Hæstiréttur íslands
Mál nr. 336/2008
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ólögmæt meðferð fundins fjár
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 13. nóvember 2008. |
|
Nr. 336/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn Birgi Brynjarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Ólögmæt meðferð fundins fjár. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.
B var sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot og fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár. Tekið var fram að B hefði endurtekið gerst sekur um auðgunarbrot. Með hliðsjón af 71. gr., 72. gr., 77., 78. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júní 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu en refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af I. og VI. lið ákæru og að refsing verið milduð. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald frá 4. janúar til 6. mars 2008 komi til frádráttar refsingu.
Í I. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa stolið tveimur fartölvum að verðmæti samtals 299.998 krónur úr versluninni Max í Garðabæ miðvikudaginn 13. desember 2006. Í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti leiðrétti ákæruvaldið fjárhæðina í 259.998 krónur. Ákærði neitar sök. Það var mat héraðsdóms að ekki yrði byggt á framburði ákærða. Með vísan til þess og að öðru leyti til forsendna dómsins er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum ákærulið og heimfærsla brotsins til refsiákvæðis.
Ákæra var gefin út 1. febrúar 2008 og varðar hún sex brot framin á tímabilinu 13. desember 2006 til 3. janúar 2008. Framangreint brot í I. ákærulið var kært 15. desember 2006 og lögreglu þá afhent myndband úr öryggisupptökuvél verslunarinnar. Ákærði var yfirheyrður vegna kærunnar 5. janúar 2007. Ekki liggur fyrir skýring á þeim drætti sem varð á því að gefa út ákæru vegna atviksins.
Í VI. ákærulið er ákærða gefin að sök ólögmæt meðferð fundins fjár með því að hafa fimmtudaginn 3. janúar 2008 kastað eign sinni á borðtölvu og 13 pakkningar af vinnsluminni samtals að verðmæti 190.780 krónur sem stolið hafi verið úr versluninni Tökkum í Reykjavík. Tilkynnt var um þjófnað í versluninni Tökkum klukkan 14.29 þennan dag og var ákærði handtekinn skömmu síðar. Munirnir fundust við leit í bifreið hans seint að kvöldi sama dag. Ákærði neitar sök. Héraðsdómur mat framburð ákærða ekki trúverðugan um að hann hefði verið á leið með munina til lögreglu og að hann hefði strax og hann var stöðvaður framvísað þeim. Ákærði bar fyrst fyrir dómi á þennan hátt og stangast sá framburður hans á við vætti tveggja lögreglumann sem handtóku hann. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum ákærulið og heimfærslu brotsins til refsiákvæðis.
Ákærði hefur játað sök samkvæmt ákæruliðum II til V. Öll brotin samkvæmt ákæru, að undanskildu því sem tilgreint er í I. ákærulið, voru framin nokkrum mánuðum eftir að hann var dæmdur í héraði 15. júní 2007, en sá dómur var staðfestur um sakfellingu í Hæstarétti 6. mars 2008 í máli nr. 517/2007 og refsing þar ákveðin fangelsi í tvö ár. Ákærði hefur sjö sinnum hlotið dóma, þar af sex fangelsisdóma, og þrisvar gengist undir sátt eða viðurlagaákvörðun. Nemur dæmd óskilorðsbundin refsivist samtals rúmum fjórum árum. Hann hefur endurtekið verið fundinn sekur um auðgunarbrot og svipar allnokkrum eldri brotanna um andlag og aðferð til þeirra sem sakfellt er fyrir samkvæmt I. til IV. ákærulið. Um mikil verðmæti var að ræða eða samtals um 4.000.000 króna. Við ákvörðun refsingar er vísað til 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eldri dóma sem hafa ítrekunaráhrif, sbr. 255. gr. og 71. gr. sömu laga. Einnig verður litið til 72. gr. laganna. Ákærði játaði fjögur af sex brotum sem hann er ákærður fyrir, en á sér ekki aðrar málsbætur. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt kemur til frádráttar eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvörðun hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Birgir Brynjarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Gæsluvarðhald sem hann sætti frá 4. janúar til 6. mars 2008 skal koma til frádráttar refsivist.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 264.627 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. apríl 2008.
Mál þetta var dómtekið 6. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið er með ákæru útgeginni 1. febrúar sl. höfðað gegn Birgi Brynjarssyni, kt. 230577-5609, Hverfisgötu 101, Reykjavík, "fyrir eftirtalin auðgunarbrot:
I. (036-2006-14578)
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 13. desember 2006, í raftækjaversluninni Max við Kauptún 1 í Garðabæ, stolið tveimur fartölvum af gerðinni Acer, samtals að verðmæti 299.998 krónur, með því að bera tölvurnar út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í málinu gerir Einar Ólafur Speight þá kröfu f.h. Max ehf., kt. 571006-1460, að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 299.998, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.
II. (007-2007-80322)
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 17. október 2007, í versluninni A4 að Höfðabakka 3 í Reykjavík, stolið tveimur fartölvum af gerðinni Toshiba Satellite Pro A200-1F9, samtals að verðmæti 259.800 krónur, með því að taka tölvurnar og bera þær út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í málinu gerir Valgerður Kristjánsdóttir þá kröfu f.h. A4 skrifstofuvörur ehf., kt. 670607-0540, að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 259.800.
III. (007-2007-92141)
Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 3. nóvember 2007, í versluninni BT Skeifunni í Reykjavík, stolið fjórum fartölvum, tveimur af gerðinni Toshiba Satellite og tveimur af gerðinni Acer Aspire, sjónvarpstæki af gerðinni Panasonic, myndbandsupptökuvél af gerðinni Panasonic, og þremur stafrænum myndavélum af gerðinni Panasonic, Canon og Sony, samtals að verðmæti 1.119.989 krónur, með því að setja vörurnar í innkaupakerru og þannig farið með þær út úr versluninni.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í málinu gerir Rúnar Rafnsson þá kröfu f.h. Árdegis hf., kt. 510177-0969, að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 1.119.989, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
IV. (007-2007-93236)
Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 1. desember 2007, í verslun Office 1 Skeifunni í Reykjavík, stolið þremur fartölvum af gerðinni HP DV6317, AIRIS N930 og AIRIS N 1005, samtals að verðmæti 259.700 krónur, með því að bera tölvurnar út af lager verslunarinnar.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Í málinu gerir Árni Eggert Harðarson, kt. 040278-3119, þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 259.700.
V. (007-2008-668)
Ólögmæta meðferð fundins fjár, með því að hafa í heimildarleysi kastað eign sinni á 1.946.900 krónur, sem ranglega voru lagðar þann 6. desember 2007 inn á bankareikning ákærða nr. 0549-26-005609, með því að taka umrædda fjárhæð út af reikningnum á tímabilinu 6. til 10. desember 2007 og þannig tileinkað sér fjármunina og ráðstafað þeim til eigin nota.
Telst þetta varða við 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
VI. (007-2008-668)
Ólögmæta meðferð fundins fjár, með því að hafa fimmtudaginn 3. janúar 2008, kastað eign sinni á borðtölvu af gerðinni Asus og 13 vinnsluminni í borðtölvur af gerðinni Patriot, samtals að verðmæti 190.780, sem ákærða fann við Suðurlandsbraut, en munum þessum var stolið úr versluninni Tökkum við Suðurlandsbraut 26 í Reykjavík sama dag.
Telst þetta varða við 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."
I. Játningarmál.
Við þingfestingu málsins 18. febrúar sl. viðurkenndi ákærði að hafa framið þá verknaði sem hann er sakaður um í II..-V. kafla ákærunnar og verður að telja að með skýrlausri játningu ákærða sem er í samræmi við rannsóknargögn málsins sé sannað að hann hafi gerst sekur um að hafa framið verknaðina og með því hefur hann gerst brotlegur við 244. almennra hegningarlaga.
Ákærður neitaði sök varðandi I. og VI. kafla ákærunnar og fór fram á aðalmeðferð í málinu 28. febrúar s.l. og 6. mars s.l. um þessa ákæruliði.
II. Raftækjaverslunin Max við Kauptún 1 í Garðabæ.
Föstudaginn 15. desember 2006 lagði A öryggisfulltrúi verslunarinnar fram kæru hjá lögreglunni í Hafnarfirði vegna þjófnaðar á tveimur fartölvum úr versluninni, en um væri að ræða tvær Acer ferðartölvur, týpu nr. 235985-7 og væru vörunúmer þeirra Acit M 4233 WLM 12.
A lagði fram upptöku á geisladisk úr öryggiskerfi verslunarinnar, þar sem sést að maður sem talinn er vera ákærður í málinu kemur inn í verslunina, þar sem hann hafi tekið greindar fartölvur úr hillu í versluninni og fer með þær út án þess að borga fyrir þær. Upptökurnar voru skoðaðar af B, rannsóknar-lögreglumanni og hefur verið sýnd hér í réttinum. B taldi ljóst að þarna hafi ákærður verið á ferðinni og það er og ljóst að er upptakan var skoðuð hér í réttinum. Greinilegt er að hann tekur þarna tvo kassa úr hillu, sem framangreindar tölvur voru taldar vera í. Ákærður færir kassana fyrst til í versluninni og er svo nokkra stund að ráfa um verslunina og að skoða, en sést svo eftir nokkra stund halda á kössunum og fara með þá út úr versluninni.
Ákærður skoðaði myndupptökuna og kannaðist við að hafa verið í versluninni á greindum tíma, þ.e. á tímabilinu frá kl. 20:00 til 21:00 13. desember 2006 og haft með sér tvo kassa út úr versluninni eins og sjáist á upptökunni, en mundi þó ekki að þeir væru utan af tölvum. Hann sagði þó að í kössunum hafi einungis verið bæklingar. Nánar skýrði ákærði svo frá hér fyrir dómi, að hann hafi verið í versluninni á greint sinn og verið í annarlegu ástandi. Hann hafi farið með kassana út í bíl, þar sem hann hafi opnað þá, en í þeim hafi verið bunki af bæklingum og svo rafmagnssnúrur, en engar ferðatölvur. Hann kvað kassana hafa verið í hillu undir borði þar sem tölvur voru sem voru til sýnis í búðinni. Hann kvað hafa staðið á kössunum Acer og komið fram að í þeim áttu að vera fartölvur og hann verið í þeirri trú, en hann hafi verið þarna á ferð í því skyni að ná sér í fémæti og hefðu tölvurnar farið til að greiða fíkniefnaskuld eða til að fjármagna fíkniefnakaup. Hann kvað ásetning sinn hafi verið að taka tölvur eða aðra hluti til að nota til kaupa á fíkniefnum. Hann hélt fast við það, að engar ferðatölvur hafi verið í kössunum og vísaði á bug yfirlýsingu merkt dskj. nr. 11, frá verslunarstjóra og framkvæmdastjóra verslunarinnar um að í kössunum hafi verið ferðatölvur. Hann kvaðst hafa opnað kassana eftir að hann kom út í bifreið, sem kunningi hans ók og þá hafi hann uppgötvað að í kössunum voru bara upplýsingabæklingar og rafmagnssnúrur og aðrir kaplar. Hann kvaðst þó hafa er hann opnaði kassana gætt þess að bílstjórinn sæi ekki til hans meðan hann var að því, en hann hefði svo kastað kössunum í ruslatunnu hjá þeim stað, sem hann var þá með aðsetur á í Garðabæ.
Í framangreindri yfirlýsingu frá Max-Raftækjum, kemur fram, að í kössunum, sem ákærður sjáist halda á í eftirlitskerfi fyrirtækisins, hafi verið ferðartölvur ásamt öllum meðfylgjandi hlutum. Þessar vörur vanti og þær hafi aldrei verið seldar út úr versluninni eftir þetta atvik, þar sem þær hafi ekki verið til staðar. Kassar eða aðrar umbúðir hafi ekki verið tómar í versluninni á þessum tíma.
Bæði C, kt. xxxxxx-xxxx og D, kt. xxxxxx-xxxx, sem undirrituðu yfirlýsinguna hafi borið vitni í málinu og staðfest hana. Fram kom hjá C að á þessum tíma hafi verið ný búið að opna verslunina að Kauptúni í Garðabæ og þeir fyrst verið með fartölvur í kössum frammi í búð, en það væri ekki gert lengur. Það kvað enga tóma kassa utan af fartölvum hafa verið geymda í versluninni, enda voru þeir þannig gerðir að ekki væri unnt að nota þá aftur, eftir að þeir hafa verið opnaðir og tæmdir. Það kvað þjófnaðinn hafa uppgötvast daginn eftir að tölvurnar voru teknar. Það kvað kassana með tölvunum ekki hafa verið með þjófavörn, þannig að það pípi, ef þær hafi ekki verið greiddar, þegar farið væri með þær út um aðaldyrnar.
Fram kom hjá vitninu D, að verslunin hafi verið opnuð í nóvember 2006 og hefði verið töluvert um þjófnaði á tölvum úr versluninni og það ekki dugað til þó að sýningarvélar væru festar með því að læsa þær niður með keðjum og heldur hafi orðið að setja á þær viðvörunarbúnað.
Með framburði ákærða, sem og myndbandsupptöu og vætti vitna, er sannað að ákærður tók í því skyni að auðgast á því, tvo kassa með fartölvum svo sem greinilegt er á upptökum úr eftirlitskerfi verslunarinnar. Þegar virtir eru framburðir vitna í málinu, sem staðfesta framangreinda yfirlýsingu, þykir mega byggja á því, að í kössunum hafi verið fartölvurnar og þykir framburður ákærða um að í kössunum hafi einungis verið bæklingar og kaplar afar ósennilegur og hefur hann með engu móti skotið stoðum undir þennan framburð, þrátt fyrir að hann haldi því fram, að kunningi hans hafi verið með í bifreiðinni, þegar hann opnaði þá. Það verður því að líta á þennan framburð sem markleysu og hefur ákærður með töku fartölvanna gerst brotlegur við 244. gr. almennra hegningarlaga.
III. Verslunin Takkar, Suðurlandsbraut 26, Reykjavík. (ákæruliður VI)