Hæstiréttur íslands

Mál nr. 791/2017

M (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
K (Þyrí H. Steingrímsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Óvígð sambúð
  • Fjárslit

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi sem reis við opinber skipti til fjárslita milli M og K vegna slita á óvígðri sambúð. Deildu aðilarnir aðallega um skiptingu á fasteign og einkahlutafélagi sem skráð var jafnt í eigu þeirra. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að eftir almennum reglum fjármunaréttar gildi sú meginregla við fjárslit að þinglýstar eignarheimildir og opinber skráning eigna veiti líkindi fyrir eignarrétti. Leiddi af þeirri reglu að sá sem héldi því fram að í slíkri skráningu fælust ekki réttar upplýsingar bæri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Kom fram að kaupin á fasteigninni hefðu verið að stærstum hluta fjármögnuð með framlögum frá M. Samkvæmt því var talið óhjákvæmilegt að víkja frá þinglýstum eignarheimildum hvað fasteignina varðaði. Þá var meðal annars með vísan til þeirrar fjárhagslegu samstöðu sem var með M og K á sambúðartímanum lagt til grundvallar að M bæri 80% eignarhlutdeild í umræddri fasteign en K 20%. Hins vegar var talið að M hefði ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að efni væru til að víkja frá skráningu hlutafjár í einkahlutafélaginu í fyrirtækjaskrá og kom félagið því til jafnra skipta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2017 þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðilanna í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Kæruheimild var í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi að við fjárslitin verði viðurkennt að fasteignin [...] í Reykjavík, fastanúmer [...], og félagið A ehf., kt. [...], séu eignir hans að öllu leyti, í öðru lagi að staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi kröfu varnaraðila um að skipta skuli jafnt öðrum eignum aðila á viðmiðunardegi skipta og í þriðja lagi að staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um varakröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 12. desember 2017. Endanleg aðalkrafa hennar lýtur að því í fyrsta lagi að við fjárslit aðila komi fasteignin [...] í Reykjavík til jafnra skipta, í öðru lagi að staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um að við fjárslitin komi félagið A ehf. til jafnra skipta og í þriðja lagi að ágreiningur um „aðrar eignir aðila á viðmiðunardegi skiptanna verði tekinn til efnisúrlausnar og ákveðinn þannig að eignunum verði skipt til helminga án tillits til þess hvernig skráningu eigna er hagað.“ Til vara kefst hún þess að sóknaraðili fái við fjárskiptin í sinn hlut 11.000.000 krónur, uppreiknaðar með verðlagsvísitölu til greiðsludags en að öðru leyti skuli skipta jafnt öllum eignum þeirra á viðmiðunardegi, þar með talið fasteigninni að [...] og félaginu A ehf. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Með hinum kærða úrskurði var vísað frá héraðsdómi kröfu varnaraðila um að aðrar eignir aðilanna en fasteignin að [...] og félagið A ehf. skyldu koma til jafnra skipta milli þeirra. Varnaraðili krefst þess ekki fyrir Hæstarétti að þessu frávísunarákvæði hins kærða úrskurðar verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuna til efnismeðferðar heldur krefst hún efnisúrlausnar um hana fyrir Hæstarétti. Með því að heimild brestur til málskots í slíku skyni verður þessari kröfu varnaraðila af sjálfsdáðum vísað frá Hæstarétti, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 7. júní 2006 í máli nr. 273/2006 og 29. apríl 2008 í máli nr. 191/2008.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði ber við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og gildir þá sú meginregla að hvor aðili tekur þær eignir sem hann átti við upphaf sambúðar eða eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar gildir sú meginregla við fjárslit að þinglýstar eignarheimildir og opinber skráning eigna veita líkindi fyrir eignarrétti. Leiðir af þeirri reglu að sá sem heldur því fram að í slíkri skráningu felist ekki réttar upplýsingar ber sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.

Staðfest er með skírskotun til forsendna sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að við úrlausn málsins sé ekki unnt að líta til samkomulags þess sem varnaraðili byggir á að hún og sóknaraðili hafi gert í upphafi sambands síns um jafna skiptingu eigna kæmi til sambúðarslita.   

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að félagið A ehf. skuli koma til jafnra skipta milli sóknaraðila og varnaraðila við fjárslit þeirra.

Á sambúðartíma sínum festu sóknaraðili og varnaraðili í jöfnun hlutföllum kaup á fasteigninni að [...] í Reykjavík með kaupsamningi 13. mars 2013. Í hinum kærða úrskurði er nánar rakið hvernig staðið var að fjármögnun þeirra kaupa. Af því sem þar kemur fram má ljóst vera að kaupin voru að stærstum hluta fjármögnuð með framlögum frá sóknaraðila en að takmörkuðu leyti frá varnaraðila. Samkvæmt þessu er fallist á með héraðsdómi að sóknaraðili hafi sýnt fram á að eignamyndun í fasteigninni hafi að mestu leyti orðið til vegna framlaga hans og er því við fjárslitin óhjákvæmilegt að víkja frá þinglýstum eignarheimildum hvað þessa eign varðar.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði kynntust aðilar málsins árið 2011, hófu samband stuttu seinna, voru í skráðri sambúð frá janúar 2013 til sambúðarloka í janúar 2017 og töldu saman fram til skatts tekjuárin 2012 til 2016. Þá eignuðust þau saman barn sem fætt er í júní 2016 og héldu á sambúðartímanum sameiginlegt heimili með þremur börnum hans og tveimur börnum hennar úr fyrri samböndum beggja. Af gögnum málsins sést að þau stóðu bæði straum af kostnaði vegna sameiginlegs heimilishalds og framfærslu barnanna á sambúðartímanum. Á árinu 2015 hættu þau bæði störfum hjá fyrirtækinu [...] þar sem þau störfuðu áður og unnu eftir það fyrst og fremst að verkefnum hjá félaginu A ehf. sem þau höfðu stofnað saman haustið 2014 og höfðu tekjur sínar frá því félagi. Tekjur sóknaraðila voru öllu meiri en varnaraðila enda vann hann fyrst og fremst utan heimilis en hún sinnti heimilinu meðfram vinnu hjá A ehf. Átti hún hún með framlagi sínu þátt í þeirri eignamyndum sem varð í fasteigninni að [...] á sambúðartímanum og á til samræmis við það rétt til hlutdeildar í þeirri eignamyndum. Samkvæmt því sem hér var rakið og í ljósi þeirrar fjárhagslegu samstöðu sem var með aðilum á sambúðartímanum verður lagt til grundvallar að sóknaraðila beri 80% eignarhlutdeild í umræddri fasteign en varnaraðila 20%.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu um skiptingu eignarinnar að [...] í Reykjavík og félagsins A ehf. við fjárslit aðila er staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að ekki séu efni til að taka afstöðu til varakröfu varnaraðila.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkennt er að við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, beri sóknaraðila 80% eignarhlutdeild í fasteigninni að [...] í Reykjavík og varnaraðila 20% en að félagið A ehf. skuli koma til jafnra skipta milli þeirra.

Vísað er frá Hæstarétti kröfu varnaraðila um að aðrar eignir hennar og sóknaraðila skuli koma til jafnra skipta.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 29. nóvember 2017

Mál þetta, sem barst dóminum 11. apríl sl. og var þingfest 5. maí sl., var tekið til úrskurðar 26. október sl. Sóknaraðili er M, kt. [...], [...], Kópavogi. Varnaraðili er K, kt. [...], [...], Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að fasteignin að [...] í Reykjavík, fastanúmer [...], sé eign sóknaraðila að öllu leyti. Þá krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að A ehf., kt. [...], sé eign sóknaraðila að öllu leyti. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði dæmd til að greiða sóknaraðila 250.000 krónur í leigu vegna búsetu varnaraðila í fasteigninni [...] í Reykjavík, mánaðarlega frá 1. janúar 2017, þar til búsetu hennar í fasteigninni lýkur. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila, auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðili krefst þess aðallega að við opinber skipti til fjárslita milli aðila komi til jafnra skipta fasteignin að [...] í Reykjavík, fastanúmer [...] og einkahlutafélagið A ehf., kt. [...]. Þá krefst varnaraðili þess að skipta skuli jafnt öðrum eignum aðila á viðmiðunardegi skiptanna, án tillits til þess hvernig skráningu eigna er hagað. Til vara krefst varnaraðili þess að sóknaraðili fái við fjárskiptin í sinn hlut 11.000.000 króna, uppreiknaðar með verðlagsvísitölu til greiðsludags, en að öðru leyti skuli skipta jafnt öllum eignum aðila á viðmiðunardegi, þ.m.t. fasteigninni að [...] og einkahlutafélaginu A. Jafnframt krefst varnaraðili frávísunar á kröfu sóknaraðila um leigugreiðslu úr hendi varnaraðila vegna búsetu í [...]. Loks krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

Málavextir

Aðilar máls þessa kynntust árið 2011 þegar þau störfuðu bæði hjá [...] og hófu samband nokkrum mánuðum seinna. Þau voru í skráðri sambúð frá janúar 2013 til janúar 2017 og töldu þau saman fram til skatts tekjuárin 2012-2016. Þegar samband aðila hófst áttu þau bæði börn frá fyrri samböndum, sóknaraðili átti þrjú börn og varnaraðili tvö börn. Saman eiga þau einn dreng sem fæddur er í [...] 2016.

Árið 2012 flytja aðilar saman í íbúð að [...], en hana hafði sóknaraðili fengið í sinn hlut við fjárslit hans og fyrri sambýliskonu. Í mars 2013 er fasteignin að [...] keypt en ágreiningur máls þessa lýtur m.a. að því hvernig eignarhaldi á þeirri fasteign er háttað. Aðilar bjuggu saman í [...] þar til sambandi þeirra lauk í desember 2016 og flutti sóknaraðili þá út úr fasteigninni. A ehf. var stofnað haustið 2014 og snýr starfsemi félagsins að framleiðslu svokallaðra „[...]“ ásamt öðrum verkefnum, s.s. smíðavinnu og vinnu fyrir fiskbúðir/fiskverkanir. Á árinu 2015 hættu báðir aðilar í störfum sínum hjá [...] og unnu þau þá eingöngu að verkefnum sínum hjá A ehf.

Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 4. apríl 2017, var fallist á kröfu sóknaraðila um að fram færu opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila vegna slita á óvígðri sambúð. Með bréfi skiptastjóra til dómsins 11. apríl 2017 var ágreiningi vegna skiptanna vísað til dómsins á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í bréfi skiptastjóra segir að á skiptafundi 10. apríl 2017 hafi komið fram að ágreiningur væri með aðilum um hvaða eignir skuli koma til skipta og hvert eignarhald sé á einstökum eignum. Sóknaraðili telji fasteignina að [...] vera sína eign að öllu leyti og einnig félagið A ehf. Þá telji hann sumarbústaðalóðina [...] vera sína eign að fullu. Engar aðrar eignir eigi að koma til skipta í búi þeirra, enda hafi sóknaraðili keypt þær allar og greitt. Varnaraðili telji hins vegar fasteignina að [...] og A ehf. vera eignir aðila að jöfnu, í samræmi við skráðar eignarheimildir. Sama eigi við um aðrar eignir sem til voru við lok sambúðar og skráðar séu á skattframtali aðila 2017. Auk þess sé í búinu fasteign á Spáni sem sé ekki getið í skattframtali en eigi að falla undir skiptin. Ekki hafi tekist að jafna ágreining aðila og sé málinu því vísað til héraðsdóms samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1991.

II

Málsástæður sóknaraðila

Fasteignin [...]

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi greitt fasteignina að [...] að öllu leyti en varnaraðili hafi ekkert greitt vegna hennar. Þinglýst eignarhlutföll fasteignarinnar séu ekki í samræmi við framlög aðila til eignarinnar og afborgana þeirra af áhvílandi lánum. Því beri að að líta fram hjá þinglýstum heimildum við ákvörðun eignarhlutfalla og vísar sóknaraðili til skýrrar dómaframkvæmdar í því sambandi.

Sóknaraðili vísar til þess að fasteignin að [...] í Reykjavík, sem hafi verið þinglýst eign sóknaraðila og komið í hans hlut við fyrri sambandsslit, hafi verið greiðslueyrir við kaup fasteignarinnar að [...]. Afborganir af tveimur lánum sem sóknaraðili hafi tekið til að greiða hluta kaupverðsins hafi frá upphafi verið greiddar af honum. Varnaraðili hafi aldrei greitt þessar afborganir. Afsalsgreiðsla vegna fasteignarinnar hafi verið greidd af sóknaraðila. Til að greiða afsalsgreiðsluna hafi sóknaraðili nýtt peninga sem hann hafi fengið greidda vegna uppgjörs á slysabótum að fjárhæð 2.275.737 krónur og einnig hluta andvirðis sölu á hjólhýsi að fjárhæð 2.000.000 króna. Þá hafi varnaraðili aldrei greitt hitakostnað, rafmagnskostnað, tryggingar, kostnað vegna öryggiskerfis, fasteignagjöld né nokkuð annað sem tengist rekstri eignarinnar.

Sóknaraðili vísar til þess að löng dómaframkvæmd sé fyrir því að þinglýstar eignarheimildir skapi ekki rétt til fasteignar enda þótt skráning eignar í veðmálabók gefi vísbendingu um hvernig eignarhaldi hennar sé háttað. Í tilviki sóknaraðila sýni veðmálabækur ekki rétt eignarhlutföll fasteignarinnar.  

A ehf.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi einn greitt allt hlutafé við stofnun A ehf. og sé því einn eigandi félagsins. Þau tæki sem hafi verið lögð fram sem hlutafé hafi öll verið í eigu sóknaraðila þegar hann kynntist varnaraðila en þau hafi hann fengið í sinn hlut við fyrri sambandsslit. Varnaraðili hafi ekki lagt fram neitt hlutafé til stofnunar félagsins né tekið á sig skuldbindingar vegna þess. Varnaraðili hafi starfað í þágu félagsins frá upphafi þess og hafi fengið greidd laun fyrir störf sín.

Sóknaraðili vísar til dómaframkvæmdar vegna fjárskipta á milli sambúðarfólks en samkvæmt þeim sé almennt litið svo á að það sé meginregla að sambúð ein og sér myndi ekki sameign á milli sambúðarfólks. Því hafi verið hafnað að beita reglum hjúskaparlaga með lögjöfnun þannig að skiptareglur hjúskaparlaga gildi um sambúðarfólk. Þvert á móti megi ráða af dómum að reglur fjármunaréttarins gildi um myndun sameignar á milli sambúðarfólks í óvígðri sambúð. Af því leiði að sá aðili sem haldi því fram að sameign hafi myndast verði að sýna fram á að hann hafi lagt fé til eignamyndunar. Sóknaraðili geti sýnt fram á að hann hafi lagt fram allt fé vegna eignarhalds og stofnunar A ehf. en varnaraðili hafi ekkert lagt fram vegna félagsins.

Sóknaraðili kveður tekjur A ehf. að langmestu leyti hafa orðið til fyrir vinnu sem sóknaraðili hafi sinnt í verkum sínum, ýmist einn eða með aðstoð undirverktaka, þ. á m. í [...] Einungis lítill hluti tekna félagsins hafi komið fyrir framleiðslu og sölu [...]. A ehf. hafi verið byggt upp á góðum grunni þar sem sóknaraðili hafi byggt upp viðskiptatengsl allt frá árinu 2000 og skýri það að mestu leyti velgengni félagsins.

Krafa sóknaraðila um að varnaraðili greiði honum leigu vegna búsetu varnaraðila í fasteigninni að [...] í Reykjavík

Sóknaraðili vísar til þess að við sambúðarslit aðila hafi sóknaraðili flutt úr [...] en varnaraðili hafi orðið eftir ásamt sameiginlegu barni þeirra og börnum sem varnaraðili átti fyrir. Sóknaraðili hafi þurft að leigja sér íbúð og greiði fyrir hana 206.000 krónur á mánuði.

Frá því að sóknaraðili flutti af heimili aðila hafi hann greitt nær allan kostnað vegna [...] en varnaraðili hafi einungis greitt hluta rafmagnsreikninga, síma og kostnað vegna öryggiskerfis.

Umkrafin fjárhæð sóknaraðila sé mjög hófleg miðað við stærð húseignarinnar að [...]. Fasteignin sé rúmlega 246 fermetrar að stærð og því geri sóknaraðili kröfu um greiðslu u.þ.b. 1.000 króna fyrir hvern fermetra. Það verð sé langt undir meðalverði samkvæmt leigusamningum sem þinglýstir hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og upplýst sé um á vef Þjóðskrár Íslands.

Sumarhúsalóðin [...]

Sóknaraðili hafi keypt sumarhúsalóðina [...] eftir að hann kynntist varnaraðila en hún hafi enga aðkomu haft að kaupum á eigninni og eignin komi því ekki til skipta. Lóðin sé óumdeilanlega eign sóknaraðila eins og gögn málsins beri með sér.

Hjólhýsi nr. [...]

Aðilar hafi keypt hjólhýsi, nr. [...] fyrir 3.900.000 krónur eins og komi fram á skattframtali 2015. Varnaraðili hafi greitt vegna þessara kaupa 650.000 krónur inn á reikning sóknaraðila sem hafi litið svo á að með þeirri millifærslu hafi varnaraðili greitt 16,7% hjólhýsisins og eigi þann hluta. Hjólhýsið sé skráð á nafn sóknaraðila.

Hús á Spáni

Sóknaraðili kveður að sú eign sé með öllu óviðkomandi varnaraðila en sóknaraðili hafi keypt þá eign með föður sínum. Þann hluta af kaupverði hússins sem sóknaraðili hafi greitt, hafi hann fjármagnað með arðgreiðslu sem hann fékk úr A ehf. Sóknaraðili bendir á að varnaraðili sé eigandi hluta í fasteigninni [...], fastanúmer [...], en þá eign hafi hún fengið í arf og sé eignin með öllu óviðkomandi sóknaraðila.

III

Málsástæður varnaraðila

[...]

Varnaraðili byggir á því að fasteignin að [...] sé þinglýst eign beggja aðila að jöfnu og sé það í samræmi við kaupsamning um eignina frá 13. mars 2013. Sú meginregla gildi við fjárslit vegna óvígðrar sambúðar að þinglýst eignarheimild yfir fasteign veiti líkindi fyrir eignarrétti. Af þeirri reglu leiði að sá sem heldur því fram að í slíkri skráningu felist ekki réttar upplýsingar um eignarrétt beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.

Aðilar hafi fjármagnað og keypt fasteignina að [...] saman meðan á skráðri sambúð þeirra stóð. Kaupvirði fasteignarinnar hafi verið greitt með andvirði fasteignarinnar að [...], sem var u.þ.b. 10 milljónir, með sameiginlegri lántöku fyrir u.þ.b. 35 milljónum og með reiðufé að fjárhæð u.þ.b. 6 milljónir. Aðilar hafi safnað sér reiðufé með vinnu sinni hvort um sig og með sölu [...], en varnaraðili hafi einnig fengið u.þ.b. 3,6 milljónir úr fjárskiptum við fyrri sambýlismann sinn.

Aðilar beri báðir óskipta ábyrgð á þeim skuldum sem hvíli á fasteigninni. Báðir aðilar séu skráðir skuldarar að báðum lánum en tilviljun ein hafi ráðið því að sóknaraðili hafi greitt af lánum og rekstrarkostnaði af sínum bankareikningi. Varnaraðili hafi hins vegar séð um greiðslu alls kostnaðar vegna heimilishaldsins að öðru leyti, s.s. fatnað, framfærslu barna, ferðalög, innbú, innréttingar fyrir heimilið o.s.frv. Þá skipti í raun engu máli varðandi úrlausnarefni máls þessa hvor aðili hafi greitt af lánum í gegnum tíðina eða greitt rekstrarkostnað fasteignarinnar. Í fyrsta lagi vegna þess að aðilar hafi verið með sameiginlegan fjárhag og hafi greitt í sameiningu af sameiginlegum eignum sínum. Í öðru lagi vegna þess að slíkar afborganir og greiðslur geti aldrei einar og sér leitt til aukinnar eignarhlutdeildar í fasteigninni. Í þriðja lagi að slíkar greiðslur hafi ekki farið fram í tómarúmi heldur hafi þær getað farið óskiptar af reikningi sóknaraðila þar sem allar aðrar greiðslur er vörðuðu rekstur heimilis þeirra hafi farið af reikningi varnaraðila. 

Þá byggir varnaraðili á því að aðilar hafi gert með sér bindandi samkomulag í upphafi sambands síns um það hvernig gert skyldi upp milli þeirra kæmi til fjárslita. Í almennum reglum fjármunaréttar og samningaréttar felist að samninga skuli virða. Ávallt hafi verið ætlun aðila að hvor um sig fengi helming söluandvirðis eignarinnar í sinn hlut í samræmi við skráningu eignarhluta, að frádregnum áhvílandi veðskuldum.

A ehf.

Varnaraðili byggir á því að allt hlutafé í félaginu A ehf. sé skráð í eigu beggja að jöfnu hjá fyrirtækjaskrá og að þau séu bæði skráð stofnendur félagsins.

Aðilar hafi stofnað félagið í sameiningu meðan á skráðri sambúð þeirra stóð og þau hafi tekið jafnan þátt í uppbyggingu þess, hvort með sínum hætti. Félagið hefði aldrei orðið að þeirri eign sem það var orðið við samvistarslit nema fyrir tilstilli þeirra beggja og eignamyndunin, sem óumdeilanlega hafi átt sér stað á sambúðartímanum, því til komin fyrir framlag beggja. Varnaraðili kveður að framleiðsla [...] hafi fljótlega þróast þannig að það hafi verið alfarið varnaraðili sem hafi séð um útvegun aðfanga til framleiðslunnar, samskipti við birgja, afgreiðslu vegna viðskiptavina o.s.frv. Auk þess hafi varnaraðili séð um bókhald og rekstur skrifstofu frá upphafi. Aðilar hafi í sameiningu staðið að ákvörðunum um fjárfestingar og fastafjármuni eins og t.d. fasteign og bifreiðar. Sumarið 2014 hafi varnaraðili minnkað við sig vinnu hjá [...], þ.e. hafi hætt þar kl. 14 á daginn og farið þá rakleitt að sinna rekstrinum. Haustið 2015 hafi hún svo sagt starfi sínu hjá [...] lausu og farið að vinna eingöngu við rekstur fyrirtækisins. Þá hafi rekstur heimilis og umönnun fimm barna aðila auk sonar sem þau eignuðust saman í [...] 2016, nánast alfarið verið á könnu varnaraðila.

Þá vísar varnaraðili til almennra reglna fjármunaréttar og samningaréttar um að samninga skuli virða. Aðilar hafi gert með sér bindandi samkomulag í upphafi sambands síns um það hvernig gert skyldi upp milli þeirra kæmi til fjárslita.

Aðrar eignir

Varnaraðili byggir á því að fjárhagsleg samstaða aðila hafi verið svo rík og fjárhagur þeirra þannig samþættur að ekki verði greint á milli hvor eigi hvaða lausamuni sem til staðar voru við sambúðarslitin.

Varnaraðili hafi, auk vinnu sinnar við rekstur aðila, í raun líka verið heimavinnandi og séð um börn og bú á meðan sóknaraðili hafi notið aukins svigrúms til að leggja til meira vinnuframlag. Eign þeirra í rekstrarfélaginu hafi stækkað umtalsvert meðan á sambúðinni stóð og hafi aðilar þannig tekið þaðan út talsverða fjármuni, m.a. í formi arðs. Einnig hafi verið nokkuð um að ljósin og aðrar afurðir sem seldar voru og vinna sem lögð var í rekstrinum, hafi verið greitt með reiðufé sem aðilar notuðu til einkaneyslu, auk útborgunar í fasteignina. Aðilar hafi með þessum hætti getað keypt í sameiningu á sambúðartíma sínum sumarbústaðarlóð, bifreiðar, hjólhýsi og fasteign á Spáni.

Á yfirliti yfir bankareikning varnaraðila sjáist greiðslur inn á reikning sóknaraðila frá 2011-2017, samtals að fjárhæð ríflega 2,7 milljónir auk peningaúttektar að fjárhæð 500.000 krónur sem varnaraðili hafi látið sóknaraðila hafa. Yfirlitið sýni jafnframt að í nokkrum tilvikum hafi varnaraðili lagt sérstaklega inn á sóknaraðila þegar kom að kaupum á eignum, til dæmis 650.000 krónur vegna kaupa á hjólhýsi og 400.000 krónur vegna kaupa á sumarbústaðarlóð.

Hvað varði fasteignina á Spáni þá hafi 9 milljónir verið teknar af rekstrarreikningi félagsins og lagðar inn á persónulegan reikning sóknaraðila. Hann hafi svo farið til Spánar og gengið frá kaupum á eigninni en varnaraðili hafi ekki haft tök á því að fara með vegna fjögurra mánaða sonar aðila. Greiðslan hafi verið skráð í bókhald félagsins sem arðgreiðsla til beggja aðila, enda bæði hluthafar.

Varakrafa

Varnaraðili byggir varakröfu sína á því að aðilar hafi gert með sér samkomulag um hvernig skyldi fara með fjárskipti, kæmi til þeirra. Varnaraðili hafi haft áhyggjur af því að aðrar eignir en fasteignin og félagið væru skráðar á sóknaraðila einan en sóknaraðili hafi margsagt við varnaraðila að hann vildi að öllu yrði skipt jafnt. Varnaraðili kveður að sóknaraðili hafi eitt sinn gripið blað af borði og ritað dagsetningu efst og undirritun sína neðst og sagt við varnaraðila að hún skyldi fylla inn í texta um jöfn skipti við fjárslit. Það hafi varnaraðili gert í viðurvist móður sinnar sem hafi síðan þá varðveitt skjalið.

Í nóvember 2014 hafi komið brestir í samband aðila og hafi þá farið á milli þeirra tölvupóstar um málefnið. Þau hafi bæði tiltekið það sem þau höfðu fengið hvort um sig úr sínum sambúðarslitum og sammæli hafi verið um að þar munaði u.þ.b. 11 milljónum.

Krafa sóknaraðila um að varnaraðili greiði honum leigu vegna búsetu varnaraðila í fasteigninni að [...] í Reykjavík

Varnaraðili vísar til þess að það málefni hafi ekki verið hluti af þeim ágreiningi sem skiptastjóri vísaði til héraðsdóms, en samkvæmt fyrirmælum 112. gr. og 3. töluliðar 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 verði af hálfu dómara ekki tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem tilgreind séu í bréfi skiptastjóra til dómsins. Beri því að vísa kröfunni frá dómi. 

IV

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila, vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Við lok óvígðrar sambúðar ber við fjárslit að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og gildir þá sú meginregla að hvor aðili taki þær eignir sem hann átti við upphaf sambúðar eða eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar gildir sú meginregla við fjárslit að þinglýstar eignarheimildir og opinber skráning eigna veita líkindi fyrir eignarrétti. Leiðir af þeirri reglu að sá sem heldur því fram að í slíkri skráningu felist ekki réttar upplýsingar um eignarrétt ber sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.

Í málinu deila aðilar um eignarhlutdeild þeirra í fasteigninni að [...] í Reykjavík. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að hann sé einn eigandi fasteignarinnar þar sem hann hafi greitt hana að fullu og því beri að víkja frá þinglýstum eignarheimildum vegna hennar. Varnaraðili krefst þess að fasteignin komi til jafnra skipta milli aðila í samræmi við þinglýstar eignarheimildir. Aðilar hafi keypt fasteignina saman og tilviljun ein hafi ráðið því að sóknaraðili hafi greitt af lánum og rekstrarkostnað en varnaraðili hafi greitt kostnað vegna heimilishaldsins að öðru leyti, s.s. mat, fatnað o.fl.

Varnaraðili byggir á því í málinu að aðilar hafi gert með sér bindandi samkomulag í upphafi sambands síns um það að ef til sambúðarslita þeirra kæmi myndu eignir þeirra skiptast jafnt á milli þeirra. Ágreiningslaust er með aðilum að sóknaraðili ritaði nafn sitt á autt blað og að varnaraðili skrifaði síðar á skjalið hvernig skyldi fara með eignir þeirra ef til fjárskipta kæmi. Aðilum ber þó ekki saman um hver tilgangur skjalsins hafi verið. Að mati dómsins eru atvikin að baki samkomulaginu og tildrög þess að það var útbúið svo óljós að ekki er unnt að byggja á því við fjárslit milli aðila enda ekki upplýst í málinu með óyggjandi hætti hver tilgangur þess hafi verið. Er því ekki unnt að líta til efnis samkomulagsins við úrlausn málsins.

Aðilar festu kaup á fasteigninni að [...] með kaupsamningi 13. mars 2013. Samkvæmt ákvæðum samningsins voru þau kaupendur að fasteigninni í jöfnum hlutföllum. Kaupverðið var 51.000.000 króna og skyldu 10.950.056 krónur greiðast með afsali fasteignar sóknaraðila að [...], þá skyldu 36.825.000 krónur greiðast með sameiginlegu láni aðila og 3.224.944 krónur skyldu greiðast með reiðufé. Ekki er annað fram komið í málinu en að áðurnefndur kaupsamningur hafi verið efndur samkvæmt efni sínu. Við kaupin urðu aðilar því hvort um sig eigendur að 50% hluta eignarinnar og er það í samræmi við þinglýstar eignarheimildir. Sóknaraðili ber því sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu um aukna eignahlutdeild.

Fyrir liggur að þegar samband aðila hófst átti sóknaraðili einn fasteignina að [...] og að hann notaði andvirði hennar til að fjármagna fasteignina að [...]. Þá voru tekin tvö lán hjá Arion banka, annars vegar lán nr. [...] að fjárhæð 17.150.000 krónur, og hins vegar lán nr. [...] að fjárhæð 20.350.000 krónur. Aðilar eru samskuldarar að báðum þessum lánum en af gögnum málsins sést að sóknaraðili greiddi einn afborgarnir af þeim. Þá greiddi hann einnig einn kostnað sem féll til vegna húseignarinnar, s.s. fasteignagjöld, reikninga frá Orkuveitunni og reikninga vegna síma og internets og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila. Hinn 14. mars 2013 greiddi hann 797.900 krónur inn á reikning fasteignasölunnar í stimpilgjöld vegna kaupsamningsins.

Aðila greinir á um hvernig afsalsgreiðslu 1. júlí 2013 að fjárhæð 3.224.944 krónur hafi verið háttað. Málatilbúnaður þeirra beggja og gagnframlagning varðandi greiðsluna mætti vera skýrari. Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi greitt afsalsgreiðsluna að fullu með annars vegar slysabótum að fjárhæð 2.275.737 krónur og hins vegar með hluta andvirðis sölu á hjólhýsi sem hann seldi fyrir 2.000.000 króna. Af gögnum málsins sést að 1. júlí 2013 greiddi sóknaraðili  seljanda fasteignarinnar 2.250.000 krónur og fasteignasölunni 8.000 krónur. Varnaraðili bar fyrir dómi að hún hefði millifært 1.000.000 króna á reikning sóknaraðila og hafi sú fjárhæð átt að ganga upp í afsalsgreiðsluna. Þá hafi afgangur greiðslunnar komið frá sölu á [...] sem aðilar hafi unnið sameiginlega að. Af reikningsyfirliti varnaraðila sést að hún millifærði samtals 875.000 krónur inn á reikning sóknaraðila í nokkrum færslum á árinu 2013. Fyrsta millifærslan að fjárhæð 400.000 krónur var framkvæmd 14. mars 2013, sama dag og sóknaraðili greiddi stimpilgjöld vegna eignarinnar og daginn eftir að aðilar undirrituðu kaupsamninginn. Þótt atvik hvað þetta varðar mættu vera skýrari þykir ekki óvarlegt að mati dómsins að líta svo á að þessar greiðslur varnaraðila veiti vísbendingu um að hún hafi lagt þessar upphæðir til kaupanna eða vegna kostnaðar sem af kaupunum hlaust.

Með vísan til framangreinds þykir sóknaraðili hafa sýnt fram á að eignamyndun í fasteigninni að [...] hafi að langmestu leyti orðið til vegna hans framlaga og er því óhjákvæmilegt að víkja frá þinglýstum eignarheimildum vegna þessarar eignar. Þegar eignarhlutföll aðila eru ákvörðuð telur dómurinn að ekki verði hjá því komist að horfa heildstætt á atvik málsins og til fjárframlaga hvors aðila um sig á sambúðartímanum sem stuðlað hafa að sameiginlegri eignamyndun aðila í eigninni. Eins og áður er fram komið keyptu aðilar fasteignina að [...] í mars 2013 og bjuggu þar saman þar til sóknaraðili flutti út í desember 2016. Á heimilinu voru jafnan fimm börn, en sóknaraðili átti þrjú börn frá fyrra sambandi og varnaraðili tvö. Saman eignuðust þau svo dreng í júní 2016. Varnaraðili kveður að á sambúðartíma aðila hafi hún séð um greiðslu alls kostnaðar vegna framfærslu barna og heimilishalds. Af gögnum málsins sést að aðilar stóðu sannarlega bæði straum af kostnaði vegna heimilisins og framfærslu barna á sambúðartíma sínum og er því ekki unnt að fallast á þá fullyrðingu varnaraðila að hún ein hafi staðið straum af þessum kostnaði. Málsástæðu varnaraðila hvað þetta varðar er því hafnað.

Með vísan til alls framangreinds og þeirra gagna sem aðilar hafa lagt fram máli sínu til stuðning er það niðurstaða dómsins að viðurkenna beri að sóknaraðila beri 90% hlutdeild í fasteigninni að [...] en varnaraðila 10%.

Þá deila aðilar um eignarhlutdeild þeirra í félaginu A ehf. en félagið er skráð í eigu beggja aðila að jöfnu hjá fyrirtækjaskrá. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að A ehf. sé eign sín að öllu leyti og teflir hann fram eftirgreindum málsástæðum því til stuðnings. Í samræmi við það sem að framan greinir hvílir sönnunarbyrðin á sóknaraðila um að hann sé einn eigandi félagsins þrátt fyrir opinbera skráningu þess. Varnaraðili krefst þess að félagið komi til jafnra skipta milli aðila í samræmi við skráningu hjá fyrirtækjaskrá.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi einn greitt allt hlutafé við stofnun A ehf. með tækjum sem hann hafi átt áður en hann kynntist varnaraðila. Varnaraðili hafi ekki lagt fram neitt hlutafé til stofnunar félagsins né tekið á sig skuldbindingar vegna þess. Í samþykktum félagins kemur fram að hlutafé þess sé 500.000 krónur og í stofnsamningi segir að aðilar greiði hvort um sig helming hlutafjár. Ágreiningslaust er að hlutaféð var þó einungis greitt af sóknaraðila með afhendingu tækja í hans eigu. Að mati dómsins skiptir þó ekki öllu máli fyrir úrlausn málsins hvort upphaflegt fjárframlag til stofnunar félagins hafi einungis komið frá sóknaraðila enda um óverulega fjárhæð að ræða í samanburði við tekjur aðila og eignir. Er málsástæðu sóknaraðila hvað þetta varðar því hafnað.

Félagið var stofnað haustið 2014 og eru aðilar bæði skráð stofnendur félagsins í fyrirtækjaskrá. Aðilar unnu bæði í verkefnum fyrir félagið, hvort með sínum hætti. Aðilar deila ekki um það hvernig verkaskiptingu þeirra í þágu félagsins var háttað. Sóknaraðili sá um smíðavinnu og vinnu fyrir fiskbúðir/fiskverkanir ásamt verkefnum á [...] en þar voru einnig á stundum verktakar á vegum félagsins. Varnaraðili sá um bókhald félagsins, afgreiðslu í verslun í eigu félagsins og vann á verkstæðinu við samsetningu ljósanna. Með fram rekstri félagsins voru báðir aðilar í fullu starfi hjá [...], en um haustið 2014 minnkaði varnaraðili vinnu sína þar í 80%. Aðilar hættu svo bæði 2015 í störfum sínum hjá [...] og unnu þá eingöngu að verkefnum sínum hjá A ehf. Þá héldu aðilar sameiginlegt heimili ásamt þremur börnum sóknaraðila og tveimur börnum varnaraðila. Sonur aðila fæddist svo í [...] 2016 og var varnaraðili í barneignarleyfi fram að samvistarslitum aðila en sinnti áfram vinnu við bókhald félagins. Af gögnum málsins verður að telja að fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum. Þau voru í skráðri sambúð og töldu saman fram til skatts. Þá lögðu bæði sitt af mörkum til reksturs heimilisins og framfærslu barna sinna.

Sóknaraðili kveður að tekjur félagsins hafi að langmestu leyti orðið til fyrir vinnu sem sóknaraðili hafi sinnt í verkum sínum og að einungis lítill hluti tekna félagsins hafi komið fyrir framleiðslu og sölu [...]. Þessu til stuðnings hefur sóknaraðili lagt fram yfirlit yfir söluhæstu vörur félagins 2015-2016, en þar kemur fram að 41.850.000 krónur megi rekja til sölu á [...] en heildartekjur félagsins fyrir þetta tímabil nemi 177.807.000 krónum. Ekkert í gögnum málsins rennir frekari stoðum undir þessa sérgreiningu, eins og t.d. gögn úr ársreikningi eða annað. Þá kemur heldur ekki fram í gögnum málsins hvernig vinna sem sóknaraðili innti af hendi í þágu félagins skiptist milli þeirra verkefna er félagið hafði með höndum. Þó svo að fallist yrði á það með sóknaraðila að meirihluti tekna félagsins væri til kominn vegna hans vinnu yrði það eitt og sér ekki talið leiða til þess að hann ætti aukna eignarheimild í félaginu. Hér ber að leggja til grundvallar heildstætt mat á atvikum öllum og vinnuframlags hvors aðila um sig á sambúðartímanum. Aðilar hættu bæði í fyrri störfum sínum hjá [...] árið 2015 og sneru sér alfarið að rekstri félagsins. Eins og að framan er rakið er ekki ágreiningur milli aðila um hvernig verkaskiptingu í félaginu var háttað. Ljóst er að þau stóðu saman að stofnun félagsins og unnu saman að uppbyggingu þess. Telja verður að verðmæti sem sóknaraðili skapaði í félaginu hafi meðal annars orðið til vegna framlags varnaraðila til annarra þátta í félaginu og öfugt. Þegar öll atvik málsins eru virt þykir ljóst að sú eignamyndun í félaginu sem óumdeilanlega átti sér stað á sambúðartímanum sé komin til vegna framlags beggja. Samkvæmt því sem að framan greinir hefur sóknaraðili ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að efni séu til að víkja frá skráningu hlutafjár í félaginu A ehf. í fyrirtækjaskrá. Því verður að hafna kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að A sé eign hans að öllu leyti en fallist er á kröfu varnaraðila um að félagið skuli koma til jafnra skipta milli aðila.

Að fenginni þessari niðurstöðu, um skiptingu eignarinnar að [...] í Reykjavík og félagsins A ehf. við fjárslit aðila, telur dómurinn ekki ástæðu til að taka afstöðu til þess þáttar varakröfu varnaraðila að hún fái við fjárskiptin 11.000.000 krónur uppreiknaðar til greiðsludags, eins og nánar greinir í kröfugerð hennar, og mun dómurinn því ekki fjalla frekar um þann þátt kröfugerðarinnar.

Í málinu krefst varnaraðili þess, bæði í aðal- og varakröfu sinni, að skipta skuli jafnt öðrum eignum aðila á viðmiðunardegi skiptanna, án tillits til þess hvernig skráningu eigna er háttað. Varnaraðili tilgreinir ekki í kröfugerð sinni hvaða eignir er þar um að ræða. Krafa varnaraðila er því ósundurgreind að þessu leyti. Á hinn bóginn eru í meginmáli greinargerðar varnaraðila taldar upp ýmsar eignir sem varnaraðili kveður að aðilar hafi keypt í sameiningu á sambúðartíma sínum, s.s. sumarbústaðarlóð, bifreiðar, hjólhýsi og fasteign á Spáni. Varnaraðili hefur að mati dómsins ekki rökstutt nægilega hvers vegna henni beri hlutdeild í þessum eignum auk þess sem gögn hvað aðrar eignir varðar eru lítil sem engin. Er það mat dómsins að rökstyðja þurfi kröfu um eignartilkall hvað varðar hverja og eina eign enda kunna ólík sjónarmið að ráða niðurstöðu í hverju tilviki. Þá tekur dómurinn fram að kröfugerð verður að vera þannig orðuð að unnt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu, séu yfirhöfuð skilyrði til að fallast á kröfuna. Dómkrafa varnaraðila er því að mati dómsins of almenn og óljós þar sem hún beinist ekki að nánar tilgreindum eignum aðila heldur eingöngu að „öðrum eignum“ en fasteigninni að [...] og einkahlutafélaginu A. Er því ekki um nægilega sérgreiningu eigna að ræða svo unnt sé að tilgreina þær í úrskurðarorði dómsins. Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að krafa varnaraðila hvað þetta varðar sé vanreifuð og verður henni því vísað frá dómi.

Í niðurlagi kröfugerðar sinnar krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sér leigu vegna búsetu varnaraðila í fasteigninni að [...]. Í 112. gr. laga nr. 20/1991 segir að rísi ágreiningur milli aðila við opinber skipti samkvæmt XIV. kafla laganna um atriði sem 2. mgr. 103. gr. og 104.–111. gr. taki til, skuli skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki beini skiptastjóri málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. Slíkur ágreiningur verði ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt. Í 1. mgr. 122. gr. segir síðan m.a. að ef ágreiningur rísi um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laga þessara kveði sérstaklega á um að skuli beint til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telji þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem komi upp við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. er síðan tekið fram að meðal þess sem fram skuli koma í kröfunni sé um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi. Af framangreindum fyrirmælum 112. gr. og 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 er ljóst að ekki verður af hálfu dómsins tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem koma fram í bréfi skiptastjóra dagsettu 11. apríl 2017. Í bréfi skiptastjóra til dómsins er ekkert vikið að ágreiningi um leigugreiðslur varnaraðila til sóknaraðila. Er því kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að greiða sér leigu vegna búsetu varnaraðila í fasteigninni að [...] vísað frá dómi.

Með hliðsjón af atvikum öllum telur dómurinn rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Dómarinn tók við meðferð málsins 19. júní sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, við lok óvígðrar sambúðar þeirra skal viðurkennt að sóknaraðila beri 90% eignarhlutdeild í fasteigninni að [...] í Reykjavík, fastanúmer 204-2695, en varnaraðila 10% eignarhlutdeild í sömu fasteign.

Fallist er á kröfu varnaraðila um að félagið A ehf. komi til jafnra skipta milli sóknaraðila og varnaraðila.

Kröfu varnaraðila um að skipta skuli jafnt öðrum eignum aðila á viðmiðunardegi skiptanna, er vísað frá dómi.

Kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að greiða honum leigu vegna búsetu hennar í fasteigninni að [...], er vísað frá dómi.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.