Hæstiréttur íslands
Mál nr. 189/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Útivist
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 30. apríl 2002. |
|
Nr. 189/2002. |
Kristjón Benediktsson(sjálfur) gegn Íslandsbanka hf. (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Að kröfu Í hf. var bú K tekið til gjaldþrotaskipta. Sótti K ekki þing í héraði þegar krafan var tekin fyrir og brast því heimild til kæru máls, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1992:2028. Málinu var af þeim sökum vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. apríl sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2002, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði, þegar mál þetta var tekið fyrir á dómþingi 4. febrúar 2002. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því. Í dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1992 bls. 2028, sbr. og dómum 4. desember 2001 í málinu nr. 432/2001 og 8. apríl 2002 í málinu nr. 158/2002, voru ákvæði laga nr. 21/1991 skýrð með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann veg að heimild brysti til kæru máls sem þessa þegar þannig stæði á. Ber samkvæmt því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2002.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. febrúar sl.
Sóknaraðili er Íslandsbanki-FBA, Hamraborg 14a, Kópavogi.
Varnaraðili er Kristjón Benediktsson, kt. 230256-7649, Blikanesi 22, Garðabæ, áður Laugarásvegi 40, Reykjavík.
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 9. maí 2001 krafðist sóknaraðili þess að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Krafa sóknaraðila er vegna skuldabréfs útg. þann 04.06.1998 af Vernd vátryggingarmiðlun ehf., kt. 460897-2119 til Íslandsbanka hf., nú Íslandsbanki-FBA hf., upphaflega að fjárhæð kr. 7.820.000,00. Skuldabréfið sé í vanskilum frá 02.07.1998. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar hafi Nanna Snorradóttir, kt. 050659-5429, varnaraðili Kristjón Benediktsson kt. 230256-7649 og Sigurður Sigurjónsson, kr. 260652-4439 tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð.
Um lagastoð fyrir kröfu sinni vísar sóknaraðili til 65. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa sóknaraðila var tekin fyrir á dómþingi 27 júní sl. og var þá sótt þing af hálfu varnaraðila, kröfunni mótmælt og krafist málskostnaðar. Voru þau mótmæli í fyrsta lagi byggð á því að hann hafi ekki sjálfur verið viðstaddur fjárnámsgerð þá sem liggi til grundvallar kröfu sóknaraðila, í öðru lagi á því að málið sé höfðað fyrir röngu varnarþingi. Varnaraðili kvaðst nú vera búsettur í Garðabæ að Blikanesi 22 og hafa flutt lögheimili sitt fyrir mánaðarmót apríl maí 2001.
Kröfum varnaraðila er mótmælt af hálfu sóknaraðila og hafnað sem röngum og ósönnuðum og krefst sóknaraðili þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta og hann verði dæmdur til að greiða sóknaraðila hæfilegan málskostnað vegna þessa máls.
Þingfest var sérstakt mál vegna ágreinings um kröfuna. Málið var flutt fyrir dóminum og tekið til úrskurðar, en endurupptekið og frestað vegna sáttaumleitana aðila. Þegar fyrir lá að þær tilraunir báru ekki árangur var málið tekið til úrskurðar að nýju að kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá varnaraðila 14. mars 2001. Í 62. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 segi að fjárnámi skuli ekki lokið án árangurs nema gerðarþoli sé sjálfur viðstaddur eða málsvari hans. Gerðin hafi verið framkvæmd á lögheimili varnaraðila af fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík í viðurvist lögmanns gerðarbeiðanda og votts. Eiginkona varnaraðila hafi lýst yfir eignaleysi sem málsvari varnaraðila þar sem varnaraðili hafi ekki sjálfur verið viðstaddur. Eiginkona varnaraðila sé fullgildur málsvari hans enda samræmist það túlkun og reglum fullnusturéttarfarsins. Fram komi í gerðinni að málsvara gerðarþola hafi verið leiðbeint og hún innt svara sérstaklega hvort réttindi eða eignir tilheyrðu gerðarþola sem fjárnám yrði gert í, en hún sagði varnaraðila engar eignir eiga. Að öðru leyti er vísað til gerðarinnar sem aðilar hafi staðfest með undirritun sinni.
Hér sé um fullgilda gerð að ræða hjá sýslumanni enda hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að gerðin gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans, eins og áskilið sé að hann verði að gera, sbr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili hafði samkvæmt 15. kafla aðfararlaga 8 vikur til að fá úrlausn héraðsdóms um þessa aðfarargerð. Hann hafi ekki nýtt sér þann frest og sé varnaraðili því bundinn við gerðina. Sóknaraðili mótmælir framlögðu skjali, sem tjáist vera yfirlýsing frá eiginkonu varnaraðila, sem ósannaðri og óstaðfestri. Skjalið sé óvottað og engin gögn séu lögð fram til staðfestingar á aðskildum fjárhag varnaraðila og eiginkonu hans.
Varðandi mótmæli varnaraðila um það að málið sé höfðað á röngu varnarþingi bendir sóknarnaðili á að Héraðsdómi Reykjavíkur hafði áður borist gjaldþrotaskiptakrafa á hendur á varnaraðila. Sú skiptabeiðni hafi verið móttekin 9. apríl 2001, gerðarbeiðandi sé Kvos hf. Varnaraðili hafi átt lögheimili í Reykjavík þegar sú beiðni barst héraðsdómi. Varnaraðili hafi breytt lögheimili sínu þann 17. apríl 2001 eða rúmri viku eftir að sú gjaldþrotaskiptabeiðni hafi verið móttekin. Sóknaraðili hafi sent gjaldþrotaskiptabeiðni á sama varnarþing, Héraðsdóm Reykjavíkur. Skiptakröfunni hafi því verið beint að réttu varnarþingi, eðli málsins samkvæmt. Bent er á að þótt um rangt varnarþing væri að ræða þá hafi varnaraðili mætt við þingfestingu málsins og í samræmi við reglur réttarfarsins þá hafi hann með mætingu sinni samþykkt að málið yrði tekið fyrir á þeim stað.
Niðurstaða
Varnaraðili byggir mótmæli sín gegn kröfu um gjaldþrotaskipti í fyrsta lagi á því að hann hafi ekki sjálfur verið viðstaddur fjárnámsgerð þá sem liggur til grundvallar kröfu sóknaraðila. Sú aðfarargerð fór fram á heimili varnaraðila að Laugarásvegi 40, Reykjavík. Þar hittist fyrir eiginkona varnaraðila, Nanna Snorradóttir, og var henni leiðbeint um réttarstöðu sína sem málsvari varnaraðila. Hún lýsti því yfir að varnaraðili væri eignalaus og var fjárnáminu lokið án árangurs. Ætla verður að eiginkona varnaraðila hafi sem málsvari hans samkvæmt 62. gr. laga um aðför nr. 90/1989 búið yfir vitneskju um eignarstöðu hans. Yfirlýsing hennar við gerðina um eignaleysi varnaraðila verður því lögð til grundvallar, enda hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans.
Í öðru lagi byggir varnaraðili mótmæli sín gegn kröfu um gjaldþrotaskipti á því að málið sé höfðað fyrir röngu varnarþingi. Þegar krafa þessi var þingfest fyrir dómi var jafnframt þingfest krafa Kvosar hf. um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila og var sú krafa sannanlega móttekin áður en varnaraðili hafði flutt lögheimili sitt úr umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur. Verður því að telja að fullnægt sé ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti um meðferð kröfu sóknaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á andmæli varnaraðila og með því að fullnægt er skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. nr. 21/1991 verður orðið við kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður verður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Bú Kristjóns Benediktssonar kt. 230256-7649, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður fellur niður.