Hæstiréttur íslands
Mál nr. 99/2006
Lykilorð
- Samningur
- Galli
- Vanefnd
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2006. |
|
Nr. 99/2006. |
Hressingarskálinn ehf. (Halldór H. Backman hrl.) gegn Landsteinum Streng ehf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Samningur. Vanefndir. Galli.
Með samningi 2. september 2003 sömdu H og
L um kaup þess fyrrnefnda á hugbúnaði L. Með bréfi 3. október sama ár rifti H
samningi aðila á þeirri forsendu að hugbúnaðarkerfi H hefði verið gallað og L
því vanefnt samninginn. L taldi riftunina óheimila og krafði H um greiðslu
umsamins kaupverðs samkvæmt samningnum. Talið var að H bæri sönnunarbyrði fyrir
því að hugbúnaðurinn hefði verið gallaður og hefði sönnun þess efnis ekki
tekist. Ósannað var að L hefði vanrækt aðrar skyldur sínar samkvæmt samningnum.
Var krafa hans um greiðslu umsamins kaupverðs því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2006 og krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hressingarskálinn ehf., greiði stefnda, Landsteinum Streng ehf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur
Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2005.
Mál þetta höfðaði Landsteinar Strengur
hf., kt. 460782-0589, Lynghálsi 9, Reykjavík, með stefnu birtri 6. janúar 2005 á hendur Hressingarskálanum
ehf., kt. 440703-2240, Austurstræti 20, Reykjavík. Málið var dómtekið 25. október sl.
Stefnandi krefst greiðslu á 1.474.777
krónum með dráttarvöxtum af 994.689 krónum frá 15. október 2003 til 17. október
2003, en af 1.474.777 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda
og málskostnaðar.
Aðilar deila í málinu um kaup stefnda á
hugbúnaðinum Navision Financials af stefnanda.
Aðilar sömdu um þessi kaup í byrjun september 2003. Stefnandi krefur annars vegar um greiðslu á
reikningi vegna hugbúnaðarins, fyrir svonefnt notandaleyfi, sem er samtals að
fjárhæð 994.689 krónur. Hins vegar er
reikningur fyrir vinnu starfsmanna stefnanda að fjárhæð 480.088 krónur.
Samningur aðila er dagsettur 2.
september 2003, en stefnandi segir að honum hafi verið skilað til sín
undirrituðum 5. september.
Í samningi þessum er stefnandi nefndur
verksali, en stefndi verkkaupi.
Samkvæmt 2. gr. gildir samningurinn um „... kaup á MBS-Navision útg.
2.60 ásamt vinnu verkkaupa um uppsetningu og/eða aðlögun á
viðskiptahugbúnaðinum MBS-Navision sem er lýst hér að neðan, auk prófana og annarri
þjónustu í tengslum við kerfið eins og lýst er í samningi þessum. Kennsla er ekki innifalin í samningi
þessum.” Í 3. gr. segir síðan að
samningurinn feli í sér vinnu við enduruppsetningu á hugbúnaðinum, ásamt
enduruppsetningu á Infostore. Verki skyldi
ljúka með verklokasamningi eigi síðar en 4 vikum eftir undirritun. Í 6. gr. segir um samningsupphæð: „Upphæð sú er verkkaupi samþykkir að greiða
verksala fyrir framkvæmd þess er tilgreint er í samningi þessum er kr.
798.947,- auk vsk. fyrir kerfiseiningar sjá fylgirit TB53850.” Í framhaldi af þessu segir í 7. gr. að öll
vinna sem verkkaupi óski eftir á verktíma og sé ekki lýst í samningnum eða
fylgiskjölum hans skuli skoðast sem aukaverk og skuli greitt fyrir samkvæmt
gjaldskrá.
Stefnandi fullyrðir að kerfið hafi verið
komið upp nokkrum dögum eftir að gengið var frá samningi og að það hafi verið
tekið í notkun þegar við opnun veitingastaðar stefnda 11. september 2003.
Stefndi heldur því fram að því hafi
verið lofað að kerfið yrði komið upp og starfhæft um leið og veitingastaðurinn
yrði opnaður. Hafi það verið ákvörðunarástæða
af sinni hálfu að það væri tryggt.
Starfsmenn stefnanda hafi ekki byrjað að setja upp kerfið fyrr en daginn
fyrir opnun og gangsett það daginn sem opnað var. Kerfið hafi ekki virkað sem skyldi. Það hafi frosið ítrekað og reynst of seinvirkt. Reynt hafi verið að nota þennan búnað aftur
næstu helgi á eftir, en allt hafi farið á sömu lund. Kveðst stefndi hafa keypt sjóðsvélar af öðrum aðila þann 24.
september og hafi þær komist í gagnið þann sama dag.
Stefndi segir að er kvartað hafi verið við stefnanda
hafi verið bent á að hann hefði fjórar vikur til að koma upp kerfinu. Því hafi verið beðið til loka þess
tíma. Þá hafi kerfið hins vegar enn
verið ónothæft og því hafi samningnum verið rift. Var það gert með bréfi 3. október. Stefnandi kveðst hafa sent bréf með mótmælum við þessari riftun,
en stefndi neitar að hafa fengið slíkt bréf.
Ívar Harðarson gaf skýrslu fyrir
dómi. Hann var á þessum tíma
rekstrarstjóri hjá stefnanda. Hann
kvaðst aldrei hafa fengið skriflegar kvartanir frá stefnda. Þau útköll sem farið hafi verið í hafi að
mestu stafað af þekkingarleysi starfsmanna.
Hann kvað hafa verið gengið frá samningnum í byrjun þannig að greitt
yrði fyrir hugbúnaðinn sérstaklega, en að öll vinna yrði greidd í
tímavinnu. Hann kvaðst strax og
riftunaryfirlýsing stefnda kom hafa sent bréf þar sem riftun var mótmælt.
Vitnið Halldór Gíslason starfar sem
hugbúnaðarsérfræðingur hjá stefnanda.
Hann kvaðst hafa unnið að uppsetningu kerfisins hjá stefnda. Þeir hafi gengið frá því og það hafi verið
starfhæft. Hann hafi aldrei orðið var
við bilanir á kerfinu. Oft hafi komið
skilaboð í gegnum söludeildina um bilanir, en aldrei neitt skýrt.
Gunnar Smárason gaf skýrslu fyrir
dómi. Hann var á þessum tíma fjármálastjóri
stefnda. Hann sagði að virkni kerfisins
hefði aldrei verið viðunandi. Hann hafi
stöðugt verið í sambandi við starfsmenn stefnanda og kvartað. Þá kom fram hjá honum að þar sem um var að
ræða kaup á tilbúnu kerfi hafi þeir viljað að uppsetningin yrði unnin í
tímavinnu og hafi samningnum verið breytt í þá veru.
Magnús Yngvi Jósefsson var á þessum tíma
framkvæmdastjóri stefnda. Hann bar
fyrir dómi að kerfið hefði verið þungt í notkun, sem hafi komið sér illa á
álagstímum þegar þörf var á fljótri afgreiðslu. Hafi verið kvartað við seljanda en tilraunir til að endurbæta
kerfið hafi ekki borið árangur.
Auk framangreindra gáfu skýrslur fyrir
dómi Þór Jónsson, Kolbrún Ýrr Jónasdóttir, Jóhann Halldórsson og Guðmundur Ingi
Jónsson.
Málsástæður
og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa staðið við samning
aðila. Hann hafi lokið við að koma upp
búnaðinum 11. september, en þá hafi verið liðnir fjórir dagar frá því að
kaupsamningi var skilað inn undirrituðum frá stefndu. Hann bendir á að samkvæmt 4. gr. samningsins hafi honum borið að
ljúka þessu verki innan fjögurra vikna.
Stefnandi telur að þar sem hann hafi
afhent og sett upp búnaðinn beri stefnda að greiða umsamið kaupverð. Þá hafi starfsmenn hans unnið fyrir stefnda
í samtalst 45,5 klst. Fyrir þessa vinnu
beri stefnda að greiða.
Stefnandi vísar til meginreglu
kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.
Varðandi gjalddaga vísar hann til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000.
Málsástæður
og lagarök stefnda.
Í greinargerð stefnda er fullyrt eins og áður segir
að kerfið sem stefnandi seldi hafi aldrei virkað sem skyldi. Tölvur hafi frosið og öll afgreiðsla gengið
hægt. Telur hann sig hafa orðið fyrir
verulegu tjóni af þessum sökum.
Stefndi byggir á að riftun hafi verið heimil. Hann hafi haft af því mikla hagsmuni að hafa
í rekstrinum sjóðsvélakerfi sem virkaði eðlilega og ylli ekki töfum á
starfseminni. Byggir hann á því að kerfið
hafi í heild sinni verið haldið göllum í skilningi laga nr. 50/2000. Vísar hann einkum til 17. gr. laganna. Stefndi kveðst ekki
hafa sérfræðiþekkingu til að skýra nánar í hverju gallarnir hafi falist, öfugt
við stefnanda. Kerfið hafi verið mjög
dýrt og því sé rétt að gera kröfur um gæði og notagildi. Fagleg ábyrgð
stefnanda á gæðum kerfisins hafi verið rík og beri að skoða alla galla eða
vankanta á kerfinu í ljósi þess. Hér
vísar stefndi einnig til 10. gr. samnings aðila.
Stefnandi hafi átt að afhenda í síðasta
lagi þann 30. september 2003 ógallað kerfi.
Það hafi ekki tekist og hafi stefndi raunar þurft að grípa til þess að
kaupa annað kerfi. Sýni það að kerfi
stefnanda hafi verið meingallað og ónothæft með öllu. Stefnanda hafi ekki tekist að lagfæra galla á kerfinu á þeim
langa tíma sem hann áskildi sér, frekari lagfæringar eða úrbætur af hans hálfu
hefðu því engu skilað. Þá séu vanefndir
stefnanda verulegar. Þá bendir stefndi
á að enginn verklokasamningur hafi verið gerður né lagður fram af hálfu
stefnanda, þó skýrt sé kveðið á um það í samningi.
Stefndi bendir á að honum hafi verið óheimilt að fá
annan en stefnanda til að bæta úr göllum kerfisins. Í því ljósi sé ábyrgð stefnanda ríkari en ella.
Stefndi byggir á að samningur aðila sé ógildanlegur
samkvæmt 33. og 36. gr. samningalaga.
Verði ekki fallist á riftun beri allt að einu að ógilda samninginn. Óheiðarlegt og ósanngjarnt sé af hálfu
stefnanda að byggja á samningnum.
Stefndi kveðst ekki hafa getað nýtt sér þá vöru sem keypt var dýru
verði. Stefnanda hafi mátt vera ljóst
að kerfið hentaði stefnda ekki.
Verði ekki fallist á að riftun hafi verið heimil
vísar stefndi til uppsagnarákvæðis samningsins. Yfirlýsingu sína beri þá að minnsta kosti að túlka sem uppsögn
og því hafi samningnum verið sagt upp réttilega. Stefndi bendir á að samningurinn sé saminn af stefnanda og ákvæði
hans um uppsögn verði ekki skilin öðruvísi en svo að við uppsögn falli niður
skyldur aðila með gagnkvæmum hætti.
Greiðsluskylda sín hafi þannig allt að einu fallið niður. Í þessu sambandi
kveðst stefndi ennfremur byggja á því að skilyrði lokamálsliðar 11. gr.
samningsins hafi verið uppfyllt og því hafi fyrirvaralaus uppsögn, þ.e. riftun,
verið heimil allt að einu.
Til vara kveðst stefndi eiga rétt á
skaðabótum eða afslætti sem nemi þeirri fjárhæð sem stefnandi krefur um. Þá skuli þessi skaðabóta- eða afsláttarkrafa
koma til lækkunar á þeim kröfum stefnanda sem viðurkenndar yrðu með
dóminum. Að minnsta kosti beri að
fallast á rétt stefnda til skaðabóta sem nemi kostnaði af að kaupa nothæft
sjóðsvélakerfi, þ.e. 607.591 krónu.
Tjónið nemi raunar mun hærri fjárhæð.
Gallar á kerfinu hafi dregið verulega úr sölu á staðnum.
Verði fallist á kröfur stefnanda að
einhverju leyti áréttar stefndi að honum hafi enn ekki gefist kostur á að
greiða umsamda fjárhæð. Hann hafi ekki
fengið neinn kreditreikning eða leiðréttingu á kröfunni. Því hljóti stefnandi að verða dæmdur til
greiðslu málskostnaðar, án tillits til niðurstöðu málsins. Þá verði dráttarvextir ekki dæmdir fyrr en
frá dómsuppsögu, en ella frá málshöfðun.
Nánar skýrir stefndi þetta með því að annar reikningurinn sé að fjárhæð
923.802 krónur, auk virðisaukaskatts, þ.e. 124.856 krónum hærri en samið hafi
verið um. Þessi rangfærsla hafi ekki
verið leiðrétt fyrr en í stefnu. Raunar
sé hún enn til staðar í framlögðum málskostnaðarreikingi.
Þessu til viðbótar gerir stefndi
sérstaka athugasemd við dráttarvaxtakröfu stefnanda. Krafist sé dráttarvaxta frá 15. og 17. október 2003. Framlagðir reikningar beri með sér eindaga
5. og 15. nóvember 2003, en nefni enga gjalddaga. Kröfur stefnanda séu að þessu leyti ekki í samræmi við gögn
málsins.
Stefndi vísar til almennra reglna
fjármunaréttarins, kröfuréttar, samningaréttar og verktakaréttar. Þá byggir hann á ákvæðum laga nr. 50/2000 og
nr. 7/1936, og til hliðsjónar á lögum nr. 42/2000.
Forsendur og
niðurstaða.
Stefndi skuldbatt sig með samningi til að greiða
tiltekið verð fyrir afnotarétt af tilgreindum hugbúnaði. Þá verður að telja sannað að samið hafi
verið svo um að öll vinna starfsmanna stefnanda yrði unnin í tímavinnu, en væri
ekki innifalin í kaupverði búnaðarins.
Stefndi byggir á að stefnandi hafi vanefnt
samninginn, að hugbúnaðurinn hafi verið gallaður. Sýnt hefur verið fram á með vitnisburði starfsmanna stefnda að
þeir áttu í erfiðleikum með að nota hugbúnað stefnanda. Hins vegar hefur ekki verið aflað skoðunar-
eða matsgerðar til að reyna að lýsa þeim göllum sem hann telur vera á
hugbúnaðinum. Kom þó fram að hann hefur
hugbúnað þennan enn í sínum vörslum.
Skýringar stefnda og starfsmanna hans eru ekki nákvæmar um það hvað hafi
verið að tölvukerfinu. Getur ýmislegt
komið til greina annað en að það hugbúnaður stefnanda hafi verið lélegur eða
gallaður. Þar sem stefndi ber sönnunarbyrði
fyrir því að hugbúnaðurinn sé gallaður verður að líta svo á að það sé ósannað.
Þá hefur stefndi ekki sannað að stefnandi hafi
vanrækt aðrar skyldur sínar samkvæmt samningnum.
Þar sem vanefndir eru ósannaðar var ekki heimilt að
segja samningi aðila upp samkvæmt 11. gr. hans. Þá hefur ekkert komið fram í málinu er styður það að ákvæði 33.
og 36. gr. samningalaga geti átt við.
Af þessari ástæðu verður einnig að hafna kröfu
stefnanda um skaðabætur. Þar sem
stefndi hafði lýst yfir riftun samnings aðila skiptir ekki máli þó ekki hafi
verið gengið frá svokölluðum verklokasamningi.
Eins og áður segir er sannað að samið var svo um að
greitt skyldi fyrir alla vinnu sérstaklega.
Er því hafnað andmælum stefnda við stefnufjárhæðinni. Verður hann dæmdur til að greiða stefnufjárhæðina.
Stefndi andmælir upphafsdegi dráttarvaxta sérstaklega. Ekki er tilgreindur sérstaklega gjalddagi á reikningum stefnanda, en þeir virðast bera með sér að hafa verið sendir í lok september. Það er þó ekki skýrt. Ekki var samið sérstaklega um gjalddaga og er því rétt að dráttarvextir reiknist frá þeim dögum sem tilgreindir eru sem eindagar í reikningunum, þ.e. 5. og 15. nóvember. Ekki skiptir hér máli þó í reikningunum hafi verið krafist hærri greiðslu en í stefnu, en stefnda var í lófa lagið að leita leiðréttingar ef vilji hans hefði staðið til þess að greiða það sem honum bar.
Málskostnaður ákveðst 200.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm
þennan.
D ó m
s o r ð
Stefndi, Hressingarskálinn ehf., greiði stefnanda,
Landsteinum Streng hf., 1.474.777 krónur með dráttarvöxtum af 994.689 krónum
frá 5. nóvember 2003 til 15. nóvember sama ár, en af 1.474.777 krónum frá þeim
degi til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.