Hæstiréttur íslands

Mál nr. 59/1999


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Verðtrygging
  • Hagnaðarhlutdeild


___

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 14. október  1999.

Nr. 59/1999.

Lífeyrissjóður verkfræðinga

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Ragnari S. Halldórssyni

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

og gagnsök

Lífeyrissjóður. Verðtrygging. Hagnaðarhlutdeild.

Samkvæmt breytingum á reglugerð fyrir lífeyrissjóðinn V, sem tók gildi 1. janúar 1991, skyldu iðgjöld og lífeyrisgreiðslur vera að fullu verðtryggð með lánskjaravísitölu auk þess sem bráðabirgðaákvæði voru sett þess efnis, að réttindi sjóðfélaga samkvæmt eldri reglugerð, svo sem þau yrðu við árslok 1990, skyldu umreiknuð til réttinda í samræmi við breytinguna. Þá sagði einnig að varasjóði, sem eftir stæði, þegar tillit hefði verið tekið til skuldbindinga við þáverandi lífeyrisþega og úthlutun farið fram á þeim hluta hagnaðar af starfsemi sjóðsins, sem til hefði orðið vegna ávöxtunar umfram reiknigrundvöll til og með 31. desember 1990, skyldi verja til að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóðfélaga, sem lægst réttindi hefðu miðað við fulla verðtryggingu iðgjalda þeirra frá upphafi, og greiddu í sjóðinn samkvæmt reglugerðinni. Skyldi með varasjóðnum haldið tilteknu hlutfalli fullrar verðtryggingar, sem yrði 80% fyrst um sinn. Var þetta hlutfall tengt reglu, sem V hafði fylgt frá 1979.  — R greiddi iðgjöld til V frá 1956 til 1994, en hóf þá töku ellilífeyris. Var lífeyrir hans verðtryggður að hluta, fyrst að 80% , en síðar 90% eftir ákvörðun V. R taldi sig eiga rétt til fullrar verðtryggingar eldri réttinda sinna samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar eins og henni hafði verið breytt. Þá taldi hann að V hefði borið að veita honum hlutdeild í úthlutuðum hagnaði sjóðsins sem til hefði orðið eftir árið 1990 og þá í hlutfalli við þann lífeyri sem V hafði ákvarðað honum. Að virtum ákvæðum reglugerðarinnar, aðdraganda hennar og atvikum að uppgjöri sjóðsins við árslok 1990 var á það fallist með héraðsdómi, að hún yrði ekki skilin svo, að R ætti rétt á 100% verðtryggingu lífeyrisréttinda sinna. Var V því sýknaður af aðalkröfu R. Hins vegar var talið, að hin almennu ákvæði reglugerðarinnar um breytingar á lífeyrisréttindum vegna hagnaðar eða halla af starfsemi sjóðsins tækju til R, eftir því sem við gæti átt. Í reglugerð V væri ekki skýrt að því kveðið, hvaða skil árið 1990 hefði markað í starfsemi V og ekki væri tekið fram, að lífeyrisþegar eða aðrir eldri sjóðfélagar ættu að vera undanskildir hluteild í þessum breytingum. Þá yrði ekki séð, að greiðslur til þessara aðila vegna verðtryggingar lífeyris að hluta hefðu valdið skerðingu á hlutdeild annarra í hagnaði af ávöxtun sjóðsins. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að R ætti vangreiddan lífeyri vegna hagnaðar V á árunum 1991 til 1995 og einnig kröfu um viðurkenning á rétti til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði eftir 1. desember 1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi hefur skotið máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 16. febrúar 1999. Hann krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum gagnáfrýjanda, bæði fjárkröfum og viðurkenningarkröfu, en til vara þess, að kröfur gagnáfrýjanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi hefur áfrýjað málinu með stefnu 11. mars 1999. Hann krefst þess, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiðslu á skuld vegna vanreiknaðs lífeyris til sín, að fjárhæð 700.270 krónur aðallega, en til vara 215.860 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. desember 1997 til greiðsludags. Þá krefst hann viðurkenningar á áframhaldandi rétti sínum til fullrar verðtryggingar lífeyris frá aðaláfrýjanda og til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði hjá sjóðnum eftir      1. desember 1997. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er skýrsla Kr. Guðmundar Guðmundssonar cand. act. um athugun á fjárhag aðaláfrýjanda við lok ársins 1979. Ennfremur bréfaskipti vegna breytinga á reglugerð aðaláfrýjanda á liðnum vetri, en ekki er á því byggt, að þær breytingar skipti hér máli.

I.

Mál þetta lýtur að rétti gagnáfrýjanda til ellilífeyris úr lífeyrissjóði aðaláfrýjanda og varðar einkum efni og áhrif mikilvægra breytinga, sem gerðar voru á reglum sjóðsins árið 1990. Hann var stofnaður á árinu 1954, svo sem í héraðsdómi greinir, sem almennur lífeyrissjóður verkfræðinga í landinu. Fram er komið, að ávöxtun á fé sjóðsins hafi að jafnaði tekist vel frá árinu 1979, er verðtrygging fjárskuldbindinga var almennt heimiluð hér á landi, en fyrir þann tíma hafi raunvirði eigna sjóðsins sætt rýrnun af völdum verðbólgu, meðal annars vegna óverðtryggðra útlána til sjóðfélaga sjálfra. Ennfremur hafi afkoma sjóðsins lengst af verið hagstæð á liðnum árum að því leyti, að áhætta hans vegna aðstæðna sjóðfélaga hafi að jafnaði reynst minni en við var miðað í tryggingafræðilegum forsendum lífeyrisskuldbindinga.

Sjóðurinn er sameignarsjóður, þannig að áhætta af því, sem reynslan leiðir í ljós um æviskeið, starfsorku og fjölskylduhagi sjóðfélaga, er borin sameiginlega. Hins vegar er sjóðurinn með söfnunareinkennum að því leyti, að greiðslur iðgjalda á hverjum tíma veita ekki föst stig til ákvörðunar lífeyris í hlutfalli við laun, heldur miðast lífeyrisréttur hvers sjóðfélaga við þær krónur iðgjalds, sem hann greiðir á ári hverju, og tilteknar forsendur um ávöxtun og áhættu sjóðsins. Eru niðurstöður af líkindareikningi eftir þeim forsendum dregnar saman í aldurstöflum, sem settar eru fram í reglugerð sjóðsins og ráða fjárhæð árlegs ellilífeyris.

Samkvæmt gr. 16.5 í reglugerð aðaláfrýjanda skal tryggingafræðingi falið að gera úttekt á fjárhag sjóðsins með tilteknu millibili, nú eigi sjaldnar en þriðja hvert ár, þar sem raunveruleg þróun ávöxtunar og áhættu verði borin saman við fjárhagslegar og tryggingafræðilegar reikniforsendur réttinda í sjóðnum. Sýni uppgjörið hagnað umfram skuldbindingar, skal hinum jákvæða mismun varið til hlutfallslegrar hækkunar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga eftir tillögum tryggingafræðingsins, en aðalfundur getur þó ákveðið að leggja hann til hliðar í varasjóð. Sýni uppgjörið halla, sem ekki verði jafnaður með varasjóði, ber að færa réttindin niður hlutfallslega. Á þessi ákvæði mun hafa reynt framan af starfsferli sjóðsins, og undanfarin ár mun úttekt hafa farið fram árlega. Hins vegar varð hlé á framkvæmd ákvæðanna á árunum 1979 - 1990, meðan þess var beðið, að samstaða næðist um endurskoðun á reglugerð sjóðsins með hliðsjón af stöðu hans og þeim efnahagslegu breytingum, sem almenn verðtrygging hefði í för með sér. Var við það látið sitja til bráðabirgða að greiða lífeyri úr sjóðnum með uppbótum í samræmi við ákvörðun aukaaðalfundar í nóvember 1979, þannig að lífeyrisfjárhæðin næði 80% af því, sem vera myndi, ef réttindi hlutaðeigandi sjóðfélaga yrðu verðbætt eftir vísitölu.

Þegar látið var til skarar skríða um endurskoðun reglugerðarinnar á aðalfundum sjóðsins í maí og júní 1990 lá fyrir skýrsla um úttekt á efnahag sjóðsins, sem Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur hafði gert eftir fyrrgreindum ákvæðum, ásamt tillögum hans til sjóðstjórnar um ráðstöfun á hagnaði í þágu lífeyrisréttar sjóðfélaganna. Var skýrslan kynnt á fundunum ásamt tillögum stjórnarinnar um breytta reglugerð, en einnig hafði málið verið reifað í fundarboði og í fréttabréfum sjóðsins.

Hin breyttu ákvæði reglugerðarinnar tóku gildi 1. janúar 1991, eins og um getur í héraðsdómi. Meðal þeirra voru nýjar ellilífeyristöflur í 6. gr. reglugerðarinnar, sem fólu í sér endurskoðaðar reikniforsendur réttinda í sjóðnum. Einnig var því ákvæði aukið við gr. 6.2, að iðgjöld skyldu verðtryggð með lánskjaravísitölu við útreikning ellilífeyris. Í gr. 10.1  var því og bætt við, að lífeyrisgreiðslur skyldu verðtryggðar með þeirri vísitölu. Jafnframt voru sett bráðabirgðaákvæði í 20. gr. reglugerðarinnar, sem fjölluðu um réttindi vegna tímans fram að uppgjöri við lok ársins 1990.

II.

Aðalkrafa gagnáfrýjanda lýtur að verðtryggingu á lífeyrisréttindum hans og er reist á bráðabirgðaákvæðinu í gr. 20.1, sem rakið er í héraðsdómi ásamt gr. 20.2. Samkvæmt fyrra ákvæðinu skyldu réttindi sjóðfélaga, svo sem þau yrðu við árslok 1990 eftir óbreyttri reglugerð, „umreiknuð til réttinda í samræmi við réttindaákvæði þau, sem gildi taka 1. jan. 1991“, og síðan „verðtryggð upp frá því“ á sama hátt og réttindi, sem síðar væru til orðin. Túlkar hann þessi fyrirmæli á þann veg, að þau veiti honum tilkall til fullrar verðtryggingar réttinda sinna. Ákvæði gr. 20.2 benda þó til þess, að sá skilningur fái ekki staðist, en þar var kveðið á um varasjóð, sem verja skyldi til að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóðfélaga, sem lægst réttindi hefðu miðað við fulla verðtryggingu iðgjalda frá upphafi. Yrði hann nýttur til að halda tilteknu hlutfalli af fullri verðtryggingu lífeyrisréttar, sem yrði 80% fyrst um sinn, en kæmi síðar til endurskoðunar.

Ákvæði þessara málsgreina 20. gr. verða ekki talin ljós, þegar litið er á hvora um sig, en merkingin skýrist, þegar þær eru virtar í heild og jafnframt bornar saman við efni fyrrnefndrar skýrslu frá tryggingafræðingi sjóðsins, en til hennar var vísað í athugasemdum við gr. 20.2 í frumvarpinu að hinni breyttu reglugerð. Hann lýsti þar tillögum um uppgjör lífeyrisréttinda á grundvelli efnahags sjóðsins við árslok 1988, sem hann og stjórnin gerðu ráð fyrir, að fylgt yrði eftir með sams konar uppgjöri við árslok 1990. Voru tillögurnar einkum þess efnis, að hagnaði af starfsemi sjóðsins fram til gildistöku nýrrar reglugerðar yrði skipt með tilliti til þess, hvert hagnaðurinn yrði rakinn, þannig að reiknað væri sérstaklega, hvaða hluti hans væri til kominn vegna raunávöxtunar umfram fjárhagslegar reikniforsendur réttinda í sjóðnum. Mætti úthluta honum til almennrar hækkunar á uppsöfnuðum lífeyrisrétti sjóðfélaga. Við reikning á skuldbindingum vegna þeirra, sem farnir væru að taka við lífeyri með 80% verðtryggingu, væri jafnframt rétt að gera ráð fyrir framhaldi á þeim greiðslum. Eftir yrði þá fjárhæð, sem aðallega yrði rakin til hagsbóta af því, að áhætta sjóðsins á liðnum tíma hefði reynst minni en tryggingafræðilegar forsendur miðuðust við. Mætti leggja hana í varasjóð til að standa undir skuldbindingu um 80% af fullverðtryggðum lífeyri til þeirra greiðandi sjóðfélaga, sem næðu ekki þessu réttindamarki.

Af þessu verður ráðið, að ákvæði gr. 20.1 hafi lotið að uppgjöri á réttindum sjóðfélaganna eftir eldri reglum fram að árslokum 1990, það er eins og þau yrðu hinn 31. desember, sbr. upphaf málsgreinarinnar. Við það uppgjör hafi átt að fara fram úthlutun á „þeim hluta hagnaðar af starfsemi sjóðsins, sem til hefur orðið vegna ávöxtunar umfram reiknigrundvöll til og með 31. des. 1990“, sbr. gr. 20.2, það er sú ráðstöfun hagnaðar eftir uppruna, sem um var rætt í skýrslum tryggingafræðingsins. Ákvæði gr. 20.2, sem vísuðu til þessarar ráðstöfunar, hafi að öðru leyti verið tengd tillögum hans um færslu skuldbindinga vegna lágmarkslífeyris.

Við því mátti búast, að hækkun lífeyrisréttinda við þessi tímamót yrði eingöngu reiknuð að því marki, sem heildareign sjóðsins leyfði. Gefur umræddur samanburður til kynna, að þetta hafi verið gert án þess að verðtryggingu iðgjalda væri beitt, nema að því leyti, sem við þurfti til að reikna út skuldbindingar við lífeyrisþega. Hafi bráðabirgðaákvæðum reglugerðarinnar verið ætlað að staðfesta, að byggt yrði á því verðmæti, sem fyrir lægi eftir hækkunina, við færslu réttinda í sjóðnum yfir á verðtryggðan grundvöll. Fyrirmæli gr. 20.1 um að „umreikna“ hin eldri réttindi hafi jafnframt verið mótuð í samræmi við þetta, en orðið er greinilega tengt orðalagi í skýrslum tryggingafræðingsins, þegar hann ræðir um þetta efni. Er þar ekki átt við, að verðmætunum skuli breytt með verðtryggingu við þessi umskipti, heldur að fjárhæð þeirra verði tengd þeim verðtryggingarreglum, sem fylgt skuli framvegis. Orðar hann þetta svo í síðari skýrslunni og vitnisburði fyrir dómi, að umskiptunum megi lýsa sem kaupum á réttindum eftir hinum nýju reglum, þannig að til hafi orðið eingreiðsluiðgjald, sem notað yrði í því skyni.

Þegar aðdragandinn að breytingu reglugerðar aðaláfrýjanda er virtur í heild, þykir þessi efnisþáttur hinna nýju ákvæða hafa verið nægilega kynntur við samþykkt þeirra. Samkvæmt öllu þessu verður að fallast á það með dómendum í héraði, að ákvæði 20. gr. verði ekki skilin svo, að gagnáfrýjandi eigi rétt á 100% verðtryggingu lífeyrisréttinda sinna. Á aðaláfrýjandi þannig að vera sýkn af aðalkröfu gagnáfrýjanda.

III.

Gagnáfrýjandi hætti greiðslu iðgjalda til aðaláfrýjanda í október 1994, þegar hann náði venjulegum aldursmörkum, og hóf töku ellilífeyris. Lýtur varakrafa hans að því, að honum hafi ekki verið reiknuð hlutdeild í hagnaði hjá sjóðnum við úthlutun á árunum eftir 1990, en sú hlutdeild hafi að réttu lagi átt að breyta greiðslum lífeyris til hans frá byrjun. Nær fjárkrafa hans frá þeim tíma til 1. desember 1997. Hlutdeildina miðar hann við þann lífeyri, sem aðaláfrýjandi hefur ákvarðað honum og nemur 80% af fullverðtryggðum lífeyri fram að júlímánuði 1996, en 90% eftir það. Sá lífeyrir hafi falið í sér hina gildandi skuldbindingu sjóðsins gagnvart honum og þar með þau lífeyrisréttindi, sem leggja eigi til grundvallar hækkun eða niðurfærslu samkvæmt gr. 16.5 í reglugerð aðaláfrýjanda.

Afstöðu aðaláfrýjanda til kröfunnar er lýst í héraðsdómi. Er hún einkum rökstudd með því, að umrædd hlutdeild fari í bága við forsendur að bráðabirgðaákvæðum 20. gr. reglugerðarinnar og uppgjöri á sjóðnum í árslok 1990. Til þess hafi ekki verið ætlast, að gagnáfrýjandi eða aðrir sjóðfélagar, sem væru að nálgast aldursmörk, nytu úthlutunar samkvæmt gr. 16.5, sem síðar kæmi til, enda hefðu þeim verið tryggð sérstök réttindi og fé lagt í varasjóð vegna þeirra. Ætti hlutdeild að reiknast þeim eigi að síður, hlyti hún að miðast við áunnin réttindi þeirra vegna uppsafnaðra iðgjalda, en ekki hinn ákvarðaða lífeyri, sem væri mun hærri.

Samkvæmt gr. 16.5 eiga breytingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga vegna hagnaðar eða halla af starfsemi sjóðsins að vera hlutfallslegar við réttindin að undirstöðu til. Orðinu „hlutfallslegrar“ var að vísu ekki skotið inn í þriðja málslið ákvæðisins fyrr en 1990, en gögn málsins gefa til kynna, að sú orðalagsbreyting hafi fyrst og fremst verið til áréttingar. Svigrúm tryggingafræðings til tillögugerðar um ráðstöfun hagnaðar á hverjum tíma er þannig takmörkunum háð, svo og svigrúm aðalfunda sjóðsins til einstakra ákvarðana um þetta efni. Það samrýmist orðum og markmiðum málsgreinarinnar, að ákvæði hennar varði alla sjóðfélaga, en sjóðfélagar eru ekki aðeins þeir, sem greiða iðgjöld á hverjum tíma, heldur einnig lífeyrisþegar að elli- og örorkulífeyri, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Taka ákvæðin þannig til gagnáfrýjanda, eftir því sem við getur átt. Í því felst meðal annars, að hann geti þurft að sæta skerðingu á lífeyri, ef sjóðurinn verði fyrir áföllum, sem mæta þurfi með almennri niðurfærslu réttinda.

Auðsætt er, að gagnáfrýjandi og aðrir eldri sjóðfélagar hafi notið hagræðis af reglum sjóðsins um greiðslur lífeyris miðað við 80% verðtryggingu iðgjalda frá upphafi. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á, að ráðstöfun fjár til þessara greiðslna hafi valdið skerðingu á hlutdeild annarra sjóðfélaga í hagnaði af ávöxtun sjóðsins. Hin upphaflega ákvörðun um þessa tilhögun, sem síðar var fest í sessi með ákvæðum gr. 20.2, virðist og greinilega hafa verið tekin í því trausti, að sjóðurinn hefði efni á að standa undir henni, þegar til lengdar léti. Framlög þessara sjóðfélaga eru og meðal þeirra fjármuna, sem sjóðurinn hefur haft til ávöxtunar.

Í reglugerð aðaláfrýjanda sér þess hvergi stað nema í bráðabirgðaákvæðum 20. gr., að árið 1990 marki skil í starfsemi sjóðsins. Þar er ekki vikið að áunnum réttindum sjóðfélaga með öðrum orðum en þeim, sem höfð eru um yfirfærslu réttinda á verðtryggðan grundvöll og samanburð við verðtryggðan lífeyri. Er ekki fram tekið þar né annars staðar, að lífeyrisþegar eða aðrir eldri sjóðfélagar eigi að vera undanskildir hinni almennu reglu gr. 16.5 um breytingu réttinda eftir afkomu sjóðsins. Þótt litið sé einnig til aðdragandans að samþykkt hinnar breyttu reglugerðar verður aðaláfrýjandi ekki talinn hafa sýnt fram á, að réttur þessara aðila hafi átt að markast með endanlegum hætti af þeim útreikningum um skuldbindingar vegna lífeyrisþega og fjárhæð varasjóðs, sem lýst var í skýrslum tryggingafræðings sjóðsins.

Að þessu athuguðu ber að fallast á það með dómendum í héraði, að reglu         gr. 16.5 verði beitt um réttindi gagnáfrýjanda með þeim hætti, að hann verði talinn eiga tilkall til hlutdeildar í úthlutun hagnaðar hjá aðaláfrýjanda vegna áranna 1991-1995, er miðuð sé við staðfesta skuldbindingu sjóðsins um lífeyri til hans. Verður þá jafnframt fallist á niðurstöður þeirra um hlutfall þessarar hlutdeildar og fjárhæð hennar á hverju úthlutunarári.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum, sem að framan hafa verið rakin, er fallist á kröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á áframhaldandi rétti til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði eftir 1. desember 1997.

IV.

Samkvæmt áðursögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur í heild.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem um er mælt í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Lífeyrissjóður verkfræðinga, greiði gagnáfrýjanda, Ragnari S. Halldórssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 1999

Ár 1998, mánudaginn 23. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hirti O. Aðalsteinssyni, héraðsdómara og meðdómsmönnunum Sigurði Frey Jónatanssyni, tryggingastærðfræðingi og Stefáni Daníel Franklín, löggiltum endurskoðanda, kveðinn upp dómur í máli nr. E-5975/1997: Ragnar S. Halldórsson gegn Lífeyrissjóði verkfræðinga.

Mál þetta, sem upphaflega tekið var til dóms 25. september s.l., er höfðað með stefnu útgefinni 16. desember s.l. og birtri daginn eftir. Málið var endurupptekið í dag sam­kvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en þar sem dómendur og aðilar voru sam­mála um að ekki væri þörf flutnings á ný var það dómtekið.

Stefnandi er Ragnar S. Halldórsson, verkfræðingur, kt. 010929-2619, Laugarásvegi 12, Reykjavík.

Stefndi er Lífeyrissjóður verkfræðinga, kt. 430269-4299, Engjateigi 9, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu á skuld vegna van­greidds lífeyris, aðallega að fjárhæð kr. 700.270, en til vara að fjárhæð kr. 215.860, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 18. desember 1997 til greiðslu­dags. Þá er krafist viðurkenningar á áframhaldandi rétti stefnanda til fullrar verð­tryggingar lífeyrisins og til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði hjá stefnda eftir 1. desember 1997. Loks er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi auk virðis­auka­skatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er krafist máls­kostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir.

Lífeyrissjóður Verkfræðingafélags Íslands, eins og hann hét áður, var stofnaður árið 1954 og er hlutverk sjóðsins að veita sjóðfélögum elli- og örorkulífeyri og eftir­látn­um mökum þeirra og börnum maka- og barnalífeyri samkvæmt ákvæðum reglu­gerðar fyrir sjóðinn. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar geta allir verkfræðingar orðið sjóðfélagar og aðrir sem stjórnin hefur samþykkt. Þá er tekið fram í reglugerðinni að elli- og örorkulífeyrisþegar teljist einnig sjóðfélagar. Sjóðurinn er svokallaður sam­eign­arsjóður, enda eiga sjóðfélagar ekki sérgreint það fé sem þeir greiða til sjóðsins, heldur leggst það í sameiginlegan sjóð. Í 6. gr. reglugerðar sjóðsins er fjallað um rétt­indi sjóðfélaga til ellilífeyris og mun sjóðurinn hafa þá sérstöðu meðal sameignarsjóða að réttindi sem fást út á greidd iðgjöld eru hærri í krónum talið eftir því sem greið­and­inn er yngri. Upphæð ellilífeyris fer eftir töflum í reglugerðinni og er þar kveðið á um krónu­tölu ellilífeyris sem fer lækkandi eftir aldri greiðanda.

Vegna verðbólgu í landinu á áttunda áratugnum varð sjóðurinn fyrir áföllum, enda var raunávöxtun fjárskuldbindinga haldið neikvæðri með lagaboði og rýrnaði raunvirði líf­eyris sjóðfélaga hratt af þeim sökum. Var brugðist við þessu með því að greiða ár­lega uppbætur á lífeyri og voru þær nefndar jólabónus. Á aðalfundi árið 1979 var sam­þykkt að endurskoða reglugerð sjóðsins vegna þessara vandamála og þar til end­ur­skoðun lyki skyldu greiddar uppbætur á lífeyrinn sem næmu 80% af verðtryggingu réttinda miðað við framfærsluvísitölu. Reglugerðinni var ekki breytt fyrr en í júní árið 1990 með gildistöku 1. janúar 1991 og fram til þess tíma var 80% uppbótarreglunni beitt. Þær breytingar sem hér skipta máli voru þær að ákveðið var að lífeyrisgreiðslur skyldu verðtryggðar með lánskjaravísitölu, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Í athuga­semdum með breytingatillögunni var vísað til athugasemda við gr. 6.2., en þar var lagt til að iðgjöld verði við útreikning ellilífeyrisréttar verðtryggð með lánskjaravísitölu. Sam­kvæmt gr. 16.5. í reglugerðinni skal sjóðstjórnin frá tryggingafræðing til að reikna út fjárhag sjóðsins eigi sjaldnar en 3. hvert ár. Hann skal semja skýrslu um athugunina og gera upp efnahagsreikning sjóðsins á grundvelli útreikninga sinna. Sýni uppgjörið hagnað skyldi honum varið til hlutfallslegrar hækkunar á lífeyrisréttindum sjóðfélaganna eftir tillögum tryggingafræðingsins. Þó getur aðalfundur ákveðið að leggja hann eða hluta hans í varasjóð.  Sýni uppgjörið halla, sem ekki verður greiddur úr varasjóði, ber að lækka lífeyrisréttindin hlutfallslega. Þá voru sett eftirfarandi bráðabirgðaákvæði í reglu­gerðina og er gr. 20.1. svohljóðandi: „Réttindi sjóðfélaga eins og þau verða þ. 31. des. 1990 skv. þágildandi ákvæðum reglugerðar, skulu umreiknuð til réttinda í sam­ræmi við réttindaákvæði þau, sem gildi taka 1. jan. 1991, og skulu verðtryggð upp frá því á sama hátt og þau réttindi sem myndast frá og með 1. janúar 1991.”  Í athuga­­semdum með greininni segir að kveðið sé á um verðtryggingu réttinda sem mynd­ast áður en tekin er upp verðtrygging í sjóðnum. Gr. 20.2. er svohljóðandi: „Vara­sjóði, sem eftir stendur, þegar úthlutað hefur verið þeim hluta hagnaðar af starf­semi sjóðsins, sem til hefur orðið vegna ávöxtunar umfram reiknigrundvöll til og með 31. des. 1990, skal verja til að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóðfélaga, sem lægst rétt­indi hafa miðað við fulla verðtryggingu iðgjalda þeirra frá upphafi, og greiða í sjóðinn skv. reglugerð þessari. Með varasjóði þessum skal haldið tilteknu hlutfalli af fullri verðtryggingu lífeyrisréttar. Hlutfall þetta verður 80% frá og með 1. jan. 1991 og endurskoðast til hækkunar eða lækkunar skv. úttekt tryggingafræðings.”  Orðunum „skv. reglugerð þessari” mun hafa verið bætt síðar við reglugerðina. Í athuga­semdum segir að að tillagan að grein 20.2 sé sniðin eftir tillögum trygg­inga­fræðings LVFÍ um lífeyrisuppgjör pr. 31. des. 1988. Gert er ráð fyrir sams konar upp­gjöri pr. 31. des. 1990 þegar verðtrygging verði tekin upp í sjóðnum. Tilteknum hagn­aði verði varið til að hækka lífeyrisrétt þeirra sjóðfélaga sem lægst réttindi hafa miðað við fulla verðtryggingu og greiða í sjóðinn fram að þeim tíma að þeir eigi rétt á bótum frá sjóðnum.

Auk þessara breytinga var réttindatöflum 6. gr. breytt þannig að gert var ráð fyrir 3,5% ávöxtun í stað 4% ávöxtunar.

Stefndi hefur í greinargerð og með framlagningu dómskjala lýst aðdraganda reglugerðarbreytingarinnar árið 1990. Segir stefndi að í fréttabréfi stefnda í maí 1986 hafi verið skýrt frá því að unnið væri að úttekt á stöðu sjóðsins, en slík úttekt sé grund­völlur að endurskoðun á reglugerðinni. Í fréttabréfi í maí 1987 séu hugleiðingar um vand­ann við fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar. Í mars 1988 sé ítarleg umfjöllun um stöðu sjóðsins og hugmyndir sem til umræðu voru. Jafnframt sé þar grein um út­reikn­ing tryggingafræðings á stöðu sjóðsins. Í maí 1989 er enn fjallað um útreikninga trygg­inga­fræðings sjóðsins og í maí 1990 er fjallað um lífeyrisuppgjör skv. nýjum tillögum, reglu­gerðarbreytingar og áhrif breyttra reglna á makalífeyri. Þá hafi stjórn sjóðsins boðað til félagsfundar 9. apríl 1990, annars vegar um tillögur tryggingafræðings um líf­eyr­isuppgjör í árslok 1988 og hins vegar til kynningar á hugmyndum að breytingum á reglu­gerð sjóðsins. Með fundarboði dagsettu 18. maí 1990 var boðað til aðalfundar í sjóðn­um 30. maí 1990. Meðal dagskrárliða var lífeyrisuppgjör pr. 31.12.1988 og reglu­gerðarbreyting. Tekið var fram að skýrsla tryggingafræðingsins liggi frammi á skrif­stofu sjóðsins sjóðfélögum til sýnis. Tillögum til breytinga á samþykktum sjóðsins með athugasemdum og skýringum var dreift meðal sjóðfélaga. Þær voru ræddar á aðal­fundi 30. maí 1990 og samþykktar samhljóða á framhaldsaðalfundi 27. júní 1990.

Stefnandi er félagi í hinum stefnda lífeyrissjóði og hóf hann að greiða iðgjöld til hans árið 1956, en þá var stefnandi 26 ára gamall. Hann greiddi samfellt til sjóðsins í 38 ár eða til ársins 1994 er hann varð 65 ára og hóf töku ellilífeyris. Lífeyrir stefnanda hefur verið verðtryggður að hluta, fyrst 80% fram á mitt ár 1996, en síðan 90% skv. ákvörðun sjóðsins. Stefnandi heldur því fram að á þessu tímabili hafi hann ekki notið neinnar hlutdeildar í hagnaði af rekstri sjóðsins, þ.e. arðsemi umfram reiknaðar skuld­bind­ingar. Stefnandi og aðrir sjóðfélagar hafa leitað lögmannsaðstoðar en þeir telja sig eiga rétt til hærri lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum. Hefur verið reynt að leysa ágreininginn utan réttar og er þeim tilraunum lýst í stefnu, en ekki þykir ástæða til að tíunda þær hér, en þar áttu hlut að máli lögmenn aðila og tryggingafræðingarnir Jón Erlingur Þorláks­son og Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingur sjóðsins.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að í ákvæði til bráðabirgða í gr. 20.1. reglugerðar sjóðsins felist réttur hans til fullrar verðtryggingar eldri réttinda við um­reikn­inginn 1. janúar 1991. Sá réttur njóti síðan áfram fullrar verðtryggingar eftir þann dag.  Þá byggjast kröfur hans á því að stefnanda hafi samkvæmt reglugerðinni borið hlut­deild í úthlutuðum hagnaði sjóðsins eftir reglugerðarbreytinguna frá ársbyrjun 1991. Er gert ráð fyrir að úthlutun hefjist frá og með júlímánuði árið eftir að hagnaður varð. Stefnandi hefur áskilið sér rétt til þess að gera frekari kröfur vegna hagnaðar ársins 1996 sem leggjast hefði átt til í júlí 1997. Aðalkrafa stefnanda er byggð á fullri verð­trygg­ingu og hlutdeild í hagnaði, en varakrafan felur aðeins í sér hagnaðarhlutdeildina og þá miðað við þá verðtryggingu sem lífeyrisþegarnir hafa notið.

Stefnandi byggir á því að ákvæðið í gr. 20.1. feli það í sér að við breytinguna 1. janúar 1991 hafi réttindi sjóðfélaganna átt að umreiknast yfir á þann réttindagrundvöll sem þá tók við. Þetta hljóti að þýða fulla verðtryggingu hinna eldri réttinda við um­reikn­inginn, því að „réttindaákvæði þau, sem taka gildi 1. janúar 1991” hafi falið í sér slíka verðtryggingu skv. breytingunni sem gerð var á gr. 10.1. Ekki verði fallist á þann skiln­ing stefnda að umreikningurinn ætti að miðast við 80% verðtryggingu, sem hafi verið sú verðtrygging sem menn nutu fyrir breytinguna. Stefnanda sýnist stefndi byggja þennan skilning á ákvæðinu í gr. 20.2., þar sem ráðagerð er uppi um 80% hlutfall af fullri verðtryggingu, sem eigi að endurskoðast til hækkunar eða lækkunar skv. úttekt trygg­ingafræðings, þó að þetta sé þar bundið við ráðstöfun á tilgreindum varasjóði. Stefnandi byggir á því að ekki sé verið að fjalla um útreikning grunnréttinda til lífeyris við reglugerðarbreytinguna heldur aðeins um ráðstöfun varasjóðsins. Stefnandi bendir á að skv. ákvæðinu skuli varasjóðnum varið til að hækka lífeyrissjóðsréttindi þeirra sjóð­félaga, sem lægst hafa réttindi miðað við fulla verðtryggingu og sýnist stefnanda þarna hnykkt á þeim skilningi að iðgjöldin eigi frá upphafi að verðtryggjast að fullu.

Stefnandi byggir kröfu sína á hlutdeild í úthlutuðum hagnaði á gr. 16.5. í reglugerð sjóðs­ins, þar sem segir að hagnaði af rekstri sjóðsins skuli verja til hlutfallslegrar hækk­unar á lífeyrisréttindum sjóðfélaganna. Ekki verði séð að stefndi geti ákveðið að þeir sjóð­félagar, sem hafa hafið töku lífeyris úr sjóðnum, eigi ekki að fá hlutdeild í þessum hagn­aði og hljóti slík afstaða að brjóta gegn ákvæði reglugerðarinnar. Stefnanda virðist stefndi byggja afstöðu sína helst á því að lífeyrisþegarnir njóti með 80% og síðan 90% verð­tryggingu ríkari réttar en þeim hefði borið ef ávöxtun þeirra eigin framlaga í sjóðn­um hefði verið reiknuð út. Ekki verði fallist á að orðalagið í gr. 16.5. „eftir tillögum trygg­ingafræðingsins” leyfi slík sjónarmið, enda hvergi í reglugerðinni að finna stoð fyrir slíku. Stefnandi byggir á því að tryggingafræðingurinn hljóti við tillögugerð sína að vera bundinn af efnisreglu ákvæðisins um að hagnaði skuli verja til hlutfallslegrar hækk­unar á lífeyrisréttindum sjóðfélaganna. Hljóti þar að vera átt við alla, hvort sem þeir hafa hafið töku lífeyris eða ekki.

Stefnandi bendir sérstaklega á það einkenni sameignarsjóða að þeir fela í sér sam­trygg­ingarkerfi sjóðfélaga þannig að réttindi þeirra til ellilífeyris ráðast af rétt­inda­ákvæð­um reglugerðar en ekki sérgreindum framreikningi framlaga þeirra. Þannig geti ein­stakir sjóðfélagar notið mismunandi réttar eftir atvikum sem hafa ekkert með inn­borg­anir þeirra að gera. Fjármunir kunni að færast milli kynslóða í slíkum sjóðum, oft­ast frá þeim yngri til hinna eldri.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar trygg­inga­fræðings og þykir ekki ástæða til að gera grein fyrir þeim nema kröfur stefnanda verði teknar til greina.

Stefnandi byggir kröfur sínar á ólögfestum reglum samninga- og kröfuréttar um skuld­bindingargildi samninga, í þessu tilviki reglugerð stefnda. Dráttarvaxtakrafa er reist á III. kafla vaxtalaga og málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991. Þess er sérstaklega krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostn­aðar af starfi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að sjóðurinn hafi greitt stefnanda lífeyri í sam­ræmi við reglugerðarákvæði á hverjum tíma og aldrei skert þau réttindi. Reglu­gerð­ar­ákvæð­in frá 1990 hafi verið samþykkt samhljóða á löglegum aðalfundi sjóðfélaga að und­angengnum faglega vönduðum undirbúningi. Hafi sjóðfélögum verið kynntar ítar­lega fyrirhugaðar tillögur um reglugerðarbreytingar og áhrif þeirra, bæði með dreifingu skrif­legra gagna og á fundum. Af tillögunum og kynningu þeirra mátti stefnanda sem og öðrum sjóðfélögum vera ljóst í hverju breytingarnar voru fólgnar og hver áhrif þeirra voru á skyldur þeirra og réttindi. Stefnandi gat ekki vænst frekari hækkunar á líf­eyri sinn en hann fékk með 80% reglunni. Breytingarnar hafi að öllu leyti samræmst lög­um og sjóðfélögum hafi verið heimilt að koma málum sínum fyrir á þann hátt sem þeir gerðu. Ekki sé byggt á því í málinu að samþykktir sjóðfélaganna á aðalfundi hafi verið í ósamræmi við lög, heldur sé ágreiningur um það hvernig beri að skilja inntak breyt­inganna.

Þær breytingar sem hér skipti máli séu að kveðið sé í fyrsta sinn á um verð­trygg­ingu í reglugerð og skal hún miðast við lánskjaravísitölu, sbr. gr. 6.2. Hún hafði áður samkvæmt tímabundnum ákvörðunum aukaaðalfundar 1979 tekið mið af fram­færslu­vísi­tölu. Þá var kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði að réttindi sjóðfélaga skv. eldri reglu­gerð skyldu umreiknuð til réttinda samkvæmt endurskoðaðri reglugerð og verð­tryggð upp frá því. Að lokum var ákveðið að stofna skyldi uppbótarsjóð með hagnaði, sem nánar er skilgreindur í ákvæðinu, til þess eingöngu að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóðfélaga sem lægst réttindi hafa miðað við fulla verðtryggingu iðgjalda þeirra frá upp­hafi og greiða í sjóðinn skv. reglugerð. Með uppbótarsjóðnum skyldi halda 80% hlut­falli af fullri verðtryggingu lífeyrisréttar frá og með 1. janúar 1991 og mátti síðan hækka eða lækka skv. úttekt tryggingastærðfræðings. Stefnandi njóti þeirra ráðstafana sem gerðar voru með breytingunum 1990, enda fær hann lífeyri sem er verulega hærri en hann hefði áunnið sér með eigin iðgjöldum. Hann njóti bæði framlaga annarra sjóð­félaga og hagnaðar sjóðsins með sínum hætti.

Samkvæmt úttekt tryggingastærðfræðings á sjóðnum pr. 31. desember 1990 hafi eignir sjóðsins numið 1.798 milljónum króna og skiptust skuldbindingar þannig að vegna lífeyrisþega voru 163 milljónir króna, vegna uppsafnaðra réttinda annarra voru 1.533 milljónir króna og vegna uppbóta 102 milljónir. Stefndi telur felast í þessu að lagðar hafi verið til hliðar 163 milljónir króna til greiðslu á skuldbindingum við þá sem þegar hafa byrjað töku lífeyris og er þá miðað við 80% verðtryggingu réttarins án tillits til þess að iðgjöld lífeyrisþeganna dugðu ekki til að standa undir þessum réttindum. Sér­staklega skilgreindur hagnaður að fjárhæð 102 milljónir króna sé lagður í upp­bóta­sjóð í eitt skipti fyrir öll til að unnt verði að tryggja að þeir sem hefji töku lífeyris á næstu árum og greiða til sjóðsins iðgjöld fái frá og með 1. janúar 1991 80% verð­tryggðan lífeyri án tillits til þess hvort iðgjöld þeirra standi að fullu undir slíkri verð­trygg­ingu. Með þessum ráðstöfunum hafi verið framkvæmt uppgjör þar sem hagsmunir hinna eldri sjóðfélaga voru hafðir í fyrirrúmi. Miðað við uppbyggingu sjóðsins var flutt fé frá hinum yngri sjóðfélögum til hinna eldri fram yfir það sem reglur og grunn­hug­mynd sjóðsins gerði ráð fyrir. Grunnhugmynd sjóðsins sé sú að iðgjöld hvers sjóð­fél­aga standi undir lífeyrisrétti hans án nokkurra millifærslna en þeirra sem leiða af áhættu­trygg­ingu í samtryggingarsjóði.

Stefndi byggir á því að orðalag gr. 20.1. í reglugerðinni gefi ekki tilefni til þeirrar túlk­unar að öllum sjóðfélögum sé heitið fullri eða 100% verðtryggingu á lífeyrisréttindi sín. Þar sé einungis talað um umreikning réttinda og að þau skuli verðtryggja upp frá því á sama hátt og þau réttindi sem myndast frá og með 1. janúar 1991. Ekkert sé sagt um fulla verðtryggingu réttinda við umreikninginn og með samanburði á 1. og 2. mgr. 20. gr. komi í ljós að fyrirhugað sé að greiða þeim sem hefja töku lífeyris á næstunni 80% verðtryggðs lífeyris og að til þess þurfi að stofna sérstakan uppbótasjóð. Stefn­andi hafi enga ástæðu til að ætla að fyrirhugað hafi verið að greiða honum annað og meira en þeim, sem hefja töku lífeyris síðar og hafa því haft betri ávöxtun iðgjalda sinna en stefnandi. Hvorki orðalag reglugerðarbreytinganna, undirbúningur eða síðari kynn­ingar geta hafa vakið hjá stefnanda væntingar um betri rétt en hann nýtur.

Stefndi byggir á því að stefnandi eigi ekki rétt á þátttöku í hagnaði sjóðsins, sem varð til eftir 1. janúar 1991 til viðbótar þeim hagnaði sem ráðstafað var til að standa undir 80% verðtryggingu á lífeyrisréttindum stefnanda og annarra sjóðfélaga sem höfðu hafið töku lífeyris eftir breytinguna 1990 án þess að iðgjöld þeirra stæðu undir þeirri verð­tryggingu. Stefnanda hafi mátt vera ljóst að hann naut sérkjara og forréttinda í sjóðn­um með 80% verðtryggingarreglunni, en hún var fjármögnuð að verulegu leyti af öðrum sjóðfélögum og skertust réttindi þeirra við færslu fjárins til stefnanda og ann­arra, sem ekki gátu staðið undir 80% verðtryggingu með eigin iðgjöldum verð­tryggð­um. Bæði bráðabirgðaákvæði 20. gr. og undirbúningsgögn og skýringar til sjóðfélaga báru þessa lausn með sér. Að öðrum kosti hefðu réttindi stefnanda og annarra sem eins var háttað um verið umreiknuð á sama hátt og yngri sjóðfélaga og þau réttindi verðbætt skv. reglum sjóðsins, en sú aðferð hefði leitt til þess að lífeyrir stefnanda hefði orðið u.þ.b. helmingi lægri en hann varð. Hefðu réttindi hans því samkvæmt þessu orðið önnur og miklu lakari en þau sem hann nýtur frá 1994. Stefnandi gat ekki búist við að hann gæti bæði fengið 80% verðtryggð lífeyrisréttindi með sérstökum ráðstöfunum fram yfir skyldu og síðan frekari uppbætur á þau réttindi er hann fær. Stefnanda var ljóst eða átti að vera ljóst að fram fór uppgjör við gamla tímann og niðurstaðan var sú að hann fékk réttindi fram yfir þau réttindi sem hann hafði áunnið sér með 80% reglunni (síðar 90% reglunni). Stefnanda mátti vera ljóst af kynningu breytinganna að ákvæði gr. 16.5. áttu ekki við réttindi hans. Gerð voru ákveðin skil og staða hinna verr settu var bætt fram yfir skyldu með þeim hætti sem lýst hefur verið. 

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki hreyft athugasemdum við þann lífeyri sem hann fékk árið 1994 og síðar og það hafi fyrst verið með bréfi 19. júlí 1996 sem at­huga­semdum var hreyft.  Stefnandi hafi sætt sig við framkvæmdina í verki og með að­gerð­arleysi sínu glatað rétti til að gera kröfur nú.

Stefndi byggir á því að forsendur samþykktarinnar á aðalfundi sjóðfélaga árið 1990 hafi verið þær að með því að bæta réttindi þeirra sem verst voru settir vegna lélegrar ávöxtunar iðgjalda með skerðingu réttinda annarra hafi málum stefnanda og annarra sem líkt var ástatt um verið lokið og þeir gætu ekki gert frekari kröfur. Þá hafi stefn­anda verið skylt að láta í ljós þá skoðun sína að hann myndi gera frekari kröfur er hann veitti viðtöku lífeyri sem var langt umfram rétt hans samkvæmt greiddum iðgjöldum.

Forsendur og niðurstaða.

Upplýst er í máli þessu að hinn stefndi lífeyrissjóður varð fyrir áföllum af völdum verð­bólgu eins og að framan er rakið. Til þess að tryggja hag sjóðfélaga var unnið að breyt­ingum á reglugerð sjóðsins og voru breytingarnar kynntar ítarlega á fundum og í frétta­bréfi. Var kveðið á um verðtryggingu samkvæmt lánskjaravísitölu í reglugerðinni og samkvæmt bráðabirgðaákvæði skyldu réttindi sjóðfélaga samkvæmt eldri reglugerð um­reiknuð til réttinda samkvæmt endurskoðaðri reglugerð með nánar tilgreindum hætti. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst annars vegar um það hvort bráða­birgða­ákvæði í 20. gr. reglugerðar sjóðsins leiði til þess að stefnandi eigi rétt á fullri eða 100% verðtryggingu lífeyrisréttinda sinna og hins vegar um það hvort stefnandi njóti hagn­aðar í samræmi við gr. 16.5 í reglugerð sjóðsins.

Stefnandi hóf töku lífeyris árið 1994 eftir reglugerðarbreytinguna árið 1990.

Líf­eyrir stefnanda hefur verið verðtryggður að hluta, fyrst 80% fram á mitt ár 1996, en síðan 90% skv. ákvörðun sjóðsins.

Það er álit dómsins að stefnandi njóti ekki lakari kjara að því er verðtryggingu varðar en aðrir sjóðfélagar sem áunnu sér réttindi fyrir reglugerðarbreytingu og hófu töku lífeyris eftir breytinguna og greiddu í sjóðinn fram að aldursmörkum og naut stefnandi því þeirra kjara sem að var stefnt með reglugerðinni. Ekki verður fallist á að bráða­birgðaákvæði 20. gr. reglugerðar stefnda verði skilið svo að stefnandi eigi rétt á 100% verðtryggingu lífeyrisréttinda sinna. Ber að skilja ákvæði gr. 20.2. svo að líf­eyr­is­réttur fyrir 1990 skuli verðtryggður samkvæmt 80% reglunni, sem var í raun stað­fest­ing á þeirri ákvörðun aðalfundar frá árinu 1979 að greiða uppbætur á lífeyrinn sem næmu 80% af verðtryggingu réttinda.

 Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda.

Samkvæmt gr. 16.5. í reglugerð stefnda skal hagnaði varið til hlutfallslegrar hækk­unar á lífeyrisréttindum sjóðfélaganna eftir tillögum tryggingafræðings. Að mati dóms­ins ber að skilja þetta ákvæði svo að allir sjóðfélagar, þar með taldir þeir sem falla undir bráða­birgðaákvæði 20. gr., eigi rétt á hlutdeild í hagnaði og skal aukning réttinda vera hlut­fallsleg. Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi notið hagn­aðar með 80% verðtryggingarreglunni og verður að telja að stefndi hafi ekki látið stefnanda njóta hagnaðar í samræmi við ákvæði gr. 16.5. í reglugerð. Varakrafa stefn­anda um úthlutun hagnaðar er byggð á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, trygg­inga­fræðings. Samkvæmt gögnum málsins byggir hann útreikningana á tillögum trygg­inga­fræðings stefnda um úthlutun hagnaðar sjóðsins á tímabilinu október 1994 til desember 1997 og er byggt á því að vangreidd uppbót sé samtals kr. 200.899 og með vísi­tölu og vöxtum sé upphæðin kr. 215.860.

Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur virðist nota hlutfall af greiddri uppbót sem byggjast á útreikningum hans á dskj. 14, þ.e. úthlutaður arður í hlutfalli við skuld­bind­ingar vegna annarra sjóðfélaga en lífeyrisþega. Að mati hinna sérfróðu með­dóm­enda verður að telja að eigi stefnandi rétt á hagnaði skv. gr. 16.5 í reglugerð sjóðsins, verður að gera ráð fyrir að hagnaði hefði verið úthlutað hlutfallslega til allra sjóðfélaga í upp­hafi. Því ætti áðurnefnt hlutfall að reiknast sem úthlutaður arður í hlutfalli við skuld­bindingar vegna allra sjóðfélaga. Því verður hlutfallið eins og í eftirfarandi töflu:

Árslok

Hlutfallslegur arður (%)

Uppsafnaður arður (%)

1991

1,401

1,401

1992

0,593

2,003

1993

2,213

4,260

1994

3,508

7,918

1995

1,868

9,934

                                                                                                    

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að vangreidd hlutdeild stefnanda í hagnaði nemi kr. 196.180 með vísitölu og vöxtum.

 Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi með aðgerðarleysi sínu sætt sig við skilning stefnda á reglugerð sjóðsins. Reglur sjóðsins að þessu leyti voru óljósar og torskildar, einkum bráðabirgðaákvæði 20. gr. og samhengi hennar við aðrar greinar reglugerðarinnar. Var því eðlilegt að nokkurn tíma tæki fyrir stefnanda að átta sig á því hvort réttur hans væri fyrir borð borinn.

Þá ber að fallast á þá kröfu stefnanda að hann eigi rétt á áframhaldandi hlutdeild í út­hlutuðum hagnaði hjá stefnda eftir 1. desember 1997.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Stefndi, Lífeyrissjóður verkfræðinga, greiði stefnanda, Ragnari S. Halldórssyni, kr. 196.180 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 18. desember 1997 til greiðsludags.

Viðurkenndur er réttur stefnanda til áframhaldandi hlutdeildar í úthlutuðum hagn­aði eftir 1. desember 1997.

Málskostnaður fellur niður.