Hæstiréttur íslands

Mál nr. 408/2006


Lykilorð

  • Bifreið
  • Umferðarlagabrot
  • Skaðabótalög
  • Vátrygging
  • Fyrning
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2007.

Nr. 408/2006.

Aðalsteinn Aðalsteinsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Þóreyju Aðalsteinsdóttur og

Lloyd´s of London

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

 

Bifreiðir. Umferðarlagabrot. Skaðabótalög. Vátrygging. Fyrning. Líkamstjón.

A höfðaði mál á hendur Þ og vátryggingafélaginu L til greiðslu skaðabóta vegna umferðarslyss sem varð 11. maí 1998. Í málinu var deilt um hvort ætluð skaðabótakrafa hans hefði fyrnst, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þar sem ekki var talið að A hefði átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar fyrr en kom fram á árið 1999 taldist fjögurra ára fyrningarfrestur nefnds lagaákvæðis hafa byrjað að líða við lok þess árs. Ekki var fallist á að aðild hins stefnda vátryggingafélags L að beiðni 30. apríl 2003 um örorkumat og greiðsla félagsins á kostnaði vegna matsins hefði rofið fyrningu á kröfu A. Þá þurfti ekki að taka afstöðu til þess hvort fyrirvaralaus tillaga L um tjónsuppgjör á árinu 2000 skyldi hafa þessi áhrif þar sem tillagan var gerð meira en fimm árum fyrir málshöfðun. Bótakrafa A var talin löngu fyrnd þegar mál var höfðað um hana 7. nóvember 2005 og voru Þ og L því sýknuð af kröfum A í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2006. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 4.115.798 krónur með 2,5% ársvöxtum frá 11. maí 1998 til 1. maí 1999, en með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 6. maí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Óumdeilt er að krafa áfrýjanda er reist á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, en eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningslaust í málinu að stöðugleikapunktur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 teljist vera 11. nóvember 1998. Þar sem ekki verður talið að áfrýjandi hafi átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar fyrr en kom fram á árið 1999 telst fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafa byrjað að líða við lok þess árs. Fallist er á forsendur hins áfrýjaða dóms um að aðild stefnda Lloyd´s of London að beiðni 30. apríl 2003 um örorkumat og greiðsla þessa stefnda á kostnaði vegna matsins hafi ekki rofið fyrningu á kröfu áfrýjanda, sbr. dóm Hæstaréttar 14. september 2006 í máli nr. 58/2006. Ekki þarf að taka afstöðu til þess hvort fyrirvaralaus tillaga þessa stefnda um tjónsuppgjör á árinu 2000 skuli hafa þessi áhrif þar sem tillagan var gerð meira en fimm árum áður en mál þetta var höfðað. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum skal áfrýjandi greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

       Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

         Áfrýjandi, Aðalsteinn Aðalsteinsson, greiði stefndu, Þóreyju Aðalsteinsdóttur og Lloyd´s of London, samtals 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2006.

I

Mál þetta sem dómtekið var 10. apríl 2006, var höfðað 7. nóvember 2005. Stefnandi er Aðalsteinn Aðalsteinsson, Suðurgötu 47 B, Siglufirði, en stefndu eru Þórey Aðalsteinsdóttir, Svíþjóð og Lloyd’s of London, tjónafulltrúi Lloyd’s á Íslandi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.115.798 krónur með 2,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 11. maí 1998 til 1. maí 1999, en með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi samkvæmt 12. gr. laga nr. 37/1999, sbr. lög nr. 50/1993 til 6. maí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar.

Stefndu gera þær dómkröfur aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar og að dráttarvextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá þingfestingu málsins.  Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

II

Málavextir eru þeir að 11. maí 1998 ók stefnandi bifreiðinni TP-771 um Borgarfjörð norður Vesturlandsveg.  Á móts við Munaðarnes í Borgarbyggð missti stefnandi vald á bifreiðinni er við það lenti utan vegar og valt.  Engin vitni voru að slysinu.  Stefnandi var kominn út úr bifreiðinni er Valdimar Einarsson bar að og ók hann stefnanda á lögreglustöðina í Borgarnesi.  Lögreglan flutti stefnanda á heilsugæslu og í kjölfarið var stefnandi fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hann lá í tvo daga.

Stefnandi var með skurðáverka á höfði og kvartaði um sáran verk frá hálsi.  Stefnandi leitaði til heimilislæknis og var vísað á slysadeild 18. maí 1998 en við rannsókn þar kom í ljós skrið milli hálsliða með snúningi og að hliðlægur hryggjarliður væri genginn úr liði. Stefnandi gekkst undir aðgerð 19. maí 1998 þar sem 5. og 6. hálsliðir voru festir saman og samkvæmt læknisvottorði 25. júní 1998 braggaðist hann vel og útskrifaðist við góða líðan 22. maí 1998.  Eftir slysið og aðgerðina var stefnandi í eftirliti hjá Ólafi Stefánssyni lækni fram til júlíloka 1998 en 28. september 1998 leitaði hann til Björns Gunnlaugssonar læknis og var þar í eftirliti að minnsta kosti einu sinni í mánuði eins og fram kemur í vottorði læknisins 2. desember 1998.

Stefnandi kveðst eftir slysið hafa búið að afleiðingum slyssins með stirðleika í hálsi og baki, verkleiðni upp í höfuð og dofa í hægri hendi.  Þá kveðst hann vera viðkvæmur fyrir kulda og finna til skertrar einbeitingar og tapaðs minnis. 

Í frumskýrslu lögreglu 11. maí 1998 er haft eftir Valdimar Einarssyni, sem ók stefnanda á lögreglustöðina í Borgarnesi, að áður en óhappið varð, hafi hann verið á leið norður undir Hafnarfjalli þegar bifreið stefnanda hafi verið ekið mjög ógætilega fram úr honum og hafi bifreiðinni verið ekið kantanna á milli upp Borgarfjörðinn.  Bar Valdimar síðar hjá lögreglu að hann hafi í fyrstu talið að stefnandi væri ölvaður eða allavega ekki í ástandi til að aka bifreið miðað við aksturslag hans skömmu fyrir útafaksturinn.

Í fyrrgreindri frumskýrslu lögreglunnar er haft eftir stefnanda að hann hafi ekkert sofið í meira en sólarhring og hann hefði eflaust sofnað við aksturinn og því lent út af veginum.   Þá er rakið í skýrslunni að ekki hafi verið að finna áfengislykt af stefnanda við komu hans til læknis en hann hafi verið þvoglumæltur og hálfruglaður til að byrja með.  Hafi læknir talið að stefnandi hefði getað vankast við höfuðhöggið og gæti það skýrt ástand hans.  Lögreglan fór á vettvang eftir að hafa komið stefnanda undir læknishendur og skoðaði bifreiðina sem var gjörónýt eftir veltuna.  Var hún flutt á verkstæði og við skoðun á henni daginn eftir fannst lyfjaglas í henni merkt Diazepam.  Var lyfið stílað á Gunnar Guðmundsson og var glasið hálffullt með tvenns konar stærðum af töflum.

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 18. júní 1998 og kvaðst ekki muna eftir því þegar bifreiðin fór út af veginum.

Bifreið sú sem stefnandi ók umrætt sinn var skráð á stefndu Þóreyju og var hún tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda félagi, Lloyd’s of London.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fól stefnandi Sveini Skúlasyni hdl. 16. júní 1998 umboð til að gera kröfur um skaðabætur fyrir sína hönd vegna slyssins.  Með bréfum lögmannsins 8. júlí og 15. september 1998 til hins stefnda félags krafðist hann afstöðu félagsins til greiðslu slysadagpeninga til stefnanda.  Lögmaðurinn ítrekaði fyrri kröfur stefnanda í bréfi 21. september 1998 og vísaði þar til bréfs tryggingafélagsins frá 16. september 1998 um að í því bréfi kæmi ekki fram afstaða félagsins til bótakröfu stefnanda.  Með bréfi hins stefnda félags til Sveins Skúlasonar hdl. 13. október 1998 kom fram sú afstaða að félagið telji sig ekki bótaskylt vegna tjóns stefnanda þar sem hann hafi ekki verið hæfur til aksturs bifreiðar umrætt sinn.  Þrátt fyrir framangreinda afstöðu setti hið stefnda tryggingafélag fram tillögu til tjónauppgjörs við stefnanda í desember 2000.  Samkvæmt þeirri tillögu er gert ráð fyrir að tjón stefnanda sé miðað við 8% varanlegan miska og 8% varanlega örorku samtals að fjárhæð 1.090.646 krónur að viðbættum vöxtum og kostnaði.  Gert er ráð fyrir því í tillögunni að stefnandi eigi að bera stærstan hluta tjóns síns sjálfur og er gerð tillaga um að greiða honum slysabætur að fjárhæð 316.836 krónur, 16.423 krónur í vexti, 71.111 krónu í innheimtukostnað og 17.422 krónur í virðisaukaskatt eða samtals 421.793 krónur.  Stefnandi kveðst hafa leitt þetta tilboð tryggingafélagsins hjá sér.

Með umboði 29. apríl 2003 fól stefnandi núverandi lögmanni sínum að gæta hagsmuna sinna vegna tjóns hans.  Óskuðu lögmenn aðila sameiginlega eftir  örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis og er matsgerð hans dagsett 6. maí 2003.  Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir að vegna slyssins hafi tímabundið atvinnutjón stefnanda samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verið 100% í sex mánuði. Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. laganna miðist við að stefnandi hafi verið rúmliggjandi frá 11. maí 1998 til 13. maí 1998 og frá 18. maí 1998 til 22. maí 1998, og hann hafi verið batnandi án þess að vera rúmliggjandi í sex mánuði að frádregnum þeim tíma sem hann hafi verið rúmliggjandi.  Stöðugleikatímapunktur hafi verið 11. nóvember 1998.  Varanlegur miski samkvæmt 4. gr., varanleg örorka samkvæmt 5. gr. og hefðbundin læknisfræðileg örorka sé 12%.

Ekki er ágreiningur um að bifreið sú sem stefnandi ók umrætt sinn var tryggð lögboðinni tryggingu hjá hinu stefnda félagi og ekki er ágreiningur um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda.  Snýst meginágreiningur aðila um hvort skaðabótakrafa stefnanda sé fyrnd og ef hún telst ekki fyrnd þá er ágreiningur um hvort stefnandi hafi fyrirgert bótarétti vegna þess að hann hafi ekki verið hæfur til að stjórna ökutæki umrætt sinn, um útreikning skaðabóta og eigin sök stefnanda.

III

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að bifreiðin TP-771 hafi verið tryggð lögboðinni tryggingu hjá hinu stefnda félagi og hafi stefnandi falið fyrrum lögmanni sínum umboð til þess að annast bótauppgjör.  Hafi lögmaðurinn leitað eftir afstöðu hins stefnda félags til skaðabóta strax um sumarið 1998 og eftir ítrekaðar fyrirspurnir hafi hið stefnda félag kynnt þá afstöðu með bréfi 13. október 1998 að félagið hafnaði bótaskyldu á þeim grunni að stefnandi hafi ekki verið hæfur til aksturs ökutækis.  Stefnandi kveðst hafna því að hafa verið ófær um akstur umrætt sinn og hann mótmælir því að hafa verið undir áhrifum áfengis eða lyfja.

Stefnandi kveðst um árabil hafa starfað sem sjómaður, unnið við garðyrkju, byggingavinnu og tilfallandi verkamannavinnu þótt hann hafi ef til vill ekki sinnt skattskilum að fullu.   Er slysið varð hafi stefnandi verið á leið til Siglufjarðar þar sem hann hafi ætlað að hefja atvinnu.  Hafi stefnandi hlotið refsidóma og nýlega lokið afplánun er hann varð fyrir slysinu og hafði því ekki gegnt launaðri atvinnu þá um nokkurt skeið en hafi verið á leið til starfa.

Stefnandi kveðst setja fram ítrustu skaðabótakröfu sem hann byggi á niðurstöðum matsgerðar og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996 og lög nr. 37/1999 og byggi hann útreikning sinn á meðaltekjum ófaglærðra verkamanna samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar.  Meðaltekjur verkamanna á árinu 1998 hafi numið 1.787.400 krónum. 

Kröfu sína sundurliðar stefnandi svo:

1. Tímabundið atvinnutjón, 100% í sex mánuði og miðað við framangreindar meðaltekjur ófaglærðra verkamanna:                                893.700

6% framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð                     53.622 

Samtals                                                           947.322

2. Þjáningabætur

7 dagar rúmliggjandi x 1.300 eða 9.100                        

173 dagar batnandi x 700 eða 121.100                                         

með verðbótum maí 2003/júlí 1993 4482/3282

eða 1,37 x 130.200                                                  178.374

3. Varanlegur miski

4.000.000,- x 12,0%           480.000

með verðbreytingastuðli 1,37                                         657.600         

4. Varanleg örorka

Árslaun verkamanna 1.833.729

6% framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð 110.023

Samtals 1.943.752 x 12 x 10                                         2.332.502

Af öllum framangreindum fjárhæðum, samtals að fjárhæð 4.115.798 krónur, sé krafist 2,5% ársvaxta frá 11. maí 1998 til 1. maí 1999, en 4,5% ársvaxta frá þeim degi til 6. maí 2003, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi vísar um kröfur sínar til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 um fébætur og vátryggingar.  Réttarfar og krafa um málskostnað sé reist á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt sé reist á lögum nr. 50/1988.

IV

Kröfur sínar um sýknu byggja stefndu í fyrsta lagi á því, að bótaréttur stefnanda sé fallinn niður fyrir fyrningu.  Benda stefndu á 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 máli sínu til stuðnings en þar segi að allar kröfur á hendur þeim sem ábyrgð beri fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.

Eins og fram komi í málsgögnum hafi stefnandi slasast aðfaranótt 11. maí 1998. Virðist hann hafa skorist í andliti og brákað tvo hryggjarliði.  Í vottorði frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur 25. júní 1998 sé greint frá aðgerð sem framkvæmd hafi verið 19. maí 1998 þar sem hinir brákuðu hryggjarliðir hafi verið spengdir saman og hafi stefnandi útskrifast af sjúkrahúsinu 22. maí 1998 og komi fram í vottorðinu að hann hafi útskrifast við góða líðan.  Hann hafi síðan verið undir eftirliti heimilislæknis í nokkra mánuði, en ekki verði séð að hann hafi verið undir læknishendi síðan 2. desember 1998. 

Í örorkumati Atla Þórs Ólasonar, dagsettu 6. maí 2003, komi fram að í viðtali við lækninn hafi stefnandi sagst hafa stundað byggingarvinnu um haustið 1998, en hætt þeirri vinnu eftir 3-4 mánuði án þess að hann geti um ástæður þess að hann hætti.

Við uppgjör tjónabóta til tjónþola í umferðarslysum, þegar um væga eða minniháttar áverka sé að ræða, eins og í tilfelli stefnanda, sé það viðtekin venja hjá vátryggingafélögum að ganga ekki til uppgjörs á slysabótum fyrr en í fyrsta lagi einu ári eftir atburðinn, enda sé ekkert það við heilsufar tjónþola að athuga sem hindri slíkt uppgjör.  Í tilfelli stefnanda sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til annars en að hann hafi átt þess kost að leita mats á afleiðingum slyssins þegar ár hafi verið liðið frá því eða í maí 1999 og í síðasta lagi við lok þess árs.  Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæðum 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi því byrjað að líða í lok árs 1999 og krafa stefnanda því löngu fyrnd þegar mál þetta var höfðað í nóvember 2005.  Breyti engu þó stefndu hafi tekið að sér að annast greiðslu matsgerðar þeirrar sem lögð sé fram í máli þessu enda stefndu engu minni þörf á að fá upplýst um ástand og bataþróun stefnanda en stefnanda sjálfum.  Þá bendi stefndu á að sérstakur fyrirvari hafi verið gerður um bótarétt stefnanda þegar fallist hafi verið á matsbeiðni stefnanda.  Beri því að sýkna stefndu.

Verði ekki fallist á framangreind rök byggi stefndu sýknukröfur sínar jafnframt á 5. gr. skilmála vátryggjanda sem fjalli um missi bótaréttar þar sem segi að réttur vátryggðs til bóta geti fallið niður vanræki hann skyldur sínar gagnvart vátryggjanda með því að aka án tilskilinna ökuréttinda, eða valdi tjóni af stórfelldu gáleysi eða undir áhrifum áfengis-, ávana- eða fíkniefna. Upptalning greinarinnar sé ekki tæmandi.

Ein af meginskyldum vátryggðs og/eða þeirra sem stjórni ökutæki sé að fara í hvívetna eftir þeim fyrirmælum sem umferðarlög og reglur setji varðandi færni og framkomu í umferðinni.  Bendi stefndu í þessu sambandi sérstaklega á 44. gr. umferðarlaga þar sem upp séu talin atriði sem löggjafinn telji þess eðlis, að séu þau fyrir hendi, sé aðilum óheimilt að stjórna eða reyna að stjórna ökutæki.  Meðal þeirra atriða sem upp séu talin sé neysla áfengis, neysla á örvandi eða deyfandi efnum og svefnleysi.   Fyrir liggi í málinu að stefnandi hafi á þeim tíma er slysið varð átt í vanda bæði vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu.  Í bifreiðinni hafi fundist lyfjaglas með sterku fíkniefni.  Þá liggi fyrir, og sé ómótmælt, lýsing sjónarvotts á aksturslagi stefnanda stuttu áður en atvikið átti sér stað sem þrátt fyrir skort á blóðrannsóknum bendi sterklega til þess að stefnandi hafi verið undir áhrifum lyfja sem gert hafi hann ófæran að aka bifreiðinni umrætt sinn.  Jafnvel þó það teljist ekki sannað liggi fyrir viðurkenning stefnanda á því að hann hafi vegna svefnleysis verið ófær um að stjórna bifreiðinni og það hafi verið orsök slyssins.  Að öllu þessu virtu verði stefnandi að bera tjón sitt að öllu leyti sjálfur enda hafi hann með háttalagi sínu sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Verði ekki fallist á framangreind rök stefndu byggja þau varakröfu sína um lækkun stefnukrafna á því að við uppgjör bóta beri að beita reiknireglum 8. gr. skaðabótalaga eins og hún var þegar slysið átti sér stað.

Eins og sjáist á framanlögðum skattskýrslum fyrir stefnanda fyrir árin 1996, 1997 og 1998 hafi stefnandi ekki gegnt neinu launuðu starfi í að minnsta kosti þrjú ár fyrir slysið.  Þá liggi fyrir að hann hafi heldur ekki verið í launaðri vinnu á því ári sem slysið varð.  Samkvæmt 8. gr. skaðabótalaganna, eins og henni var breytt með lögum  42/1996 skuli þegar svo standi á eins og í tilfelli stefnanda ákvarða bætur á grundvelli miskastigs sem ákveðinn hundraðshluta af bótum fyrir varanlegan miska.  Samkvæmt örorkumati sé miski og örorka stefnanda 12% og ættu bætur til hans miðað við þingfestingardag stefnu á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga að vera þannig:

1.        Þjáningabætur

Rúmfastur í 6 daga á kr. 1.940 pr. dag   11.640

Án rúmlegu 174 dagar á kr. 1.050 pr. dag 182.700

2.        Miskabætur 12% af 4.000.000,-/3282*4905 717.372

3.        Bætur skv. 8. gr. skbl. 125% af lið 2 896.715

4.        Frádráttur vegna aldurs 8% af lið 3  -71.737

5.        Vextir 2% flatir vextir frá 11/5/98 – 10/11/05 264.363

                          Samtals                                                           1.736.690

Með hliðsjón af því sem að framan sé rakið varðandi ástand stefnanda og aðdraganda slyssins krefjast stefndu að stefnanda verði gert að bera mestan hluta af tjóni sínu sjálfur eða að minnsta kosti 2/3 hluta þess.  Bætur til stefnanda myndu því nema 578.596 krónum.

Stefndu mótmæla alfarið kröfugerð stefnanda sem bæði rangri og óstaðfestri.  Bæði sé rangt að miða uppgjör bóta til stefnanda við ákvæði 7. gr. skaðabótalaga hvað þá að miða það við þá grein eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999.  Í 15. gr. þeirra laga komi skýrt fram að þær breytingar sem í lögunum fólust ættu eingöngu við um skaðabótaábyrgð vegna tjóna sem rakin yrðu til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna.   Þá hafi það jafnframt verið staðfest ítrekað með dómafordæmum.

Kröfu stefnanda um bætur fyrir tapaðar atvinnutekjur sé alfarið mótmælt. Staðfest sé að stefnandi hafi ekki verið í launaðri atvinnu þegar slysið átti sér stað og því ekki um neinar tapaðar atvinnutekjur að ræða.  Þá sé grundvelli stefnanda að launatekjum sérstaklega mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Engin gögn hafi verið lögð fram sem styðji þær tölur sem stefnandi byggi á.

Vaxtakröfum stefnanda sé og sérstaklega mótmælt. Verði stefndu gert að greiða stefnanda bætur eigi stefnandi aðeins rétt á 2% vöxtum samkvæmt ákvæði 16. gr. skaðabótalaga eins og það var fyrir breytingu, frá slysdegi til þingfestingardags.  Hafi stefnandi ekki sett fram kröfu um bótagreiðslur á hendur stefndu fyrr en við þingfestingu málsins.

Um málskostnað vísa stefndu til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 129. gr. sömu laga.

V

Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi kröfur sínar á örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis sem aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar útreikningi bóta.  Er ekki ágreiningur í málinu um að stefnandi hafi í slysinu 11. maí 1998 orðið fyrir varanlegu tjóni á heilsu sinni en stefndu byggja sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að krafa stefnanda sé fyrnd.

Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1997 fyrnast bótakröfur, eins og þær sem hér er fjallað um, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.  Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á 10 árum frá tjónsatburði.

Í niðurstöðu Atla Þórs Ólasonar kveður hann stöðugleikatímapunkt vera 11. nóvember 1998 eða sex mánuðum eftir slysið.  Stöðugleikatímapunktur er það tímamark þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt sbr. 1 mgr. 2. gr. skaðabótalaganna eins og því ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 37/1999 en fyrir þá breytingu hljóðaði ákvæðið á þann veg að miða bæri við það tímamark þegar ekki væri að vænta frekari bata.  Af lögskýringargögnum með framangreindri breytingu á ákvæðinu verður ekki ráðið að í þessari orðalagsbreytingu felist efnisleg breyting á ákvæðinu.  Á þessu tímamarki, hinum svokallaða stöðugleikatímapunkti, geta tjónþoli og hinn bótaskyldi krafist þess að fram fari mat á varanlegri örorku tjónþola.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi ekki verið undir læknishendi vegna afleiðinga slyssins síðan í desember 1998 og ekkert í gögnum málsins sem bendir til annars en að heilsa hans hafi verið orðin stöðug sex mánuðum eftir slysið eins og matsgerð Atla Þórs Ólasonar gerir ráð fyrir.  Að því gefnu að stefnandi hefði þurft einhvern tíma til þess að undirbúa kröfugerð sína gagnvart stefndu þykir eðlilegt að miða við að hann hefði átt að geta leitað fullnustu hennar í síðasta lagi ári eftir slysið eða 11. maí 1999 og með vísan til 99. gr. umferðarlaga byrjaði krafa hans þannig að fyrnast í árslok 1999 og lauk fyrningarfresti í árslok 2003.

Eins og fyrirliggjandi gögn bera með sér hafnaði hið stefnda félag bótaskyldu frá upphafi og virðist sem stefnandi hafi engan reka gert að því að halda kröfum sínum til haga frá því að fyrrverandi lögmaður hans fékk tilkynningu um þá afstöðu félagsins í október 1998 fyrr en með málshöfðun þessari.  Engin haldbær gögn liggja frammi í málinu um að nokkuð hafi gerst eftir að fyrningarfrestur byrjaði að líða sem valdið gæti slitum á fyrningu fyrr en stefna var birt í máli þessu.  Tillaga hins stefnda félags til tjónauppgjörs gagnvart stefnanda sem sett var fram tæpum fimm árum áður en stefna var birt í máli þessu verður ekki talin viðurkenning á bótaskyldu sem slitið hafi fyrningu enda er því haldið fram af hálfu stefndu að hún hafi verið sett fram í því skyni að sætta aðila án þess að í því hafi falist viðurkenning á bótaskyldu og engin viðbrögð komu frá stefnanda vegna tilboðs þessa.  Þá verður heldur ekki talið að sameiginleg matsbeiðni lögmanna aðila í máli þessu hafi slitið fyrningu enda sérstaklega tekið fram í henni að stefndu geri fyrirvara um bótarétt stefnanda.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið var bótakrafa stefnanda því löngu fyrnd þegar mál þetta var höfðað 7. nóvember 2005 og verða stefndu því þegar af þeirri ástæðu sýknuð af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir þó rétt að hver aðili um sig beri sinn hluta málskostnaðar.

Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján Stefánsson, hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Baldvin Hafsteinsson, hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Þórey Aðalsteinsdóttir og Lloyd’s of London, eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda, Aðalsteins Aðalsteinssonar.

Málskostnaður fellur niður.