um að taka börnin af heimili varnaraðila hafi ítrekað brugðist vegna ófærðar. Óskað hafi verið liðsinnis barnaverndarstarfsmanna [...] við eftirlit með heimili barnanna. Samkvæmt skýrslu lögreglu hafi varnaraðili óskað aðstoðar á heimilinu laust fyrir miðnætti 30. desember 2014 og komi fram að hún hafi virst vera undir áfengis- eða lyfjaáhrifum. Varnaraðili hafi tjáð lögreglu í síma að sambýlismaður hennar væri ölvaður, þau hefðu verið að rífast og vildi hún að hann yrði fjarlægður af heimilinu. Hafi komið fram að börnin væru þarna viðstödd. Á leið á vettvang hafi borist tilkynning frá varnaraðila um að sambýlismaðurinn hefði lagt á hana hendur og hefðu börnin leitað skjóls undir eldhúsborði. Hafi sambýlismaður varnaraðila verið handtekinn og hafi gist fangageymslu um nóttina. Þá komi fram í skýrslu að börnin hafi orðið vitni að atvikum.
Börnin hafi komið til Reykjavíkur í fylgd varnaraðila föstudaginn 9. janúar 2015 til dvalar ásamt henni á Vistheimili barna og hafi málefni barnanna áfram verið til vinnslu hjá Barnavernd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2015 hafi úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur um vistun barnanna utan heimilis frá 9. desember 2014 til 9. febrúar 2015 verið staðfestur. Í kjölfar fundar 20. janúar sl. hafi verið gengið frá yfirlýsingu þar sem fram hafi komið að varnaraðili samþykkti að börnin yrðu áfram vistuð á Vistheimili barna með varnaraðila frá 9. febrúar 2015 til 9. apríl s.á. Börnin hafi byrjað skólagöngu í [...] í [...] á ný 2. febrúar sl. Jafnframt hafi G sálfræðingur verið ráðinn til að gera sálfræðilegt forsjárhæfnimat á varnaraðila.
Þann 30. janúar 2015 hafi varnaraðili haft samband við starfsmann Barnaverndar og hafi greint frá því að hún væri búin að fá vinnu á spítalanum á [...]. Hafi varnaraðili viljað taka vinnunni og fara með börnin aftur á [...] eftir 9. febrúar. Hafi starfsmaðurinn minnt varnaraðila á að fyrir lægi úrskurður um vistun barnanna til 9. febrúar og að jafnframt hafi hún sjálf samþykkt áframhaldandi vistun barnanna til 9. apríl . Varnaraðila hafi þá verið greint frá því að ef hún væri að draga samþykki sitt til baka færi málið á ný fyrir fund sóknaraðila og hafi varnaraðili að lokum verið hvött til þess að vera til samvinnu. Hún hafi sagst ætla að hugsa málið.
Þann 3. febrúar sl. hafi varnaraðili á ný haft samband við starfsmann Barnaverndar og upplýst að sambýlismaður hennar, E, væri að koma í bæinn og að hann vildi gista á Vistheimili barna um nóttina. Hafi varnaraðila verið greint frá því að E gæti ekki gist á vistheimilinu. Hafi varnaraðili orðið mjög ósátt við þá ákvörðun og hafi hún þá ætlað að fara með börnin á hótel og gista þar ásamt E, en starfsmenn Barnaverndar hafi hins vegar gripið inn í áður en til þess hafi komið. Hafi starfsmenn Barnaverndar fengið upplýsingar um það daginn eftir að varnaraðili hefði farið kvöldið áður og gist á hóteli með E.
Þann 10. febrúar sl. hafi komið í ljós að varnaraðili hafi sótt börnin í skólann þá um morguninn og gefið þá skýringu að þau væru að fara til tannlæknis. Síðar sama dag hafi starfsmaður á Vistheimili barna haft samband við starfsmann Barnaverndar og greint frá því að hún hefði náð tali af varnaraðila. Hafi varnaraðili tjáð starfsmanninum að hún hefði tekið ákvörðun um að fara með börnin af Vistheimili barna í samráði við lögmann sinn og að hún hefði fullt leyfi til þess. Hafi í kjölfarið verið óskað eftir liðsinni lögreglu við að leita að varnaraðila og börnunum. Um kl. 16:45 þann sama dag hafi lögreglan á [...] í [...] haft samband við bakvakt Barnaverndar og upplýst að lögreglan hefði haft uppi á varnaraðila þar í bæ. Hafi varnaraðili neitað að afhenda börnin og fara með lögreglu á lögreglustöðina og hafi hún því verið handtekin og færð á lögreglustöð ásamt börnunum. Þar hafi varnaraðila verið afhent ákvörðun um neyðarráðstöfun barnanna samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hafi börnin verið færð aftur á Vistheimili barna við mikil mótmæli varnaraðila þar sem meðal annars hafi þurft að kalla á aðstoð lögreglu fyrir utan vistheimilið.
Mál barnanna hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 17. febrúar sl., þar sem meðal annars hafi verið lagt til að leitað yrði eftir samþykki varnaraðila fyrir því að hún afsalaði sér forsjá barnanna sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, ella yrði lagt til að úrskurðað yrði um vistun barnanna utan heimilis á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Mál barnanna hafi að nýju verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 20. febrúar 2015. Hafi komið fram á fundinum að mikilvægt væri að tryggja börnunum öruggan aðbúnað og þroskavænlegar uppeldisaðstæður á meðan foreldrar gengjust undir forsjárhæfnimat og hafi það orðið niðurstaða fundarins að hagsmunir barnanna krefðust þess að þau yrðu vistuð utan heimilis í allt að fjóra mánuði. Úrskurðað hafi verið að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði, eða til 20. apríl sl., sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og jafnframt hafi borgarlögmanni verið falið að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og gera kröfu um að vistun barnanna stæði í tvo mánuði til viðbótar, eða til 20. júní 2015, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Hafi Héraðsdómur Reykjavíkur fallist á þá kröfu með úrskurði 13. maí sl. sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar 8. júní sl. í máli réttarins nr. 373/2015.
Forsjárhæfnismat G, sálfræðings, sem gert hafi verið að beiðni sóknaraðila hafi legið fyrir 1. júní sl. Kemur m.a. fram í niðurstöðu matsins að varnaraðili búi yfir nægilegri hæfni til að veita börnum sínum góð uppeldisskilyrði nú og í framtíðinni að því tilskyldu að hún gangist við þeim vanda sem hafi fylgt henni um langt skeið og bregðist við honum betur en hún hafi gert. Sóknaraðili lýsir niðurstöðu matsins nánar og tekur fram að hann telji að hún sé ekki í samræmi við upplýsingar sem liggi fyrir í gögnum málsins.
Mál barnanna hafi verið tekið fyrir á ný á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 9. júní sl. þar sem fyrir hafi legið tillaga um að leitað yrði samþykkis frá varnaraðila fyrir vistun barnanna utan heimilis í eitt ár eða til 20. júní 2016, ella yrði gerð krafa fyrir héraðsdómi skv. 2. mgr. 28. gr. bvl. um vistun barnanna í tólf mánuði. Varnaraðili hafi hafnað tillögunni. Fram hafi komið á fundinum að varnaraðili hafi ekki veitt starfsmönnum barnaverndar réttar upplýsingar um samband sitt við E en ljóst væri að þau væru þá í sambúð. Á fundinum hafi starfsmaður barnaverndar einnig upplýst fundarmenn að börnin hafi tvisvar sinnum komið í umgengni þar sem varnaraðili hafi ekki mætt. Hafi það valdið börnunum raski og haft neikvæð áhrif á líðan þeirra. Á fundinum hafi einnig verið vísað í skýrslu talsmanns barnanna þar sem fram hafi komið að það sé mat talsmannsins að ró sé komin yfir börnin, þau séu öruggari og heimavanari í vistuninni á [...]. Þá komi fram í bókun barnaverndarnefndar frá fundinum að gögn málsins styðji ekki að mati nefndarinnar að stöðugleiki hafi skapast í búsetu varnaraðila og að vímuefnaneysla og ofbeldi heyri sögunni til. Sé það álit nefndarinnar að ekki sé hægt að tryggja aðstæður barnanna á heimili varnaraðila á meðan stuðningur við hana verði fullreyndur í samræmi við tillögur matsmanns varðandi forsjárhæfni hennar. Telji barnaverndarnefnd því nauðsynlegt að vistun barnanna utan heimilis verði fram haldið á meðan þess verði freistað að varnaraðili nýti sér stuðning til að efla uppeldishæfni sína og skapa börnunum öruggt og traust uppeldisumhverfi til lengri tíma. Þá hafi nefndin fjallað um nýjar upplýsingar um frásögn B af ofbeldi C í sinn garð. Hafi þær upplýsingar verið litnar alvarlegum augum og hafi starfsmönnum barnaverndar verið falið að hlutast til um að hið ætlaða ofbeldi yrði kannað frekar án tafar. Hafi borgarlögmanni að lokum verið falið að gera þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að börnin verði vistuð utan heimils til 20. júní 2016, sbr. 28. gr. bvl.
Varnaraðili kveðst mótmæla framangreindri lýsingu málsatvika sem rangri í verulegum atriðum. Varnaraðili hafi verið í erfiðu hjónabandi með ofbeldisfullum og óreglusömum föður barnanna og hafi fjölskyldan búið í [...] þar sem varnaraðili hafi verið í mjög góðri samvinnu við starfsmenn barnaverndar á staðnum og hafi starfsmenn barnaverndaryfirvalda aðstoðað varnaraðila við að fá íbúð í [...] eftir skilnað við föður barnanna.
Varnaraðili hafi byrjað sambúð með E og hafi þau flutt til [...] og síðan til Reykjavíkur. Ekki sé rétt að ekki hafi náðst samvinna við varnaraðila því hún hafi samþykkt úrræðið „greining og ráðgjöf heim“, en sóknaraðili hafi aldrei látið verða af því að koma því úrræði í framkvæmd. Varnaraðili hafi átt mjög erfitt með að komast á fundi hjá Barnavernd Reykjavíkur m.a. vegna þess að hún hafi þurft að sitja yfir drengnum í skóla vegna erfiðrar hegðunar hans og hún hafi einnig þurft að vera heima hjá börnunum þegar þau hafi verið veik auk fleiri atvika sem gert hafi henni erfitt fyrir að þessu leyti. Hefði að mati varnaraðila verið eðlilegt að starfsmenn barnaverndar hefðu farið með meðferðaráætlun heim til hennar til undirritunar til að úrræðið kæmist á í stað þess að láta málið stranda á þessu stigi og halda því síðan ranglega fram að varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu.
Með úrskurði 9. desember 2014 hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveðið að börn varnaraðila skyldu vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði eða til 9. febrúar 2015 og hafi börnin dvalið þann tíma á vistheimili barna ásamt varnaraðila sem þar hafi verið í greiningar- og kennsluvistun og til fullrar samvinnu við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Vegna mikils þrýstings á varnaraðila á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. janúar 2015, hafi varnaraðili fallist á að börnin yrðu vistuð áfram á Vistheimili barna eftir að vistun samkvæmt úrskurði lyki, eða til 9. apríl s.á., með því skilyrði að hún fengi að vera áfram með börnunum á Vistheimilinu.
Áður en vistunartíma hafi lokið, en eftir framangreindan fund með barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi varnaraðila boðist starf sem matráður í eldhúsi Sjúkrahússins á [...9 ef hún gæti byrjað þar fljótlega í febrúar, en varnaraðili hafi verið í atvinnuleit á þessum tíma. Varnaraðili hafi rætt þetta við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur og það að hún yrði nú að fara á heimili sitt á [...] ásamt börnum sínum og gæti því ekki verið þar áfram eftir að vistunartíma lyki samkvæmt úrskurði. Varnaraðili hafi rætt þetta við lögmann sinn sem hafi sagt henni að hún gæti dregið samþykki sitt til baka og verði að telja að móðir hafi verið í fullum rétti til að gera það. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið í nánu sambandi við varnaraðila og hafi varnaraðili rætt opinskátt og afdráttarlaust um þetta við þá starfsmenn og einnig við starfsmenn Vistheimilisins. Hún hafi gert þeim fulla grein fyrir því að hún gæti alls ekki verið lengur á Vistheimilinu með börn sín en út þann tíma sem úrskurðað hefði verið um vistun utan heimilis. Því sé algerlega mótmælt að varnaraðili hafi haldið því leyndu fyrir starfsmönnum Barnaverndar og Vistheimilis að hún væri að fara þaðan, en sjálfsagt hafi þar verið einhver misskilningur á ferðinni. Í gögnum sem Barnavernd hafi sjálf lagt fram hafi starfsmenn Vistheimilis gefið varnaraðila góða umsögn varðandi umönnun barna sinna. Börnum hennar hafi ekki liðið vel á Vistheimilinu. Þau hafi viljað fara heim í sinn skóla á [...], en þau hafi ekki farið í skóla frá því í byrjun janúar þar til 29. janúar sl. er þau hafi byrjað í [...], sem þau hafi alls ekki viljað fara í. Talsmaður hafi rætt við börnin og hafi þau lýst eindregnum vilja sínum til að fara aftur á heimili sitt og fyrrverandi sambýlismaður móður verið farinn í meðferð á Vogi.
Varnaraðili hafi ákveðið að fara til síns heima með börnin þegar vistunartími samkvæmt úrskurði hafi verið liðinn og hafi hún talið sig hafa greint bæði starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur og starfsmönnum Vistheimilis frá því að henni væri nauðsynlegt að fara og þá einnig sérstaklega til að missa ekki af þeirri vinnu sem hún hafi getað fengið í sínum heimabæ.
Á öllum þeim tíma sem varnaraðili hafi verið á Vistheimilinu hafi hún verið reiðubúin að undirgangast forsjárhæfnismat og það sé hreinlega ekki rétt að svo hafi ekki verið. Ekki sé unnt að ásaka hana fyrir það að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur, sem iðulega hafi verið á fundum með varnaraðila á Vistheimilinu, hafi ekki látið hana skrifa undir sérstakt samþykki þess efnis, varnaraðila hafi aldrei verið boðið að skrifa undir slíkt samþykki. Því sé mótmælt að varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu.
Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað varnaraðili að hún og sambýlismaður hennar lifðu nú reglusömu lífi og væru bæði með atvinnu á [...]. Hefðu þau á leigu einbýlishús með stórum garði. Varnaraðili kvaðst starfa í fullu starfi við fiskverkun í frystihúsinu og sá fyrir sér að hún myndi halda því starfi áfram og festa rætur á [...]. Taldi varnaraðili að það að hafa atvinnu væri grundvöllur þess að hún og sambýlismaður hennar næðu tökum á lífi sínu. Kvað hún þau hætt drykkju og rifust ekki. Lýsti hún því yfir að hún væri tilbúin að sæta eftirliti á vegum barnaverndaryfirvalda fengi hún börnin aftur til sín. Þá kom fram hjá henni að hún teldi reyndar að fjölskyldan þyrfti ekki á aðstoð að halda nú þar sem þau hefðu nú bæði atvinnu sem hefði eitt og sér jákvæð áhrif á heimilið.
Í málinu liggur fyrir bréf lögreglunnar á [...] 26. júní 2015 þar sem greind eru afskipti lögreglu af heimili varnaraðila og E að [...], [...]. Fyrstu afskipti eru skráð 30. desember 2014 og kemur fram í bréfi lögreglu að varnaraðili hafi leitað eftir aðstoð vegna þess að E hefði „gengið berserksgang“ á heimilinu og hafi beitt hana ofbeldi. B og C voru á heimilinu og leituðu að sögn skjóls undir borði. Kemur fram að þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi E hótað lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra. Hann hafi verið handtekinn, en látinn laus eftir stutta vistun í fangaklefa. Málið er sagt til meðferðar hjá Ríkissaksóknara.
Þann 14. mars sl. óskaði varnaraðili eftir aðstoð lögreglu og er sagt í bréfi lögreglu að það hafi verið vegna þess að hún hafi verið í vandræðum með E ölvaðan og með ofbeldishegðun. Þegar lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi komið í ljós að varnaraðila og E hafi orðið sundurorða en ekki hafi komið til átaka. Varnaraðili, ásamt syni E, munu hafa verið aðstoðuð við að finna sér gistingu annarsstaðar um nóttina.
Þann 10. apríl sl. er skráð að bókað sé í lögreglukerfi um ítrekaðar hringingar E og varnaraðila í því skyni að leggja fram kærur á hendur barnaverndaryfirvöldum, sýslumanninum á [...], lögreglu og neyðarlínu. Fólkið var talið ölvað og óviðræðuhæft. Hafi það verið beðið að hætta hringingum en hafi ekki orðið við því. Vegna ófærðar hafi lögregla ekki komist á staðinn.
Þá eru tilgreind þrjú tilvik vegna ætlaðra hótana E í garð tilgreinds lögreglumanns og fyrrverandi sambýliskonu hans.
Í bréfi lögreglunnar er þess getið að lokum að lögregla hafi orðið vör við talsverða óreglu á heimilisfólkinu að [...], [...], E og A. Hafi lögregla orðið vör við drykkju fólksins þrátt fyrir að hafa fengið upplýsingar um að þau hafi leitað sér aðstoðar og farið í meðferð. E hafi í flest öllum samskiptum við lögreglu verið ógnandi og ósamvinnuþýður.
Varnaraðili kannaðist við framangreind tilvik í skýrslu sinni fyrir dómi. Kvað hún að sá lögreglumaður sem um ræddi hafi verið sendur til eftirlits á heimili þeirra er börnin hafi dvalið hjá þeim yfir jólin. Hafi hún ekki verið sátt við framgöngu hans, einkum vegna þess að hann hafi stundum komið einkennisklæddur og á lögreglubifreið og þetta hafi hrætt börnin. Féllst hún ekki á lýsingu lögreglu á samskiptum við umræddan lögreglumann og kannaðist ekki við að viðhafðar hafi verið hótanir í hans garð.
Fram kom í skýrslu varnaraðila að E hefði farið í áfengismeðferð og hefði komið úr henni 20. febrúar sl. Kvað hún að þau væru hætt að drekka.
G sálfræðingur mat að beiðni sóknaraðila hæfni varnaraðila sem foreldri og liggur skýrsla hennar fyrir í málinu og er dagsett 1. júní sl. Samkvæmt beiðni skyldi lagt mat á fimm tilgreind atriði, meðal annars hvort varnaraðili byggi yfir nauðsynlegri og nægjanlegri hæfni til að veita tveimur börnum sínum, sem málið varðar, fullnægjandi uppeldisskilyrði í framtíðinni og hvort velferð og þroski barnanna væri tryggður við þau uppeldisskilyrði sem hún gæti veitt. Um þessa tvo þætti kemur fram í niðurstöðu matsmanns að varnaraðili búi yfir nægilegri hæfni til að veita börnum sínum góð uppeldisskilyrði nú og í framtíðinni að því tilskyldu að hún gangist við þeim vanda sem hefur fylgt henni um langt skeið og bregðist við honum betur en hún hafi gert. Með þessu kveðst matsmaðurinn vísa til tíðra flutninga varnaraðila með börnin milli sveitarfélaga og samskiptaörðugleika við sambýlismann hennar, sem virðast magnast þegar áfengi sé haft um hönd. Í þessu sambandi vísar matsmaðurinn til þess að varnaraðili hafi lýst vilja sínum til þess að skapa stöðugleika í lífi barna sinna með því að setjast að á [...]. Þá segir í matsgerðinni að miðað við þær upplýsingar sem matsmaður hafi undir höndum sé ekki annað að sjá en að varnaraðili geti uppfyllt þau uppeldisskilyrði sem börnin eigi rétt á. Hún búi nú í fullnægjandi húsnæði og sé í fastri vinnu og eigi því að geta axlað fjárhagslega ábyrgð á afkomu fjölskyldunnar. Þá kemur fram að varnaraðili fullyrði að áfengisvandi sé ekki lengur fyrir hendi hjá henni og sambýlismanni hennar, en matsmaður kveðst ekki hafa tök á að ganga úr skugga um sannleiksgildi þessara upplýsinga. Niðurstaða matsmanns er sú að mikilvægt sé að börnin fái stöðugleika í líf sitt og geti búið með móður sinni sem hafi verið þeirra aðal uppalandi. Það sé því ekki í þágu hagsmuna barnanna að fela ókunnugum umönnun þeirra til frambúðar. Nauðsynlegt sé að barnaverndaryfirvöld styrki fjölskylduna í því að halda saman og hafi eftirlit með heimilinu.
Framangreindur matsmaður gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti matsgerð sína. Þá gaf varnaraðili skýrslu og einnig talsmaður barnanna.
II
Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á því að það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Sóknaraðili telji það hafa sýnt sig að varnaraðili geti ekki að svo stöddu búið börnum sínum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt á. Í máli þessu liggi fyrir upplýsingar um að börnin C og B hafi búið við óöruggar og óviðunandi aðstæður til lengri tíma á heimili varnaraðila og sambýlismanns hennar, E. Þannig hafi sambúð varnaraðila við E einkennst af átökum og ofbeldi og tíðum heimsóknum lögreglu og barnaverndaryfirvalda. Þá hafi E verið dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart eldri syni varnaraðila. Hafi varnaraðili viðurkennt að hún og E hafi til málamynda slitið sambúð sinni í viðleitni sinni til að gera það líklegra að hún fengi börn sín aftur til sín. Á sama tíma geri varnaraðili ráð fyrir að vera áfram í sambúð með E.
Mikið rótleysi hafi einkennt aðstæður barnanna vegna tíðra flutninga og hafi fjölskyldan síðast flutt í byrjun desember í annað sveitarfélag. Börnin hafi þurft að skipta um skóla og takast á við þær breytingar sem fylgt hafi tíðum flutningum. Drengurinn hafi átt tíu heimili í átta sveitarfélögum og telpan hafi búið á fimm heimilum í fimm sveitarfélögum. Mál barnanna hafi verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum frá árinu 2008, án þess að aðstæður og líðan barnanna hafi breyst til batnaðar. Þá sýni nýliðnir atburðir, frá því um áramót og frá því í febrúar sl., þegar varnaraðili hafi í óleyfi tekið börnin af Vistheimili barna, mikilvægi þess að gripið sé til ráðstafana.
Að mati sóknaraðila sé niðurstaða forsjárhæfnismats G, sálfræðings, frá 1. júní sl. á skjön við þau gögn sem liggi fyrir í málinu og þær forsendur sem lagðar séu til grundvallar í matinu sjálfu. Virðist sem matsmaður byggi mat sitt eingöngu á frásögn varnaraðila en ekki þeim upplýsingum sem liggi fyrir í málinu og staðreyndar hafi verið. Í málinu liggi fyrir að verulega miklar áhyggjur hafi verið af aðstæðum barnanna í umsjá varnaraðila til lengri tíma, þrátt fyrir að fjölmörg stuðningsúrræði hafi verið boðin og reynd. Ítrekuð afskipti lögreglu og barnaverndaryfirvalda hafi verið af heimili fjölskyldunnar og börnin ítrekað vistuð utan heimilis vegna vanrækslu og ofbeldis á heimilinu. Fram komi í forsjárhæfnismatinu að varnaraðili sé í sambúð með E í dag. Einnig liggi fyrir í málinu ítarlegar upplýsingar um ofbeldi E í garð barnanna, meðal annars dómur Héraðsdóms Reykjaness þar sem E hafi verið dæmdur fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum gegn eldri syni varnaraðila. Í matinu sé hvergi vikið að því hvaða áhrif það kunni að hafa á börnin að búa inn á heimili með E, dæmdum afbrota- og ofbeldismanni. Í niðurstöðu forsjárhæfnismatsins mæli matsmaður með eftirliti á heimili varnaraðila og barna. Það sé hins vegar ljóst að slíkt eftirlit komi ekki í veg fyrir áframhaldandi heimilisófrið, áfengisneyslu og ofbeldi á heimilinu. Eina úrræðið sem tryggja muni öryggi barnanna sé að þau séu fjarlægð úr slíkum aðstæðum. Einnig sé áréttað að í málinu liggi fyrir margra ára reynsla barnaverndaryfirvalda í málefnum barnanna þar sem reynt hafi verið að aðstoða og styðja varnaraðila eins vel og unnt hafi verið. Það hafi hins vegar ekki skilað neinum árangri börnunum til hagsbóta.
Sóknaraðili telji þá niðurstöðu, að nauðsynlegt sé að vista börnin utan heimilis, vera í samræmi við meginreglu barnaréttar sbr. 4. gr. barnaverndarlaga, en við slíka ákvörðun beri sem endranær þegar málum barna er skipað, að taka það ráð sem barni sé fyrir bestu. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskrá, barnaverndarlögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá eigi regla þessi sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í alþjóðasamningi um borgaraleg réttindi sem Ísland sé aðili að.
Hagsmunir barnanna, B og C, mæli eindregið með því að móðir þeirra verði svipt tímabundið rétti til að hafa forsjá þeirra með höndum og að börnunum verði tryggt áframhaldandi tímabundið fóstur, þar sem vel verði hlúð að þeim og réttur þeirra til viðunandi uppeldis og umönnunar tryggður.
Krafa sóknaraðila um vistun barnsins utan heimilis móður byggist á því að nauðsynlegt sé að veita börnunum tækifæri til að dafna og þroskast við stöðugleika og viðunandi uppeldisskilyrði fjarri óreglusömu líferni varnaraðila, sem skapi ótryggt umhverfi. Enn fremur sé krafan reist á því að samhliða gefist varnaraðila tækifæri til að ná tökum á lífi sínu svo að hún geti skapað börnum sínum viðunandi uppeldisskilyrði og unnt sé að sameina fjölskylduna á ný.
Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarstarfsemi, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og gagna málsins, geri sóknaraðili þá kröfu að börnin verði áfram vistuð utan heimilis móður í tólf mánuði samtals eða til 20. júní 2016 samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, enda hafi önnur og vægari úrræði ekki skilað tilætluðum árangri.
Sóknaraðili kveðst vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Varnaraðili telur að mjög sé óeðlilegt að mál hennar og barnanna sé enn til meðferðar og vinnslu í Reykjavík þar sem hún sé nú flutt á [...] þar sem hún hafi atvinnu og húsnæði.
Skilyrði fyrir því að vinnsla máls fari fram í fyrra lögheimilissveitarfélagi séu samkvæmt barnaverndarlögum að það teljist hentugra að reka málið áfram á fyrri stað. Verði ekki séð hvernig það geti talist hentugt að vista börnin svo fjarri móður sinni sem nú sé gert. Eðlilega verði umgengni erfiðleikum bundin vegna fjarlægðar. Hafi t.d. verið ófært frá [...] til [...] fyrir minni bíla í eitt skipti sem umgengni hafi átt að fara fram og í nær öll skiptin hafi starfsmenn Barnaverndar látið vita um umgengni með svo stuttum fyrirvara og rétt áður en þeir hafi hætt vinnu fyrir helgi að ekki hafi náðst að ljúka skipulagningu umgengni í samráði við varnaraðila. Í þau skipti sem umgengni hafi fallið niður hafi því ekki viljaleysi móður verið um að kenna. Hún hafi viljað meiri umgengni og hún vilji auðvitað og krefjist þess að hafa börnin hjá sér á heimili fjölskyldunnar.
Varnaraðili hafi nú undirgengist forsjárhæfnismat og fyrir liggi skýrsla sálfræðings sem telji varnaraðila vel hæfa til að fara með forsjá barnanna. Séu fullyrðingar um annað frá ófaglærðu fólki út í hött og sé þeim harðlega mótmælt. Enginn sé fullkominn og allir hafi sína kosti og galla. Séu kostir og gallar varnaraðila ítarlega raktir af sálfræðingi þeim er gert hafi umrætt mat en þar sé tekið fram að þrátt fyrir tiltekna galla verði að telja að varnaraðili sé fær um að annast forsjá barna sinna sé hún til fullrar samvinnu við barnaverndaryfirvöld og hafi varnaraðili lýst því yfir að hún sé tilbúin til fullrar samvinnu við starfsmenn barnaverndaryfirvalda fyrir austan og heimili þar óboðað eftirlit með heimili sínu.
Varnaraðili telji sóknaraðila ekki lesa rétt úr umsögn talsmanns barnanna en þar komi fram að börnin sakni móður sinnar.
Fram hafi komið að líklegt sé að börnin séu með áfallastreituröskun og sé slíkt eðlilegt eftir allt það sem starfsmenn Barnaverndar hafi lagt á þau. Handtaka móður þeirra og sú háttsemi að fara með hana eins og stórhættulegan afbrotamann fyrir framan börnin. Öll framkoma starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur við varnaraðila sé mjög ámælisverð og hafi ekki verið á þá leið sem telja verði börnunum fyrir bestu, enda séu þau orðin veik.
Þegar börnin hafi verið flutt í fóstur á [...] hafi þau ekki verið í neinum skóla í nánast mánuð því tíma taki að koma börnum í skóla í sveitarfélagi sem sé utan lögheimilissveitarfélags barns. Börnunum hafi liðið illa í skólanum á [...] áður og hegðun þeirra og þá sérstaklega drengsins verið mjög erfið, en hann hafi annaðhvort verið frammi á gangi eða úti þegar kennslustundir hafi verið.
Í ljósi alls framangreinds verði að telja að hagsmunum barnanna sé best borgið hjá móður sinni á lögheimili þeirra á [...], en þar hafi þeim líkað vel í skólanum og þar hafi varnaraðili sótt um greiningu í gegn um skólann vegna hegðunarvanda drengsins sem hafi verið verulegur. Komið hafi verið í veg fyrir það ferli með öllum þeim aðgerðum sem sóknaraðili hafi staðið fyrir og verði að telja það mjög alvarlegt, en nefndinni hafi verið vel kunnugt um að slík greining hafi verið að fara af stað á vegum skólans fyrir austan. Hafi sóknaraðili og starfsmenn Barnaverndar virt það að vettugi og hafi ekki komið drengnum í greiningu, sem veruleg þörf sé á, en bróðir hans hafi verið greindur með ADHD og hafi fengið aðstoð á BUGL.
Eins og að framan sé rakið verði að telja ljóst að skilyrði svo íþyngjandi úrræðis sem vistun utan heimilis geti ekki talist fyrir hendi.
Samkvæmt barnaverndarlögum beri að reyna stuðningsúrræði fyrst en þau hafi aldrei verið fullreynd þó móðir hefði fallist á þau og verið tilbúin til samvinnu. Auk þess sé ítrekað bent á hve góða umsögn varnaraðili hafi fengið hjá starfsfólki á vistheimili barna og þar sagt að hún hugsaði vel um börnin og réði vel við að setja þeim mörk, en það þurfi erfið börn eins og drengurinn sé. Því sé þess krafist að kröfu sóknaraðila um vistun utan heimilis í tólf mánuði verði hafnað og að málinu verði hraðað þannig að börnin komist loks til síns heima þar sem þeim líði best.
Krafa varnaraðila um að hafnað verði kröfu sóknaraðila sé byggð á því að ekki séu reynd til þrautar stuðningsúrræði samkvæmt 24. gr., sbr. og 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í ljósi þess að móðir sé tilbúin til fullrar samvinnu og því séu ekki til staðar skilyrði fyrir vistun utan heimilis samkvæmt 28. sbr. og 27. gr. barnaverndarlaga. Því væri úrskurður um vistun utan heimilis núna andstæður meginreglu sem lögfest sé í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segi að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og aðeins megi grípa til íþyngjandi ráðstafana verði lögmæltum markmiðum ekki náð með öðru og vægara móti.
Jafnframt sé krafan studd við meðalhófsreglu sem lögfest sé í 12. gr. laga nr. 37/1993 og jafnræðisreglu sem lögfest sé í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Krafa um málskostnað, eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða, byggi á 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggi á lögum nr. 50/1988.
IV
Krafa sóknaraðila lýtur að því að börnin B og C, verði áfram vistuð utan heimilis móður á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur í tólf mánuði til 20. júní 2016. Krafan styðst við 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2001 en þar kemur fram að ef barnaverndarnefnd telji nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. laganna standi lengur en þar sé kveðið á um skuli nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi. Heimilt sé með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp. Sé krafist framlengingar vistunar áður en vistunartíma lýkur helst ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 9. júní sl. var ákveðið að fela borgarlögmanni að gera kröfu fyrir dómi á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga um að börnin yrðu áfram vistuð utan heimilis í tólf mánuði, eða til 20. júní 2016. Krafan barst dóminum 15. júní sl. og því áður en þeim vistunartíma lauk sem ákveðinn var endanlega með dómi Hæstaréttar 8. júní sl. í máli nr. 373/2015. Hefur sú ráðstöfun því haldist meðan meðferð þessa máls hefur staðið.
Fyrir liggur að sóknaraðili fer með málið á grundvelli samkomulags við Barnaverndarnefnd [...], sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/2002.
C og B hafa á þeim tíma sem þau hafa verið vistuð utan heimilis búið á [...] í [...], en þar býr einnig eldri bróðir þeirra og er þar í varanlegu fóstri. Í gögnum málsins má sjá að börnin voru einnig vistuð á sama stað skólaárið 2013 til 2014 og gengu þá í barnaskóla [...] og [...], eins og nú. Af skýrslu talsmanns barnanna fyrir dómi verður ekki annað ráðið en að vel fari um börnin í umræddri vistun og þau séu því ekki mótfallin að vera þar áfram.
Eins og fram kemur í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002 skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Í 7. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Málefni B og C, vegna vistunar þeirra utan heimilis varnaraðila, eru nú að koma fyrir dómstóla í þriðja sinn á fáum mánuðum. Hafa dómstólar við fyrri úrlausnir staðfest að nauðsyn hafi borið til að vista börnin utan heimilis varnaraðila. Í því felst einnig að mati dómsins að fallist hefur verið á að vægari úrræði hafi ekki reynst fullnægjandi, sbr. 23. og 24. gr. laga nr. 80/2002.
Gögn málsins benda ekki til annars en að hag barnanna sé vel komið í núverandi vistun þar sem þau hafa áður dvalið og eru einnig samvistum við eldri bróður sinn sem þar er í varanlegu fóstri.
Niðurstaða G sálfræðings í matsgerð hennar er að sóknaraðili búi yfir nægilegri hæfni til að veita börnum sínum góð uppeldisskilyrði nú og í framtíðinni að því tilskyldu að hún gangist við þeim vanda sem hefur fylgt henni um langt skeið og bregðist við honum betur en hún hafi gert. Þá leggur matsmaðurinn einnig til grundvallar frásögn varnaraðila um að áfengisneysla sé ekki lengur á heimilinu, en tekur fram að ekki hafi verið unnt að afla staðfestingar á réttmæti þess. Það er og forsenda matsmanns að varnaraðili hafi fullnægjandi húsnæði og atvinnu og er einnig vísað til þess að varnaraðili ætli sér að festa rætur á [...].
Ekki verður fallist á með sóknaraðila að tilvitnuð matsgerð sé haldin ágöllum sem leiði til þess að ekki verði litið til efnis hennar. Kemur enda fram þegar hún er lesin og fékkst það og staðfest við skýrslugjöf matsmanns fyrir dómi að til grundvallar henni liggja þau gögn málsins sem tiltæk voru þegar matsgerð var gerð. Á hinn bóginn kvað matsmaður að þeir fyrirvarar sem komi fram í matinu standi og að ætla megi að hafa verði eftirlit með heimilinu fari börnin til móður sinnar.
Matsmaður hafði ekki undir höndum bréf lögreglunnar á [...] sem rakið er að nokkru í málsatvikakafla hér að framan. Í fundargerð sóknaraðila af fundi 9. júní sl. kemur m.a. fram að grunur hafi vaknað um að E kunni að hafa beitt B ofbeldi og um það bókað að það mál verði kannað frekar.
Þegar litið er til síðastnefndra gagna og þess fyrirvara sem matsmaður hefur uppi í mati sínu er það niðurstaða dómsins að óvarlegt sé á þessu stigi og ekki í samræmi við það sem börnunum er fyrir bestu, að taka þau úr þeirri vistun sem þau nú eru í og færa til móður sinnar á [...]. Verður að telja að enn sé ekki komin sú reynsla á það hvernig varnaraðila og sambýlismanni hennar vegnar við að festa rætur á [...], ná tökum á áfengisvanda sínum og öðrum þeim vanda sem sýnt þykir að þau eigi við að glíma eins og sjá má af gögnum málsins. Á hinn bóginn telur dómurinn það ljóst, með tilliti til niðurstöðu matsgerðar, að varnaraðili eigi að hafa alla burði til að tryggja til framtíðar aðstæður sínar þannig að börn hennar geti flutt á heimili hennar að nýju. Með hliðsjón af því að telja verður að fullt tilefni hafi verið til þess fyrir sóknaraðila að vista börnin utan heimilis í öndverðu verður að gera þá kröfu til varnaraðila að hún sýni í verki að hún hafi getu og vilja til að bæta og breyta þeim aðstæðum sem leiddu til afskipta barnaverndaryfirvalda. Verður hér og að hafa í huga að í matsgerð kemur fram að áríðandi sé að varnaraðili gangist við þeim vanda sínum sem lengi hafi fylgt henni og betur en hún hafi áður gert. Þykir rétt að gefa varnaraðila svigrúm til að sýna fram á að hún ætli sér að láta verk fylgja orðum í þessu sambandi en varhugavert er að mati dómsins að börn varnaraðila fari til hennar fyrr en meiri reynsla er komin á þau góðu áform sem varnaraðili hefur lýst í samtölum við matsmann og í skýrslu sinni fyrir dómi.
Með vísan til alls framangreinds er fallist á með sóknaraðila að lagaskilyrði séu til að fallast á að börnin B og C verði áfram vistuð utan heimilis varnaraðila, en að svo stöddu og með vísan til niðurstöðu matsgerðar G þykir ekki ástæða til að marka þeirri vistun lengri tíma en til 5. janúar 2016.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Varnaraðili nýtur gjafsóknar í málinu, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 80/2002.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þuríðar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, sem ákveðin er 868.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Börnin B, kt. [...] og C, kt. [...], skulu vistuð utan heimilis varnaraðila, A, á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur til 5. janúar 2016.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þuríðar K. Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 868.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.