Hæstiréttur íslands

Mál nr. 662/2006


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Sakarskipting
  • Gagnaöflun
  • Málsástæða
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. október 2007.

Nr. 662/2006.

Ístak hf.

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Pétri Kristni Péturssyni

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

 

Skaðabætur. Vinnuslys. Sakarskipting. Gagnaöflun. Málsástæður. Matsgerð.

Rafvirkinn P varð undir 26 gifsplötum, sem raðað hafði verið upp við vegg í byggingu, er hann var að vinna við. Krafði hann Í hf. um bætur fyrir líkamstjón sem hann hlaut af þessum sökum. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að Í hf. hefði ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins um slysið fyrr en nær tveimur vikum eftir slysdag. Hefði því ekki verið kostur á að stofnunin rannsakaði vettvang slyssins strax, sem hefði getað veitt upplýsingar um atvik að slysinu. Þá hefði heldur ekki farið fram lögreglurannsókn á slysinu. Í hf. taldi að ekki hefði hvílt skylda á félaginu að tilkynna vinnueftirlitinu um slysið þar sem P var ekki starfsmaður þess heldur undirverktaka. Með hliðsjón af 1. mgr. 17. gr. laga nr. 46/1980 var talið að sjálfstæð skylda hefði hvílt á hverjum atvinnurekenda fyrir sig að tilkynna um slysið samkvæmt 2. mgr. 81. gr. sömu laga. Varð félagið því að bera halla af skorti á sönnun um málsatvik, sem telja yrði að leiða hefði mátt í ljós við rannsókn vinnueftirlitsins eða lögreglu. Fallist var á að starfsmenn Í hf. hefðu bakað félaginu bótaskyldu með því að stafla gifsplötunum upp við vegg þannig að hætta stafaði af fyrir aðra starfsmenn sem unnu í byggingunni. Hins vegar var talið að P hefði sjálfur mátt gera sér nokkra grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af frágangi staflans og sýnt af sér óaðgæslu er hann snerti hann. Hann var því látinn bera ¼ hluta af tjóninu sjálfur en Í hf. dæmt til greiðslu bóta að ¾ hlutum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Að beiðni áfrýjanda var 21. mars 2007 dómkvaddur í Héraðsdómi Reykjavíkur Júlíus Bernburg byggingarverkfræðingur til að láta í té mat á tilteknum atriðum varðandi hleðslu gifsplatna upp að vegg og ætlað átak við að velta þeim fram á gólf.

Matsmaðurinn skilaði matsgerð 10. apríl 2007. Hér á eftir eru teknar upp þær spurningar sem lagðar voru fyrir matsmanninn og svör hans:

„a. Ef 26 milliveggjaplötum úr gifsi, 120x220 cm að stærð og 15 mm að þykkt er raðað upp að vegg þannig að þær hvíli með efri langhlið á veggnum en neðri langhlið á gólfi, hver geti þá stysta fjarlægð neðri langhliðar innstu/fyrstu plötunnar frá vegg verið svo að staflinn falli ekki?“

Svar: „Plötunum var raðað upp við vegg þannig að neðri langhlið innstu/fyrstu plötu var 8 cm frá vegg ... Efri langhlið innstu/fyrstu plötu var síðan toguð frá vegg þangað til fundarmenn voru sammála um að staflinn væri á mörkum þess að vera stöðugur. Við þessar aðstæður var efri brún innstu plötu 6 cm frá vegg ... Mismunur er 8–6=2 cm sem er sú fjarlægð sem er þá stysta fjarlægð neðri langhliðar innstu/fyrstu plötunnar frá vegg svo staflinn falli ekki.

Niðurstaða matsmanns:

2 cm er stysta fjarlægð neðri langhliðar innstu/fyrstu plötunnar frá vegg svo staflinn byrji að falla (ystu plötur fyrst).

Niðurstaða: 2 cm.“

„b. Hversu mikið átak þarf, mælt í kg, til að velta 26 milliveggjaplötum úr gifsi, 120x220 cm að stærð og 15 mm að þykkt sem reistar hafa verið upp að vegg eins og að ofan greinir, miðað við að neðri langhlið fyrstu/innstu plötunnar sé stysta fjarlægð sbr. a. lið frá vegg?“

Svar: „Þegar plöturnar voru í þeirri stöðu sem lýst er í lið a var togað með vog í efri brún innstu/fyrstu plötu. Þegar átakið var komið í 20 kg byrjaði staflinn að velta (ystu plötur fyrst).

Niðurstaða matsmanns:

Plötustaflinn sem notaður var við mælingar er um 6,6% þyngri en stafli skv. málsskjölum ... Þar af leiðandi þarf 6,6% minna tog til að velta 26 stk. 120x220 (þykkt 15 mm) heldur en 26 stk. 120x270 (þykkt 13 mm).

Niðurstaða: 18 kg þarf til.“

„c. Hvaða áhrif, ef einhver, hefur eftirfarandi á svör við spurningum a og b:

i.           ef plöturnar hvíla á tveimur plönkum við vegg?

ii.          ef plöturnar hvíla á tveimur plönkum á gólfi?

iii.        ef plöturnar hvíla bæði á tveimur plönkum á gólfi og tveimur við vegg?“

Svar: „Ekki voru gerðar mælingar til að sannreyna svör við ofangreindum spurningum. Matsmaður taldi að atriði í ofangreindri matsbeiðni hefðu engin áhrif á niðurstöður í liðum a og b þar sem um veltu sé að ræða og þyngd platna, halli platna og hversu þétt þeim er raðað eru þau atriði sem mestu ráða.

Niðurstaða matsmanns:

Ofangreind atriði (i, ii og iii) hafa engin áhrif á niðurstöður a og b.“

„d. Hvaða áhrif, ef einhver, hefur það á svör við ofangreindum spurningum ef fjarlægð neðri brúnar innstu/fyrstu plötunnar frá vegg er aukin um allt að 1–5 cm?“

          Svar: „Gerð var mæling á átaki til að velta plötunum með fjarlægð neðri brúnar innstu/fyrstu plötunnar 8 cm ... og efri brún þétt að vegg. Átaksmælirinn var settur á efri brún innstu plötu, átaksmælirinn fór í hámarksgildi sem er 25 kg án þess að plöturnar hreyfðust.

Mæling var því næst gerð á 13 plötum með sama halla og þurfti 16 kg átak til að velta 13 plötum sem umreiknað gefur 32 kg fyrir 26 plötur.

Ef þetta átak er reiknað fyrir 26 stk. 120x220 (þykkt 15 mm) plötur er niðurstaðan 30 kg.

Ef sett er upp línulegt samband milli mælinga skv. lið b og mælinga skv. lið d er hægt að reikna út hvaða átak þarf fyrir aðrar fjarlægðir neðri brúnar innstu plötu.

Í töflu 1 eru niðurstöður mælinga og útreiknað átak. Í öllum tilfellum er reiknað með að átakið sé á efri brún innstu plötu.

Niðurstaða matsmanns:

 

Fjarlægð x

mm

Togkraftur

F

kg

 

Skýringar

20

18

Mæling með átaksmæli og útreikningi sbr. lið b.

30

20

Skv. útreikningi

40

22

50

24

60

26

70

28

80

30

Mæling með átaksmæli og útreikningi sbr. lið d.“

 

Matsmaðurinn kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur 3. maí 2007 og svaraði spurningum lögmanna málsaðila um matsgerðina og staðfesti hana.

Stefndi hefur mótmælt því að byggt verði á matsgerð þessari sem sönnunargagni fyrir Hæstarétti. Segir hann matsspurningar „byggjast á getgátum og tilbúnum aðstæðum, en ekki á staðreyndum, skoðun og mati á sýnilegum sönnunargögnum sem er tilgangur matsgerða.“ Þá hafi áfrýjanda verið í lófa lagið að afla matgerðarinnar fyrir aðalmeðferð málsins í héraði.

Í matsgerðinni er meðal annars gefið sérfræðilegt álit á atriðum sem kunna að skipta máli við mat á atvikum sem aðilar byggja á í málflutningi sínum. Engin lagaákvæði meina málsaðila að færa fram fyrir Hæstarétti ný sönnunargögn sem snerta málsástæður sem byggt hefur verið á í héraðsdómi. Kemur til athugunar Hæstaréttar hvort og þá að hvaða leyti matsgerðin skiptir máli þegar leyst er úr ágreiningi málsaðila.

II.

          Fallist er á forsendur og niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að bótaábyrgð áfrýjanda á slysi stefnda verði ekki byggð á því að áfrýjandi hafi fallist á bótaskyldu sína, er ábyrgðartryggjandi hans vísaði stefnda á að leita til tjónanefndar vátryggingafélaganna og úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum.

Svo sem fram kemur í héraðsdómi tilkynnti áfrýjandi Vinnueftirliti ríkisins um slysið 15. apríl 2002 eða nær tveimur vikum eftir slysdag. Þess var því ekki kostur að vinnueftirlitið rannsakaði slysvettvanginn strax, en slík rannsókn kynni að hafa veitt upplýsingar um þau atvik að slysinu, sem aðilar deila um. Þá fór heldur ekki fram lögreglurannsókn samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. einnig 3. mgr. 82. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og ákvæðið hljóðaði á slysdegi, og f. lið 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Við slíka rannsókn hefði mátt afla skýrslna þeirra starfsmanna áfrýjanda sem komu gifsplötum þeim fyrir sem féllu á stefnda og upplýsa frekar um frágang þeirra við vegginn. Áfrýjandi hefur mótmælt því að á sér hafi hvílt skylda til að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Byggir hann þessi mótmæli á því að stefndi hafi verið starfsmaður Rafbergs ehf. sem hafi verið undirverktaki hjá áfrýjanda við byggingarframkvæmdirnar sem stefndi slasaðist við. Tilkynningarskyldan hafi hvílt á undirverktakanum sem vinnuveitanda stefnda en ekki áfrýjanda.

          Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 46/1980 skulu atvinnurekendur, þar sem fleiri eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, sameiginlega stuðla að því að tryggja „góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum.“ Verður þetta túlkað á þann veg að skyldan til að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt þágildandi ákvæði 2. mgr. 81. gr. laganna hafi hvílt sjálfstætt á hverjum atvinnurekendanna fyrir sig þegar svona stóð á. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti hélt áfrýjandi því fram að slys stefnda hafi ekki verið þess háttar sem nefnt er í greinum 1.3 og 2 í reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa, en þessar reglur voru í gildi á slysdegi. Einnig af þessari ástæðu hafi honum verið óskylt að tilkynna slysið. Stefndi mótmælti þessari ástæðu sem of seint fram kominni. Þar sem engra upplýsinga nýtur í gögnum málsins um að áfrýjandi hafi fyrr byggt málflutning sinn á þessari málsástæðu verður fallist á með stefnda að hún sé of seint fram komin, sbr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt þessu hvíldi skylda til að tilkynna slys stefnda til Vinnueftirlits ríkisins á áfrýjanda. Verður hann að bera halla af skorti á sönnun um málsatvik sem telja verður að leiða hefði mátt í ljós við rannsókn Vinnueftirlits ríkisins eða lögreglu að því leyti sem þau eru umdeild og teljast óljós. Þau atriði sem hér skipta mestu máli lúta að því hvernig umræddum stafla hafði verið raðað upp að vegg, hvort rafmagnsvír hafi verið festur við fjöður úr rafmagnsdós sem stefndi dró út úr veggnum þannig að aukið hafi hættu á að staflinn félli fram yfir sig og hvernig stefndi stóð að verki sínu umrætt sinn.

III.

          Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að starfsmenn áfrýjanda hafi bakað honum bótaskyldu með því að stafla gifsplötunum upp að vegg á þann hátt að hætta stafaði af fyrir aðra starfsmenn sem unnu í byggingunni. Telst þetta meginástæða slyssins. Stefndi var 28 ára gamall þegar slysið varð og mun samkvæmt gögnum málsins vera vanur starfi í nýbyggingum á borð við það sem hann sinnti umrætt sinn. Verður að telja að hann hafi sjálfur mátt gera sér nokkra grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af staflanum eins og frá honum hafði verið gengið. Stefndi hlýtur að hafa snert staflann er hann dró út fjöður, sem stóð út úr rafmagnsdós á veggnum, þar sem plötunum hafði verið staflað, enda mun efri brún þeirra hafa náð upp á rafmagnsdósina. Þykir hann með þessu hafa sýnt af sér óaðgæslu og verður því fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi sjálfur átt nokkra sök á slysinu. Þykir hæfilegt að hann sæti lækkun bóta um ¼ hluta af þeim sökum.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi ekki borið fram frekari mótmæli við tölulegum útreikningi bótakröfu stefnda í héraði en þau sem tekin voru til greina í hinum áfrýjaða dómi. Hann verður því dæmdur til að greiða stefnda ¾ hluta þeirra bóta sem héraðsdómur dæmdi eða 4.411.574 krónur. Áfrýjandi hefur mótmælt upphafsdegi dráttarvaxta og talið að hann eigi að vera dómsuppsögudagur í Hæstarétti. Í héraðsdómi eru dráttarvextir dæmdir frá því einum mánuði eftir birtingu stefnu til héraðsdóms fyrir áfrýjanda. Verður fallist á þá niðurstöðu en héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ístak hf., greiði stefnda, Pétri Kristni Péturssyni, 4.411.574 krónur með 4,5% ársvöxtum af 637.650 krónum frá 2. apríl til 2. ágúst 2002, en af 4.411.574 krónum frá þeim degi til 5. maí 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2006.

I

Mál þetta, var dómtekið hinn 21. september sl., að loknum munnlegum málflutningi.  Það var áður flutt hinn 18. júní og dómtekið þann dag en málið var endurupptekið og flutt að nýju hinn 21. september sl.  Málið var höfðað fyrir dómþinginu af Pétri Kristni Péturssyni, Austurbraut 8, Keflavík á hendur stefnda, Ístaki hf., Engjateigi 7, Reykjavík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Engjateigi 7, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 5. apríl 2005.

Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær, að stefnda yrði gert að greiða stefnanda 6.000.899 krónur, auk 4,5% ársvaxta af 969.000 krónum frá 2. apríl 2002 til 2. ágúst 2002 en af allri fjárhæðinni, 6.000.899 krónum, frá þeim degi til 1. október 2004 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda og tildæmdur málskostnaður tæki mið af því að stefnandi sé eigi virðisaukaskattsskyldur.

Stefndi krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi yrði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.  Til vara krafðist stefndi þess, að dómkröfur stefnanda yrðu lækkaðar verulega og málskostnaður yrði felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda voru engar kröfur gerðar, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

II

Stefnandi er rafvirki og starfaði hjá fyrirtækinu Raftak ehf. þegar hann lenti í vinnuslysi hinn 2. apríl 2002 í byggingu 672 á Keflavíkurflugvelli.  Hinn 1. apríl 2002 var stefnandi ásamt samstarfsmanni sínum, Guðmundi Rúnari Jónssyni, að draga raflagnir í rör í byggingu 672 á Keflavíkurflugvelli og notuðu þeir sérstaka ídráttarfjöður við verkið.  Rafberg ehf. var undirverktaki hins stefnda félags við þessar byggingaframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli.  Rafberg ehf. mun hafa haft stefnanda að láni frá fyrirtækinu Raftaki ehf. þegar slysið varð.

Slysið vildi þannig til að stefnandi var ásamt vinnufélaga sínum að draga rafmagnsleiðslur í bygginguna.  Til verksins notuðu þeir þar til gerða fjöður, sem fest var á enda rafmagnsleiðslna, til að draga leiðslurnar um plaströr í veggjum byggingarinnar.  Daginn fyrir slysið höfðu stefnandi og vinnufélagi hans lokið við að draga rafmagn í eldhús byggingarinnar.  Hugðust þeir halda áfram þar sem frá var horfið daginn eftir.  Hafi þeir því skilið fjöðrina eftir, fasta í enda rafmagnsleiðslu, í einni af rafmagnsdósum byggingarinnar.  Þegar þeir sneru aftur til starfa daginn eftir hafði 26 gipsplötum verið staflað upp við rafmagnsdósina sem fjöðrin var í.  Gipsplöturnar voru reistar af starfsmönnum stefnda, og að sögn stefnanda, þversum upp á rönd við vegginn þannig að þær hafi hvílt á tveimur spýtum sem höfðu einnig verið reistar upp við vegginn.  Gipsplöturnar voru 120 cm á breidd og 220 cm á lengd.  Rafmagnsdósin sem fjöðrin var í er í 120 cm hæð frá gólfi.  Stefnandi heldur því fram, að plöturnar hafi náð upp á miðja dósina og lokað henni að hluta, en stefndi mótmælir því sem ósönnuðu.  Þá mótmælir stefndi því jafnframt sem ósönnuðu að plöturnar hafi hvílt á tveimur spýtum upp við vegginn.  Stefnandi kveður, að vegna þessa og annars byggingarefnis, sem var í herberginu, hafi hann og félagi hans ákveðið að taka fjöðrina úr rafmagnsdósinni og halda áfram að draga rafmagn í bygginguna á öðrum stað.  Þegar stefnandi hugðist losa fjöðrina úr rafmagnsdósinni hafi gipsplötustaflinn, samtals um 600 kg, fallið á hann.  Við það slasaðist stefnandi nokkuð.

Slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins, sbr. tilkynningu, dags. 15. apríl 2002, en hvorki rannsakað af Vinnueftirlitinu né lögreglu.

Umræddar gipsplötur voru í eigu stefnda, Ístaks hf., sem hafði ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., á slysdegi.  Voru það starfsmenn stefnda, af pólsku bergi brotnir, sem stöfluðu gipsplötunum. 

Með bréfi, dagsettu 12. nóvember 2003, krafðist stefnandi þess, að réttargæslustefndi viðurkenndi bótaábyrgð á slysinu, enda telur stefnandi að slysið megi rekja til gáleysis starfsmanna stefnda. 

Með tölvubréfi, dagsettu 15. janúar 2004, hafnaði réttargæslustefndi bótaskyldu að svo stöddu. 

Ágreiningi aðila var vísað til tjónanefndar vátryggingafélaganna.  Komst tjónanefndin að þeirri niðurstöðu að tjónið væri ekki bótaskylt. 

Stefnandi leitaði eftir úrskurði Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og lá úrskurður nefndarinnar fyrir hinn 25. mars 2004.  Niðurstaða nefndarinnar er að stefnandi eigi rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda.

Hinn 5. apríl 2004 tilkynnti réttargæslustefndi með tölvubréfi, að hann hafnaði því að hlíta áliti nefndarinnar í máli stefnanda.

Hinn 23. júní 2004 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við Sigurjón Sigurðsson lækni að hann mæti tímabundið og varanlegt líkamstjón stefnanda vegna slyssins.  Skilaði Sigurjón matsgerð sinni hinn 16. ágúst 2004.  Niðurstöður hans voru þær að tímabundin óvinnufærni stefnanda vegna slyssins teldist 100% í tvær vikur en þjáningatímabil 3 mánuðir, þar af væri engin rúmlega.  Stöðugleikapunktur var ákvarðaður 2. júlí 2002.  Sigurjón mat varanlegan miska stefnanda vegna slyssins 15% og varanlega örorku einnig 15%.

Hinn 11. október 2005 voru dómkvaddir matsmenn til þess að meta örorku stefnanda.  Er matsgerð þeirra dagsett 26. janúar 2006 og er niðurstaða hennar sú, að varanleg örorka stefnanda sé 12%, varanlegur miski hans 15%, engin tímabundin örorka og þjáningabótatímabil sé í fjóra mánuði frá slysdegi, er matsmenn ákvörðuðu stöðugleikatímapunkt.

III

Stefnandi byggir bótaskyldu stefnda á því, að réttargæslustefndi hafi fyrir sína hönd og stefnda viðurkennt bótaskyldu á slysi stefnanda.  Réttargæslustefndi hafi neitað bótaskyldu að svo stöddu í tölvubréfi hinn 15. janúar 2004, en í bréfinu segi m.a.: „Með vísan til alls þessa verður ekki fallist á greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka að svo stöddu, en verði ekki fallist á afstöðu félagsins má skjóta henni til Tjónanefndar vátryggingafélaganna og síðan eftir atvikum til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.“

Stefnandi féllst ekki á niðurstöðu réttargæslustefnda og fór því að hans ráðum og skaut niðurstöðunni til Tjónanefndar og síðar Úrskurðarnefndar.  Kveðst stefnandi hafa staðið í þeirri trú að neitun réttargæslustefnda á bótaskyldu „að svo stöddu“ þýddi að neitunin stæði þar til sýnt væri fram á aðra niðurstöðu með þeim leiðum sem réttargæslustefndi sjálfur benti á.  Með úrskurði Úrskurðarnefndarinnar, dagsettum 25. mars 2004, hafi verið fallist á bótaskyldu stefnda og réttargæslustefnda.

Stefnandi byggir á því að stefndi og réttargæslustefndi séu bundnir við yfirlýsingu réttargæslustefnda um neitun á bótaskyldu að svo stöddu, þar til sýnt yrði fram á bótaskyldu fyrir Tjónanefnd vátryggingafélaganna eða Úrskurðarnefnd í vátrygginga­málum.  Í því sambandi bendir stefnandi á að verði stefndi og réttargæslustefndi ekki taldir bundnir af yfirlýsingu réttargæslustefnda sé málsmeðferð fyrir Tjónanefnd, og í kjölfarið Úrskurðarnefnd, algjörlega tilgangslaus og vandséð hvaða tilgangi þjóni að tryggingafélög bendi á þá málsmeðferð.  Tryggingafélag sem neitar bótaskyldu að svo stöddu og bendir á nefndirnar verði einfaldlega að hlíta niðurstöðum þeirra.

Í öðru lagi byggir stefnandi kröfu sína á sakarreglu skaðabótaréttar og ströngum bótareglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á vinnutækjum, aðstæðum og verkstjórn á vinnustað.  Stefndi beri skaðabótaábyrgð á vinnubrögðum starfsmanna sinna samkvæmt ólögfestri reglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.  Eigi reglur þessar sér ótal fordæmi í dómum Hæstaréttar.  Gipsplötunum, 26 að tölu, hafi verið staflað upp við tvær spýtur, sem reistar hafi verið að vegg byggingarinnar.  Plöturnar hafi vegið samtals um 600 kg og þeim verið raðað upp að rafmagnsdósinni sem stefnandi og félagi hans voru að vinna við.  Þegar stefnandi tók litla rafmagnsfjöður úr dósinni hafi öll stæðan fallið ofan á hann.  Gera verður þá kröfu til starfsmanna á byggingarstað að þeir gangi með forsvaranlegum hætti frá byggingarefnum, sérstaklega þegar starfsmenn annarra fyrirtækja séu við vinnu á sama stað.  Almenn skylda til vandaðra vinnubragða, sem ekki skapi slysahættu, sé áréttuð í 13. gr., sbr. a. lið 38. gr. og 42. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.  Framangreindar reglur laganna séu nánar útfærðar í fjölmörgum reglugerðum.  Þar sé m.a. að finna ítarlegar hátternisreglur um framkvæmd vinnu á byggingarstöðum.  Í reglugerðunum sé auk þess að finna nákvæmar hátternisreglur um það þegar hlutum og byggingarefnum sé staflað upp á byggingarsvæðum.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, segi: „Þegar byrðum er staflað skal séð til þess að hægt sé að gera það án hættu á heilsutjóni, með góðri líkamsbeitingu og án hættu á að staflinn falli.“

Í 2. ml. greinar 1.1. í A. hluta IV. viðauka reglugerðar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum, og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996 segir: „Ekki má safna eða hlaða efni þannig á byggingarsvæði, að það geti orsakað hættu eða tálmað nauðsynlegri umferð.“

Í gr. 2.1. í A. hluta sama viðauka segi: „Efni, búnaður og almennt hvers kyns hlutir á hreyfingu er geta haft áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna skulu vera þannig úr garði gerðir að stöðugleiki þeirra sé tryggur.“

Í gr. 14.2. í B. hluta sama viðauka segi: „Efni og búnaði skal komið fyrir og staflað upp þannig að ekki sé hætta á að hann velti eða falli á hlið.“

Samkvæmt framansögðu sé ljóst, að þegar byggingarefni sé staflað á vinnustað skuli þess sérstaklega gætt að staflinn sé stöðugur og ekki hætta á að hann velti eða falli.  Einnig skuli þess gætt að staflinn tálmi ekki nauðsynlegri umferð.  Um sé að ræða skráðar hátternisreglur í settum lögum.

Gera verður ráð fyrir að stæða af 26 gipsplötum, sem eru 1,20 x 2,20 m að stærð, haggist ekki við svo litla hreyfingu, sem felst í að draga rafmagnsfjöður úr rafmagnsdós,  nema frágangi stæðunnar sé verulega ábótavant.  Rafmagnsfjöður er lítilfjörlegt verkfæri, þ.e. nokkurra cm langur sveigjanlegur gormur, um 1-2 cm í þvermál.  Verði að telja að óforsvaranlegur frágangur á gipsplötunum hafi valdið því hve auðveldlega staflinn hrundi.  Hér sé því um brot á framangreindum skráðum réttarreglum að ræða.

Staðfest sé í lögregluskýrslu yfir vitni að slysinu, að plöturnar hafi verið reistar við planka upp við vegginn þannig að mjög tæpt hafi verið að öll stæðan dytti frá veggnum.  Mjög auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir slysið, t.d. með því að stafla plötunum upp á gólfinu en reisa þær ekki við vegginn.  Einnig verði að telja með öllu óverjandi að láta svo þungan stafla hvíla á tveimur spýtum við vegginn.  Mun stöðugra hefði verið að láta plöturnar hvíla beint á veggnum.

Þá virðist stefndi hvorki hafa haft nægilega verkstjórn né eftirlit með því hvernig gipsplötunum var raðað.  Ekkert liggi fyrir um að þess hafi verið gætt að kanna hvort frá stæðunni hafi verið gengið með forsvaranlegum hætti þegar búið var að koma henni fyrir.

Samkvæmt reglunni um vinnuveitendaábyrgð sé ekki nauðsynlegt að sýna fram á hvaða starfsmaður vinnuveitanda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi.  Nægi að sýna fram á að tjón verði rakið til sakar einhvers eða einhverra starfsmanna vinnuveitanda.  Fyrir liggur að gipsplöturnar voru í eigu stefnda og að það voru starfsmenn hans sem gengu frá þeim með fyrrgreindum hætti.  Á þeirri háttsemi starfsmanna sinna ber stefndi ábyrgð sem vinnuveitandi þeirra.

Nauðsynlegt hafi verið fyrir stefnanda og samstarfsmann hans að fjarlægja rafmagnsfjöðrina, svo þeir gætu haldið áfram störfum sínum annars staðar í byggingunni.  Lögregluskýrslum, sem teknar hafi verið af stefnanda og vinnufélaga hans, sem var vitni að slysinu, sem og tilkynningu til Vinnueftirlits ríkisins, komi saman um tildrög slyssins, þ.e. að plöturnar hafi fallið við það eitt að stefnandi dró fjöðrina úr dósinni, og sannað er að stefnandi snerti ekki plöturnar.  Það breytti þó engu um sakarmat eða ábyrgð stefnda þó sýnt væri fram á að stefnandi hefði komið við stæðuna.  Í því sambandi megi benda á að starfsmenn stefnda hafi mátt sjá að verið var að vinna við rafmagnsdósina, þar sem rafmagnsfjöðrin hékk úr henni.  Þeim mun meiri aðgæsluskylda hvíldi á þeim að stafla plötunum á öðrum stað eða tryggja a.m.k. að staflinn væri stöðugur og traustur.

Öll vafaatriði um sönnun í málinu verði að skýra stefnanda í hag samkvæmt almennum sönnunarreglum.  Stefndi tilkynnti slysið til Vinnueftirlits ríkisins, en hlutaðist ekki til um rannsókn þess, hvorki af hálfu Vinnueftirlits né lögreglu.  Ber stefndi því allan halla af sönnunarskorti um málsatvik.

Um útreikning skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda fari að skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru í gildi á slysdegi.  Til grundvallar bótaútreikningi liggi örorkumat dómkvaddra matsmanna, dagsett 26. janúar 2006.  Samkvæmt því sundurliðist krafa stefnanda þannig:

1. Þjáningabætur                                    118.800 kr.

2. Varanlegur miski  15%                       850.200 kr.

3. Varanleg örorka  12%                     5.031.899 kr.

                                                                SAMTALS        6.000.899 kr.

 

Stefnandi kveðst hafa verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í fjóra mánuði frá slysdegi, eða samtals í 120 daga, vegna afleiðinga slyssins.  Samkvæmt ákvæðum 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. mgr. 15. gr., nemi þjáningabætur vegna hvers dags sem stefnandi var veikur 990 krónum, miðað við lánskjaravísitölu í október 2004.  Krafa vegna þjáningabóta nemi því 990 kr. x 120 = 118.800 krónum.

Varanlegur miski stefnanda sé 15%.  Fjárhæðin sé reiknuð samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, samkvæmt lánskjaravísitölu í október 2004.  Krafa vegna varanlegs miska nemi því 5.668.000 kr.- x 15% = 850.200 krónum.

Varanleg örorka stefnanda sé metin 12%.  Tvö af síðustu þremur almanaksárum fyrir slysið, þ.e. 1999 og 2000, hafi stefndi verið í námi í flugvirkjun í Bandaríkum Norður Ameríku.  Hann hafi komið heim úr því námi vorið 2000.  Hvorki sé því rökrétt né sanngjarnt að miða útreikning bóta fyrir varanlegra örorku við tekjur þessara ára.  Með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga miði stefnandi því eingöngu við tekjur síðasta almanaksárið fyrir slysið, þ.e. árið 2001.  Tekjurnar séu leiðréttar samkvæmt launavísitölu til stöðuleikapunkts í ágúst 2002 :

Ár                                 Tekjur                           Vísitala            Heildartekjur

    2001                 3.482.774 kr.    226,7 / 224,6 = 1,00935            3.515.338 kr.

 

Stefnandi var 28 ára og 322 daga gamall þegar heilsufar hans var orðið stöðugt, hinn 2. ágúst 2002.  Stuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga reiknist því þannig:

13,750 (stuðull f. 28 ára) – 13,474 (stuðull f. 29 ára) = 0,276

-0,276 x 322/365 =  0,243

13,750 –  0,243 = 13,507

Bætur vegna varanlegrar örorku reiknist því: 3.515.338 kr. x 13,507 x 12% = 5.697.800 krónur.  Til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga komi eingreiðsla örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 665.901 króna.  Bætur vegna varanlegrar örorku nemi því: 5.031.899 krónum.

Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á 16. gr. skaðabótalaga og 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Vaxta sé krafist af bótum fyrir þjáningar og varanlegan miska, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, frá 2. apríl 2002 til 2. ágúst 2002, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til 1. október 2004.  Dráttarvaxta sé krafist frá 1. október 2004, þ.e. mánuði eftir að réttargæslustefnda barst örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar, til greiðsludags, samkvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu. 

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.

IV

Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á því, að hann beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda þar sem ósannað sé að slysið verði rakið til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.  Af gögnum málsins megi ráða að orsök tjóns stefnanda hafi verið óaðgæsla hans sjálfs við framkvæmd verksins og/eða óhappatilviljun. 

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að réttargæslustefndi hafi ekki viðurkennt að stefndi bæri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda í tölvubréfi til lögmanns stefnanda, dagsettu 15. janúar 2004.  Tölvubréf þetta sé með engu móti hægt að túlka þannig.  Í tölvubréfinu felist aðeins ábending um að unnt sé að skjóta ágreiningi aðila til tjónanefndar vátryggingafélaganna og, eftir atvikum, til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, en alls ekki yfirlýsing um að stefndi eða réttargæslustefndi hafi skuldbundið sig til að hlíta niðurstöðum þessara nefnda.  Orðalag í tölvubréfinu þess efnis að bótum sé synjað „að svo stöddu“ feli aðeins í sér að mögulegt sé að réttargæslustefndi endurskoði afstöðu sína síðar, en enga skuldbindingu í þá veru.

Stefndi byggir og á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda, enda sé ósannað að tjónið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda, óforsvaranlegs frágangs byggingarefnis, ófullnægjandi verkstjórnar eða annarra atvika eða aðstæðna sem hann beri skaðabótaábyrgð á.  Stefndi byggir á því að ósannað sé með öllu að umræddum milliveggjaplötum hafi verið staflað upp á óforsvaranlegan og/eða óvenjulegan hátt.  Þvert á móti byggir stefndi á því að uppröðun þeirra hafi verið forsvaranleg og að ekki hafi átt að skapast hætta á að plöturnar yltu eða féllu á hlið við venjulega og eðlilega umgengni um þær.  Ekki hafi á nokkurn hátt verið brotið í bága við varúðar- eða hátternisreglur laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða reglur sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum.  Er mótmælt fullyrðingum stefnanda um að uppröðun platnanna hafi ekki verið unnin undir nægilegri verkstjórn og eftirliti.

Stefndi byggir á því að óvarlegar athafnir stefnanda sjálfs hafi leitt til þess að plöturnar féllu niður. Stefnandi hafi hreyft við plötunum með einhverjum óforsvaranlegum hætti þegar hann dró ídráttarfjöðrina úr dósinni sem valdið hafi falli platnanna.  Stefndi byggir á því að 600 kg stæða af 26 milliveggjaplötum sem halli upp við vegg sé eðli málsins samkvæmt mjög stöðug og að umtalsvert átak þurfi til að bifa henni, hvað þá til að láta hana falla til jarðar.  Byggir stefndi á því að slík stæða sé stöðug jafnvel þó að halli hennar upp að vegg sé ekki mikill.  Þannig sé mótmælt fullyrðingum stefnanda um að stæðan hafi fallið auðveldlega til jarðar.  Þá tekur stefndi fram að ef talið verði að stæðan hafi hvílt á tveimur spýtum sé því mótmælt sem stefnandi haldi fram að sú staðreynd hafi breytt nokkru um stöðugleika hennar og valdið því að hún væri óstöðugri en ef hún hefði hvílt á veggnum sjálfum.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki viðhaft þá aðgæslu sem ætlast mátti til af honum umrætt sinn.  Stefnandi sé faglærður iðnaðarmaður með allnokkra reynslu að baki. Þegar honum hafi verið ljóst að hreyfa þyrfti við stæðunni með einhverjum hætti hafi honum borið, í ljósi þekkingar sinnar og reynslu, að viðhafa aðferðir sem ekki sköpuðu hættu á að tjón yrði, t.d. að láta vera að reyna að ná í fjöðrina og nota aðra í staðinn, enda var ætlun þeirra félaga, vegna aðstæðna, að draga rafmagn í byggingunni á öðrum stað.  Fullyrðingum stefnanda um að honum hafi verið nauðsynlegt að fjarlægja þessa tilteknu fjöður er í ljósi ofangreinds mótmælt sem röngum.

Stefndi byggir loks á því að á honum hafi ekki hvílt skylda á grundvelli ákvæða í XII. kafla laga nr. 46/1980 eða reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa að tilkynna vinnuslys stefnanda til Vinnueftirlitsins eða lögreglu eða hlutast til um rannsókn á því.  Slík skylda hafi hvílt á vinnuveitanda stefnanda.  Tilkynning stefnda til Vinnueftirlitsins hafi verið umfram lagaskyldu og gripið til hennar þegar ljóst var að vinnuveitandi stefnanda hefði ekki hlutast til um að tilkynna slysið.  Með vísan til þessa mótmælir stefndi því að öll vafaatriði um sönnun í málinu verði skýrð stefnanda í hag.  Þvert á móti telur stefndi að almennar reglur skaðabótaréttarins, þess efnis að tjónþoli beri sönnunarbyrði um að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu uppfyllt, eigi við í máli þessu.

Varakröfu um lækkun bóta byggir stefndi á því, að lækka beri bætur til handa stefnanda vegna eigin sakar hans, eins og atvikum hafi verið háttað. 

Stefndi byggir á því að þjáningatímabil stefnanda, sbr. 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sé ekki lengra en tvær vikur.  Samkvæmt matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis hafi stefnandi verið 100% óvinnufær í tvær vikur vegna slyssins, en ekki yfir lengra tímabil.  Dómafordæmi séu ótvíræð um að tjónþoli geti ekki verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga meðan hann sé vinnufær.

Stefndi mótmælir dráttarvöxtum frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.  Í öllu falli geti dráttarvextir ekki fallið á kröfu stefnanda á fyrra tímamarki en þegar mánuður var liðinn frá birtingu stefnu í málinu, þ.e. 5. maí 2005.  Þá fyrst hafi lögmaður stefnanda látið réttargæslustefnda í té tölulega kröfugerð vegna líkamstjóns stefnanda og hafi þannig ekki fyrir þann tíma fullnægt áskilnaði 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Loks krefst stefndi þess að draga skuli frá skaðabótum greiðslur sem stefnandi kann að hafa fengið frá þriðja manni vegna óhappsins, að öðru leyti en því sem hann hefur þegar tilgreint, sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.  Er skorað á stefnanda að upplýsa um þessar greiðslur og fjárhæð þeirra, sé þeim fyrir að fara.

Um lagarök vísar stefndi til skaðabótalaga, nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttar, laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. 

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Stefnandi varð fyrir slysi við vinnu sína í húsi á Keflavíkurflugvelli, sem stefndi var að byggja. 

Byggir stefnandi í fyrsta lagi á því, að stefndi hafi fallist á bótaskyldu með bréfi, réttargæslustefndi hinn 15. janúar 2004, þar sem hann neitað bótaskyldu að svo stöddu, en vísaði stefnanda á Tjónanefnd vátryggingafélaganna og Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.  Verður fallist á það með stefnda að þar sé ekki verið að lýsa yfir að unað verði úrskurðum annarrar þessara nefndar og gefa um það bindandi yfirlýsingu.  Bótaábyrgð stefnda verður því ekki á því byggð.

Slasaðist stefnandi við það að gipsplötustafli, samtals 600 kg, féll á hann þegar hann var að taka fjöður úr rafmagnsdós.  Hafði stefnandi, sem var að vinna við að draga rafmagn í húsið, skilið eftir fjöðrina í dósinni er hann fór frá vinnu daginn áður.  Hugðist hann halda áfram þar sem frá var horfið, en er hann kom að hafði gipsplötunum verið staflað upp við vegginn hjá rafmagnsdósinni, sem fjöðrin var í.  Engin vitni voru að slysi stefnanda.  Samverkamaður stefnanda var þar með stefnanda er slysið varð, en sá ekki atburði.  Fyrir liggur að starfsmenn stefnda reistu umræddar gipsplötur upp við vegginn og að rafmagnsdósinni.  Samverkamaður stefnanda bar við aðalmeðferð sem og fyrir lögreglu 23. október 2003, að planki hafi verið bak við gipsplöturnar og plöturnar reistar upp við vegginn þannig að mjög tæpt hafi verið að þær dyttu.  Verkstjórar hjá stefnda gáfu og skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Gátu þeir hvorugir staðfest hvor þeirra hefði haft umsjón með því verki að stafla plötunum upp við vegginn, en kváðu báðir að það hefði verið gert á hefðbundinn hátt af verkamönnum stefnda. 

Gera má ráð fyrir að stæða af gipsplötum þeirrar stærðar sem um ræðir, haggist ekki sé þess gætt að raða plötunum með forsvaranlegum hætti.  Í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð byggðri á þeim lögum, er sú regla áréttuð að almennt skuli viðhafa vönduð vinnubrögð sem ekki skapi slysahættu og að ekki megi safna eða hlaða efni þannig á byggingarsvæði að það geti orsakað hættu eða tálmað nauðsynlegri umferð.

Eins og að framan greinir var slysið ekki tilkynnt til Vinnueftirlitsins fyrr en nokkrum dögum síðar eða 15. apríl 2002.  Hins vegar slysið hvorki rannsakað af Vinnueftirlitinu né lögreglu.  Þó svo tilkynningarskylda hvíli á atvinnurekanda starfsmanns hefði stefndi haft tök á að kanna aðstæður betur, en takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir frá stefnda og verkstjórum hans.  Verkstjórar stefnda gátu ekki borið um hvort eða hvernig hefði verið gengið frá stæðunni, sem hefði þó verið enn ríkari ástæða til þar sem ýmsir starfsmenn og verktakar voru að vinna í sömu byggingu við mismunandi verkþætti.  Verður að ætla að svo þung stæða ætti ekki að geta haggast þó við hana sé komið.  þegar það er virt verður að telja að starfsmenn stefnda hafi bakað honum bótaskyldu með því að raða ekki plötunum með þeim hætti að ekki stafaði hætta af fyrir aðra starfsmenn sem unnu á svæðinu og stefnanda verði með engum hætti kennt um hvernig fór.  Ber því að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda bætur vegna tjóns hans.  Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu að öðru leyti en því, að stefndi hafnar kröfu stefnanda um þjáningarbætur og mótmælir upphafsdegi dráttarvaxta.

Óumdeilt er að stefnandi var ekki frá vinnu vegna slyssin.  Hann krefst engu að síður þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga í fjóra mánuði frá slysdegi.  Stefndi á einungis rétt til þjáningabóta fyrir það tímabil sem hann telst veikur í skilningi áðurgreindrar lagagreinar.  Það skilyrði var ekki fyrir hendi það sem stefnandi var ekki frá vinnu.  Á hann því ekki kröfu á þjáningabótum.

Stefnandi á rétt á dráttarvöxtum mánuði frá þeim degi er stefnda gerð grein fyrir kröfunni og gat þar með gert sér grein fyrir henni, tölulega, sbr. 9.gr. laga nr. 38/2001.  Samkvæmt gögnum málsins var það ekki fyrr en við þingfestingu málsins að stefndi hafði undir höndum öll þau gögn og verða dráttarvextir því dæmdir frá 5. maí 2005.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Ístak hf., greiði stefnanda, Pétri Kristni Péturssyni, 5.882.099 krónur, auk 4,5% ársvaxta af 850.200 krónum frá 2. apríl 2002 til 2. ágúst 2002, en af 5.882.099 krónum, frá þeim degi til 5. maí 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. 

Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.